Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Bindandi álit nr. 1/16, Hlutabréf í B-flokki - Arður - verðmat - tekjufærsla

 

Úr bindandi áliti ríkisskattstjóra nr. 1/16.

 

 

Í álitsbeiðninni kemur meðal annars fram, að álitsbeiðandihefur í hyggju að gefa út ný hlutabréf í sérstökum og nýjum hlutaflokki, B-flokki, sem veiti eingöngu rétt til arðgreiðslna sem nemur tilteknum hluta af hagnaði af starfsemi álitsbeiðanda.  Núverandi hlutafé í álitsbeiðanda verði í almennum A-flokki hlutabréfa sem hafi öll þau réttindi og skyldur sem almennt fylgi hlutareign í félagi.  Þessi ráðstöfun sé fyrirhuguð í þeim tilgangi að mæta væntanlegri sölu á hlutabréfum í hinum nýja hlutaflokki til núverandi og nýrra hluthafa í álitsbeiðanda, þ.m.t. til starfsmanna hans. Þá kemur fram að álitsbeiðandi sé fjármálafyrirtæki sem starfi samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.  Hlutafé hans sé nú að fjárhæð kr. X og sé það allt í einum hlutaflokki.  Ef ráðist yrði í fyrirhugaðar ráðstafanir yrðu hlutaflokkarnir tveir, A-flokkur og B-flokkur.  Hlutabréfum í A-flokknum myndu fylgja öll þau réttindi sem almennt fylgja hlutareign í félagi og undir þann flokk myndi allt núverandi hlutafé félagsins falla.  Hlutabréfum í B-flokki myndi eingöngu fylgja réttur til tiltekinna arðgreiðslna sem næmi allt að 35% árlegs hagnaðar álitsbeiðanda fyrir skatta, að því marki sem arðgreiðslur kynnu að fara umfram 6% arðsemi eigin fjár. Hlutabréf í B-flokki væru framseljanleg líkt og önnur viðskiptabréf en væru háð innlausn álitsbeiðanda samkvæmt ákvörðun stjórnar á hverjum tíma á nafnverði eða við félagsslit.  Í upphafi ráðgerir álitsbeiðandi að gefa út 25.000.000 hluti í B-flokki og selja núverandi og nýjum hluthöfum, þ.m.t. starfsmönnum álitsbeiðanda, á nafnverði.

 

 

Í álitsbeiðninni er óskað eftir bindandi áliti um:

 

  • að álitsbeiðanda beri ekki að halda eftir skatti í staðgreiðslu og standa skil á í ríkissjóð vegna sölu á eignarhlutum í B-flokki í [álitsbeiðanda] á nafnverði til starfsmanna [álitsbeiðanda], enda verði slík sala ekki talin til tekna í hendi starfsmanna samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.“

 

  • „að [álitsbeiðanda] beri að fara með arðgreiðslu af hlutafé í B-flokki í [álitsbeiðanda], til þeirra hluthafa í flokknum sem jafnframt kunna að vera starfsmenn [álitsbeiðanda], sem hverjar aðrar tekjur af hlutareign samkvæmt 4. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 11. gr. sömu laga, og beri því að halda eftir skatti í staðgreiðslu af þeim arðgreiðslum og standa skil á í ríkissjóð á grundvelli laga nr. 94/1996 um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.“

 

 

Niðurstaða ríkisskattstjóra:

 

