Stimpilgjald - hlutaskipting félags

E.g., 2018-06-21
E.g., 2018-06-21
 • Sala á rekstri – bætur fyrir brot á samkeppnisákvæði

  Úr dómi Hæstaréttar í máli nr. 321/2017:

  Staðfest var sú niðurstaða héraðsdóms að A hafi brotið gegn þeirri skuldbindingu sem hann gekkst undir samkvæmt 12. grein kaupsamningsins með atbeina sínum að innflutningi á vörum og öðrum samskiptum í óþökk kaupanda við vöruframleiðanda, sem Í ehf. hafði yfirtekið viðskipti við með kaupsamningnum, og með öðrum aðgerðum sem lýst er í dómnum. Með framangreindri háttsemi sinni rýrði A af ásettu ráði verðmæti hins selda og olli með því Í ehf. tjóni. Á því ber hann skaðabótaábyrgð og þar sem háttsemi hans var saknæm tekur ábyrgðin bæði til beins og óbeins tjóns Í ehf., sbr. 3. mgr. 40. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup.

  “Við mat á tjóni áfrýjandans Í ehf. verður fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að hluti af tjóni vegna tapaðrar viðskiptavildar sé ætlað tjón vegna innflutnings P ehf. á þeim tveimur gámum, sem greinir í dóminum. Áfrýjandinn Í ehf. hefur sönnunarbyrði fyrir því hvert tjón félagsins var vegna háttsemi áfrýjandans A. Félagið hefur aflað mats dómkvadds manns um hvert tjón þess hafi orðið vegna missis hagnaðar við það að P ehf. flutti inn til sölu á markaði gám með fiskilínu og fleiri vörum. Niðurstaða matsmannsins var sú að tjón áfrýjandans Í ehf. vegna þessa hafi numið 6.896.443 krónum en eins og fram er komið voru fluttir til landsins tveir gámar með slíkum vörum.
  Félagið hefur ekki freistað þess að afla mats um tjón sitt að öðru leyti, en gerir kröfu um að skaðabætur verði ákveðnar að álitum, ef ekki verður fallist á útreikning þess sjálfs, sem gerð er grein fyrir í hinum áfrýjaða dómi. Í dóminum, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, kemur fram sú afstaða að það sé erfiðleikum bundið að leggja fram nákvæma útreikninga um rýrnun viðskiptavildar og að ekki sé unnt að ætlast til að áfrýjandinn Í ehf. geti lagt fram nákvæm gögn um fjárhæð tjónsins. Til þess að skaðabætur verði dæmdar að álitum þarf að sýna fram á, auk skaðabótaábyrgðar, að tjón hafi orðið. Svo sem fram er komið hefur áfrýjandinn Í ehf. sannað að félagið hafi orðið fyrir tjóni vegna háttsemi áfrýjandans A. Með vísan til niðurstöðu héraðsdóms verður fallist á að ekki sé líklegt að öflun matsgerðar dómkvadds manns sé, eins og atvikum málsins og eðli skaðabótakröfunnar í málinu er háttað, líkleg til þess að færa mætti málið að þessu leyti í þann búning að komist yrði hjá að ákveða bætur að álitum. Verður því staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að skilyrði séu til þess.”

  Við mat á fjárhæð skaðabóta leit Hæstiréttur fyrst og fremst til þess hvaða fjárhæð hefði samkvæmt kaupsamningi verið greidd fyrir viðskiptavild og önnur óefnisleg verðmæti og hvaða áhrif aðgerðir A hefðu haft á umfang helstu viðskiptasambanda. Um ákvörðun bótafjárhæðar sagði Hæstiréttur:

  „Við ákvörðun skaðabóta að álitum verður að gæta hófs enda á ekki að geta falist ávinningur í því að ekki liggi fyrir sannanir um fjárhæð tjóns. Þá er þess að gæta að samningsaðilar þar sem settar eru samkeppnishömlur á annan aðilann geta ákveðið með samningi févíti eða annars konar skaðabætur og fjárhæð þeirra ef samningsaðili, eða annar sá sem skuldbindur sig samkvæmt samningum, efnir ekki skyldur sínar. Með vísan til alls framangreinds verður áfrýjandinn A dæmdur til að greiða áfrýjandanum Í ehf. skaðabætur að fjárhæð 25.000.000 krónur með dráttarvöxtum eins og greinir í dómsorði.“

  Nálgast má allan dóm Hæstaréttar í hlekk að ofan með fréttinni.

 • Virðisaukaskattur á erlenda ráðgjafarþjónustu

  Úr úrskurði yfirskattanefndar nr. 63/2018:

  Mál þetta varðar endurákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt úrskurði, dags. 6. júní 2017, á virðisaukaskatti kæranda rekstrarárið 2014 vegna keyptrar þjónustu erlendis frá, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum. Með úrskurðinum var kæranda ákvarðaður virðisaukaskattur til greiðslu að fjárhæð 20.828.430 kr. árið 2014 vegna aðkeyptrar þjónustu að fjárhæð 81.680.116 kr. Við hækkun virðisaukaskatts kæranda bætti ríkisskattstjóri álagi að fjárhæð 2.082.843 kr.

  Endurákvörðun ríkisskattstjóra var byggð á því að tiltekin þjónusta, sem kærandi keypti á árinu 2014 af tveimur erlendum aðilum, félli undir 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988 og hefði verið notuð að hluta eða öllu leyti hér á landi í skilningi 1. mgr. 35. gr. laganna. Er annars vegar um að ræða kaup á þjónustu af lögmannsstofunni W í T-landi og hins vegar af bandaríska fjármálafyrirtækinu Y. Ríkisskattstjóri vísaði til þess að lögmannsstofan hefði aðstoðað kæranda við könnun á skráningu félagsins í kauphöll í T-landi og þjónusta hins bandaríska fjármálafyrirtækis hefði lotið að ráðgjöf um fjárfestingatækifæri erlendis. Hefði þjónusta beggja aðilanna verið þáttur í ákvörðunarferli innan vébanda kæranda og þannig hefði hún nýst a.m.k. að hluta til hér á landi. Því bæri kæranda að greiða virðisaukaskatt vegna þessara þjónustukaupa samkvæmt umræddu lagaákvæði. Þessum forsendum ríkisskattstjóra er mótmælt af hálfu kæranda. Byggir kærandi á því að þjónusta fyrrgreindra tveggja aðila geti ekki talist hafa hafa verið til nota hér á landi í skilningi 1. mgr. 35. gr. laga nr. 50/1988, auk þess sem þjónusta Y sé undanþegin virðisaukaskattsskyldu, sbr. 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988.

  Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 50/1988 skal aðili, sem kaupir þjónustu sem talin er upp í 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. laganna erlendis frá til nota að hluta eða öllu leyti hér á landi, greiða virðisaukaskatt af andvirði hennar. Fram kemur í 2. mgr. 35. gr. laga nr. 50/1988 að skráður aðili samkvæmt lögunum sé undanþeginn skyldu til greiðslu virðisaukaskatts samkvæmt 1. mgr. ef hann gæti að fullu talið virðisaukaskatt vegna kaupanna til innskatts, sbr. 3. og 4. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 16. gr. laganna, nema þegar þjónusta er veitt eða hennar notið í tengslum við innflutning á vöru. Samkvæmt 3. mgr. 35. gr. skal aðili, sem skyldugur er til að greiða virðisaukaskatt samkvæmt ákvæðum 1. mgr., ótilkvaddur gera ríkisskattstjóra grein fyrir kaupum á þjónustu í sérstakri skýrslu í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Nánar er kveðið á um framkvæmd skattlagningar samkvæmt 35. gr. laga nr. 50/1988 í reglugerð nr. 194/1990, um virðisaukaskatt af þjónustu fyrir erlenda aðila og af aðkeyptri þjónustu erlendis frá. Undir ákvæði 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988 fellur m.a. „ráðgjafarþjónusta, verkfræðiþjónusta, lögfræðiþjónusta, þjónusta endurskoðenda og önnur sambærileg sérfræðiþjónusta sem og gagnavinnsla og upplýsingamiðlun, þó ekki vinna við eða þjónusta sem varðar lausafjármuni eða fasteignir hér á landi“, sbr. c-lið töluliðarins.

  Samkvæmt framansögðu eru náin tengsl milli ákvæða 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988 og 1. mgr. 35. gr. laganna. Samkvæmt fyrrnefnda lagaákvæðinu er sala virðisaukaskattsskyldra aðila á þjónustu, sem tilgreind er í þessum tölulið í níu stafliðum, undanþegin skattskyldri veltu við ákveðnar aðstæður, m.a. þegar kaupandi hefur hvorki búsetu né starfsstöð hér á landi og nýtir hina keyptu þjónustu að öllu leyti erlendis. Með 1. mgr. 35. gr. laganna er hins vegar kveðið á um skyldu þess sem kaupir erlendis frá þjónustu sem fellur undir upptalningu í 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. laganna til greiðslu virðisaukaskatts af andvirði hins keypta, enda sé þjónustan notuð að hluta eða öllu leyti hér á landi, sbr. þó undanþágu 2. mgr. 35. gr. laganna. Það er sameiginlegt þessum ákvæðum að umrædd þjónusta skal ekki skattlögð hér á landi ef hún telst eingöngu vera notuð erlendis. Miðað við orðalag 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988 ber á hinn bóginn að innheimta virðisaukaskatt af andvirði seldrar þjónustu þótt hún sé aðeins nýtt hér á landi að hluta en að öðru leyti nýtt erlendis. Þá þykir orðalag 1. mgr. 35. gr. laganna bera með sér að skattlagning samkvæmt ákvæðinu taki til þjónustu sem aflað er erlendis frá, bæði við þær aðstæður að þjónustan er að öllu leyti notuð hér á landi og þegar þjónustan er notuð bæði hér á landi og erlendis.

  Fjallað hefur verið um forsögu lagaákvæða sem hér um ræðir og almennt um skýringu þeirra í nokkrum úrskurðum yfirskattanefndar, m.a. úrskurði nr. 591/2012. Í þeim úrskurði varð niðurstaðan sú að ákveðin þjónusta, sem gjaldandi í því máli keypti erlendis frá, hefði verið fólgin í ráðgjöf um fjárfestingar og fjárfestingartækifæri erlendis. Yrði að líta svo á að sú þjónusta hefði a.m.k. að hluta verið notuð hér á landi við töku ákvarðana gjaldandans um þátttöku í einstökum verkefnum, þar á meðal um kaup eða sölu á eignarhlutum í erlendum félögum. Var talið að hér væri um að ræða þjónustu sem ákvæðið í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 50/1988 tæki til. Um tiltekna aðra þjónustu kom fram í úrskurðinum að ekki lægi annað fyrir en að hún hefði falið í sér ýmsa umsýslu í tengslum við fyrirliggjandi fjárfestingu viðkomandi gjaldanda erlendis, þ.e. eignarhluta í hlutafélögum, en ekki beinst að ráðgjöf um fjárfestingartækifæri. Var tekið fram að almennt þætti nærtækara að þjónusta af þessu tagi teldist hafa verið notuð eingöngu þar sem staðsetja mætti eignir eða aðra hagsmuni sem í hlut ættu, heldur en þegar um væri að ræða hugmyndavinnu eða ráðgjöf um verkefni sem ekki hefðu verið teknar ákvarðanir um. Rétt þykir að árétta, sem fram kemur í umræddum úrskurði, að sjónarmiðum í ýmsum ákvarðandi bréfum ríkisskattstjóra, þar á meðal bréfi nr. 893/1998, varðandi notkunarskilyrði 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988 verður ekki beitt fullum fetum við skýringu og framkvæmd 1. mgr. 35. gr. laga nr. 50/1988, enda grípur skattskylda samkvæmt því ákvæði einnig til þjónustu sem notuð er að hluta hér á landi, sbr. beint orðalag ákvæðisins.

  Byggt hefur verið á framangreindum sjónarmiðum í síðari úrskurðum yfirskattanefndar þar sem hliðstæð mál hafa verið til umfjöllunar, þar á meðal í úrskurðum nr. 128/2015, 159/2015, 19/2016 og 155/2016 sem allir eru birtir á vef nefndarinnar. Samkvæmt þessari úrskurðaframkvæmd hefur verið litið svo á að ráðgjafarþjónusta um fjárfestingar og fjárfestingartækifæri erlendis, sem hérlendir aðilar hafi aflað sér erlendis frá, verði að teljast hafa verið notuð a.m.k. að hluta hér á landi við töku ákvarðana kaupanda um þátttöku í einstökum verkefnum, þar á meðal um kaup eða sölu á eignarhlutum í erlendum félögum. Ekki hefur í þessu sambandi verið gerður greinarmunur á því hvort kaupandi þjónustunnar afræður að ráðast í fjárfestingu eða önnur umsvif eða hverfur frá slíkum áformum. Þá hefur ekki skipt máli hvort þjónustan hafi lotið að almennri könnun á fjárfestingarmöguleikum eða að einstökum viðskiptum. Ráðgjafarþjónusta erlendra aðila, sem telja verður hafa verið nýtta hérlendis, getur samkvæmt þessu beinst að viðskiptum í víðum skilningi og m.a. bæði að kaupum eða sölu eigna og öðrum erlendum hagsmunum kaupanda þjónustunnar. Getur þannig verið um að ræða ráðgjöf um kaup- eða sölumöguleika, könnun á aðstæðum (líklegs) viðsemjanda eða annan hliðstæðan undirbúning að ákvarðanatöku um viðskipti. Þjónustukaup erlendis frá vegna rekstrar, varðveislu eða viðhalds erlendra eigna eða hagsmuna hafa á hinn bóginn ekki talist vera til nota hér á landi í skilningi 1. mgr. 35. gr. laga nr. 50/1988, þar á meðal lögfræðiþjónusta í tengslum við dómsmál í þessu skyni, sbr. úrskurð nr. 128/2015. Má telja að þetta gildi almennt um ráðningu lögmanns eða annars sérfræðings til að koma fram í umboði þjónustukaupa vegna umsýslu erlendra eigna eða hagsmuna hans, m.a. við innheimtu krafna, enda feli þjónustan ekki jafnframt í sér ráðgjöf um viðskipti, sbr. að framan. Með sama fyrirvara verður að telja að afmarkaðir þjónustuþættir í tengslum við kaup eða sölu eða hliðstæða ráðstöfun eigna geti talist eingöngu nýttir erlendis, svo sem vinna við skjalagerð í þessu sambandi.

