Stimpilgjald - hlutaskipting félags

E.g., 2021-10-19
E.g., 2021-10-19
 •  

  Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 1240/2015 um framkvæmd áreiðanleikakannana vegna upplýsingaöflunar á sviði skattamála.

  1. gr.

  Við 3. gr. reglugerðarinnar bætist ný málsgrein svohljóðandi:

  Tilkynningaskyldar fjármálastofnanir skulu halda skrá yfir aðgerðir sem þær ráðast í vegna áreiðan­leika­kannana sem og hvaða gögn þær styðjast við þegar reikningar og reikningshafar eru auð­kenndir.

  2. gr.

  Í stað fylgiskjals skv. b. lið 39. tölul. 2. gr. reglugerðarinnar kemur nýtt fylgiskjal.

  3. gr.

  Gildistaka.

  Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 8. mgr. 92. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003, tekur þegar gildi.

   

 • Úr reglugerð nr. 1202/2016:

   

  1. gr.

  Gildissvið og markmið.

  Reglugerð þessi gildir um frádrátt frá tekjum erlendra sérfræðinga skv. 6. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Markmiðið er að laða að erlenda sérfræðinga sem búa yfir nauðsynlegri þekkingu og hæfni til starfa hér á landi og með því að gera fyrirtækjum auðveldara fyrir að fá til sín slíka aðila svo að ekki þurfi að fara með viðkomandi starfsemi úr landi.

   

  2. gr.

  Erlendur sérfræðingur og skilyrði frádráttar.

  Erlendum sérfræðingum, sem ráðnir eru til starfa hér á landi frá og með 1. janúar 2017 og eru skattskyldir á grundvelli 1. eða 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er heimilt að draga 25% tekna skv. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laganna frá tekjum fyrstu þrjú árin frá ráðningu í starf enda séu skilyrði 2. og 3. mgr. uppfyllt.

  Starfsmaður telst vera erlendur sérfræðingur, óháð ríkisborgararétti, í skilningi reglugerðar þess­arar, sbr. einnig 6. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, séu eftir­farandi skilyrði uppfyllt:

  1. hann hefur ekki verið búsettur eða heimilisfastur hér á landi á fimm ára tímabili næst á undan því almanaksári sem hann hóf störf hérlendis; og
  2. hann býr yfir þekkingu eða reynslu sem ekki er fyrir hendi hér á landi eða einungis í litlum mæli.

  Ákvæði 1. og 2. mgr., gilda einungis ef hinn erlendi sérfræðingur:

  1. er ráðinn til starfa hjá lögaðila sem hefur lögheimili eða fasta starfsstöð hér á landi og sá aðili greiðir honum laun sem sérfræðingi; og
  2. er ráðinn til að sinna verkefnum er krefjast sérþekkingar og reynslu sem ekki er fyrir hendi hér á landi eða í litlum mæli; og
  3. hann starfi á sviði rannsókna, þróunar og/eða nýsköpunar, kennslu eða við úrlausn og/eða uppbyggingu sérhæfðra verkefna; eða
  4. hann sinni framkvæmda- eða verkefnastjórnun eða öðrum verkefnum sem eru lykilþættir í starfsemi fyrirtækisins.

   

  3. gr.

  Form og skilyrði umsóknar.

  Umsókn um frádrátt samkvæmt 2. gr. skal berast til sérstakrar nefndar, sbr. 5. og 6. gr., er metur hvort viðkomandi starfsmaður fellur undir ákvæði reglugerðarinnar. Umsókn skal berast nefndinni eigi síðar en þremur mánuðum frá þeirri dagsetningu sem starfsmaður hóf störf hérlendis ella skal henni hafnað.

