Stimpilgjald - hlutaskipting félags

E.g., 2019-04-22
E.g., 2019-04-22
 • Óbeint eignarhald á lágskattasvæðum - eignatekjur

  Nánar úr úrskurði yfirskattanefndar:

   

  „[...]

   

  Samkvæmt framansögðu tekur skattlagning samkvæmt 1. mgr. 57. gr. a laga nr. 90/2003 til skattaðila sem eiga hvoru tveggja beinan eða óbeinan hlut í félagi, sjóði eða stofnun í lágskattaríki eða stjórna slíkum aðila sem þeir hafa beinan eða óbeinan ávinning af. Í ákvæðinu er þannig ekki gerður neinn greinarmunur á beinu og óbeinu eignarhaldi með tilliti til skattskyldu, sbr. og ákvæði 5. mgr. sömu lagagreinar. Í athugasemdum við 3. gr. í frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 46/2009, var sérstaklega bent á að óbein eignaraðild í gegnum annað eða önnur félög væri nægileg til að skilyrði ákvæðisins væru uppfyllt, sbr. hér að framan. Þá er nánar að þessu vikið í 4. gr. fyrrnefndrar reglugerðar nr. 1102/2013 þar sem fram kemur í 1. mgr. að leggja skuli að jöfnu beint og óbeint eignarhald í félagi, sjóði eða stofnun í lágskattaríki (CFC-félagi). Kemur fram að í óbeinu eignarhaldi felist að skattaðilar eigi hlut í lögaðila eða lögaðilum sem eiga hlut í CFC-félagi. Dæmi um óbeint eignarhald sé þegar skattaðilar eigi hlut í lögaðila, sem ekki telst CFC-félag, og sá lögaðili sé einn eigenda CFC-félags. Hið sama eigi við þegar eignarhaldið sé í gegnum fleiri en einn lögaðila. Í 2. mgr. 4. gr. nefndrar reglugerðar er tekið fram að óbein hlutdeild í CFC-félagi sé fundin þannig að margfaldaður sé eignarhlutur í hverjum lögaðila fyrir sig. Þannig sé óbeinn eignarhlutur skattaðila 54% (0,6 x 0,9 = 0,54) ef hann á 60% hlut í erlendum lögaðila sem á 90% hlut í CFC-félagi.

   

  Með vísan til þess, sem hér að framan greinir, verður ekki fallist á með kæranda að sú staðreynd, að um óbeint eignarhald kæranda að félögunum á Antígva og Barbúda er að ræða í gegnum félög skráð í Færeyjum, þ.e. B og tengd félög, skáki kæranda undan gildissviði 57. gr. a laga nr. 90/2003, sbr. og niðurstöðu í úrskurði yfirskattanefndar nr. 155/2014 í máli kæranda vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2012. Er sá skilningur og í samræmi við norska löggjöf um svonefnda CFC-skattlagningu, sem ákvæði 57. gr. a laga nr. 90/2003 eru sniðin eftir. Vegna athugasemda í kæru varðandi ákvæði 2. tölul. 4. mgr. 57. gr. a í þessu sambandi skal tekið fram að samkvæmt því ákvæði eiga reglur 57. gr. a ekki við ef félag, sjóður eða stofnun er stofnsett og skráð í öðru EES-ríki, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum og hefur þar með höndum raunverulega atvinnustarfsemi. Ákvæðið getur því ekki leyst kæranda undan skattlagningu vegna óbeins eignarhalds félagsins að lögaðilum skráðum á Antígva og Barbúda. Að þessu athuguðu og þar sem ekki er neinn ágreiningur um það í málinu að eyríkið Antígva og Barbúda teljist lágskattaríki í skilningi 2. mgr. 57. gr. a laga nr. 90/2003, sbr. og 2. gr. reglugerðar nr. 1102/2013, verður að hafna fyrstu kröfu kæranda um ógildingu hins kærða úrskurðar ríkisskattstjóra í heild sinni.

   

  [...]