  Af hálfu kæranda er sem fyrr segir byggt á því að þjónusta Y hafi fallið utan skattskyldusviðs virðisaukaskatts, þ.e. verið undanþegin virðisaukaskatti á grundvelli 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, þannig að ekki hafi getað verið um að ræða skattskyld þjónustukaup samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laganna, sbr. 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. laganna, óháð notkunarstað. Eins og kærandi bendir á tekur upptalning þjónustu í 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, sem vísað er til í 1. mgr. 35. gr. laganna, eingöngu til skattskyldrar þjónustu samkvæmt meginreglu 2. mgr. 2. gr. laganna. Samkvæmt 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 er þjónusta banka, sparisjóða og annarra lánastofnana, svo og verðbréfamiðlun, undanþegin virðisaukaskatti. Í athugasemdum við ákvæði þetta í frumvarpi til virðisaukaskattslaga er tekið fram að undir ákvæðið falli einungis eiginleg banka- og lánastarfsemi. Ekki er í lögskýringargögnum að finna frekari skýringu á þessu undanþáguákvæði. Þá hefur ekki verið sett reglugerð um nánari skýringu á undanþáguákvæðinu eftir þeirri heimild sem getur í 7. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988. Í skattframkvæmd hefur ákvæðið verið túlkað þannig að starfsemi, sem er fyllilega sambærileg framangreindri starfsemi, falli undir ákvæðið, sbr. Handbók um virðisaukaskatt, útg. 1998, bls. 43-44. Telja verður að það leiði af framangreindri afmörkun um „eiginlega banka- og lánastarfsemi“ að undanþáguákvæðið taki ekki sjálfkrafa til hvers kyns þjónustu sem fjármálafyrirtæki kann að veita á grundvelli lagaheimilda hverju sinni, sbr. nú lög nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Til dæmis fer ekki á milli mála að eignaleiga lausafjár, sem fjármálafyrirtæki kann að hafa með höndum, er virðisaukaskattsskyld starfsemi. Viðhorf ríkisskattstjóra í þessum efnum liggur fyrir m.a. í ákvarðandi bréfi nr. 1095/2015. Hvað sem líður einstökum viðmiðunum, sem þar koma fram, má taka undir það meginviðhorf að gildissvið undanþágunnar verði ekki skýrt rýmra en svarar til leyfisskyldrar starfsemi viðskiptabanka og annarra fjármálafyrirtækja samkvæmt lögum nr. 161/2002. Hvað snertir ráðgjafarþjónustu af ýmsu tagi, þar á meðal fjármálalega ráðgjöf, er til þess að líta að um er að ræða virðisaukaskattsskylda þjónustu, svo sem ákvæði c-liðar 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988 ber með sér, sbr. og úrskurðaframkvæmd sem rakin er hér að framan, enda tekur ekkert undanþáguákvæði 3. mgr. 2. gr. laganna til slíkrar þjónustu sérstaklega. Allt að einu verður að telja að fjármálaleg ráðgjafarþjónusta, sem viðskiptabankar og aðrar lánastofnanir veita í nánum tengslum við venjulega innláns- og útlánaþjónustu, viðskipti með fjármálagerninga eða aðra hliðstæða fjármálaþjónustu, þ.e. sem viðbótar- eða aukaþjónustu gagnvart slíkri þjónustu, geti fallið undir undanþáguákvæði 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 á sama hátt og hin eiginlega banka- og lánastarfsemi (aðalþjónustan). Ráðgjafarþjónusta fjármálafyrirtækja sem veitt er án slíkra tengsla, þannig að þjónustan hafi sjálfstætt gildi fyrir kaupandann, verður á hinn bóginn að teljast falla utan undanþáguákvæðisins. Til hliðsjónar um þessi sjónarmið um aðal- og aukaþjónustu þykir mega vísa til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 230/2006, sbr. og dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 106/2008.

  Samkvæmt framansögðu verður undanþáguákvæði 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 ekki talið taka til annarrar ráðgjafarþjónustu fjármálastofnunar en sem stendur í tengslum við ávöxtun eigna, lánveitingar eða aðra hliðstæða bankaþjónustu. Ekki þykja hafa verið færð fyrir því rök af hálfu kæranda að þjónusta Y, sem samkvæmt fyrirliggjandi samkomulagi fólst einkum í skimun fjárfestingakosta, hafi staðið í sambandi við bankaþjónustu af fyrrgreindu tagi. Þykir ekkert komið fram sem gefur tilefni til að ætla að umrædd sérfræðiþjónusta verði talin eiginleg bankastarfsemi í skilningi 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988. Verður endurákvörðun ríkisskattstjóra ekki hnekkt á þeim grundvelli sem hér um ræðir.

  Úrskurðinn í heild sinni má finna í hlekknum hér að ofan.

 • Að færa innskatt vegna lögmannsþjónustu í fasteignaviðskiptum

  Úr úrskurði yfirskattanefndar nr. 60/2017:

  Kæra í máli þessu varðar höfnun ríkisskattstjóra á færslu innskatts að fjárhæð 3.062.844 kr. vegna aðkeyptrar þjónustu samkvæmt reikningi frá lögfræðistofunni X ehf. Byggði ríkisskattstjóri á því að ekki væri um að ræða virðisaukaskatt af aðföngum vegna virðisaukaskattsskyldrar starfsemi kæranda, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Samkvæmt texta reikningsins er um að ræða samningsbundna þóknun vegna vinnu við kaup á jörðinni B. Er komið fram af hálfu kæranda að félagið hafi keypt jörðina til nota í virðisaukaskattsskyldri starfsemi þar sem fyrirhugað sé að byggja upp ferðaþjónustu á jörðinni. Er ákvörðun ríkisskattstjóra mótmælt á þeim forsendum. Fyrir liggur að í framhaldi af kaupum kæranda á jörðinni neytti íslenska ríkið forkaupsréttar að henni og … mun sýslumaður hafa gefið út afsal fyrir jörðinni ríkissjóði til handa. Kemur fram í kæru til yfirskattanefndar að rekið sé ágreiningsmál fyrir dómstólum um lögmæti þeirra ráðstafana … Krafðist kærandi úrlausnar héraðsdóms um þennan ágreining á grundvelli XIII. kafla laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu o.fl., en með úrskurði héraðsdóms … var málinu vísað frá dómi þar sem talið var að kærandi gæti ekki leitað úrlausnar héraðsdóms um kröfur sínar eftir ákvæðum fyrrgreindra laga. Var sú niðurstaða staðfest með dómi Hæstaréttar Íslands …

  Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988 skal telja til innskatts á hverju uppgjörstímabili virðisaukaskatt af aðkeyptum rekstrarfjármunum, vörum, vinnu, þjónustu og öðrum aðföngum sem eingöngu varða sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu. Kemur fram í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi því er varð að lögum nr. 50/1988, að eftir því væri t.d. óheimill frádráttur innskatts sem varðar byggingu sem aðeins að hluta sé notuð í skattskyldri starfsemi fyrirtækis.