  Umsóknin skal vera skrifleg og ítarlega rökstudd með eftirfarandi fylgigögnum sem sýna fram á að starfsmaður uppfylli skilyrði reglugerðarinnar:

  1. fullu nafni og heimilisfangi/aðsetri viðkomandi starfsmanns ásamt staðfestingu Þjóðskrár Íslands á því að skilyrði a-liðar 2. mgr. 2. gr. séu uppfyllt;
  2. staðfestingu á ráðningarsamningi ásamt upplýsingum um laun og hvers konar hlunnindi; og
  3. gögnum er sýna fram á sérþekkingu eða reynslu, s.s. upplýsingar um menntun, starfs­reynslu (ferilskrá) eða annað sem sýnir fram á sérþekkingu og/eða sérhæfingu; og
  4. greinargerð um að umrædd sérþekking eða reynsla sé ekki fyrir hendi hér á landi eða í litlum mæli; og
  5. öðrum gögnum sem umsækjandi telur skipta máli.

   

  4. gr.

  Annmarkar á umsókn.

  Ef rökstuðningur og/eða fylgigögn umsóknar eru ófullnægjandi að mati nefndarinnar skal, eftir því sem nefndin telur ástæðu til, gefa umsækjanda kost á að bæta úr annmörkum. Að jafnaði skal ekki veittur lengri frestur en tvær vikur í því skyni. Verði ekki bætt úr annmörkum að mati nefndarinnar skal vísa umsókninni frá.

   

  5. gr.

  Nefndarskipan.

  Fjármála- og efnahagsráðherra skipar nefnd til að fara yfir umsóknir, sbr. 3. gr., og meta hvort skilyrði 2. gr. séu uppfyllt.

  Nefndin skal samanstanda af þremur nefndarmönnum, ásamt þremur nefndarmönnum til vara.

  Fjármála- og efnahagsráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra tilnefna hvor um sig sinn nefndarmann en sá þriðji skal skipaður án tilnefningar og vera formaður nefndarinnar.

  Varamenn nefndarinnar skulu skipaðir með sama hætti og nefndarmenn.

   

  6. gr.

  Starfshættir nefndarinnar.

  Nefndin skal að jafnaði taka ákvörðun um umsókn innan þriggja vikna frá þeirri dagsetningu er umsóknin barst.

  Nefndin skal halda skrá yfir þær umsóknir sem hún móttekur og sömuleiðis hvaða umsóknir hún samþykkir.

  Meirihluti nefndarmanna nægir til þess að umsögn verði samþykkt. Sé umsókn, sbr. 2. gr., sam­þykkt sendir nefndin ríkisskattstjóra staðfestingu þess efnis.

  Ákvörðun nefndarinnar er endanleg á stjórnsýslustigi.

   

   

  Jafnframt var gerð breyting á 2. gr. reglugerðar nr. 591/1987, um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu,  Eftirfarandi töluliður bætist við 2. gr. um greiðslur utan staðgreiðslu: 25% launatekna þeirra erlendu sérfræðinga sem hlotið hafa staðfestingu nefndar á því að þeir uppfylli skilyrði 6. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breyt­ingum, allt að þremur árum frá ráðningu í starf.

   

   

 • Úr reglugerð nr. 1166/2016:

  1 . gr.

  Markmið og gildissvið.

  Reglugerð þessi er sett með stoð í 5. mgr. 91. gr. a laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og kveður á um skyldu til að skila til ríkisskattstjóra ríki-fyrir-ríki skýrslu.

  Markmiðið með skilum á ríki-fyrir-ríki skýrslum er að gera skattyfirvöldum kleift að meta hvort verðlagning milli tengdra aðila sé í samræmi við armslengdarviðmið.

  Í skýrslunni skal gera grein fyrir tekjum, sköttum og efnahagslegri starfsemi heildarsamstæðunnar í þeim ríkjum þar sem lögaðilar innan hennar hafa skattalegt heimilisfesti. Ákvæði 1. og 2. mgr. eiga ekki við ef tekjur heildarsamstæðunnar voru lægri en 100 milljarðar króna á síðasta reikningsári. Með tekjum er átt við hvers konar tekjur, sbr. B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

  Ríki-fyrir-ríki skýrslu skal afhenda í því ríki sem móðurfélag heildarsamstæðu er heimilisfast, sbr. þó 2. mgr. 3. gr., og þaðan skal henni deilt án beiðni til annarra ríkja sem samstæðufélög starfa í á grundvelli upplýsingaskipta- og tvísköttunarsamninga.

