Velkomin á heimasíðu Skattatíðinda.is

Breytingar á sköttum og öðrum opinberum gjöldum eru tíðar. Breytingarnar skipta einstaklinga og fyrirtæki miklu máli og því er mikilvægt að fylgjast vel með. Á heimasíðu Skattatíðinda má ávallt nálgast nýjustu upplýsingar á aðgengilegan og einfaldan hátt.

 

Ef einhverjar spurningar vakna eru starfsmenn KPMG ehf. ávallt reiðubúnir að aðstoða.

E.g., 2018-02-24
E.g., 2018-02-24
 • Fjárdráttur - skattsvik

  Úr Hæstaréttardómi nr. 514/2017:

  Ákærði sat sem fyrr segir einn í stjórn A ehf. og gegndi þar jafnframt starfi framkvæmdastjóra frá því að félagið var skráð í fyrirtækjaskrá 11. apríl 2003 þar til 13. mars 2009. Á þeim grunni fór hann með heimildir, sem um ræðir í 44. gr. laga nr. 138/1994, til að ráða hagsmunum félagsins á því tímabili. Eftir gögnum málsins virðist ákærði jafnframt hafa þá einn haft heimild til ávísunar á bankareikning félagsins. Fyrrgreindar sakargiftir samkvæmt ákæru snúa að því að ákærði hafi með nánar tilteknum ráðstöfunum dregið sér fjármuni félagsins og brotið með því gegn 247. gr. almennra hegningarlaga. Kemur því ekki til skoðunar hvort þessar ráðstafanir gætu í einhverjum atriðum hafa verið andstæðar 1. mgr. 79. gr., sbr. 2. tölulið 127. gr. laga nr. 138/1994, eða hvort ákærði kunni með þeim að hafa misnotað aðstöðu, sem leiddi af því að hann hafði á hendi fjárreiður fyrir A ehf., sbr. 249. gr. almennra hegningarlaga.

   

  Þegar málið er virt í framangreindu ljósi verður að gæta að því að rannsókn þess hefur í ýmsu verið áfátt með tilliti til þeirra saka, sem ákærði er borinn. Þannig hafa meðal annars hvorki verið lögð fram reikningsskil fyrir A ehf. frá nokkru tímabili né teljandi gögn um hvernig háttað hafi verið fjárhag félagsins, færslum í bókhaldi þess eða stöðu einstakra reikningsliða þar á mismunandi tímum. Um þetta er því í raun ekki við annað að styðjast en þær takmörkuðu upplýsingar, sem greint var frá í úrskurðum ríkisskattstjóra 2. september 2011 varðandi endurákvörðun opinberra gjalda ákærða og A ehf., en í þeim úrskurðum var sem fyrr segir gengið út frá því að allar greiðslur til ákærða, sem mál þetta varðar, ættu samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003 að skoðast sem laun til hans. Miðað við það, sem fram kom í úrskurðunum, verður að byggja á því að greiðslurnar, sem ákærði ráðstafaði af bankareikningi félagsins og sakargiftir á hendur honum lúta að, hafi allar verið færðar í bókhaldi þess. Færslur þessar hafi meðal annars valdið lækkun á eignarlið vegna innstæðu á bankareikningnum, en jafnframt hafi verið mynduð bókfærð eign félagsins sömu fjárhæðar, ýmist sem krafa þess á hendur ákærða samkvæmt viðskiptareikningi hans eða á bókhaldslið fyrir verk í vinnslu. Með því að ákæruvaldið hefur ekki aflað í málinu frekari gagna, sem að þessu geta snúið, verður að virtri 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að leggja til grundvallar að ráðstafanir þessar hafi ekki jafnharðan skert eignir félagsins, heldur hafi þær leitt af sér tilfærslu verðmæta milli einstakra eignaflokka, svo sem birst hafi í bókhaldi þess. Af þessum ástæðum getur ákærði ekki talist einvörðungu með framkvæmd þessara ráðstafana hafa hverju sinni tileinkað sér hluta af fjármunum félagsins, sem hann hafði í vörslum sínum, og svipt það um leið varanlega umráðum yfir þeim fjármunum þannig að hann hafi þá þegar brotið með háttsemi sinni gegn 247. gr. almennra hegningarlaga. Í málinu liggur ekkert fyrir um afdrif þeirra eigna, sem færðar voru í bókhaldi A ehf. sem inneign félagsins á viðskiptareikningi ákærða eða andvirði verka í vinnslu, á tímanum sem leið frá lokum árs 2005 þar til ákærði lét af forræði á félaginu á árinu 2009. Hefur ákæruvaldið þannig ekkert leitt í ljós um atvik á því tímabili, sem gætu hafa falið í sér að ákærði hafi þá tileinkað sér þessi verðmæti að einhverju leyti eða öllu. Er að þessu virtu óhjákvæmilegt að líta svo á að ósannað sé að tilgangur ákærða hafi verið annar en að koma sér með framkvæmd ráðstafana sinna undan því að greiða um sinn opinber gjöld af endurgjaldi fyrir vinnu sína í þágu A ehf. og annarri úthlutun verðmæta frá félaginu, svo sem skattyfirvöld byggðu á. Samkvæmt öllu framansögðu verður því að sýkna ákærða af kröfum ákæruvaldsins.

