Velkomin á heimasíðu Skattatíðinda.is

Breytingar á sköttum og öðrum opinberum gjöldum eru tíðar. Breytingarnar skipta einstaklinga og fyrirtæki miklu máli og því er mikilvægt að fylgjast vel með. Á heimasíðu Skattatíðinda má ávallt nálgast nýjustu upplýsingar á aðgengilegan og einfaldan hátt.

 

Ef einhverjar spurningar vakna eru starfsmenn KPMG ehf. ávallt reiðubúnir að aðstoða.

E.g., 2017-08-20
E.g., 2017-08-20
 • Skattlagning heimagistingar

  Greinina er að finna í hlekk með fréttinni.

   

 • Tíund - Desember 2016

  Efni Tíundar að þessu sinni er eftirfarandi:

  1.  Leiðarinn
  2.  Potemkin-tjöld aflandsfélaga
  3.  Aukin þjónusta vegna álagningar og innheimtu
  4.  Hagskýrslugerð og skattframtöl
  5.  Virðisaukaskattur
  6.  Inga Jóna Óskarsdóttir formaður FBO
  7.  Birting álagningar
  8.  Rafrænn persónuafsláttur
  9.  Annáll nútíma skattasögu
  10. Ársreikningaskrá
  11. Aflandsfélög
  12. Álagning lögaðila 2016
  13. Raunverulegur eigandi
  14. Úrskurðir yfirskattanefndar
  15. Dómar
  16. Bindandi álit
  17. Lokaorðið
  18. Upplýsingatafla RSK

 • Úttekt á skattkerfinu - skýrsla samráðshóps

   

  Í skýrslunni eru m.a. tilgreindar tíu tillögur um bætta almenna skatta:

   

  1. Allir telji fram sem einstaklingar
  2. Barnabætur fylgi barni
  3. Vaxtabætur verði lagðar niður
  4. Ný skattþrep og persónuafsláttur
  5. Fækkun undanþága og sameining þrepa
  6. Raunávöxtun skattlögð í stað nafnávöxtunar
  7. Sveiflujöfnun tryggingagjalds
  8. Frádráttur vaxtagjalda takmarkaður 
  9. Eftirgjöf skulda myndi ekki skattskyldu
  10. Samræma skattlagningu samlagshlutafélaga við önnur félagaform

   

   

  Skýrsluna má finna í hlekk með fréttinni.

 • Norðurlönd - skattlagning sameignarfélaga, samlagsfélaga og samlagshlutafélaga

  Skýrsluna má finna hér, og  í hlekk með fréttinni. 

 • Skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins - úrbætur á tekjuskattskerfi einstaklinga og barna- og vaxtabótum

  Helstu niðurstöður skýrslunnar eru eftirfarandi:

   

  Framtíðarúrbætur á íslenska tekjuskattskerfinu ættu að beinast að breytingum á persónuafslætti, lægra tekjuskattshlutfallinu, barnabótum og vaxtabótum.

  Persónuafsláttur verði hækkaður og greiddur út til þeirra sem náð hafa 18 ára aldri, nýtist hann ekki að fullu á móti álögðum skatti.

  Barna- og vaxtabótakerfi verði einfölduð og bótum beint í ríkari mæli að lágtekjuheimilum.

  Ein föst fjárhæð barnabóta verði reiknuð fyrir hvert barn undir 18 ára aldri, óháð fjölskyldugerð.

  Skerðingarhlutfall barnabóta verði eitt og hækki töluvert frá því sem nú er.

  Vaxtabætur verði felldar niður í áföngum á næstu árum.

  Breytingar vaxtabóta falli að allsherjarendurskoðun á húsnæðisstuðningi stjórnvalda.

 • Greinargerð starfshóps um endurskoðun reglna um virðisaukaskatt og ferðaþjónustu

  Greinargerðin fylgir hér, sjá hlekk með fréttinni.

