Stimpilgjald - hlutaskipting félags

E.g., 2018-11-17
E.g., 2018-11-17
 • Rannsóknarregla stjórnsýslulaga - endurákvörðun felld úr gildi

   

  Nánar úr niðurstöðum dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 21. júní 2017 sem síðar var staðfestur með vísan til forsendna í dómi Hæstaréttar í máli nr. 589/2017:

   

  „[...]

   

  Í máli þessu er deilt um það hvort skattyfirvöld hafi rannsakað mál stefnanda á viðhlítandi hátt áður en ákvarðanir voru teknar. Stefnandi byggir á því að skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi ekki aflað viðeigandi gagna um Topaz Holding Ltd. og skattskil félagsins gagnvart enskum skattyfirvöldum. Skattrannsóknarstjóri hafi gefið sér að tilteknar greiðslur samkvæmt reikningum útgefnum af Topaz Holding til íslenskra félaga hafi verið greiðslur til stefnanda og Gunnars Arnar Kristjánssonar persónulega án þess að styðja þá niðurstöðu sína öðrum rökum en þeim að greiðslur félaganna hafi verið greiðslur fyrir vinnuframlag þeirra og þeir á þessum tíma báðir borið fulla skattskyldu hér á landi. Embætti ríkisskattstjóra hafi ekki hirt um að fá skýringar skráðra eigenda eða endurskoðanda Topaz Holding Ltd. á ársreikningum félagsins þegar búið var að afla þeirra og senda með beiðni stefnanda, dags. 27. febrúar 2014, um endurupptöku úrskurðar ríkisskattstjóra. Ríkisskattstjóri hafi þannig ekki nýtt sér lögbundna heimild í 2. mgr. 94. gr. laga nr 90/2003 til að ganga úr skugga um að embættið hefði fengið öll gögn sem skipt gætu máli við rannsókn málsins. Þá hafi ríkisskattstjóri einnig brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með því að taka íþyngjandi ákvörðun án þess að vinna sjálfstæða rannsókn á skattskilum stefnanda.

   

  [...]

   

  Litið hefur verið svo á að stjórnvöld geti ekki komist hjá því að rannsaka mál á viðhlítandi hátt með því að beita sönnunarreglum í stað rannsóknar. Í þeim tilvikum, sem staðreyndir máls eru ekki nægilega skýrar, er stjórnvöldum óheimilt að grípa til mats- eða sönnunarreglna fyrr en þau hafa árangurslaust reynt að rannsaka mál á tilhlýðilegan hátt. Rannsóknarreglan felur í sér að það stjórnvald, sem ákvörðun tekur, ber ábyrgð á því að mál hafi verið rannsakað nægilega áður en ákvörðunin var tekin. Þannig getur veruleg vanræksla á rannsókn máls leitt til þess að ákvörðun verði talin ógildanleg, sérstaklega þegar um íþyngjandi ákvarðanir er að ræða.

   

  [...]

   

  Ríkiskattstjóri getur ekki komið sér undan þeirri skyldu að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en hann tekur ákvörðun með því einu að vísa til skýlausrar upplýsingaskyldu sem hvíli á stefnanda skv. 94. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Telja verður að áður en jafn íþyngjandi ákvörðun var tekin og hér um ræðir hjá skattayfirvöldum að afla hefði þurft upplýsinga frá endurskoðanda Topaz Holding Ltd. og breskum skattyfirvöldum, en það var ekki gert. Þannig verður fallist á að  að skattyfirvöld hafi brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993 og hafi ekki séð til þess að mál væri nægilega upplýst áður en umþrættar ákvarðanir voru teknar. Ríkiskattstjóri gerði engan reka að því að afla upplýsinga frá skattyfirvöldum í Englandi sem hefði átt að vera auðvelt að afla og er úrskurður hans því ekki byggður á nægilega traustum grunni. Samkvæmt því sem rakið hefur verið ber að fallast á kröfu stefnanda um að fella úr gildi úrskurð ríkisskattstjóra, dags. 31. janúar 2014 með tilvísunarnúmerið 2012002151. Í kæru  stefnanda og eiginkonu hans 17. apríl 2014 til yfirskattanefndar á úrskurði ríkisskattstjóra um endurákvörðun opinberra gjalda gjaldaárin 2006-2009 sendi stefnandi yfirskattanefnd athugasemdir við kröfur og athugasemdir ríkisskattstjóra 11. júlí 2014 ásamt bréfinu frá ríkisskattstjóra 19. júní. Í bréfi þessu var yfirskattanefnd meðal annars bent á að ríkisskattstjóri teldi ekki útilokað að Topaz Holding Ltd. hefði tekið við þeim fjármunum sem skattyfirvöld töldu til tekna hjá stefnanda. Yfirskattanefnd hafnaði samt sem áður að fella úrskurði ríkisskattstjóra um skattbreytingar stefnanda og eiginkonu hans úr gildi og horfði fram hjá ágöllum á rannsókn málsins og byggði niðurstöðu sína á rannsókn skattrannsóknarstjóra og ríkisskattstjóra. Það leiðir því af framangreindri niðurstöðu varðandi úrskurð ríkisskattstjóra að fella ber einnig úr gildi úrskurð yfirskattanefndar í kærumálinu nr. 322/2015.“

   

  Í hlekk með fréttinni er að finna dóm Hæstaréttar í heild sinni.

 • Forkaupsréttur - sala hluta

  Nánar úr niðurstöðum dóms Hæstaréttar í máli nr. 618/2017:

   

  „Með samþykki stefndu Elínar, Ingvars, Sigríðar, Sigurðar og Þórönnu á tilboðinu, sem áfrýjandi og stefndi KÖS ehf. beindu til þeirra „f.h. óskráðs einkahlutafélags“ 4. júní 2015 um kaup á hlutum þeirra í stefnda Þingvallaleið ehf., komst á samningur, sem háður var tilteknum skilyrðum, en að þeim uppfylltum skyldi hann efndur ekki síðar en 4. janúar 2016. Þegar samningurinn komst á var einkahlutafélag, sem var ætlað að verða kaupandi hlutanna, ekki aðeins óskráð, heldur hafði það ekki verið stofnað. Ákvæði 2. mgr. 10. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög taka ekki eftir orðanna hljóðan til aðstæðna sem þessara, enda ná þau til skuldbindinga, sem myndaðar eru í nafni slíks félags sem hefur þegar verið stofnað eftir reglum 3. gr. til 8. gr. þeirra laga en ekki hefur enn verið skráð.

