Stimpilgjald - hlutaskipting félags

E.g., 2021-12-02
E.g., 2021-12-02
 • Nánar úr niðurstöðum dóms Landsréttar frá 25. október 2019 í máli nr. 821/2018:

   

  "[...]

   

  Áfrýjandi krefst þess annars vegar að felldur verði úr gildi úrskurður yfirfasteignamatsnefndar 11. desember 2017 í máli nr. 9/2017. Hins vegar krefst hann þess að viðurkennt verði með dómi að honum sé heimilt að skattleggja fasteign stefndu að Undirhlíð 36 í Grímsnes-og Grafningshreppi, [...], samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga vegna þess tíma sem fasteignin var skráð fyrir heimagistingu á árinu 2017. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti.

   

  [...]

   

  Niðurstaða

   

  Í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/2007 er heimagisting flokkuð sem ein tegund gististaða. Komi ekkert annað til verður í því ljósi að líta svo á að heimgisting falli undir ferðaþjónustu í skilningi c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995.

   

  Í 13. gr. laga nr. 85/2007, sbr. 10. gr. laga nr. 67/2016, er mælt fyrir um skyldu þess sem hyggst bjóða upp á heimagistingu, í samræmi við 1. mgr. 3. gr. laganna, til að tilkynna sýslumanni í viðkomandi umdæmi að hann hyggist leigja út lögheimili sitt eða eina aðra fasteign í sinni eigu. Þá er þar gerð grein fyrir atriðum sem að skráningarskyldunni lúta. Í 5. mgr. greinarinnar og svo sem áður er getið er sérstaklega tekið fram að heimagisting sem uppfyllir skilyrði laganna teljist ekki fara fram í atvinnuhúsnæði í skilningi laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995.

   

  Í athugasemdum sem upphaflega fylgdu frumvarpi því er varð að lögum nr. 67/2016 kom meðal annars fram að breytt skilgreining heimagistingar samkvæmt því væri tilraun til þess að einfalda fyrirkomulag á útleigu einstaklinga á heimilum sínum til skamms tíma. Markmið ákvæðanna um heimagistingu væri einnig að ná skammtímaleigu upp á yfirborðið og skilja þetta form útleigu frá hefðbundinni gististarfsemi í atvinnuskyni. Sú breyting var meðal annars gerð á frumvarpinu í meðförum Alþingis að bætt var inn í það framangreindu ákvæði um að heimagisting teldist ekki fara fram í atvinnuhúsnæði í skilningi laga nr. 4/1995. Í nefndaráliti atvinnuveganefndar segir það eitt um þessa breytingu að það sé „vilji löggjafans að húsnæði sem heimagisting fer fram í, eins og það hugtak er skilgreint í frumvarpinu, teljist ekki vera atvinnuhúsnæði“ í skilningi laga um tekjustofna sveitarfélaga. Að þessu virtu liggur beinast við að álykta á þann veg að ætlun löggjafans með þessari breytingu hafi verið sú að það eitt að eigandi íbúðar, íbúðarhúss eða sumarbústaðar bjóði upp á heimagistingu þar eigi ekki að leiða til þess að vikið verði frá þeirri reglu um álagningu fasteignaskatts af þessum eignum sem mælt er fyrir um í a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 og að slík starfsemi teljist þar með ekki til atvinnureksturs líkt og ferðaþjónusta annars gerði. Er þá jafnframt til þess að líta að ekki verður séð að þessi breyting hefði að öðrum kosti haft sérstaka þýðingu.

   

  Samkvæmt 40. gr. stjórnarskrárinnar má engan skatt á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Hefur þetta verið skýrt svo að skýra heimild í settum lögum þurfi til skattlagningar. Samkvæmt þessu og því sem rakið er hér að framan verður ekki fallist á það með áfrýjanda að hin umdeilda álagning fasteignaskatts hafi viðhlítandi stoð í ákvæði c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur.“

   

  Í hlekk með fréttinni er að finna dóm Landsréttar í heild sinni.

