Stimpilgjald - hlutaskipting félags

E.g., 2018-11-17
E.g., 2018-11-17
 • Tímamark endurákvörðunar - vanálagning kílómetragjalds

   

  Úr niðurstöðum úrskurðar yfirskattanefndar nr. 154/2018:

   

  „[...]

   

  Kæra í máli þessu varðar endurákvörðun kílómetragjalds kæranda vegna áranna 2014, 2015, 2016 og 2017, sbr. úrskurð ríkisskattstjóra um endurákvörðun, dags. 20. júní 2018. Voru forsendur endurákvörðunarinnar þær að ökumælir í bifreiðinni E hefði ekki haft rétt margfeldi í álestrarskrá. Af því hefði leitt að röng og of lág kílómetratala hefði verið lögð til grundvallar við ákvörðun kílómetragjalds þannig að gjald vegna bifreiðarinnar hefði verið vanreiknað um tilgreindar fjárhæðir eða um samtals 4.556.754 kr. umrædd ár. Af hálfu kæranda er þess aðallega krafist að endurákvörðun ríkisskattstjóra verði felld úr gildi þar sem hún hafi verið heimildarlaus. Verði litið svo á að heimilt hafi verið að leiðrétta álagt kílómetragjald sé þess krafist til vara að leiðréttingin taki einungis til áranna 2016 og 2017, sbr. 3. mgr. 17. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, með síðari breytingum.

   

  [...]

   

  Í máli þessu er ekki um að ræða ranga talningu mælis heldur stafaði vanálagning kílómetragjalds af skekkju í skrá ríkisskattstjóra. Telja verður að atvik af þessum toga, sem rekja má til mistaka í álagningu, falli undir endurákvörðunarheimild greinds ákvæðis 5. málsl. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 87/2004. Þá er ljóst að heimildir ríkisskattstjóra samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laganna til endurákvörðunar kílómetragjalds, þar á meðal heimild samkvæmt 5. málsl. 1. mgr. 16. gr., eru óháðar því hvort skattaðili verði talinn bera ábyrgð á þeim atvikum sem valdið hafa vanálagningu gjaldsins eða honum ekki um það kennt, sbr. ákvæði 2. málsl. 3. mgr. 17. gr. laganna sem ber þetta með sér. Með vísan til þessa verður að hafna aðalkröfu kæranda.

   

  Samkvæmt 3. mgr. 17. gr. laga nr. 87/2004 nær heimild til endurákvörðunar gjalda samkvæmt lögunum til síðustu sex ára sem næst eru á undan því ári sem endurákvörðun fer fram. Verði skattskyldum aðila eigi um það kennt að áðurnefnd gjöld voru vanálögð, og/eða hafi hann látið í té við álagningu eða álestur fullnægjandi upplýsingar og/eða gögn sem byggja mátti rétta álagningu á, er þó eigi heimilt að ákvarða honum gjald nema vegna síðustu tveggja ára sem næst voru á undan því ári sem endurákvörðun fer fram á. Eins og atvikum var háttað verður að telja einsýnt að niðurlagsákvæði greinarinnar eigi við í tilviki kæranda, sbr. til hliðsjónar úrskurð yfirskattanefndar nr. 222/2004 er varðaði vanálagðan þungaskatt vegna skekkju í álestrarskrá ríkisskattstjóra. Verður því að telja að frestur til endurákvörðunar kílómetragjalds kæranda vegna áranna 2014 og 2015 hafi verið liðinn þegar ríkisskattstjóri hratt endurákvörðuninni í framkvæmd hinn 20. júní 2018. Er varakrafa kæranda því tekin til greina og endurákvörðun ríkisskattstjóra felld úr gildi að því er varðar árin 2014 og 2015.“

   

  Í hlekk með fréttinni er að finna úrskurð yfirskattanefndar í heild sinni.

 • Vaxtagjöld - lán milli tengdra aðila

   

  Úr niðurstöðum úrskurðar yfirskattanefndar nr. 155/2018:

   

  „[...]

   

  Kærandi í máli þessu er einkahlutafélag sem hefur þann tilgang samkvæmt samþykktum sínum m.a. að reka læknisþjónustu, sérfræðiráðgjöf og kaup og sölu verðbréfa. Málið varðar tvo lánssamninga sem eini hluthafi kæranda, B, og kærandi gerðu með sér á árunum 2010 og 2011. Með lánssamningi, dags. 23. október 2010, var kveðið á um lán hluthafans til kæranda allt að fjárhæð 250.000.000 kr. til sex mánaða og með lánssamningi, dags. 31. mars 2011, var kveðið á um lán hluthafans til kæranda að fjárhæð 30.000.000 kr. til fjögurra ára. Með síðari viðaukasamningum var lánstími framlengdur, síðast til 30. júní 2018 í tilviki beggja gerninganna. Vextir af lánunum voru reiknaðir árlega í samræmi við ákvæði samninganna og síðari viðaukasamninga. Fjárhæð vaxta var jafnan bætt við höfuðstól lánanna og fóru þannig ekki fram beinar greiðslur til hluthafa kæranda vegna vaxta af lánunum á þeim árum sem hér um ræðir. Mun hluthafinn ekki heldur hafa tilfært neinar vaxtatekjur af veittum lánum í skattframtölum sínum. Reiknaðir áfallnir vextir voru á hinn bóginn gjaldfærðir í rekstrarreikningum og skattskilum kæranda.

   

  Nánar virðist mega draga forsendur ríkisskattstjóra fyrir hinum kærðu breytingum saman í fjóra liði. Í fyrsta lagi telur ríkisskattstjóri að ítrekuð framlenging umræddra lána frá hluthafa félagsins, án þess að greitt hafi verið af lánunum þótt svigrúm hafi verið til þess, gefi þeim svipmót þess að vera ótímabundin ráðstöfun fjármuna til kæranda án sérstaks gjalddaga og þannig bera einkenni hlutafjárframlags en ekki raunverulegrar lánveitingar. Í öðru lagi vísar ríkisskattstjóri til þess að ekki hafi verið settar sérstakar tryggingar fyrir endurgreiðslu lánanna í samningum um þau, svo sem veitt veð í keyptum hlutabréfum, en þetta sé óvenjulegt í viðskiptum milli óháðra aðila. Í þriðja lagi skírskotar ríkisskattstjóri til þess að lánin hafi orðið til þess að hlutfall skulda í rekstri kæranda sé mjög hátt og íþyngjandi fyrir reksturinn. Í fjórða lagi hafi gjaldfærsla vaxta í skattskilum kæranda leitt til lækkunar á skattstofni kæranda, en hins vegar hafi ekki komið til skattgreiðslna hjá eiganda kæranda þar sem engar greiðslur vaxta hafi farið fram til hans. Dregur ríkisskattstjóri þá ályktun af þessu að skattalegar ástæður hafi búið að baki greindum ráðstöfunum.

   

  Eins og fyrr segir hefur ríkisskattstjóri ekki dregið í efa að rekstrarlegar ástæður hafi verið fyrir lántökum kæranda þegar þær fóru fram á árunum 2010 og 2011. Hins vegar hafi sú staðreynd að ítrekað var framlengt í lánunum og tekjur kæranda af fjárfestingu félagsins ekki verið nýttar til greiðslu þeirra gefið lánunum annað svipmót en í upphafi. Af þessu tilefni skal tekið fram að fallast verður á það með ríkisskattstjóra að lánstími umfram það sem telja má rekstrarlegt tilefni til, við þær aðstæður sem í málinu greinir og sérstaklega í ljósi tengsla aðila, kann vissulega að skipta máli við mat á hlutaðeigandi gerningi. Af hálfu kæranda hafa komið fram þær skýringar í þessu sambandi að á árinu 2012 hafi orðið ljóst að fjárfesting kæranda myndi verða lengur að skila sér en áætlanir hefðu gert ráð fyrir, einkum vegna þess að í ljós hefði komið að Y ehf. kynni að verða fyrir áföllum vegna ágreinings dótturfélagsins við skattyfirvöld. Því hafi forsendur breyst hvað varðaði getu kæranda til endurgreiðslu. Fyrir liggur að Y ehf. seldi hlut sinn í X ehf. samkvæmt ákvörðun stjórnar félagsins 16. október 2016. Eins og kærandi hefur rakið vildi félagið ekki una þeirri ráðstöfun af tilgreindum ástæðum. Rataði ágreiningurinn til dómstóla og lauk málinu með dómi á árinu 2016. Með tilkynningu til hlutafélagaskrár, dags. 15. maí 2017, var tilkynnt um lækkun hlutafjár í Y ehf. og nam greiðsla til hluthafa alls 2.459.535.320 kr., en kærandi var eigandi um 28% hlutafjár. Þá þegar hafði gjalddagi hinna umdeildu lána kæranda verið færður til 30. júní 2018 með viðaukum, dags. 15. apríl 2017. Fær þannig ekki staðist, sem ríkisskattstjóri heldur fram, að þessar breytingar á skilmálum lánanna hafi verið gerðar eftir að kæranda áskotnuðust tekjur vegna sölu hlutarins í X ehf. Í úrskurði ríkisskattstjóra er vikið að þeim upplýsingum í bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 25. september 2017, að félagið skoði fjárfestingar í öðrum félögum eða eignum vegna tekna af hlutafjárlækkun Y ehf., og talið að þær styrki ályktun embættisins um raunverulegt inntak fyrri lánssamningsins og að hann tengist ekki fjárfestingunni í Y ehf./X ehf. Út af fyrir sig má fallast á þetta, a.m.k. að því leyti sem skilja má skýringar kæranda þannig að ekki standi til að greiða af lánunum, enda ljóst að upphafleg ástæða fyrir lántökunni er þá ekki lengur fyrir hendi. Um þetta kom þó ekkert ákveðið fram í skýringum kæranda og því þvert á móti haldið fram í kæru til yfirskattanefndar að ekki standi annað til en að greiða lánin á gjalddaga þeirra. Að þessu athuguðu og að virtum skýringum kæranda að öðru leyti varðandi breytingar á gjalddögum lánanna, sem ekki verður talið að ríkisskattstjóri hafi hrakið með rökstuddum hætti, verður ekki talið að lánstími sé í heild sinni með þeim hætti að skipt geti sköpum í málinu. Tekið skal fram að samkvæmt upplýsingum kæranda fór greiðsla lánanna fram á gjalddaga í lok júlí 2018.