 • Skipun verjenda hafnað - vitni

  Úr dómi Hæstaréttar nr. 539/2017:

  Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. ágúst 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. ágúst 2017, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að felld yrði úr gildi synjun embættis héraðssaksóknara um að skipa nafngreindan hæstaréttarlögmann verjanda við rannsókn embættisins á tilteknu máli. Kæruheimild er í d. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og kærumálskostnaðar. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Ákvæði 4. mgr. 33. gr. laga nr. 88/2008 er fortakslaust um að ekki megi skipa þann verjanda sem kann að verða kvaddur til að gefa skýrslu sem vitni í máli, sbr. dóm Hæstaréttar 25. febrúar 2014 í máli nr. 131/2014. Samkvæmt því og að því virtu að sóknaraðili hefur lýst því yfir að sér sé skylt að kveðja lögmanninn til skýrslutöku við rannsókn málsins verður hinn kærði úrskurður staðfestur enda liggur ekki fyrir að þau áform séu með öllu tilefnislaus.

 • Samsköttun sambúðaraðila - fjárnám

  Úr dómi Hæstaréttar nr. 426/2017:

  Samkvæmt 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, eins og hún hljóðaði á þeim tíma sem málið varðar, áttu karl og kona í óvígðri sambúð rétt á að telja fram og vera skattlögð sem hjón, sem samvistum væru, ef þau óskuðu bæði eftir því skriflega við skattyfirvöld. Eftir gögnum málsins skiluðu sóknaraðili og þáverandi sambúðarmaður hennar saman rafrænum skattframtölum 2007 og 2008 og var bæði skiptin merkt sérstaklega inn á viðeigandi reit í framtölum hvors þeirra að óskað væri eftir samsköttun. Í 2. mgr. 90. gr. laga nr. 90/2003 er kveðið á um að skattframtal skuli undirritað af þeim, sem framtalsskylda hvílir á, en eftir 4. mgr. sömu lagagreinar jafngilda skil á framtali í tölvutæku formi að fenginni heimild ríkisskattstjóra slíkri undirritun þess. Til þess má einnig líta að samkvæmt framlögðu bréfi ríkisskattstjóra 2. mars 2017 var framtölum sóknaraðila og þáverandi sambúðarmanns hennar árin 2007 og 2008 skilað með notkun á veflykli hennar á þjónustusíðu ríkisskattstjóra. Í þessu tilliti gat engu breytt þótt veflykill sambúðarmannsins hafi ekki jafnframt verið notaður. Þessi samsköttun gat heldur ekki hafa farið fram hjá sóknaraðila, enda var tiltekið í álagningarseðlum hennar 2007 og 2008 að skuldajafnað hafi verið frá maka inneign á staðgreiðslu opinberra gjalda. Að þessu öllu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

   

   

  Úr ofangreindum úrskurði héraðsdóms:

