Velkomin á heimasíðu Skattatíðinda.is

Breytingar á sköttum og öðrum opinberum gjöldum eru tíðar. Breytingarnar skipta einstaklinga og fyrirtæki miklu máli og því er mikilvægt að fylgjast vel með. Á heimasíðu Skattatíðinda má ávallt nálgast nýjustu upplýsingar á aðgengilegan og einfaldan hátt.

 

Ef einhverjar spurningar vakna eru starfsmenn KPMG ehf. ávallt reiðubúnir að aðstoða.

E.g., 2017-06-24
E.g., 2017-06-24
 • Ívilnun í sköttum - tap á útistandandi kröfum

  Úr úrskurði yfirskattanefndar nr. 96/2017:

  Samkvæmt framansögðu þykir málið liggja þannig fyrir að það velti á því hvort rétt hafi verið að ríkisskattstjóri synjaði ívilnunarbeiðni kærenda á þeim grundvelli að ekki yrði séð að kærendur hafi getað vænst þess, þegar þau gengust í ábyrgð vegna skulda E, að ábyrgðin félli ekki á þau. Í þessari forsendu ríkisskattstjóra felst að kærendur hafi ekki gert sennilegt eða fært að því líkur að þau hefðu mátt vænta þess að veitt ábyrgð félli ekki á þau. Ljóst er að í þessu sambandi miðar ríkisskattstjóri við að ábyrgðin hafi verið veitt 8. febrúar 2009. Umræddan dag samþykktu kærendur veðsetningu í fasteign sinni til tryggingar lántöku E að fjárhæð 11.000.000 kr. hjá SPRON hf. sem gekk til greiðslu hluta skuldar hans við SPRON Verðbréf hf. í samræmi við samkomulag hans við verðbréfafyrirtækið sama dag. Samkvæmt þeim samningi skyldu SPRON Verðbréf hf. aflýsa tveimur tryggingabréfum í fasteign kærenda samhliða þinglýsingu veðskuldabréfsins. Var þar vísað til tryggingabréfa sem kærendur gáfu út 4. júlí 2008 að fjárhæð 6.000.000 kr. og 26. september 2008 að fjárhæð 5.000.000 kr. Samkvæmt samkomulaginu töldust þær veðsetningar standa til tryggingar umræddri skuld E og eru engin efni til annars en að ætla að kærendur hafi við gerð samkomulagsins talið svo vera. Að þessu athuguðu þykir ekki fá staðist hjá ríkisskattstjóra að líta á ábyrgðartöku kærenda samkvæmt umræddu samkomulagi án tengsla við veðheimild þeirra sumarið 2008. Þykir þvert á móti blasa við að ábyrgð kærenda sem veðsala vegna umræddra skuldbindinga E hafi upphaflega komið til 4. júlí 2008, svo sem bent var á í úrskurði yfirskattanefndar nr. 126/2016. Framhjá þessu lítur ríkisskattstjóri með öllu í úrlausn sinni, en heldur sig við það að ábyrgðin hafi komið til 8. febrúar 2009 og ályktar að kærendum hafi á þeim tíma mátt vera ljóst að ábyrgðin myndi falla á þau, enda hafi E „þegar á árinu 2008 verið ófær um að standa við skuldbindingar sínar“. Vegna þessarar forsendu sinnar hefur ríkisskattstjóri enga afstöðu tekið til þess hvort líklegt megi telja að kærendur hafi við veitingu ábyrgðar í júlí 2008 haft réttmætar væntingar um að ábyrgðin félli ekki á þau, sbr. d-lið 1. tölul. A-liðar 49. gr. reglugerðar nr. 245/1963, enda verður að skilja umfjöllun ríkisskattstjóra um hagi E á árinu 2008 svo að miðað sé við stöðu mála eftir fall stóru viðskiptabankanna þriggja í október það ár. Samkvæmt framansögðu verður að telja að verulegur annmarki hafi verið á rökstuðningi ríkisskattstjóra, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003 og 1. og 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993

 • Hrossarækt - atvinnurekstur

  Úr úrskurði yfirskattanefndar nr. 90/2017:

  Vegna umfjöllunar ríkisskattstjóra um umsvif kæranda á sviði umboðssölu með hross á fyrri árum skal tekið fram að rekstrarskýrslur með skattframtölum kæranda árin 2003 til og með 2011 bera með sér að hann hafi fram á árið 2010 stundað slíkan rekstur sem ríkisskattstjóri vísar til. Í rekstrarskýrslunum eru flest árin tilgreindar „birgðir“ án nánari skýringa og verður helst ráðið að þar séu hross færð til eignar. Þessum rekstri kæranda lauk á árinu 2010, eftir því sem ráðið verður af skattskilum hans, og voru m.a. engar birgðir tilgreindar í árslok það ár samkvæmt rekstrarskýrslu með skattframtali árið 2011. Ekki taldi kærandi heldur fram hesta til eignar í skattframtalinu. Í lið 4.4 í skattframtölum kæranda árin 2012, 2013, 2014 og 2015 var hins vegar gerð grein fyrir hrossaeign í árslok 2011, 2012, 2013 og 2014 sem var á bilinu fimm til tíu hross að meðtöldum tryppum og folöldum og fór hausum fjölgandi á tímabilinu. Hvað sem því líður liggur fyrir að kærandi telur sig ekki hafa á þessum árum, þar á meðal á árinu 2014, stundað hrossarækt í atvinnuskyni eða haft með höndum umboðssölu á hrossum eða aðra umsýslu með hross í sjálfstæðri starfsemi. Að því frátöldu sem fram kemur í greindum starfslokasamningi kæranda og K ehf. þykja málsgögn ekki benda í aðra átt að þessu leyti. Samkvæmt framansögðu verður ekki talið að neitt liggi fyrir með öryggi um viðskipti kæranda með hross á árinu 2014, önnur en söluna á hryssunni B, eða rekstrartengd umsvif hans á sviði hestamennsku að öðru leyti á því ári. Þá verður ekki annað séð en að þrjú ár þar á undan hafi kærandi ekki haft með höndum atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, hvorki á sviði hrossaræktar né umboðssölu með lífdýr. Samkvæmt þessu verður að telja að skírskotun ríkisskattstjóra til hrossaviðskipta kæranda á fyrri árum sé langsótt. Atvinnurekstur kæranda á þessu sviði á síðara ári getur tæpast heldur haft verulega þýðingu. Sú staðreynd að greind viðskipti voru tengd starfslokum kæranda hjá vinnuveitanda hans er ekki heldur sérstaklega til vitnis um að þau hafi verið liður í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi kæranda, miðað við það sem fram hefur komið í málinu. Þá verður ekki talið að sú staðreynd að kærandi gaf út sölureikning vegna umræddra viðskipta geti ráðið úrslitum við mat á eðli tekna kæranda af sölu hryssunnar án tillits til annarra atriða sem skipt geta máli í þeim efnum, sbr. hér að framan.

   

  Með vísan til framanritaðs og að virtum fram komnum skýringum kæranda að öðru leyti þykir bera að byggja á því að umrædd hryssa hafi verið eign utan atvinnurekstrar þegar sala hennar telst hafa farið fram á árinu 2014. Samkvæmt þessu fá forsendur ríkisskattstjóra fyrir skattlagningu hagnaðar af sölunni ekki staðist. Að svo vöxnu og þar sem ríkisskattstjóri hefur ekki skotið neinum öðrum stoðum undir ákvörðun sína um skattlagningu tekna þessara þykir bera að fella hana úr gildi.

 • Starfsemi fagfjárfestasjóðs - virðisaukaskattsskylda

  Úr bindandi álit ríkisskattstjóra nr. 06/2017:

   

  Fram kemur að álitsbeiðendur hafa í hyggju að stofna fagfjárfestasjóð í formi óskattskylds samlagshlutafélags. Fyrirhugað er að A verði ábyrgðaraðili samlagshlutafélagsins og dótturfélag B í skilningi laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Upplýst er að B sé með starfsleyfi samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki og staða A sem dótturfélags myndi gera því kleift að veita móðurfélagi sínu leyfisskylda þjónustu sbr. 5. tölul. 3. mgr. 3. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Í álitsbeiðni kemur fram að A sjálft yrði ekki með starfsleyfi samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki og myndi ekki veita neinum öðrum en móðurfélagi sínu þjónustu.