   

  Víkur þá að þeirri athugasemd ríkisskattstjóra, er lýtur að ákvæðum lánssamninganna, að óeðlilegt sé að hluthafi kæranda hafi ekki áskilið sér sérstaka tryggingu fyrir endurgreiðslu lánanna. Þess er að geta varðandi þetta atriði að það verður frekast talið horfa að gildi lánssamninganna í öndverðu, en engar breytingar urðu á hlutaðeigandi ákvæðum þeirra á þeim árum sem málið tekur til. Allt að einu virðist ríkisskattstjóri hafa talið lánssamningana geta staðist sem slíka þegar til þeirra var stofnað, svo sem fram er komið, þótt síðar til komin atvik þættu kippa undan þeim fótunum. Hvað sem þessu líður er til þess að líta um þetta atriði að í báðum lánssamningunum eru ítarleg ákvæði um upplýsingaskyldu lántaka (kæranda) gagnvart lánveitanda, takmarkanir varðandi ráðstöfun eigna án samþykkis lánveitanda og aðrar skyldur kæranda sem telja má til þess fallnar að gæta hagsmuna lánveitanda. Þar á meðal skuldbatt kærandi sig til að setja ekki sérstakar tryggingar fyrir lánum sem félagið tæki eða öðrum fjárhagslegum skuldbindingum nema sams konar trygging yrði sett fyrir skuldbindingum samkvæmt lánssamningnum. Þótt virða verði þessi ákvæði í ljósi þess að hluthafi kæranda fór með öll stjórnunarvöld innan félagsins verður ekki hjá því litið að eftir orðan sinni fela þau í sér ríkar skuldbindingar af hálfu félagsins. Verður ekki annað séð en að í þessum ákvæðum komi fram hliðstæð trygging fyrir réttum efndum lánssamninganna og ætla má að yrði talin ásættanleg væri um að ræða viðskipti við ótengdan aðila.

   

  Standa þá eftir þær forsendur ríkisskattstjóra sem lúta annars vegar að hækkandi hlutfalli skuldsetningar miðað við efnahag kæranda og hins vegar að meðferð vaxta af meintum lánum í skattskilum kæranda og hluthafa félagsins. Þessi umfjöllun ríkisskattstjóra virðist samþætt og vera þungamiðja í þeirri ályktun hans að skattalegar ástæður hafi búið að baki þeim ráðstöfunum sem í málinu greinir. Veigamestur þáttur í rökfærslu ríkisskattstjóra í þessu sambandi er að með því að svo hafi um samist að áföllnum árlegum vöxtum skyldi bætt við höfuðstól lánanna – og því engar greiðslur vaxta inntar af hendi til lánveitanda – komi ekki til skattlagningar vaxtatekna hjá honum fyrr en á gjalddaga lánanna á sama tíma og kærandi njóti frádráttar vaxtagjalda í sínum skattskilum. Í ljósi þess sem fyrr segir um skyldu til tekjufærslu greiðslukræfra vaxta, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2003, verður ekki séð að þessar röksemdir ríkisskattstjóra fái staðist. Verður því ekkert lagt upp úr þessum þætti í forsendum ríkisskattstjóra.

   

  Samkvæmt framansögðu og að virtum fram komnum skýringum kæranda þykja hinar kærðu ákvarðanir ríkisskattstjóra varðandi gjaldfærða vexti af skuld við hluthafa í rekstrarreikningum kæranda fyrir rekstrarárin 2011, 2012, 2013, 2014 og 2015 ekki á nægum rökum reistar. Er aðalkrafa kæranda því tekin til greina. Það leiðir af niðurstöðu þessari að álag samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 fellur niður.“

   

  Í hlekk með fréttinni er að finna úrskurð yfirskattanefndar í heild sinni.

   

 • Tollflokkun - framleiðsluaðferð olíu

   

  Úr niðurstöðum úrskurðar yfirskattanefndar nr. 153/2018:

   

  „[...]

   

  Í almennum reglum um túlkun tollskrárinnar, sem lögfest var sem viðauki við tollalög nr. 88/2005, kemur fram að við flokkun samkvæmt tollskrá skuli fyrirsagnir á flokkum, köflum og undirköflum einungis vera til leiðbeiningar. Í lagalegu tilliti skuli tollflokkun byggð á orðalagi vöruliða og athugasemdum við tilheyrandi flokka eða kafla.

   

  Heiti 15. kafla tollskrár er „Feiti og olíur úr dýra- og jurtaríkinu og klofningsefni þeirra; unnin matarfeiti; vax úr dýra- eða jurtaríkinu.“ Vöruliðir 1507–1515 taka til jurtafeiti og jurtaolíu, svo og þátta hennar, einnig hreinsað en ekki efnafræðilega umbreytt. Nánar tiltekið taka vöruliðir 1507–1514 til jurtafeiti og -olíu úr nánar tilgreindum jurtum, en í vörulið 1515 fellur „Önnur órokgjörn jurtafeiti og -olía (þar með talin jójóbaolía) og þættir hennar, einnig hreinsað en ekki efnafræðilega umbreytt“. Feiti eða olía úr línfræjum (hörfræjum) er ekki tilgreind í vöruliðum 1507–1514 og verður því að teljast falla í vörulið 1515. Er raunar ekki ágreiningur um það í málinu.

   

  Vöruliður 1515 skiptist í fimm undirliði. Þar af tekur undirliður 1515.11 til línolíu og þátta hennar. Undirliðurinn skiptist í tollskrárnúmer 1515.1100 (Línolía og þættir hennar: Hrá olía) og 1515.1900 (Línolía og þættir hennar: Annað). Undirliðurinn 1515.90, sem kærandi telur eiga við vöruna, skiptist í tollskrárnúmer 1515.9001 (Annað: Til matvælaframleiðslu) og 1515.9009 (Annað: Annars). Þar sem línolía og þættir hennar fellur samkvæmt orðalagi undirliðar 1515.11 í þann lið kemur ekki til álita að telja undirlið 1515.90 eiga við um vöruna, sbr. reglu 6 í almennum reglum um túlkun tollskrár. Með hliðsjón af framleiðsluaðferð olíunnar er fallist á það með tollstjóra að flokka beri vöruna í tollskrárnúmer 1515.1100. Það tollskrárnúmer er ekki tilgreint í viðauka við lög um virðisaukaskatt sem vísað er til í 8. tölul. 2. mgr. 14. gr. laganna. Kröfu kæranda er samkvæmt þessu hafnað.“

   

  Í hlekk með fréttinni er að finna úrskurð yfirskattanefndar í heild sinni.

 • Stimpilgjald - gjaldskyldur aðili

   

  Úr niðurstöðum úrskurðar yfirskattanefndar nr. 153/2018:

   

  „[...]

   

  Á hinn bóginn fer ekki á milli mála að eins og aðrar skattaívilnanir laga nr. … er greind undanþága frá stimpilgjaldi bundin við kæranda og leysir ekki aðra aðila undan gjaldskyldu til stimpilgjalds eftir lögum nr. 138/2013. Verður því að telja að úrlausn málsins velti á því hvern telja beri gjaldskyldan samkvæmt síðastgreindum lögum vegna sölu fasteignanna að K, þ.e. kæranda sem seljanda fasteignanna eða X ehf. sem kaupanda eignanna.

   

  [...]