   

  Af framangreindum ástæðum verður að leggja til grundvallar að áfrýjandi og stefndi KÖS ehf. hafi einir og í sameiningu notið réttinda og borið skyldur kaupanda samkvæmt samningnum. Að því verður þó einnig að gæta að sem fyrr segir var í tilboðinu lýst svonefndum bakgrunni þess, þar á meðal að það hafi verið gert á þeirri forsendu að áfrýjandi og stefndi KÖS ehf. myndu „eignast“ hlutina í stefnda Þingvallaleið ehf. „í gegnum“ væntanlegt félag sitt, sem yrði í eigu áfrýjanda að 51% og stefnda KÖS ehf. að 49%. Verður þannig að líta svo á að með samþykki tilboðsins hafi stefndu Elín, Ingvar, Sigríður, Sigurður og Þóranna gengist undir að hlíta því að áfrýjandi og stefndi KÖS ehf. gætu á síðari stigum ákveðið upp á sitt eindæmi að færa réttindi sín og skyldur samkvæmt samningnum til félags, sem þeir myndu stofna til eignarhalds á hlutunum í stefnda Þingvallaleið ehf. og yrði í eigu þeirra í fyrrgreindum hlutföllum. Eftir gögnum málsins var hvorki stofnað slíkt félag né efndi áfrýjandi í eigin nafni fyrir sitt leyti þær skuldbindingar, sem hann tók á sig með tilboðinu. Þegar af þeim ástæðum varð ekkert úr þeim kaupum, sem komust á með samþykki þess 4. júní 2015. Á hinn bóginn mun stefndi KÖS ehf. hafa á áðurnefndum fundi 4. janúar 2016 innt af hendi til stefndu Elínar, Ingvars, Sigríðar, Sigurðar og Þórönnu greiðslur sömu fjárhæðar og mælt hafði verið fyrir um í tilboðinu og þau framselt að endurgjaldi hluti sína í stefnda Þingvallaleið ehf. Líta verður svo á að með þessu hafi komist á nýr kaupsamningur, sem jafnframt var efndur þegar í stað en virðist aldrei hafa verið skjalfestur. Þegar atvik þessi gerðust hafði stefndi SPV 25 ehf. ekki enn verið stofnað og liggur ekkert fyrir í málinu um að kaup þessi hafi verið gerð með skilmála, hliðstæðum þeim sem fólst í samþykki tilboðsins 4. júní 2015, um að seljendur myndu hlíta því að það félag tæki við stöðu kaupanda eftir stofnun þess. Verður því kaupandi eftir þessum óskráða samningi að teljast hafa verið stefndi KÖS ehf.

   

  Þegar kaupsamningur þessi komst á 4. janúar 2016 milli stefnda KÖS ehf. og stefndu Elínar, Ingvars, Sigríðar, Sigurðar og Þórönnu varð virkur forkaupsréttur, sem áfrýjandi naut sem hluthafi í stefnda Þingvallaleið ehf. samkvæmt fyrrnefndri 7. grein samþykkta þess félags, að hlutunum sem kaupin tóku til. Í þeirri grein samþykktanna var kveðið á um að forkaupsréttarhafi hefði frest til að beita þeim rétti í tvo mánuði frá því að stjórn félagsins væri tilkynnt um kaup. Af fundargerð frá fundi stjórnar stefnda Þingvallaleiðar ehf. 4. janúar 2016 er ljóst að henni hafi þá samdægurs verið tilkynnt um þessi kaup, en áfrýjandi lýsti eins og áður segir bréflega yfir 28. sama mánaðar við alla, sem hlut áttu að máli, að hann nýtti forkaupsrétt sinn og var það þannig gert í tæka tíð. Stjórn félagsins lýsti á hinn bóginn engu slíku yfir fyrir hönd þess innan frestsins, sem hún naut í því skyni og lauk 4. mars 2016, en til annarra en félagsins og áfrýjanda gat forkaupsréttur ekki náð eins og atvikum var háttað. Áfrýjandi deildi þannig hvorki með öðrum forkaupsrétti né stóð hann í því efni öðrum að baki. Í bréfum sínum 28. janúar 2016 óskaði áfrýjandi svo sem fyrr greinir eftir upplýsingum um fjárhæð, sem sér bæri að inna af hendi vegna nýtingar forkaupsréttar síns, og hvert hann ætti að greiða hana, en við því fékk hann engin svör frá öðrum en stefnda KÖS ehf., sem ítrekaði í bréfi 12. febrúar sama ár mótmæli gegn því að forkaupsréttur áfrýjanda hafi orðið virkur. Má samkvæmt þessu líta svo á að áfrýjandi hafi innan tilskilins tíma samkvæmt samþykktum fyrir stefnda Þingvallaleið ehf. boðið fram greiðslu á kaupverði hlutanna, sem neitað hafi verið að taka við. Glataði áfrýjandi ekki forkaupsrétti sínum með því að aðhafast ekkert frekar í þessu sambandi fram að því að mál þetta var höfðað.

   

  Samkvæmt öllu framangreindu verður orðið við kröfu áfrýjanda um viðurkenningu á því að hann eigi forkaupsrétt að tólf hlutum í stefnda Þingvallaleið ehf. vegna sölu stefndu Elínar, Ingvars, Sigríðar, Sigurðar og Þórönnu á þeim 4. janúar 2016 til stefnda KÖS ehf.

