Stimpilgjald - hlutaskipting félags

E.g., 2021-09-27
E.g., 2021-09-27
 • Mál nr. 9174/2017. Málið er reifað með svofelldum hætti á heimasíðu Umboðsmanns:

   

  A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði ríkisskattstjóra um skattalega heimilisfesti og skattskyldu hér á landi. Hann hafði kært úrskurðinn til fjármála- og efnahagsráðuneytisins en ráðuneytið vísað kærunni frá. Byggðist frávísunin á því að samkvæmt lögum um tekjuskatt mætti skjóta úrskurði ríkisskattstjóra um heimilisfesti til dómstóla að stefndum ríkisskattstjóra vegna ráðherra. Ráðuneytið teldi að af lagaákvæðinu leiddi að úrskurðir ríkisskattstjóra um heimilisfesti væru hvorki kæranlegir til ráðuneytisins né yfirskattanefndar. Athugun umboðsmanns laut að því hvort frávísun ráðuneytisins á þessum grunni væri í samræmi við lög. Umboðsmaður taldi að þegar lagt væri mat á hvort lög eða venjur víki til hliðar almennri kæruheimild stjórnsýslulaga yrði að hafa í huga þau sjónarmið sem almennt koma til skoðunar þegar reynir á samspil stjórnsýslulaga og sérlaga. Gæta þyrfti varfærni við að túlka ákvæði sérlaga á þann veg að þau feli í sér frávik frá kröfum stjórnsýslulaga, borgurunum í óhag, ef ályktanir þess efnis verða ekki dregnar með nokkrum skýrum hætti af orðalagi þeirra eða lögskýringargögnum. Ekki yrði séð af orðalagi umrædds lagaákvæðis í tekjuskattslögum, forsögu þess og samanburði við orðalag annarra ákvæða á málefnasviðinu að skýrt væri að því væri ætlað að víkja til hliðar kærurétti samkvæmt stjórnsýslulögum. Fremur yrði ályktað að þýðing lagaákvæðisins í tekjuskattslögum væri að kveða á um fyrirsvar ríkisskattstjóra í dómsmálum um úrskurði hans um heimilisfesti. Niðurstaða umboðsmanns var því að frávísun ráðuneytisins á kæru A hefði ekki verið í samræmi við lög. Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til ráðuneytisins að taka málið til meðferðar að nýju, kæmi fram ósk um það frá A, og leysa úr málinu í samræmi við þau sjónarmið sem kæmu fram í álitinu. Einnig beindi hann því til ráðuneytisins taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum. 

 • Mál nr. 8383/2015. Málið er reifað með svofelldum hætti á heimasíðu Umboðsmanns:

   

   

  A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir því að starfsmaður skattrannsóknarstjóra ríkisins hefði, þegar hann hafði samband við hana í síma og með smáskilaboðum til að óska eftir símanúmeri föður hennar og að boðum yrði komið til hans, ekki upplýst um frá hvaða stofnun hann hringdi og hvert væri tilefnið, þótt um slíkt hefði verið spurt. Athugun umboðsmanns laut að því hvort þessi samskipti hefðu verið í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. Umboðsmaður gerði ekki athugasemdir við að starfsmaðurinn hefði haft samband við A til að kanna hvort hún hefði upplýsingar um símanúmer föður síns til þess að unnt væri að ná í hann. Hann taldi hins vegar að starfsmanninum hefði í síðasta lagi borið að gera A grein fyrir hvar hann starfaði þegar hann var inntur eftir upplýsingunum. Háttsemi starfsmannsins hefði að því leyti ekki verið í samræmi við þá skyldu opinberra starfsmanna að upplýsa við erindagjörðir sínar um hvar þeir starfa. Skyldan er leidd af eðli starfs opinberra stofnana og starfsmanna og þeirri almennu réttarumgjörð sem gildir um starfsheimildir þeirra og meðferð opinbers valds. Þeir starfshættir eru einnig í samræmi við kröfur sem leiða af vönduðum stjórnsýsluháttum. Umboðsmaður taldi jafnframt að ef starfsmaðurinn hefði talið þörf á að upplýsa um að erindið tengdist vinnu föður A, án þess að segja frá því hjá hvaða ríkisstofnun hann starfaði, hefði borið að gera það þannig að hún gæti áttað sig á því af tilefni beiðninnar væru ekki skyndilegar aðstæður föður hennar, enda leiddi af vönduðum stjórnsýsluháttum að forðast bæri að framsetning erinda opinberra starfsmanna yllu misskilningi. Eins og málinu var háttað og þar sem fyrir lá að embætti skattrannsóknarstjóra lýsti í bréfi að það harmaði ef samskiptin hefðu valdið A hugarangri lét umboðsmaður við það sitja að mælast til þess að betur yrði gætt að þessu atriði í framtíðarstörfum skattrannsóknarstjóra.
   

