Stimpilgjald - hlutaskipting félags

E.g., 2021-09-27
E.g., 2021-09-27
 • Úr ákvarðandi bréfi ríkisskattstjóra nr. 3/2017:

  Í 1. málsl. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988 er kveðið á um að aðilar, sem hafa með höndum starfsemi sem fellur undir 3. og 5. mgr. 2. gr., skuli greiða virðisaukaskatt af skattskyldum vörum og þjónustu þegar vara er framleidd eða þjónusta innt af hendi eingöngu til eigin nota og í samkeppni við skattskylda aðila skv. 1. mgr. Á grundvelli ákvæðisins hafa m.a. verið settar tvær reglugerðir, þ.e. reglugerð nr. 562/1989, um virðisaukaskatt af eigin þjónustu og úttekt til eigin nota innan óskattskyldra fyrirtækja og stofnana, og reglugerð nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila. Ákvæði reglugerðanna miða að því að virðisaukaskattur hafi ekki áhrif á val þeirra sem stunda starfsemi sem fellur utan skattskyldusviðs laga nr. 50/1988 um það hvort þeir kaupa að þjónustu eða inna hana sjálfir af hendi. Ákvæðunum er þannig ætlað að tryggja samkeppnisstöðu þeirra sem selja hliðstæða þjónustu á almennum markaði. Í þessu sambandi skal ítrekuð regla 4. mgr. 2. gr. laganna, þ.e. að undanþága samkvæmt 3. mgr. 2. gr. laganna tekur ekki til aðfanga. Með 1. tölul. 18. gr. laga nr. 165/2011, um fjársýsluskatt, var nýjum málslið bætt við 2. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988 sem kveður á um að þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. sömu málsgreinar skuli aðilar sem falla undir 9. og 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. þeirra laga ekki greiða virðisaukaskatt af skattskyldum vörum og þjónustu þegar vara er framleidd eða þjónusta innt af hendi eingöngu til eigin nota og í samkeppni við skattskylda aðila samkvæmt 1. mgr. Þess í stað greiða fyrirtæki og aðrir aðilar sem falla undir undanþáguákvæði þessi fjársýsluskatt sem nemur ákveðnu hlutfalli af öllum tegundum launa eða þóknana starfsmanna þeirra, sbr. 1. gr., sbr. einnig 4. og 6. gr., laga nr. 165/2011. Afmörkun þeirra aðila sem skattskyldir eru til fjársýsluskatts er að finna í 2. gr. laga nr. 165/2011 og eru fjármálafyrirtæki talin þar á meðal.

   

  Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það álit ríkisskattstjóra að framangreind þjónusta umbjóðanda yðar, sem felst í verðmætaflutningum fyrir fjármálafyrirtæki, falli ekki undir undanþáguákvæði 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, enda verður ekki séð að þjónustan heyri undir skilgreinda þjónustu banka, sparisjóða og annarra lánastofnana eða fjármálafyrirtækja sem starfa samkvæmt leyfi Fjármálaeftirlitsins. Umbjóðanda yðar ber því að innheimta virðisaukaskatt af sölu þjónustunnar og samkvæmt ákvæðum 4. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 hafa kaupendur þjónustunnar, fjármálafyrirtæki, ekki heimild til þess að fá þann virðisaukaskatt endurgreiddan í formi innskatts. Jafnframt er það álit ríkisskattstjóra að samkvæmt lokamálslið 2. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988, sbr. einnig lög nr. 165/2011, beri fjármálafyrirtækjum ekki að greiða virðisaukaskatt af verðmætaflutningum sem inntir eru af hendi til eigin nota og í samkeppni við skattskylda aðila. Kjósi fjármálafyrirtæki að inna þessa þjónustu sjálf af hendi í stað þess að kaupa hana að af skattskyldum aðilum ber þeim heldur engin frádráttarheimild í formi innskatts, sbr. ákvæði 4. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988.

 • Úr ákvarðandi bréfi ríkisskattstjóra nr. 2/2017:

  Meginstarfsemi félagsins varðar ákvæði 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 þar sem kveðið er á um að þjónusta banka, sparisjóða og annarra lánastofnana, svo og verðbréfamiðlun, sé undanþegin virðisaukaskatti. Félagið nýtur ekki frádráttarréttar í formi innskatts, sbr. 4. mgr. 2. gr. laganna, og nýtur því heldur ekki undanþágu samkvæmt 2. mgr. 35. gr. laganna frá greiðslu virðisaukaskatts af aðkeyptri þjónustu erlendis frá samkvæmt 1. mgr. sömu greinar, þ.e. vegna þjónustu sem talin er upp í 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. laganna og ætluð er til nota að hluta eða öllu leyti hér á landi.

   

  Í 4. tölul. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1988 er kveðið á um að til skattverðs teljist m.a. umboðs- og sölulaun og uppboðsþóknun. Í skattframkvæmd hefur þó verið talið að ef þjónusta umboðsaðila falli undir undanþáguákvæði 3. mgr. 2. gr. laganna sé umboðs- eða söluþóknun vegna slíkrar starfsemi undanþegin virðisaukaskatti með sama hætti, sbr. bréf ríkisskattastjóra, dags. 17. janúar 1990 (tilv. G-ákv. nr. 8/1990). Eins og starfsemi hins erlenda félags er lýst í álitsbeiðninni og með hliðsjón af ákvæðum 20. gr. laga nr. 108/2007 verður að telja, með þeim fyrirvörum sem fram koma hér á eftir, að hún falli undir skilgreinda þjónustu verðbréfafyrirtækja með starfsleyfi til verðbréfaviðskipta, sbr. 25. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og sé því undanþegin virðisaukaskatti samkvæmt 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988.Í þessu sambandi skal þó vakin athygli á því að í sumum tilvikum getur orðið um virðisaukaskattsskyldu að ræða þar sem undanþáguákvæði 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 tekur ekki sjálfkrafa til hvers kyns starfsemi sem fjármálafyrirtæki kunna að veita á grundvelli lagaheimilda hverju sinni. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 50/1988 kemur fram að undir ákvæðið falli einungis eiginleg banka- og lánastarfsemi. Í lögskýringargögnum er ekki að finna frekari skýringu á ákvæðinu en það hefur í skattframkvæmd verið túlkað þannig að undanþágan taki til þjónustu sem bönkum, sparisjóðum og öðrum lánastofnunum sé ætlað að veita lögum samkvæmt. Ríkisskattstjóri hefur því við nánari túlkun ákvæðisins sótt skilgreiningu á þjónustu umræddra stofnana til þeirra laga sem um þær gilda hverju sinni, sbr. nú lög nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Er því miðað við að undanþága 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 taki aðeins til eiginlegrar, skilgreindrar þjónustu fjármálafyrirtækja sem starfa samkvæmt leyfi fjármálaeftirlitsins en ekki til annarrar starfsemi sem þessi fyrirtæki kunna að veita enda sé það ekki tilgangur ákvæðisins að undanþiggja starfsemi innan fjármálastofnana sem er skattskyld hjá öðrum aðilum, sbr. bréf ríkisskattstjóra, dags. 16. febrúar 2015 (tilv. G-ákv. 1095/15). Í úrskurðarframkvæmd, t.d. í úrskurði yfirskattanefndar nr. 153/2016, sem birtur er á vef nefndarinnar, www.yskn.is, kemur fram að gildissvið undanþágunnar verði þó ekki skýrt rýmra en sem svarar til leyfisskyldrar starfsemi viðskiptabanka og annarra fjármálafyrirtækja samkvæmt lögum nr. 161/2002. Sem dæmi um virðisaukaskattsskylda starfsemi fjármálafyrirtækja tiltekur nefndin eignaleigu lausafjár, sem fjármálafyrirtæki kunna að hafa með höndum. Einnig má benda á að fjármögnunarleiga og kaupleiga er virðisaukaskattsskyld starfsemi þrátt fyrir að um sé að ræða leyfisskylda starfsemi, sbr. bréf ríkisskattstjóra, dags. 14. janúar 2000 (tilv. G-ákv. 932/2000), og í bréfi ríkisskattstjóra, dags. 4. júní 1993 (tilv. G-ákv. 480/93), kemur fram að „rekstur“ lífeyrissjóða með tilheyrandi bókhaldsvinnu o.þ.u.l. sé ekki undanþeginn virðisaukaskatti heldur teldist slík þjónusta til aðfanga samkvæmt 4. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988.

