Velkomin á heimasíðu Skattatíðinda.is

Breytingar á sköttum og öðrum opinberum gjöldum eru tíðar. Breytingarnar skipta einstaklinga og fyrirtæki miklu máli og því er mikilvægt að fylgjast vel með. Á heimasíðu Skattatíðinda má ávallt nálgast nýjustu upplýsingar á aðgengilegan og einfaldan hátt.

 

Ef einhverjar spurningar vakna eru starfsmenn KPMG ehf. ávallt reiðubúnir að aðstoða.

E.g., 2017-10-21
E.g., 2017-10-21
 • Refsimál - vanskil VSK

  Úr héraðsdómi nr. S-75/2017:

  Um málavaxtalýsingu er skírskotað til ákæru sem byggð er á rannsókn lögreglu sem fram fór eftir að skattrannsóknarstjóri ríkisins vísaði málinu þangað með bréfi 2. febrúar 2017. Málið varðar vanskil á virðisaukaskattskýrslum og einnig vanskil á virðisaukaskatti vegna einkahlutafélagsins [...] ehf. Með játningu ákærða, sem fær stoð í gögnum málsins, hafa viðhlítandi sönnur verið færðar fram fyrir sök ákærða samkvæmt ákæru. Ákærði er því sekur um að hafa sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður [...] ehf. látið hjá líða að standa skil á virðisaukaskattskýrslum á lögmæltum tíma vegna hluta þeirra tímabila sem tilgreind eru í ákæruskjali héraðssaksóknara og vanrækt að standa skil á virðisaukaskatti, samtals að fjárhæð 18.940.552 krónur. Verða brot hans í ljósi þeirrar fjárhæðar að teljast meiri háttar í skilningi 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Eru brot hans jafnframt rétt heimfærð í ákæru til refsiákvæða laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Bú  [...] ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 28. janúar 2016. Skiptum á búinu lauk 26. maí 2016 og var félagið afskráð 31. maí sama ár.  Ákærði, sem fæddur er [...], hefur ekki áður sætt refsingu. Ákærði hefur játað brot sín hreinskilningslega. Þykir refsing hans, með hliðsjón af framanrituðu, hæfilega ákveðin fangelsi í fimm mánuði. Rétt þykir að fresta fullnustu þeirrar refsingar og fellur hún niður að tveimur árum liðnum frá uppsögu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Ákærði verður enn fremur, samkvæmt heimild í 2. málslið 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, dæmdur til greiðslu fésektar í ríkissjóð. Í 1. málslið 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 er kveðið á um lágmark fésektar í tilvikum eins og hér um ræðir, er nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem dregin var undan og vanrækt var að greiða. Með 3. gr. laga nr. 134/2005 var nýjum málsliðum bætt við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 sem er efnislega á þá leið að fésektarlágmark samkvæmt þessari málsgrein eigi ekki við hafi brot einskorðast við að standa ekki skil á virðisaukaskatti samkvæmt skýrslu þar um, enda hafi verið staðin skil á verulegum hluta skattfjárhæðar eða málsbætur eru miklar. Gengið hafa nokkrir dómar í Hæstarétti Íslands þar sem framangreind ákvæði hafa verið skýrð og er í dómi þessum tekið mið af þeim, sbr. t.d. dóma réttarins í málum nr. 71/2010, 77/2010 og 413/2011. Í málsgögnum eru tilgreindar innborganir inn á skattskuld þess félags sem um ræðir. Eru fjárhæðir slíkra innborgana óumdeildar. Bárust greiðslur inn á alls níu tímabil sem teljast greidd að verulegu leyti, það er meira en 1/3 hluti, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 428/2005, en þar sem skýrslu var ekki skilað á lögmæltum tíma vegna þriggja tímabila er skilyrði fyrrnefndra laga sem breyttu 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt til að lækka sektarrefsingu niður úr fésektarlágmarki ákvæðisins ekki fyrir hendi hvað þau tímabil varðar, sbr. fyrrnefndan dóm Hæstaréttar í málinu nr. 77/2010. Um er að ræða tímabilin mars-apríl til og með júlí-ágúst rekstrarárið 2011. Hvað hin sex tímabilin varðar, það er janúar-febrúar, september-október, nóvember-desember rekstrarárið 2011, mars-apríl rekstrarárið 2012, nóvember-desember 2013 og september-október 2014 er fullnægt skilyrðum til að lækka sektarrefsingu niður úr fésektarlágmarki. Samkvæmt þessu verður sektarrefsing ákærða ákveðin með hliðsjón af áðurgreindu refsilágmarki og að teknu tilliti til innborgana inn á skattskuld félagsins. Verður ákærði dæmdur til að greiða 29.824.494 krónur í sekt til ríkissjóðs, sem ákærða ber að greiða innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa að telja. Um vararefsingu fer samkvæmt því sem greinir í dómsorði. 

