Stimpilgjald - hlutaskipting félags

E.g., 2021-10-19
E.g., 2021-10-19
 •  

  Nánari umfjöllun úr dómi héraðsdóms:

   

  „[...]

   

  Varðandi það skilyrði 54. gr. að samruni stefnanda og Imagine Investment ehf. hafi verið gerður í venjulegum og eðlilegum rekstrartilgangi, þá er af hálfu stefnda byggt á því að skilyrði 1. mgr. 54. gr. um venjulegan og eðlilegan rekstrartilgang hafi ekki verið fullnægt og meðal annars er vísað til greinargerðar stjórnar Imagnine Investment ehf., dags. 6. mars 2012, sem fylgt hafi samrunaáætlun félaganna Þar hafi komið fram að stjórnir félaganna teldu ekki lengur tilgang með því að halda rekstrinum áfram í sérstöku félagi. Af skýringum í greingargerð stjórnar verði ekki annað ráðið en fyrirhugaður samruni lúti að því að ljúka tilvist félagsins þar sem rekstrarlegu hlutverki þess sé lokið. Stefndi byggir á því þessari niðurstöðu til stuðnings að eignir félagsins hafi verið óverulegar og ekki verði séð að umsvif við stjórnun hafi verið slík að máli skipti við ákvörðun um samruna eða að lánshæfi félaganna hafi aukist við þessa aðgerð.

   

  Stefnandi byggir á því að sameining félaganna hafi verið gerð í venjulegum og eðlilegum rekstrartilgangi. Staða í þessu máli sé með allt öðrum hætti en verið var að bregðast við með framangreindu frumvarpi sem vísað er til í niðurstöðum ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar. Stefnandi telur að rýmkandi skýring í niðurstöðu skattyfirvalda sem aftri hluthafa félaganna frá því að nýta skattalegt tap á móti hagnaði gangi í berhögg við eignarréttindi sem varin séu af 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þá sé viðurkennt í skattframkvæmd að þrátt fyrir að möguleiki á nýtingu tapsfrádráttar hafi áhrif á ákvörðun um samruna, þá girði það ekki fyrir það að skilyrðum 54. gr. tekjuskattslaga sé fullnægt. Líta beri á samstæður hlutafélaga sem eina heild. Löggjafinn hafi heimilað samsköttun þessara félaga og félög innan sömu samstæðu megi nýta skattalegt tap hvert annars óháð skilyrðum í 54. gr. Mikilvægt sé að líta til þess hver tilgangurinn sé með skiptingu eignarhaldsfélaga á milli félaga, en hann helgist af því að nauðsynlegt sé að setja áhættusamar fjárfestingar í sérstök félög. Þegar breytingar verði á eignasafni og fjárfestingarumhverfi sé eðlilegt að uppsetning félagasamstæðu sé tekin til endurskoðunar. Samruni í þeim tilgangi hafi verið hluti af slíkri vinnu og hafi falið í sér venjulegan og eðlilegan rekstrartilgang í þeirri starfsemi sem umrædd félög hafi haft með höndum. Stefnandi vísar til þess að í niðurstöðu yfirskattanefndar felist í raun viðurkenning á því að ákvæði 54. gr. sé svo óskýrt að ekki sé fyllilega ljóst hvernig túlka beri það við þær aðstæður sem hér séu uppi, sbr. þegar nefndin felldi niður álagsbeitingu ríkisskattstjóra í ljósti álitaefnda og málavaxta að öðru leyti án þess að rökstyðja það frekar. Þetta sýni að beiting 54. gr. í máli þessu hafi verið í bága við 40. gr. og 77. gr. stjórnarskrár og því eigi að taka til greina kröfur stefnanda. Telja verður að endurákvörðun skattyfirvalda hafi verið mjög íþyngjandi fyrir stefnanda með hliðsjón af því að hið umþrætta tap varð í félagasamstæðu stefnanda og því líklegt að skattalegt hagræði af sameiningu hafi átt þátt í að sú leið var farin. Það hefur hins vegar verið talið eðlilegt og lögmætt að stjórnendur og eigendur fyrirtækja hafi skattalegar afleiðingar í huga við rekstrarlegar ákvarðanir, svo fremi sem það er ekki eini tilgangur ákvörðunarinnar.

   

  Fallist er á með stefnanda að auk skattalegs hagræðis hafi ráðið ferðinni rekstrarlegar ákvarðanir sem komið hafi til vegna breytts rekstrarumhverfis er leitað var hagræðingar í rekstri samstæðunnar.

   

  Samkvæmt 97. gr. tekjuskattslaga nær heimild til endurákvörðunar skatts samkvæmt 96. gr. til skatts vegna tekna og eigna síðustu sex ára sem næst eru á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram. Í 2. mgr. segir síðan að hafi skattaðili látið í té í framtali sínu eða fylgigögnum þess fullnægjandi upplýsingar, sem byggja mátti rétta álagningu á, sé þó eigi heimilt að endurákvarða honum skatt nema vegna síðustu tveggja ára sem næst eru á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram þótt í ljós kom að álagning hafi verið of lág.

   

  Stefnandi byggir á því að ríkisskattstjóri hafi þegar við álagningu haft undir höndum nauðsynleg gögn og upplýsingar sem hægt hafi verið að byggja rétta álagninu á, sbr. 1. mgr. 95. gr. Stefnandi byggir á því að sú endurákvörðun skatta sem hinir umþrættu úrskurðir kveða á um byggi einvörðungu á þeim gögnum sem fylgdu skattframtali og því hafi ríkisskattstjóra verið óheimilt að endurákvarða álagningu stefnanda vegna þeirra tekjuára sem hér um ræðir þar sem tímafrestir ríkisskattstjóra til endurákvörðunar hafi verið liðnir, sbr. 2. mgr. 97. gr. Úrskurður ríkisskattstjóra hafi verið kveðinn upp í febrúar 2016, en þá hafi frestur til endurákvörðunar verið liðinn. Í skattframtali stefnanda 2012 hafi verið gerð grein fyrir samruna félaganna og ársreikningar beggja félaga næstliðin ár á undan og samrunagögn hafi legið fyrir hjá fyrirtækjaskrá. Þá hafi ársreikningar beggja félaganna fylgt framtölum þeirra. Þá byggir stefnandi á því að sú rannsóknarskylda sem hvílir á ríkisskattstjóra samkvæmt 1. mgr. l95. gr. taki einnig til upplýsinga sem skilað hafi verið til embættisins. Inntak þessarar rannsóknarskyldu hafi verið staðfest í dómaframkvæmd Hæstaréttar, sbr. dóm réttarins í máli nr. 85/1998.

   

  Stefndi mótmælir þessari málsástæðu stefnanda og vísar til þess að meginregla um tímamörk endurákvörðunar sé í 1. mgr. 97. gr. Ákvæði 2. mgr. feli í sér undantekningu og hana beri að skýra þröngt og hún eigi aðeins við ef fyrir hendi er ófullnægjandi skoðun ríkisskattstjóra en ekki ófullnægjandi upplýsingar skattaðila. Ríkisskattstjóra hafi ekki verið unnt að taka afstöðu til nýtingar stefnanda á yfirfæranlegu tapi vegna sameiningarinnar án þess að afla frekari upplýsinga og vísar stefndi í því sambandi til athugasemdar á framtali stefnanda. Þar sé ekki að finna nánari skýringu á því að hvaða leyti einstök skilyrði sameiningar hafi verið til staðar.