   

  Fleiri dæmi um skattskylda starfsemi fjármálafyrirtækja eru nefnd í tilvitnuðu bréfi ríkisskattstjóra nr. 1095/15, þ. á m. fjármálaráðgjöf. Í framangreindum úrskurði yfirskattanefndar nr. 153/2016 kemur og fram að ekkert undanþáguákvæði 3. mgr. 2. gr. laganna taki til ráðgjafarþjónustu sérstaklega, þ.m.t. fjármálaráðgjafar, en aftur á móti sé ráðgjafarþjónusta tilgreind sérstaklega í c-lið 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988. Í úrskurði nefndarinnar nr. 591/2012, sem einnig er birtur á vef hennar, kemur fram að sala á ráðgjöf um fjárfestingar og fjárfestingartækifæri erlendis, sem hérlendir aðilar hafi aflað sér erlendis frá, verði að teljast hafa verið notuð a.m.k. að hluta hér á landi við töku ákvarðana um þátttöku í einstökum verkefnum, þ. á m. um kaup eða sölu á eignarhlutum í erlendum félögum. Hafi verið talið að hér væri um að ræða þjónustu sem ákvæði 1. mgr. 35. gr., sbr. 10. tölul. 1. mgr. 12. gr., laga nr. 50/1988, tæki til. Í þessu sambandi hafi ekki verið gerður greinarmunur á því hvort kaupandi þjónustunnar afráði að ráðast í fjárfestingu eða önnur umsvif eða hverfi frá slíkum áformum. Í framangreindum úrskurði yfirskattanefndar nr. 153/2016 kemur þó fram að telja verði að fjármálaleg ráðgjafarþjónusta, sem viðskiptabankar og aðrar lánastofnanir veiti í nánum tengslum við venjulega innláns- og útlánaþjónustu, viðskipti með fjármálagerninga eða aðra hliðstæða fjármálaþjónustu, þ.e. sem viðbótar- eða aukaþjónustu gagnvart slíkri þjónustu, geti fallið undir undanþáguákvæði 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 á sama hátt og hin eiginlega banka- og lánastarfsemi, þ.e. aðalþjónustan. Á hinn bóginn verði að telja að ráðgjafarþjónusta fjármálafyrirtækja falli utan undanþáguákvæðisins sé hún veitt án slíkra tengsla, þ.e. við t.d. ávöxtun eigna, lánveitingar eða aðra hliðstæða bankaþjónustu, þannig að þjónustan hafi sjálfstætt gildi fyrir kaupandann. Vísar nefndin í þessu sambandi til sjónarmiða um aðal- og aukaþjónustu sem fram koma í úrskurði hennar nr. 230/2006 og í dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 106/2008. Með vísan til framangreinds er það álit ríkisskattstjóra að félaginu beri ekki að greiða virðisaukaskatt af umboðsþóknun til hins erlenda einkaumboðsmanns þess samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 50/1988 nema í þeim tilvikum að í þóknuninni felist þjónusta sem talin er upp í 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. sömu laga, þ.m.t. ráðgjafarþjónusta, sem veitt er án beinna tengsla við kaup eða sölu undanþeginnar fjármálaþjónustu þannig að slík þjónusta hafi sjálfstætt gildi fyrir félagið og/eða viðskiptavini þess og þjónustan er nýtt hér á landi að hluta eða öllu leyti.

 •  

  Ákvarðandi bréf nr. 1097/2015.

  Samkvæmt ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er það m.a. skilyrði innskattsfrádráttar „að seljandi vöru og þjónustu sé skráður á virðisaukaskattsskrá á því tímamarki þegar viðskipti eiga sér stað“. Ákvæðið var lögfest með 6. gr. laga nr. 163/2010, um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum (rafræn þjónustusala og eftirlit vegna áætlana), og tók það gildi 1. janúar 2011. Í almennum athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 163/2010 kemur fram að samkvæmt lögum nr. 50/1988, eins þau voru fyrir gildistöku laga nr. 163/2010, geti ,, ... ríkisskattstjóri ekki neitað rekstraraðilum um færslu innskatts á grundvelli reikninga frá aðilum sem hafa verið afskráðir af virðisaukaskattsskrá en gefa engu síður út reikninga sem eru í samræmi við formákvæði laganna. Af þessum sökum hefur ríkissjóður orðið fyrir tapi bæði vegna þess að virðisaukaskattur á grundvelli reikningsins er ekki greiddur í ríkissjóð og rekstraraðilinn fær virðisaukaskattinn greiddan í formi innskatts. Verði komið í veg fyrir þetta hvetur það kaupendur vöru og þjónustu til þess að eiga eingöngu viðskipti við þá aðila sem skráðir eru á virðisaukaskattsskrá.“ Í athugasemdum við framangreinda 6. gr. frumvarpsins segir svo: „Með þessu ákvæði er lagt til að heimild til færslu innskatts sé háð því skilyrði að viðsemjandi skattaðilans sé á virðisaukaskattsskrá þegar viðskipti eiga sér stað. Upp hafa komið mörg tilvik þar sem skattaðili hefur talið virðisaukaskatt til innskatts án þess að viðsemjandi hans hafi verið með opið virðisaukaskattsnúmer eða jafnvel aldrei skráður á virðisaukaskattsskrá en þrátt fyrir það gefið út reikning með virðisaukaskatti og ekki staðið skil á honum í ríkissjóð. Með ákvæðinu er stefnt að því að koma í veg fyrir slík tilfelli og fyrirbyggja tekjutap ríkissjóðs af þessum sökum. Á upplýsingavef ríkisskattstjóra er með einfaldri uppflettingu hægt að fá upplýsingar um það hverjir hafa virðisaukaskattsnúmer. Hægt er að leita bæði eftir kennitölu og virðisaukaskattsnúmeri og birtast upplýsingar um það hvenær viðkomandi virðisaukaskattsnúmer var opnað og hafi því verið lokað koma fram upplýsingar hvenær það var gert.“ Samkvæmt framangreindu verður því talið eðlilegt að leggja þá skyldu á greiðanda reiknings að ganga úr skugga um að uppfylltar séu þær kröfur sem gerðar eru lögum samkvæmt um form og efni reikninga, þ.m.t. að athuga hvort að útgefandi reiknings sé skráður á virðisaukaskattsskrá þegar viðskipti eiga sér stað. Þau sjónarmið koma glögglega fram í áliti efnahags- og skattanefndar við það frumvarp er varð að lögum nr. 163/2010: ,,Þær kröfur hafa verið gerðar til þeirra sem óska frádráttar innskatts frá útskatti að þeir færi sönnur á réttmæti slíks frádráttar með því að tryggja að reikningar sem bera með sér að skattur hafi verið greiddur svari þeim kröfum sem gerðar eru til slíkra skjala. Nefndin telur að þegar framangreind framkvæmd var útfærð í lögum og reglum hafi verið litið til þess að það stæði greiðanda slíkra reikninga næst að fylgjast með því að reikningarnir uppfylltu þær kröfur sem gerðar væru, enda væri óviðeigandi að fella slíka skyldu á útgefanda reikninganna og hvað þá á stjórnvöld sem á engan hátt gætu haft yfirsýn yfir að viðskipti ættu sér stað. Framangreind regla er í samræmi við þá meginreglu um sönnun að sönnunarbyrði hvíli á þeim sem næst stendur að tryggja sönnun. Nefndin telur að slíkt hið sama eigi við um tryggingu þess að viðskiptamenn séu skráðir á virðisaukaskattsskrá að breyttu breytanda.“ Nefnt ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988 er samkvæmt framangreindu afdráttarlaust í þessum efnum og veitir ekki neitt svigrúm til mats og er skattyfirvöldum samkvæmt orðanna hljóðan óheimilt að fallast á færslu innskatts samkvæmt reikningi sem gefinn er út af hálfu aðila sem ekki er skráður á virðisaukaskattsskrá þegar viðkomandi viðskipti eiga sér stað.

  Gengið hafa úrskurðir yfirskattanefndar þar sem gerður hefur verið ágreiningur um túlkun á framangreindu ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, sbr. t.d. mál nr. 70 og 71/2014, en þeir voru kveðnir upp 19. ágúst 2014. Í báðum tilvikunum var úrskurður ríkisskattstjóra staðfestur. Fyrrnefndi úrskurðurinn er birtur á vefsvæði yfirskattanefndar, www.yskn.is. Þeim úrskurði var skotið til dómstóla og var niðurstaða yfirskattanefndar staðfest og íslenska ríkið sýknað af kröfum stefnanda með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þann 18. maí 2015, í máli nr. E-3526/2014. Vakin er athygli á því að dómurinn er reifaður á upplýsingavef ríkisskattstjóra, nánar tiltekið á síðunni https://www.rsk.is/fagadilar/domar/domur-heradsdoms-reykjavikur-i-mali-nr-e-3526-2014

  Ríkisskattstjóri

 •  

  Úr ákvarðandi bréfi ríkisskattstjóra nr. 1096/2015:

  Vísað er til erindis frá félaginu, dags. 26. janúar 2015, þar sem óskað er upplýsinga um hvort tiltekin þjónusta þess sé virðisaukaskattsskyld eða falli undir undanþáguákvæði laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Fram kemur í erindinu að meðal þeirrar þjónustu sem félagið veiti sé útleiga á posum og annarri þjónustu þeim tengdum, þ.m.t. miðlun notkunarupplýsinga. Fyrir þá þjónustu geri félagið reikning á kaupmanninn og leggi á virðisaukaskatt í efra skattþrepi virðisaukaskatts. Hinni umspurðu þjónustu, sem félagið veiti auk framangreinds, er lýst þannig í erindinu að í hvert sinn er kaupmaður noti hinn leigða posa, þ.e. taki við greiðslukorti, tengist posinn miðlægu heimildarleitarkerfi félagsins sem sendi fyrirspurn til viðkomandi færsluhirðis og það svar sem fæst aftur til posans. Í lok dags sendi kaupmaður þær færslur sem geymdar séu í posanum til félagsins sem flokkar þær og sendir áfram til viðkomandi færsluhirðis. Fyrir þessa þjónustu hafi félagið gert reikning á færsluhirða og innheimt virðisaukaskatt samkvæmt þeim reikningum. Fram kemur í erindinu að hin umspurða þjónusta sé og hafi verið veitt af öðrum aðila og hafi félagið upplýsingar um að sá aðili veiti þessa þjónustu án þess að leggja á hana virðisaukaskatt. Þar sem félagið telji ekki ljóst hvort því beri að leggja virðisaukaskatt á ofangreinda þjónustu, þ.e. heimildarleitina og sendingu á flokkuðum upplýsingum til færsluhirðanna, telji hann nauðsynlegt að óska eftir áliti ríkisskattstjóra í þessu máli.