   

  Samkvæmt framansögðu verður að skýra ákvæði 3. mgr. 2. gr. laga nr. 138/2013 svo, að því er tekur til gjaldskyldu vegna skjals er varðar eignayfirfærslu fasteigna, að sá aðili beri ábyrgð á greiðslu stimpilgjalds er með skjali öðlast eignarráð að hinni yfirfærðu fasteign, þ.e. kaupanda eignar í venjulegum fasteignaviðskiptum, sbr. og fyrrgreindar athugasemdir í frumvarpi til laga nr. 138/2013 þar sem gengið er út frá þessu. Fær sú niðurstaða jafnframt ríkan stuðning af samanburði við ákvæði eldri laga um stimpilgjald nr. 36/1978, sbr. 1. mgr. 16. gr. þeirra laga, og beitingu þeirra laga í réttarframkvæmd, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands 7. apríl 1998 í máli nr. 293/1997 (H 1998:1537). Getur engu breytt um þetta þótt samningsaðilar semji um það sín á milli að seljandi skuli standa straum af stimpilgjaldi, enda verður ekki hróflað við lögbundinni gjaldskyldu með slíkum einkaréttarlegum samningum. X ehf. bar því ábyrgð á greiðslu stimpilgjalds af kaupsamningum um fasteignirnar að K og telst gjaldandi og gjaldskyldur aðili í skilningi laga nr. 138/2013, sbr. 2. mgr. 2. gr. þeirra. Samkvæmt því og þar sem undanþáguákvæði laga nr. … getur samkvæmt framansögðu ekki leyst X ehf. undan lögákveðinni gjaldskyldu verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu. [...]“

   

  Í hlekk með fréttinni er að finna úrskurð yfirskattanefndar í heild sinni.

 • Gjöf - hirðuleysi í skattskilum

  Úr niðurstöðum úrskurðar yfirskattanefndar nr. 87/2018:

   

  [...]

   

  Í máli þessu er krafist sektar á hendur gjaldanda fyrir að hafa staðið skattyfirvöldum skil á efnislega röngu skattframtali gjaldárið 2012 með því að vanframtelja tekjur sínar sem honum hlotnuðust í formi gjafa vegna afhendingar á hlutabréfum í X ehf. og Y ehf., samtals að fjárhæð 29.292.740 kr. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að gerð var grein fyrir eignarhaldi gjaldanda á hinum umdeildu hlutabréfum í X ehf. og Y ehf. í skattframtölum hans árin 2012 til og með 2015 og er því ekki um að ræða að gjaldandi hafi dulið eignir sínar í skattframtali ársins 2012 heldur er krafist refsingar fyrir að hafa vanrækt að gera grein fyrir þeim verðmætum sem fólgin voru í hlutabréfunum í X ehf. og Y ehf. í hendi gjaldanda umfram þau verðmæti sem gjaldandi lét af hendi í formi hlutabréfa í Z ehf. á sama tíma. Við skýrslutöku bar gjaldandi því við að hann hefði talið að um skipti á hlutabréfum hefði verið að ræða, þ.e. að hann hefði þegið hlutabréf í X ehf. og Y ehf. í skiptum fyrir hlutabréf í Z ehf., en fram er komið að gjaldandi var skráður eigandi 196.000 hluta í Z ehf. í árslok 2010 og 40.000 hluta í árslok 2011. Þegar gjaldandi var spurður hvort verðmæti væru fólgin í hlutabréfum hans í Z ehf. á þessum tíma sagði gjaldandi að félagið væri að byggja hótel og að hann hefði talið ákveðin verðmæti í því til framtíðar. Sagði gjaldandi að hann hefði ekki efast um að faðir hans hefði verið að gera rétt með eignatilfærslunum en þeir hefðu ekki rætt mikið saman.

   

  Telja verður að gjaldandi hafi sýnt af sér nokkurt hirðuleysi í tengslum við þær ályktanir sínar að jafnræði væri með þeim verðmætum sem hann lét af hendi í umræddum eignatilfærslum, sem voru hlutabréf í Z ehf., og þeim hlutabréfum í X ehf. og Y ehf. sem gjaldandi tók við í skiptum fyrir hlutabréfin í fyrst nefnda félaginu, eftir að gjaldandi varð meðvitaður um eignatilfærslurnar. Varhugavert þykir þó að telja sannað, eins og málið horfir við, að gjaldandi hafi uppfyllt þær auknu gáleysiskröfur sem skattalög gera vegna refsiverðra brota gegn lögunum. Að þessu athuguðu og með hliðsjón af atvikum málsins verður gjaldanda ekki gerð sekt vegna vanframtalinna tekna gjaldárið 2012."

   

  Í hlekk með fréttinni er að finna úrskurð yfirskattanefndar í heild sinni.

 • Lánveiting einkahlutafélags til tengds aðila - duldar arðgreiðslur

  Úr niðurstöðum úrskurðar yfirskattanefndar nr. 84/2018:

   

  „[...]

   

  Með hinum kærða úrskurði um endurákvörðun, dags. 7. september 2017, færði ríkisskattstjóri kæranda til skattskyldra launatekna í skattframtölum hans árin 2012, 2013, 2014 og 2015 greiðslur frá X ehf. að fjárhæð 2.419.299 kr. fyrsta árið, 5.180.687 kr. annað árið, 849.268 kr. þriðja árið og 2.649.000 kr. fjórða árið, að viðbættu 25% álagi á hækkun skattstofna sem af breytingum þessum leiddi. Kærandi var eigandi helmings hlutafjár í félaginu árin 2013 og 2014, en eiginkona kæranda var eigandi helmings hlutafjár í félaginu árin 2011 og 2012. Var kærandi skráður stjórnarmaður og framkvæmdastjóri félagsins allan þann tíma sem málið varðar að undanskildu tímabilinu frá 20. mars 2013 til 15. september 2013. Þá hafði kærandi prókúruumboð fyrir félagið frá 15. september 2013. Ríkisskattstjóri leit svo á að um væri að ræða óheimila lánveitingu félagsins til hluthafa, sbr. 79. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, sem skattleggja bæri hjá kæranda sem launatekjur á grundvelli 3. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í kæru til yfirskattanefndar er þess krafist að úrskurði ríkisskattstjóra verði hnekkt. Þá eru í kærunni settar fram varakröfur um lækkun tekjufærðra fjárhæða, svo sem rakið er í kafla I. Í öllum tilvikum er gerð krafa um niðurfellingu álags. Til stuðnings kröfum kæranda eru færðar fram málsástæður sem lúta bæði að málsmeðferð ríkisskattstjóra og efnislegri niðurstöðu hans.

   

  [...]

   

  Víkur þá að efnisþætti málsins. Eins og fram er komið taldi ríkisskattstjóri að umræddar greiðslur X ehf. til kæranda fælu í sér lánveitingar félagsins til kæranda sem hefðu farið í bága við ákvæði 79. gr. laga nr. 138/1994. Bæri að færa kæranda greiðslur þessar til tekna sem launatekjur samkvæmt 3. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Af hálfu kæranda er endurákvörðun ríkisskattstjóra mótmælt efnislega á þeirri forsendu að greiðslur X ehf. til kæranda á umræddu tímabili hafi verið endurgreiðsla á láni kæranda til Z ehf., en rekstur þessara tveggja félaga hafi verið samofinn.

   

  Samkvæmt upphafsákvæði 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, sbr. áður 1. mgr. 9. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, telst til arðs af hlutum og hlutabréfum í félögum, sem um ræðir í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. sömu laga, auk venjulegrar arðgreiðslu „sérhver afhending verðmæta til hlutareiganda eða hluthafa er telja verður sem tekjur af hlutareign þeirra í félaginu“. Arður af hlutum og hlutabréfum telst til skattskyldra tekna, sbr. 4. tölul. C-liðar 7. gr. laganna. Á það hefur reynt í allnokkrum málum fyrir yfirskattanefnd hvort virða beri lánveitingar til hluthafa, stjórnarmanna eða framkvæmdastjóra sem slíka afhendingu verðmæta sem um ræðir í 1. málsl. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003 (duldar arðgreiðslur), sbr. áður 1. málsl. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 75/1981. Eftir gildistöku 104. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og 79. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, frá og með 1. janúar 1995, sem kveða á um fortakslaust bann við slíkum lánveitingum, enda sé ekki um venjuleg viðskiptalán að ræða, hefur komið til þess að slíkar greiðslur væru virtar sem tekjur af hlutareign samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 75/1981, sbr. m.a. úrskurði yfirskattanefndar nr. 223/1999 og 264/2000. Þess ber að geta að forsenda niðurstaðna í úrskurðum þessum var m.a. að endurgreiðslur hefðu ekki farið fram og að ekkert lægi fyrir um að endurgreiðslur væru ráðgerðar.