   

  Það er mat dómsins að upplýsingar sem fram komu í gögnum sem fylgdu skattframtölum hefðu nægt til þess að haga álagningu samkvæmt 95. gr. tekjuskattslaga hefði ríkisskattstjóri talið að færsla í skattframtölum bryti í bága við lög, en hann hafi mátt án frekari upplýsinga eða með upplýsingum frá Hlutafélagaskrá eða öðrum gögnum í vörslum embættisins gera sér ljósa grein fyrir því að færsla í umræddum skattframtölum bryti í bága við lög  Í því sambandi má vísa til dóms Hæstaréttar í máli nr. 85/1998. Þá er fallist á það með stefnanda að endurákvörðun hinna umþrættu úrskurða virðist eingöngu byggjast á þeim gögnum sem fylgdu skattframtölum vegna þeirra ára sem var skilað. Af hálfu stefnda er ekki sérstaklega mótmælt vaxtakröfum stefnanda að öðru leyti en því að krafist var sýknu af öllum kröfum stefnanda.

   

  Samkvæmt því sem rakið hefur verið er fallist á að úrskurður yfirskattanefndar, nr. 33/2017, dags. 15. febrúar 2017, og úrskurður ríkisskattstjóra, dags. 16. febrúar 2016, um endurákvörðun opinberra gjalda stefnanda gjaldárin 2013 og 2014 verði felldir úr gildi.

   

  Að fenginni þessari niðurstöðu ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda 102.685.145 krónur með vöxtum skv. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 21. mars 2016 til 5. janúar 2017, en stefnandi greiddi þessa fjárhæð 21. mars 2016 í samræmi við endurákvörðun ríkisskattstjóra. Til frádráttar komi endurgreiðsla til stefnanda að fjárhæð 21.446.779 krónur, dags. 23. febrúar 2017, í samræmi við niðurstöðu yfirskattanefndar.“

 • Nánari umfjöllun úr dómi héraðsdóms:

   

  "Stefnandi fer hér fram á það að felldur verði úr gildi úrskurður Ríkisskattstjóra, dags. 14. júní 2017, þar sem hafnað var beiðni af hans hálfu um það að fá endurgreidda afdregna staðgreiðslu tekjuskatts að fjárhæð 12.275.278 krónur, sem haldið var eftir af arðgreiðslu sem stefnandi fékk greidda frá dótturfélagi sínu, Iceland Seafood International ehf., á árinu 2013. Enn fremur fer stefnandi fram á það að fá framangreinda afdregna fjárhæð endurgreidda.

   

  Fyrir liggur að stefnandi, sem er erlendur lögaðili með takmarkaða skattskyldu hérlendis, hafi réttilega sætt því að upphaflega var dreginn 5% afdráttarskattur af framangreindri arðgreiðslu til hans frá dótturfélagi hans, sem stefnandi hafi síðan talið að hann ætti að fá endurgreiddan að fullu á grundvelli 9. töluliðar 1. mgr. 31. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, eftir að skattframtali fyrir árið 2013 var skilað, en slíkar arðstekjur teljast óumdeilt að fullu frádráttarbærar uppfylli þær til þess lagaskilyrði. Þessu erindi stefnanda var synjað í framangreindum úrskurði Ríkisskattstjóra, dags. 14. júní 2017, á þeim grundvelli að um ólögmæta arðgreiðslu hafi hér verið að ræða, en óumdeilt er í málinu að slík endurgreiðsla sem stefnandi krefst á grundvelli laga nr. 90/2003 er alfarið háð því að hún teljist byggja á lögmætri arðgreiðslu. [...]. Afmarkast ágreiningur aðila í málinu því í reynd alfarið við skýringu á því hvort hér hafi verið um að ræða efnislega lögmæta arðgreiðslu í skilningi XII. kafla laga nr. 138/1994, sbr. 73. og 74. gr., þeirra, sem óumdeilt er að fjalli með tæmandi hætti um slíkar heimildir einkahlutafélags.

   

  [...]

   

  Óumdeilt er í málinu að hér reynir aðeins á heimildir dótturfélags stefnanda til úthlutunar arðs til hluthafa, sbr. 73. gr. laganna, en ekki aðrar heimildir þess ákvæðis. Um skilyrði til úthlutunar arðs fjallar síðan í 74. gr. laganna, en þar kemur meðal annars fram að heimilt sé að úthluta sem arði hagnaði samkvæmt samþykktum ársreikningi síðasta reikningsárs og frjálsum sjóðum, en stefnandi telur arðgreiðsluna til sín uppfylla þau skilyrði um þetta sem ákvæðið tilgreinir. Byggir stefnandi hér á því að ákvæðið heimili formlega réttilega ákvarðaðar arðgreiðslur úr frjálsum sjóðum einkahlutafélags, samkvæmt samþykktum ársreikningi síðasta reikningsárs, sem hér hafi verið ársreikningur fyrir 2011, óháð því hver sé uppruni hins óráðstafaða eigin fjár sem liggi frjálsum sjóði til grundvallar. Að mati stefnda er hins vegar litið svo á, sbr. og úrskurð Ríkisskattstjóra frá 14. júní 2017, að umrædd arðgreiðsla til stefnanda uppfylli ekki hér framangreind skilyrði í 1. mgr. 74. gr. laganna þar sem dótturfélag stefnanda hafi í umrætt sinn í reynd ekki úthlutað arði sem byggi á eiginlegum sjóðum félagsins, heldur sem byggi aðeins á bókfærðum hlutdeildarhagnaði í dótturfélögum.  

   

  Af hálfu stefnda er einkum vísað til þess að sé einungis litið til afkomu Iceland Seafood International ehf., án hlutdeildar í afkomu dótturfélaga þess, þá hafi afkoman verið neikvæð sem nemi 8.035.958 evrum fyrir tímabilið 2004-2011 og neikvæð um sem nemi 2.376.113 evrum fyrir tímabilið 2006-2011. Frekari töluleg útlistun liggur fyrir í í úrskurði Ríkisskattstjóra, dags. 14. júní 2017, en þar kemur meðal annars fram að hlutdeild Iceland Seafood International ehf. í afkomu dótturfélaga þess hafi numið samtals 6.036.779 evrum á tímabilinu 2004-2012, en uppsöfnuð afkoma félagsins á sama tímabili hafi hins vegar verið neikvæð um sem nemi samtals 1.895.152 evrum.  Á tímabilinu 2006-2012 hafi hlutdeild Iceland Seafood International ehf. í afkomu dótturfélaga numið samtals 9.282.427 evrum og þá hafi afkoma félagsins á sama tímabili verið jákvæð um sem nemi samtals 7.010.341 evru. Sé einungis litið til afkomu Iceland Seafood International ehf., án hlutdeildar í afkomu dótturfélaga, þá hafi afkoman verið neikvæð um sem nemi 7.931.931 evru fyrir tímabilið 2004-2012 og neikvæð um sem nemi 2.272.086 evrum tímabilið 2006-2012, eins og þar er útskýrt.  Hefur framangreind töluleg útlistun í úrskurði Ríkisskattstjóra, dags. 14. júní 2017,  ekki á nokkurn hátt verið véfengd eða hrakin af stefnanda í máli þessu. Er því ljóst að mati dómsins að umrædd arðgreiðsla af óráðstöfuðu eigin fé ársins 2011 eigi hvorki rót sína að rekja til hagnaðar af reglulegri starfsemi félagsins, né af slíkum yfirfærðum hagnaði frá fyrri árum, heldur alfarið byggst á hlutdeild þess í afkomu dótturfélaga.  

