Velkomin á heimasíðu Skattatíðinda.is

Breytingar á sköttum og öðrum opinberum gjöldum eru tíðar. Breytingarnar skipta einstaklinga og fyrirtæki miklu máli og því er mikilvægt að fylgjast vel með. Á heimasíðu Skattatíðinda má ávallt nálgast nýjustu upplýsingar á aðgengilegan og einfaldan hátt.

 

Ef einhverjar spurningar vakna eru starfsmenn KPMG ehf. ávallt reiðubúnir að aðstoða.

E.g., 2017-11-18
E.g., 2017-11-18
 • Erfðafjárskattur - sjóður er starfar að almannaheillum

  Úr úrskurði yfirskattanefndar nr. 158/2017:

  Hvorki verður ráðið af orðalagi 5. mgr. 1. gr. laga nr. 14/2004 né af lögskýringargögnum hvað heyri til almannaheilla samkvæmt ákvæðinu og ekki er öðrum ákvæðum um almannaheill til að dreifa í lögunum. Á hinn bóginn er víða í skattalöggjöf að finna dæmi þess að almenningsheill leiði til skattfrelsis, undanþágu frá skattskyldu eða frádráttarheimildar. Verður þar fyrst fyrir ákvæði 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þar sem tekið er fram að undanþegnir séu skattskyldu „þeir lögaðilar sem um ræðir í 2. gr. og eiga hér heimili, ef þeir verja hagnaði sínum einungis til almenningsheilla og hafa það að einasta markmiði samkvæmt samþykktum sínum“. Samkvæmt 3. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003 má draga frá tekjum manna samkvæmt II. kafla laganna, sem ekki eru tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi tekjur samkvæmt 4. tölul. A-liðar 7. gr. sem skattfrjálsar eru samkvæmt sérlögum eða vinninga í happdrættum sem fengið hafa leyfi viðeigandi ráðuneytis, enda sé öllum ágóða af þeim varið til menningarmála, mannúðarmála eða kirkjulegrar starfsemi. Nefna má einnig þá frádráttarheimild gjafa um ræðir í 2. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, en samkvæmt ákvæði þessu má draga frá tekjum lögaðila og þeim tekjum manna sem stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi eða eru tengdar slíkum rekstri einstakar gjafir eða framlög til kirkjufélaga, viðurkenndrar líknarstarfsemi, menningarmála, stjórnmálaflokka og vísindalegra rannsóknarstarfa svo sem nánar greinir. Málaflokkar sem geta fallið undir þessa frádráttarheimild eru nánar skilgreindir í 16. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Einnig má geta 2. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, þar sem kveðið er á um heimild sveitarstjórnar til að veita styrki til greiðslu fasteignaskatts af fasteignum þar sem fram fari starfsemi sem ekki sé rekin í ágóðaskyni, svo sem menningar-, íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarfsemi og mannúðarstörf. Af framangreindum lagaákvæðum verður ályktað að í því samhengi sem þar um ræðir megi leggja kirkjulega starfsemi og menningarmál að jöfnu við líknar- og mannúðarstarf og viðlíka starfsemi þar sem ágóða er eingöngu varið til kjarnastarfsins. Ráðið verður af fyrrgreindum ákvæðum í 1. og 3. gr. skipulagsskrár fyrir kæranda að tilgangur kæranda sé kirkjulegur og að nokkru leyti menningarlegur. Að því leyti sem skilja má forsendur sýslumanns þannig að hann hafi talið vettvangi kæranda of þröngur stakkur skorinn til að um almannaheill gæti verið að ræða, skal tekið fram að engin ástæða þykir vera til að draga í efa að almenningur hafi bæði aðgang að K-kapellu og hinum gamla kirkjugarði þar sem er að finna kirkjustæði hennar og geti fengið notið almennra kirkjulegra athafna í kapellunni. Að þessu gættu þykir bera að fallast á það með kæranda að sjóðurinn starfi að almannaheillum í skilningi 5. mgr. 1. gr. laga nr. 14/2004

 • Erfðafjárskattur - fyrirframgreiddur arfur

  Úr úrskurði yfirskattanefndar nr. 155/2017:

  Krafa kæranda um frádrátt þeirra skulda sem um ræðir er byggð á ákvæði 5. gr. laga nr. 14/2004 þar sem fram kemur að skuldir arfleifanda, þar með talið væntanleg opinber gjöld, skuli koma til frádráttar áður en erfðafjárskattur er reiknaður, svo og útfararkostnaður arfleifanda. Ákvæði þetta þykir bera að skýra samkvæmt hljóðan sinni og í samræmi við ákvæði 1. mgr. 4. gr. sömu laga þannig að það heimili frádrátt allra skulda látins manns frá skattstofni erfðafjárskatts, þ.e. heildarverðmæti fjárhagslegra verðmæta og eigna sem liggja fyrir við andlát arfleifanda. Á hinn bóginn verður ekki talið að ákvæði þetta heimili að neinu leyti frádrátt tilgreindra skulda arfláta frá skattstofni vegna eigna sem látnar eru í té sem fyrirframgreiðsla upp í arf, enda tekur ákvæðið samkvæmt framansögðu einvörðungu til arfs við andlát. Hér verður og ekki litið framhjá því að við skipti á dánarbúi látins manns geta erfingjar almennt gengist við arfi og skuldum í samræmi við reglur laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl., þannig að þeir beri eftirleiðis sjálfskuldarábyrgð, einn fyrir alla og allir fyrir einn, á öllum skuldbindingum sem kunna að hvíla á dánarbúinu og gjöldum sem leiða af skiptum búsins eða arftöku, sbr. ákvæði 5. tölul. 28. gr. og 97. gr. laga nr. 20/1991, sbr. ennfremur 3. mgr. 80. gr. sömu laga. Verður kröfueigandi að hlíta slíkum aðilaskiptum að skuldasambandi sem fara fram í samræmi við reglur laga nr. 20/1991. Þessu er ekki að heilsa þegar eignir eru látnar í té sem fyrirframgreiðsla upp í arf. Er ljóst að slík ráðstöfun hefur almennt engin áhrif á stöðu arfleifanda gagnvart skuldheimtumönnum, hvorki almennt né sérstaklega í tilviki kröfuhafa sem kunna að eiga veðréttindi eða annars konar tryggingarréttindi í eign þeirri sem afhent er sem fyrirframgreiðsla upp í arf. Eigi slík ráðstöfun að leiða til aðilaskipta að viðkomandi kröfu á hendur arfleifanda þarf þannig að koma til sérstakra ráðstafana að lögum með öflun samþykkis þess erfingja er við tekur fyrir yfirtöku skulda og samþykkis kröfuhafa við skuldaraskiptum (skuldskeytingu). Verður að telja að sérstaklega hefði þurft að taka fram um það í lögum nr. 14/2004 ef taka bæri tillit til skulda arfleifanda með einhverjum hætti þegar arfur er goldinn fyrirfram. Með vísan til þess, sem hér að framan greinir, verður að telja að lagaheimild skorti fyrir hinum umkrafða frádrætti skulda frá skattstofni erfðafjárskatts vegna fyrirframgreiðslu arfs til kæranda. Er kröfu kæranda í máli þessu því hafnað.

 • Kvikmyndagerð - endurgreiðsla

  Úr úrskurði yfirskattanefndar nr. 154/2017:

  Samkvæmt þágildandi ákvæði c-liðar 1. mgr. 4. gr. laga nr. 43/1999 var eitt af skilyrðum endurgreiðslu á grundvelli laganna að stofna skyldi sérstakt félag um framleiðsluna á Íslandi, en íslenskt útibú eða umboðsskrifstofa félags sem skráð væri í aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið teldist sérstakt félag í þessum skilningi. Fyrir liggur að kærandi stofnaði félagið Y ehf. í þessum tilgangi, en samkvæmt gögnum frá fyrirtækjaskrá var Y ehf. stofnað með lágmarkshlutafé, þ.e. 500.000 kr. Sem fyrr segir var kærandi að fullu í eigu X ehf., en í kæru til yfirskattanefndar kemur fram að X ehf. hafi verið framleiðandi sjónvarpsþáttaraðarinnar. Fyrir liggur í málinu að ekki var gerður lánssamningur milli X ehf. og Y ehf. um lán milli félaganna. Þá var vaxtareikningur óhefðbundinn, þ.e. vextir voru reiknaðir og færðir í heilu lagi við lok verkefnisins. Þegar litið er til þeirra tengsla sem eru milli umræddra félaga og rakin eru hér að ofan, sem og tilgangs með stofnun Y ehf., er naumast hægt að líta öðruvísi á hið umdeilda lán X ehf. til Y ehf. en sem fjárframlag X ehf. til framleiðslunnar sem framleiðanda verkefnisins eða sem stofnfé til Y ehf. Í þessu sambandi skal tekið fram til hliðsjónar að samkvæmt 3. tölul. 50. gr. laga nr. 90/2003 telst ekki til rekstrarkostnaðar samkvæmt 31. gr. sömu laga arður eða vextir af framlögðu fé manns til atvinnurekstrar eða sjálfstæðrar starfsemi, hvort heldur reksturinn er á eigin ábyrgð eiganda eða með ótakmarkaðri ábyrgð í sameign með öðrum, sbr. og 2. mgr. 2. gr. laganna. Með hliðsjón af öllu framangreindu verður því að taka undir með endurgreiðslunefnd í því að gjaldfærður vaxtakostnaður að fjárhæð 10.623.441 kr. vegna tilfærðs láns X ehf. til Y ehf. myndi ekki stofn til endurgreiðslu á grundvelli laga nr. 43/1999, um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

