Stimpilgjald - hlutaskipting félags

E.g., 2019-02-16
E.g., 2019-02-16
 • Mannréttindadómstóll Evrópu - ne bis in idem

  Upptök máls þessa á rætur sínar að rekja til dóms Hæstaréttar nr. 416/2013, hvar kærandi (ákærði í málinu) var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. og 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi, gert að greiða kr. 21.000.000 í sekt og skyldi átta mánaða fangelsi koma í stað sektarinnar yrði hún ekki greidd. Ákæran í hæstaréttarmálinu laut að því að ákærði hafi látið undir höfuð leggjast að telja fram fjármagnstekjur að fjárhæð kr. 120.026.444, vegna tekna hans af uppgjöri tveggja framvirkra skiptasamninga.

   

  Dómi Hæstaréttar skaut kærandi til Mannréttindadómstóls Evrópu þar sem hann taldi að beiting skattalegs álags á gjaldstofna hans, síðari tíma sakamál og sakfelling vegna sama skattalagabrots hafi falið í sér að réttað hafi verið yfir honum og refsað tvisvar fyrir sama brotið, sem færi gegn 4. gr., 7. viðauka, Mannréttindasáttmála Evrópu.

   

  Mannréttindadómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu í málinu að réttað hafi verið yfir og refsað kæranda, fyrir sömu eða efnislega sömu háttsemi, af hálfu tveggja mismunandi yfirvalda, í tveimur mismunandi málsmeðferðum, sem hafi skort tilskilda tengingu á milli, sem fæli í sér brot á 4. gr. 7. viðauka, Mannréttindasáttmála Evrópu. Í niðurstöðu sinni vísaði Mannréttindadómstóllinn m.a. til þess að skort hafi á samþættingu málsmeðferða í tíma, sem og að málsmeðferð beggja yfirvalda hafi verið verulega sjálfstæð, þ.e. við öflun og rannsókn á sönnunargögnum málsins. Í tengslum við samþættingu á milli málsmeðferðanna var sérstaklega vísað til þess, að samanlögð lengd málsmeðferðanna hafi tekið þrjú ár og sjö mánuði. Yfir þann tíma hafi málsmeðferðirnar aldrei verið reknar samhliða á neinum tímapunkti. Ennfremur hafi kærandi ekki verið ákærður af hálfu ákæruvaldsins fyrr en ellefu mánuðum eftir að ríkisskattstjóri hafi tekið lokaákvörðun sína, sem og að hin sjálfstæða sakamálsmeðferð hafi haldið áfram í tvö ár í kjölfar þess.

   

  Í hlekk með fréttinni er að finna dóm Mannréttindadómstólsins í heild sinni, þ. á m. umfjöllun dómsins um skaðabætur.

 • Fyrirhugaðar skattalagabreytingar á Spáni- söluhagnaður og arður

   

  Skattlagning söluhagnaðar og arðs frá erlendum félögum

   

  Þessa dagana liggur fyrir spænska þinginu lagafrumvarp er felur í sér skattalagabreytingar þar í landi. Varða breytingarnar skattlagningu á arði frá erlendum dótturfélögum annars vegar og söluhagnaðar vegna sölu á eignarhlutum spænskra félaga í félögum á erlendri grundu hins vegar.

   

  Hingað til hafa ofangreindur söluhagnaður og arðgreiðslur verið að fullu undanskyldar skattlagningu á Spáni en verði frumvarpið til laganna samþykkt mun það koma til með að breytast. Hinar fyrirhuguðu breytingar fela í sér að raunskattlagning muni nema u.þ.b. 1,25%.

   

  Ekki liggur endanlega fyrir hvort af ofangreindum tekjum verði greidd staðgreiðsla en þann 13. febrúar nk. mun fyrsta atkvæðagreiðsla um afdrif frumvarpsins fara fram á spænska þinginu.

   

  KPMG á Íslandi mun fylgjast með afgreiðslu spænska þingsins á hinum fyrirhuguðu breytingum en verði frumvarpið að lögum er gert ráð fyrir að gildistaka þess verði frá og með 1. janúar 2019 og ljóst að þetta getur haft áhrif á alþjóðlegar samstæður með eignarhaldsfélagi á Spáni.

 • Mannréttindadómstóll Evrópu - ne bis in idem

  Mál þetta á rætur sínar að rekja til dóms Hæstaréttar nr. 323/2003 þar sem kærandi (ákærða) var sakfelld fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum með því að hafa í fjögur ár staðið skil á efnislega röngum skattframtölum, með þeirri háttsemi að telja ekki fram arðgreiðslur frá erlendu félagi hennar, skráð á Bahamaeyjum, sem og erlendar vaxtatekjur. Gerðist hún þar með brotleg við 1. mgr. sbr. 3. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

   

  Dómi Hæstaréttar skaut kærandi til Mannréttindadómstóls Evrópu á þeim grundvelli að henni hafi í raun verið refsað tvisvar fyrir sama brotið. Hélt kærandi því fram fyrir Mannréttindadómstól Evrópu að íslensk skattyfirvöld hafi rannsakað mál hennar frá maí 2008 þangað til í október 2012, þegar yfirskattanefnd kvað upp úrskurð sinn. Þá hafi lögregluyfirvöld rannsakað mál kæranda frá því í nóvember 2011 sem hafi lokið með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar í janúar 2014. Hélt kærandi því fram að umræddar rannsóknir hafi einungis skarast í ellefu mánuði. Þá hafi þær verið ítarlegri en efni málsins gaf tilefni til, hafi falið í sér endurtekningar og verið ófyrirsjáanlegar.

