Stimpilgjald - hlutaskipting félags

E.g., 2021-12-02
E.g., 2021-12-02
 • A. Ný lög um frestun gjalddaga tryggingagjalds og staðgreiðslu opinberra gjalda

  Þann 13. mars sl. samþykkti Alþingi lög nr. 17/2020, um breytingu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og lögum um tryggingagjald (frestun gjalddaga). Lögum þessum er ætlað að bregðast við skyndilegum og ófyrirséðum efnahagsvanda vegna COVID-19 heimsfaraldursins. Aðgerðirnar miða að því að skapa viðspyrnu við þann efnahagsvanda sem samfélagið þarf að takast á við ásamt því að reyna að tryggja að neikvæð áhrif á atvinnulífið vari sem skemmst.

   

  Breytingar samkvæmt lögunum eru sem hér segir:

   

  • Fresta greiðslu hluta tryggingagjald. Lögaðilum skal heimilt að fresta greiðslu er nemur helmingi þess tryggingagjalds, sem að óbreyttu var á eindaga 16. mars til 15. apríl.
  • Fresta greiðslu hluta á staðgreiðslu opinberra gjalda. Lögaðilum skal heimilt að fresta greiðslu er nemur helmingi þeirrar staðgreiðslu opinberra gjalda, sem að óbreyttu var á eindaga 16. mars til 15. apríl.
  • Álagi ekki beitt vegna ofangreinds. Álagi skv. 28. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda verður ekki beitt á þann helming greiðslu sem frestun fékkst fyrir, fyrr en 16. apríl.

   

  Meðfylgjandi tafla inniheldur yfirlit yfir hina nýju gjalddaga.

  Gjald Fyrri eindagi Nýr eindagi
  Tryggingagjald 16. mars 15. apríl
  Staðgreiðsla opinberra gjalda 16. mars 15. apríl

   

   

   

   

  B. Einstaklingar í sóttkví án einkenna þess að vera sýktir, sæti ekki launamissi

  Tímalína máls: A) Frumvarp lagt fyrir Alþingi 13. mars. B) Á dagskrá velferðarnefndar Alþingis, 17. mars.*
  *Tímalína þessi kann að taka breytingum til samræmis við framvindu málsins.

   

  Efnahagsleg áhrif COVID-19 faraldursins eru slík að tekjutap atvinnurekenda getur ollið því að erfitt getur reynst þeim að greiða laun. Þá kann einnig að vera að starfsmenn eigi ekki rétt á veikindadögum sitji þeir í sóttkví vegna fyrirmæla heilbrigðisyfirvalda en þó án þess að sýna einkenni þess að vera sýktir. Því þótti félags- og barnamálaráðherra nauðsynlegt að einstaklingar, sem sæta sóttkví samkvæmt framangreindu, hafi möguleika á því að sækja um greiðslur vegna launataps sem þeir kunna að verða fyrir.

   

  Til að bregðast við framangreindu lagði ráðherrann fyrir Alþingi frumvarp til „laga um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að sýna merki þess að vera sýktir.“  Verði frumvarpið að lögum fela verða helstu breytingar samkvæmt sem hér segir:

   

  • Launamönnum sem sæta sóttkví séu greidd laun. Í þeim tilvikum sem launamenn sem sæta sóttkví en eiga ekki veikindarétt eða önnur réttindi til launa skal ríkið standa straum að launakostnaði.
  • Markmið laganna að einstaklingur geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um sóttkví án þess að hafa áhyggjur af launatapi.
  • Frumvarpið á eingöngu við almennan vinnumarkað. Þar sem frumvarpið tekur einungis til atvinnurekenda, launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga á almennum vinnumarkaði er áætlað að það nái til rúmlega 140 þúsund einstaklinga, eða alls 75% allra starfandi einstaklinga á vinnumarkaði.
  • Aðstoð háð skilyrðum. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að tiltekin skilyrði þurfi að vera uppfyllt, t.a.m. að atvinnurekandi sæki um greiðslur vegna launamanns sem sætir sóttkví, að atvinnurekandi hafi sannanlega greitt laun hans á tímabilinu (1. febrúar 2020 – 30. apríl 2020) o.fl.
  • Fjárhæðartakmörkun. Þá er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að greiðslur ríkisins samkvæmt frumvarpinu geti aldrei verið hærri en 633.000 kr. fyrir hvern launa mann miðað við heilan almanaksmánuð.

   

  C. Aukin réttur til greiðslu atvinnuleysisbóta vegna minnkaðs starfshlutfalls

  Tímalína máls: A) Frumvarp lagt fyrir Alþingi 13. mars. B) Á dagskrá velferðarnefndar Alþingis, 17. mars.*
  *Tímalína þessi kann að taka breytingum til samræmis við framvindu málsins.

   

  Fyrir Alþingi liggur einnig frumvarp félags- og barnamálaráðherra til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum Ábyrgðarsjóð launa. Markmið frumvarpsins er að aðstoða fyrirtæki við að halda ráðningarsambandi við starfsfólk sitt þar til rekstrarerfiðleikar vegna COVID-19 faraldursins eru yfirstaðnar. Þær breytingar sem til eru lagðar í frumvarpinu gilda því aðeins í afmarkaðan tíma.