   

  D ó m s o r ð:

  Ákærði, X, sæti fangelsi fimm mánuði en fullnustu þeirrar refsingar er frestað og fellur hún niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði greiði 29.824.494 krónur í sekt til ríkissjóðs. Verði sektin ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppsögu dómsins að telja skal ákærði sæta fangelsi í átta mánuði.  

 • Refsimál - vanskil VSK - bókhaldsbrot

  Úr héraðsdómi nr. S-31/2017:

  Á árinu 2008 var ákærði skráður stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Bis ehf. með prókúru. Ákærði vildi ekki tjá sig fyrir dóminum en hann var yfirheyrður af skattrannsóknarstjóra og sérstökum saksóknara við rannsókn málsins. Í skýrslutöku hjá lögreglu vildi hann í fyrstu ekki tjá sig um framangreint, en sagðist svo ekki telja þetta rétt og ekki vera viss um að um sína undirskrift væri að ræða. Hjá skattrannsóknarstjóra viðurkenndi ákærði að hafa átt félagið og rekið það ásamt öðrum. Þá staðfesti hann að skráning í fyrirtækjaskrá væri rétt og kannaðist við undirskrift sína á tilkynningum til fyrirtækjaskrár. Ekki verður annað séð en að undirritanir á framangreindar tilkynningar stafi frá ákærða og hefur hann ekki gefið skýringu á breyttum framburði sínum. Samkvæmt þessu er sannað að ákærða hafi borið, lögum og stöðu sinni samkvæmt, að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum í samræmi við reglur laga nr. 50/1988, sbr. 44. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Þá bar hann einnig ábyrgð á því að bókhald félagsins væri fært lögum samkvæmt. Með gögnum málsins er sannað að virðisaukaskattsskýrslum var ekki skilað vegna þeirra tímabila á árinu 2008 sem ákært er fyrir og að skatturinn var ekki greiddur. Þá var lögboðið bókhald félagsins ekki fært. Eins og að framan greinir hefur ákærði borið því við að ekkert bendi til þess að virðisaukaskattur hafi verið innheimtur og skattrannsóknarstjóri hafi talið reikningana tilhæfulausa. Í skýrslutöku af ákærða hjá skattrannsóknarstjóra kvaðst hann hafa gefið út þá reikninga sem byggt er á í málinu og hafa handskrifað þá auk þess sem hann hefði undirritað greiðslukvittanir. Hann kvað reikningana alla hafa verið greidda út í hönd og peningarnir hefðu verið notaðir til að greiða laun og fleira. Þá taldi hann að viðskiptafélagi hans hefði skrifað þann reikning sem hann kannaðist ekki við undirskrift á hjá lögreglu. Skylda ákærða til að skila virðisaukaskattsskýrslum og greiða skattinn stofnaðist við útgáfu reikninganna. Í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er refsing meðal annars lögð við því að maður afhendi ekki á lögmæltum tíma virðisaukaskattsskýrslu eða virðisaukaskatt, sem hann hefur innheimt eða bar að innheimta. Brot er því samkvæmt þessu fullframið þegar skýrsla eða skattur, sem innheimtur var eða bar að innheimta, er ekki afhent á réttum tíma og er refsinæmi verknaðarins óháð því hvort selt var gegn gjaldfresti eða hvort andvirði seldrar vöru eða þjónustu hafi þegar verið innheimt. Samkvæmt framburði ákærða sjálfs hjá skattrannsóknarstjóra var starfsemi í félaginu Bis ehf. og reikningar gefnir út á þess vegum vegna útseldrar vinnu og er það í samræmi við gögn málsins. Hann lýsti því að félagið hefði stundað viðskipti, meðal annars hefðu þeir leigt út vinnuafl og tekið að sér verkefni við smíðar. Ákærða bar því samkvæmt stöðu sinni að sjá til þess að bókhald væri fært í samræmi við lög og venjur, sbr. 3. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994. Samkvæmt öllu framangreindu verður ákærði sakfelldur fyrir þau brot sem honum eru gefin að sök í ákæru og er háttsemi hans rétt heimfærð til refsiákvæða.

 • Sérfræðiábyrgð endurskoðanda

  Úr héraðsdómi nr. E-873/2016: 

  Stefndi [x] skilaði svo inn röngu skattframtali fyrir stefnanda vegna tekjuársins 2005, með því að gera ekki grein fyrir söluhagnaði og rekstrarhagnaði vegna reksturs fasteignarinnar. Var skattframtalinu skilað án þess að það væri borið undir stefnanda og án þess að stefnanda væri gerð grein fyrir því hvaða afleiðingar það gæti haft að skila efnislega röngu framtali. Á þeim tíma var stefndi Fjárstoð ehf. vinnuveitandi stefnda [x]. Stefndi [x] veitti stefnanda umrædda ráðgjöf og þjónustu við eftirfarandi skattskil sem löggiltur endurskoðandi og er því hafnað að hann hafi farið út fyrir stöðuumboð sitt. Einnig er því hafnað sem haldið hefur verið fram um að stefnandi geti ekki sótt bætur til vinnuveitanda þar sem stefndi [x] hafi verið tryggður starfsábyrgðartryggingu. Því er enn fremur hafnað að ekki hafi verið viðskiptasamband milli stefnda [x] og stefnanda eða að stefndi  [x] hafi unnið fyrir stefnanda í einkaerindum, en ekkert í málinu styður það. Stefndu geta ekki firrt sig ábyrgð með því að stefnandi beri ábyrgð á eigin skattskilum og félaga sinna. Eins og áður segir var skattframtalið ekki borið undir stefnanda áður en því var skilað til skattyfirvalda og stefnandi hafði leitað til stefnda [x] sem sérfræðings og treysti því að ráðgjöf hans og skattskil væru í samræmi við lög. Þá hafa stefndu ekki sýnt fram á að stefnandi hafi verið þaulvanur fjárfestir og að ekki hafi verið aðstöðumunur á aðilum. Með vísan til alls framangreinds verða stefndu Deloitte ehf., Fjárstoð ehf. og [x] dæmdir óskipt til að greiða stefnanda skaðabætur vegna tjóns sem leiddi af störfum stefnda [x]. Tjón stefnanda felst í því að skattyfirvöld ákváðu tekjuviðbót hjá stefnanda vegna tekjuársins 2005 og bættu við hækkunina 25% álagi.

 • Heimilisfesti - ótakmörkuð skattskylda

  Úr héraðsdómi nr. E-2074/2016:

  Í þeirri rannsókn skattrannsóknarstjóra sem stefndi byggði ákvörðun sína að verulegu leyti á og áður er gerð grein fyrir, kom fram að stefnandi hefði, þrátt fyrir tilkynningu um flutning lögheimilis, áfram átt íbúð og bifreiðir og dvalið hér á landi stóran hluta ársins. Þá lá fyrir að stefnandi hafði ekki keypt fasteign í Máritaníu eða stofnað fjölskyldu þar í landi eða þegið þar laun. Bentu þessi atriði til þess að stefnandi hefði í reynd takmörkuð tengsl við Máritaníu og helgaðist dvöl hans í landinu fyrst og fremst af störfum hans við fiskveiðar í lögsögu ríkisins. Eins og atvik málsins lágu fyrir samkvæmt þessu telur dómurinn að stefnanda hafi borið að sýna fram á það með tiltækum gögnum að hann hefði í reynd stofnað til nýs heimilis í Máritaníu og lagt niður fyrra heimili sitt hér á landi. Að mati dómsins verður ekki hjá því litið að rannsókn málsins ber með sér að stefnandi hefur átt í erfiðleikum með að tilgreina rétt heimilisfang sitt í Máritaníu. Þótt fyrir liggi tveir leigusamningar og kvittanir fyrir leigugreiðslum hafa engin önnur gögn verið lögð fram sem styðja að stefnandi eigi raunverulega búsetu í landinu í skilningi 1. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili. Telur dómurinn að stefnanda hefði, eftir áralanga ætlaða búsetu í landinu, átt að vera í lófa lagið að leggja fram gögn um þau margvíslegu tengsl sem stofnast við það land sem maður flytur heimili sitt til og býr í. Hvað sem líður afstöðu stefnda til staðfestinga máritanískra stjórnvalda sem lagðar hafa verið fram í málinu, verður því að fallast á þá meginniðurstöðu í umræddum úrskurði að ekki hafi verið lögð fram gögn sem sýni að stefnandi hafi stofnað til heimilis í Máritaníu og tekið þar upp eiginlega búsetu. Er niðurstaða stefnda um að stefndi teljist hafa verið heimilisfastur hér á landi, þrátt fyrir tilkynningu sína um flutning lögheimilis, þar af leiðandi í samræmi við 1. gr. laga nr. 90/2003, eins greinin verður skýrð til samræmis við 2. gr. laga nr. 21/1990. Verður því ekki fallist á að úrskurður stefnda sé ólögmætur að efni til. Þá eru þeir annmarkar á úrskurðinum, sem áður hefur verið vikið að, ekki þess eðlis að þeir hafi þýðingu um efnislega niðurstöðu þannig að leitt geti til ógildis. Samkvæmt framangreindu verður stefndi sýknaður af kröfu stefnanda.