   

  Áfrýjandi hefur jafnframt krafist þess að viðurkennt verði að hann njóti þessa réttar á verðinu 93.625.054 krónur. Stefndu Þingvallaleið ehf., KÖS ehf. og SPV 25 ehf. hafa á hinn bóginn krafist þess sem áður segir til ítrustu vara að kaupverðið verði ákveðið 93.060.000 krónur, sem bundið sé vísitölu neysluverðs með grunntölunni 428,2 stig og beri að auki dráttarvexti frá 4. janúar 2016. Um þetta ágreiningsefni verður að gæta að því að með nýtingu forkaupsréttar gengur áfrýjandi inn í stöðu stefnda KÖS ehf. sem kaupanda eftir samningi hans við seljendurna, stefndu Elínu, Ingvar, Sigríði, Sigurð og Þórönnu, og ber áfrýjandi samkvæmt því skyldur við þau, meðal annars til greiðslu kaupverðs, en ekki við aðra stefndu. Ákvörðun kaupverðsins er af þessum sökum stefndu Þingvallaleið ehf., KÖS ehf. og SPV 25 ehf. óviðkomandi og verður þannig aðalkrafa áfrýjanda tekin til greina á þann hátt, sem segir í dómsorði."

   

  Í hlekk að ofanverðu er að finna dóm Hæstaréttar í heild sinni.

 • Skattalegir málamyndagerningar - frestun skattlagningar söluhagnaðar

  Nánar um dóm Hæstaréttar nr. 501/2017:

  Með kaupsamningi 3. nóvember 2006 keypti stefnandi, öll hlutabréf í einkahlutafélagi fyrir 385 milljónir króna. Fram kom í samningnum að einu eignir félagsins væru aflahlutdeild og aflamark. Með kaupsamningi 29. desember 2006 keypti stefnandi umræddar aflaheimildir af dótturfélagi sínu, fyrir sömu fjárhæð og kaupverð fyrrgreindra hlutabréfa, 385 milljónir króna. Stefnandi gaf út skuldabréf sama dag. Kom þar fram að endurgreiða bæri lánið 31. desember 2008. Ekki var gert ráð fyrir því að vextir væru greiddir af láninu. Í skattskilum dótturfélagsins fyrir árið 2006 fór félagið fram á að skattlagningu söluhagnaðar, að fjárhæð 382.771.690 krónur, af sölu framangreindra aflaheimilda, yrði frestað í samræmi við heimild í 6. mgr. 15. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

   

  Með kaupsamningi 30. september 2008 keypti dótturfélagið af stefnanda aflahlutdeild og aflamark í þorski fyrir 385 milljónir króna. Samkvæmt kaupsamningi átti að greiða kaupverðið við undirritun kaupsamnings. Stefnandi og dótturfélagið voru síðan sameinuð, samkvæmt tilkynningu til hlutafélagaskrár 23. júlí 2010 og miðaðist samruninn við 31. desember 2009. Í kjölfarið endurákvarðaði ríkisskattstjóri opinber gjöld dótturfélagsins gjaldárið 2009 með álagi í samræmi við 6. mgr. 15 gr. og 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þar sagði að megintilgangur gerninganna hafi verið til að komast hjá lögmæltri skattlagningu samkvæmt 5. og 6. mgr. 15. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og þar með skattlagningu söluhagnaðarins eftir ákvæðum 8. töluliðar C-liðar 7. gr. sömu laga.

   

  Stefnandi skaut úrskurði ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar sem staðfesti úrskurðinn með svohljóðandi rökum:

   

  „Samkvæmt framansögðu liggur fyrir að hin umdeilda aflahlutdeild, sem kærandi tjáist hafa selt dótturfélagi á árinu 2008, var eftir sem áður nýtt til tekjuöflunar í rekstri kæranda, þ.e. til fiskveiða á skipi félagsins, án nokkurs endurgjalds til dótturfélagsins. Þá verður að leggja til grundvallar að dótturfélagið. hafi ekki haft neinn rekstur með höndum frá sölu skips og aflaheimilda á árinu 2006 þar til félaginu var slitið við samruna þess og kæranda á árinu 2010. Að þessu virtu og öðrum þeim atriðum sem ríkisskattstjóri hefur fært fram til stuðnings hinni kærðu ákvörðun verður að fallast á það með ríkisskattstjóra að hin umdeildu viðskipti félaganna á árinu 2008 beri það mikinn keim af málamyndagerningi að ekki sé tækt að byggja á þeim í skattalegu tilliti. Er þá jafnframt litið til þess sem fyrir liggur um eigna- og stjórnunartengsl félaganna.“

   

  Héraðsdómur sýknaði svo íslenska ríkið af öllum kröfum stefnanda um að úrskurður yfirskattanefndar yrði felldur úr gildi eða breytt. Í forsendum héraðsdóms kom eftirfarandi fram:

   

  "Það er grunnregla í íslenskum rétti að skattlagning verður að byggjast á raunverulegum aðstæðum og atvikum sem síðan eru heimfærð undir viðeigandi lagaákvæði. Á þeim grunni kann skattyfirvöldum að vera heimilt að líta fram hjá einstökum gerningum skattaaðila ef fyrir liggur að þeim er ekki ætlað að hafa réttaráhrif samkvæmt efni sínu. Sama gildir um sýndargerninga sem miða einungis að því að komast hjá því að greiða skatt eða búa til aðstæður sem fella viðkomandi undir ívilnandi reglur skattalaga. Sé efni til að álykta að slíkur sýndargerningur eigi ekki að hafa þá skattalega þýðingu sem skattaðili æskir kallar það ekki á sérstaka lagaheimild fyrir skattyfirvöld til þess að bregðast við. Þvert á móti byggist sú heimild á þeirri almennu reglu, sem leiða má af 77. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, að skattskylda eigi að ráðast af raunverulegum atvikum í samræmi við gildandi lagareglur á hverjum tíma, sem og af almennum jafnræðisreglum, sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar.