   

  Fyrirtæki sem eiga í tímabundnum rekstrarörðuleikum eru hvött til þess að nýta sér þann kost að lækka starfshlutfall starfsfólks tímabundið fremur en að grípa til uppsagna. Það er verðmætt fyrir samfélagið að sem flestir haldi virku ráðningarsambandi við vinnuveitanda.

   

  Verði frumvarpið að lögum eru breytingarnar sem því fylgir eftirfarandi:

   

  • Einstaklingur sem sækir um atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli getur átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta. Sá réttur tæki til þeirrar fjárhæðar sem næmi hlutfallslegum mismun réttar launamannsins hefði hann misst starf sitt að öllu leyti og þess starfshlutfalls sem hann gegnir áfram. Þau skilyrði sem eru fyrir hendi eru að fyrra starfshlutfallið hafi verið lækkað hlutfallslega um að minnsta kosti 20% og að launamaðurinn haldi 50% starfshlutfalli hið minnsta.

   

  Úrræðið skal vera í gildi þar til 30. júní 2020 en vegna tímabundinna þrenginga á vinnumarkaði er gert ráð fyrir því að verði frumvarpið samþykkt óbreytt, muni það hafa jákvæð áhrif á vinnumarkaðinn. Þar sem áhersla er lögð á að fleiri launamenn haldi virku ráðningarsambandi við vinnuveitanda sinn en ella er frumvarpinu ætlað að draga úr atvinnuleysi.

   

  Þá eru eftirfarandi dæmi til útskýringar:

  Starfsmaður Meðal heildarlaun sl. 3m fyrir skatt Skerðing starfshlutfalls Atvinnuleysisbætur Laun frá launagreiðanda Laun með bótum án skerðingar Skerðing v/ hámarks Laun frá ríkissjóði Heildarlaun
  Starfsmaður 1 500.000 20% 91.281 400.000 491.281 -91.281 0 kr. 400.000
  Starfsmaður 2 812.500 20% 91.281 650.000 741.281 -91.281 0 kr. 650.000
  Starfsmaður 3 500.000 50% 228.202 250.000 478.202 -78.202 150.000 kr. 400.000
   

   

  Forsendur dæma skv. frumvarpi:

  Fullar atvinnuleysisbætur, kr. 456.404
  Lágmarkslækkun starfshlutfalls 20%
  Hámarkslækkun starfshlutfalls 50%
  Hámarksgreiðsla launa eftir lækkun starfshlutfalls (% af meðal heildarlaunum sl. þriggja mánaða) 80%
  Hámarkslaun með bótum, kr. 650.000

   

  D. Frekari aðgerðir boðaðar

  Að lokum má nefna að ríkisstjórnin hefur boðað frekari aðgerðir á næstu dögum til að bregðast við þeim áskorunum sem COVID-19 faraldurinn hefur óhjákvæmilega í för með sér. Áætlun ríkisstjórnarinnar, sem samþykkt var þann 10. mars sl., er í sjö liðum og aðgengileg á hlekk meðfylgjandi frétt þessari.

   

  Fróðlegt verður að sjá framvindu mála og munu KPMG Lögmenn ehf. fylgjast náið með.

   

 • Nánar um frumvarpið:

   

  Heimild Ríkisskattstjóra til að leggja á stjórnvaldssekt vegna vanrækslu á skjölun viðskipta við tengla aðila skal bætt við 57. gr. laganna og hljóða svo:

   

  Ríkisskattstjóra er heimilt að leggja stjórnvaldssekt á hvern þann lögaðila sem vanrækir að skjala viðskipti við tengda aðila að hluta eða að öllu leyti og brýtur þar með gegn ákvæði 1. málsl. 5. mgr. og reglugerðum settum á grundvelli þessarar lagagreinar. Stjórnvaldssekt verður beitt óháð því hvort lögbrot er framið af ásetningi eða gáleysi. 

   

  Ákvörðun um stjórnvaldssekt skal tekin með úrskurði ríkisskattstjóra og er hann aðfararhæfur. Sekt rennur í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtu. Sé stjórnvaldssekt ekki greidd innan mánaðar frá dagsetningu úrskurðar ríkisskattstjóra skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar frá úrskurðardegi. 

   

  Ákvörðun ríkisskattstjóra um stjórnvaldssekt má skjóta til yfirskattanefndar innan 14 daga frá dagsetningu úrskurðar. Kæra til yfirskattanefndar frestar ekki innheimtu né leysir lögaðila undan viðurlögum sem lögð eru við vangreiðslu sektarinnar. 

   

  Sekt sem lögð er á lögaðila getur numið allt að 3 millj. kr. fyrir hvert reikningsár sem skattaðili hefur látið hjá líða að uppfylla skilyrði 1. málsl. 5. mgr. að hluta eða að öllu leyti. Sekt skal nema 3 millj. kr. hafi lögaðili ekki sinnt skjölunarskyldu sinni innan 45 daga. Sekt skal nema 1,5 millj. kr. hafi lögaðili skilað inn gögnum sem teljast ófullnægjandi og lögaðili hefur ekki orðið við kröfum ríkisskattstjóra um úrbætur innan 45 daga. Getur sektarálagning af þessu tilefni tekið lengst til sex tekjuára sem næst eru á undan því ári þegar sektarákvörðun fer fram og numið hæst 6 millj. kr. 