   

  Samkvæmt því sem fram er komið í málinu hafnaði nefnd um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar ennfremur að telja með í stofni til endurgreiðslu kostnað að fjárhæð 5.309.297 kr. með því að kostnaðurinn hefði fallið til utan Evrópska efnahagssvæðisins. Af hálfu kæranda er um þetta kæruatriði byggt á því að öll framleiðsla sjónvarpsþáttaraðarinnar hafi farið fram hér á landi og verði því að líta svo á að allur kostnaður við framleiðsluna hafi fallið til hér á landi í skilningi laga nr. 43/1999. Það að framleiðslukostnaður eigi uppruna sinn erlendis verði ekki túlkað þannig að hann falli til erlendis þegar framleiðslan sjálf fari að öllu leyti fram hér á landi. Svo sem rakið er hér að framan er kveðið á um það í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 43/1999, eins og ákvæðinu var breytt með 2. gr. laga nr. 177/2000, að falli meira en 80% af heildarframleiðslukostnaði kvikmyndar eða sjónvarpsefnis til á Íslandi skuli endurgreiðsla reiknast af þeim heildarframleiðslukostnaði sem falli til á Evrópska efnahagssvæðinu. Tekið skal fram að fyrir lagabreytingu þessa var eingöngu heimilt að endurgreiða hlutfall þess framleiðslukostnaðar sem féll til á Íslandi. Í athugasemdum við 2. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 177/2000 kom fram að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefði gert athugasemdir við þá framkvæmd að miða aðeins við framleiðslukostnað sem félli til á Íslandi og að með því væri brotið gegn ákvæðum EES-samningsins um þjónustufrelsi. Byggðist sú skoðun á fordæmum og viðmiðum sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefði sett fram í sambærilegum málum. Því væri lagt til að ákvæðinu yrði breytt til samræmis við þær tillögur og viðmið og ákvæðið gert sambærilegt því sem gerðist annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu. Voru því næst rakin nokkur skýringardæmi í athugasemdum við frumvarpið þar sem skýrt kemur fram að kostnaður sem fellur til í löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins er ekki í neinum tilvikum reiknaður inn í stofn til endurgreiðslu. Með hliðsjón af framangreindu standa engin rök til þess að fallast á málatilbúnað kæranda um að líta verði svo á að hinn umdeildi kostnaður hafi fallið til hér á landi í skilningi laga nr. 43/1999 og myndi þannig stofn til endurgreiðslu. Verður ákvörðun endurgreiðslunefndar því látin standa óhögguð um þetta kæruefni.

 • Starfssamband - vinnusamningur - verksamningur

  Úr úrskurði yfirskattanefndar nr. 151/2017: 

  Eins og fram er komið hefur sérstaka þýðingu varðandi mat á starfssambandi hvernig farið er endurgjaldi, fjárhæð þess og greiðslufyrirkomulagi. Hvað þetta varðar liggur fyrir að um var að ræða fastar, mánaðarlegar greiðslur X ehf. til R ehf. þau ár sem um ræðir vegna hinna umdeildu starfa kæranda. Eins og rakið er að framan námu greiðslurnar 545.900 kr. á mánuði árið 2013 og 577.700 kr. á mánuði árið 2014 auk virðisaukaskatts sem tóku mið af 53 klst. vinnu á mánuði við „sölu- og markaðsráðgjöf“. Verður ekki séð að greiðslur þessar hafi að neinu leyti verið tengdar árangri eða afköstum að neinu leyti, enda hefur kærandi ekki gert neina grein fyrir ákvörðun greiðslna á slíkum grundvelli. Þvert á móti er komið fram að samið hafi verið um greiðslufyrirkomulag og fjárhæðir í upphafi hvers árs. Verður að taka undir það með ríkisskattstjóra að viðmiðun endurgjalds vegna umræddra starfa, greiðsla þess og uppgjör beri rík einkenni vinnusamnings.

