Stimpilgjald - hlutaskipting félags

E.g., 2018-10-16
E.g., 2018-10-16
 • Tíund fréttablað RSK - september 2018

  Meðal efnis er meðal annars eftirfarandi:

   

  • Álagning einstaklinga 2018

  • Nýjungar í birtingu á niðurstöðu álagningar

  • Fræðigrein um heimild til skattendurákvörðunar samkvæmt 2. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

  • Nýlegir dómar

  • Bindandi álit

   

   

  Í hlekk að ofan með fréttinni má nálgast nýjasta tölublað Tíundar.

 • Þingmálaskrá 149. löggjafarþings (2018 - 2019) - yfirlit yfir helstu mál

  Í október hyggst Fjármála- og efnahagsráðherra leggja fyrir Alþingi m.a. eftirfarandi frumvörp:

   

  Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og lögum nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki (skattívilnanir vegna hlutabréfakaupa, skattfrá­drátt­ur nýsköpunarfyrirtækja).

  Frumvarpið felur í sér breytingar á ákvæðum um hlutabréfaafslátt einstaklinga á móti tekjuskatti og einnig breytingar á frádrætti fyrirtækja í nýsköpun og þróun frá álögðum tekjuskatti. Áhugavert verður að fylgjast með framvindu þessa frumvarps en KPMG hefur aðstoðað fjölda nýsköpunarfyrirtækja.

   

  Frumvarp til laga um breytingu á tollalögum, nr. 88/2005 (upplýsingagjöf ferðamanna, VRA vottun og rafræn tollafgreiðsla). Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 27. gr. og 162. gr. tollalaga með það fyrir augum að bregðast við athugasemdum FATF á skilyrðum VRA vottunar og á gjaldtökuákvæðum tollalaga vegna rafrænnar tollafgreiðslu.

   

  Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt (fyrirkomulag inn­heimtu). Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á fyrirkomulagi innheimtu opinberra gjalda með hlið­sjón af tillögum nefndar um aukna skilvirkni í skattframkvæmd, álagningu og innheimtu opin­berra gjalda. Nefndin, sem skipuð var 21. ágúst sl., hefur tvö verkefni. Annars vegar að fjalla um verkaskiptingu, faglegt samstarf og sameiginleg verkefni milli stofnana ráðuneytisins við skattframkvæmd, álagningu og innheimtu opinberra gjalda og hins vegar að taka til athugunar hvaða önnur verkefni kunni að tengjast kjarnaverkefnum sömu stofnana. Athugun nefndarinnar snýr jafnframt að því hvernig megi sníða skattamál stofnana ráðuneytisins betur að málaflokknum og ber í því sambandi að nefna tillögur um fyrirkomulag innheimtumála í víðara samhengi. Nefndinni er einnig gert að meta hvort breytingar séu æskilegar fyrir stofnanirnar t.d. með tilliti til nýtingu sjálfvirknivæðingar, gervigreindar o.fl. innan skattkerfisins.

   

  Í nóvember nk. hyggst Fjármála- og efnahagsráðherra að leggja fyrir Alþingi m.a. eftirfarandi frumvörp:

   

  Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda (CFC-ákvæði, samsköttun, takmörkun á frádrætti vaxta­gjalda, endanlegt tap, útleiga vinnuafls). Frumvarpið felur í sér ýmsar nauðsynlegar breytingar á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, m.a. vegna skattlagningar eignarhalds á lágskattasvæðum auk athugasemda frá Eftirlitsstofnun EFTA vegna samsköttunar félaga og heimildar til frádráttar endanlegs taps frá tekjum af atvinnurekstri. Þá er í frumvarpinu að finna tillögu sem samræmist skuldbindingum Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið án þess þó að koma niður á eðlilegri fjármögnun samstæðna sem ekki beinist að því að takmarka skattgreiðslur vegna brottfalls b-liðar 3. mgr. 57. gr. b laga um tekjuskatt þann 1. janúar 2019, sbr. nefndarálit meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar á 148. löggjafarþing 2017–2018, þingskjal 110 – 3. mál. Þá eru lagðar til breytingar á skattskyldu í tengslum við útleigu á vinnuafli eða annars konar vinnuframlag starfsmanna erlendra aðila hér á landi en þörf er á að útvíkka og skilgreina enn frekar ábyrgð innlendra aðila á skattskilum starfsmanna erlendra aðila vegna vinnu hér á landi, sbr. nefndarálit efnahags- og viðskiptanefndar á 148. löggjafarþing 2017–2018, þingskjal 1149 – 561. mál.

   

  Á samráðsvefnum island.is skilaði KPMG umsögn um drög af frumvarpi er áætlað er að leggja fram til meðferðar í nóvember nk. Umsögn KPMG varðaði m.a. samsköttun, skjölunarskyldu, takmörkun á frádrætti vaxtagjalda og CFC reglur.

   

  Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (gildisdagsetn­ing­ar, virðisaukaskattskylda alþjóðaflugvalla o.fl.).
  Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á gildisdagsetningum í virðisaukaskatti í samræmi við skýrslu starfshóps fjármála- og efnahagsráðherra frá 1. júní 2018. Þá verða einnig lagðar til breyt­ingar í tengslum við virðisaukaskattskyldu alþjóðaflugvalla o.fl.

   

  KPMG skilaði umsögn við skýrslu starfshóps fjármála- og efnahagsráðherra um gildisdagsetningar í virðisaukaskatti inn á samráðsvefnum island.is þann 3. ágúst sl. KPMG fagnar því að gildisdagsetningar í virðisaukaskatti séu til skoðunar hjá ríkisstjórninni og telur mikilvægt að bæta skattframkvæmdina hvað þetta málefni varðar. Verður því fróðlegt að fylgjast með framvindu þessa mála og hvort tekið verði tillit til umsagnar KPMG við gerð frumvarpsins. 

   

  Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki (eiginfjár­aukar).
  Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á ákvæðum um eiginfjárauka sem kveðið er á um í X. kafla laganna (86. gr. a – 86. gr. f). Með frumvarpinu verður lagður til nýr eiginfjárauki, þ.e. eigin­fjárauki vegna alþjóðlegra mikilvægra fjármálafyrirtækja. Jafnframt verður lagt til að Fjármála­eftirlitið birti stjórnvaldsfyrirmæli um gildi eiginfjárauka á grundvelli 86. gr. b – 86. gr. e í stað þess að teknar séu stjórnvaldsákvarðanir um þá. Einnig verða lagðar til nokkrar breytingar á 86. gr. a – 86. gr. f laganna til viðbótar þannig að ákvæði um eiginfjárauka séu í fullu samræmi við efni 129.–142. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2013/36/ESB um stofnun og starfsemi fjármálafyrirtækja og varfærniseftirlit með þeim (CRD IV). Innleiðing.

   

  Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 155/2010, um sérstakan skatt á fjármála­fyrirtæki (skatthlutfall).
  Með frumvarpinu verður skatthlutfall bankaskatts lækkað í fjórum áföngum, úr 0,376% í 0,145%, á árunum 2020–2023.

   

  Í janúar 2019 hyggst Fjármála- og efnahagsráðherra leggja fyrir Alþingi m.a. eftirfarandi frumvörp:

   

  Frumvarp til laga um verðbréfauppgjör og verðbréfamiðstöðvar.
  Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 909/2014 (Regulation on improving securities settlement in the European Union and on central securities depositories, CSDR) sem er ætlað að bæta verðbréfauppgjör á EES-svæðinu og samræma kröfur sem gerðar eru til starfsemi verðbréfamiðstöðva sem reka verðbréfauppgjörskerfi. Frumvarpið mun enn fremur fela í sér nauðsynlegar breytingar á lögum nr. 131/1997, um rafræna eignar­skrán­ingu verðbréfa. Unnið er að upptöku reglugerðarinnar í EES-samninginn. Innleiðing.

