Velkomin á heimasíðu Skattatíðinda.is

Breytingar á sköttum og öðrum opinberum gjöldum eru tíðar. Breytingarnar skipta einstaklinga og fyrirtæki miklu máli og því er mikilvægt að fylgjast vel með. Á heimasíðu Skattatíðinda má ávallt nálgast nýjustu upplýsingar á aðgengilegan og einfaldan hátt.

 

Ef einhverjar spurningar vakna eru starfsmenn KPMG ehf. ávallt reiðubúnir að aðstoða.

E.g., 2017-10-21
E.g., 2017-10-21
 • Fjárlagafrumvarp 2018

   

   

  Hærra þrep virðisaukaskatts lækkar úr 24% í 22,5% 2019.

  Boðuð er lækkun hærra skattþreps virðisaukaskatts úr 24% í 22,5% frá og með 1. janúar 2019.

   

   

  Virðisaukaskattur af ferðþjónustu í hærra þrep 2019.

  Boðuð er tilfærsla ferðaþjónustu úr lægra skattþrepi virðisaukaskatts í það hærra frá og með 1. janúar 2019.

   

   

  Samræmt kerfi grænna skatta.

  Boðað er samræmt kerfi grænna skatta sem feli í sér álögur á mengandi starfsemi. Kerfinu er ætlað að skapa hvata til samdráttar í losun koltvísýrings og hvata til mótvægisaðgerða við losun.

   

   

  Hækkun kolefnisgjalds.

  Lögð er til tvöföldun kolefnisgjalds af jarðefnaeldsneyti, þ.e. bensíni, olíum og gasi.

   

   

  Samræming gjaldtöku af bensíni og olíu.

  Lögð er til rúmlega 19% hækkun olíugjalds í því augnamiði að færa heildar skattlagningu af olíunotkun til samræmis við heildar skattlagningu af bensínsnotkun.

   

   

  Niðurfelling virðisaukaskatts við kaup á bílum sem losa ekki koltvísýring.

  Lagt er til að gildandi ákvæði um niðurfellingu virðisaukaskatts af bílum sem losa ekki koltvísýring verði framleng til loka árs 2020 eða þar til 10.000 bílar hafa verið skráðir í viðkomandi flokki bíla. Jafnframt er lögð til rýmkun þessar ívilnunar þannig að hún taki ekki aðeins til rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbíla heldur einnig til annarra bíla sem losa ekki koltvísýring við notkun.

   

   

  2,2% hækkun krónutöluskatta.

  Í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarps er lögð til 2,2% hækkun krónutöluskatta. Skattar þessir eru áfengisgjald, tóbaksgjald, bensíngjald, kílómetragjald, bifreiðagjald, útvarpsgjald og gjald í framkvæmdasjóð aldraðra.

   

   

  Sérstök hækkun áfengisgjalds á léttvín

  Auk almennrar 2,2% hækkunar áfengisgjalds er lögð til 9,8% hækkun áfengisgjalds á léttvín, til samræmis við áfengisgjald af öli.

 • Fyrirhugaðar breytingar á ýmsum skattalögum

   

  Meginefni frumvarpsins.

  Í frumvarpinu er að finna eftirfarandi tillögur að lagabreytingum:

  Í fyrsta lagi eru lagðar til nokkrar leiðréttingar á lögum um tekjuskatt og lögum um tryggingagjald. Ekki er um efnisbreytingar að ræða. 

   

  Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á samsköttun félaga. Í þeim breytingum felst að samsköttun félaga verði einnig leyfð með hlutafélögum heimilisföstum í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, ásamt föstum starfsstöðvum félaga innan Evrópska efnahagssvæðisins. 

   

  Í þriðja lagi er lagt til að felld verði brott sú undantekning að ákvæði um takmörkun á frádrætti vaxta­gjalda eigi ekki við, í því tilviki að lánveitandi beri ótakmarkaða skatt­skyldu hérlendis. 

   

  Í fjórða lagi er lagt til að lögfest verði nýtt ákvæði um skattlagningu leigutekna vegna útleigu íbúðarhúsnæðis, frístundahúsnæðis og annars húsnæðis í eigu einstaklinga. 

   

  Í fimmta lagi er lögð til undanþága og endurgreiðsla virðisaukaskatts og annarra skatta og gjalda á grundvelli alþjóða­samninga, tvíhliða samninga eða sérstakra laga þar um. 