   

  Að mati dómsins verður að fallast á það með stefnda að fyrirliggjandi framkvæmd og lögskýringargögn gefi það ótvírætt til kynna að skattyfirvöldum sé nú við mat á framkvæmd frádráttarheimildar í 9. tölulið 1. mgr. laga nr. 90/2003 ætlað að kanna hvort um löglega úthlutaðan arð sé að ræða í viðkomandi tilviki, sbr. hér áskilnað XII. kafla laga nr. 138/1994, sem ákvæðið vísar beinlínis til. Sjá einnig dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 607/2013 frá 13. febrúar 2014 og dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. 1427/2016 frá 28. apríl 2017, sem einnig virðast endurspegla réttmæti slíkrar framkvæmdar við mat á hvort arðgreiðslu félags teljist hafa verið réttilega úthlutað.

   

  Hvað varðar þá mat á því hvort umrædd arðgreiðsla dótturfélags stefnanda geti talist uppfylla skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga nr. 138/1994 um hagnað eða frjálsa sjóði í félaginu, þá verður að mati dómsins að líta hér til þess að í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 607/2013 frá 13. febrúar 2014, er því lýst, að með frjálsum sjóði í skilningi ákvæðisins sé átt við raunverulegan sjóð sem orðið hafi til í rekstri félagsins. Jafnframt er síðan áréttað í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. 1427/2016, frá 28. apríl 2017, að sú aðferð að styðjast við hlutdeildarreikningsskil leiði ekki til rýmri heimilda til arðsúthlutunar en mælt sé fyrir um í 1. mgr. 74. gr. laga nr. 138/1994. Virðist því framangreind dómaframkvæmd styðja þann skýringarkost að ekki geti talist vera tækt að einungis bókhaldsleg færsla á hagnaðarhlutdeild félags, sem sé sjálfstæður lögaðili, geti myndað sjóði hjá öðru slíku félagi, sem sé móðurfélag þess, án þess að slík hagnaðarhlutdeild sé í reynd greidd út á milli félagana í formi arðs. Sú er óumdeilt staðan í því máli sem hér um ræðir að engar slíkar greiðslur hafi í reynd átt sér stað, sbr. fyrirliggjandi ársreikninga og úrskurð Ríkisskattstjóra, dags. 14. júní 2017. Er það því mat dómsins að þegar af þessum ástæðum verði að líta svo á að umrædd arðgreiðsla geti ekki talist uppfylla áskilin skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga nr. 138/1994 um hagnað eða frjálsa sjóði, en ákvæði 2. mgr. 74. gr., sem felur í sér enn frekari skilyrði um samstæður félaga, hefur þá heldur ekki sérstaka þýðingu hér. Að framangreindu virtu getur umrædd arðgreiðsla því ekki talist vera lögmæt úthlutun arðs úr einkahlutafélagi til hluthafa þess, sbr. 73., og 1. mgr. 74. gr. laga nr. 138/1994, en það leiðir aftur til þess að þá eru brostin öll skilyrði fyrir frádrætti frá tekjuskatti, sem gerir slíkt lögmæti arðgreiðslu að skilyrði, sbr. 9. tölulið 1. mgr. laga nr. 90/2003.

   

  Að öllu framangreindu virtu fær dómurinn því ekki séð að nein lagaskilyrði standi til þess að fallast beri á kröfu stefnanda um það að fella beri úr gildi úrskurð Ríkisskattstjóra, dags. 14. júní 2017, með yfirskriftinni „Úrskurður vegna skatterindis skv. 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. heimild í 2. mgr. 101. gr. laganna“, né heldur að fallast beri á kröfu stefnanda í málinu um endurgreiðslu afdreginnar staðgreiðslu tekjuskatts af umræddri arðgreiðslu að fjárhæð 12.275.278 krónur ásamt vöxtum, eins og frekar greinir í framangreindum dómkröfum stefnanda."

   

  Héraðsdómur hafnaði kröfum stefnanda í málinu. Í niðurstöðum héraðsdóms er að því vikið að umrædd arðgreiðsla til stefnanda teldist ekki uppfylla skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um einkahlutafélög nr. 90/2003, um hagnað eða frjálsa sjóði í félaginu. Að mati dómsins teljast hlutdeildartekjur ekki til frjálsra sjóða í félagi þar sem þær höfðu ekki myndast í rekstri félagsins sjálfs. Enn fremur segir í niðurstöðum dómsins að sú aðferð að styðjast við hlutdeildarreikningsskil geti ekki leitt til rýmri heimilda til arðsúthlutunar þar sem aðferðin myndi ekki frjálsan sjóð hjá félaginu. Niðurstöðuorð dómsins eru skýr að því leyti að mat dómsins er að hlutdeildartekjur geti ekki talist til frjálsra sjóða í félagi í skilningi 1. mgr. 74. gr. laga um einkahlutafélög nr. 90/2003. Hins vegar er ekki að finna afdráttarlausa niðurstöðu um hvort hlutdeildartekjurnar geti talist til hagnaðar samkvæmt sama ákvæði.

   

  Í hlekk með fréttinni er að finna dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í heild sinni.

 • Nánar úr dómi héraðsdóms:

  "Samkvæmt gögnum málsins er sumarbústaður í eigu stefndu skráður til útleigu heimagistingar samkvæmt 13. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, en þessari lagagrein var breytt með 10. gr. laga nr. 67/2016. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laganna er heimagisting skilgreind þannig að um er að ræða gistingu gegn endurgjaldi á lögheimili einstaklings eða í einni annarri fasteign sem hann hefur til persónulegra nota og er í hans eigu. Skal fjöldi útleigðra daga í báðum eignum samanlagt ekki fara yfir 90 daga á hverju almanaksári eða samanlagðar tekjur af leigu eignanna ekki nema hærri fjárhæð er kveðið er á um í 3. tl. 4. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Samkvæmt 1. mgr. 13. greinar laganna  skal hver sem hyggst bjóða upp á heimagistingu í samræmi við 1. mgr. 3. gr. tilkynna sýslumanni í viðkomandi umdæmi að hann hyggist leigja út lögheimili sitt eða eina aðra fasteign í sinni eigu. Þá er að finna í ákvæðinu nánari reglur um m.a. skráningu, þær kröfur sem húsnæðið þarf að uppfylla, endurnýjun skráningar og skil á upplýsingum um leigutekjur. Þá segir í 5. mgr. 13. gr. laganna að heimagisting, sem uppfylli skilyrði laganna, teljist ekki fara fram í atvinnuhúsnæði í skilningi laga um tekjustofna sveitarfélaga.

   

  Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga skal árlega leggja fasteignaskatt á allar fasteignir sem metnar eru í fasteignamati 31. desember á næstliðnu ári. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laganna ákveður sveitarstjórn fyrir lok árs skatthlutfall næsta árs innan þeirra marka sem greinir í a- og c-lið. Samkvæmt a-lið skal skatthlutfallið vera allt að 0,5% af fasteignamati íbúða og íbúðarhúsa ásamt lóðarréttindum, erfðafestulanda í dreifbýli og jarðeigna, útihúsa og mannvirkja á bújörðum sem tengd eru landbúnaði, hesthúsa, allra hlunninda og sumarbústaða ásamt lóðarréttindum. Þá segir í c-lið lagagreinarinnar að skatthlutfallið skuli vera allt að 1,32% af fasteignamati ásamt lóðarréttindum af öllum öðrum fasteignum, svo sem iðnaðar- skrifstofu- og verslunarhúsnæði, fiskeldismannvirkjum, veiðihúsum og mannvirkjum sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu.

