Velkomin á heimasíðu Skattatíðinda.is

Breytingar á sköttum og öðrum opinberum gjöldum eru tíðar. Breytingarnar skipta einstaklinga og fyrirtæki miklu máli og því er mikilvægt að fylgjast vel með. Á heimasíðu Skattatíðinda má ávallt nálgast nýjustu upplýsingar á aðgengilegan og einfaldan hátt.

 

Ef einhverjar spurningar vakna eru starfsmenn KPMG ehf. ávallt reiðubúnir að aðstoða.

E.g., 2017-10-21
E.g., 2017-10-21
 • Vaxtabætur

  Úr úrskurði yfirskattanefndar nr. 140/2017:

   

  Af hálfu kærenda er komið fram að lán nr. ... og ... hafi bæði verið tekin í maí 2008 til greiðslu á vanskilum húsnæðislána kærenda á þeim tíma. Kærendur gerðu ekki grein fyrir þessum lánum í skattframtali sínu árið 2009 og hafa borið því við að það hafi verið fyrir mistök. Á hinn bóginn færðu kærendur upplýsingar um lánin í lið 5.5 í skattframtölum árin 2010 og 2011, sem ekki fær samþýðst skýringum þeirra um ráðstöfun lánsfjárins á árinu 2008, en engar skýringar hafa komið fram á þessu. Ríkisskattstjóri byggði breytingar sínar á því að kærendur hefðu ekki gert grein fyrir því hvaða húsnæðislán hefðu verið í vanskilum og engin gögn lagt fram til stuðnings skýringum sínum um vanskil slíkra lána. Þá yrði ekki séð af skattframtölum kærenda og upplýsingum frá lánveitendum að um hefði verið að ræða vanskil lána þessara. Lætur ríkisskattstjóri þess getið í úrskurði sínum að hann hafi í þessu sambandi athugað gögn vegna tekjuáranna 2004 til og með 2015. Það er að athuga við forsendur ríkisskattstjóra að samkvæmt fyrrgreindu ákvæði 3. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 990/2001 er út af fyrir sig ekki skilyrði að skattaðili hafi misst húsnæðislán í vanskil til þess að lán sem um ræðir í þessu reglugerðarákvæði geti talist mynda rétt til vaxtabóta. Á hinn bóginn má ætla að vanskil geti verið til marks um það að skuldari hafi átt í greiðsluerfiðleikum, en það er skilyrði samkvæmt ákvæðinu. Hvað sem þessu líður verður að telja að bæði fyrirspurnarbréf ríkisskattstjóra frá 11. nóvember 2016, þar sem því var beint til kærenda að gera grein fyrir því hvernig nýjar lántökum tengdust öflun íbúðarhúsnæðis til eigin nota, og boðunarbréf ríkisskattstjóra hafi gefið kærendum tilefni til að gera nánari grein fyrir greiðsluerfiðleikum sínum á árinu 2008 en þau gerðu í bréfi til ríkisskattstjóra, dags. 29. desember 2016. Þrátt fyrir forsendur í úrskurði ríkisskattstjóra, sem raktar eru hér að framan, er í kæru til yfirskattanefndar í engu gerð nánari grein fyrir aðstæðum kærenda á árinu 2008 með tilliti til greiðsluerfiðleika og greiðslugetu en fram kom í nefndu bréfi kærenda. Skortir þá jafnframt á að kærendur hafi leitt að því nægar líkur að lánsfénu hafi í raun verið varið til greiðslu á lánum til öflunar íbúðarhúsnæðis, sbr. ákvæði 3. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 990/2001. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið þykir verða að hafna kröfu kærenda og láta breytingu ríkisskattstjóra standa óhaggaða hvað þessi tvö lán varðar.

   

  Kærendur upplýsa hvað snertir lán nr. ..., sem þau tóku árið 2012 og mun hafa verið að fjárhæð 840.000 kr., hafi verið nýtt til að greiða afborganir húsnæðislána sem komin hafi verið í vanskil. Telja verður að sömu annmarkar bagi málatilbúnað kærenda hvað snertir þetta lán og fyrrgreind lán frá árinu 2008, þ.e. að hvorki hafi verið leitt fram að lánið hafi verið tekið vegna greiðsluerfiðleika kærenda né að lánsféð hafi verið nýtt til greiðslu á lánum til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota, sbr. skilyrði 3. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 990/2001. Kröfu kærenda er því hafnað um þetta kæruatriði. Samkvæmt skýringum kærenda var 60% láns nr. ..., sem kærendur tóku árið 2013, nýtt til endurbóta á íbúðarhúsnæði þeirra og til greiðslu vanskila á eldri húsnæðislánum. Ekki kemur fram skipting lánsfjárhæðarinnar (60%) í þessa tvo þætti. Hvað snertir þann hluta lánsins sem nýtt var til að fjármagna endurbætur á íbúðarhúsnæðinu skal tekið fram að skilyrði 2. málsl. 2. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003, þess efnis að lán vegna verulegra endurbóta á íbúðarhúsnæði til eigin nota sé frá Íbúðalánasjóði, er ekki uppfyllt í málinu, en um lán frá Arion banka var að ræða. Að því leyti sem kærendur byggja á því að lánið hafi verið nýtt til greiðslu eldri húsnæðislána verður að vísa til umfjöllunar um lán nr. ..., ... og ... hér að framan, enda þykir hið sama eiga við um málatilbúnað kærenda hvað þessa lántöku snertir. Kröfu kærenda er því hafnað um þetta kæruatriði. Eftir stendur þá lán nr. ..., sem kærendur tóku árið 2015, en það var samkvæmt skýringum kærenda annars vegar nýtt til greiðslu á láni nr. ..., sem kærendur telja að hafi verið 60% vegna íbúðarhúsnæðis, og hins vegar til greiðslu á láni nr. ... sem hafi verið að fullu vegna íbúðalána. Hér að framan hefur kröfum kærenda vegna beggja þeirra lána verið hafnað. Verður því einnig að hafna kæru kærenda hvað snertir lán nr. ...