   

  Ef lögaðili bætir úr annmarka innan 30 daga frá úrskurði ríkisskattstjóra um stjórnvaldssekt skal ríkisskattstjóri lækka sektarfjárhæð um 90%. Ef úrbætur eru gerðar innan tveggja mánaða frá úrskurði ríkisskattstjóra um stjórnvaldssekt skal lækka sektarfjárhæð um 60%. Ef úrbætur eru gerðar innan þriggja mánaða frá úrskurði ríkisskattstjóra um stjórnvaldssekt skal lækka sektarfjárhæð um 40%.

   

  Í hlekk með fréttinni er að finna frumvarpið í heild sinni.

 • Nánar um breytingarnar:

  Í stuttu máli eru helstu breytingar er frumvarpsdrögin boða eftirfarandi:

   

  1. Undanþáguheimildir vegna fasteignakaupa aðila sem búsettir eru utan Evrópska efnahagssvæðisins skýrð nánar.

   

  2. Kaupverð skal koma fram í þinglýstu afsali en nú er nóg að tilgreina kaupverð í kaupsamningi og afsal hefði að geyma tilvísun til kaupsamningsins.

   

  3. Samræmd opinber skráning á landupplýsingum skal vera í landeignaskrá á vegum Þjóðskrár Íslands.

   

  4. Markmiðsákvæði jarðalaga taki breytingum á þá leið að sjónarmiðum um náttúruvernd, byggðaþróun og sjálfbærni verði gert hærra undir höfði. Þá verði í ákveðnum tilvikum skilyrði um samþykki ráðherra fyrir aðilaskiptum að landi. Að lokum sett skýrari skilyrði fyrir afskráningu lögbýla og lausn lands úr landbúnaðarnotum.

   

  Í meðfylgjandi hlekk má finna frumvarpsdrögin.

 • Úr niðurstöðum úrskurðar yfirskattanefndar nr. 144/2019

   

  „[...]

   

  Ágreiningsefni í máli þessu er sú ákvörðun ríkisskattstjóra að synja beiðni kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna sölu félagsins á verksmiðjuframleiddum einingahúsum á tímabilinu janúar til desember 2017. Var endurgreiðslubeiðni kæranda byggð á ákvæðum 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. reglugerð nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði.

   

  Í XIII. kafla laga nr. 50/1988 er fjallað um endurgreiðslu virðisaukaskatts. Í 2. mgr. 42. gr. laganna segir að endurgreiða skuli byggjendum íbúðarhúsnæðis 60% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað. Jafnframt skuli endurgreiða eigendum íbúðarhúsnæðis 60% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna við endurbætur eða viðhald þess. Í lagaákvæðinu eru nokkur nánari fyrirmæli um skilyrði og framkvæmd endurgreiðslu. Einnig kemur fram að fjármálaráðherra setji með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara endurgreiðslna. Jafnframt segir í lagaákvæðinu að í reglugerð skuli kveðið á um endurgreiðslu ákveðins hlutfalls virðisaukaskatts af verksmiðjuframleiddum íbúðarhúsum og húseiningum. Fjallað er um tildrög og ástæður fyrir reglum þessum í úrskurði yfirskattanefndar nr. 73/2018.

   

  Nánari ákvæði um endurgreiðslur á grundvelli 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 er að finna í reglugerð nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði, með áorðnum breytingum. Í a-lið 1. gr. reglugerðarinnar kemur fram að eftir því sem nánar sé ákveðið í reglugerðinni skuli endurgreiða virðisaukaskatt sem byggjendur íbúðarhúsnæðis hafi greitt vegna vinnu manna á byggingarstað. Í b-lið sömu greinar kemur hið sama fram um virðisaukaskatt sem eigendur íbúðarhúsnæðis hafi greitt vegna vinnu manna við endurbætur eða viðhald þess. Samkvæmt c-lið 1. gr. reglugerðarinnar skal, eftir því sem nánar er ákveðið í reglugerðinni, endurgreiða hluta virðisaukaskatts af söluverði íbúðarhúsa sem framleidd eru í verksmiðju. Í 1. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar segir að endurgreiðsla samkvæmt reglugerðinni taki ekki til orlofshúsa, sumarbústaða eða bygginga fyrir starfsemi sem fellur undir ákvæði 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt, svo og tekur endurgreiðsla ekki til virðisaukaskatts sem færa má til innskatts, sbr. VII. kafla nefndra laga.

   

  [...]

