Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Bindandi álit nr. 15/15, Breytilegt skuldabréf - uppgreiðslugjald

 

Sjónarmið álitsbeiðanda:

I.  Umbreyting krafna í skuldabréf:
Álitsbeiðandi telur að umrædd skuldabréf feli í sér breytt form á greiðslu samningskrafna í samræmi við ákvæði 1. og 2. mgr. 29. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá vísar álitsbeiðandi til bindandi álits ríkisskattstjóra nr. 2/13 þar sem álitsbeiðanda í því áliti var heimilt að líta svo á að útgáfa á sambærilegum skuldabréfum og álitsbeiðandi hefur nú í hyggju að gefa út fæli í sér breytt form á greiðslu krafna.  Þannig sé ekki um að ræða umbreytingu skulda í eigið fé eða einhvers konar eftirgjöf skulda í skattalegu tilliti. Ennfremur telur álitsbeiðandi ljóst að umrædd skuldabréf geti ekki talist til eigin fjár því álitsbeiðandi muni telja eftirstöðvar nafnverðs skuldabréfanna í lok hvers reikningsárs til skulda í skattskilum sínum.  Þá muni kröfuhafar samkvæmt skuldabréfunum einnig fá hlutabréf í álitsbeiðanda og muni öll réttindi til stjórnunar og ákvarðanatöku í álitsbeiðanda eingöngu fylgja hlutabréfunum.

II.  Uppgreiðslugjald
Álitsbeiðandi áréttar að uppgreiðslugjald komi eingöngu til greiðslu ef skuldabréfin verða greidd fyrir lokagjalddaga þann sem tilgreindur verður í bréfunum.  Eignir álitsbeiðanda sem verði umfram nafnverð skuldabréfanna og uppgreiðslugjaldsins muni greiðast í gegnum hlutafjáreign sem endurgreiðsla á kaupverði hlutabréfanna eða sem arður við félagsslit, sbr. 4. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Skuldabréfunum muni ekki fylgja neinn réttur til ákvörðunartöku á hluthafafundi eða til stjórnar á álitsbeiðanda. Álitsbeiðandi er þeirrar skoðunar að fara beri með greiðslu á uppgreiðslugjaldinu sem vaxtagreiðslu samkvæmt 3. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 1. mgr. 8. gr. sömu laga.  En samkvæmt þessum ákvæðum séu hvers kyns vextir, afföll og verðbætur skattskyld sem vaxtatekjur.  Máli sínu til stuðnings vísar álitsbeiðandi til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 391/2011, þar sem deilt var um skattlagningu afleiðusamninga og telur álitsbeiðandi að leiða megi af tilvitnuðum úrskurði að almennt séu hvers kyns tekjur af lánum umfram höfuðstól og vexti talin til tekna sem vextir.  Þannig hljóti tekjur umfram höfuðstól eða nafnverð kröfu sem ber ekki vexti einnig að teljast til vaxta í skattskilum. Greiðsla uppgreiðslugjaldsins færi fram á grundvelli skuldabréfanna, þ.e. beinlínis yrði samið um gjaldið sem hluta af greiðslu samkvæmt skuldabréfi og af þeim sökum sé ekki hægt að jafna gjaldinu við arðsúthlutun samkvæmt 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í álitsbeiðni kemur fram að gert sé ráð fyrir að ákvæði um uppgreiðslugjald í skuldabréfunum haldi gildi sínu þrátt fyrir að umbreyting krafna í hlutafé hafi átt sér stað.  Álitsbeiðandi telur þetta ekki skipta máli og að uppgreiðslugjaldið teljist áfram vera vaxtatekjur í skilningi tekjuskattslaga.

 

[...]

 

Úr forsendum ríkisskattstjóra:

 

Umbreyting á kröfum í skuldabréf:

[...] Það er álit ríkisskattstjóra að fáist samþykki kröfuhafa álitsbeiðanda á umræddri breytingu á greiðslu krafna með útgáfu skuldabréfa við gerð nauðasamnings felist ekki í þeirri umbreytingu eftirgjöf þess hluta krafna enda verði greitt af skuldabréfunum sem slíkum eftir því sem kröfur innheimtast og lausafjárstaða álitsbeiðanda gefur tilefni til.  Komi síðar í ljós að skuldabréfin verði ekki greidd að fullu ber að telja það sem út af stendur til tekna sem eftirgefnar skuldir á þeim tíma sem slíkt liggur fyrir og í samræmi við gildandi lög á þeim tíma.