 • Á fundinn var mætt fyrir um helming atkvæða í félaginu og fundurinn því hvorki bær til þess að taka ákvörðun um slit félagsins eða arðgreiðslur. Eftir fundinn var leitað eftir samvinnu við aðra hluthafa um slit á félaginu en samþykki þeirra fékkst hins vegar ekki. Stefndi og kona hans, KJ, féllu þá frá áformum um slit félagsins á grundvelli ákvörðunar fundarins en uppgjör við hluthafa fór þó fram, að því er virðist á grundvelli þess uppgjörs sem lá frammi á hluthafafundinum 29. desember 2008. Gengið var frá greiðslu til hluthafa þann 10. júní 2011, en á þeim tíma fór stefndi með prókúru fyrir félagið og framkvæmdi greiðsluna.

  Stefndi og eiginkona hans kröfðust svo slita á félaginu með stefnu birtri 13. maí 2013 og var bú félagsins tekið til skipta með dómi héraðsdóms Reykjavíkur þann 19. júní 2014, sbr. 2. tl. 2. mgr. 82. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Dómurinn miðaði við að hin umstefnda greiðsla stefnanda til stefnda hafi byggst á samþykkt hluthafafundarins 29. desember 2008, þar sem ákveðið var að slíta F ehf. og áðurnefndu uppgjöri vegna slita sem unnið var síðar á vegum stefnda og sent hluthöfum ÁÁ og HS með bréfi stefnda 10. júní 2011. Dómurinn taldi að þótt fram hefði komið í bréfi stefnda að um væri að ræða ,,arðgreiðslur“ til hluthafa væri engu að síður ljóst að efnislega var um að ræða greiðslur vegna slita einkahlutafélags og uppgjör á þeim grundvelli. Dómurinn taldi ljóst að skilyrði hafi brostið til að taka ákvörðun um slit félagsins á hluthafafundi félagsins 29. desember 2008 og án tillits til þess hvort líta beri á greiðslu stefnanda til stefnda 10. júní 2011 sem úthlutun eigna einkahlutafélags til hluthafa við slit eða arðgreiðslu hafi verulega skort á að gætt hafi verið þeirra reglna sem um þessar ákvarðanir gilda. Stefndi og eiginkona hans settu greiðslur til hluthafa í búning arðgreiðslna, án þess þó að gætt hafi verið að ákvæðum 73. og 76. gr. laga nr. 138/1994, en ekki var búið að samþykkja ársreikning í stjórn félagsins eða á löglega boðuðum aðalfundi.

  Stefnda var gert að endurgreiða félaginu kr. 5.923.399 ásamt vöxtum, með vísan til 1. mgr. 77. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög.

 • Ágreiningur málsaðila snérist annars vegar um endurákvörðun skatta stefnanda samkvæmt úrskurðum skattstjóra vegna gjaldáranna 2004-2009. Snérist ágreiningur aðila einkum um annars vegar heimild stefnenda til að hækka bókfært verð eigna í atvinnurekstri sínum með vísan til matverðs samkvæmt 23. og 25. gr. laga nr. 144/1994 um ársreikninga. Hins vegar var deilt um heimild stefnenda til að færa verðmæti veiðiheimilda niður vegna skerðingar á úthlutuðu aflamarki milli ára.

   

  Í 33. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt er fjallað um fyrnanlegar eignir. Óumdeilt var að eignir þær sem stefnendur töldu heimilt að fyrna féllu undir 1. tölulið 33. gr. laga nr. 90/2003. Stefnandi miðaði fyrningargrundvöll eigna við matsverð þeirra. Var það talið óheimilt enda er skýrt um það kveðið í 2. mgr. 36. gr. laga nr. 90/2003 að miða skuli fyrningargrundvöll eigna við stofnverð þeirra en ekki matsverð og reglur um ársreikninga hagga ekki þeirri niðurstöðu. Var úrskúrður skattstjóra um endurákvörðun gjalda stefnanda til samræmis við fyrningargrunn eignanna samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga nr. 90/2003 því í samræmi við lög. Að mati dómsins voru þær reglur tekjuskattslaga sem hér um ræðir skýrar og ótvíræðar.

   

  Í 1. mgr. 48. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt segir að eigi sé heimilt að fyrna stofnkostnað við kaup á réttindum sem rýrna ekki við notkun.  Til stofnkostnaðar samkvæmt málsgreininni telst m.a. keyptur réttur til nýtingar á náttúruauðæfum, svo sem kaup á varanlegri aflahlutdeild og sambærilegum réttindum. Þá segir í 3. mgr. greinarinnar að verðmæti keyptra réttinda sem ekki sé heimilt að fyrna sé eigi heimilt að færa til frádráttar skattskyldum tekjum. Við þetta er gerður sá fyrirvari í lokaorðum greinarinnar að heimilt er að telja til rekstararkostnaðar verðmæti þessara réttinda ef þau falla niður eða hlutfallslega ef þau eru skert verulega lögum samkvæmt. Aflahlutdeild er varanlegur réttur til ákveðinnar hlutdeildar af heildarafla, eins og hann er ákveðinn fyrir hvert fiskveiðiár skv. lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Aflamark skips á hverju veiðitímabili ræðst þannig af leyfðum heildarafla og hlutdeild skipsins í þeim heildarafla. Það er því ljóst að að árleg ákvörðun á aflamarki stefnanda fól ekki í sér skerðingu á aflahlutdeild þeirra. Samkvæmt óvíræðum fyrirmælum 1. mgr. 48. gr. laga nr. 90/2003 var stefnendum því ekki heimilt að að fyrna keypta aflahlutdeild við skattskil sín.

   

  Nánar úr forsendum héraðsdóms, staðfestum af Landsrétti:

   

  „Svo sem áður er rakið snýst ágreiningur málsaðila annars vegar um ákvarðanir skattstjóra og ríkisskattstjóra um að lækka gjaldfærðar fyrningar stefnenda samkvæmt rekstrarskýrslum þeirra með vísan til þess að þeim hafi verið óheimilt að hækka bókfært verð eigna í atvinnurekstri sínum með vísan til 50. og 51. gr. laga nr. 133/2001 með tilliti til matsverðs eignanna á hverju ári. Hins vegar er deilt um heimild stefnenda til að færa verðmæti veiðiheimilda niður vegna skerðingar á úthlutuðu aflamarki fyrir fiskveiðiárið 2007/2008.

   

  A

  Svo sem rakið er í úrskurði skattstjóra 9. júní 2009 er fjallað um fyrnanlegar eignir í 33. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Er ekki um það deilt að þær eignir sem stefnendur töldu heimilt að fyrna féllu undir 1. tölulið greinarinnar. Í 2. mgr. 36. gr. laganna er fjallað um fyrningargrunn eigna og kemur þar ótvírætt fram að miða beri fyrningargrunn eigna samkvæmt 1. tölulið 33. gr. laganna við stofnverð þeirra, sbr. 2. mgr. 12. gr., að frádregnum áður fengnum fyrningum. Samkvæmt þessu var ekki að finna í lögum heimild til handa stefndu til að miða fyrningargrunn eigna við matsverð eignanna og geta reglur um ársreikninga ekki haggað þeirri niðurstöðu. Var úrskurður skattstjóra um endurákvörðun gjalda stefnenda til samræmis við fyrningargrunn eignanna samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga nr. 90/2003 því í samræmi við lög. Er ekki á því byggt að með þessari ákvörðun hafi verið brotið gegn jafnræði stefnenda eða eignarréttindum, eins og þessi réttindi eru vernduð af stjórnlögum. Þá er haldlaus sú málsástæða stefnenda að þeim hafi verið heimilt að haga skattskilum sínum með áðurgreindum hætti með vísan til skattareglna um rekstrartjón. Í málinu er ekki gerður tölulegur ágreiningur um útreikninga skattstjóra við lækkun á fyrningargrunni eigna stefnenda og lækkun frádráttar af þeim sökum. Samkvæmt þessu er að fullu fallist á rökstuðning skattstjóra í úrskurði hans 9. júní 2009 að því er varðar endurákvörðun gjalda stefnenda af þessum sökum.

  Að mati dómsins voru þær reglur skattalaga sem hér var um að ræða skýrar og ótvíræðar og því engin efni til að fella niður það álag sem skattstjóri gerði stefnendum samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 með heimild í 3. mgr. sömu greinar.