   

  Það leiðir af framansögðu að framleiðandi eða innflytjandi verksmiðjuframleiddra húsa eða eftir atvikum húseininga, sem leitar eftir endurgreiðslu virðisaukaskatts í samræmi við umrædd ákvæði, verður að vera í stakk búinn til að leiða í ljós að húsið sé ætlað til notkunar sem íbúðarhúsnæði, eftir atvikum með því að leggja fram gögn þar um frá kaupanda hússins eða hlutaðeigandi byggingaryfirvöldum. Er þetta sérstaklega brýnt þar sem ekki er heimild til endurgreiðslu ef hús er ætlað til notkunar sem orlofshúsnæði eða húsnæði fyrir starfsemi sem fellur undir ákvæði 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 eða ef kaupandi gæti talið virðisaukaskatt af hinu keypta til innskatts eftir almennum reglum þar um.

   

  [...]

   

  Í kæru til yfirskattanefndar eru út af fyrir sig ekki gerðar athugasemdir við ályktanir ríkisskattstjóra um notkun umræddra húsa. Byggir kærandi eingöngu á því að félagið hafi afhent kaupendum verksmiðjuframleidd íbúðarhús og með þeim hætti uppfylli kærandi skilyrði 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 og 9. gr. reglugerðar nr. 449/1990 til endurgreiðslu virðisaukaskatts. Telur kærandi að hvorki í lögum nr. 50/1988 né reglugerð nr. 449/1990 sé að finna skilyrði um tilgang kaupanda með kaupum húsnæðis. Með vísan til þess sem að framan greinir er ekki fallist á þetta með kæranda. Verður þvert á móti að telja að það sé grundvallarskilyrði til að hin umkrafða endurgreiðsla geti náð fram að ganga að húsin geti ekki einasta hentað sem íbúðarhúsnæði heldur og að kærandi hafi afhent þau til notkunar í því skyni. Í því sambandi verður einkum litið til hlutrænna atriða á borð við skráða notkun fasteignar og skipulag þess svæðis þar sem fyrirhugað er að setja hús niður en ekki er loku fyrir það skotið að huglæg afstaða kaupanda geti skipt máli.“

   

  Í hlekk með fréttinni er að finna úrskurð yfirskattanefndar í heild sinni.

 • Samkvæmt vefsíðu Stjórnarráðsins eru helstu tillögur starfshópsins sem hér segir:

   

  • Erfðafjárskattur. Að kannað verði hvort undanþága félagasamtaka og sjálfseignarstofnana sem starfa að almannaheillum frá greiðslu erfðafjárskatts af dánargjöfum geti tekið til lögaðila í öðrum félagaformum.
  • Fasteignaskattur. Að kannað verði að veita undanþágu, lækka eða fella niður fasteignaskatt hjá lögaðilum sem verja hagnaði sínum einungis til almannaheilla og hafa það að einasta markmiði sínu samkvæmt samþykktum sínum.
  • Fjármagnstekjuskattur. Að lögaðilar sem verja hagnaði sínum einungis til almannaheilla og hafa það að einasta markmiði sínum samkvæmt samþykktum sínum verði undanþegnir greiðslu tekjuskatts af fjármagnstekjum.
  • Stimpilgjald. Að lögaðilar sem verja hagnaði sínum einungis til almannaheilla verði undanþegnir, að öllu leyti eða að hluta, frá greiðslu stimpilgjalds af kaupsamningum sem þeir eru aðilar að.
  • Stuðningur vegna útlagðs byggingarkostnaðar. Að þeim lögaðilum sem starfa til almannaheilla og hlotið hafa staðfestingu frá Skattinum í kjölfar skráningar á almannaheillafélagaskrá verði veitt heimild til að óska eftir fjárstuðningi af útlögðum kostnaði upp að ákveðnu hámarki vegna byggingar, viðhalds eða endurbóta á mannvirki undir starfsemi til almannaheilla, að uppfylltum ítarlegum skilyrðum.
  • Tekjuskattur. Að ákvæði 2. tölul. 31. gr. tekjuskattslaga verði endurskoðað með tilliti til hlutfalls og gildissviðs heimils frádráttar frá tekjum af atvinnurekstri. Jafnframt verði einstaklingum gert heimilt að draga frá tekjum sínum sambærilegar gjafir og framlög upp að ákveðnu hámarki. Samhliða verði skoðað hvort ákjósanlegt sé að miða frádráttarheimild ákvæðisins við tiltekna fjárhæð og/eða ákveðið hlutfall af tekjum.
  • Virðisaukaskattur. Að undanþáguákvæði 5. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga er varðar góðgerðarstarfsemi verði endurskoðað auk þess sem það verði útvíkkað þannig að undanþágan nái jafnframt til ráðstöfunar hagnaðar til almannaheilla en ekki aðeins til líknarmála. Þá er lagt til að þau tímamörk sem sett eru fyrir undanþágu góðgerðarstarfsemi samkvæmt ákvæðinu verði endurskoðuð.

   

  Í meðfylgjandi hlekk má finna frekari umfjöllun á vefsíðu Stjórnarráðs Íslands um ofangreindar niðurstöður, sem og skýrslu starfshópsins.