   

  2. gr.

  Skilgreiningar.

  Eftirfarandi hugtök skulu hafa þá þýðingu sem fyrir mælir í þessari reglugerð:

  Heildarsamstæða (e. group of multinational enterprises): Tvö eða fleiri fjölþjóða félög (e. multi­national enterprises) innan samstæðu með skattalegt heimilisfesti í fleiri en einu ríki eða félag með skattalegt heimilisfesti í einu ríki en er líka skattskylt í öðru ríki vegna starfsemi fastrar starfs­stöðvar í þess eigu. Heildarsamstæða samanstendur af móðurfélagi ásamt dótturfélögum, föstum starfsstöðvum og/eða öðrum lögaðilum.

  Móðurfélag innan heildarsamstæðu (e. ultimate parent entity): Lögaðili sem hefur yfirráð yfir öðrum lögaðilum innan samstæðu, hvort sem yfirráðin eru með beinu og/eða óbeinu eignarhaldi eða stjórn­unar­legu eignarhaldi.

  Samstæðufélag (e. constituent entity): Lögaðili innan heildarsamstæðu, s.s. móðurfélag, dóttur­félag, eða hver annar lögaðili, þ.m.t. föst starfsstöð.

  Leiðbeiningarreglur OECD um milliverðlagningu (e. OECD Transfer Pricing Guidelines for Multi­national Enterprises and Tax Administrations): Leiðbeiningarreglur OECD fyrir fjölþjóðleg fyrirtæki og skattyfirvöld sem samþykktar voru af OECD árið 1995, með síðari breytingum.

   

  3. gr.

  Skil á ríki-fyrir-ríki skýrslu.

  Móðurfélagi heildarsamstæðu, sem er skattskylt í samræmi við 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekju­skatt, er skylt að skila ríkisskattstjóra eigi síðar en 12 mánuðum frá lokum reikningsárs ríki-fyrir-ríki skýrslu með þeim upplýsingum, sem kveðið er á um í 4. gr., í þeim ríkjum þar sem samstæðu­félög innan heildarsamstæðunnar hafa skattalegt heimilisfesti.

  Skylda til að skila til ríkisskattstjóra ríki-fyrir-ríki skýrslu, sbr. 1. mgr., hvílir á öðrum sam­stæðu­félögum innan heildarsamstæðunnar hafi þau skattalegt heimilisfesti hér á landi þótt þau teljist ekki vera móðurfélag hennar enda sé móðurfélagið erlent og:

  1. hinu erlenda móðurfélagi er ekki skylt að skila inn ríki-fyrir-ríki skýrslu, sbr. 1. mgr., í því ríki sem það er heimilisfast í; eða
  2. heimilisfestarríki hins erlenda móðurfélags hefur ekki gert upplýsingaskiptasamning við Ísland er kveður á um sjálfvirk upplýsingaskipti á skýrslu skv. 1. mgr.; eða
  3. ríkisskattstjóri hefur tilkynnt hinu íslenska samstæðufélagi að heimilisfestarríki hins erlenda móðurfélags hafi ekki gert upplýsingaskiptasamning í samræmi við b-lið eða skilar ekki ríkisskattstjóra af öðrum ástæðum skýrslu skv. 1. mgr.

  Samstæðufélag skv. 2. mgr. skal óska eftir því við hið erlenda móðurfélag að láta því í té allar þær upplýsingar sem þörf er á til að uppfylla skyldu þess til að skila inn ríki-fyrir-ríki skýrslu í samræmi við 1. mgr. Ef upplýsingar, sbr. 1. málsl., hafa ekki verið veittar eða hafa ekki verið fullnægjandi svo unnt sé að skila inn ríki-fyrir-ríki skýrslu fyrir heildarsamstæðuna skal samstæðufélagið skila til ríkis­skattstjóra skýrslu sem inniheldur allar þær upplýsingar sem félagið býr yfir og gera ríkis­skattstjóra viðvart um að hið erlenda móðurfélag hafi ekki veitt umbeðnar upplýsingar eða þær hafi ekki verið fullnægjandi.