 • Refsimál - vanframtaldar rekstrartekjur - úttekt úr rekstri

  Úr héraðsdómi nr. S-523/2016:

  Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.  Við ákvörðun refsingar verður litið til játningar ákærða hér fyrir dómi. Þá hefur ákærði ekki áður verið fundinn sekur um refsiverða háttsemi. Vísast í þessu sambandi til 5. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í tólf mánuði. Að framangreindu virtu þykir fært að fresta fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Einnig ber að dæma ákærða til sektargreiðslu en vegna þess hve stórfelld brot hans eru er ekki unnt að takmarka sektarfjárhæð við lágmörk viðeigandi laga. Að þessu virtu er fjárhæð sektar ákveðin 62.540.034 krónur sem ákærða ber að greiða til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa. Með hliðsjón af því að sektarfjárhæð er umfram lögbundið lágmark og með hliðsjón af viðmiðunarreglum dómstólaráðs þykir vararefsing hæfilega ákveðin fangelsi í tíu mánuði.

 • Refsimál - vanskil VSK og staðgreiðslu launa

  Í héraðsdómi  nr. S-717/2016 kemur eftirfarandi fram:

  Ákærði [X], hefur skýlaust játað brot sitt. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Ákærði [Y], hefur skýlaust játað brot sitt. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Með hliðsjón af greiðlegri játningu ákærðu, sem ekki hafa áður sætt refsingu svo kunnugt sé, og dómvenju á þessu réttarsviði er refsing ákærðu ákveðin þannig að ákærði [X] sæti fangelsi í 10 mánuði, sem heimilt þykir að skilorðsbinda svo sem í dómsorði er mælt fyrir. Ákærði  [Y] sæti fangelsi í 3 mánuði, sem einnig þykir heimilt að skilorðsbinda svo sem í dómsorði greinir. Ákærði [X] greiði 87.300.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins en sæti ella fangelsi í 12 mánuði. Ákærði  [Y] greiði 7.350.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins en sæti ella fangelsi í 4 mánuði.

 • Óheimil lánveiting - skattskyld gjöf

  Úr héraðsdómi nr. E-3623/2015:

  Óumdeilt er í málinu að Velsæld ehf. tók umrætt lán hjá Glitni banka hf., m.a. með sjálfskuldarábyrgð stefnanda, og endurlánaði stefnanda sem síðan endurgreiddi það lánveitanda, Glitni banka hf., beint. Lánveitingin til stefnanda með þessum hætti er í andstöðu við ákvæði 79. gr. laga nr. 138/1994 og því felur hún í sér skattskylda gjöf, sbr. 2. mgr. 4. tölul. 7. gr. laga nr. 90/2003. Með hliðsjón af þessu verður ekki heldur talið að ríkisskattstjóra hafi borið að leggja sérstakt mat á raunverulegt verðmæti hinnar skattskyldu gjafar sem fólst í hinu ólögmæta láni, með hliðsjón af veitingu veðréttar eða hinnar persónulegu ábyrgðar hans.

   

  Kemur þá til skoðunar hvort sú ákvörðun ríkisskattstjóra, sem staðfest var með úrskurði yfirskattanefndar, að færa stefnanda til tekna í skattframtali 2008, 40.938.331 krónu að viðbættu 25% álagi hafi verið heimil. Óumdeilt er að stefnandi var einn af þremur hluthöfum í Velsæld ehf. og eigandi að þriðjungi hlutafjár í því félagi. Á árinu keypti stefnandi ásamt öðrum hluthöfum hlut í félaginu Virðingu ehf. og var stefnandi skráður persónulega fyrir hlutafjáreign sinni. Voru kaupin fjármögnuð með láni sem Glitnir banki hf. veitti Velsæld ehf. Í ársreikningi Velsældar ehf. árið 2007 eru tilgreindar Kröfur á tengda aðila að fjárhæð 172.134.606 krónur. Í skattframtali stefnanda 2008 er tilgreind hlutafjáreign í Velsæld ehf. að nafnverði 333.333 krónur. Þá er þar einnig talin fram skuld stefnanda við Velsæld ehf. að fjárhæð 46.000.000 króna. Ekki var gerður skriflegur lánssamningur á milli Velsældar ehf. og stefnanda, en stefnandi hefur m.a. borið því við að hann hafi verið raunverulegur lántaki lánsins, en ekki Velsæld ehf. Því til stuðnings bendir stefnandi á að hann hafi gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir láninu gagnvart bankanum, bankinn hafi fengið veð í bréfunum og að hann hafi persónulega endurgreitt lánið til bankans ásamt vöxtum á árinu 2011. Telur stefnandi að Velsæld ehf. hafi verið hinn formlegi lántaki, en stefnandi hinn raunverulegi lántaki. Dómurinn telur að virtum gögnum málsins, að Velsæld ehf. hafi fjármagnað kaup stefnanda á 12% hluta í Virðingu ehf. á árinu 2007. Telur dómurinn því, eins og fyrr segir, að um hafi verið að ræða lánveitingu til hluthafa er sé andstæð 79. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Af því leiðir að skýringar stefnanda, þess efnis að hann hafi verið hinn raunverulegi lántak, en Velsæld ehf. hinn formlegi lántaki, eiga ekki við rök að styðjast og eru auk þess í beinni andstöðu við skattskil stefnanda og Velsældar ehf.