 • Nánar um úrskurð yfirskattanefndar:

   

  Kærandi var pólskur undirverktaki við byggingaframkvæmdir á Íslandi. Kærandi hafði lagt fyrir ríkisskattstjóra umsókn, á forminu RSK 5.42 - Application under Double Taxation Agreement for an Exemption or partial relief from Icelandic Taxation, vegna þá yfirstandandi tekjuárs. Ríkisskattstjóri synjaði umsókninni. Þeirri ákvörðun vildi kærandi ekki una og kærði hana til yfirskattanefndar. Yfirskattanefnd vísaði kærunni frá á þeirri forsendu að ákvörðun ríkisskattstjóra félli ekki undir úrskurðarvald sitt, enda væri ljóst að afgreiðsla málsins tengdist ekki með neinum hætti álagningu tekjuskatts kæranda vegna liðins tímabils.

 • Nánar um úrskurð yfirskattanefndar:

   

  Málið laut m.a. að túlkun 1. mgr. 10. gr. laga nr. 152/2009, eins og það ákvæði hljóðaði á árinu 2017. Þá hljóðuðu 2., 3. og 4. málsliðir málsgreinarinnar svo: „Hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti hjá hverju fyrirtæki skal vera 300.000.000 kr. á rekstrarári. Ef um er að ræða aðkeypta rannsóknar- eða þróunarvinnu skv. 6. gr. skal hámark kostnaðar samtals vera 450.000.000 kr. Ef um er að ræða samstarfsverkefni skv. 7. gr. skal sama hámark gilda fyrir verkefnið í heild en frádrætti skipt hlutfallslega milli fyrirtækjanna sem taka þátt í samstarfsverkefninu.“ Kærandi taldi að orðin „skal sama hámark gilda“ í 4. málslið vísuðu til 450.000.000 kr. hámarksins. Því hafnaði yfirskattanefnd, m.a. með orðunum: „Að því leyti sem skilja má málatilbúnað kæranda og forsendur í kæruúrskurði ríkisskattstjóra svo, að hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti skuli ávallt vera 450.000.000 kr. þegar um samstarfsverkefni er að ræða, óháð því hvort verkefni felur í sér aðkeypta rannsóknar- eða þróunarvinnu eða ekki, þá þykir sá skilningur ekki eiga sér neina stoð í orðalagi ákvæðisins.“

   

  Athyglisvert er að yfirskattanefnd vék í rökstuðningi sínum ekki að ákvæði 3. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 758/2011, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, sem ráðherra setti með stoð í lögum nr. 152/2009. Reglugerðarákvæðið, með breytingu skv. 2. gr. reglugerðar nr. 833/2016, hljóðaði svo á árinu 2017: „Ef um er að ræða samstarfsverkefni tveggja eða fleiri ótengdra nýsköpunarfyrirtækja, skv. 7. gr. laga nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, skal hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti fyrir verkefnið í heild vera samtals 450.000.000 kr. en frádrætti skal skipt hlutfallslega milli fyrirtækjanna sem taka þátt í samstarfsverkefninu.“ Af framangreindum rökstuðningi yfirskattanefndar má ætla að nefndin hafi talið reglugerðarákvæði þetta ganga á svig við 1. mgr. 10. gr. laga nr. 152/2009.

 • Nánar úr niðurstöðum dóms Landsréttar frá 25. október 2019 í máli nr. 821/2018:

   

  "[...]

   

  Áfrýjandi krefst þess annars vegar að felldur verði úr gildi úrskurður yfirfasteignamatsnefndar 11. desember 2017 í máli nr. 9/2017. Hins vegar krefst hann þess að viðurkennt verði með dómi að honum sé heimilt að skattleggja fasteign stefndu að Undirhlíð 36 í Grímsnes-og Grafningshreppi, [...], samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga vegna þess tíma sem fasteignin var skráð fyrir heimagistingu á árinu 2017. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti.

   

  [...]

   

  Niðurstaða

   

  Í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/2007 er heimagisting flokkuð sem ein tegund gististaða. Komi ekkert annað til verður í því ljósi að líta svo á að heimgisting falli undir ferðaþjónustu í skilningi c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995.

   

  Í 13. gr. laga nr. 85/2007, sbr. 10. gr. laga nr. 67/2016, er mælt fyrir um skyldu þess sem hyggst bjóða upp á heimagistingu, í samræmi við 1. mgr. 3. gr. laganna, til að tilkynna sýslumanni í viðkomandi umdæmi að hann hyggist leigja út lögheimili sitt eða eina aðra fasteign í sinni eigu. Þá er þar gerð grein fyrir atriðum sem að skráningarskyldunni lúta. Í 5. mgr. greinarinnar og svo sem áður er getið er sérstaklega tekið fram að heimagisting sem uppfyllir skilyrði laganna teljist ekki fara fram í atvinnuhúsnæði í skilningi laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995.