   

  Eins og áður er rakið kemur fram í athugasemdum með 3. gr. frumvarps þess, er varð að lögum nr. 46/2009, að með fyrrgreindu skilyrði um að tekjur félags séu ekki að meginstofni eignatekjur sé átt við að meira en helmingur teknanna stafi frá raunverulegri atvinnustarfsemi, þ.e. framleiðslu eða sölu á vörum eða þjónustu, og að félög sem hafi aðallega tekjur af eignum, svo sem arð, vexti og söluhagnað, þ.e. óvirkar tekjur (e. passive income), þ.m.t. tekjur af óefnislegum eignum, svo sem réttindum hvers konar, falli undir ákvæði greinarinnar. 

   

  [...]

   

  Með vísan til þess, sem hér að framan greinir, verður að telja ótvírætt að tekjur umræddra félaga þau ár sem um ræðir séu að meginstofni eignatekjur í skilningi 1. tölul. 4. mgr. 57. gr. a laga nr. 90/2003, þ.e. tekjur af útleigu lausafjár (skipa).

   

  [...]

   

  Af hálfu kæranda er eins og fyrr segir litið svo á að þrátt fyrir greindar breytingar á 5. mgr. 57. gr. a laga nr. 90/2003 með 1. gr. laga nr. 45/2013 sé kæranda engu að síður heimilt, við uppgjör tekna til skattlagningar vegna óbeins eignarhalds að félögum á Antígva og Barbúda, að jafna tapi af rekstri einstakra félaga þar í landi á móti hagnaði af rekstri annarra félaga þau ár sem um ræðir. Af því tilefni skal tekið fram að af reglum 57. gr. a laga nr. 90/2003 verður ekki önnur ályktun dregin en sú að þegar um sé að ræða eignarhald innlends skattaðila á fleiri en einum lögaðila í lágskattaríki skuli með sjálfstæðum hætti leiða fram skattstofn hvers lögaðila fyrir sig samkvæmt gildandi íslenskum skattalögum með tilliti til skattskyldu tekna og viðeigandi frádráttarheimilda. Að því athuguðu og með vísan til þess sem fram kemur í lögskýringargögnum að baki lögum nr. 45/2013 og hér að framan er rakið verður að fallast á með ríkisskattstjóra að eftir greinda lagabreytingu sé eingöngu heimilt að færa tap af rekstri lögaðila á lágskattasvæði á móti hagnaði viðkomandi lögaðila sem síðar kann að koma til skattlagningar í hendi hins innlenda skattaðila, sbr. og ákvæði c-liðar 8. gr. reglugerðar nr. 1102/2013 þar sem þetta kemur skýrt fram. Segir í þessu ákvæði reglugerðarinnar að hlutdeild skattaðila í sannanlegu tapi CFC-félags samkvæmt b-lið 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar sé einungis heimilt að færa til frádráttar á móti hlutdeild hans í síðar reiknuðum hagnaði þess sama erlenda lögaðila og ekki sé því heimilt að færa tapið á móti öðrum tekjum skattaðilanna. Vegna umfjöllunar í kæru um forsendur úrskurðar yfirskattanefndar nr. 155/2014 skal áréttað að í úrskurði þessum var fjallað um heimild kæranda til að draga tap af rekstri lögaðila á Antígva og Barbúda frá tekjum kæranda sjálfs. Af úrskurði þessum verður því ekki dregin sú ályktun að við uppgjör hagnaðar og/eða taps vegna fleiri lögaðila í lágskattaríki sé skattaðila almennt heimilt að jafna tapi eins aðila á móti hagnaði annars, án tillits til viðeigandi frádráttarheimilda að öðru leyti.“

   

  Í hlekk með fréttinni er að finna úrskurð yfirskattanefndar í heild sinni.

 • Bankaskattur lækkar í þrepum

  Yfirlýst markmið frumvarpsins er auka skilvirkni í fjármálakerfinu og þar með lækka kostnað neytenda. Skatturinn hafi upphaflega verið settur til þess að mæta kostnaði ríkisins af fjármálahruninu. Skatturinn var síðan hækkaður og gildissvið hans víkkað árið 2013 þannig að fjármálafyrirtæki í slitameðferð yrðu einnig skattskyld. Skatturinn var hækkaður svo enn frekar til að fjármagna leiðréttingu verðtryggðra húsnæðislána sama ár. Nú þykir tímabært að lækka aftur skattinn til að koma til móts við gagnrýni hagsmunaaðila á fjárhæð bankaskattsins í því skyni að liðka fyrir lækkun útlánavaxta og hækkun inneignarvaxta til hagsbóta fyrir almenning.