   

  Í máli þessu er ágreiningslaust að ætluð kaup Páls Ingólfssonar ehf. á nýrri aflahlutdeild af móðurfélagi sínu, stefnanda, breyttu engu um að aflahlutdeildin var áfram skráð á skip í eigu móðurfélagsins. Var aflahlutdeildin því alfarið nýtt til tekjuöflunar í rekstri móðurfélagsins án þess að dótturfélagið fengi nokkurt endurgjald fyrir. Í raun hafði dótturfélagið engan rekstur með höndum allt frá því að félagið seldi móðurfélagi sínu aflahlutdeildina árið 2006 uns það var sameinað móðurfélaginu árið 2010. Við ætluð kaup dótturfélagsins á aflahlutdeildinni 2008 virðist kaupverðið hafa verið greitt með skuldajöfnuði, þannig að gagnkrafa dótturfélagsins á hendur móðurfélaginu á grundvelli vaxtalauss skuldabréfs að sömu fjárhæð, sem var á gjalddaga í árslok 2008, var notuð til greiðslu kaupverðsins. Engir fjármunir fóru því milli kaupanda og seljanda í tengslum við gerning þennan. Félagið laut yfirráðum móðurfélagsins og virðist eini tilgangur gerningsins sem um ræðir hafa verið að nýta frestunarheimild 6. mgr. 15. gr. laga nr. 90/2003. Að öðru leyti liggur ekkert fyrir um að einhver rekstrarlegur tilgangur hafi búið að baki ráðstöfun þessari. Allt bendir því til þess að framangreindur gerningur hafi einungis miðað að því að búa til aðstæður sem gerðu samstæðunni kleift að hagnýta sér ívilnandi skattareglu.

   

  Þegar þessi atriði eru metin heildstætt telur dómurinn að ríkisskattstjóra hafi verið heimilt á líta svo á að engin raunveruleg kaup á aflahlutdeild hafi átt sér stað á grundvelli kaupsamningsins 30. september 2008 sem gætu haft þá skattalegu þýðingu sem kveðið er á um í 6. mgr. 15. gr. laga nr. 90/2003. Með þeirri ályktun voru skattyfirvöld ekki að „bæta skilyrðum við“ lagaákvæðið, er lutu að því kaupin væru gerð vegna atvinnurekstrar, eins og stefnandi heldur fram, heldur að leggja mat á raunverulegar aðstæður út frá fyrirliggjandi upplýsingum og heimfæra þær undir viðkomandi lagaákvæði. Þá fær dómurinn ekki séð að það skipti máli í þessu sambandi þó að sérstök skilyrði séu sett í öðrum reglum um frestun skattlagningar söluhagnaðar um nýtingu nýfenginna réttinda er komi í stað seldra réttinda. Var ríkisskattstjóra því rétt að líta svo á að hinn frestaði söluhagnaður í þessu máli teldist með skattskyldum tekjum Páls Ingólfssonar ehf. á árinu 2008 með 10% álagi í samræmi við 6. mgr. 15. gr. laga nr. 90/2003, er leiddi til hækkunar á tekjuskattstofni félagsins gjaldárið 2009. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið verður ekki talið að sú ákvörðun sem stefnandi krefst ógildingar á hafi verið í andstöðu við lagaáskilnaðarreglu 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar og þeirri kröfu sem þar er gerð til skýrleika skattareglna."

   

  Í hlekk að ofanverðu með fréttinni má nálgast dóm Hæstaréttar og héraðsdóms.

 • Skattaleg heimilisfesti - sönnunargildi erlendra vottorða

  Úr dómi Hæstaréttar í máli nr. 418/2017:

   

  "Í niðurstöðu héraðsdóms er þess getið að áfrýjandi hafi lagt fram vottorð til sönnunar á búsetu sinni í Máritaníu árin 2006 til 2010, en þau séu efnislega í ósamræmi við skýrslu hans hjá skattrannsóknarstjóra. Sönnunargildi vottorðanna sé því vafasamt. Vottorðin sem um ræðir eru fjögur talsins, dagsett á árunum 2007 til 2015, og bera áletranir sem vísa til stjórnvalda í fyrrnefndu ríki. Þýðing löggilts skjalaþýðanda fylgir hinu yngsta þessara vottorða, en í því er staðfest lögheimili áfrýjanda í Máritaníu og fjárhæðir skattgreiðslna hans þar. Varðandi þessi gögn er þess að gæta, sem kemur fram í úrskurði ríkisskattstjóra 3. maí 2016 og málatilbúnaði stefnda, að Ísland á ekki í stjórnmálasambandi við Máritaníu auk þess sem hvorki hafa verið gerðir upplýsingaskipta- né tvísköttunarsamningar milli ríkjanna. Því sé ókleift fyrir íslensk stjórnvöld að sannreyna umrædda staðfestingu eða hvort hún sé gefin út af bæru stjórnvaldi. Af öllu framanröktu leiðir að umrædd gögn uppfylla ekki skilyrði svo þau geti komið til álita til að styðja við kröfur áfrýjanda í málinu. Að þessu gættu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans."

   

  Eftirfarandi forsendur komu m.a. fram í dómi héraðsdóms:

   