   

  Álitsbeiðendur óska eftir að ríkisskattstjóri staðfesti með bindandi áliti að „fyrirhuguð starfsemi B og A á grundvelli samnings um eignastýringu, fjárfestingaráðgjöf o.fl. og samnings um útvistun sé þess eðlis að teljast undanþegin virðisaukaskatti“, sbr. 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

   

  II. Starfsemi álitsbeiðenda með hliðsjón af 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988:

  • a. Fagfjárfestasjóðurinn.

   Starfsemi fagfjárfestasjóðs eins og álitsbeiðendur hyggjast stofna fellur undir gildissvið 1. gr. laga nr. 128/2011. Miðað við að rekstrarform hins fyrirhugaða sjóðs verði óskattskylt samlagshlutafélag verður að gera ráð fyrir að stofnun hans sé samkvæmt ákvæðum 60. gr. sömu laga en samkvæmt 61. gr. þeirra er gert ráð fyrir að sams konar sjóðir sem öðrum en rekstrarfélögum verðbréfasjóða er heimilt að stofna séu sjálfstæðar lögpersónur. Hlutverk fagfjárfestasjóða samkvæmt 1. gr. laganna, sbr. einnig 3. tölul. 2. gr., er að veita viðtöku fé frá fagfjárfestum til sameiginlegrar fjárfestingar í fjármálagerningum og öðrum seljanlegum eignum á grundvelli áhættudreifingar samkvæmt fyrir fram kunngerðri fjárfestingarstefnu. Samkvæmt framansögðu felst starfsemi sjóðsins í ávöxtun fjár viðskiptamanna hans sem er sambærileg eiginlegri starfsemi lánastofnana og telst því undanþegin virðisaukaskatti á grundvelli 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, sbr. framangreinda afmörkun ákvæðisins.

   

  • b. B

   Starfsleyfi álitsbeiðanda B tekur til rekstrar verðbréfasjóða, eignastýringar og fjárfestingaráðgjafar samkvæmt 27. gr. laga nr. 161/2002, sbr. einnig C- og D-liði 6. tölul. og 7. tölul. 1. mgr. 3. gr. sömu laga. Starfsheimildir álitsbeiðanda B felast þannig í rekstri verðbréfasjóða og annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu, eignastýringu, fjárfestingarráðgjöf og vörslu og stjórnun fjármálagerninga í sameiginlegri fjárfestingu. Í 14. gr. laga nr. 128/2011 er m.a. kveðið á um að framkvæmdastjóri rekstrarfélags og sjóðstjórar skuli hafa staðist próf í verðbréfaviðskiptum, sbr. 53. gr. laga nr. 161/2002. Í 2. mgr. 16. gr. laga nr. 128/2011 er kveðið á um að rekstrarfélag beri ábyrgð á rekstri verðbréfasjóða og sjóðsdeilda og komi fram fyrir þeirra hönd. Þá er 2. mgr. 60. gr. kveðið á um að rekstrarfélag beri ekki ábyrgð á skuldbindingum einstakra fagfjárfestasjóða en einvörðungu eignir hvers sjóðs standi til fullnustu skuldbindingum hvers þeirra. Ákvæðið víki þó ekki til hliðar skaðabótaábyrgð rekstrarfélags. Í 17. gr. laga nr. 128/2011 eru talin upp verkefni rekstrarfélaga verðbréfasjóða sem auk eignastýringar og fjárfestingarráðgjafar, sbr. 27. gr. laga nr. 161/2002, felast m.a. í fjárfestingum í samræmi við fjárfestingarstefnu, umsýslu, áhættustýringu og markaðssetningu sem er óheimil gagnvart almenningi að því er varðar fagfjárfestasjóði, sbr. 1. mgr. 62. gr. laganna. Í umsýslu felast samkvæmt ákvæðinu bókhalds- og lögfræðiþjónusta, þjónusta við viðskiptavini, mat á verðmæti verðbréfa og annarra eigna, innra eftirlit, að halda og uppfæra skrá yfir eigendur hlutdeildarskírteina, útreikningur innlausnarvirðis, útgáfa og innlausn hlutdeildarskírteina, uppgjör viðskipta og varsla hlutdeildarskírteina og gagna um viðskipti. Eins og að framan greinir eru rekstrarfélög verðbréfasjóða skattskyld samkvæmt lögum nr. 165/2011 á þeirri forsendu að þau séu undanþegin virðisaukaskatti samkvæmt 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988. Með hliðsjón af því og þar sem um er að ræða starfsleyfisskylda starfsemi samkvæmt lögum nr. 161/2002 sem afmörkuð er í sömu lögum og lögum nr. 128/2011 þar sem jafnframt er kveðið skýrt á um ábyrgð rekstrarfélaga, verður að telja að starfsemi B samkvæmt samningsdrögum um eignastýringu, fjárfestingarráðgjöf o.fl. sé nauðsynlegur og eðlilegur þáttur í undanþeginni starfsemi sjóðsins og því sé hún undanþegin virðisaukaskatti með sama hætti samkvæmt 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, sbr. framangreinda afmörkun ákvæðisins. Verðbréfasjóður verður auk heldur ekki starfræktur án rekstrarfélags, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 128/2011. Ýmsir þættir í þjónustu B fyrir sjóðinn eru virðisaukaskattsskyldir samkvæmt almennum ákvæðum laga nr. 50/1988 stæðu þeir einir og sér, þ.m.t. ráðgjafaþjónusta, bókhalds- og lögfræðiþjónusta og undirbúningur að gerð ársreiknings og samskipti við endurskoðendur, en telja verður að sú þjónusta sem þar um ræðir sé veitt í slíkum tengslum við hina undanþegnu þjónustu að þannig megi telja að hún falli undir undanþáguákvæðið með sama hætti og aðalþjónustan, sbr. fyrrgreindan úrskurð yfirskattanefndar nr. 153/2016.