   

  Í hlekk með fréttinni, uppi í hægra horni, er að finna frumvarpið í heild sinni.

 • Frumvarp til laga um félagasamtök til almannaheilla

  Í hlekk með fréttinni, uppi í hægra horni, er að finna frumvarpið í heild sinni.

 • Yfirfærsla rekstrartaps við samruna - endurákvörðun opinberra gjalda

   

  Nánari umfjöllun úr dómi héraðsdóms:

   

  „[...]

   

  Varðandi það skilyrði 54. gr. að samruni stefnanda og Imagine Investment ehf. hafi verið gerður í venjulegum og eðlilegum rekstrartilgangi, þá er af hálfu stefnda byggt á því að skilyrði 1. mgr. 54. gr. um venjulegan og eðlilegan rekstrartilgang hafi ekki verið fullnægt og meðal annars er vísað til greinargerðar stjórnar Imagnine Investment ehf., dags. 6. mars 2012, sem fylgt hafi samrunaáætlun félaganna Þar hafi komið fram að stjórnir félaganna teldu ekki lengur tilgang með því að halda rekstrinum áfram í sérstöku félagi. Af skýringum í greingargerð stjórnar verði ekki annað ráðið en fyrirhugaður samruni lúti að því að ljúka tilvist félagsins þar sem rekstrarlegu hlutverki þess sé lokið. Stefndi byggir á því þessari niðurstöðu til stuðnings að eignir félagsins hafi verið óverulegar og ekki verði séð að umsvif við stjórnun hafi verið slík að máli skipti við ákvörðun um samruna eða að lánshæfi félaganna hafi aukist við þessa aðgerð.

   

  Stefnandi byggir á því að sameining félaganna hafi verið gerð í venjulegum og eðlilegum rekstrartilgangi. Staða í þessu máli sé með allt öðrum hætti en verið var að bregðast við með framangreindu frumvarpi sem vísað er til í niðurstöðum ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar. Stefnandi telur að rýmkandi skýring í niðurstöðu skattyfirvalda sem aftri hluthafa félaganna frá því að nýta skattalegt tap á móti hagnaði gangi í berhögg við eignarréttindi sem varin séu af 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þá sé viðurkennt í skattframkvæmd að þrátt fyrir að möguleiki á nýtingu tapsfrádráttar hafi áhrif á ákvörðun um samruna, þá girði það ekki fyrir það að skilyrðum 54. gr. tekjuskattslaga sé fullnægt. Líta beri á samstæður hlutafélaga sem eina heild. Löggjafinn hafi heimilað samsköttun þessara félaga og félög innan sömu samstæðu megi nýta skattalegt tap hvert annars óháð skilyrðum í 54. gr. Mikilvægt sé að líta til þess hver tilgangurinn sé með skiptingu eignarhaldsfélaga á milli félaga, en hann helgist af því að nauðsynlegt sé að setja áhættusamar fjárfestingar í sérstök félög. Þegar breytingar verði á eignasafni og fjárfestingarumhverfi sé eðlilegt að uppsetning félagasamstæðu sé tekin til endurskoðunar. Samruni í þeim tilgangi hafi verið hluti af slíkri vinnu og hafi falið í sér venjulegan og eðlilegan rekstrartilgang í þeirri starfsemi sem umrædd félög hafi haft með höndum. Stefnandi vísar til þess að í niðurstöðu yfirskattanefndar felist í raun viðurkenning á því að ákvæði 54. gr. sé svo óskýrt að ekki sé fyllilega ljóst hvernig túlka beri það við þær aðstæður sem hér séu uppi, sbr. þegar nefndin felldi niður álagsbeitingu ríkisskattstjóra í ljósti álitaefnda og málavaxta að öðru leyti án þess að rökstyðja það frekar. Þetta sýni að beiting 54. gr. í máli þessu hafi verið í bága við 40. gr. og 77. gr. stjórnarskrár og því eigi að taka til greina kröfur stefnanda. Telja verður að endurákvörðun skattyfirvalda hafi verið mjög íþyngjandi fyrir stefnanda með hliðsjón af því að hið umþrætta tap varð í félagasamstæðu stefnanda og því líklegt að skattalegt hagræði af sameiningu hafi átt þátt í að sú leið var farin. Það hefur hins vegar verið talið eðlilegt og lögmætt að stjórnendur og eigendur fyrirtækja hafi skattalegar afleiðingar í huga við rekstrarlegar ákvarðanir, svo fremi sem það er ekki eini tilgangur ákvörðunarinnar.