   

  Í sjötta lagi er lagt til að saknæmi brota gegn ákvæðum tollalaga, þ.e. verknaðar við veitingu rangra eða villandi upplýsinga við innflutning eða vanrækslu upplýsingagjafar, verði bundið við að þau hafi verið framin af ásetningi eða einföldu gáleysi en ekki af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. 

   

  Í sjöunda lagi er lagt til að fellt verði brott ákvæði í tollalögum vegna takmörkunar á útflæði gjaldeyris. 

   

  Í áttunda lagi er lögð til sú breyting að vörugjald af grindarbílum verði 13%. 

   

  Í níunda lagi eru lagðar til leiðréttingar á viðauka XIX við lög um úrvinnslugjald.

 • Fyrirhugaðar breytingar á ýmsum skattalögum

  Hér að neðan eru tilgreind nokkur dæmi úr bandorminum:

  Viðmiðunarfjárhæðir barnabóta verði hækkaðar í takt við forsendur samþykktrar fjármálaáætlunar og komi til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2017..

   

  Hækkanir verða á gjaldi af áfengi og tóbaki.

   

  Samræmd verða mörk virðisaukaskattsskyldrar veltu vegna sölu á vörum og þjónustu og sölu á rafrænt afhentri þjónustu.

   

  Tímabundin heimild til að fella niður virðisaukaskatt eða telja til undanþeginnar veltu fjárhæð að ákveðnu hámarki við innflutning og skattskylda sölu rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiða verður framlengd um eitt ár og fjárhæðarmörk niðurfellingar við innflutning lagfærð.
   
  Gistináttaskattur hækkar  úr 100 kr. í 300 kr. fyrir hverja selda gistináttaeiningu frá 1 september 2017.
   
  Útvarpsgjald hækkar úr í 16.400 kr. í 16.800 kr.
   
  Breytingar eru gerðar á gjalddaga og eindaga fjársýsluskatts.

 • Breytingar á lögum um gjaldeyrismál - losun fjármagnshafta

   

  Meginefni frumvarpsins.