Af álitsbeiðni virðist mega draga þá ályktun að tilgangur álitsbeiðanda með útgáfu B-hluta helgist ekki einvörðungu af því að laða að áhættufjárfesta gegn forgangi að arðgreiðslum heldur verður ekki annað séð en að markmiðið sé einnig að koma á kerfi með tímabundinni handhöfn bréfa í B-flokki svo unnt sé að greiða starfsmönnum og eftir atvikum völdum hluthöfum greiðslur í formi arðs.  Þá hefur komið fram að það sé mat álitsbeiðanda að raunvirði hlutabréfa í fyrirhuguðum B-flokki sé við þetta fyrirkomulag að hámarki nafnverð þeirra en slíka verðlagningu verði að telja í fullu samræmi við innlausnarverð þeirra.  Eins og mál þetta er lagt fyrir er það álit ríkisskattstjóra að forsendur þær sem fram koma  í dómi Hæstaréttar í máli 279/2014 skipti hér máli, enda svipmót með þeim aðstæðum sem þar er lýst að því leyti er varðar kaup og sölu á verðbréfi við sama verði, sem veitir hér starfsmönnum einungis rétt til forgangsgreiðslu af mögulegum framtíðarhagnaði álitsbeiðanda. Að þessu virtu verður ekki framhjá því horft að sé litið svo á að almenn regla gildi við kaup starfsmanna álitsbeiðanda á hlutabréfum sem raunhæfan eignarhlut í félagi, þá skuli við þær aðstæður telja til tekna hjá starfsmönnum álitsbeiðanda þann mismun sem reiknast við kaup á nafnverði og raunvirði B-hlutabréfanna sem fyrirhugað er að gefa út og halda eftir skatti í staðgreiðslu af þeim mismun, sbr. framangreinda tilvísun til 9. gr., sbr. 7. gr. tekjuskattslaga, sbr. og tilvitnaðan úrskurð yfirskattanefndar nr. 158/2014, um að miða skuli við gangverð eða raunverð.  Eins og fram hefur komið mun ríkisskattstjóri ekki taka afstöðu til þess í bindandi áliti þessu hvort nafnverð umræddra bréfa sé raunvirði þeirra.  Þá er ljóst samkvæmt framanrituðu að ríkisskattstjóri getur ekki lagt til grundvallar bindandi áliti þá skoðun álitsbeiðanda að raunvirði jafngildi nafnverði líkt og álitsbeiðandi hefur óskað eftir, þrátt fyrir að nafnvirði hins keypta jafngildi söluverði þess. Að því virtu sem rakið hefur verið verður ekki annað séð en að í raun sé útgáfa B-hlutabréfa í álitsbeiðanda og sala þeirra bréfa til tiltekinna starfsmanna á nafnverði einungis aðferð til að afhenda þeim árangurstengdar greiðslur, eða með öðrum orðum greiðslur á kaupaukum. Verður samkvæmt því að telja greiðslurnar skattskyldar í hendi móttakanda eftir því sem raunvirði B-flokks bréfanna er umfram nafnverð þeirra, sbr. 7. gr. laga nr. 90/2003.  Ber því eftir atvikum að halda eftir staðgreiðslu í samræmi við ákvæði laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.  Eins og fram er komið tekur ríkisskattstjóri ekki afstöðu til þess hvort raunvirði umræddra bréfa sé jafnt nafnverði þeirra.  

 

[...]

 

Með vísan til niðurstöðu að framan um eðli umræddra ráðstafana er það álit ríkisskattstjóra að þeir fjármunir sem starfsmenn munu fá greidda á grundvelli handhafnar bréfa í B-flokki í álitsbeiðanda geti ekki talist til skattskylds arðs samkvæmt 4. tölul. C-liðar 7. gr. tekjuskattslaga heldur sé í raun um að ræða starfstengda greiðslu sem skattskyld er á grundvelli 1. tölul. A-liðar lagaákvæðisins.Álitsbeiðanda ber þannig að halda eftir staðgreiðslu af greiðslum til starfsmanna í samræmi við ákvæði 5. tölul. 5. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.

 

 

Álitsorð:

Ríkisskattstjóri hefur komist að eftirfarandi niðurstöðu vegna þeirra álitaefna sem sett eru fram í álitsbeiðninni:

  • Álitsbeiðanda ber að halda eftir skatti í staðgreiðslu af þeim mismun sem reiknast af jákvæðum mun á nafnverði og raunvirði á bréfum í B-flokki í álitsbeiðanda þegar bréfin eru seldir á nafnverði til starfsmanna álitsbeiðanda.

 

  • Álitsbeiðanda ber að halda eftir staðgreiðslu af þeim greiðslum til starfsmanna sem inntar eru af hendi á grundvelli bréfa í B-flokki í samræmi við ákvæði laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda