Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Bindandi álit nr. 05/2016 - frádráttur í skattskilum - úthlutun vegna slita á erlendu dótturfélagi

Úr bindandi áliti ríkisskattstjóra nr. 05/2016:

 

Fram kemur að álitsbeiðandi fyrirhugar að slíta hollensku dótturfélagi og úthluta fjármunum til álitsbeiðanda eftir þeim reglum og lögum sem gilda í Hollandi. Í álitsbeiðninni er óskað bindandi álits um: hvort álitsbeiðanda verði á grundvelli 9. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003 heimilt að færa til frádráttar í skattskilum sínum fjárhæð er nemur þeim skattskylda arði sem samkvæmt 4. mgr. 11. gr. sömu laga myndast við slit C B.V. með úthlutun fjármuna til álitsbeiðanda.

 

Niðurstaða ríkisskattstjóra:

Í álitsbeiðni fer álitsbeiðandi fram á að ríkisskattstjóri veiti bindandi álit um það hvort heimilt sé að draga þá fjárhæð sem álitsbeiðandi myndi fá greidda vegna slita á erlendu dótturfélagi frá rekstrartekjum á grundvelli 9. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.  Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði er heimilt að draga frá tekjum þá fjárhæð sem m.a. hlutafélög hafa fengið greidda í arð skv. 4. tölul. C-liðar 7. gr. af hlutum og hlutabréfum í félögum er greinir í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr., sbr. XII. kafla laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög.

 

Samkvæmt ákvæðinu þarf að uppfylla eftirfarandi skilyrði svo að frádráttur sé heimill:

  • móttakandi þarf að vera félag sem nefnt er í því félagaformi sem fram kemur í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. tekjuskattslaga eða vera félag eða samlag sem nefnt er í 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. sömu laga,
  • greiðandi þarf að vera félag skv. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. tekjuskattslaga, þ.e. hlutafélag, einkahlutafélag eða samlagshlutafélag sem er sjálfstæður skattaðili,
  • tekjurnar sem greiðast þurfa að falla undir 4. tölul. C-liðar 7. gr. tekjuskattslaga sbr. XII. kafla laga um hlutafélög og laga um einkahlutafélög.

 

Að mati ríkisskattstjóra eru fyrstu tvö skilyrðin uppfyllt enda er álitsbeiðandi íslenskt einkahlutafélag og þá hefur hann upplýst að erlenda dótturfélagið sem fyrirhugað sé að slíta sé rekið í einkahlutafélagaformi í Hollandi.  Kemur þá til skoðunar hvort að þeir fjármunir sem álitsbeiðandi mun fá greidda vegna slita á erlenda dótturfélaginu falli undir 4. tölul. C-liðar 7. gr. tekjuskattslaga sbr. XII. kafla laga um hlutafélög og laga um einkahlutafélög.

 

[...]

 

Eins og fyrr segir hefur álitsbeiðandi upplýst að erlenda dótturfélagið sé rekið í einkahlutafélagaformi og þarf þá að taka afstöðu til þess hvort að greiðsla sú sem álitsbeiðandi móttekur við slit dótturfélagsins teljist vera arður skv. XII. kafla laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Fyrirsögn XII. kafla laga nr. 138/1994 er „Arðsúthlutun, varasjóðir o.fl.“.  Í 73. gr. laganna kemur fram sú meginregla að óheimilt sé að úthluta af fjármunum félagsins til hluthafa nema það fari fram eftir reglum um úthlutun arðs sem endurgreiðsla vegna lækkunar hlutafjár eða varasjóðs eða vegna félagsslita.  Ákvæði XII. kafla laganna fjalla að öðru leyti um úthlutun arðs og ólögmætar lánveitingar.  Ákvæði XIII. kafla laganna fjallar svo um félagsslit og greiðslur til hluthafa þegar félagi er slitið.  Ljóst er því að greiðslur til álitsbeiðanda vegna slita á dótturfélagi myndu fara fram á grundvelli XIII. kafla laganna en ekki á grundvelli XII. kafla laganna eins og ákvæði 9. tölul. 31. gr. tekjuskattslaga áskilur. Ákvæði 9. tölul. 31. gr. tekjuskattslaga hefur að geyma undantekningu frá þeirri meginreglu að greiða eigi skatt af öllum tekjum.  Samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum verður við þessar aðstæður fyrst og fremst að líta til orðanna hljóðan við túlkun á greindu ákvæði.  Samkvæmt skýru orðalagi tekur ákvæðið til úthlutunar til hluthafa sem fram fer á grundvelli XII. kafla laga um hlutafélög og laga um einkahlutafélög.  Sú úthlutun sem fyrirhuguð er til álitsbeiðanda fellur ekki undir þann kafla laganna heldur undir XIII. kafla.  Með vísan til þess og framanritaðs er ekki unnt að fallast á að álitsbeiðanda sé heimilt að draga úthlutunina frá rekstrartekjum sínum.

 

Álitsorð:

Ríkisskattstjóri hefur komist að eftirfarandi niðurstöðu vegna þeirra álitaefna sem sett eru fram í álitsbeiðninni: Álitsbeiðanda er eigi heimilt á grundvelli 9. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003 að færa til frádráttar í skattskilum sínum fjárhæð sem nemur úthlutun vegna slita á erlendu dótturfélagi.