   

  Í athugasemdum sem upphaflega fylgdu frumvarpi því er varð að lögum nr. 67/2016 kom meðal annars fram að breytt skilgreining heimagistingar samkvæmt því væri tilraun til þess að einfalda fyrirkomulag á útleigu einstaklinga á heimilum sínum til skamms tíma. Markmið ákvæðanna um heimagistingu væri einnig að ná skammtímaleigu upp á yfirborðið og skilja þetta form útleigu frá hefðbundinni gististarfsemi í atvinnuskyni. Sú breyting var meðal annars gerð á frumvarpinu í meðförum Alþingis að bætt var inn í það framangreindu ákvæði um að heimagisting teldist ekki fara fram í atvinnuhúsnæði í skilningi laga nr. 4/1995. Í nefndaráliti atvinnuveganefndar segir það eitt um þessa breytingu að það sé „vilji löggjafans að húsnæði sem heimagisting fer fram í, eins og það hugtak er skilgreint í frumvarpinu, teljist ekki vera atvinnuhúsnæði“ í skilningi laga um tekjustofna sveitarfélaga. Að þessu virtu liggur beinast við að álykta á þann veg að ætlun löggjafans með þessari breytingu hafi verið sú að það eitt að eigandi íbúðar, íbúðarhúss eða sumarbústaðar bjóði upp á heimagistingu þar eigi ekki að leiða til þess að vikið verði frá þeirri reglu um álagningu fasteignaskatts af þessum eignum sem mælt er fyrir um í a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 og að slík starfsemi teljist þar með ekki til atvinnureksturs líkt og ferðaþjónusta annars gerði. Er þá jafnframt til þess að líta að ekki verður séð að þessi breyting hefði að öðrum kosti haft sérstaka þýðingu.

   

  Samkvæmt 40. gr. stjórnarskrárinnar má engan skatt á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Hefur þetta verið skýrt svo að skýra heimild í settum lögum þurfi til skattlagningar. Samkvæmt þessu og því sem rakið er hér að framan verður ekki fallist á það með áfrýjanda að hin umdeilda álagning fasteignaskatts hafi viðhlítandi stoð í ákvæði c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur.“

   

  Í hlekk með fréttinni er að finna dóm Landsréttar í heild sinni.

 • Úr niðurstöðum úrskurðar yfirskattanefndar nr. 36/2019:

   

  „[...]

   

  Ágreiningur máls þessa stendur um þá ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt úrskurði, dags. 14. febrúar 2018, að telja kæranda hafa verið með skattalegt heimilisfesti og borið fulla og ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, á tímabilinu ... 2012 til ... 2015. Úrskurður ríkisskattstjóra var kveðinn upp á grundvelli 2. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003 sem felur ríkisskattstjóra úrskurðarvald um hverjir skuli teljast heimilisfastir hér á landi samkvæmt lagagreininni. Byggði ríkisskattstjóri á því að „miðstöð persónulegra hagsmuna“ kæranda hafi verið á Íslandi á umræddu tímabili, enda teldist kærandi hafa haft bækistöð á Íslandi á tímabilinu, dvalið hérlendis að jafnaði í tómstundum sínum og átt hér svefnstað þegar hann hafi ekki verið fjarverandi um stundarsakir vegna vinnuferða, orlofs, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika.

   

  Skattskylda samkvæmt 1. gr. laga nr. 90/2003 felur í sér skyldu til að greiða tekjuskatt af öllum tekjum sínum, hvar sem þeirra er aflað, sbr. upphafsákvæði greinarinnar. Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. lagagreinarinnar hvílir skylda þessi á þeim mönnum „sem heimilisfastir eru hér á landi“. Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. hvílir sú skylda einnig á þeim sem heimilisfastir hafa verið hér á landi en flutt úr landi og fellt hafa niður heimilisfesti sitt hér, nema þeir sanni að þeir séu skattskyldir í öðru ríki á sama hátt og menn heimilisfastir þar og hafi fullnægt þeim skattskyldum sínum. Tekið er fram að skattskylda þessi gildi þó aðeins í þrjú ár frá næstu áramótum eftir brottflutningsdag. Samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. hvílir skattskyldan jafnframt á þeim „sem dvelja hér á landi lengur en samtals 183 daga á sérhverju 12 mánaða tímabili, þar með talin eðlileg fjarvera héðan af landi vegna orlofs og þess háttar“. Loks er í 4. tölul. 1. mgr. kveðið á um skattskyldu þeirra sem eigi falla undir ákvæði 1.­–3. tölul. en starfa samtals lengur en 183 daga á sérhverju 12 mánaða tímabili, þar með talin eðlileg fjarvera frá starfi vegna orlofs og þess háttar, um borð í loftfari eða skipi sem skráð er hér á landi.

   

  [...]

   

  Eins og fyrr segir var ákvörðun ríkisskattstjóra um ótakmarkaða skattskyldu kæranda á tímabilinu umræddu tímabili árin 2012 til 2015 öðrum þræði byggð á því að kærandi hefði átt verulegra persónulegra og fjárhagslegra hagsmuna að gæta á Íslandi á tímabilinu. Fjölskylda kæranda hafi búið á landinu og kærandi hafi verið skráður eigandi að innlendum fasteignum og ökutækjum og haft tekjur af stjórnarstörfum í íslensku hlutafélagi. Einnig byggði ríkisskattstjóri á því að kærandi hefði dvalið meirihluta tímabilsins á Íslandi. Ríkisskattstjóri skipti tímabilinu í þrennt, þ.e. ... 2012 til 31. júlí 2013, 1. ágúst 2013 til 31. júlí 2014 og 1. ágúst 2014 til ... 2015. Samkvæmt samantekt ríkisskattstjóra, sbr. hinn kærða úrskurð og umsögn vegna kæru, dags. 21. júní 2018, taldist ríkisskattstjóra svo til að kærandi hefði dvalið á Íslandi í 207 daga á fyrsta hluta tímabilsins, 225 á öðrum hluta þess og 162 á þeim þriðja eða samtals 594 daga á öllu tímabilinu. Við nánari athugun verður ekki betur séð en að dagar þessir teljist samkvæmt forsendum ríkisskattstjóra 207 fyrsta tímabilið, 224 dagar annað tímabilið og 158 það þriðja eða samtals 589 dagar.