   

  Fallist er á með stefnanda að auk skattalegs hagræðis hafi ráðið ferðinni rekstrarlegar ákvarðanir sem komið hafi til vegna breytts rekstrarumhverfis er leitað var hagræðingar í rekstri samstæðunnar.

   

  Samkvæmt 97. gr. tekjuskattslaga nær heimild til endurákvörðunar skatts samkvæmt 96. gr. til skatts vegna tekna og eigna síðustu sex ára sem næst eru á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram. Í 2. mgr. segir síðan að hafi skattaðili látið í té í framtali sínu eða fylgigögnum þess fullnægjandi upplýsingar, sem byggja mátti rétta álagningu á, sé þó eigi heimilt að endurákvarða honum skatt nema vegna síðustu tveggja ára sem næst eru á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram þótt í ljós kom að álagning hafi verið of lág.

   

  Stefnandi byggir á því að ríkisskattstjóri hafi þegar við álagningu haft undir höndum nauðsynleg gögn og upplýsingar sem hægt hafi verið að byggja rétta álagninu á, sbr. 1. mgr. 95. gr. Stefnandi byggir á því að sú endurákvörðun skatta sem hinir umþrættu úrskurðir kveða á um byggi einvörðungu á þeim gögnum sem fylgdu skattframtali og því hafi ríkisskattstjóra verið óheimilt að endurákvarða álagningu stefnanda vegna þeirra tekjuára sem hér um ræðir þar sem tímafrestir ríkisskattstjóra til endurákvörðunar hafi verið liðnir, sbr. 2. mgr. 97. gr. Úrskurður ríkisskattstjóra hafi verið kveðinn upp í febrúar 2016, en þá hafi frestur til endurákvörðunar verið liðinn. Í skattframtali stefnanda 2012 hafi verið gerð grein fyrir samruna félaganna og ársreikningar beggja félaga næstliðin ár á undan og samrunagögn hafi legið fyrir hjá fyrirtækjaskrá. Þá hafi ársreikningar beggja félaganna fylgt framtölum þeirra. Þá byggir stefnandi á því að sú rannsóknarskylda sem hvílir á ríkisskattstjóra samkvæmt 1. mgr. l95. gr. taki einnig til upplýsinga sem skilað hafi verið til embættisins. Inntak þessarar rannsóknarskyldu hafi verið staðfest í dómaframkvæmd Hæstaréttar, sbr. dóm réttarins í máli nr. 85/1998.

   

  Stefndi mótmælir þessari málsástæðu stefnanda og vísar til þess að meginregla um tímamörk endurákvörðunar sé í 1. mgr. 97. gr. Ákvæði 2. mgr. feli í sér undantekningu og hana beri að skýra þröngt og hún eigi aðeins við ef fyrir hendi er ófullnægjandi skoðun ríkisskattstjóra en ekki ófullnægjandi upplýsingar skattaðila. Ríkisskattstjóra hafi ekki verið unnt að taka afstöðu til nýtingar stefnanda á yfirfæranlegu tapi vegna sameiningarinnar án þess að afla frekari upplýsinga og vísar stefndi í því sambandi til athugasemdar á framtali stefnanda. Þar sé ekki að finna nánari skýringu á því að hvaða leyti einstök skilyrði sameiningar hafi verið til staðar.