   

  Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu að krafa kæranda í málinu væri ótæk. Dómstóllinn vísaði m.a. til þess að kærandi hafi sjálf borið ábyrgð á hluta tafarinnar á vinnslu málsins með því að vera ekki samvinnuþýðari við rannsókn þess. Einnig, að teknu tilliti til kringumstæðna málsins, þá sérstaklega hvað varðar skörun í tíma og samstarfið á milli skattyfirvalda, lögreglu og ákæruyfirvalda við öflun og mats sönnunargagna í málinu, hafi verið nægjanleg samþætting, bæði í efni og tíma, við meðferð málsins.

   

  Ennfremur vísaði dómstólinn til þess að rannsókn á máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar hafi tekið talsvert lengri tíma en mál kæranda og lögreglurannsókn þess staðið yfir árum saman eftir að skattyfirvöld luku máli hans af sinni hálfu, sem og skort hafi á samráð stofnana við rannsókn þess máls. 

   

  Í hlekk að ofan með fréttinni er að finna umræddan dóm Mannréttindadómstólsins í heild sinni.

   

 • Álag á tekjuskattstofna - ábyrgð maka

  Nánar úr forsendum Hæstaréttar:

  "Eins og greinir í hinum kærða úrskurði er krafa sóknaraðila um ógildingu fjárnáms þess sem um ræðir í málinu reist á því að með gerðinni hafi sóknaraðili verið látin bera fjárhagslegar byrðar þeirrar refsingar sem lögð var á fyrrum sambúðarmann hennar með álagi samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 og stangist það á við 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Um þetta vísar sóknaraðili til þess að með úrskurði ríkisskattstjóra 29. október 2015 hafi stofn til útreiknings á tekjuskatti sambúðarmannsins verið hækkaður um 25% í samræmi við heimild í 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 til viðbótar við þá breytingu sem leiddi af hækkun skattskyldra tekna hans. [...]

   

  Samkvæmt fyrri málslið 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar verður engum gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi, sem var refsiverð samkvæmt lögum á þeim tíma er hún átti sér stað, eða má fullkomlega jafna til slíkrar háttsemi. Í fyrri málslið 1. mgr. 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu segir að engan skuli telja sekan um afbrot hafi verknaður sá eða aðgerðaleysi sem hann er borinn eigi varðað refsingu að landslögum eða þjóðarétti þá framin voru. Af viðmiðum sem mótast hafa í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu leiðir að sú hækkun á tekjuskatti fyrrum sambúðarmanns sóknaraðila, sem leiddi af beitingu álags samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, fól í sér refsingu í skilningi 1. mgr. 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. meðal annars dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Västberga Taxi Aktiebolag og Vulic gegn Svíþjóð frá 23. júlí 2002 og ákvörðun þess dómstóls um meðferðarhæfi kæru í máli Rosenquist gegn Svíþjóð frá 14. september 2004. Eins og greinir meðal annars í dómi Hæstaréttar 27. janúar 2000 í máli nr. 442/1999 hafa reglur fyrri málsliðar 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar og fyrri málsliðar 1. mgr. 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu verið skýrðar á þann veg að undantekningar frá þeirri meginreglu refsiréttar að refsiábyrgð verði aðeins byggð á sök brotamanns verði að vera skýrt orðaðar í lögum. Krafan um skýrleika refsiheimilda útiloki þó ekki hlutlæga refsiábyrgð einstaklinga.

   

  Í 1. mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003 er mælt fyrir um ábyrgð á skattgreiðslum. Kemur þar fram að hjón og samskattað sambúðarfólk beri óskipta ábyrgð á greiðslu skatta sem á þau eru lagðir og geti innheimtumaður gengið að hvoru um sig til greiðslu á sköttum beggja. [...]. Af því sem þar kemur fram er ljóst að hjón og samskattað sambúðarfólk bera í formi sjálfskuldarábyrgðar gagnkvæma ábyrgð á sköttum hvors annars og hefur það ýmist verið orðað með þeim hætti að um ábyrgð á skattgjöldum, skattgreiðslum eða sköttum sé að ræða. Í 1. mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003 er á hinn bóginn ekki tekin afstaða til þess berum orðum hvort sjálfskuldarábyrgð þessi nái einnig til þeirrar hlutlægu refsingar, sem leggja má á annað hjóna eða sambúðarmaka með álagningu skatts á skattstofn sem sætt hefur hækkun í formi álags samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laganna. Þá eru lögskýringargögn engan veginn skýr um þetta atriði.

   

  Við setningu þeirra reglna um gagnkvæma sjálfskuldarábyrgð hjóna og sambúðarfólks, sem fram koma í  1. mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003, var löggjafanum í lófa lagið að kveða á um það með afdráttarlausum hætti, ef ætlunin var að láta ábyrgð maka skattaðila einnig ná til afleiðinga af beitingu álags samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laganna. Það gerði löggjafinn ekki. Var þó til þess brýn ástæða því hafi sú verið ætlunin hefðu fjárhagslegar afleiðingar þeirrar hlutlægu refsiábyrgðar sem felst í beitingu álags samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 í reynd verið færðar yfir á maka skattaðila. Samkvæmt þessu verður ekki litið svo á að 1. mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003 feli í sér heimild til þess að sóknaraðili verði látin bera fjárhagslegar afleiðingar þeirrar hlutlægu refsingar sem lögð var á fyrrum sambúðarmann hennar í formi 25% álags á skattstofna með úrskurði ríkisskattstjóra 29. október 2015. Breytir engu í þeim efnum þótt sóknaraðili hafi notið fjárhagslegs ávinnings af samsköttun sinni og sambúðarmannsins í formi vaxtabóta og millifærslu skattafsláttar. Þá fær það þessari niðurstöðu heldur ekki breytt þótt í 2. málslið 1. mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003 sé mælt fyrir um rétt þess hjóna eða sambúðarmaka sem skattgreiðslur annast til að krefjast endurgreiðslu á þeim hluta skattsins sem það hefur greitt umfram það sem með réttu kemur í þess hlut. Er þá til þess að líta að endurgreiðsla í hverju tilviki er háð gjaldfærni þess sem álagi er beittur. Skortir samkvæmt þessu að lögum viðhlítandi heimildir til þess að sóknaraðila verði gert að greiða þá hækkun á skattskuld fyrrum sambúðarmanns síns sem leiðir af því að álagi samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 var beitt með úrskurði ríkisskattstjóra."