 • Endurgreiðsla oftekinna skatta - dráttarvaxtatímabil

  Úr héraðsdómi nr. E-3941/2015:

   

   

  [...]   Ákvæði 1. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 mæla fyrir um að við endurgreiðslu oftekinn skatta og gjalda skv. 1. gr. skuli greiða gjaldanda vexti sem skulu vera þeir sömu og Seðlabanki Íslands ákveður og birtir skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af því fé frá þeim tíma sem greiðslan átti sér stað og þar til endurgreiðslan fer fram. Í 2. mgr. 2. gr. segir að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skuli greiða dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim tíma er gjaldandi sannanlega lagði fram kröfu um endurgreiðslu ofgreiddra skatta eða gjalda. Í 4. mgr. segir að ákvæði greinarinnar gildi ekki þar sem lög mæla fyrir á annan veg. Lög nr. 29/1995 eru frá 6. mars 1995 og samhliða samþykkt þessara laga voru samþykkt lög nr. 31. 6. mars 1995 sem tóku til breytinga á ýmsum lögum er vörðuðu rétt til endurgreiðslu og vaxta af ofteknum sköttum og gjöldum, þar á meðal 112. gr. laga nr. 75/1981 um tekju- og eignarskatt og bættist þá við 3. mgr. við greinina. Hún varð síðar óbreytt að 3. mgr. 114. gr. laga nr. 90/2003 sem stefndi byggir á að eigi við um sakarefnið í máli þessu. Í 3. mgr. laga 90/2003 segir að sé kæra til meðferðar hjá yfirskattanefnd og nefndin leggur ekki úrskurð á kæru innan lögboðins frests skv. 1.  og 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992 skuli greiða skattaðila dráttarvextai af fjárhæð sem yfirskattanefn úrskurðar að skuli endurgreiða, eða dæmd er síðar, frá þeim tíma þegar frestur nefndarinnar til að kveðju upp úrskurð leið. Í 4. mgr. segir síða n að ætíð megi krefjast dráttarvaxta frá þeim tíma er dómsmál telst höfðað til endurgreiðslu skatt samkvæmt lögum þessum. Samkvæmt því sem rakið hefur verið fjalla 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 og 3. mgr. 114. gr. laga nr. 90/2003 ekki um sama tilvikið.

   

  Við mat á því hvor þessara reglna eigi við um atvik í máli þessu ber til þess að líta að almenna reglan er sú að heimilt er að krefjst dráttarvaxta frá þeim degi er liðinn er mánuður frá því að kröfuhafi sannanlega krafði skuldara með réttu um greiðslu, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Í athugasemdum með frumvarpi með lögum nr. 29/1005 segir að: „Rökin með greiðslu dráttarvaxta eru þau að slíkir vextir eru lögbundnar bætur vegna tjóns sem almennt má ætla að kröfuhafi verði fyrir vegna greiðsludráttar og þá jafnframt að jafna megi oftöku skattfjár til slíks greiðsludráttar. Gjaldendur sjálfir þurfi í öllum tilvikum að greiða dráttarvexti ef þeir greiða ekki álögð gjöld á gjalddaga og því sé sanngjarnt að þeir fái féð til baka með sömu vöxtum ef í ljós kemur á síðari stigum að þeir hafi greitt of mikið“. Í athugasemdum segir síðan að meginreglan um vexti ofgreiddra skatta eigi að vera sú að beita almennum vöxtum, en þrátt fyrir þá meginreglu er gerð grein fyrir því að í frumvarpinu sé viðurkenndur réttur til greiðslu dráttarvaxta af  ofgreiðslu skatta ef gjaldandi fær ekki endurgreidda skatta innan 30 dag  eftir að hann setur fram kröfu þar að lútandi. Síðan segir í athugasemdum að dráttarvaxtaákvæði frumvarpsins sé fyrst og fremst ætlað að ná til þeirra tilvika þegar ágreiningur er milli gjaldanda og stjórnvalda um grundvöll eða fjárhæð skattgreiðslu. Í þeim tilvikum séu stjórnvöldum heimil innheimtuúrræi gegngjaldanda og þyki eðlilegt að gjaldandi fá fé endurgreitt með dráttarvöxtum ef á síðari stigum máls er viðurkenndur endurgreiðsluréttur. Telja verður að vilji löggjafans sé skýr hvað þetta varðar. Hér er um sérreglu að ræða, en telja verður að hún eigi við varðandi það álitaefni sem hér er til úrlausnar. Atvik eru hins vegar ekki með þeim hætti sem lýst er í 3. mgr. 114. gr. laga nr. 90/2003. Hafnað er því rökstuðingi stefnda fyrir því að hún eigi við um sakarefni í máli þessu. Þá vísast í þessu sambandi til dóms Hæstaréttar Íslands í málin nr. 241/2010.