   

  Samkvæmt því, sem að framan er rakið, er ljóst að mörg þau atriði, sem almennt eru höfð til viðmiðunar við mat á því hvort um verk- eða vinnusamning er að ræða, þar á meðal þau atriði sem mest vægi hafa í þessum efnum, benda til vinnusamnings í þessu tilfelli. Miðað við þá lýsingu sem fram hefur komið á umsömdum verkefnum fyrir X ehf., sbr. hér að framan, þykir sú staðreynd að kærandi var á greindum árum launþegi hjá félaginu jafnframt styrkja þá niðurstöðu að hinar umdeildu greiðslur þess til R ehf. hafi í reynd grundvallast á vinnusamningi við kæranda en ekki verksamningi milli einkahlutafélaganna. Er því fallist á þá ályktun ríkisskattstjóra að virða beri umrætt samningssamband sem vinnusamning en ekki verksamning. Af niðurstöðu um samningssambandið leiðir jafnframt að það telst hafa verið milli kæranda sjálfs og X ehf. svo sem ríkisskattstjóri hefur talið, sbr. og úrskurðaframkvæmd í málum af hliðstæðum toga. Fyrrgreindar greiðslur teljast samkvæmt þessu tilheyra kæranda en ekki einkahlutafélagi hans, R ehf. Samkvæmt framansögðu er aðalkröfu kæranda í málinu hafnað.

 • Opinber gjöld lögaðila rekstrarárið 2016

  Í töflunni hér að neðan má sjá skiptingu opinberra gjalda lögaðila 2016 og 2017.

   

  Tafla: Opinber gjöld lögaðila 2016 og 2017

   

   

   

 • Persónuvernd - vinnsla persónuupplýsinga í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra

  Úrskurður Persónuverndar nr. 2017/249 er svohljóðandi:

  I.
  Málsmeðferð 

  1.
  Tildrög máls

  Þann 7. febrúar 2017 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] (hér eftir nefndur kvartandi) yfir vinnslu persónuupplýsinga um hann í fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra. Í kvörtuninni segir meðal annars að kvartað sé yfir því að fyrirtækjaskrá birti persónulegar upplýsingar á fyrirtækjavottorði, þ.e.a.s. nafn, heimilisfang og kennitölu kvartanda, sem er stjórnarmaður í félaginu [B]. Kvartandi er jafnframt skráður í framkvæmdastjórn félagsins og fer með prókúruumboð samkvæmt vottorðinu.

   

  2.

  Bréfaskipti

  Með bréfi, dags. 24. mars 2017, var Ríkisskattstjóra boðið að koma á framfæri skýringum vegna kvörtunarinnar til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í svarbréfi, dags. 25. apríl 2017, er meðal annars vísað til þess að um starfsemi fyrirtækjaskrár Ríkisskattstjóra gildi lög nr. 17/2003 um fyrirtækjaskrá. Í 4. gr. laganna eru taldar upp þær upplýsingar sem skal skrá í fyrirtækjaskrá eftir því sem við á, en þær eru meðal annars nafn, lögheimili og kennitala forráðamanna, sbr. 6. tölul. sama ákvæðis. Þá er vísað til 1.  mgr. 8. gr. laganna, þar sem segir að Ríkisskattstjóri skuli veita opinberum aðilum, fyrirtækjum og almenningi upplýsingar úr fyrirtækjaskrá. Fram kemur að augljóst megi vera að löggjafinn hafi tekið fram hvað skuli skrá og birta í hinni opinberu skrá. Þá sé fyrirtækjaskrá sett á stofn með almannahagsmuni að leiðarljósi, þ.e. að lágmarksupplýsingar séu skráðar. Með vísan til athugasemda með frumvarpi til laga nr. 17/2003 verði ekki séð að þeir einstaklingar sem komi að stjórnun fyrirtækja eða séu skráðir forráðamenn þeirra eigi að njóta nafnleyndar umfram þá einstaklinga sem standa fyrir eigin atvinnurekstri og á eigin ábyrgð. Segir loks: „Þannig verður ekki séð að birting eða almennt aðgengi að þeim lágmarksupplýsingum sem lögboðið er að skrá í opinbera skrá með hagsmuni viðskiptalífsins og almennings [að leiðarljósi] geti á nokkurn hátt verið í andstöðu við 1. mgr. 7. gr. eða ákvæði 1. mgr. 8. gr. laga um persónuvernd. Tilvitnuð ákvæði [...] ættu þannig ekki að standa í vegi [fyrir] eða takmarka á annan hátt þær upplýsingar sem lögum samkvæmt skal skrá í fyrirtækjaskrá og birta almenningi.“ Með bréfi, dags. 22. maí 2017, sem ítrekað var með bréfi, dags. 11. júlí 2017, var kvartanda boðið að koma á framfæri athugasemdum sínum við framkomnar skýringar Ríkisskattstjóra, en engin svör bárust.