   

 • Reifun umboðsmanns:

  A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði fjármála- og efnahagsráðuneytisins þar sem staðfest var ákvörðun tollstjóra um að synja honum um niðurfellingu dráttarvaxta vegna kröfu um endurákvörðun opinberra gjalda sem tollstjóri hafði til innheimtu. A hafði greitt kröfuna 31. janúar 2014 en að mati stjórnvalda var gjalddagi 28. desember 2013 og eindagi 28. janúar 2014. A var því krafinn um dráttarvexti frá gjalddaga til greiðsludags.

   

  Í 6. mgr. 112. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, segir að séu skattar gjaldanda hækkaðir eftir álagningu falli þeir í gjalddaga „10 dögum eftir að gjaldanda var tilkynnt um hækkunina“. Í lögunum er gert ráð fyrir því að eindagi sé mánuði eftir gjalddaga. Úrskurður ríkisskattstjóra, þar sem opinber gjöld A voru endurákvörðuð, var dagsettur og póstlagður 18. desember 2013. Afstaða stjórnvalda til gjalddaga og eindaga kröfunnar byggðist á því A hefði verið „tilkynnt um hækkunina“ þann dag. Umboðsmaður tók til athugunar hvort þessi afstaða stjórnvalda hefði verið í samræmi við lög.

   

  Með hliðsjón af orðalagi ákvæðisins, öðrum ákvæðum laganna um fresti og hinni almennu reglu 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 taldi umboðsmaður að gjaldanda hefði verið „tilkynnt um“ hækkun þegar úrskurður þess efnis væri kominn til hans á þann stað sem almennt mætti búast við að hann gæti kynnt sér úrskurðinn. Umboðsmaður tók fram að úrskurður í máli A hefði verið borinn út með ábyrgðarpósti. Þar sem A hefði ekki verið heima hefði tilkynning verið skilin eftir á heimili hans 19. desember 2013 um að ábyrgðarbréf biði hans á næsta pósthúsi sem nálgast mætti næsta virka dag. Umboðsmaður taldi að þar sem tilkynningin veitti ekki upplýsingar um efni úrskurðarins hefði hún ekki getað komið í stað birtingar hans. Með vísan til þessa var það álit umboðsmanns að úrskurðurinn hefði í fyrsta lagi verið kominn til A þegar sem hann átti möguleika á að nálgast hann, þ.e. 20. desember 2013, og þá með því að sækja hann á pósthús. Gjalddagi hefði verið 30. desember 2013. Því hefði úrskurður ráðuneytisins ekki verið í samræmi við lög að þessu leyti.

   

  Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til ráðuneytisins að mál A yrði endurupptekið og leyst úr því í samræmi við þau sjónarmið sem reifuð voru í álitinu, kæmi fram ósk frá A þess efnis. Jafnframt beindi hann því til stjórnvalda að hafa þessi sjónarmið í huga í framtíðarstörfum sínum. Umboðsmaður taldi hins vegar, í ljós tilmæla um endurupptöku málsins, ekki tilefni til að fjalla frekar um útreikning dráttarvaxta í tilviki A. Einnig tók umboðsmaður fram að hann teldi breytingar ríkisskattstjóra á leiðbeiningartexta í úrskurðum, á þá leið að nú væri upplýst hvenær krafa félli í gjalddaga og frá hvaða degi krafist væri dráttarvaxta, væru í góðu samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti. Hins vegar beindi hann þeim tilmælum til ríkisskattstjóra að efni umræddra leiðbeininga yrði endurskoðað með hliðsjón af því sem fram kæmi í álitinu.