   

   

  Helstu niðurstöður starfshópsins eru eftirfarandi:

  Bæta þarf orðunum „skipulagðrar ferðaþjónustu aldraðra“ inn í 2. málsl. c-liðar 1. gr. laga nr. 124/2014, er breytir 6. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt, til að að tryggja að slík þjónusta verði undanþegin virðisaukaskatti með sama hætti og ferðaþjónustu fatlaðra, skólaakstur og almenningssamgöngur.

   

  Fella þarf orðin „og hópbifreiða“ brott úr 6. tölul. 3. mgr. 16. gr. laga um virðisaukaskatt til að tryggja rekstraraðilum slíkra bifreiða rétt til að færa innskatt á móti útskatti við uppgjör virðisaukaskatts.

   

  Gera þarf breytingu á 6. mgr. 42. gr. laga um virðisaukaskatt og 1. gr. reglugerðar nr. 541/2001, um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna sölu hópferðabifreiða úr landi, til að tryggja að eigendur hópferðabifreiða njóti ekki endurgreiðslna umfram innskattsrétt við sölu slíkra bifreiða úr landi.

   

  Til að tryggja þeim aðilum sem verða virðisaukaskattsskyldir 1. janúar 2016 fullnægjandi rétt til að draga innskatt frá útskatti við uppgjör á virðisaukaskatti þarf að gera umtalsverðar breytingar á reglugerð nr. 192/1993, um innskatt, m.a. hvað varðar innskattsleiðréttingu vegna eigna sem aflað er í starfsemi sem er ekki virðisaukaskattsskyld en verður það síðar. Starfshópurinn leggur til breytingar sem leiða til nákvæmari niðurstöðu við leiðréttingu innskatts og unnt er að hrinda í framkvæmd með skemmri fyrirvara en þegar hótel- og gistiþjónusta var felld undir skattskyldusvið virðisaukaskatts 1. janúar 1994.

   

  Æskilegt er að skráningarskylda erlendra ferðaþjónustuaðila fari enn um sinn a.m.k. eftir reglum gildandi laga um virðisaukaskatt og reglugerðar um virðisaukaskatt af þjónustu fyrir erlenda aðila og af aðkeyptri þjónustu erlendis frá.

   

  Ekki er talin þörf á laga- eða reglugerðarbreytingum til að efla eftirlit með virðisaukaskattsskilum erlendra ferðaþjónustuaðila á Íslandi. Efla þarf kynningu á innlendri virðisaukaskattsskyldu, þ.m.t. skráningarskyldu, til erlendra aðila og gera þeim fært að tilkynna sig til skattyfirvalda á einfaldan hátt. Starfshópurinn leggur til að ríkisskattstjóri, tollstjóri, samgöngustofa og Samtök ferðaþjónustunnar hafi með sér samstarf um eftirlit með erlendum ferðaþjónustuaðilum sem stunda fólksflutninga.

   

  Ýmis rekstrar-, félags- og samkeppnisrök mæla með því að akstur leigubifreiða verði felldur undir skattskyldu virðisaukaskatts.

   

  Samkeppnissjónarmið mæla með því að almenningssamgöngur verði felldar undir skattskyldu virðisaukaskatts. Eðli slíks rekstrar og úrlausnaratriði tengd opinberum styrkjum og skiptingu skatttekna milli ríkis og sveitarfélaga gera þó að verkum að það gæti reynst flókið.

   

  Ýmis afþreyingarstarfsemi hefur verið talin undanþegin virðisaukaskatti á grundvelli ákvæðis 1. málsl. 4. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Mögulegt væri að þrengja undanþáguna á þann hátt að aðeins söfn í skilningi safnalaga og bókasöfn í skilningi laga um bókasöfn féllu þar undir.