   

  Verulegar breytingar urðu á skattareglum um þessi efni með lögum nr. 133/2001, um breyting á lögum nr. 75/1981 og fleiri lögum, svo sem rakið er m.a. í úrskurði yfirskattanefndar nr. 119/2006. Kemur fram í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003 að úthlutun verðmæta samkvæmt 1. mgr. greinarinnar til hluthafa eða hlutareiganda sem jafnframt er starfsmaður félags, eða tengds félags, teljist vera laun samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laganna ef hún er óheimil samkvæmt lögum um hlutafélög eða lögum um einkahlutafélög. Jafnframt er kveðið á það í 3. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 að til skattskyldra launatekna teljist lán til starfsmanna sem óheimil eru samkvæmt lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög. Þá segir í 2. mgr. 4. tölul. A-liðar lagagreinarinnar að til skattskyldra gjafa teljist lán til hluthafa og stjórnarmanna sem eru óheimil samkvæmt lögum um hlutafélög eða lögum um einkahlutafélög. Í úrskurðaframkvæmd hefur verið byggt á því að eftir þær breytingar á skattareglum um óheimilar lánveitingar til hluthafa og stjórnenda, sem urðu með lögum nr. 133/2001, hafi endurgreiðslur slíkra lána ekki þýðingu varðandi þá skattlagningu sem lögin mæla fyrir um í þessum tilvikum, sbr. m.a. fyrrgreindan úrskurð yfirskattanefndar nr. 119/2006. Má í þessu sambandi skírskota til dóma Hæstaréttar Íslands frá 6. desember 2012 í málinu nr. 153/2012 og frá 10. mars 2016 í málinu nr. 417/2015.

   

  Samkvæmt 73. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, er óheimilt að úthluta af fjármunum einkahlutafélags til hluthafa nema það fari fram eftir reglum um úthlutun arðs, sem endurgreiðsla vegna lækkunar hlutafjár eða varasjóðs eða vegna félagsslita. Í lögunum eru sérstakar reglur um þessi efni, sbr. VII., XII. og XIII. kafla þeirra, sbr. sambærilega kafla í lögum nr. 2/1995, um hlutafélög. Samkvæmt 1. mgr. 104. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, er hlutafélagi og einkahlutafélagi hvorki heimilt að veita hluthöfum, stjórnarmönnum eða framkvæmdastjórum félagsins eða móðurfélags þess lán eða setja tryggingar fyrir þá né aðilum sem eru tengdir þeim á nánar tilgreindan hátt. Undanskilin eru þó venjuleg viðskiptalán. Í athugasemdum við 82. gr. í frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 137/1994, um breytingu á lögum nr. 32/1978, um hlutafélög, með síðari breytingum, en lög þessi voru endurútgefin sem lög nr. 2/1995, var tekið fram að greint ákvæði um bann við lánveitingum tæki til láns á peningum eða ígildi þeirra, t.d. í formi ávísana, víxla, skuldabréfa og hlutabréfa. Takmörkunin næði ekki til venjulegra viðskiptalána, t.d. greiðslukortaviðskipta, eða til lána til fyrirtækja sem væru hluthafar ef þau væru liður í viðskiptum og venjubundin bæði í fyrirtækinu og almennt í slíkum fyrirtækjum (Alþt. 1994, A-deild, bls. 810). Tekið er fram í 4. mgr. 104. gr. laga nr. 2/1995 og 4. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994 að ef hlutafélag eða einkahlutafélag innir af hendi greiðslur í tengslum við ráðstafanir, sem andstæðar eru fyrrgreindum ákvæðum, skuli endurgreiða þær með dráttarvöxtum.

   

  Í málinu liggja fyrir bókhaldsgögn frá bæði X ehf. og Z ehf. Ráðið verður af hreyfingalista úr bókhaldi Z ehf. fyrir árið 2009 að kærandi hafi greitt ýmsan tilgreindan kostnað félagsins á tímabilinu frá 22. júlí 2009 til 17. október 2009 að fjárhæð samtals 13.473.560 kr. Samkvæmt fyrirliggjandi hreyfingalistum úr bókhaldi X ehf. nam skuld kæranda við félagið 2.419.299 kr. í lok árs 2011, 7.599.986 kr. í lok árs 2012, 8.449.254 kr. í lok árs 2013 og 11.098.254 kr. í lok árs 2014. Samkvæmt þessu námu greiðslur X ehf. til kæranda 2.419.299 kr. á árinu 2011, 5.180.687 kr. á árinu 2012, 849.268 kr. á árinu 2013 og 2.649.000 kr. á árinu 2014. Eru þetta þær fjárhæðir sem ríkisskattstjóri færði kæranda til tekna í skattframtölum hans árin 2012 til og með 2015.

   

  Ekki er deilt um að umræddar greiðslur X ehf. hafi borist kæranda. Á hinn bóginn er því borið við af hans hálfu, sbr. aðalkröfu hans, að um endurgreiðslu á láni hans til Z ehf. hafi verið að ræða og að umræddir fjármunirnir hafi í raun verið notaðir í þágu bæði Z ehf. og X ehf., enda rekstur þeirra samofinn. Þá vísar kærandi til þess, sem fram kemur í gögnum málsins, að Z ehf. átti kröfu á hendur X ehf. að fjárhæð 1.037.882 kr. í árslok 2010, 1.897.882 kr. í árslok 2011, 4.130.808 kr. í árslok 2012, 4.210.808 kr. í árslok 2013 og 14.826.599 kr. í árslok 2014. Verður í samræmi við þetta að líta svo á að kærandi telji að Z ehf. hafi framselt þessa kröfu sína á hendur X ehf. til kæranda. Varakröfur kæranda um lækkun tekjuviðbótar byggja á hinu sama.

   

  Vegna þessarar rökfærslu kæranda skal tekið fram að um er að ræða tvo sjálfstæða lögaðila, þ.e. félög með takmarkaða ábyrgð hluthafa. Hafa félögin verið í atvinnurekstri frá árinu 2009 í tilviki Z ehf. og frá árinu 2010 í tilviki X ehf., en samkvæmt skattframtali X ehf. árið 2010 var enginn rekstur í félaginu á árinu 2009 þegar krafa kæranda á hendur Z ehf. myndaðist. Því þykir vart fá staðist, sem kærandi heldur fram, að sú greiðsla hafi öðrum þræði verið nýtt í þágu X ehf. Hvað sem þessu líður verður ekki fram hjá því litið að í skattframtölum og ársreikningum X ehf. fyrir rekstrarárin 2011 til og með 2014 var gerð grein fyrir kröfum félagsins á hendur kæranda og meðeiganda hans sem innlendum viðskiptakröfum. Þá stóð skuld Z ehf. við kæranda óhögguð í bókum og skattframtölum þess félags allt tímabilið þrátt fyrir greiðslur X ehf. sem málið varðar. Að því er varðar kröfu Z ehf. á hendur X ehf. er til þess að líta að hún varð ekki til með þeim fjárhæðum sem nam greiðslunum til kæranda fyrr en á árinu 2014. Verða ekki séð tengsl milli myndunar þeirrar kröfu og greiðslna X ehf. til kæranda, enda naumast haldið fram að slíku hafi verið til að dreifa.

   

  Skatt- og reikningskil bæði X ehf. og Z ehf. þykja samkvæmt framansögðu bera með sér að hvað sem leið möguleikum Z ehf. á að framselja kæranda kröfu sína á hendur X ehf. hafi það ekki verið gert. Umfjöllun kæranda verður að skilja þannig að hann telji bókhald félaganna og skattskil hafa verið röng um þetta atriði. Ekki hafa komið fram aðrar skýringar af hálfu kæranda um ástæður þess að svo eigi að hafa æxlast en að bæði X ehf. og Z ehf. hafi orðið fyrir miklum skakkaföllum á árunum 2009 til 2011 sem hafi leitt til þess að frágangi bókhalds félaganna hafi verið ábótavant. Þessar upplýsingar þykja ekki fullnægjandi til skýringar á meintum mistökum í bókfærslu m.a. með tilliti til þess að atvik spanna a.m.k. fjögurra ára tímabil. Framlögð yfirlýsing, dags. 1. júní 2017, um sjálfskuldarábyrgð X ehf. á öllum skuldum Z ehf. við kæranda, var útbúin löngu eftir að umræddar greiðslur X ehf. til kæranda fóru fram og eftir að athugun ríkisskattstjóra á máli þessu hófst. Verður raunar ekki séð að neinum sköpum skipti í málinu hvort um slíka ábyrgð hafi verið að ræða eða ekki.

   

  Að því virtu sem rakið hefur verið hér að framan þykir ekki unnt að byggja niðurstöðu málsins á öðru en tilgreiningum í bókhaldi og skattskilum X ehf. um greiðslur félagsins til kæranda. Til þess er að líta að almennt verður að ganga út frá því að ákvarðanir um álagningu opinberra gjalda skuli byggðar á ráðstöfunum skattaðila á því tímamarki sem skattskylda verður virk. Síðari tíma leiðrétting þykir því naumast hafa þýðingu. Samkvæmt þessu verður ekki fallist á það með kæranda að ríkisskattstjóra hafi að fengnum skýringum kæranda borið að hafa frumkvæði að leiðréttingum á skatt- og reikningsskilum félaganna beggja í ljósi skýringa kæranda um tilefni greiðslnanna. Teljist yfirleitt vera flötur á slíkum leiðréttingum hlaut frumkvæði í þá veru að koma frá félögunum sjálfum en ekkert hefur komið fram um að þau hafi leitað eftir því.

   

  Samkvæmt framansögðu verður breytingum ríkisskattstjóra ekki hnekkt á þeim grundvelli að greiðslur X ehf. til kæranda hafi í raun verið endurgreiðsla á láni hans til Z ehf. Varakrafa og þrautavarakrafa kæranda byggja sem fyrr segir á sömu grunnforsendu og aðalkrafa hans um að litið verði heildstætt á viðskiptastöðu kæranda gagnvart X ehf. og Z ehf. Að virtri niðurstöðu um aðalkröfu kæranda hér að ofan verður að hafna báðum varakröfum kæranda.