   

  Fasteign stefndu hefur verið skráð hjá sýslumanni til útleigu heimagistingar samkvæmt 13. gr. laga nr. 85/2007 eins og henni var breytt með 10. gr. laga nr. 67/2016. Með álagningarseðli fyrir árið 2017 tilkynnti stefnandi stefndu um álagningu fasteignagjalda þess árs vegna sumarbústaðar þeirra og var fasteignaskattur eignarinnar ákvarðaður samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 fyrir 90 daga af árinu 2017 en samkvæmt a-lið sama lagaákvæðis fyrir annan hluta ársins. Þessa ákvörðun stefnanda kærðu stefndu til yfirfasteignamatsnefndar sem komst að þeirri niðurstöðu í úrskurði uppkveðnum þann 11. desember sama ár að heimfæra bæri sumarbústaðinn undir ofangreindan a-lið lagagreinarinnar vegna alls ársins 2017, enda hefði skilyrðum laga nr. 85/2007 um nýtingu hans fyrir heimagistingu verið fullnægt.

   

  Þrátt fyrir þær breytingar sem gerðar voru á lögum nr 85/2007 varðandi heimagistingu voru engar breytingar gerðar á lögum nr. 4/1995 að þessu leyti og hugtakið heimagistingu er ekki að finna í þeim lögum. Ágreiningur aðila í máli þessu snýst um það hvort nauðsynlegt hafi verið að breyta síðargreindu lögunum og undanþiggja fasteignir sem skráðar eru fyrir heimagistingu álagningu fasteignaskatts samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laganna.

   

  Eins og að framan er rakið er skýrt tekið fram í 5. mgr. 13. gr. laga nr. 85/2007, eins og þeim var breytt með 10. gr. laga nr. 67/2016, að heimagisting, sem uppfyllir skilyrði laganna, teljist ekki fara fram í atvinnuhúsnæði í skilningi laga um tekjustofna sveitarfélaga. Þar sem hér er um að ræða yngra lagaákvæði en það sem greinir í lögum um tekjustofna sveitarfélaga og með vísan til lögskýringargagna sem benda til eindregins vilja löggjafans í þessum efnum, verður að telja að heimagisting í skilningi 5. mgr. 13. gr. laga nr. 85/2007, sbr. 10. gr. laga nr. 67/2016, teljist ekki nýting húsnæðis í atvinnuskyni. Leikur því að mati dómsins enginn vafi á því að um skattlagningu sumarbústaðar stefndu skuli fara samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Verða stefndu því sýknuð af öllum kröfum stefnanda í máli þessu og heldur úrskurður yfirfasteignamatsnefndar frá 11. desember 2017 í máli nr. 9/2017 gildi sínu."

   

  Efst í fréttinni er að finna hlekk þar sem nálgast má dóm héraðsdóms í heild sinni.

 • Úr forsendum héraðsdóms:

   

  "Varakrafa stefnanda byggir á því að hann eigi lögvarinn rétt til þess að draga tap frá sölu hlutabréfa og gera verði greinarmun á þeim rétti annars vegar og verðlagningu hlutabréfaviðskipta hins vegar. Stefndi hafi brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með því að svipta hann öllum rétti til frádráttar taps vegna AB 47 ehf. Þá vísar stefnandi til þess að rökstuðningur ríkisskattstjóra sé ófullnægjandi og enginn lagagrundvöllur hafi verið fyrir endurákvörðun.

   

  Ekki er fallist á með stefnanda að þær breytingar sem gerðar voru á 57. gr. laga nr. 90/2003 frá upphaflegu frumvarpi þegar ákvæðið var upphaflega lögfest með lögum nr. 30/1971, rýri sérstaklega vægi sifjaréttarlegra eða fjárhagslegra tengsla samningsaðila við beitingu ákvæðisins. Breytingin virðist miklu frekar eiga að koma í veg fyrir að ákvæðið verði einskorðað við slík tilvik. Eftir sem áður hljóta slík tengsl að hafa afgerandi áhrif við mat á því hvort samningsaðilar hafi hagað viðskiptum sínum með verulega frábrugðnum hætti frá því sem almennt gerist.

   

  Þá verður ekki fallist á þær röksemdir stefnanda að þar sem skattyfirvöld hafi talið að hlutabréf í AB 47 ehf. hefðu verið seld fyrir of lágt verð hefðu þau ekki haft heimild til þess að skattleggja stefnanda, sem að þeirra mati tapaði á sölunni, heldur ætti skattlagningin að beinast að kaupanda hlutanna. Enginn lagagrundvöllur hafi því verið fyrir endurákvörðuninni. Stefnandi vísar jafnframt til þess að ákvæði 2. mgr. 57. gr. taki sérstaklega til þessara tilvika og gangi framar almennu ákvæði 1. mgr. 57. gr. Þar sem ekkert mat hafi farið fram af hálfu skattyfirvalda komi ákvæðið ekki til álita. Það er niðurstaða dómsins að ákvæði 2. mgr. 57. gr. takmarki endurákvörðunina við þann sem nýtur ávinningsins, í þessu tilviki kaupanda eignarinnar. Kaupandi eignarinnar var félag sem stefndi hafði öll eignar- og stjórnunarráð fyrir. Viðskiptin höfðu þann tilgang að raungera tap stefnanda vegna hlutabréfaviðskipta á árinu 2007, þannig að hann gæti dregið tap vegna hlutanna í AB 47 ehf. frá söluhagnaði annarra hluta. Skattalegur ávinningur viðskiptanna var því hjá stefnanda eins og að var stefnt, en hann seldi hlutina á verði sem var 0,2% af upphaflegu kaupverði bréfanna í nóvember 2006 og janúar 2007 og langt undir innra virði félagsins á söludegi. Með því að selja hlutinn til eigin félags tók stefnandi enga söluáhættu með kaupunum. Við þessar aðstæður var það undir stefnanda komið að gera skilmerkilega grein fyrir ástæðum viðskiptanna og ákvörðun um söluverð hinna seldu hluta sem falla undir 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003. Um var að ræða óskráð félag, þar sem engar upplýsingar lágu fyrir um viðskipti milli ótengdra aðila og því engu gangvirði eða markaðsvirði til að dreifa, sbr. m.a. 9. gr. laga nr. 90/2003, sem unnt væri að bera saman við það verð sem stefnandi miðaði við í viðskiptum.

   

  Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið verður hvorki fallist á að skort hafi lagagrundvöll né að brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu við meðferð málsins hjá ríkisskattstjóra og yfirskattanefnd.

   

  Á þeim tíma sem mál stefnanda var til meðferðar hjá ríkisskattstjóra og yfirskattanefnd lá ekki fyrir neitt mat á virði hlutanna í AB 47 ehf. þann 21. desember 2007. Eftir að úrskurður yfirskattanefndar var kveðinn upp þann 18. mars 2015 óskaði stefnandi eftir dómkvaðningu matsmanns til að meta eðlilegt söluverð hlutafjár í félaginu á söludegi. Niðurstaða matsmanns lá fyrir þann 22. apríl 2016, og var á þá leið að besta mat matsmanns á eðlilegu söluverði eignarhlutarins væri 55 milljónir króna. Stefndi hefur ekki hnekkt þessu mati. 