   

  Stefnandi  greiddi tollstjóra þann 21. janúar 2014 framangreinda hækkun ríkisskattstjóra á tekjuskatti hans og gerði á sama degi kröfu um endurgreiðslu hins oftekna skatts. Með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 um dráttar vexti um endurgreiðslu oftekinni skatta og gjalda er fallist á kröfu stefnanda um Tollstjóra beri að miða dráttarvaxtaútreikning við 21. janúar 2014, sbr. 2. tl. dómkrafna stefnanda. Samkvæmt þessari niðurstöðu er fallist á kröfu stefnanda um að hrundið verði úrskurði fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dags. 18. september 2015 og úrskurði tollstjóra, dags. 4. mars  2015 í málum stefnanda, en í úrskurðum var byggt á að miða ætti upphafstíma dráttarvaxta með vísan til 3. mgr. 114. gr. laga nr. 90/2003.

 • Stjórnarlaun - tekjur af kauprétti á hlutabréfum

  Úr héraðsdómi nr. E-5148/2014:

   

  Ríkisskattstjóri og skattrannsóknarstjóri ríkisins eru hliðsett stjórnvöld þar sem ríkisskattstjóri fer með skatteftirlit sem eftir atvikum lýkur með endurákvörðun opinberra gjalda, en skattrannsóknarstjóri með rannsókn skattsvika og annarra skattalagabrota og tekur síðan ákvörðun um refsimeðferð í kjölfar rannsóknar. Óumdeilt er að skattrannsóknarstjóri lauk rannsókn sinni á skattskilum stefnanda án þess að til refsingar kæmi. Hvorki rannsóknin sem slík né sú ákvörðun embættisins að ljúka henni án refsimeðferðar hefur áhrif á heimildir ríkisskattstjóra til endurákvörðunar á opinberum gjöldum stefnanda. Verður ekki talið að endurákvörðun ríkisskattstjóra á skattskilum stefnanda og þar með talin álagsbeiting ríkisskattstjóra sem staðfest var með úrskurði yfirskattanefndar hafi farið í bága við ákvæði um bann við endurtekinni málsmeðferð til úrlausnar um refsiverða háttsemi vegna sama atviks samkvæmt 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu. Er því hafnað þeirri málsástæðu stefnanda að málsmeðferð skattyfirvalda í máli stefnanda hafi brotið í bága við greind ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu.

   

  [...]

   