   

  Það er mat dómsins að upplýsingar sem fram komu í gögnum sem fylgdu skattframtölum hefðu nægt til þess að haga álagningu samkvæmt 95. gr. tekjuskattslaga hefði ríkisskattstjóri talið að færsla í skattframtölum bryti í bága við lög, en hann hafi mátt án frekari upplýsinga eða með upplýsingum frá Hlutafélagaskrá eða öðrum gögnum í vörslum embættisins gera sér ljósa grein fyrir því að færsla í umræddum skattframtölum bryti í bága við lög  Í því sambandi má vísa til dóms Hæstaréttar í máli nr. 85/1998. Þá er fallist á það með stefnanda að endurákvörðun hinna umþrættu úrskurða virðist eingöngu byggjast á þeim gögnum sem fylgdu skattframtölum vegna þeirra ára sem var skilað. Af hálfu stefnda er ekki sérstaklega mótmælt vaxtakröfum stefnanda að öðru leyti en því að krafist var sýknu af öllum kröfum stefnanda.

   

  Samkvæmt því sem rakið hefur verið er fallist á að úrskurður yfirskattanefndar, nr. 33/2017, dags. 15. febrúar 2017, og úrskurður ríkisskattstjóra, dags. 16. febrúar 2016, um endurákvörðun opinberra gjalda stefnanda gjaldárin 2013 og 2014 verði felldir úr gildi.

   

  Að fenginni þessari niðurstöðu ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda 102.685.145 krónur með vöxtum skv. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 21. mars 2016 til 5. janúar 2017, en stefnandi greiddi þessa fjárhæð 21. mars 2016 í samræmi við endurákvörðun ríkisskattstjóra. Til frádráttar komi endurgreiðsla til stefnanda að fjárhæð 21.446.779 krónur, dags. 23. febrúar 2017, í samræmi við niðurstöðu yfirskattanefndar.“

 • Frumvarp til laga um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð

 • Tvísköttunarsamningur - skattlagningarréttur

  Nánar úr úrskurði yfirskattanefndar:

  "Fram er komið í málinu að kærandi starfaði á árinu 2017 sem prófessor við háskóla í X-landi, sbr. staðfestingu M, dags. 20. september 2018, sem er meðal gagna málsins. Í málinu er deilt um skattalega meðferð launatekna kæranda vegna þessara starfa hans, en ekki er ágreiningur um að þær hafi numið alls 10.115.400 kr. á árinu 2017, svo sem kærandi tilgreindi í skattframtali sínu árið 2018.

   

  Kærandi er heimilisfastur hér á landi og ber hér ótakmarkaða skattskyldu samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 19. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Í því felst að kæranda var skylt að greiða tekjuskatt og útsvar af öllum tekjum sínum á árinu 2017 hvar sem þeirra var aflað, þar með töldum umræddum launatekjum frá Indlandi. Við álagningu á kæranda bar hins vegar að gæta ákvæða tvísköttunarsamnings við X-land, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda. Samkvæmt b-lið 3. mgr. 2. gr. samningsins tekur samningurinn að því er Ísland varðar til tekjuskatts til ríkisins og útsvars til sveitarfélaga. Í 1. mgr. 20. gr. samningsins kemur fram að prófessor, kennari eða rannsóknarmaður, sem er eða var heimilisfastur í samningsríki rétt fyrir komu til hins samningsríkisins í því skyni að kenna eða stunda rannsóknir, eða hvoru tveggja, við háskóla, framhaldsskóla eða aðra sambærilega samþykkta stofnun í síðarnefnda samningsríkinu, skal undanþeginn skatti í því ríki af endurgjaldi fyrir slíka kennslu eða rannsóknir á tímabili sem er ekki lengra en tvö ár frá komudegi hans til þess ríkis. Ekki verður annað séð en að umrætt ákvæði tvísköttunarsamningsins taki til launa kæranda vegna starfa hans í X-landi á árinu 2017. Er því fallist á með ríkisskattstjóra að skattlagningarréttur teknanna sé hér á landi.