   

  Frumvarp til laga um milligjöld.
  Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 751/2015 um milligjöld vegna kortatengdra greiðslna (Regulation on interchange fees for card-based payment transactions, IFR). Í frumvarpinu verður kveðið á um hámark milligjalda vegna notkunar debit- og kreditkorta og er því ætlað að auka gagnsæi og samkeppni á korta­markaði. Unnið er að upptöku reglugerðarinnar í EES-samninginn. Innleiðing.

   

  Frumvarp til laga um meðferð ríkisaðstoðarmála.
  Frumvarpið felur í sér innleiðingu breytinga á samningi EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlits­stofnunar og dómstól er varða valdheimildir Eftirlitsstofnunar EFTA þegar kemur að eftirliti með ríkisaðstoð. Hliðstæðar breytingar, að því er varðar valdheimildir framkvæmdastjórnar ESB, tóku gildi innan ESB árið 2013. Með frumvarpinu verða lagðar til heimildir um sektir og samstarf við innlenda dómstóla. Jafnframt mun frumvarpið hafa að geyma ákvæði sem nú er að finna í samkeppnislögum, um málsmeðferð ríkisaðstoðarmála. Innleiðing. 

   

  Í febrúar 2019 hyggst Fjármála- og efnahagsráðherra leggja fyrir Alþingi m.a. eftirfarandi frumvörp:

   

  Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum (endurskoðun).
  Frumvarpið felur í sér endurskoðun á lögum um bindandi álit í skattamálum.

   

  Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs (færslu­gjöld).
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um aukatekjur ríkissjóðs í því skyni að heimila ríkissjóði innheimtu færslugjalda vegna greiðslna með greiðslukorti.

   

  Frumvarp til laga um endurreisn og skilameðferð fjármálafyrirtækja.
  Frumvarpið, sem felur í sér heildarlög, er innleiðing á síðari hluta tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/59/ESB (Bank Recovery and Resolution Directive, BRRD). Með frumvarpinu verður kveðið á um reglur sem varða undirbúning og framkvæmd skilameðferðar og önnur atriði sem tengjast endurreisn og skilameðferð fjármálafyrirtækja. Í frumvarpinu verður kveðið á um ný stjórnvöld eða stjórnsýslueiningar, skilavald og skilasjóð, sem ætlað er að fara með opinbera stjórnsýslu við skilameðferð og fjármögnun skilameðferðar. Tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn þann 9. febrúar 2018 með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 21/2018. Innleiðing.

   

  Í mars 2019 hyggst Fjármála- og efnahagsráðherra leggja fyrir Alþingi m.a. eftirfarandi frumvörp:

   

  Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skattlagningu ökutækja og eldsneytis (ökutæki og eldsneyti).
  Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á ýmsum lögum um skattlagningu ökutækja og eldsneytis í samræmi við skýrslu starfshóps fjármála- og efnahagsráðherra frá 2018.

   

  Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (rekstrarumhverfi fjölmiðla, skattlagning tekna af höfundarréttindum).
  Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á rekstrarumhverfi fjölmiðla í samræmi við tillögur nefndar á vegum menntamálaráðuneytisins um bætt rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla frá árinu 2018. Þá er í frumvarpinu gerður greinarmunur í skattalegu tilliti á höfundarlaunum annars vegar og tekjum af höfundaréttindum hins vegar þar sem lagt verður til að hvers konar endurgjald til höfunda og rétthafa fyrir afnot af hugverki, að undanskildum höfundarlaunum, teljist til fjár­magnstekna.

   

  Frumvarp til laga um breytingu á tollalögum, nr. 88/2005 (gjafafríðindi, persónu­upplýs­ing­ar, aðstaða til tolleftirlits, rafræn skil upplýsinga, sektargerðir, leit á mönnum, tollfríð­indi).
  Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á ákvæðum tollalaga með það fyrir augum að endurskilgreina gjafafríðindi, treysta heimildir tollstjóra til vinnslu og meðferðar persónuupplýs­inga, tryggja aðstöðu til tolleftirlits hjá inn- og útflytjendum, undirbyggja rafræn skil á skýrslum og gögnum og rafrænar greiðslur, einfalda sektargerðir á vettvangi, endurskoða ákvæði um leit á mönnum, endurskilgreina hugtök í 6. og 7. gr. tollalaga, kveða nánar á um réttaráhrif brota gegn skilyrðum tollafríðinda, o.fl.

   

  Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (bygginga­starfsemi, almenningssamgöngur o.fl.).
  Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á ákvæðum laganna er varða byggingastarfsemi, almenningssamgöngur o.fl.

   

  Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki (samstæður, útibú, þjónustu­starfsemi og starfsemi milli landa).
  Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á V. kafla laganna sem fjallar um starfsemi fjármála­fyrirtækja á milli landa og XIII. kafla laganna sem fjallar m.a. um eftirlit á samstæðugrunni. Frum­varpið byggist á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/36/ESB um stofnun og starfsemi fjár­málafyrirtækja og varfærniseftirlit með þeim (CRD IV). Með frumvarpinu verða lagðar til breyt­ingar á lagareglum um starfsemi og eftirlit með útibúum og þjónustustarfsemi fjármála­fyrirtækja á EES-svæðinu, starfsemi og eftirlit með útibúum fjármálafyrirtækja utan EES-svæðisins hér á landi, eftirlit á samstæðugrunni, samstarf og upplýsingaskipti eftirlitsaðila. Innleiðing.

   

  Frumvarp til laga um rekstraraðila sérhæfðra sjóða.
  Frumvarpið felur í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/61/ESB um rekstraraðila sérhæfðra sjóða (Alternative Investment Fund Managers Directive, AIFMD). Um er að ræða heildarlög og frumvarpið hefur meðal annars að geyma ákvæði um starfsleyfi sérhæfðra sjóða, vörsluaðila og skipulags- og gagnsæiskröfur. Tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn 30. september 2016, með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 202/2016. Innleiðing.

   

  Frumvarp til laga um greiðsluþjónustu.
  Frumvarpið felur í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2366 (Pay­ment Services Directive, PSD) um greiðsluþjónustu á innri markaðnum og kallar á endurskoðun laga nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu. Samkvæmt tilskipuninni verða bankar að opna fyrir aðgengi nýrra greiðsluþjónustuveitenda að bankaupplýsingum neytenda með samþykki þeirra. Tilskipunin hefur ekki verið tekin upp í EES-samninginn. Innleiðing.

   

  Síðustu ár hafa breytingarnar sem hin nýja tilskipun um greiðsluþjónustu, oft nefnd PSD2, verið mikið til umræðu. Til dæmis um umræðuna má nefna að í júní 2018 gaf Seðlabanki Íslands út skýrslu á vefsíðu sinni sem nefnist Fjármálainnviðir. Snertir Seðlabankinn á því hverjar helstu breytingarnar verði á fjármálamarkaði með innleiðingu PSD2. Í kjölfar innleiðingarinnar er gert ráð fyrir því að framboð og notkun nýrra greiðslulausna muni aukast hér á landi og að þjónustan verði jafnframt veitt af aðilum sem ekki stunda hina hefðbundnu bankastarfsemi. Ýmis lagaleg álitaefni hafa komið upp í umræðuna hvað varðar PSD2 og ber þar helst að nefna samband hennar við GDPR, persónuverndarreglugerð ESB. Þar sem um mikla breytingu á greiðsluþjónustu er að ræða munu vafalaust verða ýmis lagaleg álitaefni sem vakna við innleiðinguna og þegar lögin hafa tekið gildi. Verður fróðlegt að fylgjast með framvindu þessa máls.

   

  Frumvarp til laga um markaði fyrir fjármálagerninga.
  Með frumvarpinu, sem felur í sér innleiðingu í íslenskan rétt á tilskipun 2014/65/ESB og reglugerð (ESB) nr. 600/2014 um markaði fyrir fjármálagerninga (MiFID II/MiFIR), er lagt til að sett verði ný heildarlög um markaði fyrir fjármálagerninga. Um nokkuð umfangsmikla breytingu er að ræða á gildandi rétti sem kallar á breytingar á m.a. lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, lögum nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, og lögum nr. 110/2007, um kauphallir. Innleiðing.