  [...]

  Til skoðunar kemur hvort hin umspurða þjónusta kunni að falla undir ákvæði laga nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu. Samkvæmt 10. tölul. 2. gr. þeirra laga kemur fram að þau taki m.a. ekki til stoðþjónustu tækniþjónustufyrirtækja við greiðsluþjónustu sem feli ekki í sér að þau hafi nokkurn tíma eignarhald á þeim fjármunum sem millifæra skuli, þ.m.t. úrvinnslu og geymslu gagna, þjónustu við verndun trúnaðarupplýsinga og friðhelgi einkalífs, sannvottun gagna og eininga, þjónustuveitu upplýsingatækni- og samskiptanets og útvegun og viðhald skjástöðva og búnaðar fyrir greiðsluþjónustu. Eins og hinni umspurðu þjónustu félagsins er lýst í framangreindu bréfi þess virðist hún felast í milligöngu, þ.e. að flytja fyrirspurn frá leigutaka posa, kaupmanni, um t.d. hvort greiðslukort viðskiptavinar hans sé gilt eða ekki til viðkomandi færsluhirðis og að flytja svar þaðan til baka. Þjónustan virðist því ekki fela í sér að félagið taki ábyrgð á svarinu sem slíku. Að áliti ríkisskattstjóra og með vísan til framangreinds verður þessi þjónusta ekki felld undir framangreint undanþáguákvæði 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. nefndra laga nr. 50/1988 heldur teljist hún til aðfanga viðskiptavina félagsins í skilningi 4. mgr. 2. gr. sömu laga og er því virðisaukaskattsskyld samkvæmt almennum ákvæðum þeirra.

 • Ákvarðandi bréf nr. 2/2015 í heild:

   

  Skattskylda til stöðugleikaskatts
  Með bréfi dags. 22. júlí 2015, mótteknu þann 23. sama mánaðar, er lögð fram fyrirspurn um skattskyldu til stöðugleikaskatts og áhrif þess að fjármálafyrirtæki fái staðfestingu héraðsdómara á nauðasamningi fyrir árslok 2015. Í meginmáli fyrirspurnar eru rakin ákvæði laga nr. 60/2015, um stöðugleikaskatt, um skattskylda aðila og forsendur þess að nauðasamningur fáist staðfestur. Í því sambandi er vísað til almennra athugasemda með frumvarpi til laganna eftir því sem við á. Þá eru rakin ákvæði laga nr. 59/2015 og viðeigandi ummæli í greinargerð með þeim lögum.

   

  Í niðurlagi fyrirspurnarinnar segir síðan:

  „Með vísan til framanritaðs og athugasemda í greinargerðum með frumvörpum til framangreindra laga virðist vera gert ráð fyrir því að fjármálafyrirtæki í slitameðferð sem hafa fengið staðfestingu héraðsdóms á nauðasamningi fyrir 31. desember 2015, séu ekki skattskyld til stöðugleikaskatts. Tilvísun í ákvæðinu til efnda eigi einungis við þau fjármálafyrirtæki sem hafa við gildistöku laganna fengið staðfestan nauðasamning en ekki getað efnt vegna fjármagnshafta.
  Óskað er eftir staðfestingu ríkisskattstjóra á framangreindri túlkun. Þannig er óskað eftir staðfestingu ríkisskattstjóra á því að nauðasamningur fjármálafyrirtækis í slitameðferð sem staðfestur hefur verið af héraðsdómi fyrir lok ársins 2015 leiði til þess að viðkomandi fjármálafyrirtæki sé undanþegið skattskyldu til stöðugleikaskatts.“
   

  Til svars fyrirspurninni skal eftirfarandi tekið fram:
  Í 2. gr. laga nr. 60/2015 eru afmarkaðir þeir aðilar sem skattskyldir eru samkvæmt ákvæðum laganna.
  Í almennum athugasemdum í frumvarpi sem varð að lögum nr. 60/2015, sbr. þskj. 1400 -786. mál, svo sem fyrirspyrjandi hefur vísað til kemur eftirfarandi fram í kafla 4.2 um afmörkun skattskyldu:

  „Skattskyldir aðilar samkvæmt frumvarpi þessu eru þeir lögaðilar sem áður störfuðu sem viðskiptabankar eða sparisjóðir en sæta nú slitameðferð eða hafa lokið henni vegna þess að héraðsdómur hefur úrskurðað að þeir skuli teknir til gjaldþrotaskipta. Í þessu felst að þeir aðilar sem nú sæta slitameðferð en fá staðfestan nauðasamning  fyrir 31. desember 2015 teljast ekki meðal skattskyldra aðila.“ (feitletrað hér)
   

  Þessi vilji löggjafans er síðan ítrekaður í nefndaráliti um frumvarp sem varð að lögum nr. 59/2015; sbr. þskj. 1610 -787 mál, sem lagt var fram samhliða frumvarpi því sem varð að lögum nr. 60/2015, en þar er fjallað um þau þáttaskil, sem verða í slitameðferðinni við staðfestingu nauðasamningsins, með eftirfarandi hætti:

  „Í þessu sambandi er rétt að benda á að fáist frumvarp að nauðasamningi samþykkt og síðar staðfest af héraðsdómi fer um eignir fyrirtækisins eftir ákvæðum nauðasamningsins. Með staðfestingu nauðasamnings fjármálafyrirtækis lýkur því formlega slitameðferð þess og slitastjórn lýkur þar með störfum.“

  Tilvitnaður texti felur reyndar í sér einfaldaða mynd, enda settur fram í samhengi við þau atvik að nauðasamningur fáist ekki samþykktur eða héraðsdómur hafni samþykki hans leiði það til þess að slitastjórn skuli óska eftir gjaldþrotaskiptum, sbr. það sem nánar segir í tilvitnuðu nefndaráliti um: Breytingar á tekjuskattslögum, en þar kemur eftirfarandi fram:

  „Breytingin í b-lið felst í því að kveða jafnframt á um það að við ákvörðun álagningarstofns vegna sérstaks fjársýsluskatts skuli ekki taka tillit til tekna sem myndast við almenna eftirgjöf skulda í tengslum við lok slitameðferðar skattaðila skv. 103. gr. a laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.“
   

  Þrátt fyrir að verið sé að draga fram með nokkuð afdráttarlausum hætti þann vilja löggjafarvaldsins að brottfall skattskyldu til stöðuleikaskatts miðist við það tímamark að aðilar í slitameðferð fái í nánustu framtíð nauðasamning samþykktan með eftirfarandi staðfestingu héraðsdóms verður að hafa í huga að fleira kemur til. Samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti má skjóta úrskurði dómara um staðfestingu nauðasamnings til æðra dóms innan viku frá uppkvaðningu hans. Hafi málsskot ekki átt sér stað innan þess frests verður niðurstaða dómara endanleg við lok frestsins. Þetta atriði er t.a.m. áréttað í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 459/2011, frá 10. maí 2012 en þar segir: 

  „Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti nauðasamninginn með úrskurði 18. ágúst 2010. Úrskurðurinn varð endanlegur að liðnum kærufresti 25. sama mánaðar, sbr. 1. mgr. 59. gr. laga nr. 21/1991.“(undirstrikað hér)
   

  Með vísan til framanritaðs er staðfest að skattskylda aðila sem falla undir 1. málslið 2. gr. laga nr. 60/2015 telst falla niður samkvæmt þeim lögum frá og með þeim tímapunkti sem niðurstaða dómara um staðfestingu á nauðasamningi telst endanleg.  
  Í reynd sé um slíkt að ræða í síðasta lagi 31. desember 2015 að teknu tilliti til þess að sá tímafrestur sem tilgreindur er í 1. mgr. 59. gr. laga nr. 21/1991 hafi runnið sitt skeið innan  fyrst greindra tímamarka og niðurstaða dómara sé að því leyti endanleg.
   

  Ríkisskattstjóri

 • Bréf RSK nr. 04/15, dags. 13. apríl 2015 er svohljóðandi:

   

  Dagsetning Tilvísun
  13.04.2015 04/15

   

  Heimilisfesti - tvísköttunarsamningur milli Íslands og Bretlands

   

  Vísað er til fyrirspurnar, dags. 17. mars 2015, er varðar 4. mgr. 4. gr. í nýjum tvísköttunarsamningi milli Íslands og Bretlands annars vegar og staðgreiðsluskyldu/skilaskyldu félags vegna arðgreiðslna til erlendra hluthafa þess hins vegar.