  Þá er heldur ekki unnt að fallast á sjónarmið sóknaraðila um fyrningu. Tekur dómurinn fram að ekki sé unnt að líta svo á að almennur fjögurra ára fyrningarfrestur kröfuréttinda, sbr. 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, takmarki heimildir ríkisskattstjóra samkvæmt 1. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003 til að endurákvarða skatt vegna tekna og eigna síðustu sex ára sem næst eru á undan því ári sem endurákvörðun fer fram. Hafa fjölmargir dómar gengið í Hæstarétti þar sem reynt hefur á þann tíma sem ríkisskattstjóri hefur til að endurákvarða skatta og gjöld. Ríkisskattstjóri endurákvarðaði til hækkunar þing- og sveitarsjóðsgjöld fyrrum sambýlismanns sóknaraðila vegna álagningaráranna 2007-2008 með úrskurði 11. júní 2014. Krafan stofnaðist því á hendur sóknaraðila og fyrrverandi sambúðaraðila hennar þann dag og féll hún í gjalddaga 10 dögum síðar, sbr. 6. mgr. 112. gr. laga nr. 90/2003 einnig gagnvart sóknaraðila. Innheimta gagnvart sóknaraðila hófst 16. september 2015 með sendingu greiðsluáskorunar. Er krafan því ekki fyrnd, sbr. 3. gr. laga nr. 150/2007, heldur gild skattkrafa gagnvart sóknaraðila. Þá verður ekki talið að við meðferð ríkisskattstjóra á máli fyrrum sambúðaraðila sóknaraðila hafi reglur stjórnsýslulaga verið brotnar gagnvart sóknaraðila enda verður að telja ljóst að endurálagning gagnvart honum sem sjálfstæðum skattaðila fól ekki í sér gjaldabreytingu gagnvart sóknaraðila og sóknaraðili var ekki aðili þess stjórnsýslumáls. Breytir regla 1 mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003 ekki þeirri niðurstöðu.

 • Auðlegðarskattur - stjórnarskrá

  Úr dómi Hæstaréttar nr. 391/2016:

  Við mat á því hvort meðalhófs hafi verið gætt við álagningu viðbótarauðlegðarskatts á Ragnhildi samkvæmt viðmiðum Mannréttindadómstóls Evrópu er þess fyrst að geta, að ekki var þak á skattlagningarheimildinni með tilliti til heildartekna og heildarskatta. Á hinn bóginn voru skattleysismörk skattsins miklum mun hærri en áður hafði tíðkast hér á landi og skatthlutfallið verulega lægra eins og nánar er rakið í dómi Hæstaréttar í máli nr. 726/2013. Í annan stað verður að horfa til þess að eignir Ragnhildar rýrnuðu ekki þrátt fyrir skattlagninguna heldur jukust á þeim árum sem hér skipta máli. Þannig var skattstofn hennar til auðlegðarskatts í árslok 2011 samkvæmt skattframtali 2013 822.616.582 krónur en 984.569.140 krónur í árslok 2012 samkvæmt skattframtali 2014. Loks ber í þessu sambandi að líta til þess sem áður segir að gjaldárið 2014 greiddi Ragnhildur 31.620.915 krónur í heildarskatta sem voru 75,90% af tekjum hennar árið 2013, gjaldárið 2013 greiddi hún 26.321.811 krónur í heildarskatta sem voru 80,08% af tekjum ársins 2012 og gjaldárið 2012 greiddi hún 21.324.133 krónur í heildarskatta sem voru 3,20% umfram tekjur ársins 2011. Í ljósi eignastöðu Ragnhildar og tekna hennar samkvæmt framansögðu og ætlaðs framfærslukostnaðar verður í ljósi alls þess sem hér hefur verið rakið ekki litið svo á að álagning viðbótarauðlegðarskattsins umrædd ár hafi haft þau áhrif á fjárhagsstöðu Ragnhildar að skattlagningin teljist hafa verið óhófleg eða að um misbeitingu skattlagningarvalds hafi verið ræða. Fær það ekki breytt þessari niðurstöðu þótt heildarskattar hennar hafi eitt árið numið litlu hærri fjárhæð en heildartekjur, þar sem skattlagningarheimildin var tímabundin og viðbótarauðlegðarskattur aðeins lagður á fjórum sinnum. Ber í þessu sambandi að líta til þess sem segir í dómi Hæstaréttar í máli nr. 726/2013 að þar sem auðlegðarskattur er ein tegund eignarskatts skiptir ekki síst máli að gæta að því hversu íþyngjandi hann er til lengri tíma litið vegna þess að því hærra sem skatthlutfallið er samanlagt á stuttu árabili þeim mun meiri líkur eru til að skattlagningunni megi jafna til eignaupptöku í skilningi 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar.