   

  • c. A (óstofnað):

   Samkvæmt hinum fyrirhuguðu ráðstöfunum álitsbeiðenda útvistar B hluta verkefna sinna fyrir sjóðinn til dótturfélags síns, A, sbr. ákvæði 1. mgr. 18. gr. laga nr. 128/2011 þar sem kveðið er á um að rekstrarfélagi verðbréfasjóða sé heimilt að útvista verkefnum skv. 17. gr. til annarra aðila að tilteknum skilyrðum uppfylltum og að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins. Í álitsbeiðni er tekið fram að A muni einungis veita móðurfélagi sínu, B, hina leyfisskyldu þjónustu og að staða A sem dótturfélags samkvæmt 5. tölul. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002 geri því kleift að veita móðurfélagi sínu þjónustuna án starfsleyfis. Í 2. mgr. 18. gr. laga nr. 128/2011 er kveðið á um að ábyrgð rekstrarfélags gagnvart eigendum hlutdeildarskírteina haldist óbreytt þó að það feli öðru fyrirtæki hluta af verkefnum sínum skv. 17. gr., sbr. einnig 8. mgr. 62. gr. Samkvæmt fyrirliggjandi samningsdrögum um útvistun verkefna mun A annast eignastýringu, fjárfestingarráðgjöf fyrir sjóðinn og tiltekna umsýslu sem rúmast innan framangreindra ákvæða 17. gr. laga nr. 128/2011. Sem fyrr greinir eru eignastýring og fjárfestingarráðgjöf leyfisskyldar samkvæmt lögum nr. 161/2002, sbr. lög nr. 111/2007, um breytingar á lagaákvæðum um fjármálafyrirtæki o.fl., þar sem innleidd var svo nefnd MiFID-tilskipun Evrópusambandsins en með henni var fjárfestingarráðgjöf gerð leyfisskyld. Með hliðsjón af framangreindu, þ.m.t. hinum nánu tengslum álitsbeiðenda samkvæmt ákvæðum 5. tölul. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002, verður jafnframt að telja að þjónusta A samkvæmt samningsdrögum um útvistun verkefna sé nauðsynlegur og eðlilegur þáttur í hinni undanþegnu starfsemi B fyrir sjóðinn og sé því undanþegin með sama hætti samkvæmt 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, sbr. framangreinda afmörkun ákvæðisins.

   

   

  Álitsorð:

  Ríkisskattstjóri hefur komist að eftirfarandi niðurstöðu vegna þeirra álitaefna sem sett eru fram í álitsbeiðninni:

  • Álitsbeiðendur teljast undanþegnir virðisaukaskatti á grundvelli 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, af fyrirhugaðri starfsemi sinni á grundvelli samningsdraga um eignastýringu, fjárfestingaráðgjöf o.fl. og samningsdraga um útvistun verkefna þeirra sem beint falla undir undanþegna starfsemi móðurfélagsins.