   

  B

  Með dómi Hæstaréttar 18. nóvember 1993 í máli nr. 291/1993 var komist að þeirri niðurstöðu að keypt aflahlutdeild teldist til skattskyldra eigna í skilningi laga um tekjuskatt og eignaskatt. Hins vegar var komist að þeirri niðurstöðu að þótt aflahlutdeild yrði að sönnu, eftir strangri orðskýringu, ekki talin rýrna að verðmæti við eðlilega notkun eða aldur þætti ekki varhugavert að telja hana til réttinda sem væru fyrnanleg samkvæmt þágildandi 32. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignaskatt, eins og lögunum hafði síðar verið breytt. Líkt og vikið er að í greinargerð stefnda brást löggjafinn við því réttarástandi sem skapast hafði með téðum dómi Hæstaréttar með setningu laga nr. 118/1997 sem bættu sérstökum ákvæðum, 50. gr. A, við þágildandi lög nr. 75/1981. Svarar greinin efnislega til núgildandi 48. gr. laga nr. 90/2003 og eru þar tekin af tvímæli í 1. mgr. greinarinnar um að stofnkostnað við kaup á réttindum, sem ekki rýrni vegna notkunar, sé óheimilt að fyrna. Er þar sérstaklega tekið fram að til stofnkostnaðar samkvæmt málsgreininni teljist meðal annars keyptur réttur til nýtingar á náttúruauðæfum, svo sem kaup á varanlegri aflahlutdeild og sambærilegum réttindum. Þá segir í 3. mgr. greinarinnar að verðmæti keyptra réttinda sem ekki sé heimilt að fyrna sé eigi heimilt að færa til frádráttar skattskyldum tekjum. Við þetta er gerður sá fyrirvari í lokaorðum greinarinnar að heimilt er að telja til rekstrarkostnaðar verðmæti þessara réttinda ef þau falla niður eða hlutfallslega ef þau eru skert verulega lögum samkvæmt.

  Svo sem ítarlega er rakið í úrskurði yfirskattanefndar 22. júlí 2011 í máli nr. 185/2011 er aflahlutdeild varanlegur réttur til ákveðinnar hlutdeildar af heildarafla, eins og hann er ákveðinn fyrir hvert fiskveiðiár samkvæmt núgildandi 1. mgr. 3. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Aflamark skips á hverju veiðitímabili eða vertíð ræðst þannig af leyfðum heildarafla viðkomandi tegundar og hlutdeild skipsins í þeim heildarafla, sbr. 4. mgr. 8. gr. laga nr. 116/2006. Svo sem einnig er rakið í téðum úrskurði yfirskattanefndar hefur 48. gr. laga nr. 90/2003 ekki verið talin taka til kostnaðar við kaup á aflamarki sem úthlutað hefur verið á grundvelli aflahlutdeildar en er óveitt á kaupdegi, enda er þar ekki um að ræða varanlegan veiðirétt. Í aðilaskýrslu stefnanda Óskars Karls fyrir dómi kom hins vegar fram að hann hefur ekki keypt veiðiheimildir til afmarkaðs tíma á þessum grundvelli eða leigt kvóta, eins og það er kallað í daglegu tali, á þeim tíma sem hér um ræðir. Samkvæmt framangreindu er ljóst að árleg ákvörðun á aflamarki stefnenda fól ekki í sér skerðingu á aflahlutdeild þeirra. Samkvæmt ótvíræðum fyrirmælum 1. mgr. 48. gr. laga nr. 90/2003 var stefnendum þar af leiðandi óheimilt að fyrna keypta aflahlutdeild við skattskil sín. Af sömu ástæðum verður ekki á það fallist að téð réttindi hafi fallið niður eða verið skert í skilningi lokaorða 3. mgr. 48. gr. laga nr. 90/2003.

  Líkt og rakið er í úrskurði yfirskattanefndar tekur 35. gr. laga nr. 90/2003, sem fjallar um rekstrartjón, aðeins til fyrnanlegra eigna og getur hún, þegar af þeirri ástæðu, ekki tekið til aflahlutdeildar. Þá tekur dómurinn undir það sem fram kemur í úrskurðinum, að ekkert liggur fyrir í málinu um að aflahlutdeild stefnenda hafi rýrnað að verðmæti á þeim tímabilum sem hér er um að ræða. Líkt og fram kemur í greinargerð stefnda fyrir dómi hefur 25% álag sem ríkisskattstjóri bætti við hækkun skattstofna stefnenda fyrir gjaldárið 2009 þegar verið fellt niður með fyrrnefndum úrskurði yfirskattanefndar og breyttu stefnendur kröfugerð sinni til samræmis við þetta við aðalmeðferð málsins.