   

  Í hlekk með frétt þessari er að finna dóm Hæstaréttar í heild sinni.

 • Skattbreytingar sem tóku gildi í upphafi árs

  Takmörkun á frádrætti vaxtagjalda

  Frá og með 1. janúar 2019 tóku gildi breytingar á undanþáguákvæði b-liðar 3. mgr. 57. gr. b. laga um tekjuskatt nr. 90/2003, sem fjallar um takmörkun á frádrætti vaxtagjalda milli tengdra aðila. Uppfærð undanþága felur í sér að vaxtagjöld sem greidd eru vegna lánaviðskipta innan samstæðu sem nýtur heimildar til samsköttunar skv. 55. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003, eða uppfyllir skilyrði til samsköttunar, þegar öll félög í samstæðu eru heimilisföst á Íslandi, falla ekki undir 1. mgr. 57. gr. b. fyrrgreindra laga, sem felur í sér takmörkun á frádrætti vaxtagjalda milli tengdra aðila.

   

  Skattfrádráttur vegna hlutabréfakaupa og nýsköpunarfyrirtækja

  Þann 1. janúar 2019 tóku gildi lög um breytingu á lögum um tekjuskatt nr. 90/2003, og lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Breytingar er varða skattfrádrátt vegna hlutabréfakaupa fela í sér breytingu á 1. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, með því að framlengja gildistíma úrræðisins um þrjú ár, þannig að það taki til fjárfestinga allt til ársins 2021, sem og breytingar sem miða að því að einfalda fyrirkomulag ívilnunarinnar, þannig að einstaklingur og félag sem hann hyggst fjárfesta í með hlutabréfakaupum þarf ekki lengur að uppfylla skilyrði frádráttar sem varða annars vegar tengsl einstaklingsins við félagið og hins vegar félagið sjálft og starfsemi þess, eftir að hlutafjáraukning félagsins hefur átt sér stað. Ennfremur hefur skilyrðum laganna sem lúta að einstaklingi sem hyggst nýta sér frádráttinn verið fækkkað, með því að fella brott skilyrðið um að hann megi ekki vera starfsmaður félags sem hann hyggst fjárfesta í við hlutafjáraukningu þess.

   

  Þá voru viðmiðunarfjárhæðir skattfrádráttar vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar nýsköpunarfyrirtækja hækkaðar. Einnig var brottfellt ákvæði um tímabundinn gildistíma laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Úrræðið er því orðið varanlegt um óákveðinn tíma.

   

  Virðisaukaskattur

  Þann 1. janúar 2019 tóku gildi lög um breytingu á lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Gerðar voru breytingar í tengslum við gildisdagsetningar og virðisaukaskattskyldu alþjóðaflugvalla. Ennfremur voru gerðar breytingar á 12. gr. og 35. gr. umræddra laga um undanþegna veltu og kaup á þjónustu til landsins. Í breytingunni felst skylda fyrir erlend atvinnufyrirtæki sem selja innlendum aðilum blöð og tímarit á pappírsformi að innheimta og skila virðisaukaskatti af þeirri sölu hérlendis, að því gefnu að veltumörk laganna eigi ekki við.

   

  Samsköttun innan EES

  Frá og með ársbyrjun 2019 tekur 55. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er varðar samsköttun, einnig til fastra starfsstöðva hlutafélaga og einkahlutafélaga í aðildarríkjum EES.

   

  Tekjuskattur einstaklinga og útsvar

  Frá og með ársbyrjun 2019 hækkaði persónuafsláttur um 4,7%, þar af um 3,7% vegna lögbundinnar verðlagsuppfærslu og um 1% í viðbót samkvæmt sérstakri lagabreytingu til bráðabirgða í sl. desember. Hækkun fjárhæðarmarka milli skattþrepanna fyrir árið 2019 er nú miðuð við vísitölu neysluverðs í stað launavísitölu og er því hækkunin 3,7% milli áranna 2018 og 2019. Fjárhæðarmörk milli þrepa hækkuðu því úr 893.713 kr. í 927.087 kr. á mánuði. Fjöldi skattþrepa og skatthlutföll tekjuskatts eru óbreytt.

  Tvö sveitarfélög hækkuðu útsvar sitt um áramótin en önnur sveitarfélög hafa útsvarið óbreytt. Meðalútsvar í staðgreiðslu er óbreytt, 14,44%. Skattleysismörkin í staðgreiðslu hækkuðu um 4,7% og eru rúmlega 159 þús.kr. á mánuði, þegar tekið er tillit til frádráttar 4% iðgjalds í lífeyrissjóð.

   

  Þess má geta að við mitt ár 2019 fellur brott almennt úrræði til úttektar iðgjalda í séreignarlífeyrissjóð, til kaupa á fasteign eða niðurgreiðslu láns. Stuðningur til kaupa á fyrstu fasteign helst hins vegar óbreyttur.

   

  Barnabætur

  Fjárhæðir barnabóta hækkuðu um 5% milli áranna 2018 og 2019. Þá hækkuðu tekjuskerðingarmörk barnabóta um rúmlega 24% milli ára. Jafnframt var tekjuskerðing barnabóta aukin hjá tekjuhærri fjölskyldum. Þó eru skerðingarhlutföll sem eru 4%, 6% eða 8% eftir fjölda barna óbreytt upp að 5,5 millj.kr. árstekjum hjá einstæðum foreldrum og 11 millj.kr. hjá hjónum/sambýlisfólk. Ef tekjur fara umfram þau mörk hækka skerðingarhlutföll um 1,5 prósentustig og verða 5,5%, 7,5% og 9,5%.