 • Reiknað endurgjald - málsmeðferð

  Úr úrskurði yfirskattanefndar nr. 132/2017:

  Samkvæmt reglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald tekjuárin 2012, 2013 og 2014, sbr. auglýsingar nr. 1282/2011, 1180/2012 og 13/2014 í B-deild Stjórnartíðinda, falla undir viðmiðunarflokk B í reglum þessum „menn sem vinna við iðnaðar- og iðjurekstur, hvers konar verslun og viðskipti, veitingastarfsemi, útgerð og fiskvinnslu, framleiðslu landbúnaðarvara, verktakastarfsemi hvers konar og þjónustu, sem ekki heyrir undir flokk A eða C“. Er tekið fram að stjórnun rekstrarins eða félagsins sé hluti af störfum þeirra sem falla undir flokk B(1), B(2), B(3) og B(4), enda þótt þeir vinni einnig önnur störf. Tilgreindir eru nokkrir flokkar undir B, miðað við umsvif og starfsmannafjölda. Undir viðmiðunarflokk B(4), sem ríkisskattstjóri taldi eiga við í tilviki kæranda, fellur „Maður sem stýrir rekstri þar sem starfa með honum tveir til fimm starfsmenn eða samtals greidd laun til starfsmanna og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag samsvara árslaunum tveggja til fimm starfsmanna.“ Til viðmiðunarflokks G í umræddum reglum teljast bændur sem einir eða með öðrum standa fyrir búrekstri, með eða án aðkeypts vinnuafls. Fram kemur að ef búrekstur er umfangsmikill og tveir eða fleiri starfsmenn eru á launum auk bóndans og maka hans og barna innan 16 ára skuli flokka starfið í flokka B(1) til B(4) í reglunum. Tilgreindir eru nokkrir flokkar undir G. Undir flokk G(5), sem kærandi vill taka mið af, fellur „Bóndi sem stendur fyrir öðrum búrekstri, svo sem svínarækt, alifuglarækt og annarri kjötframleiðslu, hrossarækt, grænmetisrækt og garðplönturækt.“ Samkvæmt viðmiðunarreglunum eru viðmiðunarfjárhæðir miðaðar við þá tegund atvinnurekstrar eða starfsemi sem framteljandi stendur fyrir og er um lágmarksfjárhæðir að ræða sé viðkomandi ekki í öðru launuðu föstu starfi eða starfi sem reikna skal endurgjald fyrir, sbr. 1. kafla reglnanna og upphaf 4. kafla þeirra. Einnig segir að stundi framteljandi starfsemi sem hver um sig teljist ekki vera fullt starf skuli skipta reiknuðu endurgjaldi hlutfallslega miðað við starfshlutfall og viðeigandi viðmiðunarflokk.

   

  Samkvæmt gögnum málsins er starfsemi S ehf. fólgin í sölu og dreifingu á kartöflum til smásala. Er það í samræmi við skráðan tilgang félagsins um heildsölu og smásölu grænmetis og garðávaxta. Í úrskurði ríkisskattstjóra er þetta rakið og jafnframt tekið fram að aðföng félagsins séu keypt frá P ehf., en það félag sé einnig í eigu kæranda. P ehf. mun hafa með höndum ræktun kartaflna. Ekkert kemur nánar fram í fyrirliggjandi gögnum um starfsemi P ehf., þar á meðal um starfsmenn þess félags eða vinnuframlag kæranda í þess þágu, og verður ekki séð að ríkisskattstjóri hafi aflað neinna upplýsinga um þessi atriði við meðferð máls kæranda. Í bréfi umboðsmanns S ehf., dags. 15. júlí 2016, var gerð sú grein fyrir starfi kæranda að það fælist annars vegar í ræktun kartaflna, sem einkum væri sinnt að vori og hausti, og hins vegar í sölu og dreifingu afurðanna sem fram færi flesta mánuði ársins. Með hliðsjón af því sem fyrir liggur um starfsemi umræddra tveggja einkahlutafélaga verður að telja liggja í augum uppi að fram komnar skýringar tóku til vinnuframlags kæranda í þágu beggja félaganna. Án öflunar frekari gagna og skýringa varð því á engan hátt gengið út frá því, svo sem ríkisskattstjóri gerði, að kærandi hefði eingöngu starfað á vegum S ehf. á þeim árum sem málið tekur til við þann þátt búrekstrarins sem sinnt var í nafni þess félags. Tekið skal fram að hvað sem líður réttmæti þess að fella umræddan þátt í starfinu undir viðmiðunarflokk B verður ríkisskattstjóri ekki talinn hafa fært rök að því að miða fjárhæð endurgjalds við undirflokk B(4), enda ekki annað komið fram en að kærandi hafi starfað einn við reksturinn, svo sem ríkisskattstjóri raunar tiltók í úrskurði sínum, en ekki verður ráðið af gögnum málsins um aðkeypt vinnuframlag í skilningi reglna um reiknað endurgjald.