 • Skattaívilnanir fyrir sprotafyrirtæki

  Skattívilnanir fyrir sprotafyrirtæki

   

  Sprotafyrirtæki er hugtak sem notað hefur verið yfir nýstofnuð og ung fyrirtæki sem venjulega eru sprottin upp úr rannsókna- eða þróunarverkefnum einstaklinga, hópa eða fyrirtækja sem eru á því stigi að þróa viðskiptahugmynd og rannsaka markaðinn fyrir hana. Ívilnanir geta skipt miklu fyrir slík fyrirtæki fyrstu árin á meðan þau eru að komast af stað og vinna sig í átt að því að fara að skila hagnaði og þar með skatttekjum fyrir þjóðfélagið síðar meir. Það getur reynst dýrmætt að skipuleggja verkefni fram í tímann þannig að fyrirtækið geti átt þess kost að njóta góðs af ívilnunum sem í boði eru. Í skattamálum, líkt og mörgu öðru, gildir hið fornkveðna að í upphafi skyldi endinn skoða.

   

  Í gildi eru lög um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki nr. 152/2009 sem sprotafyrirtæki eiga kosta á að nýta sér að vissum skilyrðum uppfylltum. Stuðningurinn er fólginn í frádrætti frá álögðum tekjuskatti. Ef tekjuskattur er lægri en frádrátturinn, eða ef ekki lagður tekjuskattur á sprotafyrirtækið vegna skattalegs taps, er frádrátturinn greiddur til félagsins. Frádráttur er því ekki lýsandi heiti þar sem komið getur til útgreiðslu úr ríkissjóði. Frádrátturinn miðast við 20% af útlögðum kostnaði vegna nýsköpunarverkefnis sem hefur fengið staðfestingu Rannsóknarmiðstöðvar Íslands (Rannís), þó að hámarki 100 m.kr. á ári (20 m.kr. ívilnun) eða 150 m.kr. (30 m.kr. ívilnun) ef um aðkeypta rannsóknar- eða þróunarvinnu er að ræða. Njóti verkefnið annarra styrkja frá opinberum aðilum getur það leitt til lækkunar á ívilnun eftir ákvæðum laganna um hámark opinbers stuðnings.

   

  Sprotafyrirtæki þarf að vera á félagaformi sem vísað er til í lögunum, t.d. einkahlutafélag, til að skattívilnun komi til greina. Strax við stofnun sprotafyrirtækis er því mikilvægt að velja rétt félagaform. Til að verkefni geti hlotið staðfestingu Rannís þarf það að teljast rannsóknar- eða þróunarverkefni samkvæmt lögunum og að verkefnið sé hugmynd að virðisaukandi vöru eða þjónustu. Nú í mars var gefin út reglugerð nr. 247/2015 sem breytti gildandi reglugerð um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki nr. 758/2011. Í reglugerðinni eru rannsóknir og þróun skilgreind ítarlegar auk þess sem tiltekið er hvaða starfsemi telst ekki til þróunar heldur hluti af almennum rekstri sem er til bóta.

   

  Sprotafyrirtæki þurfa sjálf að verja a.m.k. 1 milljón króna til rannsókna og þróunar á 12 mánaða tímabili og starfsmenn eiga að hafa hlotið þjálfun, menntun eða búa yfir reynslu á því sviði sem hugmynd að virðisaukandi vöru eða þjónustu byggir á, til að verkefni fái staðfestingu. Það stóð til að hækka lágmarkið í 5 milljónir króna en hætt var við það sem verður að teljast jákvætt enda nýtist skattívilnunin sérstaklega litlum félögum.

   

  Rétt er að hafa í huga að fyrirtæki í fjárhagsvanda og félög sem ríkið á endurkröfurétt á vegna ólögmætrar ríkisaðstoðar eiga þess ekki kost að fá staðfestingu verkefna hjá Rannís. Í reglugerðinni er skilgreint hvenær fyrirtæki telst eiga í fjárhagsvanda. Þar kemur m.a. fram að félag með takmarkaðri ábyrgð, s.s. einkahlutafélag, telst félag í fjárhagsvanda ef bókfært eigið fé þess fer undir ákveðið viðmið. Skilyrði um eigið fé eru nokkuð stíf en þó hjálpar til að lítil og meðalstór fyrirtæki (færri en 250 starfsmenn) eru undanþegin þessu viðmiði í þrjú ár frá upphafi starfseminnar. Það má velta því fyrir sér hvort það sé of skammur tími, sérstaklega fyrir lítil sprotafyrirtæki sem geta þurft lengri tíma til að byggja upp eigið fé sitt.