   

  Fyrirspurnin lýtur að einkahlutafélagi sem skráð er á Íslandi og er með raunverulega framkvæmdastjórn í Bretlandi. Félagið er því heimilisfast og skattskylt hér á landi á grundvelli skráningar þess hérlendis, sbr. 1. tölul. 1. mgr., sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í tíð eldri tvísköttunarsamnings milli Íslands og Bretlands var félagið talið heimilisfast í Bretlandi í skattalegum skilningi vegna ákvæðis 3. tölul. 4. gr. samningsins, en þar kemur fram að þegar aðili, annar en maður, telst eiga heimilisfesti í báðum aðildarríkjum samkvæmt 1. tölul. 4. gr. samningsins, teljist hann heimilisfastur í því ríki þar sem raunveruleg framkvæmdastjórn hans hefur aðsetur.

   

  Í 4. mgr. 4. gr. tvísköttunarsamnings milli Íslands og Bretlands, sem tók gildi 1. janúar 2015, er kveðið á um að þegar lögaðili teljist heimilisfastur í báðum samningsríkjunum samkvæmt 1. mgr. 4. gr. samningsins skuli bær stjórnvöld í samningsríkjunum leitast við að ákvarða með gagnkvæmu samkomulagi í hvaða samningsríki sá aðili skuli teljast heimilisfastur að því er samninginn varðar. Ef ekki sé fyrir hendi gagnkvæmt samkomulag milli bærra stjórnvalda samningsríkjanna skuli aðilinn talinn heimilisfastur í hvorugu samningsríkinu, að því er varðar kröfu um ávinning sem veittur sé samkvæmt samningnum, að undanskildum þeim sem kveðið sé á um í 21., 22. og 23. gr. samningsins.

   

  Með hliðsjón af breyttu orðalagi 4. gr. tvísköttunarsamnings Íslands og Bretlands er þess farið á leit að ríkisskattstjóri staðfesti þann skilning skattaðila, með hliðsjón af ákvæðum laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og ákvæðum hins nýja tvísköttunarsamnings frá 1. janúar 2015, að skattaðilinn sé ennþá skattskyldur í Bretlandi svo sem hann hefur verið, enda hafi engar breytingar orðið á högum hans.

   

  Þá er í fyrirspurninni farið þess á leit að ríkisskattstjóri staðfesti þann skilning skattaðila að á meðan hann teljist heimilisfastur í Bretlandi skv. tvísköttunarsamningi Íslands og Bretlands þá teljist hann ekki launagreiðandi í skilningi laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og því ekki skyldugur til að halda eftir og standa skil á staðgreiðslu af mögulegri arðgreiðslu til erlends móðurfélags síns.

   

  Ef niðurstaða ríkisskattstjóra verði sú að ákvæði laga nr. 45/1987 eigi við um skattaðila þá sé óskað eftir því að ríkisskattstjóri staðfesti að við staðgreiðslu vegna mögulegrar arðgreiðslu félagsins til núverandi eiganda eigi við ákvæði tvísköttunarsamnings Íslands og Hollands, en frá 5. apríl 2012 hafi félagið verið að fullu í eigu félags í Hollandi. Samkvæmt 2. tölul. 10. gr. tvísköttunarsamnings landanna yrði skattprósenta hér á landi 0% þegar staðfesting lægi fyrir á heimilisfesti móðurfélagsins í Hollandi.

   

  Í tilefni af fyrirspurninni tekur ríkisskattstjóri eftirfarandi fram:

   

  Líkt og rakið er hér að framan varðar fyrirspurnin félag sem er með skráð heimili á Íslandi og því heimilisfast hérlendis, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þá kemur fram að raunveruleg framkvæmdastjórn félagsins sé í Bretlandi og því hafi félagið verið talið heimilisfast þar í skattalegu tillit, sbr. 3. tölul. 4. gr. tvísköttunarsamnings Íslands og Bretlands sem í gildi var fram til 1. janúar 2015, en þar er kveðið á um að þegar aðili, annar en maður, telst eiga heimilisfesti í báðum aðildarríkjum skv. 1. mgr. 4. gr. samningsins, teljist hann heimilisfastur í því ríki þar sem raunveruleg framkvæmdastjórn hans hefur aðsetur. Í 1. mgr. 4. gr. samningsins segir að í samningnum merki hugtakið „aðili heimilisfastur í samningsríki“ sérhvern þann aðila sem samkvæmt lögum þess ríkis er skattskyldur þar vegna búsetu, heimilisfesti, aðseturs stjórnar, aðseturs stofnunar eða af öðrum svipuðum ástæðum, og felur einnig í sér það ríki og sjálfstjórnarhéruð eða sveitarstjórnir þess. Hugtakið feli þó ekki í sér neinn þann aðila sem eingöngu er skattskyldur í þessu ríki af tekjum eða söluhagnaði sem eiga uppruna sinn í því ríki. Tekið skal fram að engin gögn liggja fyrir sem staðfesta heimilisfesti skattaðila í Bretlandi.

   

  Í nýjum tvísköttunarsamningi milli Íslands og Bretlands, sem kom til framkvæmda á fyrrgreindu tímamarki, hefur 4. gr. samningsins verið breytt í þá veru að þegar aðili, annar en maður, telst heimilisfastur í báðum samningsríkjunum skv. 1. mgr. sömu greinar skuli bær stjórnvöld í samningsríkjunum leitast við að ákvarða með gagnkvæmu samkomulagi í hvaða samningsríki sá aðili skuli teljast heimilisfastur að því er samninginn varðar. Ef ekki sé fyrir hendi gagnkvæmt samkomulag milli bærra stjórnvalda samningsríkjanna skuli aðilinn talinn heimilisfastur í hvorugu samningsríkinu, að því er varðar kröfur um ávinning sem veittur sé samkvæmt samningnum, að undanskildum þeim sem kveðið sé á um í 21. – 23. gr. samningsins.

   

  Skattaðilar sem teljast heimilisfastir í Bretlandi og Íslandi geta leitað til bærra stjórnvalda í öðru hvoru ríkinu og óskað eftir því að þau geri með sér gagnkvæmt samkomulag, sbr. framanritað. Að því gefnu að aðstæður skattaðila séu með þeim hætti á hann þannig m.a. kost á að leita til ríkisskattstjóra á Íslandi og óskað eftir því að embættið geri slíkt samkomulag við bært stjórnvald í Bretlandi. Með vísan til framfærðra forsendna og ákvæðis 4. mgr. 4. gr. eins og það hljóðar í núgildandi tvísköttunarsamningi er ekki unnt að staðfesta að þann skilning skattaðila að félagið sé ekki heimilisfast á Íslandi í skattalegu tilliti.

   

  Í fyrirspurnarbréfi er óskað eftir staðfestingu ríkisskattstjóra á því að umrætt félag teljist ekki launagreiðandi í skilningi 7. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Er beiðnin reist á þeirri forsendu að félagið teljist eingöngu heimilisfast í Bretlandi í skattalegu tilliti, sbr. framanritað. Í ljósi þeirrar niðurstöðu ríkisskattstjóra að félagið teljist heimilisfast á Íslandi á grundvelli skráningar þess hérlendis er ekki unnt að staðfesta skilning skattaðila á þessum grunni.

   

  Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 45/1987 er launagreiðandi, skv. lögunum, hver sá aðili sem innir af hendi eða reiknar greiðslur sem teljast laun skv. 5. gr. laganna. Í 6. tölul. 5. gr. segir að til launa teljist hvers konar greiðslur til aðila sem bera takmarkaða skattskyldu hér á landi og getið er um í 2., 3., 6., 7. og 8. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003. Í fyrrgreindum 7. tölul. 3. gr. bera þeir aðilar takmarkaða skattskyldu hér á landi sem hafa tekjur, þar með talinn söluhagnað, af íslenskum hlutabréfum, stofnbréfum eða öðrum réttindum til hludeildar í hagnaði eða af rekstri íslenskra fyrirtækja og skulu greiða tekjuskatt af þeim tekjum. Samkvæmt framanrituðu eru lögaðilar með heimilisfesti á Íslandi, sem inna af hendi arðgreiðslur til erlendra eigenda sinna, launagreiðendur í skilningi laga nr. 45/1987. Í ljósi þess að umrætt félag er fyrirspurnin lýtur að er heimilisfast á Íslandi á grundvelli 2. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, telst hann launagreiðandi skv. lögum nr. 45/1987 við útgreiðslu arðs til erlendra eigenda sinna.

   

  Fyrirspyrjandi óskar eftir því að ríkisskattstjóri staðfesti að ákvæði tvísköttunarsamnings milli Íslands og Hollands eigi við hvað varðar staðgreiðslu vegna mögulegrar arðgreiðslu félagsins til núverandi eigenda þess í Hollandi ef niðurstaða ríkisskattstjóra er á þá lund að félagið teljist launagreiðandi samkvæmt ákvæðum laga nr. 45/1987. Tekið er fram að ef ríkisskattstjóri teldi ákvæði samningsins ná til umræddra greiðslna þá yrði skattprósenta félagsins hér á landi 0%, sbr. 2. tölul. 10. gr. samningsins þegar staðfesting lægi fyrir um heimilisfesti móðurfélagsins í Hollandi.