 • Á árinu 2012 kærði KPMG ehf. til fjármálaráðuneytisins, fyrir hönd umbjóðanda síns, ákvörðun sýslumanns um innheimtu stimpilgjalds af skjali sem lagt var fram til leiðréttingar á þinglýstum eiganda tiltekinna fasteigna vegna skiptingar félags og samruna þess við annað félag. Í kærunni var vísað í fordæmi dóms Hæstaréttar í máli nr. 306/2004 þar sem því var slegið föstu að samruni tveggja félaga fæli ekki í sér að raunveruleg eigendaskipti að fasteignum félags sem slitið er við samruna heldur renni þær saman við eignir yfirtökufélagsins. Þar sem ekki væri um að ræða raunverulega eignayfirfærslu félli samruni utan gildissviðs þágildandi stimpilgjaldlaga nr. 36/1978. Í kærunni var í meginatriðum byggt á því að skipting væri í eðli sínu samruni að hluta og fæli, að sama skapi og samruni, ekki í sér raunverulega eignayfirfærslu milli félaga. Í úrskurði ráðuneytisins var rökum KPMG ehf. hafnað.

   

  Umbjóðandi KPMG ehf. vildi ekki una niðurstöðunni og kvartaði til umboðsmanns Alþingis. Í áliti umboðsmanns, í máli nr. 7404/2013, kom fram að úrskurður ráðuneytisins hafi ekki verið byggður á réttum grundvelli þar sem lagt hafi verið til grundvallar að félag, sem skipt hafi verið, hafi fengið endurgjald fyrir fasteignir sem það átti við sameiningu við annað félag. Mæltist hann því til þess við ráðuneytið að málið yrði tekið upp að nýju.

   

  Í úrskurði ráðuneytisins, dags. 7. nóvember 2014, um endurupptöku málsins var fallist á upphafleg rök KPMG ehf.um að skjölin hafi ekki verið stimpilgjaldskyld þar sem ekki hafi verið um raunverulega eignayfirfærslu að ræða, sbr. tilvitnaðan dóm Hæstaréttar. Orðrétt segir „Umskráning fasteigna í kjölfar skiptingar og samruna var því ekki stimpilgjaldskyld í tíð eldri laga um stimpilgjald."

   

  KPMG ehf. hefur lengi haldi því fram að skjöl, vegna skráningar eigna vegna skiptingar félaga, hafi verið undanþegin stimpilgjaldi skv. nú brottfeldum stimpilgjaldslögum nr. 36/1978. Nú þegar þetta hefur fengist staðfest er ljóst að þeir sem greitt hafa stimpilgjald af umskráningu eigna vegna skiptinga á síðastliðnum fjórum árum eiga kröfu á ríkissjóð um endurgreiðslu ásamt vöxtum og dráttarvöxtum frá því tímamarki sem óskað er eftir endurgreiðslu.

 • A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir synjun Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda á kröfu hans um endurgreiðslu á hluta af innheimtukostnaði vegna vangreiddra iðgjalda. Var um að ræða iðgjöld sem beint er til söfnunarsjóðsins frá ríkisskattstjóra vegna þeirra aðila sem ekki hafa greitt iðgjöld í lífeyrissjóð samkvæmt skattframtali, sbr. 5. mgr. 6. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Taldi A lagastoð skorta fyrir því að krefja hann um kostnað vegna innheimtu sjóðsins umfram það sem mælt er fyrir um í 8. gr. laga nr. 155/1998, um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda. Samkvæmt því ákvæði er stjórn sjóðsins heimilt að innheimta þóknun, allt að 4% af iðgjaldi, vegna innheimtu sjóðsins á grundvelli 6. gr. laga nr. 129/1997. Krafa söfnunarsjóðsins á A var samtals að fjárhæð 190.250 kr., þar af var höfuðstóllinn 94.800 kr. og innheimtukostnaður 78.510 kr.

