Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Álit umboðsmanns Alþingis á stimpilgjaldstöku við skiptingu

Á árinu 2012 kærði KPMG ehf. til fjármálaráðuneytisins, fyrir hönd umbjóðanda síns, ákvörðun sýslumanns um innheimtu stimpilgjalds af skjali sem lagt var fram til leiðréttingar á þinglýstum eiganda tiltekinna fasteigna vegna skiptingar félags og samruna þess við annað félag. Í kærunni var vísað í fordæmi dóms Hæstaréttar í máli nr. 306/2004 þar sem því var slegið föstu að samruni tveggja félaga fæli ekki í sér að raunveruleg eigendaskipti að fasteignum félags sem slitið er við samruna heldur renni þær saman við eignir yfirtökufélagsins. Þar sem ekki væri um að ræða raunverulega eignayfirfærslu félli samruni utan gildissviðs þágildandi stimpilgjaldlaga nr. 36/1978. Í kærunni var í meginatriðum byggt á því að skipting væri í eðli sínu samruni að hluta og fæli, að sama skapi og samruni, ekki í sér raunverulega eignayfirfærslu milli félaga. Í úrskurði ráðuneytisins var rökum KPMG ehf. hafnað.

 

Umbjóðandi KPMG ehf. vildi ekki una niðurstöðunni og kvartaði til umboðsmanns Alþingis. Í áliti umboðsmanns, í máli nr. 7404/2013, kom fram að úrskurður ráðuneytisins hafi ekki verið byggður á réttum grundvelli þar sem lagt hafi verið til grundvallar að félag, sem skipt hafi verið, hafi fengið endurgjald fyrir fasteignir sem það átti við sameiningu við annað félag. Mæltist hann því til þess við ráðuneytið að málið yrði tekið upp að nýju.

 

Í úrskurði ráðuneytisins, dags. 7. nóvember 2014, um endurupptöku málsins var fallist á upphafleg rök KPMG ehf.um að skjölin hafi ekki verið stimpilgjaldskyld þar sem ekki hafi verið um raunverulega eignayfirfærslu að ræða, sbr. tilvitnaðan dóm Hæstaréttar. Orðrétt segir „Umskráning fasteigna í kjölfar skiptingar og samruna var því ekki stimpilgjaldskyld í tíð eldri laga um stimpilgjald."

 

KPMG ehf. hefur lengi haldi því fram að skjöl, vegna skráningar eigna vegna skiptingar félaga, hafi verið undanþegin stimpilgjaldi skv. nú brottfeldum stimpilgjaldslögum nr. 36/1978. Nú þegar þetta hefur fengist staðfest er ljóst að þeir sem greitt hafa stimpilgjald af umskráningu eigna vegna skiptinga á síðastliðnum fjórum árum eiga kröfu á ríkissjóð um endurgreiðslu ásamt vöxtum og dráttarvöxtum frá því tímamarki sem óskað er eftir endurgreiðslu.