   

  Samkvæmt 1. tölul. 10. gr. tvísköttunarsamnings milli Íslands og Hollands má skattleggja ágóðahluti, sem félag heimilisfast í samningsríki greiðir aðila heimilisföstum í hinu samningsríkinu, í síðarnefnda ríkinu, þ.e. í heimilisfestisríki móttakanda greiðslunnar. Í 2. tölul. sömu greinar samningsins kemur fram að slíka ágóðahluti megi þó einnig skattleggja í því samningsríki þar sem félagið sem greiðir ágóðahlutina er heimilisfast og samkvæmt lögum þess ríkis. Sé viðtakandinn hins vegar raunverulegur eigandi ágóðahlutanna skuli skatturinn sem þannig er lagður á eigi vera hærri en núll af hundraði af vergri fjárhæð ágóðahlutanna ef raunverulegi eigandinn er félag (sameignarfélag þó undanskilið) sem á beint að minnsta kosti 10 af hundraði eignarhlutdeild í félaginu sem ágóðahlutina greiðir og 15 af hundraði af vergri fjárhæð ágóðahlutanna í öllum öðrum tilvikum.

   

  Ríkisskattstjóri staðfestir að ákvæði 2. tölul. 10. gr. í tvísköttunarsamningi milli Íslands og Hollands eigi við útgreiðslu arðs frá félagi með heimilisfesti á Íslandi til félags í Hollandi, sem er raunverulegur eigandi fyrrnefnda félagsins með beinum hætti, enda nemi eignarhlutdeild að lágmarki 10 af hundraði. Sótt er um undanþágu með eyðublaðinu RSK 5.42 „Application under Double Taxation Conventions for exemption from Icelandic taxation and/or refund from taxes paid“.

   

  Ríkisskattstjóri

 • Svar ríkisskattstjóra er svohljóðandi:

   

  Dagsetning Tilvísun

  13.05.2015 05/15

   

  Farsímar fyrir starfsmenn

   

  Vísað er til fyrirspurnar sem barst með tölvupósti hinn 27. febrúar 2015. Í póstinum kom m.a. fram að verið væri að endurskoða farsímareglur starfsmanna A og í því sambandi væri verið að skoða breytta útfærslu á þeim einkum út frá BYOD stefnu (Bring your own device). Óskað var eftir svörum við þremur eftirfarandi spurningum: 

   
  1. Starfsmaður, sem metið er að þurfi snjalltæki/farsíma starfs síns vegna, fær styrk, t.d. upp á 150.000 kr annað hvort ár, og velur sjálfur tæki og á það, í stað þess að tækið sé keypt af A og hún eigi tækið. Starfsmaðurinn notar þá tækið vinnu sinnar vegna. Greiðir hann skatt af styrkgreiðslunni eða getur hann notað reikning fyrir tækjakaupunum á móti og þarf þá ekki að greiða skatt? Það er spurning hvort máli skiptir í þessu samhengi ef símanúmerið sem tengt er við tækið er í eign/skráð á starfsmanninn eða A.
   
  2. Starfsmaður, sem metið er að þurfi snjalltæki/farsíma starfs síns vegna, á sjálfur mjög gott snjalltæki/farsíma og vill nota það frekar en að fá annað tæki frá vinnuveitanda. Starfsmaðurinn notar þá tækið vinnu sinnar vegna og því greiðir  A honum leigu af símanum. Væntanlega hófstillt mánaðarleg upphæð. Greiðir hann skatt af leigugreiðslunum eða getur hann notað reikning fyrir upphaflegum tækjakaupum á móti og þarf þá ekki að greiða skatt? Eða aðrar leiðir til að greiða ekki skatt? Einnig spurning um hve hár skattur af slíkum leigugreiðslum yrði, hvort það væri einungis 20%. Það er spurning hvort máli skiptir í þessu samhengi ef símanúmerið sem tengt er við tækið er í eign/skráð á starfsmanninn eða A.
   
  3. Starfsmaður, sem metið er að þurfi snjalltæki/farsíma starfs síns vegna, fær síma til afnota sem A kaupir. A afskrifar hann um 4,17% þannig að hann er að fullu afskrifaður á tveimur árum. Starfsmaður fær þá að halda honum eftir tvö ár, t.d. vegna starfsloka hans. Greiðir hann skatt/hlunnindaskatt vegna þess?

   
  Því er almennt til að svara að skattskylda tekna er mjög víðtæk og skiptir þá ekki máli hvernig er greitt eða með hverju, sbr. 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Laun og starfstengdar greiðslur eru skattskyldar samkvæmt 1. tölul. ákvæðisins og styrkir samkvæmt 2. tölul. ákvæðisins. Styrkir af hvaða tagi sem er teljast til skattskyldra tekna mótttakenda þeirra, sbr. 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Eftir atvikum getur verið heimilt að færa til frádráttar á móti styrkjum beinan kostnað, sbr. 2. mgr. B-liðar 30. gr. laganna, þó ekki persónulegan kostnað eða útgjöld vegna kaupa á eignum eða fyrningu eigna.
   
  Víkur þá að framangreindum þremur spurningum:
   
  1. Styrkur sem greiddur er starfsmanni til kaupa hans á einhvers konar snjalltæki/farsíma telst til skattskyldar tekna móttakanda og ekki er leyfður frádráttur á móti, sbr. þær almennu reglur í þessum efnum sem raktar eru að framan. Ef launagreiðandi á hinn bóginn metur það svo að nauðsynlegt sé að starfsmaður hafi síma/snjalltæki vegna vinnu sinnar telur ríkisskattstjóri að heimilt sé, í stað þess að leggja starfsmanninum til slíkt tæki, að greiða tiltekna fjárhæð til kaupa á því án þess að hún teljist viðkomandi til tekna. Þykir ekki skipta máli í þessu sambandi þótt starfsmaðurinn ákveði sjálfur að kaupa síma/snjalltæki á hærra verði en nemur greiðslu launagreiðandans. Kaupi starfsmaðurinn ódýrara tæki en greiðslunni nemur telst mismunurinn til skattskyldra tekna. Grundvallaratiði í þessu er að síminn/snjalltækið sé nýtt í þágu launagreiðandans og að ósk hans.
   
  2. Leigugreiðslur af tæki í eigu starfsmanns teljast til skattskyldra tekna hans eftir almennum reglum, sbr. 1. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 (nú 20% fjármagnstekjuskattur), og enginn frádráttur er heimill á móti við þær aðstæður sem lýst er í fyrirspurninni. 
   
  3. Eins og rakið er að framan skal almennt telja alla afhendingu verðmæta til skattskyldra tekna þiggjanda og þá á gangverði eða matsverði. Í því tilviki sem um er spurt ætti því að telja til tekna hjá starfsmanni sem fær afhentan síma/snjalltæki fjárhæð sem tekur mið af gangverði viðkomandi tækis á þeim tíma sem afhending fer fram. Í spurningunni er gengið út frá því að endingartími síma/snjalltækis sé ekki nema u.þ.b. tvö ár. Ef svo er hefur það áhrif á gangverð þannig að það væri annað hvort ekkert eða mjög lág fjárhæð.
   
  Beðist er velvirðingar á því að dregist hefur að svara fyrirspurninni.
   

  Ríkisskattstjóri
   

 • Úr bréfi ríkisskattstjóra:

   

  Þessu er til að svara að skattskylda tekna er mjög víðtæk og skiptir þá ekki máli hvernig er greitt eða með hverju, sbr. 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Laun og starfstengdar greiðslur eru skattskyldar samkvæmt 1. tölul. ákvæðisins og styrkir samkvæmt 2. tölul. ákvæðisins. Styrkir af hvaða tagi sem er teljast til skattskyldra tekna mótttakenda þeirra, sbr. 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Eftir atvikum getur verið heimilt að færa til frádráttar á móti styrkjum beinan kostnað, sbr. 2. mgr. B-liðar 30. gr. laganna. Það leiðir af tilvísun síðast greinds lagaákvæðis til 1. mgr. 31. gr. laganna að aldrei er heimilt að færa persónulegan kostnað til frádráttar, eins og t.d. kostnað vegna kaupa á gleraugum á móti styrk sem ætlaður er til kaupanna. Styrkir eru í flestum tilvikum staðgreiðsluskyldir og ber greiðanda því að draga af þeim staðgreiðslu í samræmi við lög nr.45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Undanþágur frá staðgreiðslu eru taldar upp með tæmandi hætti í 2. gr. reglugerðar nr. 591/1987, um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu. Að loknu tekjuári ber greiðanda styrkjanna að gera grein fyrir þeim með launamiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra í síðasta lagi 10. febrúar ár hvert.