   

  Vegna athugasemda í kæru til yfirskattanefndar varðandi skattalega meðferð tekna kæranda í X-landi skal tekið fram að þær upplýsingar geta ekki breytt framangreindri niðurstöðu í ljósi ákvæða tvísköttunarsamnings Íslands og X-lands. Þess er þó að geta að í samningnum eru sérstök úrræði til handa gjaldanda telji hann að ráðstafanir, sem gerðar séu af öðru hvoru eða báðum samningsríkjunum, leiði eða muni leiða til skattlagningar að því er hann varði sem ekki sé í samræmi við ákvæði samningsins, sbr. 26. gr. hans. Getur gjaldandi þá, án þess að það raski rétti hans til að færa sér í nyt þau réttarúrræði sem lög þessara ríkja kveða á um, lagt málið fyrir bært stjórnvald í því samningsríki þar sem hann er heimilisfastur. Í ákvæði 2. mgr. 26. gr. er gert ráð fyrir að ef bært stjórnvald getur ekki sjálft leyst málið á viðunandi hátt skal það leitast við að leysa málið með gagnkvæmu samkomulagi við bært stjórnvald í hinu samningsríkinu. Að því leyti sem athugasemdir í kæru til yfirskattanefndar lúta að erindisrekstri af því tagi sem hér um ræðir er rétt að kærandi leiti til ríkisskattstjóra með beiðni um aðstoð á þessum grundvelli."

   

  Í hlekk með fréttinni er að finna úrskurð yfirskattanefndar í heild sinni.

 • Lögmæti hluthafafundar og ákvörðun um slit

  Á fundinn var mætt fyrir um helming atkvæða í félaginu og fundurinn því hvorki bær til þess að taka ákvörðun um slit félagsins eða arðgreiðslur. Eftir fundinn var leitað eftir samvinnu við aðra hluthafa um slit á félaginu en samþykki þeirra fékkst hins vegar ekki. Stefndi og kona hans, KJ, féllu þá frá áformum um slit félagsins á grundvelli ákvörðunar fundarins en uppgjör við hluthafa fór þó fram, að því er virðist á grundvelli þess uppgjörs sem lá frammi á hluthafafundinum 29. desember 2008. Gengið var frá greiðslu til hluthafa þann 10. júní 2011, en á þeim tíma fór stefndi með prókúru fyrir félagið og framkvæmdi greiðsluna.

  Stefndi og eiginkona hans kröfðust svo slita á félaginu með stefnu birtri 13. maí 2013 og var bú félagsins tekið til skipta með dómi héraðsdóms Reykjavíkur þann 19. júní 2014, sbr. 2. tl. 2. mgr. 82. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Dómurinn miðaði við að hin umstefnda greiðsla stefnanda til stefnda hafi byggst á samþykkt hluthafafundarins 29. desember 2008, þar sem ákveðið var að slíta F ehf. og áðurnefndu uppgjöri vegna slita sem unnið var síðar á vegum stefnda og sent hluthöfum ÁÁ og HS með bréfi stefnda 10. júní 2011. Dómurinn taldi að þótt fram hefði komið í bréfi stefnda að um væri að ræða ,,arðgreiðslur“ til hluthafa væri engu að síður ljóst að efnislega var um að ræða greiðslur vegna slita einkahlutafélags og uppgjör á þeim grundvelli. Dómurinn taldi ljóst að skilyrði hafi brostið til að taka ákvörðun um slit félagsins á hluthafafundi félagsins 29. desember 2008 og án tillits til þess hvort líta beri á greiðslu stefnanda til stefnda 10. júní 2011 sem úthlutun eigna einkahlutafélags til hluthafa við slit eða arðgreiðslu hafi verulega skort á að gætt hafi verið þeirra reglna sem um þessar ákvarðanir gilda. Stefndi og eiginkona hans settu greiðslur til hluthafa í búning arðgreiðslna, án þess þó að gætt hafi verið að ákvæðum 73. og 76. gr. laga nr. 138/1994, en ekki var búið að samþykkja ársreikning í stjórn félagsins eða á löglega boðuðum aðalfundi.