  "Skattskylda samkvæmt 1. og 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003, gildir um þá sem heimilisfastir eru eða hafa verið hér á landi. Samkvæmt 2. tölul. lagagreinarinnar á ótakmörkuð skattskylda við þegar maður hefur verið heimilisfastur hér á landi en flutt úr landi og fellt niður heimilisfesti sína hér, nema hann sanni að hann sé skattskyldur í öðru ríki á sama hátt og menn heimilisfastir þar og hafi fullnægt þeim skyldum sínum. [...] Í skýrslu skattrannsóknarstjóra kemur fram að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum um vinnutíma stefnanda þá komi fram að þegar stefnandi var ekki við vinnu erlendis hafi hann dvalið hér á landi. Í niðurstöðu skattrannsóknarstjóra kemur fram að stefnandi hafi dvalið á Íslandi 127 daga árið 2006, 120 daga 2007, 121 dag árið 2008, 123 daga 2009 og 105 daga á á árinu 2010. Stefnandi virðist því hafa varið frítíma sínum hér á Íslandi en ekki í Máritaníu. Þá voru laun stefnanda ekki greidd inn á reikninga í Máritaníu heldur hér á Íslandi og í Lúxemborg. Í ljósi þess sem rakið hefur verið, gagna málsins og jafnframt lýsingu stefnanda á aðstöðu sinni að öðru leyti í Máritaníu verður ekki talið að stefnandi hafi verið með fasta búseti í Máritaníu á umræddum árum. Ekki verður talið að framlögð vottorð frá stjórnvöldum í Máritaníu breyti þessari niðurstöðu. Það þá verður ekki talið að í þessu sambandi skipti máli hvort stefnandi hafi dvalið skemur eða lengur en 183 daga utan Íslands á umræddum tekjuárum þar sem telja verður upplýst að þegar stefnandi var ekki á sjó, hafi hann að langmestu leyti dvalið á Íslandi með fjölskyldu sinni. Þar hafi hann haft búsetu hjá foreldum, ættingjum og vinum. Stefnandi telst því samkvæmt gögnum málsins ekki hafa flutt heimili sitt úr landi í skilningi 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003, enda þótt hann hafi tilkynnt sig brottfluttan af landinu. Að virtu framansögðu er það niðurstaða dómsins að stefnandi hafi verið heimilisfastur á Íslandi tekjuárin 2006 til og með 2010 og hafi ekki fellt niður heimilisfesti sína. Í því sambandi er einnig litið til þess að hvorki skýringar stefnanda sjálfs hjá skattrannsóknarstjóra eða fyrir dóminum né gögn málsins gefa til kynna eða sýna fram á að stefnandi hafi átt heimili í Máritaníu og verið skattskyldur þar, hafi greitt þar skatta eða hafi fullnægt skattskyldum sínum þar að öðru leyti eins og menn sem þar eru heimilisfastir."

   

  Í hlekk að ofanverðu má nálgast dóminn í heild sinni.

 • Sala á rekstri – bætur fyrir brot á samkeppnisákvæði

  Úr dómi Hæstaréttar í máli nr. 321/2017:

   

  Staðfest var sú niðurstaða héraðsdóms að A hafi brotið gegn þeirri skuldbindingu sem hann gekkst undir samkvæmt 12. grein kaupsamningsins með atbeina sínum að innflutningi á vörum og öðrum samskiptum í óþökk kaupanda við vöruframleiðanda, sem Í ehf. hafði yfirtekið viðskipti við með kaupsamningnum, og með öðrum aðgerðum sem lýst er í dómnum. Með framangreindri háttsemi sinni rýrði A af ásettu ráði verðmæti hins selda og olli með því Í ehf. tjóni. Á því ber hann skaðabótaábyrgð og þar sem háttsemi hans var saknæm tekur ábyrgðin bæði til beins og óbeins tjóns Í ehf., sbr. 3. mgr. 40. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup.

   

  "Við mat á tjóni áfrýjandans Í ehf. verður fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að hluti af tjóni vegna tapaðrar viðskiptavildar sé ætlað tjón vegna innflutnings P ehf. á þeim tveimur gámum, sem greinir í dóminum. Áfrýjandinn Í ehf. hefur sönnunarbyrði fyrir því hvert tjón félagsins var vegna háttsemi áfrýjandans A. Félagið hefur aflað mats dómkvadds manns um hvert tjón þess hafi orðið vegna missis hagnaðar við það að P ehf. flutti inn til sölu á markaði gám með fiskilínu og fleiri vörum. Niðurstaða matsmannsins var sú að tjón áfrýjandans Í ehf. vegna þessa hafi numið 6.896.443 krónum en eins og fram er komið voru fluttir til landsins tveir gámar með slíkum vörum. Félagið hefur ekki freistað þess að afla mats um tjón sitt að öðru leyti, en gerir kröfu um að skaðabætur verði ákveðnar að álitum, ef ekki verður fallist á útreikning þess sjálfs, sem gerð er grein fyrir í hinum áfrýjaða dómi. Í dóminum, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, kemur fram sú afstaða að það sé erfiðleikum bundið að leggja fram nákvæma útreikninga um rýrnun viðskiptavildar og að ekki sé unnt að ætlast til að áfrýjandinn Í ehf. geti lagt fram nákvæm gögn um fjárhæð tjónsins. Til þess að skaðabætur verði dæmdar að álitum þarf að sýna fram á, auk skaðabótaábyrgðar, að tjón hafi orðið. Svo sem fram er komið hefur áfrýjandinn Í ehf. sannað að félagið hafi orðið fyrir tjóni vegna háttsemi áfrýjandans A. Með vísan til niðurstöðu héraðsdóms verður fallist á að ekki sé líklegt að öflun matsgerðar dómkvadds manns sé, eins og atvikum málsins og eðli skaðabótakröfunnar í málinu er háttað, líkleg til þess að færa mætti málið að þessu leyti í þann búning að komist yrði hjá að ákveða bætur að álitum. Verður því staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að skilyrði séu til þess.”

   

  Við mat á fjárhæð skaðabóta leit Hæstiréttur fyrst og fremst til þess hvaða fjárhæð hefði samkvæmt kaupsamningi verið greidd fyrir viðskiptavild og önnur óefnisleg verðmæti og hvaða áhrif aðgerðir A hefðu haft á umfang helstu viðskiptasambanda. Um ákvörðun bótafjárhæðar sagði Hæstiréttur:

   

  „Við ákvörðun skaðabóta að álitum verður að gæta hófs enda á ekki að geta falist ávinningur í því að ekki liggi fyrir sannanir um fjárhæð tjóns. Þá er þess að gæta að samningsaðilar þar sem settar eru samkeppnishömlur á annan aðilann geta ákveðið með samningi févíti eða annars konar skaðabætur og fjárhæð þeirra ef samningsaðili, eða annar sá sem skuldbindur sig samkvæmt samningum, efnir ekki skyldur sínar. Með vísan til alls framangreinds verður áfrýjandinn A dæmdur til að greiða áfrýjandanum Í ehf. skaðabætur að fjárhæð 25.000.000 krónur með dráttarvöxtum eins og greinir í dómsorði.“

   

  Nálgast má allan dóm Hæstaréttar í hlekk að ofan með fréttinni.