  Fasteign telst ekki vara í skilningi laga nr. 50/1988, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna, og eru viðskipti með fasteignir því ekki skattskyld samkvæmt lögunum. Samkvæmt 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna er fasteignaleiga undanþegin virðisaukaskatti. Ekki er í tiltækum lögskýringargögnum að finna sérstaka skýringu á undanþáguákvæði þessu né skilgreiningu á hugtakinu fasteignaleigu í skilningi þess. Þá hefur ekki verið sett reglugerð um nánari skýringu á undanþáguákvæðinu eftir þeirri heimild sem getur í lokamálsgrein 2. gr. laga nr. 50/1988. Í skatt- og úrskurðaframkvæmd hefur undanþáguákvæðið verið skýrt þannig að það geti í vissum tilvikum tekið til leigu fasteignatengdra réttinda, sbr. til hliðsjónar úrskurð yfirskattanefndar nr. 1022/1998. Hliðstætt verður talið gilda um sölu eða annað afsal réttinda af því tagi.

  Eins og fram er komið féll sá virðisaukaskattur, sem um er deilt í málinu, til í tengslum við kaup fasteignar, þ.e. jarðarinnar B, og hefur ekki annað komið fram af hálfu kæranda en að hin aðkeypta lögmannsþjónusta hafi að öllu leyti stafað vegna greindra viðskipta. Er því ekki um að ræða virðisaukaskatt af aðföngum sem eingöngu varða sölu vöru eða skattskyldrar þjónustu í skilningi virðisaukaskattslaga, sbr. áskilnað 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, sbr. einnig 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, enda tekur skattskyldusvið laga nr. 50/1988 ekki til fasteigna, svo sem rakið er að framan. Getur engu breytt um þetta þótt kærandi hafi ráðgert að reka virðisaukaskattsskylda starfsemi á jörðinni, þ.e. ferðaþjónustu. Má í þessu sambandi og til hliðsjónar vísa til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 35/2014.

  Með vísan til framangreinds er kröfu kæranda um frádrátt virðisaukaskatts hafnað. Samkvæmt þeim úrslitum málsins verður ennfremur að hafna kröfu kæranda um að félaginu verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum.

   

  Gera verður athugasemdir við framsetningu ríkisskattstjóra í hinum kærða úrskurði. Eins og áður greinir ber úrskurður ríkisskattstjóra yfirskriftina „Úrskurður um endurákvörðun virðisaukaskatts“ þrátt fyrir að um sé að ræða kæruúrskurð samkvæmt 3. mgr., sbr. 1. mgr. 29. gr. laga nr. 50/1988. Þá kemur ítrekað ranglega fram í úrskurðinum að um sé að ræða endurákvörðun virðisaukaskatts kæranda uppgjörstímabilið janúar-febrúar 2017. Ekki þykir þó ástæða til að ómerkja kæruúrskurð ríkisskattstjóra af þessum sökum, enda verður hvorki talið að greindir ágallar á úrskurðinum hafi valdið kæranda réttarspjöllum né verður séð að þeir haft áhrif á efni ákvörðunar ríkisskattstjóra.

   

 • Raunveruleikaregla skattaréttar - endurgreiðsla fjármagnstekjuskatts

  Úr forsendum héraðsdóms:

  "Kröfur stefnenda eru á því reistar að ríkisskattstjóra hafi verið skylt að verða við beiðni þeirra um endurupptöku og leiðréttingu á því að leggja bæri á þau fjármagnstekjuskatt gjaldárið 2006 í ljósi þeirrar afstöðu skattyfirvalda að líta bæri á Ingimund hf. sem raunverulegan seljanda fiskiskipsins Helgu RE 49, ásamt veiðarfærum og fiskveiðiheimildum, og að söluhagnaðurinn skyldi færður til tekna hjá félaginu. Stefnendur krefjast þess annars vegar að ákvarðanir ríkisskattstjóra frá 12. ágúst 2013 um að hafna beiðni þeirra þar að lútandi verði felldar úr gildi. Hins vegar krefjast þeir endurgreiðslu þess fjármagnstekjuskatts sem þau inntu af hendi á árinu 2006 vegna tekna af sölu hlutabréfa í Fjarðarey ehf., en sú krafa er reist á lögum nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.

  [...]

  Í skattframtölum stefnenda vegna tekjuársins 2005 voru taldar fram tekjur sem áttu rætur að rekja til hagnaðar af sölu hlutabréfa í Fjarðarey ehf., eins og rakið er í kafla II. Samkvæmt dómi Hæstaréttar frá 12. nóvember 2015 tóku skiptin á Ingimundi hf. ekki gildi fyrr en hluthafafundur í Fjarðarey ehf. hafði samþykkt skiptinguna fyrir sitt leyti 26. september 2005. Þá höfðu stefnendur þegar ráðstafað eignarhlutum sínum í Fjarðarey ehf. með kaupsamningi 27. maí 2005. Þau fengu því aldrei hlutabréf í því félagi í sínar hendur nema að nafninu til og ekki var fullnægt svonefndu gagngjaldsskilyrði 1. mgr. 52. gr. laga nr. 90/2003. Í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar segir að líta verði svo á að með kaupsamningi um hlutafé í hinu óstofnaða félagi, Fjarðarey ehf., frá 27. maí 2005 hafi í reynd verið ráðstafað eignum og réttindum í eigu Ingimundar hf. til kaupenda hlutanna í hinu óstofnaða félagi, enda voru þeir orðnir hluthafar í því þegar eignirnar og réttindin runnu til þess frá Ingimundi hf. Af þessum sökum var skattyfirvöldum rétt með vísan til 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003 að ákveða að kaupverð samkvæmt samningnum skyldi fært til tekna hjá Ingimundi hf. að öðrum skilyrðum endurálagningar fullnægðum.

  Hér reynir á hvort þessi niðurstaða gefi tilefni til þess að fella niður álagningu fyrrgreinds fjármagnstekjuskatts er byggðist á því að stefnendur hefðu selt hlutabréf sín í Fjarðarey ehf. gegn umsömdu endurgjaldi. Þó að leiða megi af framangreindum dómi Hæstaréttar Íslands að tekjur af sölu umræddra eigna og réttinda Ingimundar hf. hefðu með réttu átt að falla félaginu í skaut, en ekki stefnendum, verður ekki fram hjá því litið að þeim fjármunum, sem komu fyrir þessi verðmæti, var ráðstafað til stefnanda 16. ágúst 2005, eins og gögn málsins bera með sér, og voru þeim til frjálsrar ráðstöfunar eftir það. Í því ljósi var ríkisskattstjóra rétt að líta svo á að fjármunir er svöruðu til hagnaðar af sölu umræddra verðmæta hefðu runnið til stefnenda og væru því tekjur af hlutareign þeirra í Ingimundi hf. í samræmi við 11. gr. laga nr. 90/2003 sem eru skattskyldar samkvæmt 7. gr. sömu laga. Ekki er fallist á að um óheimila tvísköttun hafi verið að ræða enda getur fjármunum, er svara til söluhagnaðar af eignum hlutafélags og félagið greiðir tekjuskatt af, verið úthlutað til hlutareigenda sem teljast þá skattskyldar tekjur hans í samræmi við fyrrgreint ákvæði laga nr. 90/2003 og 4. tölulið c-liðar 7. gr. laganna. Þá fær dómurinn ekki séð að sú ákvörðun að ráðstafa þessum tekjum til kaupa á hlutafé í Ingimundi hf. af félaginu sjálfu, eins og skattframtal stefnanda, Ármanns Ármannssonar, ber með sér að hann hafi gert, breyti því að honum bar skylda til að greiða skatt af þeim.