   

  Innleiðing á ofangreindri tilskipun hefur, líkt og PSD2 tilskipunin, hefur verið til umræðu í íslensku samfélagi síðustu misseri. MiFID II tilskipunin hefur í raun för með sér uppfærslu á MiFID I tilskipuninni sem innleidd var í íslenskan rétt árið 2007 og hafði það að markmiði að samræma regluverk og umgjörð innan evrópskra fjármálamarkaði ásamt því að auka vernd fjárfesta. Breytingarnar sem MiFID II mun hafa í för með sér eru að auka skilvirkni og gagnsæi fjármálamarkaða og skapa fjárfestavernd.

   

  Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 128/2011, um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði.
  Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á núverandi lögum um verðbréfasjóði, vegna innleið­ingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/91/ESB (UCITS V). Tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn þann 9. febrúar 2018, með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 20/2018. Innleiðing.

   

  Nálgast má þingmálaskránna í heild sinni í hlekk að ofanverðu með fréttinni.

 • Mismunandi áherslur og aðferðir við afnám stimpilgjalda.

  Fyrir Alþingi liggja tvö frumvörp um afnám stimpilgjalda. Annars vegar lagt fram af helmingi þingmanna Sjálfstæðisflokksins og hins vegar af þingmönnum Viðreisnar.

   

  Þingmenn Sjálfstæðisflokksins leggja til að stimpilgjöld af kaupum einstaklinga á íbúðarhúsnæði sem eru nú 0,8% verði afnumin. Í greinargerð með frumvarpinu segir að markmið þess eru að auðvelda fólki að afla sér íbúðarhúsnæðis og auka skilvirkni og flæði á markaði með íbúðarhúsnæði. Mikil þörf sé á að auðvelda fólki eins og frekast er unnt að eignast íbúðarhúsnæði, einkum við aðstæður á borð við þær sem nú ríkja á húsnæðismarkaði.

   

  Þingmenn Viðreisnar leggja til afnám allra stimpilgjalda í tveimur skrefum. 1. janúar 2019 verði helmingslækkun á stimpilgjöldum, þ.e. á einstaklinga og lögaðila. Stimpilgjöld lækka því niður í 0,4% á einstaklinga og niður í 0,8% á lögaðila. 1. janúar 2020 verði svo stimpilgjöld afnumin með öllu við brottfall laga um stimpilgjöld. Í greinargerð með frumvarpinu segir að gjaldtakan mismuni fyrirtækjum eftir eðli starfsemi þeirra og vegi þyngra á fyrirtæki í fjármagnsfrekum rekstri sem krefst t.a.m. viðamikils húsakosts. Skattlagning ætti heldur að taka mið af tekjum og arðsemi.

  Jafnframt segir að skattur sem lagður er á fasteignaviðskipti auki kostnað við flutninga og dregur þannig úr hreyfanleika fólks. Skattlagningin gerir fólki dýrara en ella að koma sér þaki yfir höfuðið eða skipta um húsnæði vegna flutninga eða breyttra fjölskylduaðstæðna.

 • Fjárlagafrumvarp 2019 og tillögur að öðrum lagabreytingum

  Lagabreytingar vegna tekjuhliðar fjárlagafrumvarpsins:

   

  Lög nr. 90/2003, um tekjuskatt með síðari breytingum

  Í frumvarpinu er lagt til að fjárhæðarmörk skattþrepa tekjuskatts manna breytist milli ára í samræmi við breytingar á neysluverðsvísitölu í stað breytinga á launavísitölu, með gildistöku 1. janúar 2019. Markmið breytingarinnar er að samræma verðlagsbreytingu skattþrepa við verðlagsbreytingu persónuafsláttar. Þá er lagt til að á árinu 2019 verði persónuafsláttur hækkaður um 1%, með innleiðingu bráðabirgðaákvæðis við lögin, umfram lögboðna hækkun í samræmi við vísitölu neysluverðs. Um er að ræða einskiptis aðgerð sem hefur áhrif á staðgreiðslu á árinu 2019 og á álagningu opinberra gjalda á einstaklinga á árinu 2020.

   

  Þá er lagt til að almennt tryggingagjald lækki úr 5,40% niður í 5,15%. Áætlað er að breytingin komi til framkvæmda 1. janúar 2019. Sömuleiðis er mælt fyrir um enn frekari lækkun frá 1. janúar 2020, n.t.t. að almenna tryggingagjaldið verði 4,90%.

   

  Einnig eru lagðar til breytingar á barnabótum. Í fyrsta lagi að tekjutengdar barnabætur með hverju barni undir 18 ára aldri verði hækkaðar um 5%. Í öðru lagi að neðri skerðingarmörk tekna verði hækkuð, þ.e. úr 2,9 millj. kr. í 3,6 millj. kr. á ári hjá einstæðu foreldri og úr 5,8 millj. kr. í 7,2 millj. kr. hjá hjónum, sem svarar til 24,1% hækkunar. Samkvæmt gildandi lögum skerðast barnabætur í föstu hlutfalli við tekjuskattsstofn eftir fjölda barna en í frumvarpinu er lagt til að skerðingarhlutfallið verði háð tekjum. Þannig verði skerðingarhlutfallið 4% með einu barni, 6% með tveimur börnum og 8% með þremur börnum eða fleiri af tekjuskattsstofni á bilinu 7,2 millj. kr. að 11 millj. kr. hjá hjónum og á bilinu 3,6 millj. kr. að 5,5 millj. kr. hjá einstæðu foreldri. Hins vegar verði skerðingarhlutfallið 5,5% með einu barni, 7,5% með tveimur börnum og 9,5% með þremur börnum eða fleiri af tekjuskattsstofni umfram 11 millj. kr. hjá hjónum og 5,5 millj. kr. hjá einstæðu foreldri. Í þriðja lagi er lagt til að tekjutengdar barnabætur með börnum yngri en sjö ára hækki um 5%, eða úr 133.300 kr. í 140.000 kr., en skerðingarhlutfall verði áfram 4% óháð tekjum.

   

  Jafnframt er lögð til tímabundin breyting á reiknireglum vaxtabóta sem að óbreyttu hefði fallið niður um næstu áramót verði framlengd um eitt ár. Jafnframt er lagt til að eignarmörk bótanna hækki um 10% og vaxtagjalda- og vaxtabótafjárhæðir hækki um 5%. Gert er ráð fyrir að ákvæðið komi til framkvæmda við ákvörðun á fyrirframgreiðslu vaxtabóta og við álagningu opinberra gjalda á árinu 2019.

   

  Lagabreytingar á ýmsum öðrum lögum vegna fjárlagafrumvarpsins:

   

  Lög nr. 129/2009 um umhverfis- og auðlindaskatta með síðari breytingum.

  Lagt hefur verið til að fjárhæðir kolefnisgjalds verði hækkaðar um 10% frá 1. janúar 2019 og 10% frá 1. janúar 2020.

   

  Lög nr. 96/1995 um gjald af áfengi og tókaki með síðari breytingum.

  Lögð er til 2,5% hækkun áfengis- og tóbaksgjalda til samræmis við almennar verðlagsbreytingar. Ásamt þessu er lögð til sú breyting að áfengisgjald verði nú miðað við upplýsingar er koma fram á umbúðum áfengrar vöru í þeim tilgangi að einfalda álagningu áfengisgjalds. Stjórnvöld hafi engu að síður heimild til að mæla vínandamagnið telji þau upplýsingar á umbúðum rangar. Slíkri framkvæmd er ætlað að tryggja samræmi í álagningu áfengisgjalds hvað varðar áfengi framleitt hérlendis og erlendis þar sem ekki er algengt að skýrslur um vínandamagn fylgi sendingargögnum vegna innflutts áfengis.

   

  Lög nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. með síðari breytingum.

  Lagðar hafa verið fram breytingar á vörugjaldi af bensíni. Miðar breytingin við að almennt vörugjald af bensíni hækki um 0,7 kr. á hvern lítra, sérstakt vörugjald af blýlausu bensíni hækki um 1,1 kr. á hvern lítra og sérstakt vörugjald á öðru bensíni hækki um 1,15 kr. á hvern lítra. Er hækkunin tilkomin vegna almennra verðlagsbreytinga.

   

  Lög nr. 87/2004 um olíugjald og kílómetragjald með síðari breytingum.

  Lagðar hafa verið fram breytingar á fjárhæð olíugjalds, sem er vörugjald af gas-, dísil- og steinolíu. Breytingin lýsir sér í 2,5% hækkun á gjaldinu vegna almennra verðlagsbreytinga. Ásamt þessu hefur verið lögð fram tillaga að hækkun á fjárhæðum kílómetragjalds og sérstaks kílómetragjalds. Nemur hækkunin 2,5% til samræmis við almennar verðlagsbreytingar.

   

  Lög nr. 39/1988 um bifreiðagjald með síðari breytingum.

  Lagt hefur verið til að bifreiðagjald hækki um 2,5% vegna almennra verðlagsbreytinga.

   

  Lög nr. 99/1999 um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi með síðari breytingum.

  Lögð hefur verið fram breyting á gildandi álagningarhlutfalli ýmissa félaga. Álagningarhlutfalla rekstrarfélaga verðbréfasjóða, fagfjárfestasjóða og Íbúðalánasjóðs hækkar á meðan álagningarhlutfall viðskiptabanka, vátryggingafélaga, lífeyrissjóða og Lánasjóðssveitarfélaga lækkar. Önnur álagningarhlutföll haldast óbreytt samkvæmt frumvarpinu. Einnig er lögð til lækkun á hlutfalli gjalds sem fjármálafyrirtæki greiða til að standa undir kostnaði af rekstri umboðsmanns skuldara.

   

  Lög nr. 125/1999 um málefni aldraðra með síðari breytingum.

  Lagt hefur verið til að gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra samkvæmt lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, verði hækkað um 2,5% og nemi 11.454 kr. á hvern gjaldanda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2019 vegna tekna ársins 2018. Ásamt þessu með vísan til fjárhagsvanda ríkissjóðs og sparnaðarkröfu fjárlagaheimilda er lagt til að gildistími ákvæðis til bráðabirgða VII í lögunum verði framlengt svo Framkvæmdasjóður aldraðra hafi tímabundna heimild til að kosta rekstur hjúkrunarrýma aldraðra. Þá er lagt til að við lögin bætist nýtt bráðabirgðaákvæði sem feli Framkvæmdasjóð aldraðra heimild til að óska eftir því að Tryggingastofnun ríkisins geri samanburð á útreikningi á kostnaðarþátttöku heimilismanna fyrir og eftir gildistöku laga nr. 166/2006 og 120/2009. Verði niðurstaða skoðunar Tryggingastofnunar sú að kostnaðarþátttaka heimilismanns hafi aukist frá gildistöku fyrrnefndra laga skal dvalarframlag vegna ársins 2019 leiðrétt til samræmis við það.

   

  Lög nr. 91/1987 um sóknargjöld o.fl. með síðari breytingum.

  Lagt hefur verið til að föst krónutala sóknargjalda hækki um 3 kr. á hvern einstakling 16 ára og eldri á mánuði. Er því gjaldið 934 kr. á mánuði árið 2019 og nemur hækkunin um 0,32%.

   

  Lög nr. 70/2012 um loftslagsmál með síðari breytingum.

  Lagt hefur verið til að fjárhæð losunargjalds vegna gjaldskyldrar losunar skv. 4. mgr. 14. gr. laga um loftslagsmál, nr. 70/2012, verði breytt til samræmis við breytingar á meðalverði losunarheimilda á Evrópska efnahagssvæðinu eins og það er á árstímabili sem lýkur 31. júlí árið áður. Gert er ráð fyrir að breytingin muni hafa óveruleg áhrif á tekjur ríkissjóðs.

   

  Lög nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu með síðari breytingum.

  Lagt hefur verið til að hinn svokallaði nefskattur, n.t.t. hið sérstaka gjald sem ríkisskattstjóri leggur á samhliða álagningu opinberra gjalda með heimild í 1. tölul. 1. mgr. 14. gr. laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, hækki. Nemur skatturinn nú 17.500 kr.

   

  Lög nr. 60/2012 um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða með síðari breytingum.

  Lagt hefur verið til að ákvæði til bráðabirgða III í lögunum verði framlengt um eitt ár. Atvinnurekendur, þeir sem stunda sjálfstæða starfsemi og lífeyrissjóðir munu því greiða áfram sama hlutfall af stofni til iðgjalds skv. 3. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, á árinu 2019 eins og á árunum 2016, 2017 og 2018 eða 0,10%.

   

  Lög nr. 162/2002 um úrvinnslugjald með síðari breytingum.

  Lagðar hafa verið til breytingar á viðauka IV við lögin. Varða breytingarnar hvaða úrvinnslugjald skuli innheimta vegna tiltekinna tollskrárnúmera. Annars vegar varða breytingarnar að úrvinnslugjald sem lagt var á vegna innflutnings á olíu sem fellur undir tollskrárnúmer 2710.1920 skal nú vera það sama og vegna smurolíu eða 35 kr./kg. Auk þessa var gerð breyting á tollskrárnúmeri er svartolía fellur undir en sama gjald innheimt vegna þess. Hins vegar varða breytingarnar úrvinnslugjald vegna hjólbarða en í ljós hefur komið að það vantar á tollskrárnúmer 8701.2021 og 8701.2029 í viðauka XVI við lögin. Varðar tollskrárnúmerin dráttarbifreiðar fyrir festivagna. Skal úrvinnslugjaldið vera 18.000 kr. á hvert tæki.

   

  Ný löggjöf um stuðning við bókaútgáfu

  Lagt hefur verið til að tekinn verði upp sérstakur stuðningur við bókaútgefendur vegna hluta framleiðslukostnaðar sem fellur til við útgáfu bóka á íslensku. 

   

  Í hlekk með fréttinni er að finna ítarlega umfjöllun fjármála- og efnahagsráðuneytisins um fjárlagafrumvarpið, en þar má einnig nálgast frumvarpið í heild sinni.

 • Skattlagning stafræna hagkerfisins - tillaga framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins

  Skattlagning fyrirtækja þar sem meginstarfsemi fyrirtækjanna fer fram með stafrænum hætti hefur verið til umræðu meðal stjórnmálamanna innan Evrópusambandsins síðustu misseri. Kallað hefur verið eftir aðgerðum á þessu sviði og hefur Evrópusambandið stigið fyrstu skref í átt að skattlagningu stafrænna fyrirrtækja innan sambandsins.

   

  Aðdragandann að fyrstu aðgerðum Evrópusambandsins má rekja til byrjun þessa árs. Þann 16. mars s.l. gaf Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) út bráðabirgðaskýrslu um skattalegar áskoranir er kunna að rísa vegna stafrænnar væðingar (e. Tax Challenges Arising from Digitalisation), en skýrslan er hluti af aðgerð nr. 1 um skattlagningu hins stafræna hagkerfis í aðgerðaráætlun OECD og G20 ríkjanna um rýrnun skattstofna og tilfærslu hagnaðar (e. OECD/G20 Base Erosion and Profit Shifting Project). Viku síðar, þann 21. mars s.l., kynnti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tillögur að röð aðgerða er hafa það að markmiði að tryggja sanngjarna og árangursríka skattlagningu innan stafræna hagkerfisins.

   

  Úr tillögum framkvæmdastjórnarinnar ber annars vegar helst að nefna tillögur að bráðabirgðaaðgerð sem felur í sér skattlagningu veltu stafrænnar þjónustu (e. Digital Service Tax on Revenues) og hins vegar tillögur til lengri tíma litið en með þeim tillögum kynnti framkvæmdastjórnin til leiks hugmyndina um stafræna fasta atvinnustöð (e. Digital Permanent Establishment). Umfjöllun sem hér fylgir takmarkast þó við fyrri tillögu framkvæmdastjórnarinnar, þ.e. um bráðabirgðaaðgerðina um stafræna skattlagningu á veltu fyrirtækja vegna stafrænnar þjónustu.

   

  Hugmyndir framkvæmdastjórnarinnar um skattlagningu á veltu af stafrænni þjónustu er háð ýmsum takmörkunum og skilyrðum. Framkvæmdastjórnin áætlar að skattlagningin taki gildi 1. janúar 2020 og miðar við 3% skattlagningu af brúttó veltu af viðkomandi stafrænni þjónustu. Áætlað er að skattlagningin muni einungis taka til fyrirtækja af ákveðinni stærð, n.t. fyrirtækja sem hafa a.m.k. árlega alþjóðlega heildarveltu upp á 750 milljónir evra og þar af 50 milljónir evra veltu vegna stafrænnar þjónustu innan Evrópusambandsins. Skattlagningunni er þá einvörðungu ætlað að taka til ákveðinnar stafrænnar þjónustu og verður skattskyld í því landi þar sem viðkomandi þjónusta er nýtt. Sé þjónustan nýtt í mörgum aðildarríkjum Evrópusambandsins verður skattstofninum skipt milli ríkja. Áætlað er að skattlagningin taki til 200 fyrirtækja sem veita stafræna þjónustu innan Evrópusambandsins og muni auka skattstofna aðildarríkja Evrópusambandsins um 5 milljarða evra.

   

  Ekki hefur ríkt fullkomin samstaða meðal aðildarríkjanna um ágæti þessara hugmynda framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Í því sambandi má t.a.m. nefna sameiginlega yfirlýsingu Svíþjóðar, Danmerkur og Finnlands varðandi tillögurnar. Gagnrýni Norðurlandanna innan Evrópusambandsins snýr að því að Evrópusambandið skuli ekki ráðast í þessar breytingar á skattframkvæmd nema það náist samkomulag um sömu framkvæmd á alþjóðavísu. Í ljósi þess að ef ekki næst að samræma framkvæmdina á alþjóðavísu verði ekki um árangursríka breytingu að ræða innan Evrópusambandsins. Ítreka þjóðirnar að um undanþágu á meginreglu um hvar tekjur skuli skattlagðar sé að ræða og þurfi því að vanda sérstaklega til verka. Lúxemborg og Írland eru sambærilegrar skoðunar, en þarlendis er stór hluti af stórum bandarískum fyrirtækjum sem veita stafræna þjónustu innan Evrópusambandsins m.a. staðsettur. Aftur á móti hafa stærri ríki, eins og Frakkland og Ítalía, lýst yfir skjótum lausnum í þessum málaflokki, aðallega vegna rýrnun skattstofna þeirra og tilfærslu hagnaðar til lágskattaríkja.

   

  Á óformlegum fundi Ecofin (stjórnarsvið efnahags- og fjármála innan Evrópusambandsins) nú í byrjun september var skattlagning stafræna hagkerfisins til umræðu meðal fjármálaráðherra aðildarríkja Evrópusambandsins. Í fréttatilkynningu sem Ecofin sendi frá sér í kjölfar fundarins kom fram að mat fjármálaráðherra Austurríkis, Hartwig Löger, var að líklegt sé að samkomulag náist innan Evrópusambandsins fyrir lok árs 2018 hvað bráðabirgðaaðgerð framkvæmdastjórnarinnar varðar. Í fréttatilkynningunni er jafnframt haft eftir Löger að mikilvægt sé að efla umræðu um skattlagningu stafræna hagkerfisins á alþjóðavísu með aðkomu OECD.

   

  Fróðlegt verður að fylgjast með framvindu þessa mála og hver afstaða ríkisstjórnar Íslands verður, komi til þess að framkvæmdin verði að veruleika innan Evrópusambandsins. Í hlekk með fréttinni er að finna fréttatilkynningu Ecofin um málið.

 • Frumvarp til laga - breyting á lögum um ársreikninga

  Í hlekk að ofan með fréttinni er að finna frumvarpið í heild sinni.

 • Skýrsla starfshóps um skatta á ökutæki og eldsneyti 2020-2025

  Starfshópurinn leggur til að grunngerð skattlagningar ökutekja og eldsneytis verði breytt. Helstu lagabálkar skattlagningar ökutækja og eldsneytis, þ.e. lög um vörugjöld á ökutæki, eldsneyti o.fl., lög um bifreiðagjald og lög um olíu- og kílómetragjald, verði sameinaðir í tvo lagabálka, annars vegar lög um skattlagningu ökutækja og hins vegar lög um skattlagningu eldsneytis. Í sérstökum lagabálki verði hins vegar kveðið á um skattlagningu kolefnis, án beinnar tengingar við ökutæki eða samgöngur.

   

  Ökutækjaskattur

  Lagt er til að kveðið verði á um þrjá þætti skattlagningar ökutækja í nýjum lögum um ökutækjaskatt. Skiptingin yrði þannig að fjallað yrði sérstaklega um skattlagningu öflunar ökutækja, skattlagningu umráða, aðgangs eða afnota ökutækja og skattlagningu notkunar þungra ökutækja.

   

  Meginmarkmið skattlagningar öflunar ökutækja er að skattlagningin stuðli að því að notkun á ökutækjum hérlendis losi sem minnst af koltvísýringi. Meginmarkmið skattlagningu umráða, aðgangs eða afnota ökutækja er ætlað að vera tvíþætt í þeim skilningi að skattlagningin feli í sér gjald fyrir afnot af íslensku samgöngukerfi og stuðli á sama tíma til samdráttar í losun koltvísýrings. Með tímanum ætti eðli skattlagningarinnar að breytast með þeim hætti að í stað þess að skattlagningin samsvari gildandi bifreiðagjaldi, miðist hún síðar meir við eðlilegt gjald fyrir aðgang eða afnot af samgöngukerfinu hér á landi. Loks er meginmarkmið skattlagningar vegna notkunar þungra ökutækja að slík ökutæki sem slíta samgöngum hvað mest, greiði eðlilegt gjald vegna niðurbrots á samgöngum hér á landi.

   

  Að öðru leyti vísast til umfjöllunar á bls. 15-23 í skýrslu starfshópsins þar sem einstakir þættir ökutækjaskattsins eru sundurliðaðir með ítarlegri hætti. 

   

  Eldsneytisskattur

  Lagt er til að ákvæði um eldsneytisgjöld, þ.e. almennt og sérstakt bensíngjald og olíugjald, verði fært í nýja löggjöf um grunnskattlagningu eldsneytis, þar sem einungis tekjuöflunarmarkmið liggi til grundvallar skattlagningunni. Einnig er lagt til að grunnskattlagning bensíns og dísilolíu verði samsvarandi, skilgreining þeirra ökutækja sem nýta litaða olíu verði endurskoðuð þannig að ökutæki sem eru ætluð til nota utan samgöngukerfisins séu þau einu sem geti öðlast ívilnun, frá árinu 2023 verði ekki heimilt fyrir björgunarsveitir að nýta litaða olíu og að undanþága íblöndunarefna frá eldsneytissköttum verði aðeins heimil gegn því um að ræði endurnýjanlegt eldsneyti í skilningi laga nr. 40/2013, um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi.

   

  Kolefnisskattur

  Lagt er til að ákvæði um kolefnisgjald í lögum um umhverfis- og auðlindaskatta verði fært í nýja löggjöf um kolefnisskatt þar sem stuðlað er að samdrætti losunar koltvísýrings. Þá liggur fyrir tillaga um að forsendur fjárhæða kolefnisgjalds verði endurskoðaðar á árunum 2020 og 2021, svo þær endurspegli beinan og óbeinan kostnað samfélagsins vegna neikvæðra ytri áhrifa koltvísýringslosunar. Í kjölfar þess er lagt til að fjárhæðir kolefnisgjalds ráðist af kolefnisverði frá og með árinu 2022.