   

  Umboðsmaður beindi sjónum sínum í upphafi að stöðu Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda að lögum í ljósi þeirra skýringa sjóðsins að hann teldist ekki stjórnvald. Með vísan til þeirra laga sem gilda um sjóðinn og innheimtu hans á umræddum lífeyrissjóðsiðgjöldum áréttaði hann fyrri niðurstöðu sína um að sjóðurinn teldist hluti af þeirri stjórnsýslu sem löggjafinn hefði stofnað til með lögum sem hluta af framkvæmdarvaldinu.

   

  Athugun umboðsmanns beindist einkum að því hvort Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda hafi verið heimilt að krefja A um innheimtukostnað, sem féll til áður en kom til þess að réttarfarsúrræðum væri beitt við innheimtuna, umfram þá þóknun sem mælt er fyrir um í 8. gr. laga nr. 155/1998. Taldi umboðsmaður ljóst að af 5. mgr. 6. gr. laga nr. 129/1997 og 8. gr. laga nr. 155/1998 hefði verið lögð sú verkskylda á Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda að annast umrædda innheimtu. Löggjafinn hefði jafnframt tekið afstöðu til þess að hvaða marki væri heimilt að fella kostnað sjóðsins af þessari lögbundnu innheimtu á greiðendur iðgjaldanna. Það eitt að að sjóðurinn hefði valið þá leið að kaupa að hluta þjónustu við þessa innheimtu breytti engu um að löggjafinn hefði ákveðið það hámark innheimtukostnaðar sem sjóðurinn gæti krafið greiðanda iðgjaldsins um vegna þeirrar vinnu. Það var því niðurstaða hans að ekki væri heimilt að fella kostnað af almennum innheimtuaðgerðum sjóðsins, þ.m.t. vegna aðkeyptrar þjónustu, á greiðendur umræddra iðgjalda umfram þá hámarksþóknun sem kveðið er á um í 8. gr. laga nr. 155/1998. Umboðsmaður taldi sig þó ekki geta fullyrt að söfnunarsjóðnum hefði verið óheimilt að krefja A um það aðfarargjald sem sjóðurinn hafði greitt í ríkissjóð vegna innheimtu á kröfunni, sbr. 4. gr. laga nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs. Að öðru leyti var ekki tekin afstaða til kostnaðar sem gæti fallið til við beitingu réttarfarsúrræða af hálfu söfnunarsjóðsins.

 • Mál nr. 6335/2011. Á heimasíðu umboðsmanns er málið reifað með svofelldum hætti:

   

  A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir endurteknum rannsóknum skattrannsóknarstjóra ríkisins á skattamálum hans. Var einkum á því byggt að meðalhófs hefði ekki verið gætt við rannsóknina. Í málinu lá fyrir að meðferð málsins hafði lokið af hálfu skattrannsóknarstjóra án þess að tilefni hefði þótt til frekari aðgerða af hálfu embættisins.

   
  Í málinu hafði ríkisskattstjóri óskað eftir tilteknum upplýsingum hjá A vegna notkunar hans á erlendu greiðslukorti hér á landi. A svaraði erindi ríkisskattstjóra. Að svo búnu vísaði ríkisskattstjóri máli A til skattrannsóknarstjóra. A fékk ekki tilkynningu um það. Áður en A var tilkynnt um að mál hans væri til meðferðar hjá skattrannsóknarstjóra vísaði embættið máli hans til lögreglu með ósk um að fram færi húsleit á heimili A og haldlagning gagna vegna rannsóknar á greiðslukortaviðskiptum hans. Lögreglan gerði húsleit á heimili A og lagði hald á tölvu í eigu hans. Lögreglan sendi málið síðan aftur til skattrannsóknarstjóra þar sem rannsókn þess væri enn á frumstigi. Athugun setts umboðsmanns Alþingis laut að því hvort ákvörðun skattrannsóknarstjóra um að vísa máli A til lögreglu, til þess að leggja hald á tiltekin gögn á lögheimili A, hefði verið í samræmi við lög.