  Samkvæmt framansögðu hafa stefnendur ekki sýnt fram á að sú breyting skattyfirvalda, að færa hagnað af sölu eigna og réttinda Ingimundar hf. samkvæmt kaupsamningi 27. maí 2005 félaginu til tekna, leiði lögum samkvæmt til þess að fella beri niður skattálagningu sem reist var á tekjum stefnenda af sölu hlutabréfa í Fjarðarey ehf. Sú niðurstaða, sem reist er á almennum og efnislegum mælikvarða 11. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 7. gr. sömu laga, er gilda um hvers konar úthlutun verðmæta úr hlutafélögum, felur ekki í sér óheimila eignaskerðingu samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Þá er sú niðurstaða heldur ekki andstæð atvinnufrelsisákvæði 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar, enda helgast hún af lögmætri álagningu skatts af tekjum stefnenda. Því verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnenda."

   

 • Refsiábyrgð fyrirsvarsmanna lögaðila - gáleysiskröfur skattalaga

  Úr úrskurði yfirskattanefndar nr. 46/2018:

  "Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, er refsivert ef skattskyldur maður afhendir eigi á lögmæltum tíma virðisaukaskattsskýrslu eða virðisaukaskatt sem hann hefur innheimt eða honum borið að innheimta. Í 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995, er með samsvarandi hætti lýst refsivert ef launagreiðandi innir ekki af hendi þær greiðslur vegna launamanna sem hann hefur haldið eftir eða honum borið að halda eftir. Samkvæmt fortakslausum ákvæðum nefndra laga og með stoð í dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands, sbr. m.a. dóma Hæstaréttar 27. febrúar 1997 (H 1997:789), 25. september 1997 (H 1997:2446), 14. janúar 1999 (H 1999:79), 18. febrúar 1999 (H 1999:544 og 550), 10. júní 1999 (H 1999:2645) og 30. mars 2000 (H 2000:1422), geta fyrirsvarsmenn lögaðila unnið til refsingar með því einu að láta ógert að skila umræddum gjöldum í ríkissjóð á tilskildum tíma, enda sé huglægum refsiskilyrðum fullnægt.

   

  Gjaldandi, A, var stjórnarmaður og prókúruhafi X ehf. allan þann tíma sem málið varðar og framkvæmdastjóri félagsins frá 12. mars 2015. Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins kom fram af hálfu gjaldanda að hann hefði séð um fjármál félagsins og haft með höndum skil á staðgreiðslu opinberra gjalda félagsins og innheimtum virðisaukaskatti þess. Við skýrslutöku af C hinn 8. september 2016 sagði hann að A og B hefðu séð um fjármál félagsins í sameiningu. Við skýrslutöku af B hinn 8. september 2016 kom fram að A hefði séð um daglegan rekstur X ehf. Að virtum framburðum gjaldanda, C og B hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins, sem að framan eru raktir, og með hliðsjón af gögnum málsins að öðru leyti þykir í ljós leitt að gjaldandi, A, hafi haft með höndum daglega stjórn X ehf. allan þann tíma sem málið tekur til. Samkvæmt því verður talið að gjaldandi hafi borið ábyrgð á skilum staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts X ehf. á þeim tíma sem hér um ræðir og er sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins því réttilega beint að gjaldanda.

   

  Sektarkrafa á hendur gjaldanda, B, er byggð á því að hann hafi sem stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi X ehf. borið ábyrgð á skilum staðgreiðslu opinberra gjalda greiðslutímabilin janúar til og með ágúst og nóvember og desember 2014 og skilum virðisaukaskatts félagsins uppgjörstímabilin nóvember-desember 2013 og mars-apríl og maí-júní 2014. Gjaldandi var skráður stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi X ehf. frá 27. janúar 2014 til 16. janúar 2015. Sem skráðum framkvæmdastjóra og stjórnarmanni X ehf. bar gjaldanda að afla sér vitneskju um rekstur félagsins, þar á meðal um það hvort það stæði í skilum með greiðslu staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts, svo og að annast um að starfsemi félagins væri jafnan í réttu og góðu horfi, sbr. 44. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Vísast um þetta m.a. til dóms Hæstaréttar Íslands 25. september 1997 (H 1997:2446). Sé misbrestur á því að fyrirsvarsmaður fyrirtækis sinni ábyrgðarskyldu sinni kann sú vanræksla að baka honum refsiábyrgð, enda sé honum kunnugt um refsiverð brot í tengslum við rekstur fyrirtækisins eða hann hefur að öðru leyti sýnt af sér saknæman eftirlitsskort. Við skýrslutöku af gjaldanda hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins hinn 8. september 2016 sagði gjaldandi að hann hefði ekkert komið að fjármálum X ehf. þann tíma sem málið varðar. Er þetta viðhorf gjaldanda ítrekað í vörn hans til yfirskattanefndar. Við skýrslutöku af C 8. september 2016 sagði C að B og A hefðu séð um fjármál X ehf. í sameiningu. Við skýrslutöku af A hinn 9. september 2016 sagðist A hafa séð um fjármál félagsins, en sagði að gjaldandi, B, hefði verið upplýstur um bága fjármálastöðu félagsins frá upphafi. Sagði A að þegar hann hefði fyrst fengið senda bréflega tilkynningu um vanskil á sköttum hefði hann farið með bréfið til gjaldanda, B. Þá kom fram við skýrslutökuna að rekja mætti vanskil félagsins á staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatti til vanefnda Y ehf., félags B o.fl., gagnvart X ehf., en Y ehf. hefði skuldað X ehf. um 7 milljónir króna. Sagði A að gert hefði verið greiðsluplan um að Y ehf. greiddi X ehf. 500.000 kr. á viku og að borist hefðu tvær greiðslur sem hann hafi farið með beint í skattinn. Við skýrslutöku af gjaldanda, B, staðfesti hann að gert hefði verið samkomulag um greiðslur frá Y ehf. til X ehf. og sagði gjaldandi að hann hefði viljað að greiðslunum yrði ráðstafað upp í vangoldna staðgreiðslu. Þá kom einnig fram að gjaldandi hefði verið „á haus“ í rekstri Y ehf. og því ekki fylgt þessu eftir. Samkvæmt framansögðu er fram komið í málinu að gjaldandi, B, hafi verið upplýstur og meðvitaður um fjárhagsstöðu X ehf. og vanskil á sköttum a.m.k. frá árinu 2013, en gjaldandi staðfesti við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra að A hefði greint honum frá því á árinu 2013 að samið hefði verið við innheimtumann ríkissjóðs á því ári um greiðslur vegna vangoldinnar staðgreiðslu. Þá hefur ekki verið vefengt af hálfu gjaldanda, B, að vanskil X ehf. á staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatti megi að einhverju leyti rekja til vanefnda Y ehf., félags B o.fl., við X ehf., en samkvæmt hreyfingalista bókhalds nam skuld Y ehf. við X ehf. 7.103.287 kr. í upphafi árs 2014 og 3.365.187 kr. í lok árs 2014 áður en skuldin er færð niður í 0 kr. með skýringunni „Y selur hlut sinn“, sbr. fskj. 13.29-13.31 með skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Að því er varðar viðbáru gjaldanda um að hann hafi viljað að greiðslum Y ehf. yrði ráðstafað upp í vangoldna staðgreiðslu verður að telja í þessu sambandi að staðið hafi gjaldanda næst sem framkvæmdastjóra, stjórnarmanni og prókúruhafa X ehf. að sjá til þess að greiðslum frá Y ehf. til X ehf. yrði ráðstafað til greiðslu vangoldinnar staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts síðarnefnda félagsins, enda gjaldandi í því tilviki beggja vegna borðsins. Að þessu virtu verður að telja að gjaldandi hafi af stórkostlegu gáleysi vanrækt eftirlitsskyldu sína og verður því að telja hann bera refsiábyrgð samkvæmt þeim ákvæðum laga nr. 45/1987 og laga nr. 50/1988 er fyrr greinir vegna þeirra misbresta sem voru á skattskilum félagsins á þeim tíma sem sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins á hendur honum tekur til. Vegna skírskotunar umboðsmanns gjaldanda í bréfi, dags. 7. febrúar 2018, til dóma Hæstaréttar Íslands frá 27. október 2016 í máli nr. 321/2015 og frá 16. febrúar 2017 í máli nr. 777/2015 er rétt að rekja að í báðum þessum málum var skráður fyrirsvarsmaður einkahlutafélags sýknaður af ákæru um brot á skattalögum í rekstri viðkomandi félags með því að sannast hefði að viðkomandi einstaklingur hefði ekkert komið að og ekki haft neina vitneskju um fjármál einkahlutafélagsins heldur aðeins verið skráður fyrirsvarsmaður til málamynda. Voru atvik í málum þessum því ekki sambærileg atvikum í máli gjaldanda.