  • Frumvarpið er liður í áætlunum stjórnvalda um losun fjármagnshafta og með því eru tekin veigamikil skref í átt að fullri losun. Markmið frumvarpsins er að veita einstaklingum og lögaðilum, bæði innlendum og erlendum, auknar heimildir til fjármagnshreyfinga á milli landa í erlendum gjaldeyri og til gjaldeyrisviðskipta. Meginefni frumvarpsins er eftirfarandi:
  • Heimildir til vöru- og þjónustuviðskipta eru rýmkaðar þannig að heimildin nær nú til allra greiðslna í tengslum við slík viðskipti, svo sem til endurgreiðslna vegna ofgreiðslna, afsláttar, afpantana og þess háttar greiðslna sem eru eðlilegur hluti af vöru- og þjónustuviðskiptum. Jafnframt eru afnumdar allar takmarkanir á innflutningi farartækja og kaupum á farartækjum erlendis.
  • Reglur um flutning launagreiðslna, námslána, lífeyris, bóta og þess háttar greiðslna, sem aðili sem búsettur er erlendis hefur aflað sér hérlendis, eru rýmkaðar og einfaldaðar.
  • Fjárhæðarmark heimildar til gjafa og styrkja til erlendra aðila er hækkað úr 3.000.000 kr. í 6.000.000 kr. á almanaksári og heimildin ekki lengur takmörkuð við innlenda aðila.
  • Erlendum aðila er heimilað að flytja út leigugreiðslur sem hann aflar hérlendis. Heimildin nær til flutnings á öllum leigutekjum af fasteignum óháð staðsetningu þeirra fari greiðsla fram hérlendis. Heimildin nær m.a. til veiðiréttinda og vatnsréttinda.
  • Fyrirframgreiðslur og uppgreiðslur lána og fjárfestingar í verðbréfum, hlutdeildarskírteinum verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, peningamarkaðsskjölum, öðrum framseljanlegum fjármálagerningum, peningakröfum í erlendum gjaldeyri og öðrum sambærilegum kröfuréttindum, eru heimilaðar að ákveðnu fjárhæðarmarki á tilteknu tímabili. Frá og með næstu áramótum verður heimildin rýmkuð frekar. Einnig er gert ráð fyrir að fjármagnshreyfingar á milli landa vegna innlagnar og úttektar af reikningum í innlánsstofnunum verði heimilaðar um næstu áramót. Aðilar geta nýtt heimildir sínar til fjárfestingar í verðbréfa-, fjárfestingar- og fagfjárfestasjóðum.
  • Heimildir til endurfjárfestinga eru rýmkaðar.
  • Bein erlend fjárfesting innlendra aðila (e. foreign direct investment) er heimiluð að tilteknum skilyrðum uppfylltum og háð staðfestingu Seðlabankans.
  • Fjárhæðarmörk vegna framfærslu erlendis eru afnumin, en áfram sett skilyrði um að einstaklingar sýni fram á framfærslu erlendis. Framfærsluheimild innlendra einstaklinga sem búsettir eru erlendis er ekki lengur einskorðuð við að ástæða búsetu erlendis sé vegna starfs eða náms.
  • Erlendum aðila er heimilað að kaupa erlendan gjaldeyri og flytja hann úr landi vegna greiðslu skatta, málskostnaðar samkvæmt dómsorði, slysa- og skaðabóta sem falla til hérlendis og fyrirframgreidds arfs samkvæmt staðfestri erfðafjárskýrslu.
  • Einstaklingum er heimilað að kaupa eina fasteign erlendis á almanaksári. Ekki er lengur gert skilyrði um að fasteignakaup séu í tengslum við búferlaflutninga og hámarksfjárhæð slíkra viðskipta er afnumin. Heimildin nær jafnt til innlendra sem erlendra aðila.
  • Heimildir til fjármagnshreyfinga á milli landa í innlendum gjaldeyri eru rýmkaðar vegna greiðslu málskostnaðar samkvæmt dómsorði, andvirðis slysa- og skaðabóta eða arfs sem erlendum einstaklingi hefur hlotnast samkvæmt erfðafjárskýrslu staðfestri af sýslumanni.
  • Heimildir erlendra aðila til að nýta innlendan gjaldeyri í þeirra eigu hér á landi til fjárfestinga eru rýmkaðar.
  • Almenn fjárhæðarmörk reiðufjárkaupa og úttektar á reiðufé af gjaldeyrisreikningum vegna ferðalaga eru hækkuð í 700.000 kr. fyrir hvern aðila og reiðufjárkaup ekki lengur takmörkuð við almanaksmánuð heldur hverja ferð fram til 1. janúar 2017. Auk þess er ekki lengur gert ráð fyrir fjárhæðarmörkum ef sýnt er fram á nauðsyn reiðufjárúttektar umfram fjárhæðarmörk. Eftir áramót verða reiðufjárkaup og úttektir á reiðufé í erlendum gjaldeyri felld undir fjárhæðarmark skv. 6. tölul. a-liðar 1. gr. frumvarpsins og ekki lengur tengd ferðalögum erlendis. Auk þess verða lögaðilum veittar sömu heimildir til kaupa og úttektar á erlendum gjaldeyri í reiðufé.
  • Takmarkanir á höfuðstólsgreiðslum skuldabréfa, sem lögfestar voru í mars 2012 vegna alvarlegrar sniðgöngu fjármagnshaftanna, eru afnumdar.
  • Innlendum aðilum eru veittar víðtækar undanþágur frá skilaskyldu erlends gjaldeyris til að tryggja sem minnst óhagræði einstaklinga og fyrirtækja vegna erlendra fjárfestinga, til að mynda verða ekki skilaskyldir fjármunir sem innlendir aðilar eignast vegna lántöku einstaklings hjá erlendum aðilum til kaupa hans á fasteign eða farartæki erlendis eða fjármunir vegna lántöku aðila sem nýttir eru til annarra fjárfestinga.
  • Seðlabankanum eru veittar frekari heimildir til upplýsingaöflunar til þess að tryggja að bankinn hafi aðgang að áreiðanlegum og tímanlegum upplýsingum í því skyni að standa vörð um fjármálastöðugleika, greiðslujöfnuð og erlenda stöðu þjóðarbúsins.
  • Frestur á tilkynningu um nýfjárfestingu er lengdur úr tveimur vikum í þrjár vikur.
  • Þá eru lagðar til afleiddar breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands sem hafa bein tengsl við efni frumvarpsins.
  • Að lokum eru lagðar til smávægilegar breytingar á lögum um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.
  • Í kjölfar lögfestingar frumvarpsins mun Seðlabanki Íslands uppfæra reglur nr. 430/2016, um gjaldeyrismál, til samræmis.

 • Frumvarp til laga um stuðning til kaupa á fyrst íbúð

  Meginefni frumvarpsins.

  Í frumvarpinu er lagt til að stutt verði við kaupendur fyrstu íbúðar og eru helstu efnisþættir eftirfarandi:

  1)  Úrræði fyrir einstaklinga sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð.