   
  Settur umboðsmaður tók fram að skattrannsóknarstjóri yrði í ljósi meðalhófsreglu að beita rannsóknarúrræðum af varfærni og gæta þess að ganga ekki lengra en nauðsynlegt væri. Almennt bæri skattrannsóknarstjóra að óska fyrst eftir upplýsingum af hálfu skattaðila áður en meira íþyngjandi úrræði væri beitt eins og haldlagningu gagna og húsleit, ef tilgangur rannsóknaraðgerðar væri að afla frekari upplýsinga í málinu. Frá þessu kynni að vera undantekning ef rannsóknarhagsmunir stæðu því í vegi. Við mat á því hvort atvik væru með þeim hætti yrði að ljá skattrannsóknarstjóra ákveðið svigrúm. Ef meðalhófsreglan ætti aftur á móti að þjóna tilgangi sínum og hafa raunhæfa og efnislega þýðingu í málum af þessu tagi í þágu réttaröryggis borgaranna yrðu eftirlitsaðilar á borð við umboðsmann Alþingis og dómstóla að kanna gaumgæfilega hvort staðhæfingar skattrannsóknarstjóra um að nauðsynlegt hefði verið að beita íþyngjandi rannsóknaraðgerðum vegna rannsóknarhagsmuna væru á rökum reistar og byggðar á forsvaranlegu mati á atvikum og gögnum málsins.

   
  Í ljósi gagna málsins féllst settur umboðsmaður hvorki á þær skýringar skattrannsóknarstjóra að hætta hefði verið á rannsóknarspjöllum í málinu ef fyrst hefði verið óskað eftir upplýsingunum frá A né að A hefði verið veittur fullur kostur á að leggja fram umbeðin gögn sem vörpuðu ljósi á þá sjálfstæðu rannsókn sem hafði verið afmörkuð hjá skattrannsóknarstjóra. Niðurstaða setts umboðsmanns Alþingis var því sú að ákvörðun skattrannsóknarstjóra um að vísa máli A til lögreglu, svo húsleit og haldlagning gagna á heimili A gæti farið fram, hefði ekki verið í samræmi við grundvallarreglu íslensks réttar um meðalhóf og þá meginreglu sakamálaréttarfars sem lögfest væri í 3. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

   
  Settur umboðsmaður beindi þeim tilmælum til skattrannsóknarstjóra ríkisins að leitað yrði leiða til að rétta hlut A og að embættið hefði þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu framvegis í huga í störfum sínum.

   

 • Mál nr. 7322/2012. Málið er reifað með svofelldum hætti á heimasíðu umboðsmanns:

   

  "A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur um álagningu stöðubrotsgjalds vegna bifreiðar hans og málsmeðferð sjóðsins í því máli.

   
  Settur umboðsmaður taldi að útskýringar A í málinu, ef sannar reyndust, hefðu verið til þess fallnar að lögum að hafa verulega þýðingu fyrir það hvort honum hefði með réttu verið gert að greiða umrætt gjald á grundvelli 108. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Bílastæðasjóði hefði því borið samkvæmt ákvæðum 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að leiðbeina honum um að leggja fram gögn sem hefðu verið til þess fallin að renna stoðum undir staðhæfingar hans. Þar sem á það hefði skort var það niðurstaða setts umboðsmanns að málsmeðferð bílastæðasjóðs hefði ekki verið í samræmi við þessi ákvæði stjórnsýslulaga. Ákvörðun sjóðsins um synjun á beiðni A um endurskoðun ákvörðunar um álagningu gjaldsins hefði því verið ólögmæt.