   

  Vaxtabætur

  Fjárhæðir hámarksvaxtagjalda og -vaxtabóta hækkuðu um 5% og eignarmörk bótanna um 10% milli áranna 2018 og 2019.

   

  Tryggingagjald

  Skatthlutfall almenns tryggingagjalds lækkaði um 0,25 prósentustig í ársbyrjun 2019, úr 5,40% í 5,15%. Tryggingagjald í heild ásamt öðrum gjöldum sem reiknast á sama stofn í staðgreiðslu lækkaði því úr 6,85% í 6,60%.

   

  Krónutölugjöld

  Krónutölugjöld á eldsneyti, áfengi, tóbak o.fl. hækkuðu almennt um 2,5% um áramótin. Hið sama gildir um útvarpsgjald og gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra. Hækkunin er minni en sem nemur áætlaðri verðbólgu ársins og því lækka þau að raungildi á næsta ári. Kolefnisgjald hækkar þó meira eða um 10%.

   

  Vörugjöld á bílaleigubifreiðar

  Í ársbyrjun var skattastyrkur í formi afsláttar af vörugjöldum sem bílaleigur hafa notið við innflutning bifreiða afnuminn. Af því leiðir að bílaleigur greiða nú sama vörugjald og almennt þarf að greiða af fólksbifreiðum.

   

  Aukatekjur ríkissjóðs

  Aukatekjur ríkissjóðs hækka í samræmi við vísitölu neysluverðs. Aukatekjur ríkissjóðs hækka um tæplega 30% sem endurspeglar hækkun vísitölu neysluverðs yfir sama tímabil. en mörg gjaldanna höfðu haldist óbreytt frá árinu 2010.

   

  Í hlekk með fréttinni má finna samantekt fjármála- og efnahagsráðuneytisins á helstu skatta- og gjaldabreytingum sem tóku gildi í upphafi árs, ásamt töflum til skýringar.

 • Auðlegðarskattur - skýrleiki refsiheimilda

  Úr niðurstöðum úrskurðar yfirskattanefndar nr. 183/2018:

   

  „Eins og hér að framan greinir var þess krafist í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 12. desember 2017, að gjaldanda, A, yrði gerð sekt vegna þargreindra brota á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt. Að því er snertir þann þátt málsins, er laut að auðlegðarskatti, kom fram í bréfinu að gjaldandi hefði vanrækt að gera grein fyrir eignum sínum erlendis í formi verðbréfa og innlána í skattframtölum vegna tekjuáranna 2011 til og með 2013 og því hefði stofn til útreiknings auðlegðarskatts verið vanframtalinn umrædd ár. Ennfremur hefði gjaldandi ekki gert grein fyrir eignarhlut í Y ehf. í skattframtali árið 2012, að nafnvirði 500.000 kr. Var framangreind háttsemi gjaldanda talin hafa leitt til lægri stofns til auðlegðarskatts hans en vera bar gjaldárin 2012, 2013 og 2014 og þar með ákvörðunar lægri auðlegðar­skatts. Voru vanframtaldar eignir gjaldanda taldar hafa numið 33.571.892 kr. tekjuárið 2011, 44.828.602 kr. tekjuárið 2012 og 47.752.971 kr. tekjuárið 2013 og vanframtalinn auðlegðarskattur 671.438 kr. gjaldárið 2012, 896.575 kr. gjaldárið 2013 og 790.463 kr. gjaldárið 2014. Í bréfinu var framanlýst háttsemi gjaldanda talin varða við ákvæði 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003. Í greinargerð skattrannsóknarstjóra ríkisins fyrir sektarkröfu, dags. 12. desember 2017, kom jafnframt fram að gerð væri krafa um að gjaldanda yrði gerð sekt samkvæmt fyrrnefndu ákvæði.

   

  Í 1. málsl. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 kemur fram að skýri skattskyldur maður af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi rangt eða villandi frá einhverju því sem máli skiptir um tekjuskatt sinn skuli hann greiða fésekt allt að tífaldri skattfjárhæð af þeim skattstofni sem undan var dreginn og aldrei lægri fésekt en nemur tvöfaldri skattfjárhæðinni. Með 27. gr. laga nr. 129/2004, um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og fleiri lögum voru orðin „eða eignarskatt“ í 1. málsl. þessa ákvæðis felld brott. Kom fram í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 129/2004, að breytingin væri gerð til samræmis við önnur ákvæði laganna sem gerðu ráð fyrir því að eignarskattur bæði einstaklinga og lögaðila félli niður frá og með 31. desember 2005.

   

  Auðlegðarskattur var tekinn upp hér á landi á árinu 2009 með lögum nr. 128/2009, um tekjuöflun ríkisins. Með lögum þessum var bráðabirgðaákvæði XXXIII bætt við lög nr. 90/2003, um tekjuskatt, en umrætt ákvæði mælti fyrir um álagningu auðlegðarskatts á framtalsskyldar eignir samkvæmt 72. gr. laga nr. 90/2003 í lok áranna 2009, 2010 og 2011 við álagningu árin 2010, 2011, 2012 og 2013. Með lögum nr. 164/2011, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, var bráðabirgðaákvæði XLVII síðan bætt við lög nr. 90/2003 og álagning auðlegðarskatts framlengd til ársins 2014, en í ákvæði þessu er mælt fyrir um álagningu auðlegðarskatts við álagningu opinberra gjalda á árunum 2012, 2013 og 2014. Hvorki með lögum nr. 128/2009 né lögum nr. 164/2011 voru gerðar neinar breytingar á 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 eða öðrum refsiákvæðum þeirra laga. Þá hafa greind bráðabirgðaákvæði XXXIII og XLVII í lögum nr. 90/2003 ekki að geyma nein fyrirmæli um refsingar vegna vanframtalinna eigna.