   

  Rétt er að taka fram að í skattmati er ekki fjallað um beina styrki heldur um mat á hlunnindum til tekna og um þær greiðslur á kostnaði sem ekki skal telja til tekna. Að því marki sem um getur í skattmati hverju sinni teljast greiðslur á kostnaði t.d. vegna heilsuræktar því ekki til beinna styrkja í skilningi fyrrgreinds 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 heldur falla þær í raun að þessu leyti undir starfsmannakostnað sem ekki skal telja til tekna hjá starfsmönnum, sbr. einnig ákvæði um kostnað vegna árshátíðar og annan slíkan starfsmannatengdan kostnað. Fari greiðslur á hinn bóginn umfram þær fjárhæðir sem ákvarðaðar eru í skattmati ber að telja það sem umfram er til skattskyldra tekna þess sem þiggur. Tekið skal fram að um tilteknar greiðslur gildir það sama þótt þær séu greiddar af stéttarfélögum og á það m.a. við um greiðslur vegna heilsuræktar.

   

  Félagi [.....] er skattalega heimilt að greiða út úr sjóðum sínum til félagsmanna en almenna reglan er sú, sbr. það sem rakið er að framan, að um skattskyldar tekjur viðtakenda er að ræða sem jafnframt ber að draga af staðgreiðslu samkvæmt lögum nr. 40/1978.

   

  Sé útgreiðsla í raun vegna framlagðra reikninga um kostnað vegna heilsuræktar, eins og fram kemur í spurningu nr. eitt í fyrirspurninni, er heimilt að halda þeirri greiðslu utan skattskyldu og þar með staðgreiðslu að hámarki 55.000 kr. á tekjuárinu 2015, enda séu öll skilyrði uppfyllt að öðru leyti, sbr. kafla 2.9 í skattmati sem auglýst var í B-deild Stjórnartíðinda hinn 19. desember 2014, auglýsing nr. 1173/2014. Þó er rétt að taka fram að greiðslur þessar skal færa á launamiða og skila í febrúar.

   

  Að öðru leyti vísast til almennra reglna sem raktar hafa verið að framan til svars spurningum sem fram eru settar í fyrirspurn.

   

  Ríkisskattstjóri

 • Orðrétt segir í ákvarðandi bréfi ríkisskattstjóra nr. 01/15, dags. 11.03.2015:

   

  Föst starfsstöð

   

  Vísað er til fyrirspurnar, dags. 12. janúar 2015, varðandi túlkun á því hvort skattaðili geti talist vera með fasta starfsstöð á Íslandi við nánar tilgreindar aðstæður. Fram kemur að skattaðili sé félag sem þróar og framleiðir hugbúnað fyrir fjármálageirann og selur viðskiptavinum sínum leyfi til að nota þann hugbúnað og veitir þjónustu í tengslum við hann, s.s. varðandi uppfærslur og lagfæringar, samræmingu við annan hugbúnað, þjálfun starfsmanna og ráðgjöf.

   

  Annars vegar er um að ræða samning um leyfi til að nota hugbúnaðinn og hins vegar þjónustusamning sem felur í sér að þjónusta vegna hugbúnaðarins sé veitt í fjórum stigum; þjálfun viðskiptavinar í notkun hugbúnaðarins, greiningu vegna samræmingu hugbúnaðar við annan hugbúnað og innleiðingu tvenns konar kerfa.

   

  Skattaðili hefur gert þjónustusamning við íslenskan aðila vegna fyrsta og annars stigs þjónustunnar, þ.e. þjálfunar viðskiptavinar og vinnu við greiningu vegna samræmingu hugbúnaðar. Gert hafi verið ráð fyrir að vinna vegna þjálfunar myndi taka sex mánuði og sendi skattaðili tæknimenn til Íslands til að sinna þessari þjónustu samkvæmt samningnum. Um þann þátt þjónustunnar segir eftirfarandi:

   

  „Þessir tilteknu starfsmenn eru hugbúnaðarverkfræðingar og tæknimenn sem sæta að öllu leyti stjórn skattaðila og hafa ekki heimild til samningsgerðar fyrir hönd skattaðila. Starfsmennirnir dvöldu ekki á Íslandi um lengri tíma heldur ferðuðust fram og til baka á tveggja vikna fresti. Þeir gistu á hóteli og inntu vinnuna af hendi á starfsstöð viðskiptavinarins.

  ...

  Til stendur að skattaðili sendi fjóra til sex starfsmenn til Íslands sem munu uppfylla skyldur skattaðila samkvæmt samningnum vegna vinnu á öðru stigi ferilsins, þ.e. greiningu vegna samræmingu hugbúnaðar við annan hugbúnað. Gert er ráð fyrir að þessi vinna taki eitt og hálft ár.“

   

  Þá kemur fram að áætlað er að vinna vegna þriðja stigs í ferlinu sé u.þ.b. eitt ár til viðbótar og verða starfsmenn sendir til Íslands til að inna af hendi tæknivinnu á starfsstöð viðskiptavinarins eins og þurfa þykir og muni þeir gista á hóteli. Öll vinna verði innt af hendi á starfsstöð viðskiptavinar, en ekki sé fyrirhugað að skattaðili opni skrifstofu á Íslandi. Ekki liggja fyrir upplýsingar um tíðni komu starfsmanna eða hversu lengi dvöl þeirra muni vara hverju sinni á öðru og þriðja stigi ferilsins.

   

  Fyrirspyrjandi setti fram eftirfarandi samantekt:

   

  • „Eitt skilgreint verkefni í tveimur hlutum sem tekur samanlagt um 2,5 ár í vinnslu. Öll hugverkaréttindi í tengslum við hugbúnaðinn eru og munu verða í eigu [skattaðila].
  • Allar viðræður sem farið hafa fram og samningar sem gerðir verða, munu vera milli viðskiptavinarins og [skattaðila]. Starfsmenn skattaðila á Íslandi munu ekki hafa umboð til samningsgerðar fyrir hönd félagsins vegna eðli þeirrar vinnu sem þeir inn af hendi, þ.e. vinna er eingöngu af tæknilegum toga.
  • Vinna verður innt af hendi á starfsstöð viðskiptavinar.
  • Starfsmenn skattaðila munu gista á hóteli.
  • Ekki er fyrirhugað að skattaðili opni skrifstofu á Íslandi.“

   

  Tekið er fram að skattaðili telji hvorki heimili sitt hér á landi né að raunveruleg framkvæmdastjórn sé hér á landi og því beri hann ekki ótakmarkaða skattskyldu á íslandi.

   

  Ríkisskattstjóri metur fyrirspurnina sem svo að spurt sé hvort að skattaðili teljist hafa fasta starfsstöð hér á landi í skilningi 4. tölul. 3. gr. tekjuskattslaga sbr. og tvísköttunarsamning milli Íslands og heimilisfestarríkis skattaðila.

   

  Í nefndum 4. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, kemur fram að takmarkaða skattskyldu beri allir þeir aðilar sem reka hér á landi fasta starfsstöð, taka þátt í rekstri fastrar starfsstöðvar eða njóta hluta af ágóða slíkrar starfsstöðvar.  Ein meginforsenda þess að á erlendum aðila hvíli takmörkuð skattskylda vegna reksturs fastrar starfsstöðvar, er að fyrir hendi sé skattskyldur atvinnurekstur.  Í íslenskum tekjuskattslögum er ekki að finna skilgreiningu á hugtakinu „atvinnurekstur“ en í skattframkvæmd hefur verið litið til þeirra atriða sem yfirskattanefnd hefur í úrskurðum sínum byggt á við mat á því hvort um er að ræða sjálfstæða starfsemi sem skattleggja beri sem atvinnurekstur. Í úrskurðum nefndarinnar er litið til þess hvort um starfsemi er að ræða sem rekin er reglubundið og í nokkru umfangi í þeim efnahagslega tilgangi að skila hagnaði.  Ennfremur hefur verið horft til þess hvort starfsemin sé almennt séð rekin af rekstraraðilum.

   

  Við mat á því hvort skattaðili reki slíka starfsemi hér á landi er ekki nauðsynlegt að starfsemin leggi einhvern þann skerf til hagnaðarmyndunar starfseminnar í heild sem heimfæra má til skattlagningar á ákveðinni starfsstöð. Aftur á móti er það grundvallaratriði hvort starfsemin sem innt er af hendi á starfsstöðinni sé nauðsynlegur og ekki óverulegur hluti af starfsemi fyrirtækis svo talið verði að um fasta starfsstöð sé að ræða.  Ennfremur hefur verið horft til þess hvort starfsemin sé almennt séð rekin af rekstraraðilum. Til viðbótar þessu er það álit ríkisskattstjóra að tvísköttunarsamningsfyrirmynd OECD og greinargerð með henni veiti mikilvægar leiðbeiningar um hvernig almennt túlka beri hugtakið föst starfsstöð skv. innlendum rétti.