   

  Samkvæmt 15. gr. laga nr. 30/1992 um yfirskattanefnd er heimilt að bera ágreining um skattskyldu og skattstofna undir dómstóla. Þó fallast megi á af hálfu stefnda að stefnandi hefði getað freistað þess að óska eftir endurupptöku nefndarinnar á úrskurði sínum, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem umrædd matsgerð hafi ekki legið fyrir við afgreiðslu yfirskattanefndar á málinu, verður ekki séð að það komi í veg fyrir að stefnandi beri þennan ágreining beint undir dómstóla. Í því sambandi má benda á þá meginreglu stjórnsýsluréttar að ekki þurfi að tæma kæruleiðir áður en mál er höfðað fyrir dómstólum. Í dómaframkvæmd hafa ekki verið gerðar athugasemdir við að skattgreiðendur höfði mál fyrir dómstólum vegna ákvarðana ríkisskattstjóra um skattskyldu og skattstofn, óháð því hvort þeim hafi verið skotið til yfirskattanefndar eða ekki.

   

  Eins og vikið hefur verið að hér að framan þá er fallist á þau sjónarmið stefnda að umrædd sala hafi verið verulega óvenjuleg og ekki komið til milli ótengdra aðila. Ákvæði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 20/1993 eins og það er skýrt með hliðsjón af öðrum ákvæðum laganna, þ.m.t. 1. mgr. 57. gr., kemur þó ekki í veg fyrir að frádráttarheimild ákvæðisins sé nýtt í viðskiptum milli tengdra aðila. Til þess að hægt sé að nýta sér heimildina í slíkum viðskiptum verða þau að vera gerð á eðlilegum viðskiptalegum forsendum, sem eru sambærilegar við viðskiptakjör ótengdra aðila. Þeir sem standa að slíkum viðskiptum verða jafnframt að geta sýnt fram á að armslengdarsjónarmið hafi verið lögð til grundvallar við verðákvörðun. Í greinargerð stefnda og úrskurði ríkisskattstjóra er sérstaklega tilgreint að það hafi verið látið átölulaust að stefnandi seldi hluti í Exista hf. til Byggingamiðstöðvarinnar ehf. á sama tíma og salan á hlutnum í AB 47 ehf. fór fram. Ástæðan sé sú að þá hafi stefnandi jafnframt selt Glitni hf. og Kaupþingi hf. sömu bréf og miðað við sama gengi í öllum þessum viðskiptum. Skattyfirvöld líta því sjálf svo á að sala til nátengds aðila sem felur í sér að engin söluáhætta er tekin í viðskiptunum útiloki ekki nýtingu á frádráttarheimild 1. mgr. 24. gr. laga nr. 20/1993, svo framarlega sem verðákvörðun í viðskiptum þessara aðila sé í samræmi við verð í sambærilegum viðskiptum milli ótengdra aðila.

   

  Þó að markmið 24. gr. tekjuskattslaga nr. 20/1993 sé ekki að stuðla að því að viðskipti séu gerð í þeim eina tilgangi að lækka skattgreiðslur verður ekki fallist á að ákvæðið, með hliðsjón af öðrum ákvæðum laganna, útiloki skattfrádrátt í slíkum tilvikum. Skattareglur hafa áhrif og er ætlað að hafa áhrif á viðskiptalegar ákvarðanir. Það að ákvarðanir séu teknar af skattalegum ástæðum getur ekki eitt og sér komið í veg fyrir nýtingu á umræddri frádráttarheimild miðað við orðalag ákvæðisins og önnur ákvæði laganna. Hér eins og áður þarf að miða við og sýna fram á að verðlagning og viðskiptaskilmálar séu byggðir á armslengdarsjónarmiðum.

   

  Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið verður það ekki talið óheimilt að stefnandi geri þær ráðstafanir sem lög heimila til þess að skattgreiðslur miðist við raunverulegan hagnað af hlutabréfaviðskiptum ársins. Það er óumdeilt að hlutur hans í AB 47 rýrnaði stórkostlega á árinu. Til þess að raungera það tap og þar með nýta sér frádráttarheimildina í 24. gr. tekjuskattslaga nr. 20/1993 varð stefnandi að selja hlutinn. Við þá sölu bar honum að gæta þess að verðlagning hans væri í samræmi við verð í viðskiptum ótengdra aðila. Gera verður greinarmun á lögvarinni heimild stefnanda til að draga tap frá hagnaði samkvæmt 1. mgr. 24. gr. tekjuskattslaga nr. 20/1993 og verðlagningu hlutabréfaviðskiptanna, enda verður ekki séð að það geti verið ósanngjarnt eða í andstöðu við markmið skattalaga að skattgreiðslur stefnanda taki mið af þeim hagnaði sem raunverulega varð til á árinu, en ekkert umfram það. Stefnandi hefur með matsgerð sýnt fram á að þó að verðmæti hlutanna hafi verið umtalsvert hærra en það verð sem viðskiptin voru grundvölluð á þann 21. desember 2007 hafi það engu að síður endurspeglað verulega verðlækkun hlutanna. Sú verðlækkun myndar frádráttarbært tap hjá stefnanda sem hann getur dregið frá hagnaði af sölu annarra hlutabréfa. 

   

  Með vísan til ofangreinds er fallist á varakröfu stefnanda um að úrskurður yfirskattanefndar verði felldur úr gildi að hluta og oftekinn skattur verði endurgreiddur. Með því að miða sölutap við fyrirliggjandi matsgerð hefði það numið 413 milljónum króna og lækkað álagningu um 41.541.230 krónur." 

   

  Í hlekk að ofanverðu með fréttinni má nálgast dóminn í heild sinni.

 • Nánar úr niðurstöðum dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli E-2470/2016:

   

  „Samkvæmt 96. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995 geta hluthafar, stjórnarmaður og framkvæmdastjóri höfðað mál vegna ákvörðunar hluthafafundar sem hefur verið tekin með ólögmætum hætti. Með stjórnarmanni og framkvæmdastjóra er átt við einstaklinga sem hlotið hafa skráningu sem slíkir í hlutafélagaskrá Ríkisskattstjóra. Stefnandi Sigmar Vilhjálmsson var ekki skráður í hlutafélagaskrá eftir aðalfund stefnda þann 3. ágúst 2016. Hins vegar er óumdeilt að hann var skráður stjórnarmaður í félaginu á þeim tíma sem ákvörðunin um að selja lóðarréttindin var tekin og kaupsamningur undirritaður. Orðalag ákvæðisins sker ekki úr um það hvort með stjórnarmönnum sé átt við þá sem eru stjórnarmenn á þeim tíma sem ákvörðun um málshöfðun er tekin eða hvort það taki til þeirra sem eru stjórnarmenn á þeim tíma sem hin umþrætta ákvörðun er tekin.

   

  Í athugasemdum með frumvarpi, þegar ákvæði 96. gr. laga nr. 2/1995 var upphaflega lögfest, kom fram að ákvæðið fæli í sér rýmkun frá ákvæðum þágildandi laga, en þau bundu málshöfðunarréttinn við hluthafa. Með ákvæðinu var þannig verið að styrkja aðhaldshlutverk stjórnarmanna. Stjórnarmenn bera ábyrgð samkvæmt XV. kafla hlutafélagalaga nr. 2/1995 vegna tjóns sem þeir valda hlutafélaginu í störfum sínum. Ábyrgðin miðast við þær ákvarðanir sem voru teknar á þeim tíma sem þeir voru stjórnarmenn og fellur ekki niður við það eitt að þeir hætti stjórnarstörfum. Í dómaframkvæmd hefur verið fallist á þá niðurstöðu að málssóknarréttur hluthafa sé miðaður við þann tíma þegar þær ráðstafanir sem krafist er ógildingar á voru gerðar, sbr. Hrd. nr. 554/2017 og Hrd. nr. 215/2015. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er fallist á þau sjónarmið stefnanda að skýra verði ákvæðið á þá leið að það taki til stjórnarmanna á þeim tíma sem ákvörðun var tekin, enda hafi þeir lögvarða hagsmuni af ákvörðuninni. Önnur skýring myndi leiða til þess að meirihluti gæti boðað til hluthafafundar gagngert í þeim tilgangi að kjósa nýja stjórn til þess að losna undan yfirvofandi málshöfðun. Slík niðurstaða er í andstöðu við þá minnihlutavernd og aðhaldshlutverk stjórnarmanna sem lögunum er ætlað að tryggja. Samkvæmt framansögðu verður fallist á að stefnandi Sigmar Vilhjálmsson geti átt aðild að þessu máli, enda eru fyrir hendi lögvarðir hagsmunir.“

   

  [..]