   

  Ljóst er að umræddar greiðslur X ehf. til kæranda fóru ekki fram sem lögmæt úthlutun af fjármunum félagsins, sbr. 73. gr. laga nr. 90/2003. Eins og fram er komið var farið með greiðslur X ehf. til kæranda sem lán í bókhaldi og skattskilum einkahlutafélagsins öll þau ár sem málið varðar. Í samræmi við það verður litið svo á að greiðslur þessar teljist að öllu leyti vera lán í skilningi 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994. Eins og fyrr segir þá liggur fyrir að kærandi var stjórnarmaður og framkvæmdastjóri X ehf. á því tímabilið sem málið varðar að undanskildu u.þ.b. hálfs árs tímabils á árinu 2013 þegar maki kæranda var skráður fyrirsvarsmaður félagsins. Þá var maki kæranda hluthafi félagsins árin 2011, 2012 og kærandi hluthafi félagsins árin 2013 og 2014. Af framangreindu leiðir að umræddar greiðslur einkahlutafélagsins til kæranda voru ekki heimilar að lögum sem lánveiting til hans, enda þykir vafalaust að ekki var um venjulegt viðskiptalán að ræða, sbr. fyrrgreint ákvæði 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994 og lögskýringargögn með því, en því er raunar ekki haldið fram af hálfu kæranda.

   

  Að því leyti sem byggt er á því af hálfu kæranda að meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi ekki verið gætt skal tekið fram að ekki verður séð að meðalhófsregla geti átt hér við, enda er einungis um að ræða úrlausn ágreiningsefna á grundvelli gildandi réttarreglna.

   

  Samkvæmt framansögðu verða hinar kærðu tekjufærslur látnar standa óhaggaðar.“

   

  Í hlekk með fréttinni er að finna úrskurð yfirskattanefndar í heild sinni.

 • Skattlagning bóta vegna andláts maka

  Nánar úr úrskurði yfirskattanefndar:

   

  „[...]

   

  Úrlausn málsins þykir [...] velta á því hvort umrædd greiðsla Tryggingastofnunar ríkisins til kæranda geti talist „greiðsla dánarbóta“ í skilningi 2. tölul. 28. gr. laga nr. 90/2003.

   

  Ákvæði um skattfrelsi eignaauka vegna greiðslu líftryggingarfjár, dánarbóta, miskabóta og bóta fyrir varanlega örorku komust í núverandi horf með 28. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt. Í eldri skattalögum, sbr. m.a. B-lið 10. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, var mælt fyrir um skattfrelsi eignaauka sem stafaði af „útborgun lífsábyrgðar, örorkubóta eða þess háttar“. Í athugasemdum við 28. gr. í frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 40/1978, kom fram að ákvæði 2. tölul. greinarinnar fælu í sér skýrari ákvæði en B-lið 10. gr. laga nr. 68/1971 um skilyrði þess að greiðslur líftryggingafjár, dánarbóta, miskabóta og bóta fyrir varanlega örorku teldust ekki til tekna, væru þær ákveðnar til greiðslu í einu lagi. Með því væri átt við að greiðslur þessar væru ekki tímabilsgreiðslur um ótakmarkaðan tíma, heldur ákveðnar að fjárhæð í eitt skipti fyrir öll, enda þótt útborgun væri skipt í nokkrar greiðslur, verðtryggðar eða óverðtryggðar.

   

  Í íslenskum skaðabóta- og vátryggingarrétti hefur hugtakið dánarbætur jafnan verið notað sem sameiginlegt heiti yfir bætur sem tilteknir aðstandendur manns, sem látist hefur af slysförum, geta átt rétt á, t.d. skaðabætur fyrir missi framfæranda, sbr. ákvæði 12. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þá hafa ákvæði um bætur til eftirlifandi aðstandenda verið að finna í löggjöf á sviði félagsmálaréttar allar götur síðan fyrsti vísir að opinberum slysatryggingum leit dagsins ljós árið 1903. Í 5. gr. laga nr. 40/1903, um lífsábyrgð fyrir sjómenn, er stunda fiskiveiðar á þilskipum, var þannig mælt fyrir um greiðslu ákveðinnar fjárhæðar á fjórum árum til eftirlifandi vandamanna sjómanns sem drukknað hefði eða látist af slysförum. Var gildissvið slíkra slysatrygginga síðar rýmkað og látið taka til fleiri starfsstétta, sbr. lög nr. 44/1925, um slysatryggingar, þar sem kveðið var á um greiðslu dánarbóta vegna slysa er leiddu til dauða. Um greiðslu dánarbóta til aðstandenda er slys veldur dauða manns er nú fjallað í 13. gr. laga nr. 42/2015, um slysatryggingar almannatrygginga. Hafa slíkar bætur ávallt verið taldar skattfrjálsar á grundvelli 2. tölul. 28. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003 og áður hliðstæðs ákvæðis í eldri skattalögum, sbr. m.a. framtalsleiðbeiningar ríkisskattstjóra.

   

  Eins og hér að framan greinir er í tilviki kæranda um að ræða greiðslu bóta til hans á grundvelli 6. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, og reglugerðar nr. 179/2003, um dánarbætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Sú bótategund á rót sína að rekja til svonefndra ekkjubóta sem teknar voru upp með lögum nr. 50/1946, um almannatryggingar, sbr. 35. gr. þeirra laga þar sem fram kom að hver sú kona, sem yrði ekkja innan 67 ára aldurs, ætti rétt á bótum að tiltekinni fjárhæð í þrjá mánuði eftir lát eiginmanns hennar. Ef ekkjan hefði börn yngri en 16 ára á framfæri sínu ætti hún ennfremur rétt á bótum í níu mánuði í viðbót, svo sem nánar greindi. Í athugasemdum við 35. gr. í frumvarpi því, er varð að lögum nr. 50/1946, kom fram að bæturnar væru ætlaðar til styrktar ekkjum fyrstu mánuðina eftir fráfall eiginmanns. Þær þyrftu oft nokkurn tíma til að gera breytingar á heimili sínu, útvega sér atvinnu og þess háttar. Þá var sérstaklega tekið fram að rökstuðningur fyrir bótum til ekkna, sem hefðu barn á framfæri, væri aðallega tillitið til barnanna. Það væri talið æskilegt að mæðurnar gætu sjálfar annast uppeldi barna sinna og ekkjubæturnar ásamt barnalífeyri ættu að stuðla að því. Auk bóta samkvæmt 35. gr. laga nr. 50/1946 gátu ekkjur átt rétt á árlegum lífeyri (ekkjulífeyri) samkvæmt 36. gr. laganna. Þá var eftir sem áður mælt fyrir um greiðslu dánarbóta vegna slysa til aðstandenda látins manns í 57. gr. laga þessara. Samkvæmt 35. gr. laganna var ekkert skilyrði fyrir greiðslu ekkjubóta samkvæmt 35. gr. laganna að andlát maka yrði rakið til slyss, svo sem við átti um greiðslu dánarbóta eftir 57. gr. laganna, auk þess sem greiðsla hinna fyrrnefndu bóta gat lengst tekið til tólf mánaða frá andláti maka.

   

  Fyrrgreindar reglur eldri almannatryggingalaga um svonefndar ekkjubætur héldust í meginatriðum óbreyttar um árabil, sbr. 19. gr. laga nr. 40/1963, um almannatryggingar, og 17. gr. laga nr. 67/1971, um sama efni, og var þeim skipað í II. kafla laga þessara með öðrum ákvæðum um lífeyristryggingar á meðan III. kafli laganna tók til slysatrygginga. Með 4. gr. laga nr. 96/1971, um breyting á lögum nr. 67/1971, var sú breyting gerð á ákvæðinu að ekklar gátu nú öðlast rétt til bóta á sama grundvelli og ekkjur eða í sex mánuði eftir andlát maka og í tólf mánuði til viðbótar hefði viðkomandi bótaþegi barn yngra en 18 ára á framfæri sínu, sbr. 17. gr. laga nr. 67/1971. Eftir því sem næst verður komist mun hafa verið lagt til grundvallar í skattframkvæmd að greindar ekkju- og ekklabætur væru skattskyldar á grundvelli hins almenna ákvæðis 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt nr. 75/1981 og að undanþáguákvæði sömu laga vegna greiðslu dánarbóta, sbr. nú 2. tölul. 28. gr. laga nr. 90/2003, tæki ekki til þeirra. Í leiðbeiningum ríkisskattstjóra um útfyllingu skattframtals einstaklinga árin 1987-1994 kom þannig fram að „dánarbætur (svo nefndar 8 ára bætur) sem ákveðnar eru í einu lagi“ væru undanþegnar skattskyldu, þ.e. bætur sem væru „greiddar skv. svonefndri 8 ára reglu almannatrygginga“. Er ljóst að þar er vísað til dánarbóta vegna slysa samkvæmt þágildandi 35. gr. laga nr. 67/1971 sem greiddar skyldu mánaðarlega í átta ár frá dánardægri hins látna.