  Í tilvikum þar sem 1. og 2. mgr. tekur til fleiri en eins skattaðila skv. 2. eða 4. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skulu aðilar ákveða sín á milli hver beri ábyrgð á að skila skýrslu skv. 1. mgr. Tilkynna skal ákvörðunina til ríkisskattstjóra við lok hvers reikningsárs heildarsamstæðunnar.

   

  4. gr.

  Upplýsingar í ríki-fyrir-ríki skýrslu.

  Ríki-fyrir-ríki skýrsla skal innihalda upplýsingar um tekjur hvers samstæðufélags innan heildar­samstæð­unnar, hagnað/tap fyrir tekjuskatt, áfallinn tekjuskatt á yfirstandandi rekstrarári, greiddan tekjuskatt, skráð hlutafé, óráðstafað eigið fé, fjölda starfsmanna ásamt upplýsingum um efnis­legar eignir aðrar en handbært fé.

  Í ríki-fyrir-ríki skýrslu skulu jafnframt koma fram efnislegar upplýsingar um samstæðufélögin, þar sem m.a. er upplýst í hvaða ríki hvert og eitt samstæðufélag innan heildarsamstæðunnar hefur heimilisfesti og hver sé aðalstarfsemi félagsins.

 • Reglugerð nr. 1165/2016:

   

  1. gr.

  Gildissvið.

  Reglugerð þessi gildir um fasta starfsstöð samkvæmt 3. gr. a laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Við túlkun ákvæðisins skal hafa hliðsjón af tvísköttunarsamningsfyrirmynd Efnahags- og framfara­stofnunarinnar (OECD).

   

  2. gr.

  Skilgreiningar.

  Eftirfarandi hugtök skulu hafa þá þýðingu sem fyrir mælir í þessari reglugerð:

  1. Föst starfsstöð: Föst atvinnustöð þar sem starfsemi fyrirtækis fer að nokkru eða öllu leyti fram. Hugtakið tekur einkum til:

   a) aðseturs framkvæmdastjórnar,
   b) útibús,
   c) skrifstofu,
   d) verksmiðju,
   e) verkstæðis og
   f) námu, olíu- eða gaslindar, grjótnámu eða annars staðar þar sem náttúruauðlindir eru nýttar.

  2. Fyrirtæki: Aðili sem stundar hvers kyns starfsemi sem ber takmarkaða skattskyldu hér á landi.

  3. Milligönguaðili: Aðili sem kemur fram fyrir hönd erlends fyrirtækis, svo sem miðlari, umboðs­maður eða umboðsaðili.

  4. Háður milligönguaðili: Aðili sem kemur fram fyrir hönd erlends fyrirtækis í samningagerð og hefur heimild til að ljúka samningum, eða á annan hátt gegnir lykilhlutverki í lúkningu samninga í nafni fyrirtækisins, án þess að það geri efnislegar breytingar á samningunum.

  5. Óháður milligönguaðili: Aðili sem kemur fram fyrir hönd erlends fyrirtækis innan marka venjulegs atvinnureksturs síns við samningagerð en gerir ekki samninga í nafni fyrirtækisins án þess að það geti gert efnisbreytingar á samningum sem gerðir eru í þess nafni. Komi milligönguaðili aftur á móti fram fyrir hið erlenda fyrirtæki að öllu eða mestu leyti og samningar milli hans og fyrirtækisins eru frábrugðnir þeim samningum sem eru milli óskyldra aðila, skal hann teljast háður milligönguaðili, sbr. 4. tölul.

  6. Undirbúnings- og aðstoðarstarfsemi: Starfsemi sem er til undirbúnings eða til aðstoðar aðal­starfsemi erlends fyrirtækis, þ.m.t. að nýta aðstöðu til geymslu gagna, sýningar eða birgða­halds á vörum eða öflunar upplýsinga fyrir fyrirtækið. Slík starfsemi telst ekki vera nauðsyn­legur eða órjúfanlegur hluti af heildarstarfsemi fyrirtækis.