   

  II.
  Forsendur og niðurstaða

  1.
  Gildissvið laga nr. 77/2000

  Lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga og handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Persónuupplýsingar eru skilgreindar í 1. tölul. 2. gr. laganna sem sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi. Hugtakið vinnsla er skilgreint sem sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. laganna. Í athugasemdum við það ákvæði í því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 77/2000, kemur fram að hver sú aðferð, sem nota má til að gera upplýsingar tiltækar, telst til vinnslu. Af þessu öllu er ljóst að hér ræðir um meðferð persónuupplýsinga sem fellur undir valdsvið Persónuverndar. Sá sem ber ábyrgð á að vinnsla persónuupplýsinga samrýmist lögum nr. 77/2000 er nefndur ábyrgðaraðili. Samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laganna er þar átt við þann sem ákveður tilgang vinnslu persónuupplýsinga, þann búnað sem notaður er, aðferð við vinnsluna og aðra ráðstöfun upplýsinganna. Eins og hér háttar til telst Ríkisskattstjóri vera ábyrgðaraðili að umræddri vinnslu.

   

  2.

  Lögmæti vinnslu 

  Öll vinnsla persónuupplýsinga verður að samrýmast einhverri af kröfum 8. gr. laga nr. 77/2000. Þegar stjórnvöld afla upplýsinga í tengslum við lögbundið hlutverk sitt getur vinnslan stuðst við 3. tölul. 1. mgr. 8. gr., þess efnis að vinnslan sé heimil sé hún nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldu. Við mat á því hvort slík skylda er hér til staðar verður að líta til þeirra lagareglna sem um fyrirtækjaskrá gilda og Ríkisskattstjóri starfar eftir. Um starfsemi fyrirtækjaskrár er fjallað í lögum nr. 17/2003 um fyrirtækjaskrá. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. skal halda fyrirtækjaskrá eftir því sem nánar er kveðið á um í lögunum. Ríkisskattstjóri starfrækir fyrirtækjaskrá, sbr. 2. mgr. sama ákvæðis. Í 4. gr. eru tiltekin þau atriði sem skrá skal í fyrirtækjaskrá eftir því sem við á, en í 6. tölul. kemur fram að skrá skuli nafn, lögheimili og kennitölu forráðamanna. Þá segir í 1. mgr. 8. gr. laganna að Ríkisskattstjóri skuli veita opinberum aðilum, fyrirtækjum og almenningi upplýsingar úr fyrirtækjaskrá. Telur Persónuvernd, í ljósi alls framangreinds, vinnsluna sem hér um ræðir geta fallið undir framangreint ákvæði 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000. Að auki verður öll vinnsla persónuupplýsinga að fullnægja grunnkröfum 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 um gæði gagna og vinnslu. Ekkert bendir til þess að framangreind vinnsla persónuupplýsinga um kvartanda brjóti gegn þeim kröfum, en skráningin felur í sér að skráðar eru lágmarksupplýsingar um fyrirtæki landsins og fyrirsvarsmenn þeirra. Þegar litið er til alls framangreinds telur Persónuvernd að umrædd vinnsla persónuupplýsinga hafi samrýmst lögum nr. 77/2000. 

  Ú r s k u r ð a r o r ð: 

  Vinnsla Ríkisskattstjóra á persónuupplýsingum um kvartanda samrýmdist lögum nr. 77/2000. 

 • Refsimál - Vangoldinn virðisaukaskattur

  Úr héraðsdómi nr. S-313/2017:

  Gögn málsins staðfesta að ekki hafi verið staðin skil á virðisaukaskatti í rekstri ákærða að því sem nemur 3.034.712 krónum vegna ársins 2012 og 4.041.252 krónum vegna ársins 2013. Samtala þeirra fjárhæða, 7.075.967 krónur, samsvarar fjárhæð þeirri sem tilgreind er í ákæru. Með því að skila ekki á lögmæltum tíma virðisaukaskattsskýrslum og virðisaukaskatti, sem ákærða bar þó að innheimta vegna starfsemi sinnar á árunum 2012 og 2013, hefur ákærði gerst brotlegur við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 með síðari breytingum. Þegar litið er til fjárhæða verða brotin talin meiri háttar og því verða þau einnig heimfærð til 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Eru brot ákærða því rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Í þessu tilliti getur engu breytt þótt ákærði telji sig hafa átt mögulega inneign á móti þeim virðisaukaskatti sem honum bar að greiða, sbr. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 50/1988. Ákærði var ekki á virðisaukaskattsskrá á því tímabili sem ákæra málsins tekur til og ekki verður talinn til innskatts virðisaukaskattur af aðföngum sem keypt eru fyrir skráningardag, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 192/1993 um innskatt. Verður því ekki fallist á það með ákærða að lækka beri fjárhæð í ákæru með tilliti til innskatts á því tímabili sem ákæran tekur til. Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði ákærða var hann með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 1. febrúar 2007 dæmdur til átta mánaða fangelsisrefsingar, en fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðsbundið í þrjú ár, og til greiðslu sektar að fjárhæð 20.800.000 krónur, fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt, lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum um bókhald og 262. gr. almennra hegningarlaga. Þá var ákærði með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 15. október 2008 dæmdur til 14.500.000 króna sektargreiðslu, fyrir brot gegn sömu lögum og einnig með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá  26. september 2013 en þá var hann dæmdur til 10 mánaða fangelsisrefsingar, skilorðsbundið í þrjú ár, og til greiðslu sektar að fjárhæð 14.500.000 krónur. Var þá um hegningarauka við dóm frá 15. október 2008 að ræða, en jafnframt að hluta til rof á skilorði refsidómsins frá 1. febrúar 2007. Var sá skilorðsdómur dæmdur upp og ákærða ákveðin refsing í einu lagi tíu mánaða fangelsi. Fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðsbundið í þrjú ár. Ákærði gekkst greiðlega við brotum sínum og er til þess litið við ákvörðun refsingar. Á móti kemur að ásetningur ákærða styrkur og einbeittur og er í því sambandi litið til 6. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Þá teljast brot ákærða stórfelld í skilningi 3. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, enda eru vanskil stefnda við ríkissjóð umtalsverð auk þess sem ákærði hefur þrívegis áður verið dæmdur fyrir brot gegn 1. mgr. sama refsiákvæðis. Brot ákærða nú eru að stærstum hluta hegningarauki við síðastgreindan dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 26. september 2013 en að hluta til er um að ræða rof á skilorði refsidómsins. Verður skilorðsdómurinn því dæmdur upp og ákærða ákveðin refsing í einu lagi, sbr. 60., 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga. Þykir refsing ákærða  hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði en fresta skal fullnustu 12 mánaða refsingarinnar og falli hún niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

   

  Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt verður ákærða jafnframt gerð sektarrefsing. Brot gegn ákvæðinu varðar sektum, sem skulu aldrei vera lægri en nemur tvöfaldri fjárhæð vanskilanna og ekki hærri en tífaldri fjárhæðinni. Heildarvanskil ákærða nema 7.075.967 krónum. Að öllu framangreindu virtu og með hliðsjón af réttarframkvæmd á þessu sviði er ekki fært að miða við fésektarlágmark samkvæmt framangreindu lagaákvæði, heldur verður miðað við þrefalda fjárhæð vanskila, þó þannig að frá verður dregin fjárhæð álags sem ákærða var gert að greiða í úrskurði ríkisskattstjóra, 707.597 krónur. Verður ákærði því dæmdur til að greiða 20.520.304 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa. Með hliðsjón af því að sektarfjárhæð er umfram lögbundið lágmark og jafnframt með hliðsjón afviðmiðunarreglum dómstólaráðs þykir vararefsing hæfilega ákveðin sjö mánaða fangelsi. Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Garðars Guðmundar Gíslasonar hrl., 316.200.000 krónur, en annan sakarkostnað leiddi ekki af máli þessu.

 • Virðisaukaskattur - innskattur

  Úr úrskurði yfirskattanefndar nr. 150/2017:

  Deiluefnið í málinu varðar leiðréttingu virðisaukaskatts (innskatts) til hækkunar við þær aðstæður að kærandi hafði aflað sér lausafjármuna, þ.e. hópbifreiða, sbr. ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 192/1993, „fyrir starfsemi sem er undanþegin virðisaukaskatti við öflun eignarinnar en er síðar felld undir skattskyldusvið virðisaukaskatts með lögum“, svo sem segir í 2. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar. Af hálfu kæranda er gerð krafa um að til viðbótar virðisaukaskatti af nýjum hópbifreiðum og áhöldum og tækjum, sem ríkisskattstjóri féllst á að færa undir leiðréttingarákvæðin, komi annars vegar virðisaukaskattur að fjárhæð 11.358.234 kr. vegna endurbyggingar hópbifreiða sem kærandi kveðst hafa ráðist í til að koma bifreiðunum í tekjuhæft ástand og hins vegar virðisaukaskattur að fjárhæð 9.600.629 kr. vegna kostnaðar við endurbætur, breytingar eða byggingu hópbifreiða. Samkvæmt yfirliti kæranda eru þessi útgjöld af ýmsum toga, þar á meðal breytingar á bifreiðum, viðgerðir og heilsprautun bifreiða. Af hálfu kæranda er byggt á því að útgjöldin falli undir réttan skilning á orðasambandinu „kaupverð (stofnverð) einstakrar eignar eða eignasamstæðu“ í 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 192/1993 og því myndi virðisaukaskattur af þessum kostnaði stofn til leiðrétts innskatts. Vísar kærandi í þessu sambandi til þess að ráðist hafi verið í umrædd útgjöld í því skyni að auka virði viðkomandi eigna og lengja það tímabil sem þær skili tekjum. Kostnað þennan hafi félagið eignfært í reikningsskilum sínum. Þá myndi umræddur kostnaður teljast til stofnverðs samkvæmt 2. mgr. 12. gr. laga nr. 90/2003 um söluhagnað eigna. Bendir kærandi á að íþyngjandi ákvæði skattalöggjafar beri almennt að túlka skattaðila í hag. Vegna síðastnefnds sjónarmiðs kæranda skal tekið fram að sama andlag, þ.e. annars vegar lausafjármunir sem falla undir 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 192/1993 og hins vegar mannvirki samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar, er að baki bæði skyldu til að leiðrétta innskatt til lækkunar og heimildar til að leiðrétta innskatt til hækkunar vegna forsendubreytinga sem skilgreindar eru í 13. gr. reglugerðarinnar. Hagsmunir skattaðila eru á hinn bóginn ekki þeir sömu í báðum tilvikum. Þetta leiðir til þess að sjónarmið af því tagi sem kærandi reifar, sem út af fyrir sig eru góðra gjalda verð, geta naumast haft þýðingu við skýringu þeirra, enda verður að ganga út frá því að skýra beri ákvæði þessi með tilliti til leiðréttingarandlags með sama hætti hvort heldur um lækkun áður færðs innskatts eða hækkun er að ræða. Þess skal getið að við síðarnefndar aðstæður verður að telja að það beri undir viðkomandi skattaðila að leiða skilmerkilega fram rétt sinn til aukins innskattsfrádráttar, svo sem gildir að öðru jöfnu um sönnun fyrir innskatti, sbr. m.a. lokamálsgrein 20. gr. laga nr. 50/1988.

   

  Samkvæmt orðalagi sínu er leiðréttingarskylda eða -heimild vegna eigna sem falla undir 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 192/1993 bundin við kaupverð eignar eða eignasamstæðu. Fallast má á það með kæranda að hugtakið kaupverð hafi í þessu sambandi efnissamstöðu með hugtakinu stofnverð, sem skilgreint er í 2. mgr. 12. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, enda er til þess vísað í reglugerðarákvæðinu, frekast þó til skýringarauka. Á hinn bóginn verður ekki tekið undir það, sem virðist vera viðhorf kæranda, að þar með verði togað undir kaupverð (stofnverð) eignar samkvæmt umræddu reglugerðarákvæði hvers konar útgjöld sem tengja má við eignina, þar á meðal vegna viðhalds eða viðgerða hennar. Er til þess að líta að kostnaður við viðhald eigna telst rekstrarkostnaður samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 90/2003, sbr. nánar 4. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, þar sem fjallað er um viðhaldskostnað eigna sem rekstrarkostnað og mörk gagnvart endurbótum á eign. Í úrskurðaframkvæmd hefur margoft reynt á skilsmun frádráttarbærs viðhaldskostnaðar og kostnaðar við endurbætur sem eignfæra ber og fyrna í skattskilum rekstraraðila, sbr. m.a. úrskurði yfirskattanefndar nr. 127/2002 og 225/2002. Þannig geta eingöngu síðarnefnd útgjöld talist til stofnverðs eigna í þeim skilningi sem hér um ræðir. Verður samkvæmt þessu að líta svo á að virðisaukaskattur, sem fellur til vegna viðhalds eða viðgerða eigna samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 192/1993, sé ekki andlag leiðréttingarskyldu eða heimildar til leiðréttingar innskatts af eignum þessum. Það er einnig að athuga í þessu samhengi að í 2. tölul. 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 192/1993 er sérstaklega tekið fram hvað snertir stofn til leiðréttingar innskatts vegna fasteigna að þar undir falli framkvæmdir „vegna viðgerða og viðhalds“, að teknu tilliti til skilyrðis um verðmæti framkvæmda, en ekkert hliðstætt orðalag er að finna í 1. tölulið málsgreinarinnar. Verður að draga þá ályktun af þessu að mismunandi reglur gildi um þessa tvo flokka rekstrarfjármuna hvað snerti stofn til leiðréttingar innskatts. Hinum umdeildu útgjöldum er lýst þannig af hálfu kæranda að um sé að ræða kostnað á árunum 2012 til 2015 vegna ökutækja sem félagið noti í rekstri sínum um farþegaflutninga. Er m.a. um að ræða kostnað vegna klæðninga, málunar og sprautunar, varahluta, mótora, drifa og túrbína, upptöku bílvéla ásamt ýmis konar kostnaði sem ljóst má telja að sé vegna almenns viðhalds og viðgerða ökutækjanna. Kærandi hefur ekki nema með almennum hætti gert grein fyrir því að hvaða leyti umræddur kostnaður kunni að fela í sér endurbætur á ökutækjunum. Að svo vöxnu þykir kærandi ekki hafa leitt í ljós að tilefni sé til að taka útgjöld þessi, að heild eða að hluta, með í reikninginn við þá leiðréttingu innskattsfrádráttar sem í málinu greinir. Kröfu kæranda í máli þessu er því hafnað.