   

  Með upptöku nýrra almannatryggingalaga á árinu 1993, sbr. lög nr. 117/1993, voru umrædd ákvæði um ekkju- og ekklabætur flutt í nýsamþykkt lög um félagslega aðstoð nr. 118/1993, sbr. 6. gr. síðarnefndra laga. Í almennum athugasemdum með frumvarpi til laga um félagslega aðstoð kom fram að vegna reglna Evrópubandalagsins um almannatryggingar væri nauðsynlegt að gera glöggan greinarmun á bótum almannatrygginga og félagslegri aðstoð. Í frumvarpið hefðu því verið flutt ákvæði lífeyristryggingakafla almannatrygginga sem væru í raun ákvæði um félagslega aðstoð. Væru greinarnar samhljóða þeim ákvæðum almannatryggingalaga sem um viðkomandi aðstoð fjölluðu að öðru leyti en því að frumvarp til laganna gerði alls staðar ráð fyrir að um heimildarákvæði væri að ræða. Í meðförum Alþingis varð sú breyting á frumvarpinu að bætt var við greinafyrirsögnum við einstakar greinar þess og varð fyrirsögn 6. gr. frumvarpsins, þar sem fjallað var um ekkju- og ekklabætur, „Dánarbætur“, sbr. breytingartillögur heilbrigðis- og trygginganefndar á þskj. nr. 314 á 117. löggjafarþingi. Var tekið fram í nefndaráliti að fyrirsögnum væri ætlað að gera efnisskipan frumvarpsins greinilegri, sbr. þskj. nr. 313.

   

  Í lögskýringargögnum með umræddum lögum um félagslega aðstoð nr. 118/1993 kemur ekkert fram sem bendir til þess að ætlun löggjafans hafi verið að hrófla við skattalegri meðferð þeirra bóta, sem áður nefndust ekkju- og ekklabætur, en nefndar voru dánarbætur eftir breytingar á frumvarpi til laganna í meðförum Alþingis. Er og ekkert vikið að skattlagningu í lögskýringargögnum þessum og engar breytingar voru gerðar á skattalögum í tengslum við þær breytingar á lagaumgjörð bóta almannatrygginga sem um ræðir. Í samræmi við framangreint kemur fram í framtalsleiðbeiningum ríkisskattstjóra árið 1995 (í yfirliti um skattfrjálsar og skattskyldar tekjur á bls. 34-35) að dánarbætur vegna slysa, sem greiddar séu samkvæmt a- og c-lið 1. mgr. 30. gr. almannatryggingalaga, séu skattfrjálsar. Sama gildi um dánarbætur tryggingafélaga sem ákveðnar séu og greiddar í einu lagi og dánarbætur sjúkrasjóða stéttarfélaga. Þá er tekið fram að ekkju- og ekklabætur samkvæmt 6. gr. laga um félagslega aðstoð og ekkjulífeyrir samkvæmt 7. gr. sömu laga séu skattskyldar tekjur og færist til tekna í lið 7.3 í skattframtali. Í framtalsleiðbeiningum ríkisskattstjóra árið 2017 kemur fram að dánarbætur frá Tryggingastofnun ríkisins vegna slysa séu skattfrjálsar tekjur.

   

  Að því athuguðu, sem hér að framan er rakið um forsögu bóta samkvæmt 6. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007, verður ekki talið að bætur þessar geti talist til dánarbóta í skilningi 2. tölul. 28. gr. laga nr. 90/2003. Í löggjöf á sviði almannatrygginga hefur ávallt verið gerður skýr greinarmunur á annars vegar dánarbótum vegna slysa og hins vegar hinni sérstöku tegund bóta vegna andláts maka sem upphaflega nefndist ekkjubætur. Birtist sá greinarmunur nú m.a. í því að um hinar fyrrnefndu bætur er fjallað í sérlögum um slysatryggingar almannatrygginga nr. 42/2015 en um hinar síðarnefndu í lögum um félagslega aðstoð nr. 99/2007, auk þess sem skilyrði fyrir greiðslu bóta þessara eru frábrugðin, eins og að nokkru hefur verið rakið. Glöggt má ráða af efni framtalsleiðbeininga ríkisskattstjóra vegna eldri ára að í skattframkvæmd hefur óslitið og um langan aldur verið lagt til grundvallar að ekkju- og ekklabætur væru skattskyldar í hendi móttakanda þeirra og féllu ekki undir undanþáguákvæði tekjuskattslaga vegna greiðslu dánarbóta. Varð engin breyting þar á þegar nafngift þessara bóta breyttist með setningu laga um félagslega aðstoð nr. 118/1993, en af lögskýringargögnum með þeim lögum verður engin ályktun dregin í þá veru að vilji löggjafans hafi staðið til þess að hrófla við skattalegri meðferð slíkra bóta. Þvert á móti helgaðist hið nýja heiti eingöngu af viðleitni löggjafans til að skýra nánar efnisskipan laga nr. 118/1993, eins og hér að framan greinir. Þá styðst framangreind túlkun við viðtekinn skilning í íslensku lagamáli á hugtakinu dánarbætur sem samheitis yfir bætur til aðstandenda vegna andláts manna af slysförum.

   

  Með vísan til þess, sem hér að framan er rakið, verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu.“

   

  Í hlekk með fréttinni er að finna úrskurð yfirskattanefndar í heild sinni.

 • Frádráttur rekstrarkostnaðar - kostnaður við nýsköpunarverkefni

  Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 152/2009 á nýsköpunarfyrirtæki sem er eigandi að rannsóknar- eða þróunarverkefnum sem hlotið hafa staðfestingu Rannís samkvæmt 5. gr. laganna á rétt á sérstökum frádrætti frá álögðum tekjuskatti sem nemur 20 hundraðshlutum af útlögðum kostnaði vegna þessara verkefna, enda sé um að ræða frádráttarbæran rekstrarkostnað í skilningi 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þó að tilteknu hámarki. Í 2. mgr. sömu lagagreinar kemur fram að skilyrði frádráttar sé að kostnaði vegna hvers rannsóknar- og þróunarverkefnis sé haldið aðgreindum frá öðrum útgjöldum nýsköpunarfyrirtækis og að gögn séu aðgengileg skattyfirvöldum þegar þau óska þess, sbr. X. kafla laga nr. 90/2003. Samkvæmt 4. mgr. 10. gr. laganna skal árlega gera grein fyrir kostnaði vegna rannsókna og þróunar í skattframtali á þann hátt sem ríkisskattstjóri ákveður.

   

  Kærandi í máli þessu er einkahlutafélag og sem hlotið hefur staðfestingu Rannís á rannsóknar- og þróunarverkefni á grundvelli laga nr. 152/2009. Skráður tilgangur félagsins er framleiðsla hugbúnaðar, þjónusta, svo og rekstur fasteigna, lánastarfsemi og skyldur rekstur. Í skattframtali kæranda árið 2016 var tilfærður „gjaldfærður styrkhæfur kostnaður“ að fjárhæð samtals 13.936.002 kr. auk aðkeyptrar rannsóknar- og þróunarvinnu að fjárhæð samtals 1.450.000 kr. Nam kostnaður til útreiknings skattfrádráttar því alls 15.386.002 kr. og skattfrádráttur 3.077.200 kr. Samkvæmt sundurliðun í greinargerðinni stóð gjaldfærður kostnaður saman af starfsmannakostnaði 10.167.133 kr., gjaldfærðum afskriftum af vélum og tækjum 87.323 kr., efnis- og birgðakostnaði 532.342 kr. og öðrum beinum kostnaði vegna rannsóknarverkefnis kæranda 3.149.204 kr.

   

  Ríkisskattstjóri lækkaði tilfærðan frádrátt útlagðs kostnaðar vegna þróunarverkefnis í skattskilum kæranda árið 2016 úr 3.077.200 kr. í áætlaða fjárhæð 1.000.000 kr. Var það mat ríkisskattstjóra að kærandi hefði ekki gefið fullnægjandi skýringar á tilfærðum kostnaði. Benti ríkisskattstjóri á að samkvæmt skattframtali kæranda fyrir umrætt ár næmu rekstrartekjur félagsins 21.647.297 kr. og gjaldfærður starfsmannakostnaður þess næmi 10.122.185 kr. Kvaðst ríkisskattstjóri telja að verulegur hluti starfsemi félagsins varðaði sölu og þjónustu vegna núverandi afurða félagsins og úrbætur á þeim og að ekki fengi staðist að tilfærður starfsmannakostnaður í greinargerð um skattfrádrátt 10.167.133 kr. væri að öllu leyti vegna þróunarverkefnis. Þar sem kærandi hefði ekki sýnt fram á að hlutur þróunarkostnaðar í rekstri félagsins væri slíkur sem greinargerð um skattfrádrátt bæri með sér yrði að ákvarða frádrátt vegna slíks kostnaðar að álitum.