  7. Netþjónar og tengdur tölvubúnaður: Tölvuforrit eða vélbúnaður og tölvur sem virkja annan vélbúnað, tölvur eða tölvuforrit og deilir til þeirra gögnum og upplýsingum. Með tengdum búnaði er átt við búnað sem er nauðsynlegur þáttur í virkni netþjóns og nýtist eingöngu umráðanda við­kom­andi netþjóns.

  8. Aðilar með náin tengsl við fyrirtæki: Aðilar teljast hafa náin tengsl við fyrirtæki ef annar aðilinn hefur yfirráð yfir hinum eða báðir lúta yfirráðum sömu aðila að teknu tilliti til allra staðreynda og aðstæðna er máli skipta. Í öllu falli teljast tveir aðilar hafa náin tengsl ef annar aðilinn á beint eða óbeint meira en helming raunverulegs hlutar í hinum aðilanum eða fer með meira en helming heildaratkvæða og á meira en helming heildarverðmætis hlutabréfa eða raunverulegrar eignar­hlutdeildar ef um félag er að ræða eða ef þriðji aðili á beint eða óbeint meira en helming raunveru­legs hlutar í báðum aðilum eða fer með meira en helming heildaratkvæða og á meira en helming heildar­verðmætis hlutabréfa eða raunverulegrar eignarhlutdeildar ef um félag er að ræða.

   

  3. gr.

  Skattskylda vegna fastrar starfsstöðvar.

  Þeir aðilar sem reka hér á landi fasta starfsstöð, taka þátt í rekstri fastrar starfsstöðvar eða njóta hluta af ágóða slíkrar starfsstöðvar skulu greiða tekjuskatt af þeim tekjum, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Eftirfarandi viðmið skulu höfð til hliðsjónar við mat á því hvort föst starfsstöð aðila sé til staðar hér á landi:

    a) um er að ræða fasta atvinnustöð, til að mynda aðstöðu eins og húsakynni, lóð, landareign, athafna­svæði, framkvæmdasvæði, vélbúnað eða tækjabúnað þar sem starfsemi fyrirtækis fer fram,
    b) aðstaðan þarf að vera „föst“ í þeim skilningi að hún sé á tilteknum stað og standi yfir í ákveð­inn tíma,
    c) starfsemin fer fram út frá föstu atvinnustöðinni. Í þessu felst að meginstefnu til að starfs­menn eða verktakar á vegum þess fyrirtækis sem telst vera með fasta atvinnustöð hér á landi starfrækja starfsemi eða gera fyrirtæki kleift að reka starfsemi út frá aðstöðu fyrirtækisins hér á landi.

   

  4. gr.

  Starfsemi sem felur ekki í sér fasta starfsstöð.

  Þrátt fyrir ákvæði reglugerðar þessarar tekur hugtakið „föst starfsstöð“ ekki til þeirrar starfsemi sem tilgreind er í eftirfarandi stafliðum, enda telst hún vera til undirbúnings eða til aðstoðar aðal­starfsemi erlends fyrirtækis:

    a) nýtingar aðstöðu sem einskorðuð er við geymslu, sýningu eða afhendingu á vörum eða varningi í eigu fyrirtækis,
    b) birgðahalds á vörum eða varningi í eigu fyrirtækis sem eingöngu er ætlað til geymslu, sýningar eða afhendingar,
    c) birgðahalds á vörum eða varningi í eigu fyrirtækis sem eingöngu er ætlaður til vinnslu hjá öðru fyrirtæki,
    d) fastrar atvinnustöðvar sem eingöngu er notuð í sambandi við kaup á vörum eða varningi eða öflun upplýsinga fyrir fyrirtæki,
    e) fastrar atvinnustöðvar sem eingöngu er notuð til að annast sérhverja aðra starfsemi fyrir fyrirtæki,
    f) umráða fyrirtækis yfir netþjónum og tengdum tölvubúnaði hér á landi,
    g) fastrar atvinnustöðvar sem nýtt er eingöngu til að reka hvers konar starfsemi sem samsett er úr þáttum sem falla undir a–f-liði þessarar málsgreinar.