   

  Samkvæmt framansögðu lýtur ákvæði 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 að saknæmri rangfærslu skattskila sem máli skiptir um tekjuskatt manns. Ákvæði þetta verður því ekki talið veita viðhlítandi lagastoð fyrir því að gjaldandi í máli þessu hafi unnið sér til refsingar með því að vanframtelja eignir í skattskilum þannig að þýðingu hafi vegna álagningar auðlegðarskatts samkvæmt bráðabirgðaákvæðum XXXIII og XLVII í lögum nr. 90/2003, sbr. viðtekin sjónarmið íslensks réttar um skýrleika refsiheimilda. Samkvæmt því verður gjaldanda ekki gerð sekt vegna meints vanframtalins auðlegðarskattsstofns.

   

  Með úrskurði yfirskattanefndar nr. 165/2018 var gjaldanda gerð sekt að fjárhæð 11.500.000 kr. vegna brota á skattalögum er þar greinir. Að því er snertir þann þátt málsins, sem varðaði vanframtalinn auðlegðarskattsstofn, var lagt til grundvallar að vanálagður auðlegðarskattur næmi 671.438 kr. gjaldárið 2012, 896.575 kr. gjaldárið 2013 og 790.463 kr. gjaldárið 2014. Þá var tekið mið af ákvæði 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 við ákvörðun sektar, en ákvæðið gerir ráð fyrir því að sekt skuli aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, þó að teknu tilliti til álags. Að þessu virtu þykir bera að lækka áður ákvarðaða sekt gjaldanda til ríkissjóðs um 4.100.000 kr. eða úr 11.500.000 kr. í 7.400.000 kr.“

   

  Í hlekk með fréttinni má finna úrskurð yfirskattanefndar í heild sinni.

 • Fyrningarreglur í sjávarútvegi

  Ágreiningur málsaðila snérist annars vegar um endurákvörðun skatta stefnanda samkvæmt úrskurðum skattstjóra vegna gjaldáranna 2004-2009. Snérist ágreiningur aðila einkum um annars vegar heimild stefnenda til að hækka bókfært verð eigna í atvinnurekstri sínum með vísan til matverðs samkvæmt 23. og 25. gr. laga nr. 144/1994 um ársreikninga. Hins vegar var deilt um heimild stefnenda til að færa verðmæti veiðiheimilda niður vegna skerðingar á úthlutuðu aflamarki milli ára.

   

  Í 33. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt er fjallað um fyrnanlegar eignir. Óumdeilt var að eignir þær sem stefnendur töldu heimilt að fyrna féllu undir 1. tölulið 33. gr. laga nr. 90/2003. Stefnandi miðaði fyrningargrundvöll eigna við matsverð þeirra. Var það talið óheimilt enda er skýrt um það kveðið í 2. mgr. 36. gr. laga nr. 90/2003 að miða skuli fyrningargrundvöll eigna við stofnverð þeirra en ekki matsverð og reglur um ársreikninga hagga ekki þeirri niðurstöðu. Var úrskúrður skattstjóra um endurákvörðun gjalda stefnanda til samræmis við fyrningargrunn eignanna samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga nr. 90/2003 því í samræmi við lög. Að mati dómsins voru þær reglur tekjuskattslaga sem hér um ræðir skýrar og ótvíræðar.

   

  Í 1. mgr. 48. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt segir að eigi sé heimilt að fyrna stofnkostnað við kaup á réttindum sem rýrna ekki við notkun.  Til stofnkostnaðar samkvæmt málsgreininni telst m.a. keyptur réttur til nýtingar á náttúruauðæfum, svo sem kaup á varanlegri aflahlutdeild og sambærilegum réttindum. Þá segir í 3. mgr. greinarinnar að verðmæti keyptra réttinda sem ekki sé heimilt að fyrna sé eigi heimilt að færa til frádráttar skattskyldum tekjum. Við þetta er gerður sá fyrirvari í lokaorðum greinarinnar að heimilt er að telja til rekstararkostnaðar verðmæti þessara réttinda ef þau falla niður eða hlutfallslega ef þau eru skert verulega lögum samkvæmt. Aflahlutdeild er varanlegur réttur til ákveðinnar hlutdeildar af heildarafla, eins og hann er ákveðinn fyrir hvert fiskveiðiár skv. lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Aflamark skips á hverju veiðitímabili ræðst þannig af leyfðum heildarafla og hlutdeild skipsins í þeim heildarafla. Það er því ljóst að að árleg ákvörðun á aflamarki stefnanda fól ekki í sér skerðingu á aflahlutdeild þeirra. Samkvæmt óvíræðum fyrirmælum 1. mgr. 48. gr. laga nr. 90/2003 var stefnendum því ekki heimilt að að fyrna keypta aflahlutdeild við skattskil sín.

   

  Nánar úr forsendum héraðsdóms, staðfestum af Landsrétti:

   

  „Svo sem áður er rakið snýst ágreiningur málsaðila annars vegar um ákvarðanir skattstjóra og ríkisskattstjóra um að lækka gjaldfærðar fyrningar stefnenda samkvæmt rekstrarskýrslum þeirra með vísan til þess að þeim hafi verið óheimilt að hækka bókfært verð eigna í atvinnurekstri sínum með vísan til 50. og 51. gr. laga nr. 133/2001 með tilliti til matsverðs eignanna á hverju ári. Hins vegar er deilt um heimild stefnenda til að færa verðmæti veiðiheimilda niður vegna skerðingar á úthlutuðu aflamarki fyrir fiskveiðiárið 2007/2008.

