Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Búnaðargjald - brot á stjórnarskrá

Úr dómi Hæstaréttar nr. 250/2016:

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um stöðu Bjargráðasjóðs sem stjórnvalds og sýknu aðaláfrýjanda af kröfu gagnáfrýjanda um endurgreiðslu búnaðargjalds, sem hann greiddi á því tímabili er krafa hans tekur til, að því leyti sem nemur þeim hluta gjaldsins er rann til sjóðsins. Við breytingu á 74. gr. stjórnarskrárinnar, sem gerð var með stjórnskipunarlögum nr. 97/1995, var sérstaklega að því vikið í greinargerð með frumvarpi til laganna að markmiðið væri meðal annars að samræma reglur um félagafrelsi í stjórnarskránni skýringu Mannréttindadómstóls Evrópu á félagafrelsisákvæðinu í 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Af þeim sökum verður við skýringu á 74. gr. stjórnarskrárinnar meðal annars litið til úrlausnar þess dómstóls í máli nr. 20161/06 frá 27. apríl 2010. Þótt reglur um ákvörðun búnaðargjalds og álagningu þess séu í samræmi við fyrirmæli 40. gr. og 77. gr. stjórnarskrárinnar og fullnægi því að formi til kröfum sem gerðar eru til skattlagningar leiðir það eitt og sér ekki til þess að hafnað verði kröfu gagnáfrýjanda um endurgreiðslu búnaðargjalds að því leyti sem það rann til Bændasamtaka Íslands, Búnaðarsambands Kjalarnesþings og Svínaræktarfélags Íslands. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða að það að leggja þá skyldu á gagnáfrýjanda að greiða gjald sem ráðstafað var til þessara þriggja félaga óháð vilja hans verði ekki réttlætt með vísan til þess að slíkt hafi verið nauðsynlegt vegna almannahagsmuna eða vegna réttinda annarra, sbr. 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar. Samkvæmt því verður fallist á að ákvæði laga nr. 84/1997 um búnaðargjald sem mæla fyrir um að sá hluti gjaldsins er gagnáfrýjandi greiddi og rann til framangreindra félaga fari í bága við það frelsi sem honum er tryggt í áðurnefndu stjórnarskrárákvæði til að standa utan félaga. Var honum því ekki skylt að inna af hendi þennan hluta gjaldsins og ber að líta svo á að um ofgreiddan skatt sé að ræða í skilningi 1. mgr. 1. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Er því ekki þörf á að taka afstöðu til þess hvort gjaldheimtan hafi einnig farið í bága við ákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar. Með framangreindum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna, verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.