   

  2)  Úrræðið gildir í tíu ár samfellt fyrir hvern einstakling.

   

  3)  Úrræði sem heimilar einstaklingum ráðstöfun séreignarsparnaðar sem safnast hefur upp á tilteknu tímabili til kaupa á fyrstu íbúð.

   

  4)  Úrræði sem heimilar einstaklingi ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á fasteignalán sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð og sem tekið var vegna kaupann

   

  5)  Úrræði sem heimilar einstaklingi ráðstöfun séreignarsparnaðar til afborgunar á óverðtryggðu láni og inn á höfuðstól láns, sem tryggt er með veði í húsnæðinu.

   

  6)  Séreignarsparnaður sem nýttur er til greiðslu inn á höfuðstól lána og eftir atvikum sem afborgun vegna kaupa á fyrstu íbúð er skattfrjáls.

   

   

  Hámarksfjárhæðir og önnur viðmið eru þessi:

  1)  Hámarksfjárhæð á ári (12 mánuðir), samtals 500 þús. kr. á einstakling.

   

  2)  Hámarksiðgjald, 4% frá launþega og 2% frá launagreiðanda.

   

  3)  Einstaklingur spari a.m.k. til jafns við framlag launagreiðanda

   

  4)  Áskilið er að rétthafi eigi að minnsta kosti 50% eignarhlut í íbúðarhúsnæðinu.

   

   

  Umsókn rétthafa um nýtingu séreignarsparnaðar til kaupa á fyrstu íbúð skal beint rafrænt til ríkisskattstjóra á því formi sem hann ákveður.

 • Frumvarp til laga - aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum

   

  Meginefni frumvarpsins:

   

  Í fyrsta lagi er lögð til takmörkun á tapsfrádrætti félaga í lágskattaríki. Nýting eftir-stöðva rekstrartapa verður óheimil nema um raunverulega atvinnustarfsemi sé að ræða og fullnægjandi gögn liggi til grundvallar tapi og nýtingu þess.

   

  þriðja lagi er lögð til takmörkun á yfirfærslu einstaklingsrekstrar yfir landamæri í einkahlutafélag í lágskattaríki.

   

  Í fjórða lagi er lagt til að flutningar lögheimilis eða eigna til ríkja sem teljast lágskattaríki verði takmarkaðir verulega.

   

  Í fimmta lagi er lögð til endurskoðun á CFC ákvæðinu, sem fjallar um skattlagningu aðila sem eiga beina eða óbeina eignaraðild að félögum, sjóðum eða stofnunum sem eru heimilisföst í lágskattaríkjum, í átt til frekari skýringar.

   

  Í sjötta lagi er lagt til að upplýsingaskylda fjármálastofnana og lögmanna verði endurskoðuð.

   

  Í sjöunda lagi er lagt til að heimild til endurákvörðunar verði lengd úr sex árum í tíu ár vegna tekna og eigna í lágskattaríkjum sem ekki hefur verið gerð fullnægjandi grein fyrir í skattskilum.

   

  Í áttunda lagi er lagt til að fyrningartími sakar verði lengdur úr sex árum í tíu ár vegna brota sem ekki teljast meiri háttar og varða tekjur í lágskattaríkjum.

   

  Í níunda lagi er lagt til að tollstjóra verði falið að annast áhættugreiningu á sviði innheimtu opinberra gjalda.

   

  Í tíunda lagi er lagt til að löglærðum fulltrúum innheimtumanna verði heimilað aðgengi að skattframtölum gjaldenda í því skyni að kanna eignastöðu þeirra hafi ákvörðun verið tekin um að krefjast aðfarar vegna vanskila opinberra gjalda.

   

  Í ellefta lagi er lagt til að heimildir tollyfirvalda til vinnslu og miðlunar persónuupplýsinga verði skýrðar nánar.