 • Erfðafjárskattur - skattstofn fasteignar

  Úr úrskurði yfirskattanefndar nr. 86/2017:

  Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl., er erfingja heimilt meðan skiptum hefur ekki verið lokið og dánarbúið hefur ekki verið tekið til opinberra skipta að krefjast að þær eignir þess, sem hefur ekki þegar verið ráðstafað við skiptin, verði að einhverju leyti eða öllu skrásettar og eftir atvikum metnar til peningaverðs. Með sama hætti getur erfingi krafist þess að skuldbindingar dánarbúsins verði metnar til peningaverðs. Skal kröfu um þessar aðgerðir beint skriflega til þess sýslumanns sem skiptin eiga undir. Í 17.-23. gr. laga nr. 20/1991 eru frekari ákvæði um slíkt mat á eignum og skuldum dánarbús og framkvæmd þess. Kemur m.a. fram í 2. mgr. 18. gr. laganna að sé slíks mats krafist skuli sá sýslumaður, sem í hlut á, tilnefna matsmann áður en lengra sé haldið, sbr. frekari ákvæði um hæfi matsmanns og skyldur í 2. og 3. mgr. greinarinnar. Fyrir liggur að af hálfu kærenda var ekki óskað eftir mati á verðmæti fasteignarinnar að G samkvæmt fyrrnefndum ákvæðum laga nr. 20/1991, heldur var eignin seld í júlí 2016, sbr. hér að framan. Leiðir því af skýlausum ákvæðum laga nr. 14/2004, sbr. b-lið 3. mgr. 4. gr. þeirra, að ákvarða ber skattstofn fasteignarinnar miðað við fasteignamatsverð eins og það var skráð hjá Þjóðskrá Íslands á dánardegi arfleifanda. Hvorki verður þeim mötum löggiltra fasteignasala eða fulltrúa X, sem kærendur hafa vísað til, jafnað til mats samkvæmt 17.-23. gr. laga nr. 20/1991 né getur söluverð fasteignarinnar komið í stað fortakslausrar viðmiðunar við fasteignamatsverð samkvæmt ákvæði b-liðar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 14/2004. Vegna athugasemda kærenda um að sýslumaður hafi ekki gætt að leiðbeiningaskyldu sinni við meðferð málsins, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, skal tekið fram að þegar erfðafjárskýrsla barst sýslumanni þann 11. september 2016 hafði fasteigninni þegar verið ráðstafað og varð slíku mati því ekki við komið, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 20/1991. Verður ekki ráðið af gögnum málsins að sýslumanni hafi gefist sérstakt tilefni til þess á fyrri stigum að leiðbeina kærendum um heimild til þess að óska eftir slíku mati sem hér um ræðir. Verður krafa kærenda ekki tekin til greina á þeim grundvelli að málsmeðferð sýslumanns hafi verið áfátt. Með vísan til framanritaðs verður að hafna aðal- og varakröfu kærenda í máli þessu

 • Ívilnun í sköttum - kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu

  Úr úrskurði yfirskattanefndar nr. 83/2017:

  Í kæru kæranda til yfirskattanefndar er fundið að því að ríkisskattstjóri hafi með hinum kærða úrskurði ekki tekið tillit til ferðakostnaðar kæranda erlendis, þ.e. kostnaðar vegna flug-, rútu- og lestarferða, leigu íbúðar erlendis og leigu á bifreið. Verður ekki annað séð en að hér sé vísað til þess kostnaðar að fjárhæð 190.246 kr. sem tilgreindur var í umsókn kæranda um ívilnun. Verður að skilja kæruna svo að ekki séu að öðru leyti gerðar athugasemdir vegna ákvörðunar ríkisskattstjóra. Taka má undir með kæranda að miðað við rökstuðning í hinum kærða úrskurði ríkisskattstjóra er nærtækast að draga þá ályktun að ekki hafi verið litið til þeirra útgjalda sem um ræðir við ákvörðun á fjárhæð ívilnunar, enda er ekkert að þeim vikið í úrskurðinum. Þá þykir umsögn ríkisskattstjóra í málinu, dags. 5. desember 2016, ekki taka af öll tvímæli í þessum efnum, en þar kemur fram að ríkisskattstjóri hafi „tekið til úrlausnar allar framlagðar skýringar og gögn um kostnað kæranda“ og lækkað tekjuskatts- og útsvarsstofn um alls 980.000 kr. Ekki kemur þó fram, frekar en í hinum kærða úrskurði, hvernig sú fjárhæð er fengin með tilliti til fyrirliggjandi upplýsinga um útgjöld kæranda á árinu 2015. Allt að einu er ljóst að ríkisskattstjóri hefur miðað við um það bil helming þeirra útgjalda sem um ræðir og af hálfu kæranda hafa út af fyrir sig ekki verið gerðar athugasemdir vegna þess viðmiðs. Eins og málið liggur fyrir yfirskattanefnd samkvæmt framansögðu þykir mega lækka tekjuskattsstofn kæranda gjaldárið 2016 um 100.000 kr. til viðbótar við þá lækkun sem ákveðin var í hinum kærða úrskurði ríkisskattstjóra. Er þá miðað við um helming þess kostnaðar sem um ræðir. Útsvarsstofn kæranda lækkar um sömu fjárhæð, sbr. 3. mgr. 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum. 

 • Duldar arðgreiðslur

  Úr úrskurði nr. 80/2017:

  Samkvæmt því sem rakið hefur verið hér að framan verður talið að Þ ehf. hafi staðið straum af persónulegum útgjöldum kærenda með þeim fjárhæðum sem greinir í hinum kærða úrskurði ríkisskattstjóra. Að virtum framangreindum útgjöldum og eins og atvikum er að öðru leyti háttað verður talið að upphafsákvæði 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003 hafi tekið til umræddra greiðslna félagsins þannig að telja verði þær sem tekjur kærenda af hlutareign í félaginu, sbr. H 1997:602. Ber því að telja umræddar greiðslur til tekna hjá kærendum sem laun samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 2. mgr. 11. gr. laganna, enda er ljóst að ekki var um neina þá lögleyfðu úthlutun af fjármunum einkahlutafélagsins að ræða sem getið er í 73. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Samkvæmt þessu verður ákvörðun ríkisskattstjóra látin standa óhögguð að því er þetta kæruatriði varðar.

 • Ívilnun í sköttum

  Úr úrskurði yfirskattanefndar nr. 79/2017:

  Kæruefnið í máli þessu er sú ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt kæruúrskurði, dags. 5. október 2016, að hafna beiðni kæranda um lækkun tekjuskattsstofns gjaldárið 2016 vegna eignatjóns, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Kemur fram í kæru kæranda til yfirskattanefndar að hann telji úrskurð ríkisskattstjóra rangan og niðurstöðu embættisins órökstudda. Lýtur krafa kæranda að því að honum verði ákvörðuð ívilnun gjaldárið 2016. Samkvæmt skattframtali kæranda árið 2016 nam tekjuskatts- og útsvarsstofn hans 930.711 kr. Tekjuskatts- og útsvarsstofn fyrrverandi eiginkonu kæranda nam 837.546 kr. Að teknu tilliti til persónuafsláttar, sbr. A-lið 67. gr. laga nr. 90/2003, kom hvorki til greiðslu tekjuskatts né útsvars hjá kæranda gjaldárið 2016. Óráðstafaður persónuafsláttur kæranda, sem féll niður, nam 262.926 kr. Ekki kom til neinnar skerðingar á barnabótum kæranda og eiginkonu hans þar sem tekjuskattsstofn til útreiknings barnabóta var undir því marki sem hefur áhrif á bætur þessar, sbr. 4. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003. Eins og fyrr greinir lýtur krafa kæranda að því að honum verði ákvörðuð ívilnun umrætt gjaldár, sbr. 65. gr. laga nr. 90/2003. Heimildir samkvæmt ákvæðum 65. gr. laga nr. 90/2003 lúta samkvæmt orðanna hljóðan að lækkun tekjuskattsstofns. Samkvæmt 3. mgr. 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, skal útsvarsstofn lækka um sömu fjárhæð og ríkisskattstjóri ákveður á grundvelli 65. gr. laga nr. 90/2003. Eins og fyrr greinir ber kærandi hvorki tekjuskatt né útsvar gjaldárið 2016. Lækkun tekjuskatts- og útsvarsstofns hefur því enga skattalega þýðingu fyrir kæranda, að því er séð verður, enda fellur óráðstafaður persónuafsláttur niður, sbr. niðurlagsákvæði 2. mgr. A-liðar 67. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt framansögðu er krafa kæranda í máli þessu tilefnislaus. Er henni vísað frá yfirskattanefnd af þeim sökum