   

  „Þó að verðmat á umræddum lóðarréttindum sé erfiðleikum bundið og játa verði hluthöfum nokkurt svigrúm til þess að draga úr áhættu vegna fjármögnunar er slíkt svigrúm ekki án takmarkana. Ágreiningur um virði lóðarréttindanna og sala til aðila sem tengdist tilteknum hluthöfum stefnda gaf fullt tilefni til þess að afla verðmats eða setja af stað söluferli svo að auðveldara yrði að leggja mat á verðmæti lóðanna. Stefndi verður að bera hallann af því að það var ekki gert. Með umræddri ákvörðun var eign stefnda ráðstafað til aðila sem tengdist ákveðnum hluthafahópi félagsins á verði sem var umtalsvert lægra en virði hennar samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð. Sú ákvörðun var tekin án þess aflað væri frekari upplýsinga um grundvöll þeirrar verðlagningar. Niðurstaða matsgerðarinnar er afgerandi, jafnvel þó horft sé til hluthafasamkomulagsins, og henni hefur ekki verið hnekkt með yfirmati. Með vísan til framangreinds er það mat dómsins að ákvörðunin hafi verið til þess fallin að afla öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað hluthafa eða félagsins. Því verður fallist á kröfu stefnenda um að ógilt verði ákvörðun hluthafafundar stefnda 9. maí 2016 þar sem samþykkt var að selja lóðarréttindi að Austurvegi 12 og 14 til Fox ehf. með vísan til 95. gr. [Samkvæmt 95. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995 má hluthafafundur ekki taka ákvörðun sem er fallin til þess að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagsins.] og 96. gr. laga nr. 2/1995.“

   

   

  Í hlekk að ofanverðu er að finna dóm Héraðsdóms í heild sinni.

 • Nánar:

   

  Stefnendur SG ehf. og SV kröfðust þess hvor um sig að ákvörðun hluthafafundar stefnda S hf. frá 9. maí 2016 yrði ógilt með dómi, þar sem samþykkt var að selja lóðarréttindi, stofnkostnað og önnur réttindi þeim tengd að Austurvegi 12 og 14 á Hvolsvelli til F ehf.

   

  Hið stefnda félag, S hf., var stofnað utan um þróunarverkefni SGS og annars stefnanda, SV, í ágúst 2014. Til stóð að reisa stóra fasteign á Hvolsvelli undir þjónustumiðstöð fyrir ferðaþjónustu á Suðurlandi. Í september 2014 voru útbúin drög að viðskiptaáætlun. Stjórnarfundur stefnda S hf. var haldinn 25. september 2015, en þá átti stefnandi SG ehf. 36,36% hlut í stefnda, en stefnandi SV hlut í SG ehf. Á fundinum lagði stjórnarformaður stefnda S hf. fram kauptilboð Þ ehf. í allar eignir stefnda er vörðuðu fasteignahluta verkefnisins, að fjárhæð kr. 25.000.000.-  Af hálfu stefnanda SV var óskað eftir því að fengið yrði hlutlaust álit til að leggja mat á verðmæti fasteignahlutans og var samþykkt af meirihluta stjórnarmanna að fresta því að taka afstöðu til tilboðsins að svo stöddu. Í nóvember 2015 barst svo m.a. kauptilboð frá Í hf. að fjárhæð kr. 50.000.000,- en það var ekki samþykkt.

   

  Þann 10. mars 2016 var á stjórnarfundi í stefnda samþykktur kaupsamningur F ehf. um sölu á fasteignum stefnda fyrir kr. 40.000.000,- en kaupsamningurinn var svo lagður fyrir hluthafafund þann 9. maí 2016. Var hann samþykktur með 2/3 hluta atkvæða, en stefnandi SV, fyrir hönd SG ehf. greiddi atkvæði á móti. Ágreiningur aðila málsins sneri m.a. að því hvort ákvörðun hluthafafundar frá 9. maí 2016 hafi verið ótilhlýðileg og andstæð 95. gr. hlutafélagalaga, hvort ákvörðunin hafi verið samþykkt með tilskildum fjölda atkvæða, hvort stefnda hafi verið heimilt að ráðstafa eignunum og hvort stjórn S hf. hafi þurft að samþykkja umræddan kaupsamning áður en hann var lagður fyrir hluthafafund. Stefnendur byggðu á því með sölu lóðarinnar hafi kaupandanum verið aflað ótilhlýðilegra hagsmuna í skilningi 95. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög, þar sem kaupverðið hafi verið mun lægra en raunverulegt verðmæti hins selda. Við mat á ótilhlýðileika yrði einnig að horfa til tengsla hluthafa F ehf. við stefnda. Undir rekstri málsins óskuðu stefnendur eftir matsgerð dómkvaddra matsmanna um mat á virði umræddra lóða og var það metið á kr. 125-135.000.000.-

   

  Í niðurstöðu héraðsdóms sagði að ágreiningur um virði lóðarréttindanna og sala til aðila sem tengdist tilteknum hluthöfum stefnda gaf fullt tilefni til þess að afla verðmats eða setja af stað söluferli til að auðvelda verðmat lóðanna. Stefndi var látinn bera hallann af því að það var ekki gert. Með umræddri ákvörðun var eign stefnda ráðstafað til aðila sem tengdist ákveðnum hluthafahópi félagsins á verði sem var umtalsvert lægra en virði eignarinnar skv. fyrirliggjandi matsgerð í málinu. Það var mat héraðsdóms að ákvörðunin um sölu lóðarinnar til F ehf. fyrir kr. 40.000.000,- hafi verið til þess fallin að afla öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað hluthafa eða félagsins og fallist á kröfu stefnenda um að ógilt yrði ákvörðun hluthafafundar stefnda dags. 9. maí 2016, með vísan til 95. og 96. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög.

