Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Bindandi álit nr. 16/15, Hlutabréfaflokkar - skattlagning úthlutunar

 

Úr bindandi álit nr. 16/15.

 

Í álitsbeiðni kemur fram að hlutafé álitsbeiðenda verði skipt í upp í tvo flokka, A og B. Arður í B flokki skiptist ekki á grundvelli eignarhalds heldur eftir ákvörðun framkvæmdastjóra félagsins á grundvelli reglna sem hluthafafundur myndi samþykkja.  Reglurnar myndu grundvallast á eftirfarandi:

 

  • framlagi hluthafa til hagnaðarmyndunar, tekjuöflun fyrir hönd félagsins og fjárbinding,
  • sölustarfi, verkefnaöflun og ábyrgð á verkefnum,
  • þróunar- og markaðsstarfi,
  • innra starfi og gæðamálum.
  • Sá hluti hagnaðar sem ekki tilheyrir B flokki muni tilheyra A flokki og úthlutast sem arður á grundvelli almennra reglna og í samræmi við eignarhald á hlutum í A flokki.

 

Fram kemur hjá ríkisskattstjóra að eins og málsatvikum hefur verið lýst af hálfu álitsbeiðanda er það álit ríkisskattstjóra að arður sem greiddur er til hluthafa í A flokki myndi falla undir það að vera hefðbundin arðgreiðsla samkvæmt 1. mgr. 11. gr. tekjuskattslaga enda hefur ekki annað komið fram af hálfu álitsbeiðanda en að arður í þeim flokki skiptist á hluthafa á grundvelli eignarhalds.  Kemur þá til skoðunar hvort að sá hluti árangurstengdra greiðsla sem greiddur yrði til hluthafa á grundvelli þess að eignarhaldi þeirra á hlutabréfum í A-flokki yrði skipt upp í annars vegar A-flokk og hins vegar í B flokk teljist vera við þær aðstæður hefðbundinn arður af hlutaeign. Jafnframt kemur fram að það álit ríkisskattstjóra að miðað við framfærðar forsendur þá verði að líta á greiðslur til hluthafa í B flokki sem afkastahvetjandi kaupauka sem skattleggja beri sem staðgreiðsluskyld laun samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. tekjuskattslaga sbr. og lög nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.  Staðgreiðslu ber þá að halda eftir í samræmi við ákvæði laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.  Ekki skiptir máli þó svo greiðslan sé innt af hendi undir formerkjum arðs á grundvelli eignarhalds á hlutabréfum í B flokki enda hefur álitsbeiðandi upplýst að það sé ekki hlutareignin sem slík og arðsúthlutun af hagnaði félagsins í hlutfalli við þá hlutareign sem liggi til grundvallar greiðslunni.  Umræddar tekjur geta því ekki í skattalegu tilliti talist arður af hlutareign, sbr. 1. tölul. 11. gr. tekjuskattslaga. 

 

Álitsorð ríkisskattstjóra eru því eftirfarandi:

 

  • Greiðslur til handhafa hlutabréfa í A - flokki álitsbeiðanda eru skattskyldar samkvæmt 4. tölul. C- liðar 7. gr., sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og ber álitsbeiðanda að halda eftir staðgreiðslu af greiðslum þessum samkvæmt ákvæðum laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.

 

  • Greiðslur til handhafa hlutabréfa í B - flokki álitsbeiðanda eru skattskyldar samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og ber álitsbeiðanda að halda eftir staðgreiðslu af greiðslum þessum samkvæmt ákvæðum laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.