   

  A

  Svo sem rakið er í úrskurði skattstjóra 9. júní 2009 er fjallað um fyrnanlegar eignir í 33. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Er ekki um það deilt að þær eignir sem stefnendur töldu heimilt að fyrna féllu undir 1. tölulið greinarinnar. Í 2. mgr. 36. gr. laganna er fjallað um fyrningargrunn eigna og kemur þar ótvírætt fram að miða beri fyrningargrunn eigna samkvæmt 1. tölulið 33. gr. laganna við stofnverð þeirra, sbr. 2. mgr. 12. gr., að frádregnum áður fengnum fyrningum. Samkvæmt þessu var ekki að finna í lögum heimild til handa stefndu til að miða fyrningargrunn eigna við matsverð eignanna og geta reglur um ársreikninga ekki haggað þeirri niðurstöðu. Var úrskurður skattstjóra um endurákvörðun gjalda stefnenda til samræmis við fyrningargrunn eignanna samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga nr. 90/2003 því í samræmi við lög. Er ekki á því byggt að með þessari ákvörðun hafi verið brotið gegn jafnræði stefnenda eða eignarréttindum, eins og þessi réttindi eru vernduð af stjórnlögum. Þá er haldlaus sú málsástæða stefnenda að þeim hafi verið heimilt að haga skattskilum sínum með áðurgreindum hætti með vísan til skattareglna um rekstrartjón. Í málinu er ekki gerður tölulegur ágreiningur um útreikninga skattstjóra við lækkun á fyrningargrunni eigna stefnenda og lækkun frádráttar af þeim sökum. Samkvæmt þessu er að fullu fallist á rökstuðning skattstjóra í úrskurði hans 9. júní 2009 að því er varðar endurákvörðun gjalda stefnenda af þessum sökum.

  Að mati dómsins voru þær reglur skattalaga sem hér var um að ræða skýrar og ótvíræðar og því engin efni til að fella niður það álag sem skattstjóri gerði stefnendum samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 með heimild í 3. mgr. sömu greinar.

   

  B

  Með dómi Hæstaréttar 18. nóvember 1993 í máli nr. 291/1993 var komist að þeirri niðurstöðu að keypt aflahlutdeild teldist til skattskyldra eigna í skilningi laga um tekjuskatt og eignaskatt. Hins vegar var komist að þeirri niðurstöðu að þótt aflahlutdeild yrði að sönnu, eftir strangri orðskýringu, ekki talin rýrna að verðmæti við eðlilega notkun eða aldur þætti ekki varhugavert að telja hana til réttinda sem væru fyrnanleg samkvæmt þágildandi 32. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignaskatt, eins og lögunum hafði síðar verið breytt. Líkt og vikið er að í greinargerð stefnda brást löggjafinn við því réttarástandi sem skapast hafði með téðum dómi Hæstaréttar með setningu laga nr. 118/1997 sem bættu sérstökum ákvæðum, 50. gr. A, við þágildandi lög nr. 75/1981. Svarar greinin efnislega til núgildandi 48. gr. laga nr. 90/2003 og eru þar tekin af tvímæli í 1. mgr. greinarinnar um að stofnkostnað við kaup á réttindum, sem ekki rýrni vegna notkunar, sé óheimilt að fyrna. Er þar sérstaklega tekið fram að til stofnkostnaðar samkvæmt málsgreininni teljist meðal annars keyptur réttur til nýtingar á náttúruauðæfum, svo sem kaup á varanlegri aflahlutdeild og sambærilegum réttindum. Þá segir í 3. mgr. greinarinnar að verðmæti keyptra réttinda sem ekki sé heimilt að fyrna sé eigi heimilt að færa til frádráttar skattskyldum tekjum. Við þetta er gerður sá fyrirvari í lokaorðum greinarinnar að heimilt er að telja til rekstrarkostnaðar verðmæti þessara réttinda ef þau falla niður eða hlutfallslega ef þau eru skert verulega lögum samkvæmt.

  Svo sem ítarlega er rakið í úrskurði yfirskattanefndar 22. júlí 2011 í máli nr. 185/2011 er aflahlutdeild varanlegur réttur til ákveðinnar hlutdeildar af heildarafla, eins og hann er ákveðinn fyrir hvert fiskveiðiár samkvæmt núgildandi 1. mgr. 3. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Aflamark skips á hverju veiðitímabili eða vertíð ræðst þannig af leyfðum heildarafla viðkomandi tegundar og hlutdeild skipsins í þeim heildarafla, sbr. 4. mgr. 8. gr. laga nr. 116/2006. Svo sem einnig er rakið í téðum úrskurði yfirskattanefndar hefur 48. gr. laga nr. 90/2003 ekki verið talin taka til kostnaðar við kaup á aflamarki sem úthlutað hefur verið á grundvelli aflahlutdeildar en er óveitt á kaupdegi, enda er þar ekki um að ræða varanlegan veiðirétt. Í aðilaskýrslu stefnanda Óskars Karls fyrir dómi kom hins vegar fram að hann hefur ekki keypt veiðiheimildir til afmarkaðs tíma á þessum grundvelli eða leigt kvóta, eins og það er kallað í daglegu tali, á þeim tíma sem hér um ræðir. Samkvæmt framangreindu er ljóst að árleg ákvörðun á aflamarki stefnenda fól ekki í sér skerðingu á aflahlutdeild þeirra. Samkvæmt ótvíræðum fyrirmælum 1. mgr. 48. gr. laga nr. 90/2003 var stefnendum þar af leiðandi óheimilt að fyrna keypta aflahlutdeild við skattskil sín. Af sömu ástæðum verður ekki á það fallist að téð réttindi hafi fallið niður eða verið skert í skilningi lokaorða 3. mgr. 48. gr. laga nr. 90/2003.