 • Rekstrarkostnaður - málamyndagerningur

  Úr úrskurði yfirskattanefndar nr. 74/2017:

  Samkvæmt því sem að framan segir um forsendur ríkisskattstjóra verður að telja að hinar umdeildu ákvarðanir hans séu á því byggðar að eigandi kæranda hafi í raun verið kaupandi fasteignarinnar B og að tilgreining kæranda sem kaupanda í kaupsamningi um eignina hefði aðeins verið til málamynda. Til stuðnings þessari ályktun sinni hefur ríkisskattstjóri hins vegar ekki tilfært nein önnur atriði en sem lúta almennt að álitaefnum um réttmæti þess að fara með eignina sem fyrnanlega eign í skattskilum kæranda, sbr. 33. gr. laga nr. 90/2003, og hvort rekstrarkostnaður vegna eignarinnar geti talist frádráttarbær hjá félaginu samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. þeirra laga. Þannig hefur ríkisskattstjóri hvorki dregið atvik í tengslum við gerð kaupsamnings um fasteignina né varðandi efndir hans fram í sviðsljósið því til stuðnings að fasteigninni hafi í skiptum kæranda og eiganda félagsins verið ætlað að vera í eigu hins síðarnefnda. Ekki hefur ríkisskattstjóri heldur fært neitt fram í sambandi við meðferð fasteignarinnar í skattskilum félagsins eða eiganda þess þessu til styrktar. Gögn málsins þykja ekki heldur bera með sér að tortryggilegt sé um þessi atriði út af fyrir sig, hvað sem líður þeim þætti máls sem snertir notkun eignarinnar. Að því athuguðu sem að framan er rakið, sbr. og viðhorf í dómi Hæstaréttar Íslands frá 20. apríl 2005 í máli nr. 441/2004, þykir bera að hnekkja breytingum ríkisskattstjóra um að fella fasteignina B úr skattskilum kæranda með þeim hætti sem ríkisskattstjóri hefur gert. Verða skattframtöl kæranda árin 2011, 2012, 2013 og 2014 færð í fyrra horf hvað þetta snertir, enda engar kröfur komið fram um annað.

   

  [...]

   

  Samkvæmt framansögðu er ljóst og óumdeilt að umrædd fasteign var eingöngu notað til íbúðar fyrir eiganda kæranda og fjölskyldu hans. Að því athuguðu og að virtri starfsemi kæranda verður ekki talið að húsnæðið geti talist fyrnanleg eign í skilningi 33. gr. laga nr. 90/2003 og kostnaður við rekstur eignarinnar teljist frádráttarbær rekstrarkostnaður samkvæmt 1. tölul. 31. gr. sömu laga, sbr. ennfremur ákvæði a-liðar 6. gr. og 1. málsl. a-liðar 11. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, en í þessum ákvæðum er fjallað um ófrádráttarbærni kostnaðar og fyrninga við slíkar aðstæður. Má í þessu sambandi vísa til úrskurðaframkvæmdar í hliðstæðum málum, sbr. m.a. úrskurði yfirskattanefndar nr. 138/1998 og 41/2004, sem birtir eru á vef yfirskattanefndar (www.yskn.is), og dóma Hæstaréttar Íslands frá 9. september 2005 í málinu nr. 344/2005 og frá 22. nóvember 2007 í málinu nr. 44/2007 þar sem fjallað er um sambærileg atvik. Þykir engu breyta um þetta þótt greidd hafi verið húsaleiga vegna íbúðarafnotanna, enda verður ekki talið að þær leigugreiðslur hafi þýðingu við úrlausn málsins eins og atvikum er háttað með tilliti til notkunar húsnæðisins. Með vísan til framanritaðs verður niðurfelling ríkisskattstjóra á almennri fyrningu B að fjárhæð 790.708 kr. hvert rekstraráranna 2011, 2012 og 2013 látin standa óhögguð. Sama gildir um niðurfellingu gjaldfærðs rekstrarkostnaðar eignarinnar að fjárhæð 1.335.579 kr. rekstrarárið 2011, 335.961 kr. rekstrarárið 2012 og 362.826 kr. rekstrarárið 2013. Ekki þykir heldur ástæða til að hagga við breytingu ríkisskattstjóra hvað varðar húsaleigutekjur kæranda, en umfjöllun í kæru um þann lið verður ekki skilin sem sérstök krafa um að þeirri ákvörðun verði hnekkt burtséð frá niðurstöðu málsins að öðru leyti.