  Samkvæmt 5. málsl. 1. mgr. 70. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög skal formaður félagsstjórnar ekki taka að sér önnur störf fyrir félagið en þau sem teljast eðlilegur hluti starfa hans sem stjórnarformanns, að undanskildum einstökum verkefnum sem félagsstjórnin felur honum að vinna fyrir sig. Stjórnarformaður er eins konar oddviti stjórnarinnar og segja má að hann hafi sérstöku hlutverki að gegna við eftirlit félagsstjórnar með starfsemi félagsins og framkvæmdastjórnar þess. Í þessu ljósi ber að skýra umrætt ákvæði þannig að þau einstöku verkefni sem félagsstjórnin felur honum að vinna skuli fremur lúta að stefnumótun félagsins og hugsanlegum undirbúningi að veigamiklum samningum eða breytingum á félagsstarfseminni, heldur en að daglegum rekstri. Þau störf sem stefnandi tók að sér að inna af hendi samkvæmt ráðningarsamningum hans við Kaupþing ber að skýra með hliðsjón af fyrrgreindu ákvæði laga um hlutafélög. Í samningi stefnanda við Kaupþing vegna starfa stefnanda sem „starfandi stjórnarformanns‟ er gert ráð fyrir að samið sé við stefnanda um sérstök verkefni sem falli utan starfslýsingar stjórnarformanns og að með samningnum taki stefnandi að sér að vera starfandi stjórnarformaður Kaupþings. Sé helsta verkefnið að samræma störf hinna ýmsu alþjóðlegu útibúa og dótturfyrirtækja störfum bankans, gegna starfi stjórnarformanns systurfélaga og dótturfélaga, leita tækifæra til að þróa starfsemi bankans o.fl. Í ljósi þessa og með vísan til 5. málsl. 1. mgr. 70. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög er það niðurstaða dómsins að umrædd verkefni sem stefnanda voru falin samkvæmt ráðningarsamningi hans við Kaupþing banka skuli teljast til stjórnarstarfa stefnanda til viðbótar við þau almennu störf stjórnarformanns sem hann hafði áður tekið að sér. Af því leiðir að greiðslur til stefnanda og þar með talin hlunnindi þau sem honum voru veitt með kauprétti á hlutabréfum í bankanum teljast sem hluti af greiðslum til stefnanda fyrir stjórnarsetu hans í bankanum. Samkvæmt 16. gr. í tvísköttunarsamningi á milli Íslands og Bretlands má skattleggja stjórnarlaun og aðrar svipaðar greiðslur, sem aðili, heimilisfastur í aðildarríki, fær fyrir setu í stjórn í félagi sem heimilisfast er í hinu aðildarríkinu, í síðarnefnda ríkinu. Þetta þýðir að stjórnarlaun og svipað endurgjald má skattleggja í því ríki þar sem félag sem greiðir launin er heimilisfast. Samkvæmt þessu á heimaland félags skattlagningarréttinn og skiptir ekki máli í því sambandi hvort hluti vinnunnar hafi verið inntur af hendi í heimalandi stjórnarmannsins. Hér að framan hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að kaupréttur stefnanda hafi verið hluti af kjörum hans sem stjórnarmanns í Kaupþingi banka. Með vísan til 16. gr. tvísköttunarsamnings á milli Íslands og Stóra-Bretlands og Norður-Írlands og 3. gr. laga nr. 90/2003 er það því niðurstaða dómsins að tekjur stefnanda vegna kaupréttar hans á hlutabréfum í Kaupþingi hf. séu skattskyldar á Íslandi. 

 • Refsimál - vanskil VSK – bókhaldsbrot

  Úr héraðsdómi nr. S-634/2014:

   

  Í máli þessu eru ákærða og hinum ákærðu félögum gefin að sök meiriháttar brot gegn skattalögum og lögum um bókhald. Eru brot ákærða Rafns talin varða við 1. mgr. 262. gr. laga nr. 19/1940 og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 að því leyti sem brot voru framin í rekstri hinna ákærðu félaga, sem ákærði var fyrirsvarsmaður fyrir. Að öðru leyti eru brot hans talin varða við 2. mgr. 262. gr. laga nr. 19/1940, og 1. tl., 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994. Brot hinna ákærðu félaga eru talin varða við 8. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 40. gr. laga nr. 145/1994. Í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 er mælt fyrir um að skýri skattskyldur maður af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi rangt eða villandi frá einhverju því er máli skiptir um virðisaukaskatt sinn eða afhendi hann eigi á lögmæltum tíma virðisaukaskattsskýrslu eða virðisaukaskatt sem hann hefur innheimt eða honum bar að innheimta skal hann greiða fésekt allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, vanrækt var greiðsla á eða endurgreidd var um of og aldrei lægri fésekt en nemur tvöfaldri þessari skattfjárhæð. Fésektarlágmark samkvæmt þessari málsgrein á ekki við hafi brot einskorðast við að standa ekki skil á réttilega tilgreindum virðisaukaskatti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu, enda hafi verið staðin skil á verulegum hluta skattfjárhæðar eða málsbætur verið miklar. Sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður hinna ákærðu félaga tók ákærði ákvörðun um að skila ekki virðisaukaskattskýrslum fyrir hvert og eitt uppgjörstímabil rekstrarársins 2011, heldur ákvað að skila einungis leiðréttingarskýrslum þegar bókhald ársins hafði verið fært. Var það ekki fyrr en á miðju ári 2012. Með því braut ákærði gegn umræddri 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, en samkvæmt 24. gr. laganna er hvert uppgjörstímabil tveir mánuðir og skulu skráningarskyldir aðilar eftir lok hvers uppgjörstímabils ótilkvaddir greiða þann virðisaukaskatt sem þeim bar að standa skil á. Með sama hætti brutu hin ákærðu félög gegn 8. mgr. 40. gr. laganna, sbr. 1. mgr. 40. gr. Þá stóð ákærði ekki skil á innheimtum virðisaukaskatti fyrir hluta ársins 2011, sem innheimtur var af rekstri hinna ákærðu félaga. Að því er félagið Atvinnubifreiðir og tæki ehf. varðar á það við um tímabilið nóvember – desember 2011 og nemur fjárhæðin eftir leiðréttingu 1.014.413 krónum. Með sama hætti og fyrir sama tímabil stóð hann ekki skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var fyrir Íslandsleiðir ehf., samtals að fjárhæð 699.684 krónur. Eins stóð hann ekki skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var af rekstri Tinnubergs ehf. fyrir tímabilin mars – apríl, júlí – ágúst og september – október 2011, samtals að fjárhæð 6.157.390 krónur. Að lokum stóð hann ekki skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var af rekstri Húsaborgar ehf. fyrir tímabilin mars – apríl, september – október og nóvember – desember 2011, samtals að fjárhæð 2.276.226 krónur. Brot þessi voru fullframin með því að lögboðnar greiðslur voru ekki inntar af hendi á eindaga. Ákærði, sem er skráður framkvæmdastjóri og stjórnarmaður hinna ákærðu félaga, bar ábyrgð á því að félögin stæðu skil á skýrslum og skilagreinum til skattyfirvalda. Um er að ræða fjögur einkahlutafélög og nema skattundanskot alls ríflega 10.100.000 krónum. Er um meiriháttar brot í skilningi 1. mgr. 262. gr. laga nr. 19/1940 að ræða.