   
  Þá taldi settur umboðsmaður að upplýsingar á álagningarseðli bílastæðasjóðs hefðu ekki fullnægt kröfum 22. gr. stjórnsýslulaga um efni rökstuðnings. Hefði sjóðnum borið samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. 20. gr. sömu laga að veita A leiðbeiningar um heimild hans til að fá ákvörðun um álagningu stöðubrotsgjaldsins rökstudda.

   
  Settur umboðsmaður beindi þeim tilmælum til bílastæðasjóðs að hann tæki mál A til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni um það frá honum, og hagaði meðferð þess í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu. Þá beindi hann þeim tilmælum til sjóðsins að hann hefði þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu framvegis í huga í störfum sínum."

 • Mál nr. 6405/2011. Reifun er tekin af heimasíðu umboðsmanns:

   

  "A hf. leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að skipa sérfræðinga til að hafa sértækt eftirlit með rekstri félagsins. Athugun umboðsmanns beindist að því hvort Fjármálaeftirlitið hefði lagt fullnægjandi grundvöll að gjaldtöku vegna skipunar sérfræðinganna.

   
  Umboðsmaður tók fram að ákvæði 1. mgr. 7. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, fæli í sér heimild til töku þjónustugjalds. Væri innheimta gjaldsins bundin við að hún byggði á gjaldskrá sem sett væri á grundvelli 4. mgr. 7. gr. laganna. Af lögskýringargögnum að baki lögunum yrði dregin sú ályktun að reikningur sem eftirlitsskyldum aðila væri gert að greiða samkvæmt 1. mgr. 7. gr. þeirra yrði að byggjast á rökstuddum kostnaði vegna nauðsynlegs umframeftirlits og að forsendur fyrir slíkri gjaldtöku yrðu að koma fram í gjaldskrá sem stjórn Fjármálaeftirlitsins setti samkvæmt 4. mgr. 7. gr. laganna og birt væri í Stjórnartíðindum.

   
  Umboðsmaður rakti ákvæði 4. gr. gjaldskrár nr. 135/2009. Taldi hann að ákvæðið bætti litlu sem engu við þá heimild sem fram kæmi í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 99/1999. Í gjaldskrárákvæðinu væri þannig ekki vikið að mögulegum kostnaðarliðum eða fjárhæðum þeirra vegna aðkeyptrar sérfræðiþjónustu. Afmörkun á fjárhæð kostnaðar sem felldur væri á eftirlitsskyldan aðila réðist því alfarið af reikningi skipaðs sérfræðings og mati Fjármálaeftirlitsins í samræmi við óbirtar verklagsreglur stofnunarinnar. Var það niðurstaða umboðsmanns að með 4. gr. gjaldskrárinnar hefði ekki verið lagður fullnægjandi grundvöllur að gjaldtöku vegna skipunar sérfræðinga í máli A hf. samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 99/1999, sbr. 4. mgr. sömu greinar, eins og skýra bæri umrædd lagaákvæði í ljósi grundvallarreglna íslensks réttar um töku þjónustugjalda.

   
  Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til Fjármálaeftirlitsins að leitast yrði við að rétta hlut A hf., kæmi fram beiðni þess efnis frá félaginu. Þá beindi umboðsmaður þeim tilmælum til stofnunarinnar að gildandi gjaldskrá yrði tekin til endurskoðunar með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu."

 • Mál nr. 7182/2012. Málið er reifað með svofelldum hætti á heimasíðu umboðsmanns:

   

  A og B leituðu til umboðsmanns Alþingis og kvörtuðu yfir úrskurði yfirskattanefndar þar sem hafnað var beiðni þeirra um endurupptöku þess hluta fyrri úrskurðar nefndarinnar í máli þeirra er laut að ákvörðun málskostnaðar til greiðslu úr ríkissjóði.

