Greinin í fullri lengd:
Eins og þekkt er orðið var samningur um eflingu heimagistingarvaktar undirritaður síðasta sumar af Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ráðherra ferðamála og Þórólfi Halldórssyni, sýslumaður á höfuðborgarsvæðinu. Fól samningurinn í sér 64 milljón króna fjárveitingu til embættis Sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu til að sinna hlutverki sínu sem eftirlitsaðili með heimagistingu á öllu landinu.
Á síðustu vikum hefur borið á því að hið aukna eftirlit sé að færast enn frekar í aukana. Starfsmönnum á eftirlitssviði með heimagistingu hjá Sýslumannsembættinu á höfuðborgarsvæðinu hefur fjölgað og hefur borið á að embættið hafi hafið vettvangsrannsóknir í kjölfar ábendinga um möguleg brot gegn lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.
Enn fremur hefur Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra birt drög af frumvarpi til laga um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007. Voru drög þessi birt á samráðsvefnum Island.is og barst ráðuneytinu 12 umsagnir í gegnum vefinn. Frumvarpið boðar þrjár breytingar er varða heimagistingu. Í fyrsta lagi breyting á skilyrðum til skráningar heimagistingar en boðuð breyting gerir ráð fyrir að þinglýst eignarhald yfir fasteign verði gert að skilyrði fyrir skráðri heimagistingu. Í öðru lagi fela breytingarnar í sér samræmingu á málsmeðferð og ákvörðun sekta milli skráningarskyldra og rekstrarleyfisskyldra aðila vegna leyfisskyldrar gististarfsemi annars vegar og skráningarskyldrar heimagistingar hins vegar. Í þriðja lagi er lögð til breyting er varðar eftirlit með skilum á nýtingaryfirlitum einstaklinga sem leigja út húsnæði sitt og skrá undir heimagistingu.
Af umsögnum við frumvarpið, sem finna má á samráðsvefnum Island.is, er ljóst að um skiptar skoðanir er að ræða um ágæti breytingarinnar um að þinglýst eignarhald verði gert að skilyrði fyrir skráningu á heimagistingu. Áhugavert verður að fylgjast með framvindu þessa frumvarps og áframhaldandi þróun í framkvæmd eftirlits sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.
Með vísan til ofangreinds telur KPMG fullt tilefni til að taka saman helstu atriði er varða heimagistingu miðað við núverandi löggjöf og framkvæmd.
1. Samkvæmt fyrrnefndum lögum skal aðili sem hyggst bjóða upp á heimagistingu tilkynna sýslumanni um þær fyrirætlanir, m.ö.o. skrá heimagistingu. Heimagisting er gisting gegn endurgjaldi á lögheimili einstaklings eða í einni annarri fasteign sem hann hefur til persónulegra nota og er í hans eigu. Þá má ekki leigja umræddar eignir í heimagistingu í fleiri en 90 daga á hverju almanaksári né mega tekjur vegna leigunnar nema hærri fjárhæð en kr. 2.000.000.
2. Skráning heimagistingar gildir út almanaksárið og skal endurnýjast á hverju ári. Skráning kostar kr. 8.560 og með henni skal fylgja: A) Staðfesting á að húsnæðið sé fullnægjandi með tilliti til hollustuhátta samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. B) Staðfesting á að um íbúðarhúsnæði sé að ræða. C) Staðfesting á að húsnæði uppfylli kröfur um brunavarnir.
3. Í lok hvers almanaksárs skal aðili með skráða heimagistingu skila til sýslumanns yfirliti yfir þá daga sem húsnæði var leigt út ásamt upplýsingum um leigutekjur.
4. Skráning heimagistingar er bundin við einstaklinga og heimagisting á fleiri en fimm herbergjum eða rýmum fyrir fleiri en 10 einstaklinga telst ekki lengur heimagisting og þarf því að uppfylla strangari kröfur laga nr. 85/2007.
5. Atriði er snúa að skattlagningu vegna heimagistingar:
-
Hafi einstaklingur fengið skráningu heimagistingar skulu tekjur hans af heimagistingunni skattlagðar sem fjármagnstekjur sem óheimilt er að færa frádrátt á móti. Skilyrði þess að svo sé um hnútana búið er að einstaklingurinn fylgi öllum skilyrðum heimagistingar sbr. töluliður 1 hér að ofan, þ.e. hvað varðar fjölda útleigðra daga og hámarksfjárhæð. Fari einstaklingur umfram þau mörk sem honum eru sett telst útleigan til atvinnurekstrartekna, en í því felst meðal annars að halda skal eftir staðgreiðslu af tekjunum og greiða af þeim virðisaukaskatt. Aukinheldur skal það tekið fram að í þeim tilvikum er heildarfjárhæð leigutekna vegna heimagistingar nemur hærri fjárhæð en hið lögboðna árlega hármark eða ef sýslumaður fellir niður skráningu heimagistingar falla allar leigutekjurnar á tekjuárinu undir atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi.
-
Fasteignaskattur af húsnæði sem er andlag heimagistingar getur tekið breytingum fylgi einstaklingur ekki reglum um heimagistingu við útleigu fasteignarinnar. Fari einstaklingur t.a.m. umfram þau lögmæltu mörk sem tilgreind eru í 1. tölulið hér að ofan er hætt við að sveitarfélagið sem fasteignin er staðsett innheimti hærri fasteignaskatt af fasteigninni með þeim rökum að ekki sé um íbúðarhúsnæði að ræða í skilningi laga um tekjustofn sveitarfélaga.
6. Gæta skal að því númer skráningar, sem aðili fær úthlutað við afgreiðslu umsóknar sinnar um heimagistingu, fylgi allri markaðssetningu og kynningu á heimagistingunni, t.a.m. á vefsíðu Airbnb.
Samkvæmt lögum nr. 85/2007 hefur sýslumaður heimild til að leggja stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn þeim skilyrðum sem sett eru fyrir heimagistingu. Getur sú sekt numið frá kr. 10.000 til kr. 1.000.000. Aðila er heimilt að skjóta ákvörðun sýslumanns til ráðherra innan þriggja mánaða frá því að honum var kynnt ákvörðunin. Ásamt þessu er lögreglustjóra heimilt að stöðva leyfisskylda starfsemi án fyrirvara eða aðvörunar.
Frekari upplýsingar um skilyrði heimagistingar má finna í lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Enn fremur bendir KPMG á vefsíðuna, www.heimagisting.is, sem fylgir þessari frétt en þar má finna góðar leiðbeiningar fyrir aðila sem hyggjast leigja út eign sína.