  Líkt og rakið er í úrskurði yfirskattanefndar tekur 35. gr. laga nr. 90/2003, sem fjallar um rekstrartjón, aðeins til fyrnanlegra eigna og getur hún, þegar af þeirri ástæðu, ekki tekið til aflahlutdeildar. Þá tekur dómurinn undir það sem fram kemur í úrskurðinum, að ekkert liggur fyrir í málinu um að aflahlutdeild stefnenda hafi rýrnað að verðmæti á þeim tímabilum sem hér er um að ræða. Líkt og fram kemur í greinargerð stefnda fyrir dómi hefur 25% álag sem ríkisskattstjóri bætti við hækkun skattstofna stefnenda fyrir gjaldárið 2009 þegar verið fellt niður með fyrrnefndum úrskurði yfirskattanefndar og breyttu stefnendur kröfugerð sinni til samræmis við þetta við aðalmeðferð málsins.

  Samkvæmt framangreindu er það álit dómsins að þær ákvarðanir skattyfirvalda sem um er deilt í málinu hafi í öllum atriðum verið í samræmi við skýr og ótvíræð fyrirmæli laga. Þá liggur fyrir að álag samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra 2. mars 2010 var fellt niður með áðurgreindum úrskurði yfirskattanefndar eftir að málið var höfðað. Að frátalinni ákvörðun skattstjóra um beitingu 25% álags samkvæmt úrskurðinum 9. júní 2009 er því ekki unnt að líta svo á, við ákvörðun málskostnaðar, að uppi hafi verið vafaatriði í málinu eða atvik að öðru leyti þannig að réttlætanlegt sé að fella málskostnað að fullu niður, sbr. 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt þessu verða stefnendur dæmdir sameiginlega til að greiða stefnda stærstan hluta málskostnaðar hans sem þykir hæfilega ákveðinn 500.000 krónur að teknu tilliti til umfangs málsins. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.“

   

  Í hlekk með frétt þessari er að finna dóm Landsréttar í heild sinni.

   

 • Ársskýrsla RSK 2017

  Fram kemur í skýrslunni m.a. að álagning einstaklinga verið birt fyrr og að opnun netframtals einstaklinga og framtalsfrestir voru fyrr á árinu en venjan hafði verið áður. 80% allra skattframtala einstaklinga fengu sjálfkrafa álagningu eftir vélræna yfirferð. Á framtali lögaðila var aukin sundurliðun eiginfjárreikninga á efnahagshlið framtalsins. Áhersla var lögð á að framtölum lögaðila væri skilað jafnt og þétt yfir árið og að framtölum stærri lögaðila væri skilað eigi síðar en 31. maí.

   

  Almennt er skýrslunni ætla að varpa ljósi á starfsemi embættisins í víðu ljósi. Fjallað er um sérgreind verkefni tengd milliverðlagningu svo dæmi séu tekin. Auk þess má lesa úr tölulegum upplýsingum um þróun framtalsskila, fjölda kæra og erinda einstaklinga og lögaðila sem og þá þróun sem átt hefur sér stað í uppgjöri virðisaukaskatts síðustu tveggja ára.

   

  Í hlekk með fréttinni má finna skýrsluna í heild sinni.

 • Skattfrjáls ráðstöfun séreignasparnaðar - lagaskil

  Í þessu máli hafði ríkisskattstjóri hafnað umsókn kæranda um nýtingu séreignarsparnaðar vegna kaupa á fyrstu íbúð, sbr. lög nr. 111/2016, um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð. Kærandi hafði ráðstafað séreignarsparnaði til greiðslu húsnæðislána á grundvelli laga nr. 40/2014 og sótti um áframhaldandi ráðstöfun séreignarsparnaðarins á grundvelli laga. nr. 111/2016. Kærandi hafði skipt um íbúð á árinu 2016, þ.e. fyrir gildistöku laga nr. 111/2016 þann 1. júlí 2017.  Vísaði Ríkisskattstjóri til þess að að skv. 2. mgr. 2. gr. laganna væri skilyrði úttektar á séreignarsparnaði að rétthafi hefði ekki áður átt íbúðarhúsnæði en skv. upplýsingum í fasteignaskrá hafði kærandi verið skráður eigandi að íbúðarhúsnæði við A frá 25. ágúst 2014 til 26. júlí 2016 áður en hann eignaðist íbúðarhúsnæði við B þann 26. júlí 2016.

   

  Ríkisskattstjóri taldi 4. mgr. 2. gr. laga nr. 111/2016 ekki eiga við þar sem íbúðarskipti kæranda fóru fram fyrir gildistöku laga nr. 111/2016 en ákvæðið kveður á um heimild rétthafa til að ráðstafa viðbótariðgjaldi samkvæmt lögunum fellur ekki niður þótt rétthafi selji íbúðina og kaupi sér nýja íbúð í stað þeirrar sem seld var. Skilyrði er að skipti á íbúð fari fram innan tíu ára tímabilsins, sbr. 3. mgr. sömu greinar, og að kaup rétthafa á nýrri íbúð fari fram innan tólf mánaða frá síðustu sölu þeirrar íbúðar sem veitti rétt til úttektar séreignarsparnaðar samkvæmt lögunum. Er tekið fram að rétthafa sé heimilt að ráðstafa viðbótariðgjaldi inn á lán með veði í hinni nýju íbúð þangað til hinu tíu ára samfellda tímabili lýkur.

  Kærandi kærði ákvörðun Ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar og krafðist þess að henni yrði hnekkt. Niðurstaða yfirskattanefndar var sú að ekki skyldi túlka ákvæði laga nr. 111/2016 þannig að áframhaldandi nýting réttinda sé einvörðungu möguleg hafi ekki komið til íbúðarskipta rétthafa fyrir gildistöku laganna þann 1. júlí 2017, eins og byggt er á af hálfu ríkisskattstjóra. Krafa kæranda var því tekin til greina.