   

  Þessum forsendum ríkisskattstjóra er mótmælt af hálfu kæranda. Telur kærandi að ekki séu efnislegar forsendur fyrir ákvörðun ríkisskattstjóra, enda verði kærandi hvorki talinn hafa fært heimilisfesti sitt til Íslands á árinu 2012 né dvalið á Íslandi í 183 daga á neinu þeirra 12 mánaða tímabila sem úrskurður ríkisskattstjóra tekur til. Verði ekki fallist á þetta telur kærandi að tímabil skattskyldu hans hafi verið ranglega ákveðið, en skattskylda vegna dvalar á „sérhverju tólf mánaða tímabili“ taki aðeins til þess tekjuárs sem tímabilinu lauk á.

   

  [...]

   

  Með hliðsjón af framangreindu þykir úrlausn um dvalardaga kæranda hafa sérstaka þýðingu. Er og um að ræða fyrirferðarmikinn þátt í niðurstöðu ríkisskattstjóra. Af hálfu kæranda er því annars vegar haldið fram um þetta atriði að ekki fái staðist að telja ferðadaga til dvalardaga hér á landi, eins og ríkisskattstjóri geri, og hins vegar telur kærandi að ríkisskattstjóri hafi oftalið dvalardaga hérlendis.

   

  Í úrskurði ríkisskattstjóra er gengið út frá því að bæði komudagur kæranda til landsins og brottfarardagur teljist til dvalartíma hans hér á landi. Til þess að líta að hvorki er tekið á því með beinum hætti í lögum nr. 90/2003 né verður ráðið af lögskýringargögnum hvernig taka skuli tillit til ferðadaga við ákvörðun dvalartíma samkvæmt 1. gr. laganna, hvað þá við þær aðstæður sem greinir í tilviki kæranda, þar sem ræðir um margar ferðir á tímabili. Ekki er tekin sérstök afstaða til þessa álitaefnis í úrskurði yfirskattanefndar nr. 127/2013 sem kærandi vísar til. Þegar aðferð ríkisskattstjóra er virt með tilliti til viðmiðunar um svefnstað í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1990, sbr. einnig reglu 1. málsl. 2. mgr. 4. gr. þeirra laga, þykir blasa við að hún getur leitt til afbrigðilegrar niðurstöðu. Í úrskurði ríkisskattstjóra kemur fram að sú aðferð að telja ferðadaga til dvalardaga grundvallist á skýringum við 15. gr. samningsfyrirmyndar OECD um tvísköttunarsamninga. Í greininni er fjallað um hvernig fara skuli með skattlagningu endurgjalds sem aðili heimilisfastur í samningsríki fær fyrir starf sem er leyst af hendi í öðru samningsríki. Ekki reynir á það atriði með beinum hætti í máli þessu. Skýringar við þetta ákvæði þykja því naumast hafa þá þýðingu sem ríkisskattstjóri telur.

   

  Að því athuguðu sem að framan er rakið og með sérstöku tilliti til svefnstaðarreglu laga nr. 21/1990 verður haft til viðmiðunar að telja þá daga til dvalardaga hér á landi þegar aðili er staddur á landinu í lok dags. Samkvæmt því þykja dvalardagar kæranda hér á landi vera oftaldir samkvæmt yfirliti ríkisskattstjóra um 26 daga á hinu fyrsta tímabili yfirlitsins, 27 daga á öðru tímabilinu og 24 daga á þriðja tímabilinu.

   

  Auk þessa hefur kærandi gert ágreining um það hvar telja beri hann hafa verið staddan einstaka daga. Kemur fram í kæru að kærandi telur sig hafa verið hér á landi í alls 356 daga á því tímabili sem málið tekur til. Í umsögn ríkisskattstjóra er fallist á hluta athugasemda kæranda í þessum efnum. Samkvæmt því sem þar kemur fram og með tilliti til niðurstöðu að framan varðandi meðferð ferðadaga má telja liggja fyrir að á tímabilunum ... 2012 til 31. júlí 2013 og 1. ágúst 2014 til ... 2015 hafi dvalardagar kæranda hér á landi ekki verið fleiri en erlendis. Hvað snertir tímabilið 1. ágúst 2013 til 31. júlí 2014 standa eftir 197 dagar að teknu tilliti til þess sem fyrr segir um ferðadaga. Af hálfu kæranda hefur dagatalningu ríkisskattstjóra einkum verið mótmælt á þeim grundvelli að erlendur bankareikningur sýni umtalsverða notkun á kortum hans tiltekna daga. Hér skiptir sérstaklega máli ágreiningur um dagana 19. mars til 6. maí 2014 þar sem munar allt að 38 dögum á talningu aðila. Vegna þessara daga vísar kærandi til margra erlendra færslna á kortareikningi sínum, þar á meðal í matvöruverslunum og vegna kaupa á þjónustu. Auk þessa er stutt gögnum af hálfu kæranda að hann hafi á tímabilinu átt tíma í læknisskoðun í X-landi. Að virtum þessum skýringum kæranda og gögnum málsins að öðru leyti þykir því ekki verða vísað á bug að dvalardagar hans á Íslandi tímabilið 1. ágúst 2013 til 31. júlí 2014 hafi verið færri en samkvæmt yfirliti ríkisskattstjóra. Þykir rétt að fallast á sjónarmið kæranda með þeim hætti að miða við 38 færri dvalardaga þetta tímabil en ríkisskattstjóri telur.