   

  Rétt er að geta þess að öll fyrirtæki, ný sem gömul, stór sem lítil, sem vinna að verkefnum sem rúmast innan ramma laganna geta sótt um framangreinda skattívilnun, ekki bara sprotafyrirtæki. Umsóknarfrestur til Rannís er til 1. október ár hvert (var áður 1. september) en umsókn um árlega framlengingu staðfestingar vegna framhaldsverkefnis þarf að skila fyrir 1. apríl ár hvert.

   

  Ása Kristín Óskarsdóttir, hdl., sérfræðingur á skatta- og lögfræðisviði KPMG ehf.

   

 • Hjúskapur eða sambúð; skiptir það máli í erfðarétti?

  Hjúskapur eða sambúð; skiptir það máli í erfðarétti?

   

  Ákveðins misskilnings virðist gæta um að réttarstaða giftra einstaklinga og einstaklinga í sambúð sé sú sama þegar kemur að erfðarétti og því er mikilvægt að vekja athygli á því máli. Reglurnar eru eftirfarandi: Við andlát annars hjóna skiptast heildareignir þeirra í jöfnum hlutum milli dánarbúsins og eftirlifandi maka, nema ef hjónin hafi gert kaupmála sem skilgreinir séreignir þeirra.  Ef par er gift þá erfast eignir þess skammlífari að fullu til maka ef engin eru börnin en annars erfist 1/3 hluti af helmingshluta þess skammlífari til maka hans en 2/3 til barna. Langlífari makinn greiðir engan erfðafjárskatt af arfinum, en börnin greiða 10% erfðafjárskatt af sínum arfi. Hins vegar skiptast eignir sambúðarpars ekki við andlát annars, sá sem er skráður fyrir eignunum á þær og aðeins hans lögerfingjar (börn ef þau eru til staðar, annars foreldrar, síðan systkini) erfa hans eignir. Það skiptir ekki máli hversu lengi par hefur verið í sambúð, erfðaréttur þeirra breytist ekki nema með gerð erfðaskrár. Samkvæmt erfðalögum þá geta allir 18 ára og eldri ráðstafað eignum sínum með erfðaskrá, svo lengi sem þeir eru heilir heilsu andlega. En arfleifanda er aðeins heimilt að ráðstafa 1/3 eigna sinna með erfðaskrá sé hann giftur eða á barn, þ.e. sé um svokallaða skylduerfingja að ræða. Sambúðarpar getur samkvæmt þessu gert réttarstöðu sína eins og hjá pari í hjúskap ef þau eiga engin börn og gera erfðaskrá. Þegar sambúðarparið eignast barn þá getur parið aðeins arfleitt hvort annað að 1/3 eigna sinna, í slíkum tilfellum. Þá fellur sjálfkrafa úr gildi áður gerð erfðaskrá. Eftirlifandi sambúðaraðili sætir ekki álagningu erfðafjárskatts af arfi sem honum hlotnast á grundvelli erfðaskrár milli hans og sambúðaraðila.

   

  Annað sem þörf er að vekja athygli á er að ef hjón eiga eingöngu sameiginleg börn þá á langlífari makinn sjálfkrafa rétt á setu í óskiptu búi nema ef sá skammlífari hafi mælt fyrir í erfðaskrá að skipti skuli fara fram. Ef hjónin eiga börn utan hjónabandsins (stjúpbarn hins), geta hjónin mælt svo fyrir í erfðaskrá að langlífari makinn megi sitja í óskipti búi og geta þá stjúpbörnin ekki stöðvað þá gerð. En annars segir svo í lögum að langlífari makinn getir aðeins setið í óskiptu búi með ófjárráða stjúpbörnum sínum með samþykki lögráðamanna þeirra eða ef stjúpbörnin eru fjárráða með samþykki þeirra sjálfra. Því getur skipt miklu máli að gera erfðaskrá, sé vilji til að bú sé óskipt.