 • Tekjuuppgjör rekstrar - tekjutímabil

  Úr úrskurði yfirskattanefndar nr. 128/2017:

  Meginregla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, um tímaviðmiðun fyrir tekjufærslum kemur fram í 2. mgr. 59. gr. laganna og er svohljóðandi: „Tekjur skal að jafnaði telja til tekna á því ári sem þær verða til, þ.e. þegar myndast hefur krafa þeirra vegna á hendur einhverjum, nema um óvissar tekjur sé að ræða.“ Meginregla þessi, kröfustofnunarregla, var upphaflega lögfest með 2. mgr. 7. gr. laga nr. 6/1935, um tekjuskatt og eignarskatt, og hefur æ síðan verið í lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Um nýmæli þetta sagði svo í athugasemdum með 8. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 6/1935, en grein þessi varð 7. gr. laganna (Alþt. 1934, A-deild, bls. 101–102): „Að lokum er bætt við greinina því nýmæli, að tekjur skuli jafnan telja til tekna á því ári er þær verða til, þ.e. þegar vegna þeirra hefur myndast krafa á hendur öðrum, þótt ógreitt sé. Er það í samræmi við framtalsvenju manna almennt, en auðveldara er til samanburðar og yfirlits fyrir skattanefndir, að sem flestir fylgi sömu framtalsreglu að þessu leyti.“ Á reikningi kæranda til Landspítalans, dags. 5. janúar 2016, kemur fram að um sé að ræða dagvinnu og eftirvinnu „vika 51 - 52“. Verður það ekki skilið á annan veg en að um sé að ræða verk unnin á síðustu tveimur vikum ársins 2015. Auk þess liggur fyrir í gögnum málsins tölvupóstur frá starfsmanni bókhaldsdeildar Landspítalans þar sem fram kemur að umræddur reikningur sé vegna vinnu sem unnin hafi verið í desember 2015. Vegna athugasemda kæranda skal tekið fram að engu breytir um tímaviðmið tekjufærslu hvenær reikningur var gefinn út eða hvenær hann var greiddur, sbr. umfjöllun um 2. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003 hér að framan. Samkvæmt framansögðu verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu.

 • Erfðafjárskattur - höfundaréttur

  Úr úrskurði yfirskattanefndar nr. 113/2017:

  Í 1. mgr. 20. gr. laga nr. 20/1991 kemur fram sú meginregla að við mat á eign til peningaverðs skuli miðað við gangverð hennar gegn staðgreiðslu kaupverðs. Samkvæmt þessu er ljóst að niðurstaða mats á verðmæti eigna dánarbús, sem fram fer á grundvelli 17.–23. gr. laga nr. 20/1991, getur ráðið gjaldstofni til erfðafjárskatts þegar um eignir er að ræða þar sem gjaldstofn tekur mið af meginreglu erfðafjárskattslaga nr. 14/2004 um viðmið við almennt markaðsverðmæti, svo sem við á um hugverkaréttindi, sbr. upphafsmálslið 2. mgr. 4. gr. þeirra laga. Eins og hér að framan er rakið gera lög nr. 20/1991 sérstaklega ráð fyrir því að mats samkvæmt 17.–23. gr. laganna verði aflað vegna álagningar erfðafjárskatts, sbr. 5. mgr. 30. gr. og 1. tölul. 2. mgr. 31. gr. laganna. Af samanburðarskýringu greindra ákvæða laga nr. 20/1991 annars vegar og laga nr. 14/2004 hins vegar verður því að telja að almennt beri að leggja niðurstöðu slíks mats, eða eftir atvikum yfirmats, til grundvallar ákvörðun erfðafjárskatts vegna viðkomandi eigna, enda hafi réttra aðferða verið gætt við öflun og undirbúning matsins og matsgerð gengur ekki sýnilega í berhögg við lög eða málefnalegar forsendur.

   

  Í kæru kærenda til yfirskattanefndar er einkum byggt á því að hið umdeilda mat á verðmæti höfundaréttar E sé byggt á ólögmætum forsendum þar sem niðurstaðan sé ekki byggð á ætluðu markaðsverðmæti réttindanna heldur áætlun matsmanns á mögulegum og óvissum framtíðartekjum af þeim. Sé aðferðafræði matsins því í andstöðu við lög um erfðafjárskatt og reglur skattalaga almennt. Ekki verður fallist á þessi sjónarmið kærenda, enda þykir ljóst að einungis er um að ræða tiltekna aðferð við mat á markaðsverðmæti réttindanna til skattlagningar samkvæmt ákvæðum 4. gr. laga nr. 14/2004. Verður því ekki fallist á með kærendum að matið sé án lagastoðar að þessu leyti eða í andstöðu við lög. Tekið skal fram í þessu sambandi og vegna athugasemda kærenda að í matsgerðinni kemur fram að ekki hafi verið við nein haldbær fordæmi að styðjast við mat á verðmæti höfundaréttarins og þar af leiðandi engin opinber viðskiptaverð, eins og þar segir. Að öðru leyti eru í kæru kærenda til yfirskattanefndar gerðar ýmsar athugasemdir við forsendur verðmatsins, m.a. varðandi skattalega meðferð tekna af höfundarétti og aðferð við núvirðingu tekna og val á ávöxtunarkröfu í því sambandi. Eins og fram er komið leituðust kærendur ekki við að hnekkja niðurstöðu verðmats hins tilnefnda matsmanns með yfirmati samkvæmt 2. mgr. 22. gr. laga nr. 20/1991. Að því gættu og þar sem ekki verður séð að neinir slíkir ágallar séu á verðmatinu sem geri það að verkum að það verði ekki lagt til grundvallar ákvörðun erfðafjárskatts samkvæmt þeim sjónarmiðum, sem hér að framan voru rakin, er ekki tilefni til frekari umfjöllunar í úrskurði þessum um þær athugasemdir kærenda sem hér um ræðir. Með vísan til þess, sem hér hefur verið rakið, þykja engar forsendur til að hrófla við þeirri ákvörðun sýslumanns að leggja fyrirliggjandi mat á verðmæti höfundaréttar, sem aflað var samkvæmt 17.–23. gr. laga nr. 20/1991, til grundvallar ákvörðun erfðafjárskatts kærenda vegna umræddrar eignar, sbr. 1. og 2. mgr. 4. gr. laga nr. 14/2004.