   

  Virðisaukaskattsívilnanir

  Lagðar eru til tímabundnar virðisaukaskattsívilnanir á árunum 2020-2024. Í fyrsta lagi að gildandi virðisaukaskattsívilnun vegna innflutnings- og sölu á rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbifreiðum (háð ákveðnum losunarviðmiðum) verði látin gilda þann tíma sem henni hefur verið markaður, en fallið verði frá því að láta ívilnuna gilda um hópbifreiðir. Hún verði þó endurskoðuð áður en gildistíma hennar lýkur. Í öðru lagi að heimilt verði að endurgreiða virðisaukaskatt vegna innflutnings og kaupa á almenningsvögnum, þ.e. hópbifreiðum með leyfða heildarþyngd meiri en 5.000 kg fyrir fleiri en 22 farþega í sætum og stæðum, sem ganga fyrir metani, metanóli, rafmagni eða vetni, eða sem uppfylla ákveðin losunarviðmið. Lagt er til að heimildin verði bundin samanlögðu árlegu hámarki, 500 millj. kr., og nái til innflutnings og kaupa sem hafa átt sér stað frá og með 1. janúar 2018. Í þriðja lagi að heimilt verði að endurgreiða virðisaukaskatt vegna innflutnings og sölu á dráttarvélum og ökutækjum sem eru 10.000 kg eða meira að leyfðri heildarþyngd og ganga fyrir metani, metanóli, rafmagni eða vetni eða sem uppfylla ákveðin losunarviðmið. Lagt er til að gildistími ívilnunarinnar verði 5 ár og niðurfellingin verði bundin samanlögðu árlegu hámarki sem nemur 200 millj. kr. Í fjórða lagi að heimilt verði að endurgreiða virðisaukaskatt af útleigu ökutækjaleiga og handhafa leyfa til að stunda eignaleigu eða fjármögnunarleigu á ökutækjum sem fallið hafa undir ívilnun skv. bráðabirgðaákvæði XXIV í lögum um virðisaukaskatt.

   

  Tekjuskattsívilnanir

  Lagðar eru til tímabundnar tekjuskattsívilnanir á árunum 2020-2024. Í fyrsta lagi að launþegum verði heimilað að draga 50% ökutækjastyrkja og bifreiðahlunninda frá tekjum, geti þeir sýnt fram á að þau varði notkun bifreiðar sem nýtir að mestu leyti metan, metanól eða bifreið fer ekki yfir ákveðið hámark um skráða losun koltvísýrings. Í öðru lagi að atvinnurekstraraðilum verði heimilað að draga frá tekjum 200% rekstrarkostnaðar, að fyrningum frátöldum, vegna bifreiða sem nýta aðallega metan eða metanól eða bifreið fer ekki yfir ákveðið hámark um skráða losun koltvísýrings. Í þriðja lagi að atvinnurekstraraðilum verði heimilað að fyrna að fullu á kaupári bifreiðar að eigin þyngd meira en 3.500 kg. Að því gefnu að umræddar bifreiðar gangi aðallega fyrir metani, metanóli, rafmagni eða vetni eða hafi skráða losun undir ákveðnu koltvísýrings hámarki.

   

  Annað

  Að síðustu leggur starfshópurinn til að ráðist verði í nokkur greiningarverkefni og úttektir í því skyni að undirbyggja frekari breytingar á skattlagningu ökutækja og eldsneytis sem sjá má á bls. 26 í skýrslunni.

   

  Í hlekk hér að ofanverðu með fréttinni má sjá frétt Fjármála- og efnahagsráðuneytisins um málið þar sem nálgast má skýrslu starfshópsins. Jafnframt er þar hægt að nálgast upphafleg skýrsludrög starfshópsins frá 23. febrúar 2018.

 • Ný lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

  1. Nýir tilkynningarskyldir aðilar

  Lagt er til að nýir aðilar verði felldir undir gildissvið laganna sem tilkynningarskyldir aðilar. Hér er um að ræða m.a. endurskoðunarfyrirtæki og aðila sem færa bókhald eða sinna bókhaldsþjónustu fyrir þriðja aðila gegn endurgjaldi, lögmannsstofur og leigumiðlara.

   

  2. Áhættumat og áreiðanleikakönnun

  Verði frumvarpið að lögum verður öllum tilkynningarskyldum aðilum skylt að framkvæma áhættumat á starfsemi sinni og hafa áhættumiðað eftirlit með samningssamböndum sínum og viðskiptum. Áhættumati er ætlað greina þær aðstæður þar sem annars vegar er meiri hætta á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og hins vegar þær aðstæður þar sem er lægri hætta. Niðurstöður áhættumats skal nota til að leggja mat á hversu ítarlega áreiðanleikakönnun skuli framkvæma, að teknu tilliti til ófrávíkjanlegra ákvæða, og fyrirkomulag reglubundins eftirlits með samningssamböndum. Eingöngu verður heimilt að framkvæma einfaldaða áreiðanleikakönnun í þeim tilvikum sem áhættumat sýnir fram á lægri áhættu. Þetta er grundvallarbreyting frá gildandi lögum þar sem heimilt er að framkvæma einfaldaða áreiðanleikakönnun þegar um er að ræða tiltekna aðila og tiltekin viðskipti.

   

  3. Einstaklingar í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla

  Ákvæði um einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla eru ítarlegri en í gildandi lögum og munu taka jafnt til innlendra sem erlendra aðila. Tilkynningarskyldum aðilum er gert skylt að hafa til staðar aðferðir eða kerfi til að greina viðskiptamenn sína í þessu tilliti.

   

  4. Raunverulegur eigandi

  Lagt er til að ákvæði um raunverulega eigendur verði gert ítarlegra og fjallað verði um hver telst vera raunverulegur eigandi fjárvörslusjóða og sambærilegra ráðstafana svo og sjálfseignarstofnana. Gera skal greinarmun á lagalegum eigendum og raunverulegum eigendum.

   

  5. Viðurlög

  Verulegar breytingar eru lagðar til á viðurlagakafla laganna. Lagt er til að viðurlagaúrræði verði í auknum mæli í höndum eftirlitsaðila með beitingu dagsekta, stjórnvaldssekta, birtingu viðurlaga og í alvarlegri tilvikum brottvikningu æðstu stjórnenda eða eftir atvikum afturköllun starfsleyfa. Telji tilkynningarskyldur aðili að hann hafi að ósekju verið beittur stjórnsýsluviðurlögum getur hann leitað eftir ógildingu á þeirri ákvörðun hjá dómstólum.

   

  Í hlekk að ofanverðu með fréttinni má nálgast drög að frumvarpi til nýrra heildarlaga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. 

 • Tvísköttunarsamningur - frádráttaraðferð

  Nánar úr úrskurði yfirskattanefndar:

   

  "Málavextir eru þeir að samkvæmt skattframtali kæranda árið 2017 hafði hann engar tekjur á Íslandi á árinu 2016 aðrar en fjármagnstekjur [...]. Í lið 2.8 í skattframtalinu var gerð grein fyrir tekjum frá Danmörku, þ.e. launatekjum frá X A/S, sem námu 302.419 dönskum krónum sem tilgreindar voru í íslenskum krónum 5.520.693 kr. Álagning á kæranda fór þannig fram að tekjuskattsstofn ákvarðaðist sem umræddar tekjur frá Danmörku að fjárhæð 5.520.693 kr. Varð álagður tekjuskattur að frádregnum persónuafslætti 647.207 kr. og álagt útsvar 801.605 kr. Með kæru, dags. 31. ágúst 2017, sbr. bréf, dags. 15. september sama ár, mótmælti kærandi álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2017 og krafðist þess að við skattlagningu tekna kæranda á árinu 2016 yrði litið til þess að í raun hefði verið reiknaður skattur af þeim í Danmörku. Þá krafðist kærandi þess að hann nyti frádráttar vegna greiðslu lífeyrisiðgjalda samkvæmt 4. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

   

  [...]