   

  Þriðja atriðið sem vert er að minnast á er ákvæði sem margir setja nú í erfðaskrár sínar en það er að arfur verði séreign þeirra er við taka. Almenna reglan er sú, að samkvæmt lögum þá verður arfur sem fellur erfingja í skaut sameign hans og maka hans nema ef arfleifandi hafi kveðið á um annað í erfðaskrá sinni. Mörgum þykir slíkt ákvæði mikilvægt til að standa vörð um framtíðareignir barna sinna.

   

  Mikilvægt er að vanda vel til verka við gerð erfðaskráa enda geta allmörg atriði ógilt erfðaskrána samkvæmt lögum og því miður er vel þekkt að erfingjar deili um gildi erfðaskráa fyrir dómstólum. Með erfðaskrá getur arfleifandi ráðstafað eignum sínum að sinni ósk og enginn maður er of ungur til að huga að þessum málum, þ.e. ef hann hefur náð 18 ára aldri. Greinahöfundur útbjó sína erfðaskrá 29 ára, enda veit enginn sína ævi fyrr en öll er.

   

  Rétt er að hafa í huga að af arfi skulu allir erfingjar greiða 10% erfðafjárskatt aðrir en langlífari maki og sambúðaraðili sem tekur arf samkvæmt erfðaskrá. Að lokum er vert að geta þess að yfirfærsla eigna, að verðmæti umfram hæfilega tækifærisgjöf, telst vera tekjuskattskyld gjöf, nema gengið sé frá eignayfirfærslunni sem fyrirframgreiddum arfi og erfðafjárskattur greiddur eftir því sem við á.

 • Tíund komið út

  Efni tölublaðsins er eftirfarandi:

  • Leiðarinn
  • Samþykki Leiðréttingarinnar
  • "Veldur hver á heldur"
  • Rafrænt Eistland
  • Aukin og bætt þjónusta RSK
  • Breytingar á skattalegri stöðu við gjaldþrot
  • Persónuafsláttur, staðgreiðsla og tryggingagjald
  • Bandarísk sendinefnd fundar vegna FATCA
  • Skattbyrði fjölskyldna
  • Margháttuð þjónusta RSK
  • Rétt skráning lykilatriði
  • Atvinnurekstur 2013
  • Stöðvun ólöglegs atvinnurekstrar
  • Skattlagning listamanna
  • Bindandi álit
  • Úrskurðir yfirskattanefndar
  • Dómareifanir
  • Lokaorðið

 • Ferðaþjónustan og virðisaukaskattur

  Viðamiklar breytingar voru gerðar á virðisaukaskattslöggjöfinni í lok síðasta árs og má skipta þeim í tvo meginþætti. Annars vegar var skatthlutföllum í virðisaukaskatti breytt, þar sem að efra skatthlutfallið var lækkað úr 25,5% í 24% en það neðra hækkað úr 7% í 11% frá síðustu áramótum. Hins vegar var skattstofninn breikkaður, en þær breytingar hafa ekki verið eins mikið í umræðunni og mætti ætla þegar horft er til þeirra áhrifa sem að þær munu hafa þegar þær hafa að fullu komið til framkvæmda í ársbyrjun 2016. Þær breytingar snúa fyrst og fremst að ferðaþjónustunni. Ástæða þess að gildistöku þeirra breytinga er snúa að ferðaþjónustunni var frestað til 1. janúar 2016 er að í mjög mörgum tilvikum var búið að ganga frá sölu vegna ársins 2015 til erlendra ferðaþjónustuaðila áður en frumvarp um breytingar á lögunum var lagt fram á Alþingi síðasta haust. Ferðaþjónustufyrirtæki eru á þessum fyrstu mánuðum ársins 2015 að gera verðtilboð og ganga frá sölu á þjónustu sem veitt verður á næsta ári og því eru þessar breytingar strax farnar að hafa mikil áhrif þar sem taka þar tillit til þeirra í verðlagningu á þjónustu eftir 1. janúar 2016.
   