  Samkvæmt framangreindu er það álit dómsins að þær ákvarðanir skattyfirvalda sem um er deilt í málinu hafi í öllum atriðum verið í samræmi við skýr og ótvíræð fyrirmæli laga. Þá liggur fyrir að álag samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra 2. mars 2010 var fellt niður með áðurgreindum úrskurði yfirskattanefndar eftir að málið var höfðað. Að frátalinni ákvörðun skattstjóra um beitingu 25% álags samkvæmt úrskurðinum 9. júní 2009 er því ekki unnt að líta svo á, við ákvörðun málskostnaðar, að uppi hafi verið vafaatriði í málinu eða atvik að öðru leyti þannig að réttlætanlegt sé að fella málskostnað að fullu niður, sbr. 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt þessu verða stefnendur dæmdir sameiginlega til að greiða stefnda stærstan hluta málskostnaðar hans sem þykir hæfilega ákveðinn 500.000 krónur að teknu tilliti til umfangs málsins. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.“

   

  Í hlekk með frétt þessari er að finna dóm Landsréttar í heild sinni.

   

 •  

  Í framangreindum málum eru atvik máls að mestu leyti sambærileg og verður skv. því einungis gert grein fyrir helstu forsendum í máli Landsréttar nr. 661/2018 hér að neðan:

   

  "Aðalkrafa sóknaraðila

   

  Sóknaraðili byggir á því að skilyrðum kyrrsetningar samkvæmt 6. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt hafi ekki verið fullnægt og því beri að fella hinn kærða úrskurð úr gildi og fallast á kröfu hans um að kyrrsetningargerðin verði felld úr gildi. Skilyrði kyrrsetningar samkvæmt 6. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 eru að það liggi fyrir rökstuddur grunur um refsiverða háttsemi samkvæmt 109. gr. sömu laga og að hætta þyki á að eignum verði ella skotið undan eða þær glatist eða rýrni að mun, enda megi ætla að meint refsiverð háttsemi varði við 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt gögnum máls liggur sóknaraðili undir grun um að hafa vanrækt að telja fram umtalsverðar launatekjur tekjuárin 2010-2014 og fjármagnstekjur fyrir tekjuárin 2012 og 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi útreikningi áætlaðra sekta- og skattfjárhæða nemur heildarkrafan á hendur sóknaraðila 638.441.908 krónum, en krafist var kyrrsetningar í eignum hans til tryggingar kröfu að fjárhæð 638.000.000 króna. [...]

   

  [...] við túlkun á 6. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 verður meðal annars að horfa til þess hvernig 88. gr. laga nr. 88/2008 hefur verið beitt í réttarframkvæmd. Við mat á því hvort ,,hætta þykir á að eignum verði ella skotið undan eða þær glatist eða rýrni að mun“ hefur í réttarframkvæmd við túlkun á 88. gr. laga nr. 88/2008 einkum verið horft til þess hve há sú fjárhæð er sem krafist er tryggingar fyrir og hvort bent hafi verið á að til séu aðrar eignir sem gætu staðið til fullnustu á greiðslu viðkomandi kröfu, sbr. dóma Hæstaréttar 17. september 2013 í máli nr. 601/2013 og 26. febrúar 2010 í máli nr. 73/2010 og úrskurð Landsréttar 8. mars 2018 í máli nr. 207/2018. Skilyrði kyrrsetningar samkvæmt 88. gr. laga nr. 88/2008 og 6. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 eru eðlisólík skilyrðum fyrir kyrrsetningu samkvæmt 5. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. og verða þau ekki lögð að jöfnu, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 73/2010 að því er varðar 88. gr. laga nr. 88/2008. Þótt eðli þeirra eigna sem kyrrsetning beinist að kunni að skipta máli við mat á hættu á undanskoti, ræður það eitt ekki úrslitum. Um síðastnefnt verður meðal annars að hafa í huga að ekki er að jafnaði flókið eða tímafrekt að framselja fasteignir, eða eftir atvikum binda þær veðböndum eða kvöðum sem geta rýrt fjárhagslegt verðmæti þeirra verulega eða jafnvel að öllu leyti. Sóknaraðili hefur ekki bent á að til séu aðrar eignir sem gætu staðið til fullnustu á greiðslu kröfunnar en fyrirliggjandi skattframtöl 2016 og 2017 bera auk þess með sér að tekjur hans dugi ekki til þess, verði leitað fullnustu kröfunnar. Með vísan til framangreinds þykir fullnægt skilyrðum 113. gr. laga nr. 90/2003 fyrir lögmæti kyrrsetningargerðar sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 19. desember 2017 í hinum þar tilgreindu eignum sóknaraðila.