 • Raunveruleikaregla skattaréttar - endurgreiðsla fjármagnstekjuskatts

  Úr forsendum héraðsdóms:

   

  "Kröfur stefnenda eru á því reistar að ríkisskattstjóra hafi verið skylt að verða við beiðni þeirra um endurupptöku og leiðréttingu á því að leggja bæri á þau fjármagnstekjuskatt gjaldárið 2006 í ljósi þeirrar afstöðu skattyfirvalda að líta bæri á Ingimund hf. sem raunverulegan seljanda fiskiskipsins Helgu RE 49, ásamt veiðarfærum og fiskveiðiheimildum, og að söluhagnaðurinn skyldi færður til tekna hjá félaginu. Stefnendur krefjast þess annars vegar að ákvarðanir ríkisskattstjóra frá 12. ágúst 2013 um að hafna beiðni þeirra þar að lútandi verði felldar úr gildi. Hins vegar krefjast þeir endurgreiðslu þess fjármagnstekjuskatts sem þau inntu af hendi á árinu 2006 vegna tekna af sölu hlutabréfa í Fjarðarey ehf., en sú krafa er reist á lögum nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.

   

  [...]

   

  Í skattframtölum stefnenda vegna tekjuársins 2005 voru taldar fram tekjur sem áttu rætur að rekja til hagnaðar af sölu hlutabréfa í Fjarðarey ehf., eins og rakið er í kafla II. Samkvæmt dómi Hæstaréttar frá 12. nóvember 2015 tóku skiptin á Ingimundi hf. ekki gildi fyrr en hluthafafundur í Fjarðarey ehf. hafði samþykkt skiptinguna fyrir sitt leyti 26. september 2005. Þá höfðu stefnendur þegar ráðstafað eignarhlutum sínum í Fjarðarey ehf. með kaupsamningi 27. maí 2005. Þau fengu því aldrei hlutabréf í því félagi í sínar hendur nema að nafninu til og ekki var fullnægt svonefndu gagngjaldsskilyrði 1. mgr. 52. gr. laga nr. 90/2003. Í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar segir að líta verði svo á að með kaupsamningi um hlutafé í hinu óstofnaða félagi, Fjarðarey ehf., frá 27. maí 2005 hafi í reynd verið ráðstafað eignum og réttindum í eigu Ingimundar hf. til kaupenda hlutanna í hinu óstofnaða félagi, enda voru þeir orðnir hluthafar í því þegar eignirnar og réttindin runnu til þess frá Ingimundi hf. Af þessum sökum var skattyfirvöldum rétt með vísan til 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003 að ákveða að kaupverð samkvæmt samningnum skyldi fært til tekna hjá Ingimundi hf. að öðrum skilyrðum endurálagningar fullnægðum.

   

  Hér reynir á hvort þessi niðurstaða gefi tilefni til þess að fella niður álagningu fyrrgreinds fjármagnstekjuskatts er byggðist á því að stefnendur hefðu selt hlutabréf sín í Fjarðarey ehf. gegn umsömdu endurgjaldi. Þó að leiða megi af framangreindum dómi Hæstaréttar Íslands að tekjur af sölu umræddra eigna og réttinda Ingimundar hf. hefðu með réttu átt að falla félaginu í skaut, en ekki stefnendum, verður ekki fram hjá því litið að þeim fjármunum, sem komu fyrir þessi verðmæti, var ráðstafað til stefnanda 16. ágúst 2005, eins og gögn málsins bera með sér, og voru þeim til frjálsrar ráðstöfunar eftir það. Í því ljósi var ríkisskattstjóra rétt að líta svo á að fjármunir er svöruðu til hagnaðar af sölu umræddra verðmæta hefðu runnið til stefnenda og væru því tekjur af hlutareign þeirra í Ingimundi hf. í samræmi við 11. gr. laga nr. 90/2003 sem eru skattskyldar samkvæmt 7. gr. sömu laga. Ekki er fallist á að um óheimila tvísköttun hafi verið að ræða enda getur fjármunum, er svara til söluhagnaðar af eignum hlutafélags og félagið greiðir tekjuskatt af, verið úthlutað til hlutareigenda sem teljast þá skattskyldar tekjur hans í samræmi við fyrrgreint ákvæði laga nr. 90/2003 og 4. tölulið c-liðar 7. gr. laganna. Þá fær dómurinn ekki séð að sú ákvörðun að ráðstafa þessum tekjum til kaupa á hlutafé í Ingimundi hf. af félaginu sjálfu, eins og skattframtal stefnanda, Ármanns Ármannssonar, ber með sér að hann hafi gert, breyti því að honum bar skylda til að greiða skatt af þeim.

   

  Samkvæmt framansögðu hafa stefnendur ekki sýnt fram á að sú breyting skattyfirvalda, að færa hagnað af sölu eigna og réttinda Ingimundar hf. samkvæmt kaupsamningi 27. maí 2005 félaginu til tekna, leiði lögum samkvæmt til þess að fella beri niður skattálagningu sem reist var á tekjum stefnenda af sölu hlutabréfa í Fjarðarey ehf. Sú niðurstaða, sem reist er á almennum og efnislegum mælikvarða 11. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 7. gr. sömu laga, er gilda um hvers konar úthlutun verðmæta úr hlutafélögum, felur ekki í sér óheimila eignaskerðingu samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Þá er sú niðurstaða heldur ekki andstæð atvinnufrelsisákvæði 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar, enda helgast hún af lögmætri álagningu skatts af tekjum stefnenda. Því verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnenda."