  Ákvæði 1. mgr skal ekki gilda um fasta atvinnustöð sem er notuð eða starfrækt af fyrirtæki hér á landi, ef fyrirtækið eða fyrirtæki sem það hefur náin tengsl við hafa með höndum starfsemi á sama stað eða á öðrum stað hér á landi og

    a) fyrirtækið eða fyrirtæki sem það hefur náin tengsl við teljast hafa myndað fasta starfsstöð á þeim stað eða öðrum stað hér á landi, eða
    b) heildarstarfsemi beggja fyrirtækja á sama staða eða fyrirtækisins og fyrirtækja sem það hefur náin tengsl við á þeim sama stað eða öðrum stað hér á landi, felst ekki í því að vera undirbúnings- eða aðstoðarstarfsemi, samkvæmt a–g-liðum 1. mgr.,

  að því tilskildu að starfsemi fyrirtækjanna eða sama fyrirtækis og fyrirtækis sem það hefur náin tengsl við á þeim stað eða öðrum stað myndi samverkandi aðgerðir sem bæta hvor aðra upp og eru hluti af samþættri starfsemi fyrirtækjanna.

   

  5. gr.

  Byggingarstarfsemi.

  Byggingarsvæði eða byggingar- eða uppsetningarframkvæmd þ.m.t. samsetningarvinna telst vera föst starfsstöð ef hún stendur lengur yfir en sex mánuði. Tímabilið telst frá upphafi verks og til verkloka. Reikna skal með þann tíma sem til fellur vegna rofs á verkframkvæmdum þegar metið er hvort framkvæmdir standi lengur yfir en sex mánuði og skiptir ekki máli í þessu sambandi af hvaða orsökum verkrof verður. Sama á við sé verki skipt niður í smærri áfanga.

  Byggingarsvæði eða byggingar- eða uppsetningarframkvæmd þ.m.t. samsetningarvinna skal vera álitið sem eitt svæði eða ein framkvæmd þrátt fyrir að fleiri en einn samningur liggi að baki framkvæmdum, þó að því gefnu að samningarnir tengist með viðskiptalegum og landfræðilegum hætti og að um aðila með náin tengsl við fyrirtæki sé að ræða.

  Ekki skiptir máli hvort að samningi hafi verið skipt upp og hlutum hans útvistað til aðila með náin tengsl við fyrirtæki við mat á því hvort að fyrirtæki myndi fasta starfsstöð hér á landi í skilningi 1. og 2. mgr. Þegar þannig háttar til skal litið á tímabil kaupa eða framkvæmda hjá fyrirtæki og aðilum með náin tengsl við fyrirtæki sem eina heild við mat á því hvort að föst starfsstöð sé til staðar hér á landi skv. 1. málsl. 1. mgr.

   

  6. gr.

  Milligönguaðilar.

  Ef háður milligönguaðili hefur aðkomu að samningagerð fyrir erlent fyrirtæki og samningar eru:

    a) í nafni viðkomandi fyrirtækis eða
    b) varða yfirfærslu eignarréttar eða veitingu notkunarréttar á eign í eigu fyrirtækis eða eign sem fyrirtæki hefur umráðarétt yfir eða rétt til notkunar á eða
    c) eru komnir til vegna þjónustustarfsemi fyrirtækis hér á landi,

  skal fyrirtækið teljast hafa fasta starfsstöð vegna hvers konar starfsemi sem milligönguaðilinn hefur með höndum fyrir fyrirtækið. Þetta á þó ekki við ef starfsemi milligönguaðilans er takmörkuð við þá starfsemi sem um ræðir í 4. gr. og felur þar af leiðandi ekki í sér myndun fastrar starfsstöðvar samkvæmt ákvæðum þeirrar greinar.