 • Takmörkuð skattskylda - tvísköttunarsamningar

  Úr úrskurði yfirskattanefndar nr. 107/2017:

  Eins og fram er komið eru þær sérstöku aðstæður uppi í máli þessu að kærandi er heimilisfastur í einu ríki, Svíþjóð, starfar fyrir félag í öðru ríki, Íslandi, og innir störfin af hendi í þriðja ríkinu, Bandaríkjunum. Þegar þessar aðstæður eru virtar og ákvarðanir og ráðstafanir umræddra ríkja í tilviki kæranda og hafður er í huga tilgangurinn með tvísköttunarsamningum, verður ekki betur séð en tilefni hafi verið fyrir bær stjórnvöld að gæta að ákvæðum viðkomandi tvísköttunarsamninga um framkvæmd gagnkvæms samkomulags, sbr. 28. gr. fyrrgreinds tvísköttunarsamnings milli Norðurlandanna og 24. gr. tvísköttunarsamningsins milli Íslands og Bandaríkjanna. Þar er gert ráð fyrir að skattaðili geti borið sig upp undan ráðstöfunum er varði skattlagningu á hann vegna ákvarðana er ekki séu í samræmi við ákvæði viðkomandi samnings og skyldu bærra stjórnvalda til að bregðast við. Ekki verður séð að neitt slíkt ráðslag hafi farið fram þrátt fyrir tilefni.

   

  [...]

   

  Í ljósi viðhorfa kæranda, sem byggir m.a. á því að framangreind undantekning frá skattlagningu, sem felist í verklagsreglum ríkisskattstjóra og tilvitnuðum úrskurði, eigi við í tilviki hans, verður að telja úrslitaatriði fyrir niðurstöðu málsins að tryggilega sé leitt í ljós hvort og þá að hvaða marki launagreiðandi kæranda, G ehf., hafi rekið starfsemi í Bandaríkjunum og þá hvaða verkefnum kærandi hafi gegnt í því sambandi. Um þetta kom ekkert fram við meðferð málsins hjá ríkisskattstjóra og verður ekki að öðru leyti glöggt ráðið af gögnum málsins. Tekið skal fram að í gögnum, sem fylgdu kæru til yfirskattanefndar, sbr. sérstaklega bréf C Ltd. og G ehf. til ræðismannsskrifstofu Bandaríkjanna í Stokkhólmi í Svíþjóð, sem bæði eru dagsett 2. maí 2016, kemur fram að kærandi var ráðinn til G ehf. til að vinna sérfræðistörf fyrir C Ltd. og dótturfyrirtæki þess félags. Síðastgreint félag er móðurfélag G ehf. eftir því sem fram kemur í málsgögnum. Í fyrrgreindum gögnum kemur ennfremur fram að ætlunin hafi verið að kærandi yrði starfsmaður G ehf., yrði þar á launaskrá og þægi engin laun frá bandarískum launagreiðanda þrátt fyrir störf hans þar í landi við markaðsrannsóknir og tækniþróun fyrir C Ltd. í Bandaríkjunum. Félag þetta, sem hefur höfuðstöðvar í Bandaríkjunum, rekur tiltekna starfsemi þar í landi eftir því sem upplýst er á heimasíðu G ehf. Samkvæmt skattákvörðunum sænskra skattyfirvalda í tilviki kæranda, sbr. boðunarbréf þeirra frá 29. desember 2015 og úrskurð frá 18. janúar 2016, liggur fyrir að skattyfirvöldin telja kæranda heimilisfastan í Svíþjóð árið 2014 og bera þar ótakmarkaða skattskyldu. Þá er fjallað í gögnum þessum um skattálagningu á kæranda vegna tekjuársins 2014 og skattskyldar tekjur á árinu 2014 annars vegar frá „C“ vegna vinnu í Bandaríkjunum tímabilið maí til desember 2014 með mánaðarlaunum að fjárhæð 15.000 bandaríkjadalir og hins vegar vegna vinnu í Bandaríkjunum fyrir sænska fyrirtækið M. Þá kemur fram í hinum sænsku gögnum að kærandi hafi sætt skattlagningu í Bandaríkjunum vegna beggja tekjupóstanna og sýnt fram á að hann hafi staðið skil á hinum bandarísku sköttum. Ennfremur segir að af niðurstöðu um heimilisfesti leiði að tekjur, sem aflað hafi verið í Bandaríkjunum, komi til skattlagningar í Svíþjóð, en skattgreiðslur í Bandaríkjunum komi til frádráttar. Í úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 6. júní 2016, er vikið að umræddum gögnum sænskra skattyfirvalda og fyrrnefndum launagreiðendum. Tekið er fram að í hinni sænsku ákvörðun sé ekkert minnst á að laun frá íslenska launagreiðandanum G ehf. hafi komið til skattlagningar í Svíþjóð, heldur aðeins talað um „tekjur frá sænska launagreiðandanum M og bandaríska launagreiðandanum C“. Hefur þetta verið veigamikil forsenda fyrir ályktunum og ákvörðunum ríkisskattstjóra í málinu. Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 2. september 2016, er af hálfu kæranda á það bent að þarna gæti mikils misskilnings, enda sé þarna átt við G ehf. Fallast verður á þetta með kæranda og þykir raunar blasa við. Þar með brestur sú forsenda ríkisskattstjóra að hinar umdeildu tekjur hafi ekki sætt skattlagningu í Bandaríkjunum. Í hinum sænsku gögnum er vísað til tvísköttunarsamnings milli Svíþjóðar og Bandaríkjanna í tengslum við skattskyldu og skattlagningu teknanna í Svíþjóð á grundvelli ótakmarkaðrar skattskyldu kæranda þar í landi á umræddum tíma að teknu tilliti til hinna bandarísku skattgreiðslna. Lögsaga yfir síðastgreindu réttarsambandi er ekki til staðar í máli þessu. Meginforsenda ríkisskattstjóra fyrir hinni umdeildu skattlagningu hefur verið sú að af hálfu kæranda hafi ekki verið sýnt fram á að umræddar launatekjur hans frá G ehf. tekjuárið 2014 hafi sætt skattlagningu, hvorki í Bandaríkjunum né Svíþjóð. Eins og fram er komið stenst þessi ályktun ríkisskattstjóra ekki.