   

  Gjaldandi, C, var skráður stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi X ehf. frá 16. janúar 2015 til og með 12. mars 2015. Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins hinn 8. september 2016 kvaðst gjaldandi sem fyrr segir ekki hafa komið að daglegum rekstri og fjármálum félagsins. Hann hefði aðeins starfað við smíðar hjá félaginu. Hið sama kom fram við skýrslutöku af A hinn 9. september 2016, en A sagði við skýrslutökuna að gjaldandi, C, hefði bara viljað hanna og smíða og ekki skipta sér af peningahliðinni. Hefði það verið sameiginleg ákvörðun þeirra að hafa þetta svona. Þá hefði gjaldandi, C, ekki verið upplýstur um skuldastöðuna og hefði A tjáð honum að hann væri búinn að standa skil á skattinum. Við skýrslutöku af B hinn 8. september 2016 kom fram að A hefði stýrt fjármálum félagsins á rannsóknartímanum. Sem skráðum framkvæmdastjóra og stjórnarmanni X ehf. bar gjaldanda, C, að afla sér vitneskju um rekstur félagsins, þar á meðal um það hvort það stæði í skilum með greiðslu staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts, svo og að annast um að starfsemi félagins væri jafnan í réttu og góðu horfi, sbr. 44. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Vísast um þetta m.a. til dóms Hæstaréttar Íslands 25. september 1997 (H 1997:2446). Sé misbrestur á því að fyrirsvarsmaður fyrirtækis sinni ábyrgðarskyldu sinni, kann sú vanræksla að baka honum refsiábyrgð, enda sé honum kunnugt um refsiverð brot í tengslum við rekstur fyrirtækisins eða hann hefur að öðru leyti sýnt af sér saknæman eftirlitsskort. Með hliðsjón af framburði gjaldenda við skýrslutökur hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins þykir mega slá því föstu að gjaldandi, C, hafi ekki komið að fjármálum X ehf. á rannsóknartímabilinu. Hefur verið leitt í ljós að A hafði með höndum stjórn fjármála X ehf. og daglegan rekstur þann tíma sem sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins á hendur gjaldanda, C, tekur til. Þótt telja megi ljóst að gjaldandi, C, kunni að hafa sýnt af sér nokkurt gáleysi vegna skorts á eftirliti með rekstrinum, verður að telja ósannað, með hliðsjón af dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands, sbr. dóma Hæstaréttar frá 31. maí 2007 í máli nr. 392/2006, 12. desember 2013 í máli nr. 354/2013, 23. janúar 2014 í máli nr. 388/2013, 30. október 2014 í máli nr. 295/2014 og 27. október 2016 í máli nr. 321/2015, að hann hafi uppfyllt þær auknu gáleysiskröfur sem lög um staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskattslög gera vegna refsiverðra brota gegn lögunum. Samkvæmt þessu verður ekki talið að gjaldandi, C, beri refsiábyrgð á því að vanhöld hafi orðið á skilum skilagreina staðgreiðslu og virðisaukaskattsskýrslna og gjöldum samkvæmt þeim. Verður honum ekki gerð sekt í máli þessu."

 • Viðauki við framsalssamning - forkaupsréttur

  Úr dómi Hæstaréttar í máli nr. 796/2016:

  Helsta eign APP ehf. var dótturfélag þess, AP AB, sem í gegnum annað félag átti 30% hlut í móðurfélagi rekstrarfélaga um lyfjaverksmiðju í Bandaríkjunum. Deila aðila um efni áðurgreinds viðauka við framsalssamninginn fólst í því hvort viðaukinn hefði falið í sér framsal 96% hlutafjár C í APP ehf. til B þannig að stofnast hefði til forkaupsréttar A á grundvelli samþykkta APP ehf. Samkvæmt 7. gr. samþykktana skyldu eigandaskipti að hlutum í félaginu ekki öðlast gildi gagnvart því fyrr en stjórn þess hefði verið tilkynnt um það skriflega eða þau verið færð í gerðabók. Þá hefði stjórn forkaupsrétt fyrir félagsins hönd að fölum hlutum, en að því frágengnu hefðu hluthafar forkaupsrétt í hlutfalli við hlutafjáreign sína.

   

  A höfðaði málið til heimtu skaðabóta úr hendi B, C og D og reisti málshöfðun sína á því að stefndu hefðu með saknæmum og ólögmætum hætti valdið honum sem hluthafa APP ehf. tjóni, þegar þeir sem stjórnarmenn í félaginu, seldu helstu eign þess, alla hluti í dótturfélaginu AP AB, til AP ehf., félags í eigu stefnda B, án þess að viðhlítandi endurgjald kæmi fyrir og án þess að halda hluthafafund um málið.