   

 • Viðauki við framsalssamning - forkaupsréttur

  Úr dómi Hæstaréttar í máli nr. 796/2016:

  Helsta eign APP ehf. var dótturfélag þess, AP AB, sem í gegnum annað félag átti 30% hlut í móðurfélagi rekstrarfélaga um lyfjaverksmiðju í Bandaríkjunum. Deila aðila um efni áðurgreinds viðauka við framsalssamninginn fólst í því hvort viðaukinn hefði falið í sér framsal 96% hlutafjár C í APP ehf. til B þannig að stofnast hefði til forkaupsréttar A á grundvelli samþykkta APP ehf. Samkvæmt 7. gr. samþykktana skyldu eigandaskipti að hlutum í félaginu ekki öðlast gildi gagnvart því fyrr en stjórn þess hefði verið tilkynnt um það skriflega eða þau verið færð í gerðabók. Þá hefði stjórn forkaupsrétt fyrir félagsins hönd að fölum hlutum, en að því frágengnu hefðu hluthafar forkaupsrétt í hlutfalli við hlutafjáreign sína.

   

  A höfðaði málið til heimtu skaðabóta úr hendi B, C og D og reisti málshöfðun sína á því að stefndu hefðu með saknæmum og ólögmætum hætti valdið honum sem hluthafa APP ehf. tjóni, þegar þeir sem stjórnarmenn í félaginu, seldu helstu eign þess, alla hluti í dótturfélaginu AP AB, til AP ehf., félags í eigu stefnda B, án þess að viðhlítandi endurgjald kæmi fyrir og án þess að halda hluthafafund um málið.

   

  Við úrlausn málsins lagði Hæstiréttur til grundvallar yfirmatsgerð sem hafði verið aflað fyrir héraðsdómi og hafði ekki verið hnekkt. Hæstiréttur rakti forsendur héraðsdóms, en þar kom fram að það var samdóma álit undirmats- og yfirmatsgerða að virði greiðslu sem AP ehf. átti að inna af hendi fyrir hlutina í AP AB hafi verið um kr. 1.500.000.- en í yfirmatsgerð kom fram að verðmæti alls hlutafjár í AP AB hafi numið um 15.100.000 USD,- eða um kr. 1.680.000.000.- Því var staðfest sú niðurstaða héraðsdóm, með vísan til forsendna hans, að eignarhlutir APP ehf. í AP AB hafi við söluna til AP ehf. verið seldir á undirverði. Salan var því B, C og D sem stjórnarmönnum í félaginu bæði ólögmæt og saknæm. Þá var jafnframt miðað við það að A hefði fyrst fengið áreiðanlega vitneskju um viðauka við framsalssamninginn þegar hann var lagður fram í vitnamáli í Héraðsdómi Reykjavíkur í ágúst 2011, rösklega tveimur árum eftir gerð hans. Því hefði A ekki fyrirgert forkaupsrétti sínum með tómlæti. B, C og D var því gert að greiða A skaðabætur að fjárhæð kr. 640.089.000,- fyrir að hafa með saknæmri og ólögmætri háttsemi staðið því í vegi að A fengi notið réttinda sinna sem hluthafi í APP ehf. en fjárhæðin er sú sem A hefði á grundvelli þriðjungs eignahlutar í APP ehf. mátt vænta að fá við sölu á hlut sínum í félaginu á umræddu tímamarki. 

 • Gildi kaupsamnings - prókúruumboð og umboð til mikils háttar ráðstafana

  Úr dómi Hæstaréttar í máli nr. 65/2017:

  S var framkvæmdastjóri kaupanda, B ehf., og hafði undirritað kaupsamning um fiskiskip fyrir hönd B ehf. Samkvæmt hlutafélagaskrá sat GS, sonur S, einn í stjórn félagsins, en S framkvæmdastjóri þess. Kaupsamningurinn var ekki undirritaður af GS og lá ekkert fyrir um það að stjórnarmaður B ehf. hefði veitt framkvæmdastjóranum umboð til að skrifa undir kaupsamninginn í nafni félagsins.

   

  Í dómi Hæstaréttar voru rakin ákvæði laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, og var þar sérstaklega fjallað um 44. gr. þeirra laga. Sagði að samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laganna færi stjórn einkahlutafélags með málefni þess, komi fram út á við fyrir hönd félagsins og riti firma þess en megi jafnframt veita m.a. framkvæmdastjórum heimild til að rita firmað sé ekki kveðið á um annað í samþykktum félags. Samkvæmt 4. mgr. 44. gr. laganna geti stjórn ein veitt prókúruumboð fyrir félag. Þá sagði að samkvæmt 2. mgr. 41. gr. laganna skuli framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur samkvæmt stefnu og fyrirmælum stjórnar, en daglegur rekstur taki ekki til óvenjulegra eða mikils háttar ráðstafana, þær geti framkvæmdarstjóri aðeins framkvæmt eftir sérstakri heimild stjórnar.

   

  Stjórn B ehf. hafði veitt S, framkvæmdastjóra félagsins, prókúruumboð fyrir félagið. Samkvæmt 25. gr. laga nr. 42/1903 um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð, getur prókúruhafi annast allt er snertir rekstur atvinnu umbjóðanda síns. Við mat á þessu leit Hæstiréttur til skráðs tilgangs félagsins B ehf., sem var samkvæmt samþykktum þess: ,, smábátaútgerð og tengdur rekstur, rekstur fasteigna og lánastarfsemi." Að því virtu gætu kaup á skipi ekki fallið undir rekstur atvinnu í skilningi 25. gr. laga nr. 42/1903 um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð.

   

  Þá voru engin gögn lögð fram um að stjórnarmaður B ehf. hefði falið framkvæmdastjóranum að gera umrædda ráðstöfun sem fólst í undirritun kaupsamnings um fiskiskip eða veitt honum fyrir fram eða eftir á umboð til þessa. Með því að framkvæmdastjórinn átti hvorki sæti í stjórn félagsins eða né hafði sérstaka heimild til að rita firma félagsins var hann ekki til þess bær samkvæmt ákvæðum laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, að gera umrædd kaup í nafni félagsins, enda félli sú ráðstöfun ekki innan marka daglegs reksturs í skilningi 2. mgr. 44. gr. sömu laga.