   

  Úr niðurstöðum úrskurðar yfirskattanefndar nr. 162/2018:

   

  „Fram er komið í málinu að kærandi keypti íbúð að [A] þann 25. ágúst 2014. Í umsögn ríkisskattstjóra er rakið að kærandi hafi í kjölfar þessa sótt um útgreiðslu og ráðstöfun séreignarsparnaðar vegna öflunar húsnæðisins á grundvelli laga nr. 40/2014 og hafi þær umsóknir verið samþykktar[...]. Kemur fram að kærandi hafi síðan ráðstafað séreignarsparnaði til greiðslu inn á höfuðstól húsnæðislána, fyrst lána vegna húsnæðisins að [A] en síðan lána vegna húsnæðis að [B] sem kærandi keypti með kaupsamningi, dags. 27. júlí 2016. Er ljóst að hér var um að ræða ráðstöfun iðgjalda á grundvelli bráðabirgðaákvæðis XVI í lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sbr. 1. gr. laga nr. 40/2014. Kærandi mun hafa selt íbúðina að [A] á árinu 2016. Eins og fyrr greinir öðluðust lög nr. 111/2016 gildi þann 1. júlí 2017. Hinn 18. desember 2017 sótti kærandi um ráðstöfun séreignarsparnaðar á grundvelli laga nr. 111/2016 inn á höfuðstól láns sem tekið var vegna öflunar húsnæðisins að [B]. Með hinni kærðu ákvörðun sinni, dags. 19. maí 2018, hafnaði ríkisskattstjóri umsókninni á þeirri forsendu að ekki væri um að ræða kaup fyrstu íbúðar í skilningi 2. mgr. 2. gr. laga nr. 111/2016, enda hefði kærandi verið skráður eigandi íbúðar að [A] frá 25. ágúst 2014 til 26. júlí 2016.

   

  Samkvæmt [...] ákvæði 3. mgr. 8. gr. laga nr. 111/2016 er rétthafa, sem hefur nýtt sér ákvæði til bráðabirgða XVI og/eða eftir atvikum XVII í lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota, heimilt að ráðstafa viðbótariðgjaldi inn á höfuðstól láns sem tryggt er með veði í íbúðinni og eftir því sem við á afborganir láns uns samfelldu tíu ára tímabili er náð, sbr. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 111/2016. Skilyrði er þó að um fyrstu kaup á íbúðarhúsnæði hafi verið að ræða. Síðastnefnt ákvæði verður að skýra svo að með því sé gerður áskilnaður um að til ráðstafana samkvæmt bráðabirgðaákvæðum XVI og/eða eftir atvikum XVII í lögum nr. 129/1997 hafi í öndverðu verið gripið vegna öflunar á fyrstu íbúð rétthafa. Þykir orðalag ákvæðisins frekast hníga að þessum skilningi. Þá kemur ekkert fram í lögskýringargögnum sem bendir til þess að túlka beri ákvæði 3. mgr. 8. gr. laga nr. 111/2016 á annan hátt að þessu leyti, þ.e. þannig að áframhaldandi nýting réttinda sé einvörðungu möguleg hafi ekki komið til íbúðarskipta rétthafa fyrir gildistöku laganna þann 1. júlí 2017, eins og byggt er á af hálfu ríkisskattstjóra. Loks verður að telja greindri niðurstöðu til styrktar að íbúðarskipti á samfelldu tíu ára ráðstöfunartímabili séreignarsparnaðar hafa almennt ekki í för með sér missi réttinda samkvæmt lögum nr. 111/2016, sbr. 4. mgr. 2. gr. þeirra.

   

  Með vísan til þess, sem hér að framan greinir, og þar sem fyrir liggur að kærandi sótti um áframhaldandi ráðstöfun iðgjalda á grundvelli laga nr. 111/2016 innan lögboðins sex mánaða frests samkvæmt 4. mgr. 8. gr. nefndra laga, er krafa kæranda í máli þessu tekin til greina.“

   

   

  Í hlekk með fréttinni má finna úrskurðinn í heild sinni.

 • Frumvarp um aukinn stuðning við rannsóknir, þróun og nýsköpun

  Fjármála- og efnahagsráðherra hefur með frumvarpi lagt til breytingar sem fela í sér að hækkaðar verði núgildandi viðmiðunarfjárhæðir skattafrádráttar vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar nýsköpunarfyrirtækja sem er að finna í lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009. Annars vegar felur tillagan í sér að hámark á rannsóknar- og þróunarkostnaði til almennrar viðmiðunar á frádrætti hækki úr 300 millj. kr. í 600 millj. kr., ef viðkomandi fyrirtæki er eigandi að rannsóknar eða þróunarverkefnum. Hins vegar er lagt til í frumvarpinu að hámark á rannsóknar- og þróunarkostnaði  til viðmiðunar á frádrætti hækki úr 450 millj. kr. í 900 millj. kr. þegar rannsóknar- og þróunarvinna er keypt af ótengdu fyrirtæki, háskóla eða stofnun.

   

  Breytingarnar eru gerðar í því augnamiði að auka verulega stuðning við rannsóknir og tækniþróun nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi. Núgildandi kerfi skattaívilnana hefur að sögn ráðherra stuðlað að arðbærum rannsóknum og þróun fyrirtækja og þykir það rétt skref að tvöfalda núgildandi hámark.

   

  EES-samningurinn setur því skorður hvernig hinu opinbera er heimilt að styrkja atvinnurekstur með skattaívilnunum. Hvers kyns ríkisaðstoð sem hefur áhrif á viðskipti samningsaðila er óheimil nema á annan veg er mælt í samningum. Undanþágur frá meginreglunni eru meðal annars útfærðar í hópundanþágureglugerðum frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn.

   

  Ráðherra telur ekki tækt að afnema fjárhæðarþak viðmiðunarfjárhæða skattfrádráttar vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar nýsköpunarfyrirtækja enda hefði það í för með sér að skattívilnunin félli ekki lengur undir hópundanþágureglugerðina. Af því leiðir að tilkynna þyrfti og bíða eftir samþykki ESA um hverja skattívilnun til hvers og eins í hvert sinn.

   

  Í hlekk með fréttinni má finna frumvarpið í heild sinni.