Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Breytingar á lögum um gjaldeyrismál - losun fjármagnshafta

 

Meginefni frumvarpsins.

 • Frumvarpið er liður í áætlunum stjórnvalda um losun fjármagnshafta og með því eru tekin veigamikil skref í átt að fullri losun. Markmið frumvarpsins er að veita einstaklingum og lögaðilum, bæði innlendum og erlendum, auknar heimildir til fjármagnshreyfinga á milli landa í erlendum gjaldeyri og til gjaldeyrisviðskipta. Meginefni frumvarpsins er eftirfarandi:
 • Heimildir til vöru- og þjónustuviðskipta eru rýmkaðar þannig að heimildin nær nú til allra greiðslna í tengslum við slík viðskipti, svo sem til endurgreiðslna vegna ofgreiðslna, afsláttar, afpantana og þess háttar greiðslna sem eru eðlilegur hluti af vöru- og þjónustuviðskiptum. Jafnframt eru afnumdar allar takmarkanir á innflutningi farartækja og kaupum á farartækjum erlendis.
 • Reglur um flutning launagreiðslna, námslána, lífeyris, bóta og þess háttar greiðslna, sem aðili sem búsettur er erlendis hefur aflað sér hérlendis, eru rýmkaðar og einfaldaðar.
 • Fjárhæðarmark heimildar til gjafa og styrkja til erlendra aðila er hækkað úr 3.000.000 kr. í 6.000.000 kr. á almanaksári og heimildin ekki lengur takmörkuð við innlenda aðila.
 • Erlendum aðila er heimilað að flytja út leigugreiðslur sem hann aflar hérlendis. Heimildin nær til flutnings á öllum leigutekjum af fasteignum óháð staðsetningu þeirra fari greiðsla fram hérlendis. Heimildin nær m.a. til veiðiréttinda og vatnsréttinda.
 • Fyrirframgreiðslur og uppgreiðslur lána og fjárfestingar í verðbréfum, hlutdeildarskírteinum verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, peningamarkaðsskjölum, öðrum framseljanlegum fjármálagerningum, peningakröfum í erlendum gjaldeyri og öðrum sambærilegum kröfuréttindum, eru heimilaðar að ákveðnu fjárhæðarmarki á tilteknu tímabili. Frá og með næstu áramótum verður heimildin rýmkuð frekar. Einnig er gert ráð fyrir að fjármagnshreyfingar á milli landa vegna innlagnar og úttektar af reikningum í innlánsstofnunum verði heimilaðar um næstu áramót. Aðilar geta nýtt heimildir sínar til fjárfestingar í verðbréfa-, fjárfestingar- og fagfjárfestasjóðum.
 • Heimildir til endurfjárfestinga eru rýmkaðar.
 • Bein erlend fjárfesting innlendra aðila (e. foreign direct investment) er heimiluð að tilteknum skilyrðum uppfylltum og háð staðfestingu Seðlabankans.
 • Fjárhæðarmörk vegna framfærslu erlendis eru afnumin, en áfram sett skilyrði um að einstaklingar sýni fram á framfærslu erlendis. Framfærsluheimild innlendra einstaklinga sem búsettir eru erlendis er ekki lengur einskorðuð við að ástæða búsetu erlendis sé vegna starfs eða náms.
 • Erlendum aðila er heimilað að kaupa erlendan gjaldeyri og flytja hann úr landi vegna greiðslu skatta, málskostnaðar samkvæmt dómsorði, slysa- og skaðabóta sem falla til hérlendis og fyrirframgreidds arfs samkvæmt staðfestri erfðafjárskýrslu.
 • Einstaklingum er heimilað að kaupa eina fasteign erlendis á almanaksári. Ekki er lengur gert skilyrði um að fasteignakaup séu í tengslum við búferlaflutninga og hámarksfjárhæð slíkra viðskipta er afnumin. Heimildin nær jafnt til innlendra sem erlendra aðila.
 • Heimildir til fjármagnshreyfinga á milli landa í innlendum gjaldeyri eru rýmkaðar vegna greiðslu málskostnaðar samkvæmt dómsorði, andvirðis slysa- og skaðabóta eða arfs sem erlendum einstaklingi hefur hlotnast samkvæmt erfðafjárskýrslu staðfestri af sýslumanni.
 • Heimildir erlendra aðila til að nýta innlendan gjaldeyri í þeirra eigu hér á landi til fjárfestinga eru rýmkaðar.
 • Almenn fjárhæðarmörk reiðufjárkaupa og úttektar á reiðufé af gjaldeyrisreikningum vegna ferðalaga eru hækkuð í 700.000 kr. fyrir hvern aðila og reiðufjárkaup ekki lengur takmörkuð við almanaksmánuð heldur hverja ferð fram til 1. janúar 2017. Auk þess er ekki lengur gert ráð fyrir fjárhæðarmörkum ef sýnt er fram á nauðsyn reiðufjárúttektar umfram fjárhæðarmörk. Eftir áramót verða reiðufjárkaup og úttektir á reiðufé í erlendum gjaldeyri felld undir fjárhæðarmark skv. 6. tölul. a-liðar 1. gr. frumvarpsins og ekki lengur tengd ferðalögum erlendis. Auk þess verða lögaðilum veittar sömu heimildir til kaupa og úttektar á erlendum gjaldeyri í reiðufé.
 • Takmarkanir á höfuðstólsgreiðslum skuldabréfa, sem lögfestar voru í mars 2012 vegna alvarlegrar sniðgöngu fjármagnshaftanna, eru afnumdar.
 • Innlendum aðilum eru veittar víðtækar undanþágur frá skilaskyldu erlends gjaldeyris til að tryggja sem minnst óhagræði einstaklinga og fyrirtækja vegna erlendra fjárfestinga, til að mynda verða ekki skilaskyldir fjármunir sem innlendir aðilar eignast vegna lántöku einstaklings hjá erlendum aðilum til kaupa hans á fasteign eða farartæki erlendis eða fjármunir vegna lántöku aðila sem nýttir eru til annarra fjárfestinga.
 • Seðlabankanum eru veittar frekari heimildir til upplýsingaöflunar til þess að tryggja að bankinn hafi aðgang að áreiðanlegum og tímanlegum upplýsingum í því skyni að standa vörð um fjármálastöðugleika, greiðslujöfnuð og erlenda stöðu þjóðarbúsins.
 • Frestur á tilkynningu um nýfjárfestingu er lengdur úr tveimur vikum í þrjár vikur.
 • Þá eru lagðar til afleiddar breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands sem hafa bein tengsl við efni frumvarpsins.
 • Að lokum eru lagðar til smávægilegar breytingar á lögum um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.
 • Í kjölfar lögfestingar frumvarpsins mun Seðlabanki Íslands uppfæra reglur nr. 430/2016, um gjaldeyrismál, til samræmis.