   

  Með kæruúrskurði, dags. 25. október 2017, hafnaði ríkisskattstjóri kröfum kæranda að því undaskildu að fallist var á kröfu hans um frádrátt lífeyrissjóðsiðgjalda að fjárhæð 110.417 kr. Í úrskurðinum vísaði ríkisskattstjóri til þess að kærandi hefði verið með heimilisfesti hér á landi á árinu 2016 og því borið ótakmarkaða skattskyldu hér samkvæmt 1. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 19. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Hefði kæranda því borið að greiða tekjuskatt og útsvar af öllum tekjum sínum, hvar sem þeirra væri aflað, þar með töldum tekjum sem upprunnar væru í Danmörku. Þá kom fram að Norðurlöndin hefðu gert með sér samning til að komast hjá tvísköttun að því er varðaði skatta á tekjur og eignir, sbr. auglýsingu nr. 11/1997 í C-deild Stjórnartíðinda. Samkvæmt 3. mgr. 15. gr. samningsins mætti skattleggja tekjur kæranda í Danmörku. Í b-lið 4. mgr. 25. gr. samningsins, sem gilti um tekjur er féllu undir 3. mgr. 15. gr. hans, kæmi fram að hefði aðili heimilisfastur á Íslandi tekjur sem skattleggja mætti í öðru samningsríki skyldi Ísland draga frá íslenskum tekjuskatti hans fjárhæð sem svaraði til þess tekjuskatts sem greiddur væri í hinu samningsríkinu. Kærandi hefði ekki gert grein fyrir skattgreiðslum í Danmörku í skattframtali sínu árið 2017 og bæru þau gögn, sem lögð hefðu verið fram með kæru til ríkisskattstjóra, ekki á neinn hátt með sér fjárhæð greiddra skatta af tekjum kæranda í Danmörku. Yrði því ekki fallist á kröfu kæranda um að við skattlagningu teknanna hér á landi yrði litið svo á að þegar hefði verið reiknaður skattur af tekjunum.

   

  Með kæru, dags. 18. desember 2017, hefur kærandi skotið kæruúrskurði ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar. Í kærunni eru ítrekuð þau rök og sjónarmið sem fram komu í kæru til ríkisskattstjóra. Þá er því mótmælt að 3. mgr. 15. gr. tvísköttunarsamnings Norðurlandanna eigi við í máli kæranda, eins og ríkisskattstjóri haldi fram. Í raun eigi 4. mgr. sömu greinar samningsins við um tilvik kæranda og eigi því að beita undanþáguaðferð samkvæmt a-lið 4. mgr. 25. gr. samningsins við lausn undan tvísköttun. Ljóst sé að danskur tekjuskattur hafi verið reiknaður af útreiknuðum heildarlaunum kæranda, launin síðan lækkuð um þá fjárhæð og kærandi fengið greidd nettólaun, eins og við eigi um staðgreiðslu opinberra gjalda á Íslandi, sbr. lög nr. 45/1987. Tekjur kæranda hafi verið skattlagðar í Danmörku, en vegna sérstakra reglna til hagsbóta fyrir útgerðir þar í landi hafi útgerðin ekki þurft að standa skil á skattinum. Kærandi hafi þannig fengið greidd svokölluð nettólaun. Með vísan til framanritaðs sé ljóst að kærandi hafi þurft að þola skattlagningu í tveimur ríkjum þrátt fyrir að einungis Ísland eigi skattlagningarrétt á tekjum kæranda. Sé farið fram á að yfirskattanefnd beiti meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og fallist á að beita undanþáguaðferð að svo stöddu við skattlagningu tekna kæranda, enda verði markmiði fyrrgreinds tvísköttunarsamnings ekki náð með öðrum hætti.

   

  [...]

   

   

  Kærandi bar ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi gjaldárið 2017 samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 19. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Í því felst að kæranda var skylt að greiða tekjuskatt og útsvar af öllum tekjum sínum hvar sem þeirra var aflað, þar með töldum umræddum launatekjum frá Danmörku. Samkvæmt 119. gr. laga nr. 90/2003 er ríkisstjórninni heimilt að gera samninga við stjórnir annarra ríkja um gagnkvæmar ívilnanir á sköttum erlendra og íslenskra skattaðila sem eftir gildandi skattalöggjöf ríkjanna eiga að greiða skatt af sama skattstofni bæði á Íslandi og erlendis. Ísland er ásamt Danmörku aðili að samningi milli Norðurlandanna til að komast hjá tvísköttun að því er varðar skatta á tekjur og eignir, en samningurinn er birtur sem fylgiskjal með auglýsingu nr. 11/1997 í C-deild Stjórnartíðinda. Samkvæmt d-lið 3. mgr. 2. gr. samningsins tekur samningurinn að því er Ísland varðar m.a. til tekjuskatts til ríkisins og útsvars til sveitarfélaga. Samkvæmt 3. mgr. 15. gr. samningsins má skattleggja endurgjald fyrir störf unnin um borð í dönsku, færeysku, finnsku, íslensku, norsku eða sænsku skipi í flutningum á alþjóðaleiðum í því samningsríki þar sem skipið er skráð. Í 4. mgr. 15. gr. samningsins kemur fram að þrátt fyrir framangreind ákvæði 3. mgr. hans skattleggist endurgjald fyrir störf unnin um borð í fiskveiði-, selveiði- eða hvalveiðiskipi einungis í því samningsríki þar sem sá er aflar endurgjaldsins er heimilisfastur, einnig þótt endurgjaldið miðist við ákveðinn aflahlut eða ágóðahlut af fisk-, sel- eða hvalveiðunum. Í 25. gr. greinds tvísköttunarsamnings er mælt fyrir um aðferð til að komast hjá tvísköttun hjá hverju samningslandanna fyrir sig. Er 4. málsgrein greinarinnar, sem varðar Ísland sérstaklega, svohljóðandi:

   

  „a) Hafi aðili heimilisfastur á Íslandi tekjur eða eigi hann eign sem einungis skal eða má skattleggja samkvæmt ákvæðum þessa samnings í öðru samningsríki skal Ísland, nema ákvæði b-liðar leiði til annars, lækka íslenska tekju- eða eignarskattinn með því að draga frá þann hluta tekju- eða eignarskattsins sem reiknaður er af þeim tekjum sem aflað er eða eign sem er í hinu ríkinu.

   

  b) Hafi aðili heimilisfastur á Íslandi tekjur sem skattleggja má í öðru samningsríki samkvæmt 10. gr., 7. mgr. 13. gr., 3. mgr. 15. gr., 16. gr. eða 1.-6. mgr., c-lið 7. mgr. og 8.-9. mgr. 21. gr. skal Ísland draga frá íslenskum tekjuskatti þessa aðila fjárhæð sem svarar til þess tekjuskatts sem greiddur er í hinu samningsríkinu. Frádráttarfjárhæðin skal hins vegar ekki vera hærri en sá hluti íslenska skattsins, reiknaður fyrir slíkan frádrátt, sem lagður er á þær tekjur sem skattleggja má í hinu ríkinu.“

   

  Meðal gagna málsins er ráðningarsamningur milli kæranda og X A/S, dags. 23. maí 2013, þar sem fram kemur að kærandi sé ráðinn til starfa á skipum félagsins sem skráð séu í alþjóðlega skipaskrá Danmerkur (Dansk Internationalt Skibsregister, DIS). Í umsögn ríkisskattstjóra í málinu, dags. 15. janúar 2018, er bent á að af þessum sökum sé ljóst að umræddar launatekjur kæranda frá Danmörku falli undir 3. mgr. 15. gr. tvísköttunarsamnings milli Norðurlandanna en ekki 4. mgr. þess samnings. Verður ekki annað séð en að þetta sé í raun ágreiningslaust í málinu, sbr. bréf umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 31. janúar 2018, þar sem fram kemur að misskilnings hafi gætt milli umboðsmannsins og kæranda um eðli starfa kæranda. Verður samkvæmt framansögðu að ganga út frá því að hinar umdeildu launatekjur falli undir 3. mgr. 15. gr. tvísköttunarsamningsins.