   

  Sóknaraðili byggir jafnframt á því að ógilda beri kyrrsetningargerðina þar sem kyrrsettar hafi verið eignir umfram það sem þurfti til að tryggja kröfu varnaraðila. Af endurriti úr gerðarbók sýslumanns er ljóst að sóknaraðili naut aðstoðar lögmanns við framkvæmd kyrrsetningargerðarinnar, en fyrir liggur að ekki var óskað eftir virðingu á þeim eignum sem kyrrsetningu var beint að eins og sóknaraðili átti kost á samkvæmt 38. gr. laga nr. 90/1989 um aðför sem gildir við framkvæmd kyrrsetningar, sbr. 15. gr. laga nr. 31/1990. Samkvæmt því verður lagt til grundvallar að verðmæti þeirra eigna sem voru kyrrsettar hafi ekki verið umfram það sem þurfti til að tryggja kröfu varnaraðila, en gögn máls benda eindregið til þess að áætluð krafa varnaraðila sé umtalsvert hærri en verðmæti þeirra eigna sem voru kyrrsettar. 

   

   

  Varakrafa sóknaraðila

   

  Sóknaraðili krefst þess til vara að kyrrsetning á fasteignum sem taldar eru upp í varakröfu hans verði felld úr gildi, en allar eignirnar eiga það sameiginlegt að  hafa verið bundnar ákveðnum ráðstöfunarkvöðum af hálfu Seðlabanka Íslands vegna þátttöku sóknaraðila í fjárfestingarleið bankans. Byggir sóknaraðili einkum á því að þar sem eignirnar hafi verið bundnar þessum kvöðum hafi skilyrði 6. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003, um hættu á undanskoti eða að eignirnar glatist eða rýrni að mun, ekki verið fullnægt. Eins og fyrr greinir ræður ekki úrslitum við túlkun á framangreindu skilyrði 6. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003, hversu auðvelt er að framselja viðkomandi eign heldur einkum hve há sú fjárhæð er sem krafist er tryggingar fyrir og hvort bent hafi verið á að til séu aðrar eignir sem gætu staðið til fullnustu á greiðslu viðkomandi kröfu. Eins og áður er rakið verður hér lagt til grundvallar að þessu skilyrði 6. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 hafi verið fullnægt og breytir umrædd kvöð Seðlabanka Íslands ekki þeirri niðurstöðu, en samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga nr. 90/1989, sbr. 15. gr. laga nr. 31/1990, standa áhvílandi lögbönd ekki í vegi fyrir framkvæmd kyrrsetningar. Verður varakrafa sóknaraðila því ekki tekin til greina.

   

  Þrautavarakrafa sóknaraðila

   

  Sóknaraðili krefst þess til þrautavara að ,,fjárhæð kyrrsetningar“ á eignum sóknaraðila verði lækkuð verulega. Í greinargerð með kæru sóknaraðila er þessi krafa útskýrð þannig að kyrrsettar hafi verið eignir umfram þá kröfu sem kyrrsetningunni sé ætlað að tryggja. Eins og fyrr er rakið verður hér lagt til grundvallar að verðmæti þeirra eigna sem voru kyrrsettar hafi ekki verið umfram það sem þurfti til að tryggja kröfu varnaraðila. Af þeirri ástæðu verður þrautavarakrafa sóknaraðila ekki tekin til greina."

   

  Nálgast má dóm Landsréttar í máli nr.  661/2018 í heild sinni í viðhengi sem hengt er við fréttina hér að ofanverðu.