   

  Samkvæmt öllu framansögðu og að teknu tilliti til niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 726/2013 verður hafnað þeirri meginmálsástæðu áfrýjanda að um óhóflega skattlagningu hafi verið að ræða, sem brotið hafi gegn 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu. Af þeirri niðurstöðu leiðir að skattlagningin gat hvorki farið gegn réttmætum væntingum Ragnhildar um ráðstöfun tekna sinna og annarra eigna né var brotinn á henni réttur samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eins og áfrýjandi heldur fram. Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest sú niðurstaða að hvorki ákvörðun löggjafans um að undanþiggja rétt manna til eftirlauna og lífeyris auðlegðarskatti né forsendur þær sem liggja að baki skattlagningunni hafi farið í bága við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Þá er og með vísan til forsendna staðfest niðurstaða héraðsdóms um að hafna þeirri málsástæðu áfrýjanda að í lögum um auðlegðarskatt hafi falist afturvirk skattlagning.

 • Sérstakt veiðigjald - skattur

  Úr dómi Hæstaréttar nr. 213/2016:

  Eins og gerð er grein fyrir í héraðsdómi er í máli þessu deilt um það hvort áfrýjandi eigi rétt á endurgreiðslu sérstaks veiðigjalds, sem lagt var á vegna aflaheimilda og landaðs afla skipa hans fiskveiðiárið 2012/2013 og stefndi innheimti hjá honum á grundvelli laga nr. 74/2012 um veiðigjöld, sem nú heita lög um veiðigjald, sbr. 10. gr. laga nr. 73/2015. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 74/2012 er markmið veiðigjalda að mæta kostnaði stefnda við rannsóknir, stjórn, eftirlit og umsjón með fiskveiðum og fiskvinnslu og til að tryggja þjóðinni í heild hlutdeild í þeim arði sem nýting sjávarauðlinda skapar. Að því gættu hve skatthugtakið hefur verið skýrt rúmt í 40. gr. og 77. gr. stjórnarskrárinnar verður að líta svo á að veiðigjald það, sem hér er fjallað um, sé skattur í merkingu þeirra stjórnarskrárákvæða, sbr. dóm Hæstaréttar 28. janúar 2016 í máli nr. 461/2015. Breytir í því efni engu  þótt gjaldinu sé öðrum þræði ætlað að fela í sér endurgjald fyrir nýtingu á þeirri þjóðareign, sem nytjastofnar á Íslandsmiðum eru, svo sem mælt er fyrir um í 1. gr. laga nr. 116/2006. Sökum þess að um er ræða endurgjald fyrir afnot þessara takmörkuðu náttúruauðlinda úr hendi þeirra, sem fengið hafa aðgang að þeim gæðum fyrir atbeina ríkisvaldsins, veitir það löggjafanum rýmri heimild en ella til að skattleggja arð af slíkri nýtingu.

   

