Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Bindandi álit nr. 04/2016, Breyting hlutafélags í Evrópufélag - flutningur úr landi

Úr bindandi áliti ríkisskattstjóra nr. 04/2016:

 

Fram kemur að álitsbeiðendur hyggjast stofna Evrópufélag (Societas Europaea eða SE) á grundvelli ákvæða reglugerðar Evrópuráðsins (EB) nr. 2157/2001 frá 8. október 2001, um samþykktir fyrir Evrópufélög.  Í álitsbeiðninni er óskað bindandi álits um:

 

  • Hefur breyting á starfandi hlutafélagi á Íslandi í Evrópufélag í samræmi við lög nr. 26/2004 skattalegar afleiðingar í för með sér fyrir félagið eða hluthafa þess?

 

  • Hefur flutningur á skráðri skrifstofu Evrópufélags hér á landi til annars aðildarríkis í samræmi við ákvæði laga nr. 26/2004 skattalegar afleiðingar í för með sér fyrir félagið eða hluthafa þess?

 

  • Verði komist að þeirri niðurstöðu um að þær fyrirætlanir álitsbeiðanda hafi skattalegar afleiðingar í för með sér í spurningum 1 og 2, mun það hafa einhver áhrif á útreikning skattskyldra tekna ef eignir álitsbeiðanda verða eftir hér á landi sem hluti fastrar starfsstöðvar Evrópufélagsins hér á landi?

 

Niðurstaða ríkisskattstjóra:

 

Álitsbeiðendur hafa í hyggju að umbreyta hlutafélaginu í Evrópufélag og óska eftir bindandi áliti ríkisskattstjóra á því hvort slík umbreyting hefði í för með sér skattalega afleiðingar annars vegar fyrir félagið sjálft og hins vegar fyrir hluthafa þess. Í tilvitnaðri reglugerð ráðsins kemur fram að breyta megi hlutafélagi sem stofnað hefur verið samkvæmt lögum aðildarríkis og með skráðar skrifstofur og aðalskrifsstofur innan bandalagsins í Evrópufélag hafi það a.m.k. átt dótturfyrirtæki sem heyrir undir lög annars aðildarríkis sbr. 4. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar.  Álitsbeiðendur hafa ekki upplýst í álitsbeiðni hvort skilyrðið um eignarhald á dótturfélagi í öðru aðildarríki sé uppfyllt en í áliti þessu mun ríkisskattstjóri ganga út frá að svo sé.  Að því virtu og með vísan til skráningar hlutafélagsins hér á landi verður ekki annað séð en að ákvæði 4. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar eigi við um félagið. Í 5. þætti reglugerðarinnar er að finna ákvæði sem eiga við um hlutafélög sem breytt er í Evrópufélög.  Í 2. mgr. 37. gr. kemur fram að með fyrirvara um 12. gr. skuli breyting á hlutafélagi í Evrópuhlutafélag ekki hafa í för með slit á hlutafélaginu sem breytt er eða tilurð nýs lögaðila.  Af þessu ákvæði má því ráða að eingöngu sé um breytingu á félagaformi að ræða að einhverju leyti sambærilegt við þegar einkahlutafélagi er breytt í hlutafélag eða öfugt.  Þá hafa álitsbeiðendur upplýst að engar breytingar verði á eignarhaldi félagsins og að engir fjármunir muni fara frá félaginu til hluthafa eða öfugt. Að því virtu er það álit ríkisskattstjóra að umbreyting ein og sér á hlutafélaginu í Evrópufélag muni ekki hafa í för með sér skattalegar afleiðingar hvorki fyrir félagið sjálft né hluthafa þess.

 

[...]

 

Samkvæmt þessu gilda ákvæði 3.-9. mgr. 51. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, um fyrirhugaðan flutning á Evrópufélagi því sem fyrirhugað er að skrá hér á landi.  Í því ákvæði er m.a. kveðið á um að fara skuli með eignir, réttindi, kröfur og skuldbindingar sem yfirfærðar eru sem seldar eða innleystar væru.  Reikna skal skattskyldar tekjur út miðað við mismun á gangverði eigna og skattalegu stofnverði þeirra að teknu tilliti til áður fenginna fyrninga.  Þá kemur fram að heimilt sé að undanþiggja þær eignir skattlagningu sem eftir verða hér á landi og gætu talist til reksturs fastrar starfsstöðvar í eigu félagsins enda sé starfsstöðin skráð hér á landi.  Þá kemur einnig fram í ákvæðinu að heimilt sé að fresta greiðslu á skattskuldinni að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Í álitsbeiðni kemur fram að verði komist að þeirri niðurstöðu að íslenskar skattareglur nái til ráðstafana á grundvelli laga nr. 26/2004 og margnefndrar reglugerðar sé um að ræða skýlausa hindrun bæði á staðfesturétti félaga og frjálsu flæði fjármagns innan EES.  Af þessu tilefni bendir ríkisskattstjóri á að í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 26/2004 kemur beinlínis fram að íslensk skattalög muni taka til Evrópufélaga.  Þá kemur jafnframt fram í aðfararorðum reglugerðarinnar að reglugerðin taki ekki til laga á öðrum sviðum svo sem „skattalaga, samkeppnislaga, hugverkaréttar eða gjaldþrotalaga.  Ákvæði í lögum aðildarríkjanna og bandalagsins gilda því á framangreindum sviðum og á öðrum sviðum sem þessi reglugerð tekur ekki til“ eins og segir í aðfararorðum 20 í reglugerðinni.  Ennfremur fær ríkisskattstjóri ekki séð að þau ákvæði íslenskra tekjuskattslaga sbr. ákvæði 56. gr. a og 3.-9. mgr. 51. gr., séu frábrugðin sambærilegum lagaákvæðum sem gilda um sama efni á Norðurlöndunum og ríkisskattstjóra er ekki kunnugt um að þau ákvæði hafi verið talin vera brot á staðfesturétti félaga og frjálsu flæði fjármagns. Að öllu framangreindu virtu er það álit ríkisskattstjóra að ákvæði 56. gr. a og 3.-9. mgr. 51. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, eigi við um fyrirhugað flutning Evrópufélags frá Íslandi. Hvað varðar mögulegar skattalegar afleiðingar fyrir hluthafa vísar ríkisskattstjóri til 56. gr. a laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er reifuð hér að framan.  Séu skilyrði framangreinds ákvæðis uppfyllt hefði flutningur á Evrópufélagi frá Íslandi ekki skattalegar afleiðingar  fyrir hluthafann sem er meðal álitsbeiðenda.

 

[...]

 

Álitsorð:

Ríkisskattstjóri hefur komist að eftirfarandi niðurstöðu vegna þeirra álitaefna sem sett eru fram í álitsbeiðninni:

  • Umbreyting á hlutafélaginu í Evrópufélag hefur ekki í för með sér skattalegar afleiðingar, hvorki fyrir félagið sjálft né hluthafa þess, enda fari engir fjármunir frá félaginu til hluthafa eða öfugt við umbreytinguna.
  • Ákvæði 56. gr. a og 3.-9. mgr. 51. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, gilda um flutning Evrópufélags frá Ísland bæði hvað varðar félagið sjálft sem og þann hluthafa sem tilgreindur er meðal álitsbeiðenda.