  Fyrirtæki skal ekki teljast hafa fasta starfsstöð hér á landi samkvæmt 1. mgr., ef það hefur með höndum starfsemi út frá óháðum milligönguaðila sem kemur fram innan venjulegs atvinnurekstrar þess. Komi milligönguaðili hins vegar einvörðungu eða næstum einvörðungu fram fyrir hönd eins fyrirtækis eða fleiri, sem hann hefur náin tengsl við, sbr. 8. tölul. 2. gr., skal sá milligönguaðili ekki talinn vera óháður aðili í skilningi þessarar málsgreinar að því er varðar slík fyrirtæki. Við mat á því hvort milligönguaðili sé háður eða óháður skal m.a. líta til tímalengdar vinnu eða verkefnis, sjálfstæðis ásamt inntaki skilgreininga í 4. og 5. tölul. 2. gr.

  Við mat á því hvort að samningur sé bindandi milli fyrirtækis og viðsemjenda þess með aðkomu milligönguaðila, skal líta til allra atriða við samningsgerðina, t.a.m. samþykkis milligönguaðila, undirritunar hans undir skjöl o.fl. Þrátt fyrir að undirritun samnings fari fram erlendis skal slík undirritun þó ekki ein og sér leiða til þess að fyrirtæki myndi ekki fasta starfsstöð á Íslandi, ef að önnur atriði við samningsgerðina benda til þess að fyrirtæki myndi fasta starfsstöð hér á landi með aðkomu háðs milligönguaðila.

   

  7. gr.

  Netþjónar.

  Líta skal til almennra viðmiða ákvæðis 3. gr. a laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og ákvæða reglu­gerðar þessarar við mat á því hvort að föst starfsstöð sé til staðar hér á landi vegna reksturs net­þjóna í umráðum erlends fyrirtækis.

  Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal erlent fyrirtæki sem aðeins hefur umráð yfir netþjónum og tengdum tölvubúnaði ekki teljast hafa myndað fasta starfsstöð hér á landi ef starfsemin sem fram fer í netþjónum eða tengdum tölvubúnaði felst eingöngu í að annast undirbúnings- eða aðstoðar­starfsemi fyrirtækisins, sbr. 4. gr.

   

  8. gr.

  Gildistaka.

  Reglugerð þessi er sett með stoð í 7. mgr. 3. gr. a laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og tekur gildi 1. janúar 2017.

 • Í reglugerðinni er kveðið á um hvað skuli koma fram í rekstraryfirliti og efnahagsyfirliti.  Jafnframt eru tiltekin nokkur atriði er gera þarf grein fyrir:

   

  Upplýsa þarf um ábyrgðir og  ábyrgðaskuldbindingar sem ekki koma fram á efnahagsyfirliti.

   

  Gera þarf grein fyrir fyrirframgreiðslum og lánveitingum til stjórnenda og eigenda félaga.

   

  Upplýsa þarf um kaup og sölu eigin hluta, ástæður kaupa ofl.  Ef félag á ekki hlut í sjálfu sér, eða hefur ekki keypt eða selt hluti á reikningsárinu, skal það staðfest af stjórn og framkvæmdastjóra.

   

  Skýringar þurfa að fylgja efnahagsyfirliti og rekstraryfirliti.

   

  Þegar ársreikningi er skilað til ársreikningarskrár þarf að fylgja upplýsingablað með ýmsum upplúysingum um félagið, td. skal færa inn kennitölur tíu stærstu hluthafa eða alla ef þeir eru færri og færa skal inn nafn, kennitölu og eignarhluta innlendra dótturfélaga en annars nafn, eignar­hlut og heimaríki erlendra dótturfélaga.

   

  Brot gegn reglugerðinnii varða refsingu samkvæmt 2. tölul. 122. gr. laga nr. 3/2006 um árs­reikninga.

   

  Reglugerðin öðlast gildi strax og kemur til framkvæmda fyrir ársreikninga 2016.

   

 • Reglugerðir er varða skatta og gjöld og birtar hafa verið nýverið:

   

  Nr. 1236/2015

  REGLUGERÐ um breytingu á reglugerð nr. 541/2001, um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna sölu hópferðabifreiða úr landi, með síðari breytingum.

   

  Nr. 1237/2015

  REGLUGERÐ um breytingu á reglugerð nr. 192/1993, um innskatt, með síðari breytingum.