 • Virðisaukaskattur - veltumörk skattskyldu - fjárhæðamörk uppgjörstímabila

  Sjá hlekk með fréttinni og efni úr frumvarpinu hér að neðan:

  Í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá apríl 2014, um nútímavæðingu íslenska virðisaukaskattskerfisins,  er lagt til að veltumörk 4. gr. virðisaukaskattslaga verði tvöfölduð, þ.e. hækkuð úr 1.000.000 kr. í 2.000.000 kr. Er hugmyndin sú að með þeirri breytingu verði dregið úr álagi á skattyfirvöld og þeim gert betur fært að beina sjónum sínum að stærri skattaðilum. Í skýrslunni er sérstaklega bent á að tiltölulega hátt hlutfall skattaðila lendi rétt ofan veltumarka og telji jafnan fram hærri innskatt en útskatt við uppgjör virðisaukaskatts með neikvæðum áhrifum á ríkissjóð. Til samanburðar má benda á að í Danmörku nema veltumörkin 50 þús. dönskum krónum, eða sem nemur um 940 þús. íslenskum krónum og í Noregi eru þau sem nemur 760 þúsund íslenskum krónum. Finnar hafa hins vegar nýverið hækkað mörkin úr sem nemur rúmum 800 þús. kr. í um 1,2 millj. kr. Í öðrum ríkjum Evrópu eru veltumörkin í mörgum tilvikum mun hærri. Í Þýskalandi nema veltumörkin sem nemur um 2,4 millj. kr., í Belgíu um 2,1 millj. kr., á Ítalíu 1,2–5,6 millj. kr., í Frakklandi um 3,9–5,9 millj. kr., á Írlandi um 5,2–10,5 millj. kr. og í Bretlandi um 15 millj. kr. Veltumörk annarra ríkja Evrópu virðast í flestum tilvikum vera á bilinu 1,4–7 millj. kr.  Veltumörkin eru ekki vísitölutengd og lækka því að raungildi með tíð og tíma. Ef veltumörk gildandi laga eru uppreiknuð miðað við breytingar á vísitölu neysluverðs frá 1. janúar 2011 til mars 2016 nema þau 1.190.918 kr. Með það fyrir augum að létta reglubyrði smærri aðila og létta álagi á skattyfirvöldum er lagt til að veltumörk 3. tölul. 4. gr. virðisaukaskattslaga verði hækkuð úr 1 millj. kr. í 2 millj. kr.

   

  [...]

   

  Til að draga úr álagi á skattyfirvöld og tryggja að verðlags­breytingum sé fylgt er lagt til að fjárhæðarmörk heimildar til að breyta uppgjörstímabilum samkvæmt ákvæði 4. málsl. 1. mgr. 24. gr. virðisaukaskattslaga verði hækkuð úr 3 millj. kr. í 4 millj. kr.

 • Frumvarp til laga um breytingar á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda

  Frumvarpið er svohljóðandi:

   

  1. gr.

  Við 2. mgr. 15. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Launagreiðandi skal aðgreina útsvar og tekjuskatt á launaseðli launamanns.

   

  2. gr.

  Lög þessi öðlast þegar gildi.

   

   

  Greinargerð.

  Með frumvarpi þessu er lagt til að launagreiðendur skuli aðgreina útsvar og tekjuskatt á launaseðlum til að launamenn eigi þess kost að sjá hvernig staðgreiðsla skatta skiptist milli ríkis og sveitarfélaga og er frumvarpinu ætlað að auka gagnsæi í opinberum fjármálum og bæta fjármálalæsi. Ríkisskattstjóri aðgreinir tekjuskatt og útsvar við álagningu en verði frumvarp þetta að lögum munu upplýsingarnar birtast á sjálfum launaseðlinum.

 • Frumvarp til laga um breytingar á lögum um hlutafélög og einkahlutafélög (kennitöluflakk)

  Eftirfarandi kemur fram í frumvarpinu:

   

  Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, og lögum um einkahlutafélög, nr. 138/1994, í því skyni að koma í veg fyrir kennitöluflakk. Engum dylst að kennitöluflakk er mikil meinsemd og af einhverjum ástæðum hefur það fylgt íslensku atvinnulífi í áraraðir. Þó svo ekki sé til einhlít lagaleg skilgreining á því hvað felist í kennitöluflakki má telja að flestum sem koma að atvinnurekstri með einum eða öðrum hætti sé það nokkuð ljóst. Kennitöluflakk felur í sér misnotkun eigenda og stjórnenda á félagaforminu sem veitir þeim skjól vegna þeirrar takmörkuðu ábyrgðar sem eigendur bera á skuldbindingum félagsins. Þannig er skuldum vegna atvinnurekstrar safnað í eitt félag og síðan þegar félagið er komið í rekstrarleg vandræði er snarlega stofnað nýtt félag í sama atvinnurekstri með nýrri kennitölu og reksturinn færður þangað. Í gamla félaginu eru þá skildar eftir skuldbindingar sem að jafnaði fást ekki greiddar við gjaldþrotaskipti félagsins. Oft er um að ræða skuldir við hið opinbera, vanskil á sköttum og gjöldum, en einnig skuldbindingar við aðra einkaaðila, birgja og fleiri, sem og vangoldin laun. Þessi háttsemi felur í sér samfélagslegt tjón þar sem skuldbindingar fást ekki greiddar og jafnframt bitnar háttsemin á þeim sem standa heiðarlega að sínum rekstri og fylgja leikreglum. Háttsemin er til þess fallin að ýta undir vantraust í garð atvinnulífsins og samkeppnisstaða þeirra sem fylgja leikreglum skekkist. Háttsemin eykur kostnað atvinnulífsins þar sem viðbrögð stjórnvalda eru að jafnaði að auka eftirlit og með því eykst kostn­aður atvinnulífsins. Í heild tapar samfélagið.