  Stefnda var gert að endurgreiða félaginu kr. 5.923.399 ásamt vöxtum, með vísan til 1. mgr. 77. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög.

 • Frumvarpsdrög til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur (skattlagning tekna af höfundaréttindum)

 • KPMG Tax Facts 2019

 • Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt (ríki-fyrir-ríki skýrslur)

  Með breytingarlögum nr. 112/2016, á lögum um tekjuskatt nr. 90/2003, var ákvæði um svokallaðar ríki-fyrir-ríki skýrslur upphaflega innleitt í 91. gr. a. laganna. Ákvæðið á rætur að rekja til leiðbeininga OECD og samkomulags Íslands á vegum OECD um skipti á ríki-fyrir-ríki skýrslum um starfsemi fjölþjóðlegra fyrirtækjasamstæðna. Markmið slíkra skýrslna er að auðvelda skattyfirvöldum að fá yfirsýn yfir starfsemi fjölþjóðlegra fyrirtækjasamstæðna.

   

  Með frumvarpi þessu eru hins vegar lagðar til breytingar á 91. gr. a. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum, í tilefni af athugasemdum OECD um fyrrgreint ákvæði, þar sem talið var að skerpa þyrfti á tilteknum atriðum, s.s. um fjárhæðarviðmið vegna skila á ríki-fyrir-ríki skýrslum, sem og að ekki sé ákvæði til staðar um skilaskyldu staðgöngufélaga móðurfélaga.

   

  Í frumvarpinu eru aðallega lagðar til þríþættar efnisbreytingar á umræddu ákvæði. Í fyrsta lagi er lagt til að viðmiðunarfjárhæð vegna skilaskyldu innlendra móðurfélaga á ríki-fyrir-ríki skýrslum verði miðuð við evrur en ekki íslenskar krónur. Er slík breyting talin eðlileg í ljósi þess að venjan er sú samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra að skilaskyld félög séu að jafnaði ekki gerð upp í íslenskum krónum.

   

  Í öðru lagi er lögð til breyting á 2. mgr. sem fjallar um það hvenær skylda til að skila ríki-fyrir-ríki skýrslu hvílir á innlendum félögum þrátt fyrir að þau teljist ekki vera fjölþjóðlegar heildarsamstæður. Í ljósi ábendinga OECD er nú tekið af skarið um það að slík skylda getur verið til staðar þegar ekki er í gildi samkomulag milli bærra stjórnvalda sem
  kveður á um sjálfvirk upplýsingaskipti á ríki-fyrir-ríki skýrslum um skattskil. Það sama getur átt við ef ríkisskattstjóri hefur tilkynnt íslenska félaginu að kerfisbrestur (e. systemic failure) sé til staðar í heimilisfestarríki móðurfélags sem leiðir til þess að íslensk skattyfirvöld fá ekki ríki-fyrir-ríki skýrslur. Með kerfisbresti er átt við það þegar ríki hefur gert samkomulag við
  annað ríki um sjálfvirk upplýsingaskipti milli bærra stjórnvalda á ríki-fyrir-ríki skýrslum um skattskil en sjálfvirk upplýsingaskipti fara ekki fram vegna ástæðna sem ekki eru í samræmi
  við samkomulagið eða til staðar er viðvarandi ástand í ríki þar sem sjálfvirk upplýsingaskipti fara ekki fram á ríki-fyrir-ríki skýrslum.

   

  Í þriðja lagi er bætt við nýrri málsgrein um svokölluð staðgöngufélög móðurfélaga (e. surrogate parent entity). Með staðgöngufélagi móðurfélags er átt við samstæðufélag innan
  fjölþjóðlegrar heildarsamstæðu sem hefur verið tilnefnt sem staðgengill móðurfélags innan heildarsamstæðu og ber ábyrgð á að skila ríki-fyrir-ríki skýrslum í heimilisfestarríki þess fyrir
  hönd heildarsamstæðunnar að nánar tilgreindum skilyrðum uppfylltum.

   

  Í hlekk með fréttinni er að finna frumvarpið í heild sinni.