 

Að framangreindu virtu er það álit ríkisskattstjóra að í því tilfelli að umræddir hluthafar veiti við þær sérstöku aðstæður sem hér er uppi vaxtalaust lán við endurheimtu krafna sinna en áskilji sér jafnframt greiðslu síðar umfram höfuðstól lánsins með tilliti til breytinga á virði eigna eða hagnaðar verður ekki talið að með þá greiðslu verði farið sem vexti í skattalegu tilliti heldur sé nærtækara að jafna greiðslu sem þessari til arðs af hlutareign að uppgreiddu skuldabréfinu sem slíku, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 11. gr., sbr. og 4. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003.  Samkvæmt lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur telst arður til staðgreiðsluskyldra tekna.

 

Uppgreiðslugjald.

 

[...]

Gera verður mun á hefðbundnu láni þar sem lánveitandi áskilur sér vexti sem reiknast með reglubundnum hætti af höfuðstól lánsins eins og hann stendur á hverjum tíma á lánstímanum og þess að uppgreiðsla skuldara að fullu á vaxtalausu láni fyrir lok lánstíma teljist ein og sér eðlileg forsenda fyrir því að lántaki greiði kröfuhafa sérstaka greiðslu af því tilefni þannig að heildargreiðslur umfram upphaflegan höfuðstól lánsins yrðu við þær aðstæður taldar til vaxtatekna. Líta ber til þess að við þær aðstæður sem hér eru uppi að kröfuhafar yrðu þegar við gerð nauðasamnings og síðar við umbreytingu skuldabréfs hluthafar í álitsbeiðanda.  Ef umrædd skuldabréf hefðu ekki að geyma ákvæði um svokallað uppgreiðslugjald má spyrja hvað verður um þá fjármuni sem álitsbeiðanda hlotnast ef endurheimtur og virði eigna hans verður hærra en upphaflega var gert ráð fyrir.  Í því tilviki hefur álitsbeiðandi sjálfur upplýst að eftirstæðir fjármunir muni greiðast hluthöfum sem arður við félagsslit sbr. 4. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

 

Að framangreindu virtu er það álit ríkisskattstjóra að í því tilfelli að umræddir hluthafar veiti við þær sérstöku aðstæður sem hér er uppi vaxtalaust lán við endurheimtu krafna sinna en áskilji sér jafnframt greiðslu síðar umfram höfuðstól lánsins með tilliti til breytinga á virði eigna eða hagnaðar verður ekki talið að með þá greiðslu verði farið sem vexti í skattalegu tilliti heldur sé nærtækara að jafna greiðslu sem þessari til arðs af hlutareign að uppgreiddu skuldabréfinu sem slíku, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 11. gr., sbr. og 4. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003.  Samkvæmt lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur telst arður til staðgreiðsluskyldra tekna. Að þessu virtu getur ríkisskattstjóri ekki staðfest að hið svokallaða uppgreiðslugjald teljist vera staðgreiðsluskyldir vextir.

.

Álitsorð:

Ríkisskattstjóri hefur komist að eftirfarandi niðurstöðu vegna þeirra álitaefna sem sett eru fram í álitsbeiðninni:

  • Fyrirhuguð skuldabréf sem álitsbeiðandi hyggst gefa út með breytirétti fela í sér formbreytingu á hluta krafna á hendur álitsbeiðanda þannig að ekki verður talið að um eftirgjöf skulda eða umbreytingu í eigið fé sé að ræða, enda séu þau verðmæti sem skipta um hendur með þessum hætti jafnverðmæt.
  • Uppgreiðslugjald sem álitsbeiðandi myndi greiða miðað við framfærðar forsendur telst arður af hlutareign skv. 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og ber álitsbeiðanda að halda eftir staðgreiðslu samkvæmt lögum nr. 45/1987 eða lögum nr. 94/1996 allt eftir því sem við á.