 • Barnabætur - málsmeðferð ríkisskattstjóra

  Úr úrskurði yfirskattanefndar nr. 77/2016:

  Að virtum þeim upplýsingum sem fram komu í skattframtali kæranda árið 2016 varðandi framfærslu dóttur kæranda á árinu 2015 verður ekki talið að unnt hafi verið að slá því föstu að kærandi gæti ekki talist framfærandi barnsins í árslok 2015, sbr. 1. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003, hvað sem leið lögheimilisskráningu. Verður að telja að þessar upplýsingar hafi gefið tilefni til að ríkisskattstjóri kannaði nánar hvernig högum kæranda og dóttur hans væri háttað. Rétt er að taka fram að ekki verður annað séð en að kærandi hafi hagað framtalsskilum sínum að þessu leyti í samræmi við leiðbeiningar ríkisskattstjóra sjálfs á vef embættisins, en þar kemur fram varðandi barnabætur að sé barn skráð til heimilis annars staðar en hjá raunverulegum framfæranda skuli það leiðrétt með því að færa barn á framtal hans og rita skýringar í athugasemdir. Samkvæmt framansögðu verður ekki talið að ríkisskattstjóri hafi séð til þess að málið væri nægjanlega upplýst áður en hann tók hina umdeildu ákvörðun sína, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. laga nr. 37/1993. Þá er til þess að líta að í kæruúrskurði ríkisskattstjóra var í engu getið þeirra lagareglna sem gilda um greiðslu barnabóta, sbr. A-lið 68. gr. laga nr. 90/2003 og ákvæði reglugerðar nr. 555/2004, um greiðslu barnabóta. Var rökstuðningur ríkisskattstjóra ófullnægjandi og uppfyllti ekki lagakröfur, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003 og 1. og 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Vegna framangreindra annmarka á málsmeðferð ríkisskattstjóra, sem telja verður verulega, verður ekki hjá því komist að ómerkja kæruúrskurð ríkisskattstjóra að því leyti sem varðar kæruefni málsins. Af því leiðir að senda verður ríkisskattstjóra kæru kæranda til meðferðar og uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar í samræmi við það sem að framan greinir og að gættum þeim atriðum sem þýðingu hafa fyrir úrlausnarefnið

 • Stimpilgjald - breytt félagaform

  Úr úrskurði yfirskattanefndar nr. 72/2017:

  Eins og fram er komið skal greiða stimpilgjald af skjölum er varða eignayfirfærslu fasteigna hér á landi samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 138/2013. Samkvæmt 2. málsl. sömu málsgreinar, sbr. 38. gr. laga nr. 125/2015, á ákvæði 1. málsl. fyrrnefndrar 1. mgr. 3. gr. laganna ekki við þegar nafnbreyting verður á eiganda fasteignar í kjölfar félagaréttarlegs samruna, breytingar einkahlutafélags í hlutafélag eða skiptingar félaga. Um ráðstafanir af slíkum toga er fjallað í löggjöf um viðeigandi félagaform, sbr. t.d. XIV. kafla laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og XIV. kafla laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, að því er snertir samruna, breytingu og skiptingu hluta- og einkahlutafélaga. Samkvæmt orðalagi sínu tekur ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 138/2013 ekki til nafnbreytingar á eiganda fasteignar í tengslum við breytingu sameignarfélags í einkahlutafélag og af lögskýringargögnum verður ekki ráðið að ætlun löggjafans hafi verið sú að slíkar ráðstafanir féllu undir ákvæðið, sbr. hér að framan. Með vísan til framanritaðs og þar sem ekki er tölulegur ágreiningur í málinu um fjárhæð stimpilgjalds vegna hinnar umdeildu ráðstöfunar verður að hafna kröfu kæranda