   

  Settur umboðsmaður tók fram að af 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 leiddi að það hefði verið verkefni yfirskattanefndar, að fengnu erindi kærenda um endurupptöku, að taka afstöðu til þess hvort fyrri ákvörðun hennar um málskostnað hefði byggst á „ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik“. Af orðalagi ákvæðisins yrði dregin sú ályktun að nægilegt væri að fram væru komnar nýjar eða fyllri upplýsingar sem telja mætti að hefðu haft verulega þýðingu fyrir niðurstöðu málsins.
   

  Settur umboðsmaður taldi að með endurupptökubeiðni A og B hefðu verið settar fram nýjar upplýsingar um málskostnað sem ekki væri útilokað að hefðu getað haft verulega þýðingu fyrir niðurstöðu fyrra málsins. Yfirskattanefnd hefði borið að leggja efnislegt mat á hvort upplýsingarnar hefðu varpað nýju og fyllra ljósi á þann kostnað sem kærendur kynnu að hafa orðið fyrir vegna málarekstursins. Þar sem ekki yrði ráðið af síðari úrskurði hennar að hún hefði gert það var það niðurstaða setts umboðsmanns að úrskurðurinn hefði ekki verið í samræmi við lög.
   

  Settur umboðsmaður beindi þeim tilmælum til yfirskattanefndar að hún tæki mál A og B til meðfeðar að nýju, kæmi fram beiðni um það frá þeim, og hagaði þá meðferð þess í samræmi við þau sjónarmið sem fram kæmu í álitinu. Jafnframt beindi hann þeim tilmælum til nefndarinnar að hún tæki framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu.

 • Mál nr. 6639/2011. Reifunin er tekin af vef umboðsmanns:

   

  "A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði meðal annars yfir ákvörðun stjórnar Fjármálaeftirlitsins um að krefja tiltekin fjármálafyrirtæki um greiðslu kostnaðar vegna athugana stofnunarinnar á lánasöfnum viðskiptabanka, sparisjóða og lánafyrirtækja í kjölfar dóma Hæstaréttar frá 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og nr. 153/2010. A taldi að honum hefði ekki verið skylt að greiða hlutfallslegan kostnað sem hlaust af umræddum athugunum og nam tiltekinni fjárhæð.

   

  Settur umboðsmaður rakti grundvallarreglur íslensks réttar um tekjuöflun opinberra aðila og lög nr. 99/1999 um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, þar á meðal um almenn eftirlitsgjöld sem lögð væru á eftirlitsskylda aðila, varasjóð Fjármálaeftirlitsins og heimild 7. gr. laganna til töku þjónustugjalda fyrir umframeftirlit stofnunarinnar.

   

  Í ljósi skýringa Fjármálaeftirlitsins og gagna málsins lagði settur umboðsmaður til grundvallar að umrædd úttekt hefði falið í sér undirbúningsaðgerðir til að Fjármálaeftirlitið gæti metið stöðu einstakra eftirlitsskyldra aðila sem hefðu átt hlut að máli. Þessar aðgerðir Fjármálaeftirlitsins hefðu því falið í sér almenna greiningarvinnu. Kostnaður sem til félli vegna slíkrar vinnu yrði ekki fjármagnaður með þjónustugjaldaheimild 7. gr. laga nr. 99/1999. Löggjafinn hefði gert ráð fyrir að hið almenna eftirlitsgjald og eftir atvikum varasjóður Fjármálaeftirlitsins, sem beinlínis væri hugsaður til að mæta óvæntum útgjöldum vegna ófyrirséðra atvika, stæðu undir slíkum kostnaði.

   

  Það var því niðurstaða setts umboðsmanns Alþingis að ákvörðun stjórnar Fjármálaeftirlitsins um að krefja A um kostnaðinn hefði ekki átt sér stoð í lögum. Hann beindi þeim tilmælum til Fjármálaeftirlitsins að það leitaði leiða til að rétta hlut A, kæmi fram beiðni þess efnis frá félaginu, og þá í samræmi við ákvæði 1. og 2. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Þá mæltist settur umboðsmaður til þess að stofnunin hefði þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu framvegis í huga í störfum sínum."