   

  Nr. 1238/2015

  REGLUGERÐ um innheimtu þinggjalda og jöfnunargjalds á árinu 2016.

   

  Nr. 1240/2015

  REGLUGERÐ um framkvæmd áreiðanleikakannana vegna upplýsingaöflunar á sviði skattamála.

   

  Nr.  1249/2015

  REGLUGERÐ  breytingu á reglugerð nr. 505/1998, um áfengisgjald, með síðari breytingum.

   

 • Breytingarreglugerðina má nálgast í hlekk með frétt.

   

  Stofnreglugerðina má nálgast með því að smella hér.

 • Reglugerðina má nálgast í hlekk með frétt.

   

  Hafið samband ef þörf er á frekari upplýsingum.

 • Breytingin er svohljóðandi:

   

  REGLUGERÐ
  um breytingu á reglugerð nr. 1188/2014, um endurgreiðslu á virðisaukaskatti til aðila búsettra erlendis.

  1. gr.

  Í stað 2. málsl. 3. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Endur­greiðsla skal að lágmarki vera í samræmi við fjárhæðir og viðmið sem birt eru í fylgi­skjali með reglugerð þessari. Sama gildir ef vörusala á sama sölureikningi ber bæði 24% og 11% virðisaukaskatt.

  2. gr.

  Í stað orðanna „Endurgreiðslan skal ætíð ákvörðuð í hundruðum króna“ í A-lið fylgiskjals reglu­gerðarinnar koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Ef aðeins hluti vara á sölureikningi ber 24% virðisaukaskatt og sölufjárhæð þess hluta nemur minna en kr. 6.000 skal endurgreiða 13% af þeirri fjárhæð. Endurgreiðslan skal ætíð ákvörðuð í heilum fimm tugum króna.

  3. gr.

  Í stað orðanna „Endurgreiðslan skal ætíð ákvörðuð í hundruðum króna“ í B-lið fylgiskjals reglugerðarinnar koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Ef aðeins hluti vara á sölureikningi ber 11% virðisaukaskatt og sölufjárhæð þess hluta nemur minna en kr. 6.000 skal endur­greiða 6% af þeirri fjárhæð. Endurgreiðslan skal ætíð ákvörðuð í heilum fimm tugum króna.

  4. gr.

  Reglugerð þessi, sem er sett með stoð í 1. mgr. 43. gr. laga nr. 50/1988, um virðis­auka­skatt, með síðari breytingum, öðlast gildi þegar í stað.

   

  Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 29. janúar 2015.

  F. h. r.
  Guðrún Þorleifsdóttir.
   

 • Reglugerðir settar í desember:

   

  Nr. 1209/2014
  REGLUGERÐ um (10.) breytingu á reglugerð nr. 368/2000, um söfnun, endurvinnslu og skilagjald á einnota umbúðir fyrir drykkjarvörur.

  30.12.2014


  Nr. 1188/2014
  REGLUGERÐ um endurgreiðslu á virðisaukaskatti til aðila búsettra erlendis.

  29.12.2014


  Nr. 1183/2014
  REGLUGERÐ um breytingu á reglugerð nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði, með síðari breytingum.

  23.12.2014


  Nr. 1180/2014
  REGLUGERÐ um skjölun og milliverðlagningu í viðskiptum tengdra lögaðila.

  23.12.2014


  Nr. 1146/2014
  REGLUGERÐ um gjaldabreytingar á grundvelli laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

  22.12.2014


  Nr. 1145/2014
  REGLUGERÐ um innheimtu þinggjalda og jöfnunargjalds á árinu 2015.

  22.12.2014


  Nr. 1144/2014
  REGLUGERÐ um breytingu á reglugerð nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, með síðari breytingum.

  22.12.2014


  Nr. 1143/2014
  REGLUGERÐ um breytingu á reglugerð nr. 192/1993, um innskatt, með síðari breytingum.

  22.12.2014


  Nr. 1142/2014
  REGLUGERÐ um breytingu á reglugerð nr. 541/2001, um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna sölu hópferðabifreiða úr landi, með síðari breytingum.

  22.12.2014