   

  Í málinu hefur verið vikið að verklagsreglum ríkisskattstjóra samkvæmt Handbók embættisins um tekjuskatt og eignarskatt frá mars 1996, kafla 1.3.2, sem lýtur að túlkun á 2. tölul. 3. gr. laga nr. 75/1981, sbr. nú hliðstætt ákvæði í 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 90/2003, og tilgreindum úrskurðum yfirskattanefndar og ríkisskattanefndar sem varða það málefni, sbr. úrskurð yfirskattanefndar nr. 91/2007 og úrskurð ríkisskattanefndar nr. 189/1986. Í umræddum verklagsreglum í kafla 1.3.2 segir varðandi 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1981 að samkvæmt ákvæðum töluliðarins séu allir þeir menn, sem njóti launa fyrir störf frá íslenskum aðilum, skattskyldir af þeim launum sé uppruni teknanna tengdur starfsemi hér á landi. Þetta eigi jafnt við um alla menn, sem ekki eru heimilisfastir hér á landi, hvort heldur þeir eru af erlendu bergi brotnir eða Íslendingar. Þá segir í verklagsreglum þessum að laun starfsmanns, sem ekki er heimilisfastur hér á landi, en starfi hjá íslenskum aðila erlendis við starfsemi, sem þar er rekin, teljist ekki til skattskyldra tekna hér á landi. Síðastgreind regla er orðuð í margnefndum úrskurði yfirskattanefndar nr. 91/2007, sbr. einnig úrskurð yfirskattanefndar nr. 145/2014. Í fyrstnefnda úrskurðinum segir að í skatt- og úrskurðaframkvæmd hafi verið litið svo á að ákvæði 2. tölul. 3. gr. taki til tekna af þeim toga sem ákvæðið sjálft tilgreini, þ.m.t. launa, sem upprunnar eru hér á landi. Hafi því verið talið að laun fyrir störf erlendis í þágu íslensks aðila, vegna starfsemi aðilans, sem þar er rekin, falli utan gildissviðs ákvæðisins þar sem uppruni teknanna sé þá erlendis en ekki hér á landi. Síðan er vikið að greindum verklagsreglum og úrskurðum. Í kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 6. júní 2016, fær fyrrgreindur þáttur málsins þá einu afgreiðslu og rökstuðning að hvorki umræddar verklagsreglur né tilvísaðir úrskurðir skiptu hér máli. Samkvæmt þessu verður að telja að umtalsvert skorti að þessu leyti á fullnægjandi rökstuðning af hálfu ríkisskattstjóra, sbr. áskilnað 4. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003 um skyldu til rökstuðnings og 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um efni rökstuðnings. Þá verður að telja að verulega skorti á að ríkisskattstjóri hafi séð til þess að málið væri nægjanlega upplýst áður en hann tók ákvörðun í því, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Meðal annars liggur ekki ljóst fyrir hvernig starfi kæranda var háttað í Bandaríkjunum og launagreiðslum hans vegna starfa þar. Eins og fyrr segir var brýnt að afla upplýsinga launagreiðanda kæranda, G ehf., hvað þetta varðar. Einnig þykja forsendur ríkisskattstjóra ekki standast í veigamiklum atriðum, svo sem fram er komið. Með vísan til þess, sem hér hefur verið rakið, þykir verða að ómerkja kæruúrskurð ríkisskattstjóra. Er því beint til ríkisskattstjóra að taka málið til nýrrar meðferðar og uppkvaðningar kæruúrskurðar að nýju í samræmi við það sem að framan greinir og að gættum þeim atriðum sem þýðingu hafa fyrir úrlausnarefnið og fyrr er lýst.

 • Erfðafjárskattur - lánsveð

  Úr úrskurði yfirskattanefndar nr. 104/2017:

  Af hálfu kærenda er komið fram í málinu að heildarskuld samkvæmt skuldabréfi E hafi verið gjaldfelld af Íslandsbanka hf. á árinu 2013 í framhaldi af árangurslausu fjárnámi hjá E sem fram fór að kröfu bankans í nóvember 2013, að því er virðist vegna annarrar skuldar E við bankann, sbr. fyrirliggjandi endurrit úr gerðabók sýslumanns, dags. þann dag. Hafi X í kjölfar þess verið krafin um greiðslu skuldarinnar og fyrir liggur að í ársbyrjun 2014 krafðist Íslandsbanki hf. þess að gert yrði fjárnám hjá X til tryggingar greiðslu skuldarinnar, sbr. aðfararbeiðni, dags. 21. janúar 2014, þar sem m.a. greinir að skuldin hafi verið í vanskilum frá 1. júlí 2013. Þá er komið fram að hinn 1. desember 2015 varð að samkomulagi með dánarbúi X og Íslandsbanka hf. að ábyrgðarskuld vegna lánsins yrði gerð upp með greiðslu dánarbúsins á 2.169.817 kr., sbr. gögn, þar með talið viðskiptakvittun, er fylgdu kæru til yfirskattanefndar. Verður því ekki annað séð en að lánið hafi fallið á dánarbúið sem þeirri fjárhæð nemur. Eru atvik málsins að þessu leyti frábrugðin atvikum í máli því sem lauk með fyrrgreindum úrskurði yfirskattanefndar nr. 479/2012, sbr. og til hliðsjónar úrskurð yfirskattanefndar nr. 18/2016. Með vísan til framanritaðs þykir mega fallast á kröfu kærenda varðandi ábyrgðarskuld arfleifanda vegna láns til E, sbr. 5. gr. laga nr. 14/2004. Lækkar skattstofn til erfðafjárskatts því um 2.169.817 kr. frá því sem sýslumaður ákvað. Víkur þá að láni Íslandsbanka hf. til C. Í bréfi sýslumanns til kæranda, B, dags. 14. október 2016, var m.a. vísað til þess að hin látna væri ekki skuldari umrædds láns og að ekki væri komið fram að lánið hefði verið tekið í hennar þágu. Af þessu tilefni var í svarbréfi kæranda, dags. 9. nóvember 2016, bent á að láninu hefði að hluta verið varið til uppgreiðslu á eldri lánum X, sem hvílt hefðu á V, og lánið að því leyti verið tekið í þágu hennar, eins og fram kæmi í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar í máli X gegn Íslandsbanka hf. Í ákvörðun sinni, dags. 23. nóvember 2016, vék sýslumaður í engu að þessu atriði þrátt fyrir að hafa sjálfur vakið máls á því í bréfi sínu til kæranda, B. Eins og málið lá fyrir sýslumanni varð þó engan veginn staðhæft, án öflunar frekari upplýsinga eða eftir atvikum gagna, að ráðstöfun lánsins til uppgreiðslu eldri lána í nafni X gæti ekki haft neina þýðingu varðandi frádráttarrétt vegna erfðafjárskatts, sbr. til hliðsjónar úrskurð yfirskattanefndar nr. 85/2011. Verður að telja að rökstuðningi sýslumanns og rannsókn málsins af hans hendi hafi verið áfátt að þessu leyti, sbr. ákvæði 10. og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í fyrrgreindu bréfi kæranda, B, til sýslumanns, dags. 9. nóvember 2016, kom ekkert fram um afdrif lánsins í kjölfar dóms Hæstaréttar á árinu 2013. Í kæru til yfirskattanefndar kemur hins vegar fram að í desember 2014 hafi verið staðfest samkomulag milli Íslandsbanka hf. og dánarbús X um greiðslu að fjárhæð 8.000.000 kr. til að ljúka málinu. Fylgdu kærunni gögn um þetta, þ.e. tölvupóstsamskipti við starfsmann Íslandsbanka hf. í desember 2014. Fram kemur í kærunni að samkomulagið hafi gert ráð fyrir því að greiðslan skyldi innt af hendi við sölu á fasteigninni við V. Eins og bent er á í umsögn sýslumanns nýtur ekki frekari gagna í málinu um þetta eða efni samkomulagsins við bankann að öðru leyti, en eftir því sem næst verður komist er fasteignin að V enn óseld.

   

  Samkvæmt gögnum málsins krafðist Íslandsbanki hf. nauðungarsölu á fasteigninni við V til lúkningar skuld C í árslok 2011, nánar tiltekið þann 29. desember 2011. Með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur í október 2013 var bú C tekið til gjaldþrotaskipta og lauk skiptum í desember sama ár án þess að greiðsla fengist upp í lýstar almennar kröfur að fjárhæð 62.239.259 kr. auk áfallinna vaxta og kostnaðar eftir að úrskurður um gjaldþrotaskipti gekk. Með dómi Hæstaréttar á árinu 2013 var veðsetningu fasteignarinnar sem fyrr greinir vikið til hliðar að því marki sem hún var umfram 6.500.000 kr. Með vísan til framanritaðs þykir mega fallast á kröfu kærenda varðandi ábyrgðarskuld arfleifanda vegna láns til C sem þeirri fjárhæð nemur, sbr. 5. gr. laga nr. 14/2004. Lækkar skattstofn til erfðafjárskatts því um 6.500.000 kr. frá því sem sýslumaður ákvað vegna hinnar umþrættu ábyrgðarskuldar.

 • Stimpilgjald - endurgreiðsla

  Úr úrskurði yfirskattanefndar nr. 102/2017:

  Eins og fram er komið skal greiða stimpilgjald af skjölum er varða eignaryfirfærslu skipa yfir 5 brúttótonnum sem skrásett eru hér á landi, svo sem afsölum, kaupsamningum og gjafagerningum, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 138/2013. Í 2. mgr. 3. gr. laganna kemur fram að greiða skuli stimpilgjald vegna eftirrita af dómum, sáttum og lögbókandagerðum er skapa réttindi eða skyldur sem ekki hefur áður verið gert um gjaldskylt skjal, sbr. 1. mgr. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. fer gjaldskylda skjals eftir þeim réttindum er það veitir en ekki nafni þess eða formi. Í 1. mgr. 9. gr. kemur fram að sýslumaður skuli endurgreiða stimpilgjald þegar gjaldskylt skjal er ógilt með öllu að lögum eða ekki verður af því að það réttarástand skapist sem hið gjaldskylda skjal ráðgerði. Ekki liggja fyrir önnur gögn í málinu um að hin umdeildu viðskipti með N hafi gengið til baka en fyrrgreindur viðauki við kaupsamning kæranda og hins erlenda félags þar sem þess er getið að tilnefndur kaupandi hafi ekki efnt skyldur sínar til greiðslu kaupverðs. Í fyrirliggjandi afsali kæranda, dags. 15. desember 2015, felst hins vegar yfirlýsing félagsins um að kaupandi skipsins hafi efnt skyldur sínar samkvæmt kaupsamningi, eins og jafnan tíðkast í afsalsgerningum. Var skjal þetta því stimpilskylt samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 138/2013, sbr. og 2. mgr. 3. gr. laganna. Tekið skal fram að afsal verður ekki skilyrt með þeim hætti sem kærandi heldur fram, hvað sem líður afhendingu afrits afsalsins til kaupanda með fyrirvara um greiðslu kaupverðs. Þá verður ekki ráðið af kaupsamningi kæranda og R Ltd., dags. 2. nóvember 2015, að gerð hafi verið krafa um afhendingu afsals og útstrikunarvottorðs eða annarra gagna áður en kaupverð skyldi innt af hendi. Samkvæmt framansögðu þykir kærandi ekki hafa sýnt fram á að endurgeiða beri félaginu hið umdeilda stimpilgjald á grundvelli 1. mgr. 9. gr. laga nr. 138/2013. Að því gættu verður að hafna kröfum kæranda í málinu. Samkvæmt þeim úrslitum málsins eru jafnframt ekki fyrir hendi lagaskilyrði til þess að ákvarða kæranda málskostnað til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með síðari breytingum. Kröfu þess efnis er því hafnað.