   

  Það leiðir af framangreindu að fara ber eftir ákvæðum b-liðar 25. gr. margnefnds tvísköttunarsamnings Norðurlandanna um aðferð til að komast hjá tvísköttun vegna tekna kæranda frá Danmörku. Samkvæmt þeim ákvæðum skal draga frá íslenskum tekjuskatti fjárhæð sem svarar til þess tekjuskatts sem greiddur er í hinu samningsríkinu. Eins og fram er komið liggja engar upplýsingar eða gögn fyrir í málinu um skattgreiðslur kæranda í Danmörku. Er komið fram af hálfu kæranda að ekki sé greiddur skattur af tekjunum þar í landi og sé tekið tillit til þess við ákvörðun launa fyrir umrædd störf. Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðar þessa að skattaleg meðferð tekna kæranda frá Danmörku hafi verið í fullu samræmi við íslenska löggjöf og ákvæði fyrrnefnds tvísköttunarsamnings. Vegna tilvísunar kæranda til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal tekið fram að skattlagning umræddra tekna hjá kæranda leiðir af lögum. Verður því ekki talið að meðalhófregla eigi hér við, enda er einungis um að ræða úrlausn á grundvelli gildandi réttarreglna. Með vísan til þess sem að framan greinir er kröfum kæranda í máli þessu hafnað."

   

  Í hlekk með fréttinni er að finna úrskurð yfirskattanefndar í heild sinni.

 • Frumvarp til laga - breyting á ýmsum lögum vegna aðgerða gegn skattundanskotum og skattsvikum

  Um meginefni frumvarpsins:

   

  Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og tollalögum, nr. 88/2005. Umræddar lagabreytingatillögur grundvallast á skýrslu starfshóps um umfang skattundanskota og skattsvik og tillögur til aðgerða, skýrslu starfshóps um milliverðlagningu og faktúrufölsun og skýrslu starfshóps um skattskyldu af erlendri ferðaþjónustustarfsemi á Íslandi.

   

  Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar á 55. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003, með því að föstum starfsstöðvum félaga í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins, aðildarríkjum stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, sem staðsettar eru hér á landi, verði heimil samsköttun með innlendum samstæðufélögum. Breytingartillagan er lögð fram í því skyni að koma til móts við álit ESA frá 7. apríl 2016 um að íslenskar reglur um samsköttun félaga brjóti í bága við 31. og 40. gr. EES-samningsins um staðfesturétt og frjálst flæði fjármagns, sbr. formlega tilkynningu ESA, dags. 27. mars 2018. Í frumvarpinu er lagt til að sama frávik eigi við í tilviki fastrar starfsstöðvar og í tilviki dótturfélags, þ.e. að skilyrðið um 90% eignarhald þurfi að hafa varað allt viðkomandi reikningsár, nema þegar um nýstofnuð dótturfélög eða fasta starfsstöð er að ræða eða slit á dótturfélagi eða lokun fastrar starfsstöðvar. Þá er að auki lagt til að tap í fastri starfsstöð skv. 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. tekjuskattslaga verði því aðeins frádráttarbært hjá íslensku félagi að ekki sé unnt að jafna tapið hjá erlendu félagi starfsstöðvarinnar. Gert er ráð fyrir að breytingarnar öðlist gildi og komi til framkvæmda 1. janúar 2019.

   

  Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á 3. og 4. mgr. 7. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með því að bæta við orðunum „eða annar aðili sem leigir út vinnuafl“, þannig að kveðið sé skýrar á um skilaskyldu launagreiðanda í þeim tilvikum þegar um er að ræða útleigu á vinnuafli, óháð því hvort útleigan eigi sér stað fyrir tilstilli skráðrar starfsmannaleigu eða annars aðila. Breytingarnar eiga rætur sínar að rekja til þess að skattyfirvöld hafa talið sig bundin af þeim þrönga skilningi á hugtakinu starfsmannaleiga eins og það er sett fram í lögum nr. 139/2005, um starfsmannaleigur, þegar kemur að því að skýra hugtakið í lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda þannig að hugtakið í skattalegum skilningi hafi einungis átt við um skráðar starfsmannaleigur sem hafa þann eina tilgang að leigja út starfsmenn. Gert er ráð fyrir að þessar breytingar öðlist gildi við innleiðingu þeirra.

   

  Í þriðja lagi er lagt til að tekið verði upp hér á landi að norskri fyrirmynd rafrænt skráningarkerfi (e. simplified registration scheme) fyrir erlend atvinnufyrirtæki sem selja öðrum en atvinnufyrirtækjum hér þjónustu sem veitt er rafrænt, fjarskiptaþjónustu og útvarps- og sjónvarpsþjónustu. Markmið breytingarinnar er að einfalda innheimtu og skil á virðisaukaskatti fyrir erlend atvinnufyrirtæki hér á landi, í samræmi við tillögur OECD um kosti einfaldaðs skráningarforms vegna sölu á rafrænni þjónustu milli landa, sbr. m.a. skýrslu OECD um árangursríka innheimtu virðisaukaskatts, frá 24. október 2017 (e. Mechanisms for the Effective Collection of VAT/ GST). Samhliða þeirri breytingu er einnig lagt til að þeim erlendu atvinnufyrirtækjum sem selja hingað til lands í áskrift blöð og tímarit á pappírsformi sem og þeim erlendu ferðaþjónustuaðilum sem selja virðisaukaskattsskylda þjónustu hingað verði jafnframt heimilað að skrá sig með einfaldri skráningu að því gefnu að salan eigi sér stað til annarra en atvinnufyrirtækja hér á landi. Með hugtakinu atvinnufyrirtæki er átt við fyrirtæki sem hefur með höndum atvinnurekstur, þ.e. stundar sjálfstæða starfsemi reglubundið í vissu umfangi í þeim efnahagslega tilgangi að skila hagnaði. Sambærileg skráningarkerfi hafa verið tekin upp í Noregi, Nýja-Sjálandi og Ástralíu. Gert er ráð fyrir að breytingarnar komi ekki til framkvæmda fyrr en í 1. júlí 2019.

   

  Í fjórða lagi eru lagðar til breytingar í tengslum við aðflutningsgjöld tiltekinna ökutækja til tímabundinnar notkunar hér á landi, þar sem vörugjöld og virðisaukaskattur hafa verið felld niður við innflutning á þeim á grundvelli ákvæða 4. og 6. tölul. 1. mgr. 7. gr. tollalaga, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., og 2. mgr. 36. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Þar er lagt til að gerð verði breyting á tollfríðindum hópbifreiða sem fluttar eru til landsins tímabundið þegar bifreið er ekki flutt úr landi með þeim ferðamannahópi sem bifreiðin var ætluð við innflutning. Í stað þess að aðflutningsgjöld sem greiða ber af bifreiðunum geti numið tilteknum hluta af áætlaðri leigu sem tekur mið af tollverði bifreiðar taki hin áætlaða leiga mið af meðaltollverði innfluttra hópbifreiða sem flokkast hafa í sama tollskrárnúmer síðastliðin þrjú ár. Enn fremur er lögð fram tillaga þar sem gert er ráð fyrir því að tollyfirvöldum verði heimilað að fjarlægja skráningarmerki af ökutækjum sem hafa verið flutt inn á grundvelli tollfríðindaákvæða 4. og 6. tölul. 1. mgr. 7. gr. tollalaga. Gert er ráð fyrir að breytingarnar öðlist gildi við innleiðingu þeirra.

   

  Nálgast má frumvarpið í heild sinni í hlekk að ofanverðu með fréttinni.