   

  Framkvæmdastjóri S gat því ekki skuldbundið B ehf. með því að undirrita kaupsamning um fiskiskip og var B ehf. því sýknað af kröfum seljanda, H ehf.

   

 • Fjárdráttur - skattsvik

  Úr Hæstaréttardómi nr. 514/2017:

  Ákærði sat sem fyrr segir einn í stjórn A ehf. og gegndi þar jafnframt starfi framkvæmdastjóra frá því að félagið var skráð í fyrirtækjaskrá 11. apríl 2003 þar til 13. mars 2009. Á þeim grunni fór hann með heimildir, sem um ræðir í 44. gr. laga nr. 138/1994, til að ráða hagsmunum félagsins á því tímabili. Eftir gögnum málsins virðist ákærði jafnframt hafa þá einn haft heimild til ávísunar á bankareikning félagsins. Fyrrgreindar sakargiftir samkvæmt ákæru snúa að því að ákærði hafi með nánar tilteknum ráðstöfunum dregið sér fjármuni félagsins og brotið með því gegn 247. gr. almennra hegningarlaga. Kemur því ekki til skoðunar hvort þessar ráðstafanir gætu í einhverjum atriðum hafa verið andstæðar 1. mgr. 79. gr., sbr. 2. tölulið 127. gr. laga nr. 138/1994, eða hvort ákærði kunni með þeim að hafa misnotað aðstöðu, sem leiddi af því að hann hafði á hendi fjárreiður fyrir A ehf., sbr. 249. gr. almennra hegningarlaga.

   

  Þegar málið er virt í framangreindu ljósi verður að gæta að því að rannsókn þess hefur í ýmsu verið áfátt með tilliti til þeirra saka, sem ákærði er borinn. Þannig hafa meðal annars hvorki verið lögð fram reikningsskil fyrir A ehf. frá nokkru tímabili né teljandi gögn um hvernig háttað hafi verið fjárhag félagsins, færslum í bókhaldi þess eða stöðu einstakra reikningsliða þar á mismunandi tímum. Um þetta er því í raun ekki við annað að styðjast en þær takmörkuðu upplýsingar, sem greint var frá í úrskurðum ríkisskattstjóra 2. september 2011 varðandi endurákvörðun opinberra gjalda ákærða og A ehf., en í þeim úrskurðum var sem fyrr segir gengið út frá því að allar greiðslur til ákærða, sem mál þetta varðar, ættu samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003 að skoðast sem laun til hans. Miðað við það, sem fram kom í úrskurðunum, verður að byggja á því að greiðslurnar, sem ákærði ráðstafaði af bankareikningi félagsins og sakargiftir á hendur honum lúta að, hafi allar verið færðar í bókhaldi þess. Færslur þessar hafi meðal annars valdið lækkun á eignarlið vegna innstæðu á bankareikningnum, en jafnframt hafi verið mynduð bókfærð eign félagsins sömu fjárhæðar, ýmist sem krafa þess á hendur ákærða samkvæmt viðskiptareikningi hans eða á bókhaldslið fyrir verk í vinnslu. Með því að ákæruvaldið hefur ekki aflað í málinu frekari gagna, sem að þessu geta snúið, verður að virtri 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að leggja til grundvallar að ráðstafanir þessar hafi ekki jafnharðan skert eignir félagsins, heldur hafi þær leitt af sér tilfærslu verðmæta milli einstakra eignaflokka, svo sem birst hafi í bókhaldi þess. Af þessum ástæðum getur ákærði ekki talist einvörðungu með framkvæmd þessara ráðstafana hafa hverju sinni tileinkað sér hluta af fjármunum félagsins, sem hann hafði í vörslum sínum, og svipt það um leið varanlega umráðum yfir þeim fjármunum þannig að hann hafi þá þegar brotið með háttsemi sinni gegn 247. gr. almennra hegningarlaga. Í málinu liggur ekkert fyrir um afdrif þeirra eigna, sem færðar voru í bókhaldi A ehf. sem inneign félagsins á viðskiptareikningi ákærða eða andvirði verka í vinnslu, á tímanum sem leið frá lokum árs 2005 þar til ákærði lét af forræði á félaginu á árinu 2009. Hefur ákæruvaldið þannig ekkert leitt í ljós um atvik á því tímabili, sem gætu hafa falið í sér að ákærði hafi þá tileinkað sér þessi verðmæti að einhverju leyti eða öllu. Er að þessu virtu óhjákvæmilegt að líta svo á að ósannað sé að tilgangur ákærða hafi verið annar en að koma sér með framkvæmd ráðstafana sinna undan því að greiða um sinn opinber gjöld af endurgjaldi fyrir vinnu sína í þágu A ehf. og annarri úthlutun verðmæta frá félaginu, svo sem skattyfirvöld byggðu á. Samkvæmt öllu framansögðu verður því að sýkna ákærða af kröfum ákæruvaldsins.

 • Skipun verjenda hafnað - vitni

  Úr dómi Hæstaréttar nr. 539/2017:

  Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. ágúst 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. ágúst 2017, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að felld yrði úr gildi synjun embættis héraðssaksóknara um að skipa nafngreindan hæstaréttarlögmann verjanda við rannsókn embættisins á tilteknu máli. Kæruheimild er í d. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og kærumálskostnaðar. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Ákvæði 4. mgr. 33. gr. laga nr. 88/2008 er fortakslaust um að ekki megi skipa þann verjanda sem kann að verða kvaddur til að gefa skýrslu sem vitni í máli, sbr. dóm Hæstaréttar 25. febrúar 2014 í máli nr. 131/2014. Samkvæmt því og að því virtu að sóknaraðili hefur lýst því yfir að sér sé skylt að kveðja lögmanninn til skýrslutöku við rannsókn málsins verður hinn kærði úrskurður staðfestur enda liggur ekki fyrir að þau áform séu með öllu tilefnislaus.