Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Dómur Evrópudómstólsins í máli nr. C-283/15 X v. Staatssecretaris van Financiën

*****

Málavextir eru þeir að skattaðili heimilisfastur á Spáni fékk allar sínar tekjur frá tveimur öðrum aðildarríkjum Evrópusambandsins, annars vegar 60% frá Hollandi og hins vegar 40% frá Sviss. Almennt er það þannig að einungis því ríki sem skattaðili er búsettur (heimaríki eða heimilisfestisríki) skattleggur allar tekjur viðkomandi, hvort sem þær eru upprunnar frá heimaríki eða öðrum ríkjum. Heimaríki ber jafnframt að taka tillit til persónulegra aðstæðna skattaðilans, þ.e. veita ívilnanir skv. landslögum sem ætlað er að taka mið af getu skattaðilans til að greiða (e. ability to pay).

 

Þar sem skattaðilinn hafði engar tekjur frá sínum heimaríki sem mynduðu skattstofn gat Spánn ekki veitt neina ívilnun sem tók mið af hans persónulegu stöðu (s.s. persónuafslátt o.fl.). Þá naut hann heldur ekki ívilnana í Hollandi eða Sviss þar sem skattaðilinn var ekki búsettur þar (ekki skattalega heimilisfastur þar). Ef skattaðilinn hefði verið búsettur (heimilisfastur) í Hollandi hefði hann hins vegar geta dregið frá kostnaði tengdum rekstri á húsnæði og um þann kostnað snérist ágreiningurinn. Fór málið fyrir dómstóla í Hollandi þar sem leitað var ráðgefandi álits Evrópudómstólsins.

 

Sambærilegt álitaefni hafði áður verið leyst úr með dómi í máli Schumacker C-279/93, þar sem aðildarríki, þar sem skattaðili aflaði nær allra sinna tekna, var talið skylt að veita erlenda skattaðilanum ívilnanir líkt og hann væri heimilisfastur í því ríki. Má hér benda á að í kjölfar dómsins var lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, breytt til að mæta þessari skuldbindingu, sbr. 70. a. gr. laganna, þar sem erlendur aðili getur notið ívilnana (persónuafsláttar, barnabóta, vaxtabóta o.fl.) ef hann hefur eigi minna en 75% sinna tekna frá Íslandi.

 

Niðurstaða dómstólsins í þessu máli var sú að það fordæmi sem skapað var í máli Schumacker ætti að fullu við í þessum aðstæðum, þ.e. þegar skattaðili aflar nær allra sinna tekna í fleiru en einu aðildarríki. Við þær aðstæður ættu ríkin að veita skattaðilanum ívilnanir líkt og skattaðilinn væri með heimilisfesti í þeim ríkjum, hlutfallslega m.v. þær tekjur sem hann aflar frá því ríki af heildartekjum.

 

Líkt og tekið er fram að ofan, þá var tekjuskattslögum breytt í kjölfar Schumacker. Ákvæði 70. a. gr. takmarkast hins vegar við þær aðstæður þegar skattaðili hefur 75% eða meira af tekjum sínum frá Íslandi en skv. dómnum verða ríki að veita ívilnun einnig í þeim tilfellum þegar skattaðili hefur lægra hlutfall frá Íslandi svo lengi sem hans heimaríki getur ekki veitt honum ívilnun. Gera má því ráð fyrir að breyta þurfi ákvæðinu til að samrýmast dómnum.