   

  Við úrlausn málsins lagði Hæstiréttur til grundvallar yfirmatsgerð sem hafði verið aflað fyrir héraðsdómi og hafði ekki verið hnekkt. Hæstiréttur rakti forsendur héraðsdóms, en þar kom fram að það var samdóma álit undirmats- og yfirmatsgerða að virði greiðslu sem AP ehf. átti að inna af hendi fyrir hlutina í AP AB hafi verið um kr. 1.500.000.- en í yfirmatsgerð kom fram að verðmæti alls hlutafjár í AP AB hafi numið um 15.100.000 USD,- eða um kr. 1.680.000.000.- Því var staðfest sú niðurstaða héraðsdóm, með vísan til forsendna hans, að eignarhlutir APP ehf. í AP AB hafi við söluna til AP ehf. verið seldir á undirverði. Salan var því B, C og D sem stjórnarmönnum í félaginu bæði ólögmæt og saknæm. Þá var jafnframt miðað við það að A hefði fyrst fengið áreiðanlega vitneskju um viðauka við framsalssamninginn þegar hann var lagður fram í vitnamáli í Héraðsdómi Reykjavíkur í ágúst 2011, rösklega tveimur árum eftir gerð hans. Því hefði A ekki fyrirgert forkaupsrétti sínum með tómlæti. B, C og D var því gert að greiða A skaðabætur að fjárhæð kr. 640.089.000,- fyrir að hafa með saknæmri og ólögmætri háttsemi staðið því í vegi að A fengi notið réttinda sinna sem hluthafi í APP ehf. en fjárhæðin er sú sem A hefði á grundvelli þriðjungs eignahlutar í APP ehf. mátt vænta að fá við sölu á hlut sínum í félaginu á umræddu tímamarki. 

 • Gildi kaupsamnings - prókúruumboð og umboð til mikils háttar ráðstafana

  Úr dómi Hæstaréttar í máli nr. 65/2017:

  S var framkvæmdastjóri kaupanda, B ehf., og hafði undirritað kaupsamning um fiskiskip fyrir hönd B ehf. Samkvæmt hlutafélagaskrá sat GS, sonur S, einn í stjórn félagsins, en S framkvæmdastjóri þess. Kaupsamningurinn var ekki undirritaður af GS og lá ekkert fyrir um það að stjórnarmaður B ehf. hefði veitt framkvæmdastjóranum umboð til að skrifa undir kaupsamninginn í nafni félagsins.

   

  Í dómi Hæstaréttar voru rakin ákvæði laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, og var þar sérstaklega fjallað um 44. gr. þeirra laga. Sagði að samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laganna færi stjórn einkahlutafélags með málefni þess, komi fram út á við fyrir hönd félagsins og riti firma þess en megi jafnframt veita m.a. framkvæmdastjórum heimild til að rita firmað sé ekki kveðið á um annað í samþykktum félags. Samkvæmt 4. mgr. 44. gr. laganna geti stjórn ein veitt prókúruumboð fyrir félag. Þá sagði að samkvæmt 2. mgr. 41. gr. laganna skuli framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur samkvæmt stefnu og fyrirmælum stjórnar, en daglegur rekstur taki ekki til óvenjulegra eða mikils háttar ráðstafana, þær geti framkvæmdarstjóri aðeins framkvæmt eftir sérstakri heimild stjórnar.

   

  Stjórn B ehf. hafði veitt S, framkvæmdastjóra félagsins, prókúruumboð fyrir félagið. Samkvæmt 25. gr. laga nr. 42/1903 um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð, getur prókúruhafi annast allt er snertir rekstur atvinnu umbjóðanda síns. Við mat á þessu leit Hæstiréttur til skráðs tilgangs félagsins B ehf., sem var samkvæmt samþykktum þess: ,, smábátaútgerð og tengdur rekstur, rekstur fasteigna og lánastarfsemi." Að því virtu gætu kaup á skipi ekki fallið undir rekstur atvinnu í skilningi 25. gr. laga nr. 42/1903 um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð.

   

  Þá voru engin gögn lögð fram um að stjórnarmaður B ehf. hefði falið framkvæmdastjóranum að gera umrædda ráðstöfun sem fólst í undirritun kaupsamnings um fiskiskip eða veitt honum fyrir fram eða eftir á umboð til þessa. Með því að framkvæmdastjórinn átti hvorki sæti í stjórn félagsins eða né hafði sérstaka heimild til að rita firma félagsins var hann ekki til þess bær samkvæmt ákvæðum laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, að gera umrædd kaup í nafni félagsins, enda félli sú ráðstöfun ekki innan marka daglegs reksturs í skilningi 2. mgr. 44. gr. sömu laga.

   

  Framkvæmdastjóri S gat því ekki skuldbundið B ehf. með því að undirrita kaupsamning um fiskiskip og var B ehf. því sýknað af kröfum seljanda, H ehf.

   

 • Stimpilgjald - hlutaskipting félags

   

  Nánar um úrskurð yfirskattanefndar nr. 42/2018:

  Málavextir voru þeir að einkahlutafélaginu B ehf. var skipt með þeim hætti að A ehf. (kærandi í málinu) yfirtók hluta af eignum B ehf., nánar tilekið tvær fasteignir. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu ákvarðaði A ehf. stimpilgjald til greiðslu við þinglýsingu skjals er laut að afsali fasteignanna til A ehf. frá B ehf.

   

  Þeirri ákvörðun vildi A ehf. ekki una og kærði hana til yfirskattanefndar. Í kæru vísaði A ehf. til ákvæðis 1. mgr. 3. gr. laga nr. 138/2013, um stimpilgjald. Í fyrri málslið þess ákvæðis er kveðið á um stimpilgjaldsskyldu af skjölum er varða eignayfirfærslu fasteigna hér á landi. Í síðari málslið þess ákvæðis er á hinn bóginn kveðið á um að fyrri málsliðurinn eigi ekki við þegar nafnbreyting verður á eiganda fasteignar í kjölfar félagaréttarlegs samruna, breytingar einkahlutafélags í hlutafélag eða skiptingar.

   

  Í umsögn sinni til yfirskattanefndar í tilefni af kærunni tiltók sýslumaður það mat sitt að eignayfirfærslan félli ekki undir framangreint undanþáguákvæði. Vísaði hann til þess að í athugasemdum með frumvarpi kæmi hvergi fram að undir undanþáguna félli eignatilfærsla þegar hluti eigna væri færður yfir í annað félag, þótt slíkt væri heimilt samkvæmt tilteknum ákvæðum laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, og laga nr. 2/1995, um hlutafélög. Taldi sýslumaður að með skiptingu félaga í stimpilgjaldslögum væri átt við að allar eignir félags kæmu til skipta eða að stofnað væri sérstaklega nýtt félag sem tæki við ákveðnum eignum.

   

  Yfirskattanefnd benti á að umrætt undanþáguákvæði hafi verið tekið upp í lög um stimpilgjald með 38. gr. laga nr. 125/2015. Hvorki í lagaákvæðinu sjálfu, né í lögskýringargögnum með því, væri gerður greinarmunur á hlutaskiptingu af umræddum toga og fullri skiptingu, þ.e. skiptingu þar sem fleiri en eitt félag tækju við öllum eignum og skuldum hins skipta félags. Þá taldi yfirskattanefnd að sú lagatúlkun, að ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 138/2013, um stimpilgjald, eigi almennt við um lögmæta skiptingu félaga, væri frekast í samræmi við þau sjónarmið sem fram kæmu í dómi Hæstaréttar í máli nr. 306/2004. Féllst yfirskattanefnd á það með kæranda að afsal vegna umræddra fasteigna væri undanþegið gjaldskyldu til stimpilgjalds.

   

 • Ábyrgðarþóknun - söluverð fasteignar

  Nánar um úrskurð yfirskattanefndar nr. 40/2018

  Ríkisskattstjóri (RSK) endurákvarðaði opinber gjöld manns (kæranda) á grundvelli skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins (SRS) á skattskilum mannsins. Maðurinn var meirihlutaeigandi í X ehf. og jafnframt framkvæmdastjóri og stjórnarmaður félagsins. RSK taldi ýmsar greiðslur X ehf. til mannsins falla undir það að vera óheimilar úthlutanir fjár úr félaginu og skattlagði þær sem laun mannsins.

   

  Í bókhaldi X ehf. var tiltekin fjárhæð færð til gjalda og til lækkunar á skuld kæranda við félagið, sem þóknun til kæranda fyrir að hann hafði gengist í sjálfsskuldarábyrgð á skuldum félagsins. Fjárhæðina hafði kærandi ekki talið sér til tekna í skattframtali. Að mati SRS var um að ræða óheimila úttekt kæranda úr einkahlutafélagi sínu. Til þess mats vísaði RSK í úrskurði sínum og tiltók að ekki hefði með gögnum verið sýnt fram á að kærandi hefði persónulega innt af hendi greiðslur vegna ábyrgða á skuldum X ehf. og því yrði ekki á það fallist að um endurgreiðslu slíkrar greiðslu væri að ræða. Yfirskattanefnd benti á að ekki væri vefengt að kærandi hefði tekist á hendur ábyrgð á skuldum félagsins og því ekki útilokað að um ábyrgðarþóknun væri að ræða, óháð því hvort ábyrgð hefði fallið á kæranda. Yfirskattanefnd hnekkti ákvörðun RSK um að færa umrædda fjárhæð til launa, en færði hana þess í stað til fjármagnstekna kæranda.

   

  Kærandi hafði keypt tvær fasteignir af X ehf. á verði sem SRS og RSK töldu vera óeðlilega lágt verð og horfðu í þeim efnum til fasteignamatsverðs eignanna á söludegi. RSK færði mismun fasteignamatsverðs og lægra umsamins kaupverðs til skattskyldra launatekna kæranda. Yfirskattanefnd staðfesti ákvörðun RSK hvað önnur viðskiptin varðaði, en taldi slíka annmarka vera á rökstuðningi RSK varðandi hin viðskiptin að fella bæri ákvörðun hans úr gildi. Undir rekstri málsins, bæði fyrir SRS og RSK, hafði kærandi bent á að X ehf. hefði keypt húsið fáum árum fyrr af óskyldum þriðja aðila á verði langt undir fasteignamatsverði og að matsverðið hefði síðan lækkað, enda húsið í algjörri niðurníðslu og til hefði staðið að rífa það. Yfirskattanefnd taldi að óhjákvæmilegt hefði verið að hyggja nánar að ástandi eignarinnar en SRS og RSK gerðu. Tiltók yfirskattanefnd að þótt fasteignamatsverð væri tækt til viðmiðunar um matsverð skv. 2. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, gæti það ekki sjálfkrafa gilt sem matsverð samkvæmt ákvæðinu, enda bæri skattyfirvöldum að ákvarða matsverð sjálfstætt. 

 • Hlutabréfaeign - atvinnurekstur

  Úr úrskurði yfirskattanefndar nr. 197/2017:

  Hvorki í lögum nr. 90/2003 né annars staðar í skattalöggjöfinni er að finna sérstaka skilgreiningu á atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, að undanskilinni reglu 2. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003 um að útleiga manns á íbúðarhúsnæði teljist ekki til atvinnurekstrar eða sjálfstæðrar starfsemi nema því aðeins að heildarfyrningargrunnur slíks húsnæðis í eigu hans nái tilteknu lágmarki, og lögmæltum viðmiðunum varðandi skráningu virðisaukaskattsskyldra aðila í 5. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 1. gr. laga nr. 40/1995. Við ákvörðun þess hvort um atvinnurekstur er að ræða hefur í úrskurðaframkvæmd einkum verið horft til þess hvort um sjálfstæða starfsemi er að ræða sem rekin er reglubundið og í nokkru umfangi í þeim efnahagslega tilgangi að skila hagnaði. Nokkur þeirra atriða, sem þannig er horft til við mat á því hvort um atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi er að ræða, eru hlutræn að því leyti að ekki þarf að kanna viðhorf viðkomandi skattaðila. Á þetta við um þá þætti sem snerta það hvort starfsemi sé sjálfstæð, reglubundin og hvert umfang hennar er. Hins vegar skipta viðhorf skattaðilans máli varðandi það atriði hvort starfsemi sé rekin í hagnaðarskyni, jafnframt því að hinir hlutrænu þættir hafa þýðingu við ákvörðun slíks tilgangs. Samkvæmt rekstrarframtali (RSK 1.04) er fylgdi skattframtali kæranda árið 2015 námu eignir samtals 641.267.975 kr. og skuldir samtals 1.539.352.621 kr. Var tilfært eigið fé neikvætt um 898.084.646 kr. Þá var tilgreint að tap ársins samkvæmt ársreikningi hefði numið 44.488.023 kr. Gerð var grein fyrir gjöldum að fjárhæð 739.195 kr. vegna ýmissar aðkeyptrar þjónustu innanlands, en engar tekjur tilfærðar. Ekki var gerð grein fyrir reiknuðu endurgjaldi vegna vinnu kæranda við starfsemina, sbr. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. og 58. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt skattframtalinu átti kærandi ekki í neinum viðskiptum með hlutabréf á árinu 2014.

   

  Hér að framan er gerð grein fyrir þeim atriðum sem í úrskurðaframkvæmd hefur verið horft til við mat á því hvort um atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi er að ræða. Samkvæmt því sem fram er komið keypti kærandi hvorki né seldi nein hlutabréf á árinu 2014 og er því ljóst að ekki var fyrir að fara neinni reglubundinni starfsemi á sviði hlutabréfaviðskipta, sbr. fyrrgreinda skilgreiningu á atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Af málatilbúnaði kæranda má ráða að einkum sé byggt á því að umfang hlutabréfaeignar kæranda í X hf. hafi verið slíkt með tilliti til fjárhæða og skuldsetningar vegna hennar að líta beri svo á að um atvinnurekstur hans sé að ræða. Hvað þetta varðar er rétt að taka fram að í tilviki kæranda er um að ræða eignarhald að hlutabréfum í hlutafélagi sem kærandi virðist hafa átt hlut í frá árinu 2000, þ.e. frá stofnári félagsins, þótt þeirra muni ekki hafa verið getið í skattskilum kæranda fyrr en á árinu 2005. Þá verður ekki litið framhjá því að kærandi hefur frá öndverðu hagað skattskilum sínum miðað við að um fjárfestingu utan rekstrar hafi verið að ræða eða allt til framtalsskila á árinu 2014, sbr. og erindi kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 18. júní 2014. Hefur ekkert komið fram í málinu sem hnekkir því mati ríkisskattstjóra að ekki verði litið á ráðstafanir kæranda varðandi umrædda hlutafjáreign í X hf. sem atvinnurekstur hans í skattalegu tilliti, sbr. og umfjöllun hér að framan um þau atriði sem horft er til við mat á því hvort um atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi er að ræða. Samkvæmt þessu er kröfu kæranda um ógildingu úrskurðar ríkisskattstjóra hafnað.