  Í frumvarpinu, sem varð að lögum nr. 74/2012, var gert ráð fyrir að sérstakt veiðigjald skyldi lagt á hvert þorskígildiskíló, eftir botnfiskveiðum annars vegar og uppsjávarveiðum hins vegar, og vera 70% af stofni til útreiknings á gjaldinu eins hann var nánar skilgreindur í frumvarpinu, að frádregnu almennu veiðigjaldi. Samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða skyldi hið sérstaka gjald þó aðeins vera 60% af áðurgreindum útreikningsstofni á fiskveiðiárinu 2012/2013, að frádregnu almennu veiðigjaldi. Við meðferð frumvarpsins á Alþingi voru að tillögu meirihluta atvinnuveganefndar gerðar veigamiklar breytingar á því, þar á meðal var hlutfall sérstaks veiðigjalds af útreikningsstofninum lækkað úr 70% í 65%. Jafnframt var tekið upp nýtt bráðabirgðaákvæði, sbr. nú a. lið 1. mgr. ákvæða til bráðabirgða I, þar sem mælt var fyrir um að gjaldið skyldi vera 23,20 krónur á hvert þorskígildiskíló í botnfiskveiðum og 27,50 krónur á þorskígildiskíló í uppsjávarveiðum á fiskveiðiárinu 2012/2013 í stað 60% af áðurgreindum stofni. Í áliti meirihluta nefndarinnar, sem lagt var fram við 3. umræðu um frumvarpið, var síðargreinda breytingin meðal annars rökstudd með svofelldum hætti: „Með þeim breytingum sem meiri hlutinn leggur til breytast veiðigjöldin verulega frá því sem gert var ráð fyrir í frumvarpinu. Þau munu áfram ráðast af þeim meginsjónarmiðum sem finna má í frumvarpinu og þeim gögnum sem það byggist á. Enn fremur munu þau í samræmi við frumvarpið ráðast mjög af þróun fiskverðs sem er ráðandi þáttur í myndun auðlindarentu. Þannig munu veiðigjöld fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 ráðast af þeim gögnum sem fyrir liggja um afkomu fiskveiða og fiskvinnslu á árinu 2010 og framreikningi á reiknaðri rentu þess árs til fyrsta ársþriðjungs 2012 með verðvísitölu sjávarafurða. Sú vísitala hefur samkvæmt því sem fram kemur á vef Hagstofu Íslands hækkað frá meðaltali ársins 2010 til meðaltals mánaðanna janúar til mars 2012 um 4% fyrir botnfisk og um 22% fyrir uppsjávarafla.“ Í álitinu var tekið fram að framangreindar fjárhæðir, 23,20 og 27,50 krónur, hafi verið ákveðnar á grundvelli þessara forsendna og af töflu, sem þar var birt, verður ráðið að þær hafi verið áætlaðar um 40% af þeim útreikningsstofni sem áður er nefndur. Samkvæmt því verður fallist á með stefnda að löggjafinn hafi með ákvörðun sinni um hið sérstaka veiðigjald, sem um er fjallað í málinu, tekið rökstudda afstöðu til fjárhæðar gjaldsins og hún því verið reist á málefnalegum grunni, auk þess sem gjaldinu hafi verið í hóf stillt.

 • Kaupréttarsamningar - launatekjur

   

  Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms staðfesti Hæstiréttur hann, um annað en málskostnað. Í héraðsdómi nr. E-986/2015 kemur eftirfarandi fram: 

   