   

  Samkvæmt framansögðu verður litið svo á að dvalardagar kæranda hér á landi hafi verið alls 474 á öllu tímabilinu ... 2012 til ... 2015 og dagar utan Íslands því 546. Niðurstaða ríkisskattstjóra, sem er meginatriði í forsendum hans, um dvöl kæranda hér á landi umfram 183 daga á þargreindum þremur tímabilum verður samkvæmt þessu ekki talin fá staðist. Að því athuguðu sem ráðið verður um skiptingu daga utan Íslands milli daga í X-landi og í öðrum löndum, en að því atriði er raunar ekkert vikið í úrskurði ríkisskattstjóra, þykir jafnframt mega ganga út frá því að dvalardagar kæranda hér á landi hafi verið umtalsvert færri en í X-landi.

   

  Fram er komið að kærandi, sem var með skráð lögheimili í X-landi frá ... 2006, hafði frá þeim tíma leiguhúsnæði til afnota þar í landi. Hefur ekki verið dregið í efa af hálfu ríkisskattstjóra að út af fyrir sig megi telja það húsnæði bækistöð kæranda í skilningi laga nr. 21/1990. Ekki liggur annað fyrir en að staða kæranda sem meðeigandi og daglegur stjórnandi fyrir Y hafi haldist óbreytt allt frá ... 2006 og fram yfir það tímabil sem málið varðar. Þá er ekki ágreiningur um að starfið fyrir þetta félag hafi verið aðalatvinna kæranda. Ríkisskattstjóri hefur ekki vefengt gögn kæranda um að hann hafi fullnægt skattskyldu sinni í X-landi á því tímabili sem málið varðar. Þá er komið fram að kærandi sótti heilbrigðisþjónustu þar í landi auk þess sem fram hafa komið margvísleg gögn um tómstundaiðju kæranda þessi ár. Samkvæmt þessu varð sú helsta breyting á aðstæðum kæranda á því tímabili sem málið tekur til að fjölskylda hans var þá búsett á Íslandi, auk þess sem fyrir liggur – hvað sem líður ágreiningi um nákvæma dagatalningu – að kærandi dvaldi umtalsverðan hluta tímabilsins hérlendis. Kærandi var ásamt eiginkonu sinni eigandi að íbúðarhúsnæði hér á landi og fer ekki milli mála að hann hafi haft þar bækistöð í skilningi laga nr. 21/1990 þann tíma sem hann dvaldi hér á landi.

   

  Samkvæmt framansögðu verður kærandi talinn hafa haldið heimili bæði hér á landi og í X-landi. Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 21/1990 segir að leiki vafi á því hvar telja skuli að föst búseta manns standi, t.d. vegna þess að hann hafi bækistöð í fleiri en einu sveitarfélagi, skuli hann eiga lögheimili þar sem hann dveljist meiri hluta árs. Dveljist maður ekki meiri hluta árs í neinu sveitarfélagi skuli hann eiga lögheimili þar sem hann stundi aðalatvinnu sína, svo sem nánar er skilgreint, enda hafi hann þar bækistöð. Telja verður það leiða af tilvísun í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003 til ákvæða laga um lögheimili að horfa beri sérstaklega til þessara reglna við ákvörðun um heimilisfesti samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. fyrrnefndra laga, sbr. í þessu sambandi viðhorf í dómi Hæstaréttar í máli nr. 250/2012.

   

  Eins og rakið hefur verið hér að framan varðandi dvalardaga kæranda dvaldi hann allnokkru lengur í X-landi en hér á landi á tímabilinu ... 2012 til ... 2015. Að því athuguðu og með vísan til þess sem fyrir liggur um búsetu kæranda í X-landi frá árinu 2006, þar á meðal húsnæðiskost þar í landi, svo og óslitið vinnusamband frá þeim tíma þar í landi, ásamt því að óumdeilt er að kærandi hafi gegnt þarlendum skattalegum skyldum, verður ekki tekið undir það með ríkisskattstjóra að kærandi hafi verið heimilisfastur og borið fulla og ótakmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003 á nefndu tímabili. Aðalkrafa kæranda um að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi er því tekin til greina.“

   

  Í hlekk með fréttinni er að finna úrskurð yfirskattanefndar í heild sinni.