  Samkvæmt 9. gr. laga nr. 145/1994 skal í bókhaldi skrá viðskipti jafnskjótt og þau fara fram, enda sé það í samræmi við góða bókhaldsvenju. Önnur atvik skulu skráð svo fljótt sem unnt er eftir að þau eiga sér stað. Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 37. gr. laganna telst meiriháttar brot gegn lögunum ef bókhaldsskyldur maður eða fyrirsvarsmaður lögaðila færir ekki tilskilið bókhald fyrir sjálfan sig eða lögaðila þannig að hann uppfylli ekki kröfur laga í meginatriðum. Samkvæmt 2. mgr. 262. gr. laga nr. 19/1940 skal sömu refsingu sæta og samkvæmt 1. mgr. sá sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi gerist sekur um meiri háttar brot gegn 37. og 38. gr., sbr. 36. gr., laga nr. 145/1994. Ákærði hefur lýst því að bókari hafi aðstoðað hann við færslu bókhalds fyrir hin ákærðu félög. Ákærði hafi greitt og gefið út reikninga og sett þessi fylgiskjöl í möppu. Eftir árið hafi ákærði látið bókara fá þessi gögn, sem í framhaldi hafi fært bókhaldið, og á sama tíma hafi bókari unnið ársreikninga og gert skattaskýrslur fyrir félögin. Miðað við framburð ákærða og bókara hinna ákærðu félaga var það ekki fyrr en í júní 2012 sem bókari tók til við að færa eiginlegt bókhald ársins 2011, en röðun fylgiskjala í möppur telst eitt og sér ekki færsla á bókhaldi í skilningi laga nr. 145/1994. Með þessari háttsemi braut ákærði gegn 2. mgr. 262. gr. laga nr. 19/1940 og 1. tl. 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994. Að því er hin ákærðu félög varðar á þessi háttsemi undir 40. gr. sömu laga. Samkvæmt öllu ofanrituðu verða ákærðu sakfelld samkvæmt ákæru og er háttsemi þeirra rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.  

   

  [...]

   

  D ó m s o r ð :

  Ákærði, Rafn Sveinsson, sæti fangelsi í 6 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.  Ákærði Rafn greiði 18.262.000 krónur í sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, en sæti ella fangelsi í 10 mánuði. Atvinnubifreiðar og tæki ehf. greiði óskipt með ákærða Rafni 1.825.000 krónur í sekt til ríkissjóðs. Íslandsleiðir ehf. greiði óskipt með ákærða Rafni 1.258.000 krónur í sekt til ríkissjóðs. Húsaborg ehf. greiði óskipt með ákærða Rafni 4.097.000 krónur í sekt til ríkissjóðs. Tinnuberg ehf. greiði óskipt með ákærða Rafni 11.082.000 krónur í sekt til ríkissjóðs. Ákærðu greiði sameiginlega málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 1.395.000 krónur.