   

  [...]

   

  Í 1. og 2. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995. Er þar lagt til að stofnendur, stjórnarmenn og framkvæmdastjórar hlutafélaga megi ekki á næstliðnum þremur árum hafa verið í forsvari fyrir tvö eða fleiri félög sem orðið hafa gjaldþrota. Hér undir fellur einnig það þegar stofnendur, stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar hafa hætt störfum áður en félag verður gjaldþrota og það fært undir stjórn svokallaðra útfararstjóra sem ganga með fyrirtækið í gjaldþrot. Um hæfisskilyrði er að ræða sem einstaklingar, sem ætla að stofna fyrirtæki, gerast stjórnarmenn eða eru ráðnir sem framkvæmdastjórar, þurfa að uppfylla. Skv. 3. mgr. 148. gr. hlutafélagalaga skal tilkynningu um stofnun hlutafélags til hlutafélagaskrár fylgja staðfesting á því að stofnendur uppfylli skilyrði 3. gr. laganna og að stjórnarmenn og framkvæmdastjóri uppfylli skilyrði 66. gr. laganna. Skv. 150. gr. laganna skal synja félagi skráningar ef tilkynning um stofnun þess uppfyllir ekki skilyrði laganna. Í 3. og 4. gr. frumvarpsins eru síðan lagðar til samsvarandi breytingar á lögum um einkahlutafélög og lagðar eru til á lögum um hlutafélög í 1. og 2. gr. Í 3. mgr. 122. gr. laga um einkahlutafélög er samsvarandi ákvæði og í 3. mgr. 148. gr. hlutafélagalaga um að tilkynningu um stofnun félags skuli fylgja staðfesting á hæfi stofnenda, stjórnarmanna og framkvæmdastjóra.

   

   

   

   

 • Frumvarp til laga um breytingar á lögum um ársreikninga

   

  Í frumvarpinu kemur meðal annars fram að megináhersla er lögð á einföldun fyrir félög, dregið sé úr umsýslukostnaði þeirra og við­skipta­um­hverfi bætt. Einnig er með frumvarpinu innleidd tilskipun Evrópusambandsins 2013/34/ESB sem fjallar um ársreikninga félaga af tiltekinni gerð og fellir úr gildi ársreikningatilskipanir Evrópusambandsins nr. 78/660/EBE og 86/349/EBE. Fyrir utan að sameina þessar tvær tilskipanir er markmið tilskipunar 2013/34/ESB m.a. að draga úr umsýslukostnaði lítilla og meðalstórra félaga og bæta við­skipta­um­hverfi þeirra.

   

  Lagt er til í frumvarpinu að þegar frestur til að skila ársreikningi til ársreikningaskrár er liðinn, þá er lögð stjórnvaldssekt að fjárhæð 600.000 kr. á félög sem eigi hafa staðið skil á ársreikningi. Skili félag ársreikningi eða samstæðureikningi innan 30 daga frá tilkynningu um álagningu stjórnvaldssektar skal ársreikningaskrá lækka sektarfjárhæðina um 90%. Ef úrbætur eru gerðar innan tveggja mánaða frá tilkynningu sektarfjárhæðar skal lækka sektarfjárhæðina um 60%. Ef úrbætur eru gerðar innan þriggja mánaða frá tilkynningu sektarfjárhæðar skal lækka sektarfjárhæðina um 40%. 

   

  Athygli vekur það nýmæli í frumvarpinu, að ekki er unnt að skjóta ákvörðun ársreikningaskrár um álagningu sektar til yfirskattanefndar. Samkvæmt núgildandi lögum má skjóta ákvörðun um sekt til yfirskattanefndar.