   

  Að framangreindu virtu og þar sem kærandi hefði ekki haldið kostnaði vegna þróunarverkefnis félagsins aðgreindum frá öðrum útgjöldum félagsins, svo sem áskilið er í 2. mgr. 10. gr. laga nr. 152/2009, var ekki talið að kærandi hafi sýnt fram á frádráttarbærni þeirra útgjalda sem um ræðir. Þá þóttu engar forsendur til þess að hrófla við áætlun ríkisskattstjóra á frádráttarbærum þróunarkostnaði, enda var ekki séð að hin umdeilda lækkun ríkisskattstjóra sé óhófleg.

   

  Í hlekk að ofanverðu má nálgast úrskurð yfirskattanefndar í heild sinni.

 • Tvísköttunarsamningur - frádráttaraðferð

  Nánar úr úrskurði yfirskattanefndar:

   

  "Málavextir eru þeir að samkvæmt skattframtali kæranda árið 2017 hafði hann engar tekjur á Íslandi á árinu 2016 aðrar en fjármagnstekjur [...]. Í lið 2.8 í skattframtalinu var gerð grein fyrir tekjum frá Danmörku, þ.e. launatekjum frá X A/S, sem námu 302.419 dönskum krónum sem tilgreindar voru í íslenskum krónum 5.520.693 kr. Álagning á kæranda fór þannig fram að tekjuskattsstofn ákvarðaðist sem umræddar tekjur frá Danmörku að fjárhæð 5.520.693 kr. Varð álagður tekjuskattur að frádregnum persónuafslætti 647.207 kr. og álagt útsvar 801.605 kr. Með kæru, dags. 31. ágúst 2017, sbr. bréf, dags. 15. september sama ár, mótmælti kærandi álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2017 og krafðist þess að við skattlagningu tekna kæranda á árinu 2016 yrði litið til þess að í raun hefði verið reiknaður skattur af þeim í Danmörku. Þá krafðist kærandi þess að hann nyti frádráttar vegna greiðslu lífeyrisiðgjalda samkvæmt 4. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

   

  [...]

   

  Með kæruúrskurði, dags. 25. október 2017, hafnaði ríkisskattstjóri kröfum kæranda að því undaskildu að fallist var á kröfu hans um frádrátt lífeyrissjóðsiðgjalda að fjárhæð 110.417 kr. Í úrskurðinum vísaði ríkisskattstjóri til þess að kærandi hefði verið með heimilisfesti hér á landi á árinu 2016 og því borið ótakmarkaða skattskyldu hér samkvæmt 1. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 19. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Hefði kæranda því borið að greiða tekjuskatt og útsvar af öllum tekjum sínum, hvar sem þeirra væri aflað, þar með töldum tekjum sem upprunnar væru í Danmörku. Þá kom fram að Norðurlöndin hefðu gert með sér samning til að komast hjá tvísköttun að því er varðaði skatta á tekjur og eignir, sbr. auglýsingu nr. 11/1997 í C-deild Stjórnartíðinda. Samkvæmt 3. mgr. 15. gr. samningsins mætti skattleggja tekjur kæranda í Danmörku. Í b-lið 4. mgr. 25. gr. samningsins, sem gilti um tekjur er féllu undir 3. mgr. 15. gr. hans, kæmi fram að hefði aðili heimilisfastur á Íslandi tekjur sem skattleggja mætti í öðru samningsríki skyldi Ísland draga frá íslenskum tekjuskatti hans fjárhæð sem svaraði til þess tekjuskatts sem greiddur væri í hinu samningsríkinu. Kærandi hefði ekki gert grein fyrir skattgreiðslum í Danmörku í skattframtali sínu árið 2017 og bæru þau gögn, sem lögð hefðu verið fram með kæru til ríkisskattstjóra, ekki á neinn hátt með sér fjárhæð greiddra skatta af tekjum kæranda í Danmörku. Yrði því ekki fallist á kröfu kæranda um að við skattlagningu teknanna hér á landi yrði litið svo á að þegar hefði verið reiknaður skattur af tekjunum.

   

  Með kæru, dags. 18. desember 2017, hefur kærandi skotið kæruúrskurði ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar. Í kærunni eru ítrekuð þau rök og sjónarmið sem fram komu í kæru til ríkisskattstjóra. Þá er því mótmælt að 3. mgr. 15. gr. tvísköttunarsamnings Norðurlandanna eigi við í máli kæranda, eins og ríkisskattstjóri haldi fram. Í raun eigi 4. mgr. sömu greinar samningsins við um tilvik kæranda og eigi því að beita undanþáguaðferð samkvæmt a-lið 4. mgr. 25. gr. samningsins við lausn undan tvísköttun. Ljóst sé að danskur tekjuskattur hafi verið reiknaður af útreiknuðum heildarlaunum kæranda, launin síðan lækkuð um þá fjárhæð og kærandi fengið greidd nettólaun, eins og við eigi um staðgreiðslu opinberra gjalda á Íslandi, sbr. lög nr. 45/1987. Tekjur kæranda hafi verið skattlagðar í Danmörku, en vegna sérstakra reglna til hagsbóta fyrir útgerðir þar í landi hafi útgerðin ekki þurft að standa skil á skattinum. Kærandi hafi þannig fengið greidd svokölluð nettólaun. Með vísan til framanritaðs sé ljóst að kærandi hafi þurft að þola skattlagningu í tveimur ríkjum þrátt fyrir að einungis Ísland eigi skattlagningarrétt á tekjum kæranda. Sé farið fram á að yfirskattanefnd beiti meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og fallist á að beita undanþáguaðferð að svo stöddu við skattlagningu tekna kæranda, enda verði markmiði fyrrgreinds tvísköttunarsamnings ekki náð með öðrum hætti.

   

  [...]

   

   

  Kærandi bar ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi gjaldárið 2017 samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 19. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Í því felst að kæranda var skylt að greiða tekjuskatt og útsvar af öllum tekjum sínum hvar sem þeirra var aflað, þar með töldum umræddum launatekjum frá Danmörku. Samkvæmt 119. gr. laga nr. 90/2003 er ríkisstjórninni heimilt að gera samninga við stjórnir annarra ríkja um gagnkvæmar ívilnanir á sköttum erlendra og íslenskra skattaðila sem eftir gildandi skattalöggjöf ríkjanna eiga að greiða skatt af sama skattstofni bæði á Íslandi og erlendis. Ísland er ásamt Danmörku aðili að samningi milli Norðurlandanna til að komast hjá tvísköttun að því er varðar skatta á tekjur og eignir, en samningurinn er birtur sem fylgiskjal með auglýsingu nr. 11/1997 í C-deild Stjórnartíðinda. Samkvæmt d-lið 3. mgr. 2. gr. samningsins tekur samningurinn að því er Ísland varðar m.a. til tekjuskatts til ríkisins og útsvars til sveitarfélaga. Samkvæmt 3. mgr. 15. gr. samningsins má skattleggja endurgjald fyrir störf unnin um borð í dönsku, færeysku, finnsku, íslensku, norsku eða sænsku skipi í flutningum á alþjóðaleiðum í því samningsríki þar sem skipið er skráð. Í 4. mgr. 15. gr. samningsins kemur fram að þrátt fyrir framangreind ákvæði 3. mgr. hans skattleggist endurgjald fyrir störf unnin um borð í fiskveiði-, selveiði- eða hvalveiðiskipi einungis í því samningsríki þar sem sá er aflar endurgjaldsins er heimilisfastur, einnig þótt endurgjaldið miðist við ákveðinn aflahlut eða ágóðahlut af fisk-, sel- eða hvalveiðunum. Í 25. gr. greinds tvísköttunarsamnings er mælt fyrir um aðferð til að komast hjá tvísköttun hjá hverju samningslandanna fyrir sig. Er 4. málsgrein greinarinnar, sem varðar Ísland sérstaklega, svohljóðandi:

   

  „a) Hafi aðili heimilisfastur á Íslandi tekjur eða eigi hann eign sem einungis skal eða má skattleggja samkvæmt ákvæðum þessa samnings í öðru samningsríki skal Ísland, nema ákvæði b-liðar leiði til annars, lækka íslenska tekju- eða eignarskattinn með því að draga frá þann hluta tekju- eða eignarskattsins sem reiknaður er af þeim tekjum sem aflað er eða eign sem er í hinu ríkinu.