 • Greiðslur til fósturforeldra - frádráttarbær kostnaður

  Úr úrskurði yfirskattanefndar nr. 101/2017: 

  Hvað sem líður réttmæti athugasemda kærenda um ósamræmi milli matsreglna ríkisskattstjóra og reglna um greiðslur barnaverndaryfirvalda til fósturforeldra eftir gildistöku reglugerðar nr. 858/2013 verður ekki fram hjá því litið að setning umræddra stjórnvaldsreglna heyrir að lögum undir ríkisskattstjóra og ráðherra, sbr. 118. gr. laga nr. 90/2003. Í þessu sambandi skal vísað til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 22. júní 1999 í málinu nr. E-3852/1998 (Magnús Hreggviðsson gegn íslenska ríkinu) sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 356/1999 hinn 10. febrúar 2000 þar sem m.a. reyndi á það hvort skattmatsreglur hvíldu á viðhlítandi grundvelli og gildi þeirra að öðru leyti. Kröfugerð kærenda í kæru, eins og hún er sett fram, felur í raun í sér kröfu um að yfirskattanefnd ákvarði breytingu á matsreglum þessum. Slík krafa getur ekki náð fram að ganga, enda er það atriði ekki á valdsviði yfirskattanefndar. Það athugist að með skattmatsreglum ríkisskattstjóra fyrir tekjuárið 2016 varð sú breyting frá fyrri árum varðandi ákvæði um frádrátt frá tekjum vegna fósturs barna að fram kemur að sé „tekið fram í samningi milli sveitarfélags og framteljanda að greiðslur vegna fósturbarns miðist við að framfærslukostnaður barnsins teljist vera hærri en nemur tvöföldum barnalífeyri er heimilt að færa umsamda fjárhæð vegna framfærslu til frádráttar í stað sannanlegs kostnaðar“. Umrætt ákvæði skattmatsreglna fyrir tekjuárið 2014 um frádrátt sem svarar til tvöfalds barnalífeyris kveður á um grundvöll fyrir áætlun frádráttar þegar gögn liggja ekki fyrir um beinan kostnað. Fallast má á það með kærendum að vandkvæðum geti verið bundið að leggja fram gögn um kostnað við framfærslu barna. Það verður þó ekki talið gilda um alla útgjaldaliði sem hér geta komið til álita, sbr. m.a. umfjöllun í úrskurði yfirskattanefndar nr. 14/2010. Þess er að geta að eins og fram kemur í nefndum úrskurði eru þess dæmi að við ákvörðun frádráttar að álitum hafi verið litið til upplýsinga um greiðslur viðkomandi sveitarfélags til fósturforeldris vegna sérgreindra liða. Áréttað skal að þrátt fyrir ærið tilefni hafa kærendur enga viðhlítandi grein gert fyrir útgjöldum sínum vegna barna sem um ræðir og hvorki lagt fram gögn um útgjöldin né rökstutt framtalda frádráttarfjárhæð. Liggur raunar ekki heldur neitt áreiðanlegt fyrir um ákvörðun greiðslna til kærenda. Þykir samkvæmt þessu ekkert hafa komið fram sem getur gefið tilefni til að hagga við ákvörðun ríkisskattstjóra. Kröfu kærenda í máli þessu er því hafnað.

 • Ívilnun í sköttum - tap á útistandandi kröfum

  Úr úrskurði yfirskattanefndar nr. 96/2017:

  Samkvæmt framansögðu þykir málið liggja þannig fyrir að það velti á því hvort rétt hafi verið að ríkisskattstjóri synjaði ívilnunarbeiðni kærenda á þeim grundvelli að ekki yrði séð að kærendur hafi getað vænst þess, þegar þau gengust í ábyrgð vegna skulda E, að ábyrgðin félli ekki á þau. Í þessari forsendu ríkisskattstjóra felst að kærendur hafi ekki gert sennilegt eða fært að því líkur að þau hefðu mátt vænta þess að veitt ábyrgð félli ekki á þau. Ljóst er að í þessu sambandi miðar ríkisskattstjóri við að ábyrgðin hafi verið veitt 8. febrúar 2009. Umræddan dag samþykktu kærendur veðsetningu í fasteign sinni til tryggingar lántöku E að fjárhæð 11.000.000 kr. hjá SPRON hf. sem gekk til greiðslu hluta skuldar hans við SPRON Verðbréf hf. í samræmi við samkomulag hans við verðbréfafyrirtækið sama dag. Samkvæmt þeim samningi skyldu SPRON Verðbréf hf. aflýsa tveimur tryggingabréfum í fasteign kærenda samhliða þinglýsingu veðskuldabréfsins. Var þar vísað til tryggingabréfa sem kærendur gáfu út 4. júlí 2008 að fjárhæð 6.000.000 kr. og 26. september 2008 að fjárhæð 5.000.000 kr. Samkvæmt samkomulaginu töldust þær veðsetningar standa til tryggingar umræddri skuld E og eru engin efni til annars en að ætla að kærendur hafi við gerð samkomulagsins talið svo vera. Að þessu athuguðu þykir ekki fá staðist hjá ríkisskattstjóra að líta á ábyrgðartöku kærenda samkvæmt umræddu samkomulagi án tengsla við veðheimild þeirra sumarið 2008. Þykir þvert á móti blasa við að ábyrgð kærenda sem veðsala vegna umræddra skuldbindinga E hafi upphaflega komið til 4. júlí 2008, svo sem bent var á í úrskurði yfirskattanefndar nr. 126/2016. Framhjá þessu lítur ríkisskattstjóri með öllu í úrlausn sinni, en heldur sig við það að ábyrgðin hafi komið til 8. febrúar 2009 og ályktar að kærendum hafi á þeim tíma mátt vera ljóst að ábyrgðin myndi falla á þau, enda hafi E „þegar á árinu 2008 verið ófær um að standa við skuldbindingar sínar“. Vegna þessarar forsendu sinnar hefur ríkisskattstjóri enga afstöðu tekið til þess hvort líklegt megi telja að kærendur hafi við veitingu ábyrgðar í júlí 2008 haft réttmætar væntingar um að ábyrgðin félli ekki á þau, sbr. d-lið 1. tölul. A-liðar 49. gr. reglugerðar nr. 245/1963, enda verður að skilja umfjöllun ríkisskattstjóra um hagi E á árinu 2008 svo að miðað sé við stöðu mála eftir fall stóru viðskiptabankanna þriggja í október það ár. Samkvæmt framansögðu verður að telja að verulegur annmarki hafi verið á rökstuðningi ríkisskattstjóra, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003 og 1. og 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993

 • Hrossarækt - atvinnurekstur

  Úr úrskurði yfirskattanefndar nr. 90/2017:

  Vegna umfjöllunar ríkisskattstjóra um umsvif kæranda á sviði umboðssölu með hross á fyrri árum skal tekið fram að rekstrarskýrslur með skattframtölum kæranda árin 2003 til og með 2011 bera með sér að hann hafi fram á árið 2010 stundað slíkan rekstur sem ríkisskattstjóri vísar til. Í rekstrarskýrslunum eru flest árin tilgreindar „birgðir“ án nánari skýringa og verður helst ráðið að þar séu hross færð til eignar. Þessum rekstri kæranda lauk á árinu 2010, eftir því sem ráðið verður af skattskilum hans, og voru m.a. engar birgðir tilgreindar í árslok það ár samkvæmt rekstrarskýrslu með skattframtali árið 2011. Ekki taldi kærandi heldur fram hesta til eignar í skattframtalinu. Í lið 4.4 í skattframtölum kæranda árin 2012, 2013, 2014 og 2015 var hins vegar gerð grein fyrir hrossaeign í árslok 2011, 2012, 2013 og 2014 sem var á bilinu fimm til tíu hross að meðtöldum tryppum og folöldum og fór hausum fjölgandi á tímabilinu. Hvað sem því líður liggur fyrir að kærandi telur sig ekki hafa á þessum árum, þar á meðal á árinu 2014, stundað hrossarækt í atvinnuskyni eða haft með höndum umboðssölu á hrossum eða aðra umsýslu með hross í sjálfstæðri starfsemi. Að því frátöldu sem fram kemur í greindum starfslokasamningi kæranda og K ehf. þykja málsgögn ekki benda í aðra átt að þessu leyti. Samkvæmt framansögðu verður ekki talið að neitt liggi fyrir með öryggi um viðskipti kæranda með hross á árinu 2014, önnur en söluna á hryssunni B, eða rekstrartengd umsvif hans á sviði hestamennsku að öðru leyti á því ári. Þá verður ekki annað séð en að þrjú ár þar á undan hafi kærandi ekki haft með höndum atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, hvorki á sviði hrossaræktar né umboðssölu með lífdýr. Samkvæmt þessu verður að telja að skírskotun ríkisskattstjóra til hrossaviðskipta kæranda á fyrri árum sé langsótt. Atvinnurekstur kæranda á þessu sviði á síðara ári getur tæpast heldur haft verulega þýðingu. Sú staðreynd að greind viðskipti voru tengd starfslokum kæranda hjá vinnuveitanda hans er ekki heldur sérstaklega til vitnis um að þau hafi verið liður í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi kæranda, miðað við það sem fram hefur komið í málinu. Þá verður ekki talið að sú staðreynd að kærandi gaf út sölureikning vegna umræddra viðskipta geti ráðið úrslitum við mat á eðli tekna kæranda af sölu hryssunnar án tillits til annarra atriða sem skipt geta máli í þeim efnum, sbr. hér að framan.

   

  Með vísan til framanritaðs og að virtum fram komnum skýringum kæranda að öðru leyti þykir bera að byggja á því að umrædd hryssa hafi verið eign utan atvinnurekstrar þegar sala hennar telst hafa farið fram á árinu 2014. Samkvæmt þessu fá forsendur ríkisskattstjóra fyrir skattlagningu hagnaðar af sölunni ekki staðist. Að svo vöxnu og þar sem ríkisskattstjóri hefur ekki skotið neinum öðrum stoðum undir ákvörðun sína um skattlagningu tekna þessara þykir bera að fella hana úr gildi.