   

  Í 5. gr. samningsfyrirmyndar OECD er sett fram skilgreining á hugtakinu „föst atvinnustöð“, en þar kemur fram að til þess að föst atvinnustöð teljist vera fyrir hendi verði að vera til staðar föst aðstaða þar sem starfsemi fyrirtækisins fer fram að einhverju eða öllu leyti. Almennt er talið að fjögur skilyrði verði að vera fyrir hendi svo að um fasta atvinnustöð sé að ræða. Í fyrsta lagi að um einhvers konar atvinnurekstur sé að ræða. Í öðru lagi að umræddum atvinnurekstri sé sinnt frá tiltekinni starfsstöð, þ.e. einhvers konar aðstaða, s.s. húsakynni og í einhverjum tilvikum vélar eða útbúnaður sé fyrir hendi. Í þriðja lagi að starfsstöðin sé föst, þ.e. ákveðinn varanleiki sé á starfseminni og í fjórða og síðasta lagi að starfsemi fyrirtækisins fari að nokkru eða öllu leyti fram í gegnum starfsstöðina. Í dæmaskyni eru í sex stafliðum 2. mgr. 5. gr. samningsfyrirmyndarinnar taldar upp þær aðstæður sem helst eru taldar leiða til fastrar atvinnustöðvar og má nefna sem dæmi skrifstofu, útibú og verksmiðju.  Það er þannig helsta einkenni fastra atvinnustöðva að þær fela í sér bæði landfræðilegan og viðskiptalegan varanleika.  Í sex töluliðum 4. mgr. 5. gr. samningsfyrirmyndarinnar er svo að finna dæmi um hvað ekki telst til fastrar atvinnustöðvar. Þessi atriði eiga það sameiginlegt að þau falla undir það að vera til undirbúnings á aðalstarfsemi eða aðalstarfseminni til aðstoðar.

   

  Í fyrirmyndinni er tekið fram að starfsstöð geti verið staðsett í húsakynnum annars fyrirtækis. Er m.a. sett fram dæmi um málara sem telst hafa fasta atvinnustöð í skrifstofuhúsnæði síns helsta viðskiptavinar þar sem hann ver þremur dögum í viku í tvö ár við vinnu sínu, þ.e. að mála húsnæðið. Af því verður ráðið að það hefur ekki úrslitaáhrif í þessu sambandi þótt ekki sé fyrirhugað að opna skrifstofu á Íslandi.

   

  Líkt og rakið er hér að framan er gerð krafa um ákveðinn varanleika svo föst atvinnustöð teljist vera fyrir hendi. Í fyrirmyndinni kemur fram að skilyrði um varanleika starfseminnar geti talist uppfyllt þótt starfsemin vari stutt hverju sinni. Á það m.a. við um starfsemi sem er veitt endurtekið yfir ákveðið tímabil. Kemur fram að í þeim tilvikum beri að líta heildstætt á þann tíma sem aðstaða er notuð undir starfsemina og tíðni hennar, en starfsemin geti varað í einhver ár. Í þeim tilvikum sé ekki unnt að líta svo á að starfsemin sé tímabundin. Í engu er vikið að því hvort einhver áhrif hafi þótt starfsmenn gisti á hóteli eða gistiheimili á meðan dvöl þeirra stendur. Verður að byggja á því að almennt hafi það ekki þýðingu við mat á því hvort um sé að ræða fasta atvinnustöð heldur beri að líta til varanleika starfseminnar almennt, sbr. framanritað.

   

  Í fyrirspurn er sérstaklega tekið fram að starfsmenn skattaðila á Íslandi muni ekki hafa umboð til samningsgerðar fyrir hönd félagsins. Verður helst ráðið að verið sé að vísa til þess að sérstaklega sé tekið á því í gildandi tvísköttunarsamningi milli Íslands og heimilisfestarríkis skattaðila, sbr. samningsfyrirmynd OECD, að föst atvinnustöð sé fyrir hendi þegar aðili, sem ekki er óháður umboðsaðili, hefur á hendi starfsemi fyrir fyrirtæki og hefur heimild til að gera samninga fyrir fyrirtækið og beiti þeirri heimild að jafnaði. Hvað þetta ákvæði varðar segir í fyrirmyndinni að almennt sé viðurkennt að fyrirtæki skuli teljast hafa fasta atvinnustöð í ríki við framangreindar aðstæður, þrátt fyrir að það myndi ekki teljast uppfylla almenn skilyrði fyrir því að teljast hafa fasta atvinnustöð. Verður þannig ráðið að umrætt ákvæði sé til viðbótar hinum almennu ákvæðum, en þrengi ekki túlkun á almennri skilgreiningu á því hvenær föst atvinnustöð teljist vera fyrir hendi. Verður því ekki séð að það hafi vægi í þessu sambandi að umræddir starfsmenn hafi ekki umboð til samningsgerðar fyrir hönd félagsins.

   

  Af forsendum fyrirspurnarinnar verður ráðið að sú þjónusta sem skattaðili veitir hinum íslenska aðila sé mikilvægur þáttur í því að taka umræddan hugbúnað í notkun og þannig lykilþáttur í starfsemi skattaðila/fyrirspyrjanda. Þá verður ekki annað ráðið en að skilyrði þess að föst atvinnustöð teljist fyrir hendi séu uppfyllt, þ. á m. skilyrði um ákveðinn varanleika starfseminnar.

   

  Með vísan til framanritaðs og með hliðsjón af framfærðri málavaxtalýsingu myndi skattaðili hafa fasta starfsstöð/atvinnustöð hér á landi í skilningi 4. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 5. gr. gildandi tvísköttunarsamnings Íslands og heimilisfestarríkis skattaðila.

   

  Ríkisskattstjóri 

   

 • Úr ákvarðandi bréfi RSK nr. 001/2015:

   

   

  I. Gildistaka ákvæðis um skjölunarskyldu

  Hver sé skilningur embættisins á því hvenær lögaðilar sem uppfylltu viðmið 5. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt (tsl.), á rekstrarárunum 2013 og 2014 þurfi að útbúa milliverðlagsskjölun? Er það fyrst vegna viðskipta við tengda aðila sem eiga sér stað á rekstrarárinu 2014 eða 2015? Ef hið fyrrnefnda er talið gilda er óskað svara við því hvort ríkisskattstjóri hafi lokið við að uppfæra framtalskerfi þannig að lögaðilar geti staðfest skjölunarskyldu vegna ársins 2014 við álagningu þessa árs og veitt þar þær upplýsingar sem 13. gr. reglugerðar nr. 1180/2014 kveður á um.

   

  Í fyrirspurnarbréfi er vísað til þess að fulltrúi Fjármála- og efnahagsráðuneytisins hafi staðfest þann skilning, á opnum fundi með fyrirspyrjanda í mars í fyrra, að skjölunarskylda myndi fyrst stofnast á árinu 2015. Ennfremur er í fyrirspurnarbréfi vísað til þess að sami skilningur hafi komið fram hjá starfshópi ráðuneytisins á fundi með sérfræðingum og hagsmunaaðilum síðasta haust. Hins vegar væri ekki hægt að lesa þann skilning með jafn afgerandi hætti í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar vegna þingmáls nr. 356 þar sem sérstaklega hafi verið fjallað um gildistöku ákvæðanna, en þar segir „...í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 142/2013 segir um gildistökuna að ákvæðið öðlist þegar gildi og komi til framkvæmda 1. janúar 2014 þannig að áhrifa þess gæti fyrst við álagningu 2015 vegna rekstrarársins 2014. Að mati nefndarinnar er því ljóst að skjölunarskyldan stofnast ekki fyrr en árið 2015 ef 1 milljarðs kr. markinu er náð á árinu 2014.“

   

  Þrátt fyrir misvísandi orðalag í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar verður þó að telja að þar komi fram sú afstaða að  til skjölunarskyldu stofnist ekki fyrr en árið 2015 ef 1 milljarðs kr. markinu er náð á árinu 2014. Líkt og rakið er í fyrirspurnarbréfi kveður gildistökuákvæði á um að hið nýja ákvæði um milliverðlagningu öðlist þegar gildi og komi til framkvæmda 1. janúar 2014. Ríkisskattstjóri leggur þann skilning í ákvæðið að lögaðili verði fyrst skjölunarskyldur skv. ákvæðinu á árinu 2015 hafi hann náð tilgreindum veltu- eða eignamörkum í upphafi eða við lok næstliðins reikningsárs, þ.e. 2014.

   

  Rétt er að taka sérstaklega fram að ríkisskattstjóri getur eftir sem áður kallað eftir upplýsingum og gögnum sem liggja til grundvallar verðákvörðun í viðskiptum tengdra aðila, sbr. 3.-5. mgr. 57. gr. tsl. vegna viðskipta árið 2014.

   

  II. Framsetning skjölunar

  Hvort ríkisskattstjóri hyggist gefa út frekari leiðbeiningar til lögaðila um s.s. magn og innihald upplýsinga sem og framsetningu gagna.