   

 • Úr héraðsdómi nr. E-1105/2017:

  Við mat á því hvort framangreind viðskipti með hlutafjáreign foreldra stefnanda í Furu ehf. hafi falið í sér óvenjuleg skipti í skilningi 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003, skiptir máli hvort verðlagning hlutanna telst hafa verið óeðlileg. Stefnandi hafnar því að svo hafi verið og heldur því fram að rétt hafi verið að miða verðlagningu hlutanna við væntanlegt gengi þeirra á árunum 1993 til 1995, þegar samningar um kauprétt voru gerðir. Samningar Furu hf. og foreldra stefnanda frá 28. febrúar 1995 höfðu að geyma ákvæði um kauprétt félagsins á eftirstöðvum hlutafjár þeirra á fyrir fram ákveðnu, föstu verði, að teknu tilliti til breytinga á vísitölu. Engin skylda hvíldi á félaginu að nýta sér kaupréttinn samkvæmt samningunum. Kaupréttinum var hrundið í framkvæmd með kaupsamningum 29. desember 2010. Söluverð hlutanna var byggt á ákvæðum samninganna frá í febrúar 1995 og nam það 8.495.600 krónum. Fyrir liggur að hlutir í Furu ehf. voru ekki skráðir í kauphöll þegar viðskiptin áttu sér stað. Þegar svo háttar hefur verið við það miðað að byggja mat á gangverði hluta á bókfærðu verði eigin fjár viðkomandi félags samkvæmt síðasta endurskoðaða ársreikningi, sbr. t.d. lög nr. 3/2006, um ársreikninga, og lokaákvæði 9. gr. laga nr. 90/2003. Á því viðmiði er byggt í úrskurðum skattyfirvalda í máli stefnanda. Eins og rakið hefur verið nam tilgreint gangverð hlutafjárins, miðað við innra virði félagsins samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2009, 184.221.100 krónum á þeim tíma sem viðskiptin áttu sér stað. Er því ljóst að Fura ehf. keypti hlutafjáreign foreldra stefnanda á undirverði. Við kaupin eignaðist félagið eigin hluti sem námu 20% af heildarhlutafé, en helming þess bar félaginu að selja innan sex mánaða, sbr. ákvæði 1. mgr. 38. gr. laga nr. 138/1994. Af hálfu félagsins var brugðist við því með hlutafjárlækkun um það sem nam nafnvirði hlutafjáreignar foreldra stefnanda. Eftir þessar ráðstafanir var eignarhald og forræði félagsins alfarið á hendi stefnanda, án þess að hann hefði í raun innt nokkurt endurgjald af hendi. Að mati dómsins er augljóst að framangreind viðskipti voru verulega frábrugðin því sem almennt gerist, sem rakið verði til sifjaréttarlegra og fjárhagslegra tengsla þeirra sem að þeim komu. Þykir sýnt að þær ráðstafanir sem um ræðir falli undir ákvæði 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003. Verður því fallist á það með ríkisskattstjóra og yfirskattanefnd að virða beri mismun að fjárhæð 175.725.500 krónur á tilgreindu söluverði hlutafjárins samkvæmt kaupsamningum 29. desember 2010 og gangverði, miðað við innra virði félagsins, sem beina gjöf til stefnanda samkvæmt ákvæði 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003.

 • Úr héraðsdómi nr. S-313/2017:

  Gögn málsins staðfesta að ekki hafi verið staðin skil á virðisaukaskatti í rekstri ákærða að því sem nemur 3.034.712 krónum vegna ársins 2012 og 4.041.252 krónum vegna ársins 2013. Samtala þeirra fjárhæða, 7.075.967 krónur, samsvarar fjárhæð þeirri sem tilgreind er í ákæru. Með því að skila ekki á lögmæltum tíma virðisaukaskattsskýrslum og virðisaukaskatti, sem ákærða bar þó að innheimta vegna starfsemi sinnar á árunum 2012 og 2013, hefur ákærði gerst brotlegur við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 með síðari breytingum. Þegar litið er til fjárhæða verða brotin talin meiri háttar og því verða þau einnig heimfærð til 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Eru brot ákærða því rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Í þessu tilliti getur engu breytt þótt ákærði telji sig hafa átt mögulega inneign á móti þeim virðisaukaskatti sem honum bar að greiða, sbr. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 50/1988. Ákærði var ekki á virðisaukaskattsskrá á því tímabili sem ákæra málsins tekur til og ekki verður talinn til innskatts virðisaukaskattur af aðföngum sem keypt eru fyrir skráningardag, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 192/1993 um innskatt. Verður því ekki fallist á það með ákærða að lækka beri fjárhæð í ákæru með tilliti til innskatts á því tímabili sem ákæran tekur til. Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði ákærða var hann með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 1. febrúar 2007 dæmdur til átta mánaða fangelsisrefsingar, en fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðsbundið í þrjú ár, og til greiðslu sektar að fjárhæð 20.800.000 krónur, fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt, lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum um bókhald og 262. gr. almennra hegningarlaga. Þá var ákærði með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 15. október 2008 dæmdur til 14.500.000 króna sektargreiðslu, fyrir brot gegn sömu lögum og einnig með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá  26. september 2013 en þá var hann dæmdur til 10 mánaða fangelsisrefsingar, skilorðsbundið í þrjú ár, og til greiðslu sektar að fjárhæð 14.500.000 krónur. Var þá um hegningarauka við dóm frá 15. október 2008 að ræða, en jafnframt að hluta til rof á skilorði refsidómsins frá 1. febrúar 2007. Var sá skilorðsdómur dæmdur upp og ákærða ákveðin refsing í einu lagi tíu mánaða fangelsi. Fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðsbundið í þrjú ár. Ákærði gekkst greiðlega við brotum sínum og er til þess litið við ákvörðun refsingar. Á móti kemur að ásetningur ákærða styrkur og einbeittur og er í því sambandi litið til 6. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Þá teljast brot ákærða stórfelld í skilningi 3. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, enda eru vanskil stefnda við ríkissjóð umtalsverð auk þess sem ákærði hefur þrívegis áður verið dæmdur fyrir brot gegn 1. mgr. sama refsiákvæðis. Brot ákærða nú eru að stærstum hluta hegningarauki við síðastgreindan dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 26. september 2013 en að hluta til er um að ræða rof á skilorði refsidómsins. Verður skilorðsdómurinn því dæmdur upp og ákærða ákveðin refsing í einu lagi, sbr. 60., 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga. Þykir refsing ákærða  hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði en fresta skal fullnustu 12 mánaða refsingarinnar og falli hún niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

   

  Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt verður ákærða jafnframt gerð sektarrefsing. Brot gegn ákvæðinu varðar sektum, sem skulu aldrei vera lægri en nemur tvöfaldri fjárhæð vanskilanna og ekki hærri en tífaldri fjárhæðinni. Heildarvanskil ákærða nema 7.075.967 krónum. Að öllu framangreindu virtu og með hliðsjón af réttarframkvæmd á þessu sviði er ekki fært að miða við fésektarlágmark samkvæmt framangreindu lagaákvæði, heldur verður miðað við þrefalda fjárhæð vanskila, þó þannig að frá verður dregin fjárhæð álags sem ákærða var gert að greiða í úrskurði ríkisskattstjóra, 707.597 krónur. Verður ákærði því dæmdur til að greiða 20.520.304 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa. Með hliðsjón af því að sektarfjárhæð er umfram lögbundið lágmark og jafnframt með hliðsjón afviðmiðunarreglum dómstólaráðs þykir vararefsing hæfilega ákveðin sjö mánaða fangelsi. Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Garðars Guðmundar Gíslasonar hrl., 316.200.000 krónur, en annan sakarkostnað leiddi ekki af máli þessu.

