Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Endurgreiðsla virðisaukaskatts - vinna við endurbætur og viðhald íbúðarhúsnæðis

Nánar úr úrskurði yfirskattanefndar:

 

"[...]. Í b-lið 1. gr. reglugerðarinnar kemur fram að eftir því sem nánar sé ákveðið í reglugerðinni skuli endurgreiða 60% virðisaukaskatts sem eigendur íbúðarhúsnæðis hafi greitt vegna vinnu manna við endurbætur eða viðhald þess. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar tekur endurgreiðsla samkvæmt a-lið 1. gr. til virðisaukaskatts vegna allrar vinnu manna sem unnin er á byggingarstað íbúðarhúsnæðis við nýbyggingu þess, þ.m.t. vinnu við framkvæmdir við lóð hússins, jarðvegslagnir umhverfis hús, girðingar, bílskúra og garðhýsa á íbúðarhúsalóð. Endurgreiðsla samkvæmt b-lið 1. gr. tekur á sama hátt til virðisaukaskatts vegna allrar vinnu manna við endurbætur og viðhald íbúðarhúsnæðis. Í 4. gr. reglugerðarinnar er tiltekin vinna og þjónusta sem ekki fellur undir endurgreiðsluákvæðin þrátt fyrir 3. gr. Meðal annars kemur fram í 2. tölul. 4. gr., sbr. breytingar á ákvæðinu með 1. gr. reglugerðar nr. 639/2012 og 2. gr. reglugerðar nr. 1183/2014, að endurgreiðslan taki ekki til virðisaukaskatts sem greiddur sé af vinnu stjórnenda skráningarskyldra ökutækja, stjórnenda farandvinnuvéla og vinnuvéla, sem skráningarskyldar séu í vinnuvélaskrá, á byggingarstað.

 

[...]

 

Það verk S, sem krafa kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts hverfist um, fólst sem fyrr segir í borun eftir jarðvarma. Til verksins var notaður borinn X. Í kæru til yfirskattanefndar er nánar rakið að verkið hafi falist í því að bora vinnsluholu, þ.e. þá borholu sem vatn sé tekið úr til húshitunar, en áður hafi verið nauðsynlegt að bora rannsóknarholur til að mæla hitastuðul jarðvegarins. Á heimasíðu S kemur fram að borinn X sé notaður við rannsóknarboranir og boranir eftir köldu og heitu vatni á lághitasvæðum auk borholuhreinsana. Eins og fram er komið nam reikningsfærð vinna borstjóra og bormanna á verkstað 3.968.813 kr. án virðisaukaskatts, sem er sú fjárhæð sem tilgreind er sem vinna án virðisaukaskatts í endurgreiðslubeiðni kæranda, en aðrir liðir sölureiknings virðast einkum vera vegna notkunar umrædds bors við verkið svo og vegna efnis og flutnings. Samkvæmt framangreindu verður að teljast ljóst að við verkið hafi verið notast við vinnuvél af flokki R (jarðbor) samkvæmt viðauka við reglur nr. 388/1989. Er þar um að ræða vinnuvél af því tagi sem tiltekin er í 2. tölul. 4. gr. reglugerðar nr. 449/1990.

 

Samkvæmt framangreindu getur krafa kæranda ekki náð fram að ganga að því leyti sem hún varðar virðisaukaskatt af vinnu stjórnenda borsins X. Verður ekki betur séð en að það eigi við um lungann úr kröfufjárhæðinni. Loku þykir þó ekki vera skotið fyrir að í verkinu hafi falist verkliðir sem hafi verið framkvæmdir án notkunar umrædds bors. Því þykir tilefni til að víkja nánar að endurgreiðsluákvæðum sem hér reynir á.

 

Það felst í fyrri málslið 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 449/1990 að endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna nýbyggingar íbúðarhúss takmarkast ekki við framkvæmdir við hlutaðeigandi húsbyggingu í þröngum skilningi, enda er tekið fram um endurgreiðslurétt vegna vinnu manna við lóðaframkvæmdir, jarðvegslagnir umhverfis hús, girðingar, bílskúra og garðhús á íbúðarhúsalóð. Ekki verður staðhæft að hér sé um að ræða tæmandi talningu verkefna sem geti verið grundvöllur endurgreiðslu auk vinnu við sjálfa húsbygginguna. Við skýringu ákvæðisins þykir á hinn bóginn hafa þýðingu að viðfangsefni sem ákvæðið tilgreinir eiga það sameiginlegt að varða nærumhverfi íbúðarhúss eða mannvirki sem standa í nánum tengslum við íbúðarhús og gætu eftir atvikum verið hluti þess. Orðalag ákvæðisins ber jafnframt með sér staðarlega takmörkun á framkvæmdum sem hér geta fallið undir, þannig að ekki verði seilst til viðfanga út fyrir lóð húss. Samkvæmt þessu þykir mega slá því föstu að endurgreiðsla taki ekki til vinnu við önnur verk en þau sem telja má eðlilegan þátt í byggingu íbúðarhúss og frágangi verkstaðar (lóðar). Ekki fer á milli mála að sömu viðmiðanir og hér hafa verið tíundaðar gilda um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við endurbætur og viðhald íbúðarhúsnæðis, sbr. orðalagið „á sama hátt“ í síðari málslið 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar. Verður því hvorki játaður þrengri né ríkari réttur til endurgreiðslu af vinnu við endurbætur og viðhald en af vinnu við nýbyggingu. Ganga verður út frá því að framangreint eigi jafnframt við þegar um ræðir vinnu við nýbyggingu eða viðhald íbúðarhúsa utan þéttbýlis, þar á meðal á lögbýlum, þótt ekki hafi verið útmæld sérstök lóð vegna íbúðarhúss, [...].

 

Samkvæmt skýringum kæranda er heitt vatn úr borholu á landi hans, B, nýtt til upphitunar íbúðarhúss á landinu. Þar með verður þó ekki fallist á að vinna við öflun vatnsins geti talist varða nýbyggingu eða eftir atvikum endurbætur/viðhald íbúðarhússins í skilningi 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, sbr. ákvæði 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 449/1990, svo sem þau ákvæði hafa verið skýrð hér að framan. Verður hvorki séð að vinna þessi geti talist venjulegur þáttur í framkvæmdum við íbúðarhúsið í B né að hún tengist nánasta umhverfi húss með þeim hætti sem að framan greinir. Það leiðir af þessu að ekki verður fallist á kröfu kæranda vegna virðisaukaskatts af verkliðum við umrædda borvinnu sem kunna að hafa verið framkvæmdir án þess að falla undir ákvæði 2. tölul. 4. gr. reglugerðar nr. 449/1990. Kröfu kæranda þar að lútandi er því hafnað."

 

Úrskurðinn má lesa í heild sinni í hlekk hér að ofan með fréttinni.