  Hvað breytist?
  Frá 1. janúar 2016 verður ákveðin tegund fólksflutninga, þ.e. fólksflutningar í afþreyingarskyni virðisaukaskattsskyldir. Almenningssamgöngur eftir fyrirfram birtri áætlun og skólaakstur verður þó áfram undanþeginn virðisaukaskatti. Þjónusta og milliganga ferðaskrifstofa, ferðaskipuleggjenda og annarra er koma að skipulagningu ferða, bæði innlendra og erlendra aðila, verður einnig virðisaukaskattsskyld. Þá verður aðgangur að baðstöðum sem falla utan undanþágu vegna íþróttastarfsemi og aðgangs að íþróttamannvirkjum einnig virðisaukaskattsskyldur. Með einföldum hætti er því hægt að segja að erlendur ferðamaður sem kemur til landsins á næsta ári og kaupir hér þjónustu við að skipuleggja fríið sitt, fer í Bláa lónið og skoðar Gullfoss og Geysi greiðir virðisaukaskatt af allri þeirri þjónustu sem hann kaupir en greiðir fram til áramóta eingöngu virðisaukaskatt af hótelgistingu og veitingum.
   
  Hvað þarf að gera?
  Margar spurningar hafa vaknað vegna þeirra áhrifa sem þær breytingar sem gerðar hafa verið á virðisaukaskattsumhverfi ferðaþjónustunnar muni hafa. Aðilar sem eru á leið í virðisaukaskattsumhverfi þurfa því að huga að þeim breytingum sem verða í mörgum þáttum í rekstri þeirra bæði er varðar uppsetningu bókhalds og breytinga á skattskilum, skráningu á virðisaukaskattsskrá og áhrif á söluverð vöru og þjónustu á næsta ári. Fjölmörg ferðaþjónustufyrirtæki eru nú þegar farin að senda frá sér tilboð, taka við bókunum og gera ráðstafanir vegna ferða á næsta ári. Áhrif þess að fara inn í virðisaukaskattsumhverfi eru mismunandi á ferðaþjónustufyrirtækin og því nauðsynlegt að þau séu metin og tekið tillit til þeirra   sem fyrst.
   
  Fæst virðisaukaskatturinn endurgreiddur af fjárfestingum?
  Ýmis álitaefni munu vakna og má þar nefna atriði eins og mögulegan rétt á að fá innskatt endurgreiddan af fjárfestingum sem ráðist var í áður en fyrirtæki urðu virðisaukaskattsskyld, en eru ennþá í notkun. Spurt hefur verið hvort fyrirtæki eigi rétt á að fá endurgreiddan hluta af virðisaukaskatti af fjárfestingum í rekstrarfjármunum  sem verða teknar til virðisaukaskattsskyldra nota frá næstu áramótum. Þessari spurningu hefur ekki verið svarað með fullnægjandi hætti en í reglugerð um innskatt er að finna ákvæði sem taka til leiðréttingar á nýtingu innskatts þegar hlutfall virðisaukaskattsskyldrar starfsemi breytist. Færa má rök fyrir því að ákvæði þetta eigi einnig við þegar nýjar atvinnugreinar verða virðisaukaskattsskyldar en skýr svör hafa ekki fengist við þeirri túlkun. Um mikla hagsmuni er að ræða fyrir ferðaþjónustufyrirtækin enda mikið verið fjárfest í ferðaþjónustu á undanförnum árum.
   
  Næstu skref
  Stjórnvöld hafa sett á fót starfshóp sem skipaður er fulltrúum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, ríkisskattstjóra og samtökum ferðaþjónustunnar sem ætlað er að skila tillögum um breytingar á lögum til að skýra nánar og sníða af agnúa sem þegar hafa komið í ljós við þær breytingar sem gerðar voru en hafa ekki tekið gildi. Einnig er hópnum ætlað að gera tillögur að breytingum á reglugerðum tengdum virðisaukaskatti.
   
  Alexander G. Eðvardsson
  Sviðstjóri skatta- og lögfræðisviðs KPMG
  17. apríl 2015.