Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Ábyrgðarþóknun - söluverð fasteignar

Nánar um úrskurð yfirskattanefndar nr. 40/2018

Ríkisskattstjóri (RSK) endurákvarðaði opinber gjöld manns (kæranda) á grundvelli skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins (SRS) á skattskilum mannsins. Maðurinn var meirihlutaeigandi í X ehf. og jafnframt framkvæmdastjóri og stjórnarmaður félagsins. RSK taldi ýmsar greiðslur X ehf. til mannsins falla undir það að vera óheimilar úthlutanir fjár úr félaginu og skattlagði þær sem laun mannsins.

 

Í bókhaldi X ehf. var tiltekin fjárhæð færð til gjalda og til lækkunar á skuld kæranda við félagið, sem þóknun til kæranda fyrir að hann hafði gengist í sjálfsskuldarábyrgð á skuldum félagsins. Fjárhæðina hafði kærandi ekki talið sér til tekna í skattframtali. Að mati SRS var um að ræða óheimila úttekt kæranda úr einkahlutafélagi sínu. Til þess mats vísaði RSK í úrskurði sínum og tiltók að ekki hefði með gögnum verið sýnt fram á að kærandi hefði persónulega innt af hendi greiðslur vegna ábyrgða á skuldum X ehf. og því yrði ekki á það fallist að um endurgreiðslu slíkrar greiðslu væri að ræða. Yfirskattanefnd benti á að ekki væri vefengt að kærandi hefði tekist á hendur ábyrgð á skuldum félagsins og því ekki útilokað að um ábyrgðarþóknun væri að ræða, óháð því hvort ábyrgð hefði fallið á kæranda. Yfirskattanefnd hnekkti ákvörðun RSK um að færa umrædda fjárhæð til launa, en færði hana þess í stað til fjármagnstekna kæranda.

 

Kærandi hafði keypt tvær fasteignir af X ehf. á verði sem SRS og RSK töldu vera óeðlilega lágt verð og horfðu í þeim efnum til fasteignamatsverðs eignanna á söludegi. RSK færði mismun fasteignamatsverðs og lægra umsamins kaupverðs til skattskyldra launatekna kæranda. Yfirskattanefnd staðfesti ákvörðun RSK hvað önnur viðskiptin varðaði, en taldi slíka annmarka vera á rökstuðningi RSK varðandi hin viðskiptin að fella bæri ákvörðun hans úr gildi. Undir rekstri málsins, bæði fyrir SRS og RSK, hafði kærandi bent á að X ehf. hefði keypt húsið fáum árum fyrr af óskyldum þriðja aðila á verði langt undir fasteignamatsverði og að matsverðið hefði síðan lækkað, enda húsið í algjörri niðurníðslu og til hefði staðið að rífa það. Yfirskattanefnd taldi að óhjákvæmilegt hefði verið að hyggja nánar að ástandi eignarinnar en SRS og RSK gerðu. Tiltók yfirskattanefnd að þótt fasteignamatsverð væri tækt til viðmiðunar um matsverð skv. 2. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, gæti það ekki sjálfkrafa gilt sem matsverð samkvæmt ákvæðinu, enda bæri skattyfirvöldum að ákvarða matsverð sjálfstætt.