  Þegar litið er til ofangreindra ákvæða samnings stefnanda við Baug Group hf. og BGE eignarhaldsfélag, svo og annarra ákvæða samningsins sem rakin eru í úrskurði yfirskattanefndar, verður ekki annað séð en að þar sé kveðið á um tiltekin fríðindi stefnanda í tengslum við hlutabréfaviðskipti sem eru í verulegum atriðum frábrugðin viðskiptum óskyldra aðila og töluvert umfram þau kjör sem almennt bjóðast í hlutabréfaviðskiptum á markaði. Þannig var stefnandi ekki aðeins tryggður fyrir því að tap hans af fjárfestingunni færi undir 90% af kaupverði hlutabréfanna og vaxtagreiðslum samkvæmt lánasamningi, heldur naut hann einnig ríflegrar lánafyrirgreiðslu af hálfu vinnuveitanda síns við gerð samninganna sem lýsir sér best í því að einungis var krafist 10% framlags af eigin fé hans sjálfs við gerð fyrsta samningsins en einskis við hina síðari tvo, eins og kveðið var á um í viðaukasamningi. Ekki verður heldur um það villst að þau viðskipti sem lýst er í samningi aðila frá 5. desember 2003 stóðu í nánum efnislegum tengslum við starf hans sem forstjóra hjá Baugi Group hf. Þannig er í grein 6.1 í samningnum kveðið sérstaklega á um brottfall þeirra hlunninda sem kveðið er á um í 3. til 5. gr. samningsins ef stefnandi hætti störfum hjá félaginu að eigin frumkvæði eða væri sagt upp störfum á grundvelli sakar. Þá var jafnframt mælt fyrir um það í grein 6.4 í samningnum að stefnanda væri skylt að selja Baugi Group hf. hluti sína við lok samningsins 30. september 2008 og samsvarandi kaupskyldu Baugs Group hf. af sama tilefni. Stefnandi gerði síðan annan samning við BGE Eignarhaldsfélag og Baug Group hf. 8. mars 2006. Með þeim samningi öðlaðist stefnandi heimild til að kaupa hlutabréf í Baugi Group hf. af BGE eignarhaldsfélagi ehf. fyrir 2.000.000 kr. að nafnverði hverju sinni dagana 18. mars 2006, 1. febrúar 2007 og 1. febrúar 2009. Af orðalagi ákvæða þessa síðari samnings um kaupskyldu viðsemjanda stefnanda, lágmarkskaupverð og lánakjör er ekki annað að sjá en að þau fríðindi og hlunnindi sem þar er kveðið á um stefnanda til handa að þessu leyti séu í öllum aðalatriðum þau sömu og í samningnum frá 5. desember 2003 eins og rakið er í úrskurði yfirskattanefndar frá 7. maí 2014. Með hliðsjón af því sem að framan er rakið og þeim sjónarmiðum sem koma fram í rökstuðningi úrskurðar yfirskattanefndar að öðru leyti verður að telja hafið yfir allan vafa að þau kjör sem stefnanda voru veitt með samningunum 5. desember 2003 og 8. mars 2006 hafi verið veitt í tengslum við starf hans hjá Baugi Group hf. og teljist því þar með starfstengd hlunnindi hans í skilningi 1. töluliðar A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003.

 • Refsimál - vanskil VSK

  Úr Hæstaréttardómi nr. 394/2016:

  Eins og áður greinir var ákærði eini stjórnarmaður og eigandi Byggingafélagsins Fjarðar ehf. Þá hefur ákærði fyrir dómi gengist við því að hafa annast daglega starfsemi félagsins, þar með talið reikningsgerð og uppgjör á virðisaukaskatti. Að þessu gættu hvíldi sú skylda á honum að skila virðisaukaskattsskýrslum og standa skil á þeim skatti, sbr. 44. gr. laga nr. 138/1994. Af gögnum málsins verður ráðið að ekki var skilað virðisaukaskattsskýrslum vegna félagsins á tímabilunum september til október og nóvember til desember 2011 og september til október 2012. Virðisaukaskattskýrslum vegna tímabilanna janúar til febrúar, mars til apríl, maí til júní og júlí til ágúst 2012 var hins vegar skilað 23. október það ár, en frestur til að skila skýrslum er fimmti dagur annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils, sbr. 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Þá liggur fyrir að ekki var staðið skil á skattinum, en samtals nam hann á þessu tímabili 41.588.475 krónum vegna fyrrgreindra reikninga á hendur Benedikt Sveinssyni ehf. Að teknu tilliti til innskatts að fjárhæð 100.359 krónur bar að standa skil á mismuninum að fjárhæð 41.488.116 krónur, eins og miðað var við í ákæru. Með því að skila ekki á lögmæltum tíma virðisaukaskattsskýrslum og virðisaukaskatti, sem bar að innheimta í starfsemi félagsins, hefur ákærði gerst brotlegur við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 með síðari breytingum. Þegar litið er til fjárhæða verða brotin talin meiri háttar og því verða þau einnig heimfærð til 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í þessu tilliti getur engu breytt þótt ákærði telji félagið hafa átt inneign við uppgjör virðisaukaskatts á öðru tímabili, sbr. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 50/1988, vegna reiknings á hendur því 30. desember 2008. Leiðir þetta þegar af þeirri ástæðu að félagið var ekki á virðisaukaskattskrá fyrr en 1. mars 2010, en ekki verður talinn til innskatts virðisaukaskattur af aðföngum sem keypt eru fyrir skráningardag, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 192/1993 um innskatt. Þá verður ekki fallist á það með ákærða að rannsókn málsins sé áfátt með tilliti til frekari innskatts á því tímabili sem ákæran tekur til, en ákærði hefur frá upphafi rannsóknar málsins haft alla möguleika á að leggja fram og vísa til gagna varðandi rekstur félagsins. Í þeim efnum ber að hafa í huga skyldur hans samkvæmt viðeigandi lögum til að skila skýrslum, byggðum á réttum reikningum og gögnum. Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi hefur ákærði ekki áður sætt refsingu. Verður refsing hans ákveðin fangelsi í eitt ár, en fullnusta hennar verður bundin skilorði á þann veg sem í dómsorði greinir. Einnig ber að dæma ákærða til greiðslu fésektar sem verður ákveðin 83.000.000 krónur að teknu tilliti til lögbundins lágmarks hennar í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988. Um vararefsingu fer eins og í dómsorði segir.