   

  Í fyrirspurnarbréfi er vísað til ákvæða reglugerðar nr. 1180/2014, m.a. þess að haga beri skjölun í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar og þær meginreglur sem séu að finna í leiðbeiningareglum OECD um milliverðlagningu eins og þær eru á hverjum tíma og að magn og innihald upplýsinga og gagna sem varðveita beri skuli taka mið af eðli og umfangi viðskipta og vera þannig framsett að þau tryggi sem best aðgengi skattyfirvalda í þeim tilgangi að ganga úr skugga um að verð sé í samræmi við armslengdarregluna. Þá segir: „Þrátt fyrir að rgl. nr. 1180/2014 feli í sér frekari upplýsingakvaðir þá er ljóst að milliverðlagningarskjölun lögaðila verður vart samræmd í heild sinni, bæði er varðar form og umfang efnis. Þetta er þekkt víða um heim þar sem fyrirtæki, ráðgjafar þeirra og viðkomandi skattyfirvöld vinna iðulega ekki á grundvelli samræmdra eyðublaða þótt dæmi séu um að skattayfirvöld veiti frekari leiðbeiningar í þeim efnum.“

   

  Líkt og rakið er í fyrirspurnarbréfi kemur fram í reglugerð nr. 1180/2014, um skjölun og milliverðlagningu í viðskiptum tengdra lögaðila, að magn og innihald upplýsinga og gagna skuli taka mið af eðli og umfangi viðskipta og vera þannig framsett að þau tryggi sem best aðgengi skattyfirvalda í þeim tilgangi að ganga úr skugga um að verð sé í samræmi við armslengdarregluna. Leiðir framangreind regla af eðli máls enda mismunandi hversu flókin eða umfangsmikil viðskipti eru hverju sinni. Almennt markmið með skjalfestingu viðskipta tengdra aðila er að sýna fram á að verðlagning í viðskiptum þeirra sé sambærileg því sem almennt gerist í viðskiptum á milli ótengdra aðila undir sambærilegum kringumstæðum og mismunandi er hvaða gögn og upplýsingar teljast mikilvæg í hverju tilviki. Fyrrnefnd reglugerð nr. 1180/2014 og leiðbeiningareglur OECD veita almenna leiðsögn hvað það varðar. Ekki er í burðarliðnum að gefa út nánari leiðbeiningar að óreyndu þótt eðlilega megi við því búast að núverandi reglur og leiðbeiningar verði í framtíðinni endurskoðaðar til að skýra eða taka á álitaefnum sem risið hafa upp við framkvæmd gildandi reglna.

   

  III. Óefnislegar eignir

  Í hvaða tilvikum óefnislegar eignir verði taldar hafa áhrif á skjölunarskyld viðskipti, hvaða kröfur verði gerðar til upplýsingagjafar um líklegt endursöluverð og núvirði væntra framtíðartekna óefnislegra eigna sem og hvort nálgun ríkisskattstjóra verði í takt við leiðbeiningareglur OECD.

   

  Veita ber upplýsingar um óefnislegar eignir þegar tengdir aðilar eiga í viðskiptum með þær. Einnig er gerð krafa um upplýsingar um óefnislegar eignir þegar þær hafa með einhverjum hætti áhrif á skjölunarskyld viðskipti að öðru leyti, sbr. 8. gr. reglugerðar nr. 1180/2014. Sem dæmi má nefna þegar óefnislegar eignir, s.s. einkaleyfi og sérfræðiþekking, nýtast að nokkru eða verulegu leyti við framleiðslu vara og hefur verulega þýðingu við ákvörðun verðs.

   

  Almennt verður að gera ráð fyrir að skjölunarskyldir aðilar hafi góða yfirsýn yfir nýtingu eigna í rekstrinum, þar með talið óefnislegra eigna sem þeir eiga eða nýta burtséð frá því hvort þær hafi verið færðar til eignar í bókum viðkomandi aðila. Oft eru fyrir hendi hjálplegar upplýsingar um verðmæti óefnislegra eigna í tengslum við virðisrýrnunarpróf sem þarf að framkvæma, m.a. á slíkum eignum í rekstri fyrirtækja. Skjölunarskyldir aðilar verða að geta tengt saman verðmæti slíkra óefnislegra eigna og þess afgjalds sem þeir fá fyrir þær í viðskiptum við tengda aðila. Eins þurfa skjölunarskyldir aðilar að sýna fram á að afgjald, sem þeir greiða fyrir nýtingu slíkra eigna í viðskiptum við tengda aðila, standist armslengdarsjónarmið.

   

  Með viðhaldi óefnislegra eigna er t.d. átt við hvernig verðmæti slíkra eigna breytist vegna meðvitaðra ráðstafana fyrirtækis eða vegna ráðstafana tengds aðila sem gæti kallað á endurmat á þeim þóknunum sem eru í gildi. Skattaðilum ber að sýna fram á að verð í viðskiptum þeirra við tengda aðila séu í samræmi við armslengdarsjónarmið og gerð er krafa um að upplýsingar séu skýrar og gagnsæjar þannig að unnt sé að leggja mat á grundvöll verðákvörðunar. Gera verður ráð fyrir að leiðbeiningareglur OECD munu gegna, hér sem endranær, stóru hlutverki í allri vinnu skattyfirvalda varðandi milliverðlagningu, sbr. 3. – 5. mgr. 57. gr. tsl.

   

  IV. Upplýsingagjöf samhliða framtalsskilum

  Vísað er til 13. gr. reglugerðar nr. 1180/2014 þar sem fjallað er um upplýsingar sem veita skal samhliða framtalsskilum og óskað eftir því að ríkisskattstjóri upplýsi um hvort það form sem þar sé vísað til hafi verið útbúið. Ef svo sé ekki hvenær megi ætla að svo verði og hvenær það verði gert aðgengilegt og þá hvort mið verði tekið af BEPS aðgerðaráætluninni.

   

  Hafin er vinna við að útbúa nýtt eyðublað sem skila ber fyrst með skattframtali 2016. Ekki er komin endanleg mynd á eyðublaðið og ekki liggur fyrir hvenær það verður fullbúið.

   

  V. Samanburðargreining úr gagnabönkum

  Hvernig embættið muni koma til með að meðhöndla greiningar byggðar á gagnagrunnum sem fyrirtæki nota til að ákvarða armslengdargrundvöll tengdra viðskipta og eru hluti af milliverðlagningarskjölun þeirra.

   

  Fram kemur í fyrirspurnarbréfi að mögulega muni skjölunarskyldir aðilar í einhverjum tilvikum gera greiningar byggða á gagnagrunnum. Við það vakni ákveðin álitamál s.s. hvernig ríkisskattstjóri muni koma til með að nýta slíkar greiningar og hvaða kröfur verði gerðar til þeirra t.a.m. hvort tilteknir gagnagrunnar verði taldir álitlegri en aðrir, hvort samanburðarfyrirtæki á Íslandi eða Norðurlöndunum verði talin álitlegri en önnur, s.s. frá Bandaríkjunum og Asíu og hvort ríkisskattstjóri  muni gera kröfur um að slíkar upplýsingar verði uppfærðar árlega og þá frá grunni eða einungis fjárhagsniðurstöðurnar.

   

  Markmið skjölunar er að halda til haga upplýsingum og gögnum um grundvöll verðákvörðunar í viðskiptum tengdra aðila og sýna fram á að verðið sé í samræmi við armslengdarreglu. Skattaðilum ber að tryggja að upplýsingar og gögn séu viðeigandi og gefi rétta mynd af ákvörðun verðs á hverjum tíma. Við afmörkun á því hvaða gögn eru nauðsynleg og viðeigandi í því sambandi verður að líta til allra málavaxta, m.a. aðstæðna á viðkomandi markaði, sérstakra sjónarmiða sem gilda í einstökum tilvikum og eðli og gerð samninga milli aðila.

   

  Í gegnum tíðina hafa skattyfirvöld metið hvort kaup- eða söluverð í viðskiptum tengdra aðila hafi verið óeðlilega hátt eða lágt, sbr. 1. og 2. mgr. 57. gr. tsl., og gert viðeigandi leiðréttingar reynist ástæða til þess. Hefur því verið haldið fram að framangreind ákvæði hafi að geyma almenna milliverðlagningarreglu þótt hún feli í sér aðra nálgun en milliverðlagningarreglur sem í gildi eru víða um heim, m.a. þær sem taka mið af leiðbeiningareglum OECD um milliverðlagningu. Milliverðlagningarregla 3.-5. mgr. 57. gr. tsl. er hins vegar ný í íslenskum rétti og hafa skattyfirvöld ekki tekið mál til úrlausnar á grundvelli þeirrar reglu og því ekki beitt þeim aðferðum sem þar eiga við. Með vísan til þess verður að telja ótímabært að taka endanlega afstöðu til þess hvernig afmarka beri samanburðargreiningu í viðskiptum tengdra aðila þannig að það gildi í öllum málum sem komi til kasta skattyfirvalda. Þá hefur ríkisskattstjóri ekki lagt sérstakt mat á einstaka gagnagrunna, á þessu stigi, og hvort og þá hverjir þeirra teljist álitlegri en aðrir.

   

  VI. Viðurlagabeiting

  Hvort til greina komi að móta stefnu um beitingu viðurlaga í milliverðlagsmálum í anda dönsku leiðarinnar þannig að álögum verði ekki beitt hafi skattaðili í góðri trú útbúið milliverðlagsskjölun í samræmi við skilyrði þar að lútandi.

   

  Hefðbundin sjónarmið verða lögð til grundvallar ákvörðun um álagsbeitingu í samræmi við fordæmi í úrskurðarframkvæmd yfirskattanefndar. Verður ekki ráðið að lagt hafi verið upp með að annarri aðferðafræði yrði beitt í málum um milliverðlagningu en öðrum málum almennt.

  Ríkisskattstjóri