 • Skýrsla - áætluð áhrif breytinga á virðisaukaskatti á fyrirtæki í ferðaþjónustu

  Helstu niðurstöður skýrslunnar eru eftirfarandi:

  • Rekstrarskilyrði fyrirtækja í ferðaþjónustu, sem verðleggja þjónustu sína í erlendum gjaldmiðlum, hafa breyst mikið til hins verra á síðustu tveimur árum. Gengi Evru lækkaði um 23% frá ársbyrjun 2015 til ársloka 2016 en á sama tíma hækkaði launavísitalan um 20%.
  • EBITDA framlegð gististaða á landsbyggðinni er almennt mun lakari en á höfuðborgarsvæðinu og er meðalverð á herbergi og herbergjanýting mun lægri þar.
  • Ef gististaðir úti á landi þyrftu að taka á sig alla hækkun virðisaukaskatts úr 11% í 22,5% myndi það leiða til mikils taprekstrar. Afkoma hjá hótelum á höfuðborgarsvæðinu myndi verða því sem næst 0 að meðaltali.
  • Fjölgun ferðamanna sem fram kemur í talningu þeirra sem fara um Leifsstöð endurspeglast ekki í fjölgun gistinátta. Fjöldi sjálftengifarþega hefur aukist vegna aukinna umsvifa flugfélaga og ferðamenn virðast almennt dvelja skemur en áður. Tekjur gististaða jukust að meðaltali um 13,5% milli fyrstu sex mánaða 2017 og 2016. Þrátt fyrir þessa aukningu tekna varð EBITDA framlegð þeirra sú sama milli ára.
  • Svo virðist sem verðlagning gististaða sé komin að sársaukamörkum í alþjóðlegum samanburði og því er líklegt að frekari hækkun verðs muni hafa neikvæð áhrif á fjölda ferðamanna og þeir sem koma muni dvelja í styttri tíma en áður. Slíkar breytingar munu koma sérstaklega illa við gististaði úti á landi þar sem ferðamenn munu ferðast minna um landið vegna færri dvalardaga. Greinilegt er af nýjustu tölum um fjölda ferðamanna nú í sumar og fjölda gistinátta eftir landshlutum að þessi þróun er byrjuð.
  • Afkoma hópbílafyrirtækja lækkaði verulega milli áranna 2015 og 2016 og koma áhrif af hækkun á gengi krónunnar koma greinilega fram í rekstri þeirra á sama tíma og innlendur kostnaður, eins og laun, hækkaði verulega.
  • Mikill misskilningur að færsla gistingar í hærra þrep virðisaukaskatts sé til einföldunar á virðisaukaskattskerfinu þar sem veitingasala hótela verður áfram í lægra þrepi virðisaukaskatts.
  • Hækkun virðisaukaskatts á gistingu mun bæta samkeppnisstöðu óskráðrar gistingar þar sem hvorki er staðið skil á virðisaukaskatti né öðrum lögboðnum gjöldum.

 • Tíund fréttablað RSK - október 2017

  Meðal efnis er eftirfarandi:

  • Hnappurinn
  • Tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar
  • Staðarnet RSK í aldarfjórðung
  • Á vaktinni áratugum saman
  • Fækkun áætlana
  • Eignir, skuldir og eigið fé
  • Tíund í þrjátíu ár
  • Ársreikningaskil fara batnandi
  • Árlegur fundur ríkisskattstjóra Norðurlandanna
  • Útleiga einstaklinga á húsnæði
  • Öryggismál RSK í öndvegi
  • Nýjungar og verklag við skattframkvæmd
  • Fyrsta íbúð
  • Álagning einstaklinga
  • Dómar
  • Upplýsingatafla RSK