 • Refsimál - vanskil VSK og staðgreiðslu opinberra gjalda

  Úr dómi Hæstaréttar nr. 777/2015:

  Í forsendum hins áfrýjaða dóms er tekið fram að ekki sé ástæða til þess að draga í efa framburð ákærðu um að hún hafi í reynd ekki komið að rekstri A ehf. á þeim tíma sem ákæra tekur til, þó svo að hún hafi bæði verið skráð sem framkvæmdastjóri félagsins og stjórnarmaður þess fram til 11. mars 2013. Rekstur félagsins hafi þvert á móti með öllu verið í höndum eiginmanns hennar, sem dæmdur var til refsingar með hinum áfrýjaða dómi. Sætir þetta ekki andmælum af hálfu ákæruvaldsins. Byggja verður á framangreindri forsendu hins áfrýjaða dóms og leggja þannig til grundvallar að sannað sé að maður sem hvorki var skráður framkvæmdastjóri né stjórnarmaður í A ehf. hafi í raun borið fulla ábyrgð á skattskilum félagsins og starfsemi þess að öðru leyti. Úr því að svo stóð á verður ekki litið svo á að ákærða hafi, þrátt fyrir skráða stöðu sína, sýnt af sér stórkostlegt hirðuleysi í skilningi 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Með hliðsjón af dómum Hæstaréttar 31. maí 2007 í máli nr. 392/2006, 12. desember 2013 í máli nr. 354/2013, 23. janúar 2014 í máli nr. 388/2013, 30. október 2014 í máli nr. 295/2014 og 27. október 2016 í máli nr. 321/2015 verður ákærða því sýknuð af kröfum ákæruvaldsins.

 • Skattaleg heimilisfesti

  Úr Hæstaréttardómi nr. 319/2016:

  Fyrir Hæstarétti byggir áfrýjandi meðal annars á því að komið sé fram að skattstjóri hafi talið hann skattskyldan hér á landi fram til ársins 2002 og hann því til samræmis skilað skattframtölum, en eftir það hafi hann ekki verið talinn á skattskrá hér fyrr en eftir að hann lét af starfi erlendis. Um þessa málsástæðu, sem áfrýjandi mun fyrst hafa borið upp við munnlegan flutning málsins í héraði og var í hinum áfrýjaða dómi talin of seint fram komin, verður að gæta að því að eðli máls samkvæmt hljóta skattyfirvöld fyrst í stað að miða framtalsskyldu einstaklinga samkvæmt 90. gr. laga nr. 90/2003 og skattskyldu þeirra hér á landi við það hvort þeir eigi hér skráð lögheimili eða fyrir liggi aðrar upplýsingar, sem máli geta skipt eftir ákvæðum I. kafla laganna við ákvörðun um þær skyldur. Þótt einstaklingur, sem tilkynnt hefur um flutning á lögheimili sínu frá landinu, hafi á þeim grunni ekki verið talinn framtalsskyldur hér í byrjun getur sú afstaða ekki girt fyrir að stefndi ríkisskattstjóri taki hana síðar til endurskoðunar eftir 2. mgr. 1. gr. sömu laga. Getur þessi málsástæða því engu breytt um niðurstöðu málsins. Í röksemdum fyrir niðurstöðu hins áfrýjaða dóms er meðal annars vísað til ákvæða 2. töluliðar 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003. Þar er að finna sérreglu um skattskyldu manns þegar svo er ástatt að hann hafi verið heimilisfastur á Íslandi en flutt úr landi og fellt niður heimilisfesti hér. Er maður þá frá næstu áramótum eftir brottflutningsdag skattskyldur hér á landi í þrjú ár nema hann sanni að hann hafi á því tímabili verið skattskyldur í öðru ríki á sama hátt og menn, sem þar eru heimilisfastir, og hafi fullnægt þeirri skyldu. Ákvæði þetta getur ekki átt við í málinu nema litið yrði svo á að áfrýjandi hafi í raun fellt niður heimilisfesti hér á landi á fyrrgreindu tímabili frá 2003 til 2011. Það breytir því á hinn bóginn ekki að í samræmi við grunnreglu, sem býr að baki þessu ákvæði, verður að leggja á áfrýjanda sönnunarbyrði fyrir því að hann hafi á tímabilinu verið skattskyldur í Máritaníu og fullnægt þeirri skyldu. Fyrir þessu hefur áfrýjandi engar sönnur fært. Með framangreindum athugasemdum verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans að öðru leyti.

 • Búnaðargjald - brot á stjórnarskrá

  Úr dómi Hæstaréttar nr. 250/2016:

  Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um stöðu Bjargráðasjóðs sem stjórnvalds og sýknu aðaláfrýjanda af kröfu gagnáfrýjanda um endurgreiðslu búnaðargjalds, sem hann greiddi á því tímabili er krafa hans tekur til, að því leyti sem nemur þeim hluta gjaldsins er rann til sjóðsins. Við breytingu á 74. gr. stjórnarskrárinnar, sem gerð var með stjórnskipunarlögum nr. 97/1995, var sérstaklega að því vikið í greinargerð með frumvarpi til laganna að markmiðið væri meðal annars að samræma reglur um félagafrelsi í stjórnarskránni skýringu Mannréttindadómstóls Evrópu á félagafrelsisákvæðinu í 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Af þeim sökum verður við skýringu á 74. gr. stjórnarskrárinnar meðal annars litið til úrlausnar þess dómstóls í máli nr. 20161/06 frá 27. apríl 2010. Þótt reglur um ákvörðun búnaðargjalds og álagningu þess séu í samræmi við fyrirmæli 40. gr. og 77. gr. stjórnarskrárinnar og fullnægi því að formi til kröfum sem gerðar eru til skattlagningar leiðir það eitt og sér ekki til þess að hafnað verði kröfu gagnáfrýjanda um endurgreiðslu búnaðargjalds að því leyti sem það rann til Bændasamtaka Íslands, Búnaðarsambands Kjalarnesþings og Svínaræktarfélags Íslands. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða að það að leggja þá skyldu á gagnáfrýjanda að greiða gjald sem ráðstafað var til þessara þriggja félaga óháð vilja hans verði ekki réttlætt með vísan til þess að slíkt hafi verið nauðsynlegt vegna almannahagsmuna eða vegna réttinda annarra, sbr. 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar. Samkvæmt því verður fallist á að ákvæði laga nr. 84/1997 um búnaðargjald sem mæla fyrir um að sá hluti gjaldsins er gagnáfrýjandi greiddi og rann til framangreindra félaga fari í bága við það frelsi sem honum er tryggt í áðurnefndu stjórnarskrárákvæði til að standa utan félaga. Var honum því ekki skylt að inna af hendi þennan hluta gjaldsins og ber að líta svo á að um ofgreiddan skatt sé að ræða í skilningi 1. mgr. 1. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Er því ekki þörf á að taka afstöðu til þess hvort gjaldheimtan hafi einnig farið í bága við ákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar. Með framangreindum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna, verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.