 • Úr héraðsdómi nr. S-75/2017:

  Um málavaxtalýsingu er skírskotað til ákæru sem byggð er á rannsókn lögreglu sem fram fór eftir að skattrannsóknarstjóri ríkisins vísaði málinu þangað með bréfi 2. febrúar 2017. Málið varðar vanskil á virðisaukaskattskýrslum og einnig vanskil á virðisaukaskatti vegna einkahlutafélagsins [...] ehf. Með játningu ákærða, sem fær stoð í gögnum málsins, hafa viðhlítandi sönnur verið færðar fram fyrir sök ákærða samkvæmt ákæru. Ákærði er því sekur um að hafa sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður [...] ehf. látið hjá líða að standa skil á virðisaukaskattskýrslum á lögmæltum tíma vegna hluta þeirra tímabila sem tilgreind eru í ákæruskjali héraðssaksóknara og vanrækt að standa skil á virðisaukaskatti, samtals að fjárhæð 18.940.552 krónur. Verða brot hans í ljósi þeirrar fjárhæðar að teljast meiri háttar í skilningi 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Eru brot hans jafnframt rétt heimfærð í ákæru til refsiákvæða laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Bú  [...] ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 28. janúar 2016. Skiptum á búinu lauk 26. maí 2016 og var félagið afskráð 31. maí sama ár.  Ákærði, sem fæddur er [...], hefur ekki áður sætt refsingu. Ákærði hefur játað brot sín hreinskilningslega. Þykir refsing hans, með hliðsjón af framanrituðu, hæfilega ákveðin fangelsi í fimm mánuði. Rétt þykir að fresta fullnustu þeirrar refsingar og fellur hún niður að tveimur árum liðnum frá uppsögu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Ákærði verður enn fremur, samkvæmt heimild í 2. málslið 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, dæmdur til greiðslu fésektar í ríkissjóð. Í 1. málslið 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 er kveðið á um lágmark fésektar í tilvikum eins og hér um ræðir, er nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem dregin var undan og vanrækt var að greiða. Með 3. gr. laga nr. 134/2005 var nýjum málsliðum bætt við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 sem er efnislega á þá leið að fésektarlágmark samkvæmt þessari málsgrein eigi ekki við hafi brot einskorðast við að standa ekki skil á virðisaukaskatti samkvæmt skýrslu þar um, enda hafi verið staðin skil á verulegum hluta skattfjárhæðar eða málsbætur eru miklar. Gengið hafa nokkrir dómar í Hæstarétti Íslands þar sem framangreind ákvæði hafa verið skýrð og er í dómi þessum tekið mið af þeim, sbr. t.d. dóma réttarins í málum nr. 71/2010, 77/2010 og 413/2011. Í málsgögnum eru tilgreindar innborganir inn á skattskuld þess félags sem um ræðir. Eru fjárhæðir slíkra innborgana óumdeildar. Bárust greiðslur inn á alls níu tímabil sem teljast greidd að verulegu leyti, það er meira en 1/3 hluti, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 428/2005, en þar sem skýrslu var ekki skilað á lögmæltum tíma vegna þriggja tímabila er skilyrði fyrrnefndra laga sem breyttu 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt til að lækka sektarrefsingu niður úr fésektarlágmarki ákvæðisins ekki fyrir hendi hvað þau tímabil varðar, sbr. fyrrnefndan dóm Hæstaréttar í málinu nr. 77/2010. Um er að ræða tímabilin mars-apríl til og með júlí-ágúst rekstrarárið 2011. Hvað hin sex tímabilin varðar, það er janúar-febrúar, september-október, nóvember-desember rekstrarárið 2011, mars-apríl rekstrarárið 2012, nóvember-desember 2013 og september-október 2014 er fullnægt skilyrðum til að lækka sektarrefsingu niður úr fésektarlágmarki. Samkvæmt þessu verður sektarrefsing ákærða ákveðin með hliðsjón af áðurgreindu refsilágmarki og að teknu tilliti til innborgana inn á skattskuld félagsins. Verður ákærði dæmdur til að greiða 29.824.494 krónur í sekt til ríkissjóðs, sem ákærða ber að greiða innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa að telja. Um vararefsingu fer samkvæmt því sem greinir í dómsorði. 

   

  D ó m s o r ð:

  Ákærði, X, sæti fangelsi fimm mánuði en fullnustu þeirrar refsingar er frestað og fellur hún niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði greiði 29.824.494 krónur í sekt til ríkissjóðs. Verði sektin ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppsögu dómsins að telja skal ákærði sæta fangelsi í átta mánuði.  

 • Úr héraðsdómi nr. S-31/2017:

  Á árinu 2008 var ákærði skráður stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Bis ehf. með prókúru. Ákærði vildi ekki tjá sig fyrir dóminum en hann var yfirheyrður af skattrannsóknarstjóra og sérstökum saksóknara við rannsókn málsins. Í skýrslutöku hjá lögreglu vildi hann í fyrstu ekki tjá sig um framangreint, en sagðist svo ekki telja þetta rétt og ekki vera viss um að um sína undirskrift væri að ræða. Hjá skattrannsóknarstjóra viðurkenndi ákærði að hafa átt félagið og rekið það ásamt öðrum. Þá staðfesti hann að skráning í fyrirtækjaskrá væri rétt og kannaðist við undirskrift sína á tilkynningum til fyrirtækjaskrár. Ekki verður annað séð en að undirritanir á framangreindar tilkynningar stafi frá ákærða og hefur hann ekki gefið skýringu á breyttum framburði sínum. Samkvæmt þessu er sannað að ákærða hafi borið, lögum og stöðu sinni samkvæmt, að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum í samræmi við reglur laga nr. 50/1988, sbr. 44. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Þá bar hann einnig ábyrgð á því að bókhald félagsins væri fært lögum samkvæmt. Með gögnum málsins er sannað að virðisaukaskattsskýrslum var ekki skilað vegna þeirra tímabila á árinu 2008 sem ákært er fyrir og að skatturinn var ekki greiddur. Þá var lögboðið bókhald félagsins ekki fært. Eins og að framan greinir hefur ákærði borið því við að ekkert bendi til þess að virðisaukaskattur hafi verið innheimtur og skattrannsóknarstjóri hafi talið reikningana tilhæfulausa. Í skýrslutöku af ákærða hjá skattrannsóknarstjóra kvaðst hann hafa gefið út þá reikninga sem byggt er á í málinu og hafa handskrifað þá auk þess sem hann hefði undirritað greiðslukvittanir. Hann kvað reikningana alla hafa verið greidda út í hönd og peningarnir hefðu verið notaðir til að greiða laun og fleira. Þá taldi hann að viðskiptafélagi hans hefði skrifað þann reikning sem hann kannaðist ekki við undirskrift á hjá lögreglu. Skylda ákærða til að skila virðisaukaskattsskýrslum og greiða skattinn stofnaðist við útgáfu reikninganna. Í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er refsing meðal annars lögð við því að maður afhendi ekki á lögmæltum tíma virðisaukaskattsskýrslu eða virðisaukaskatt, sem hann hefur innheimt eða bar að innheimta. Brot er því samkvæmt þessu fullframið þegar skýrsla eða skattur, sem innheimtur var eða bar að innheimta, er ekki afhent á réttum tíma og er refsinæmi verknaðarins óháð því hvort selt var gegn gjaldfresti eða hvort andvirði seldrar vöru eða þjónustu hafi þegar verið innheimt. Samkvæmt framburði ákærða sjálfs hjá skattrannsóknarstjóra var starfsemi í félaginu Bis ehf. og reikningar gefnir út á þess vegum vegna útseldrar vinnu og er það í samræmi við gögn málsins. Hann lýsti því að félagið hefði stundað viðskipti, meðal annars hefðu þeir leigt út vinnuafl og tekið að sér verkefni við smíðar. Ákærða bar því samkvæmt stöðu sinni að sjá til þess að bókhald væri fært í samræmi við lög og venjur, sbr. 3. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994. Samkvæmt öllu framangreindu verður ákærði sakfelldur fyrir þau brot sem honum eru gefin að sök í ákæru og er háttsemi hans rétt heimfærð til refsiákvæða.