   

  b) Hafi aðili heimilisfastur á Íslandi tekjur sem skattleggja má í öðru samningsríki samkvæmt 10. gr., 7. mgr. 13. gr., 3. mgr. 15. gr., 16. gr. eða 1.-6. mgr., c-lið 7. mgr. og 8.-9. mgr. 21. gr. skal Ísland draga frá íslenskum tekjuskatti þessa aðila fjárhæð sem svarar til þess tekjuskatts sem greiddur er í hinu samningsríkinu. Frádráttarfjárhæðin skal hins vegar ekki vera hærri en sá hluti íslenska skattsins, reiknaður fyrir slíkan frádrátt, sem lagður er á þær tekjur sem skattleggja má í hinu ríkinu.“

   

  Meðal gagna málsins er ráðningarsamningur milli kæranda og X A/S, dags. 23. maí 2013, þar sem fram kemur að kærandi sé ráðinn til starfa á skipum félagsins sem skráð séu í alþjóðlega skipaskrá Danmerkur (Dansk Internationalt Skibsregister, DIS). Í umsögn ríkisskattstjóra í málinu, dags. 15. janúar 2018, er bent á að af þessum sökum sé ljóst að umræddar launatekjur kæranda frá Danmörku falli undir 3. mgr. 15. gr. tvísköttunarsamnings milli Norðurlandanna en ekki 4. mgr. þess samnings. Verður ekki annað séð en að þetta sé í raun ágreiningslaust í málinu, sbr. bréf umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 31. janúar 2018, þar sem fram kemur að misskilnings hafi gætt milli umboðsmannsins og kæranda um eðli starfa kæranda. Verður samkvæmt framansögðu að ganga út frá því að hinar umdeildu launatekjur falli undir 3. mgr. 15. gr. tvísköttunarsamningsins.

   

  Það leiðir af framangreindu að fara ber eftir ákvæðum b-liðar 25. gr. margnefnds tvísköttunarsamnings Norðurlandanna um aðferð til að komast hjá tvísköttun vegna tekna kæranda frá Danmörku. Samkvæmt þeim ákvæðum skal draga frá íslenskum tekjuskatti fjárhæð sem svarar til þess tekjuskatts sem greiddur er í hinu samningsríkinu. Eins og fram er komið liggja engar upplýsingar eða gögn fyrir í málinu um skattgreiðslur kæranda í Danmörku. Er komið fram af hálfu kæranda að ekki sé greiddur skattur af tekjunum þar í landi og sé tekið tillit til þess við ákvörðun launa fyrir umrædd störf. Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðar þessa að skattaleg meðferð tekna kæranda frá Danmörku hafi verið í fullu samræmi við íslenska löggjöf og ákvæði fyrrnefnds tvísköttunarsamnings. Vegna tilvísunar kæranda til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal tekið fram að skattlagning umræddra tekna hjá kæranda leiðir af lögum. Verður því ekki talið að meðalhófregla eigi hér við, enda er einungis um að ræða úrlausn á grundvelli gildandi réttarreglna. Með vísan til þess sem að framan greinir er kröfum kæranda í máli þessu hafnað."

   

  Í hlekk með fréttinni er að finna úrskurð yfirskattanefndar í heild sinni.

 • Endurgreiðsla virðisaukaskatts - vinna við endurbætur og viðhald íbúðarhúsnæðis

  Nánar úr úrskurði yfirskattanefndar:

   

  "[...]. Í b-lið 1. gr. reglugerðarinnar kemur fram að eftir því sem nánar sé ákveðið í reglugerðinni skuli endurgreiða 60% virðisaukaskatts sem eigendur íbúðarhúsnæðis hafi greitt vegna vinnu manna við endurbætur eða viðhald þess. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar tekur endurgreiðsla samkvæmt a-lið 1. gr. til virðisaukaskatts vegna allrar vinnu manna sem unnin er á byggingarstað íbúðarhúsnæðis við nýbyggingu þess, þ.m.t. vinnu við framkvæmdir við lóð hússins, jarðvegslagnir umhverfis hús, girðingar, bílskúra og garðhýsa á íbúðarhúsalóð. Endurgreiðsla samkvæmt b-lið 1. gr. tekur á sama hátt til virðisaukaskatts vegna allrar vinnu manna við endurbætur og viðhald íbúðarhúsnæðis. Í 4. gr. reglugerðarinnar er tiltekin vinna og þjónusta sem ekki fellur undir endurgreiðsluákvæðin þrátt fyrir 3. gr. Meðal annars kemur fram í 2. tölul. 4. gr., sbr. breytingar á ákvæðinu með 1. gr. reglugerðar nr. 639/2012 og 2. gr. reglugerðar nr. 1183/2014, að endurgreiðslan taki ekki til virðisaukaskatts sem greiddur sé af vinnu stjórnenda skráningarskyldra ökutækja, stjórnenda farandvinnuvéla og vinnuvéla, sem skráningarskyldar séu í vinnuvélaskrá, á byggingarstað.

   

  [...]

   

  Það verk S, sem krafa kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts hverfist um, fólst sem fyrr segir í borun eftir jarðvarma. Til verksins var notaður borinn X. Í kæru til yfirskattanefndar er nánar rakið að verkið hafi falist í því að bora vinnsluholu, þ.e. þá borholu sem vatn sé tekið úr til húshitunar, en áður hafi verið nauðsynlegt að bora rannsóknarholur til að mæla hitastuðul jarðvegarins. Á heimasíðu S kemur fram að borinn X sé notaður við rannsóknarboranir og boranir eftir köldu og heitu vatni á lághitasvæðum auk borholuhreinsana. Eins og fram er komið nam reikningsfærð vinna borstjóra og bormanna á verkstað 3.968.813 kr. án virðisaukaskatts, sem er sú fjárhæð sem tilgreind er sem vinna án virðisaukaskatts í endurgreiðslubeiðni kæranda, en aðrir liðir sölureiknings virðast einkum vera vegna notkunar umrædds bors við verkið svo og vegna efnis og flutnings. Samkvæmt framangreindu verður að teljast ljóst að við verkið hafi verið notast við vinnuvél af flokki R (jarðbor) samkvæmt viðauka við reglur nr. 388/1989. Er þar um að ræða vinnuvél af því tagi sem tiltekin er í 2. tölul. 4. gr. reglugerðar nr. 449/1990.

   

  Samkvæmt framangreindu getur krafa kæranda ekki náð fram að ganga að því leyti sem hún varðar virðisaukaskatt af vinnu stjórnenda borsins X. Verður ekki betur séð en að það eigi við um lungann úr kröfufjárhæðinni. Loku þykir þó ekki vera skotið fyrir að í verkinu hafi falist verkliðir sem hafi verið framkvæmdir án notkunar umrædds bors. Því þykir tilefni til að víkja nánar að endurgreiðsluákvæðum sem hér reynir á.

   

  Það felst í fyrri málslið 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 449/1990 að endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna nýbyggingar íbúðarhúss takmarkast ekki við framkvæmdir við hlutaðeigandi húsbyggingu í þröngum skilningi, enda er tekið fram um endurgreiðslurétt vegna vinnu manna við lóðaframkvæmdir, jarðvegslagnir umhverfis hús, girðingar, bílskúra og garðhús á íbúðarhúsalóð. Ekki verður staðhæft að hér sé um að ræða tæmandi talningu verkefna sem geti verið grundvöllur endurgreiðslu auk vinnu við sjálfa húsbygginguna. Við skýringu ákvæðisins þykir á hinn bóginn hafa þýðingu að viðfangsefni sem ákvæðið tilgreinir eiga það sameiginlegt að varða nærumhverfi íbúðarhúss eða mannvirki sem standa í nánum tengslum við íbúðarhús og gætu eftir atvikum verið hluti þess. Orðalag ákvæðisins ber jafnframt með sér staðarlega takmörkun á framkvæmdum sem hér geta fallið undir, þannig að ekki verði seilst til viðfanga út fyrir lóð húss. Samkvæmt þessu þykir mega slá því föstu að endurgreiðsla taki ekki til vinnu við önnur verk en þau sem telja má eðlilegan þátt í byggingu íbúðarhúss og frágangi verkstaðar (lóðar). Ekki fer á milli mála að sömu viðmiðanir og hér hafa verið tíundaðar gilda um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við endurbætur og viðhald íbúðarhúsnæðis, sbr. orðalagið „á sama hátt“ í síðari málslið 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar. Verður því hvorki játaður þrengri né ríkari réttur til endurgreiðslu af vinnu við endurbætur og viðhald en af vinnu við nýbyggingu. Ganga verður út frá því að framangreint eigi jafnframt við þegar um ræðir vinnu við nýbyggingu eða viðhald íbúðarhúsa utan þéttbýlis, þar á meðal á lögbýlum, þótt ekki hafi verið útmæld sérstök lóð vegna íbúðarhúss, [...].

   

  Samkvæmt skýringum kæranda er heitt vatn úr borholu á landi hans, B, nýtt til upphitunar íbúðarhúss á landinu. Þar með verður þó ekki fallist á að vinna við öflun vatnsins geti talist varða nýbyggingu eða eftir atvikum endurbætur/viðhald íbúðarhússins í skilningi 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, sbr. ákvæði 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 449/1990, svo sem þau ákvæði hafa verið skýrð hér að framan. Verður hvorki séð að vinna þessi geti talist venjulegur þáttur í framkvæmdum við íbúðarhúsið í B né að hún tengist nánasta umhverfi húss með þeim hætti sem að framan greinir. Það leiðir af þessu að ekki verður fallist á kröfu kæranda vegna virðisaukaskatts af verkliðum við umrædda borvinnu sem kunna að hafa verið framkvæmdir án þess að falla undir ákvæði 2. tölul. 4. gr. reglugerðar nr. 449/1990. Kröfu kæranda þar að lútandi er því hafnað."

   

  Úrskurðinn má lesa í heild sinni í hlekk hér að ofan með fréttinni.