Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Dómur mannréttindadómstóls Evrópu – Ne bis idem

Þann 15. nóvember 2016 féll dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í máli A og B gegn Noregi. Málið varðar fyrirkomulag skattamála í Noregi og hvort það stæðist ákvæði 4. gr. viðauka 7 Mannréttindasáttmála Evrópu, um bann við endurtekinni málsmeðferð vegna sama brots (ne bis idem). Málið svipar mikið til máls Jóns Ásgeirs Jóhannessonar gegn íslenska ríkinu, sem beðið hefur verið eftir um nokkuð langt skeið. Um það mál hefur áður verið fjallað í Skattatíðindum [sjá hér] auk þess sem starfsmenn KPMG birtu grein í Morgunblaðinu, í kjölfar dóma mannréttindadómstólsins (MDE) gegn Finnlandi.

 

Líkt og fram kemur í greininni þá er fyrirkomulag refsimála vegna skattalagabrota á Íslandi með þeim hætti að fyrst fer sérstök skattrannsókn fram og að henni lokinni er mál aðskilið í tvo hluta sem sæta sitt hvorri málsmeðferðinni. Annars vegar skattaþátt máls sem snýr að leiðréttingu skattskila, sem sendur er ríkisskattstjóra til uppkvaðningar nýs úrskurðar um opinber gjöld auk 25% álags á vantalda skattstofna. Hins vegar refsiþátt máls, sem ýmist er sektarmeðferð fyrir stjórnvaldi eða opinber lögreglurannsókn og sakamál fyrir dómi, sem leitt getur til fangelsisrefsingar auk sekta.

 

Samkvæmt dómaframkvæmd MDE eru fjögur skilyrði sem þurfa að vera til staðar svo um tvöfalda refsimeðferð sé að ræða, sem sáttmálinn leggur bann við; 1) að báðar málsmeðferðirnar teljist refsimeðferðir, þ.e. að mönnum sé gerð „refsing“ í skilningi sáttmálans, 2) að refsingarnar séu vegna „sama brots“, 3) að endanleg ákvörðun liggi fyrir og 4) að málsmeðferð sé endurtekin, þ.e. að ný málsmeðferð sé hafin vegna sama brots eftir að endanleg ákvörðun liggur fyrir.

 

Í fjölmörgum málum fyrir íslenskum dómstólum hefur það sjónarmið verið fært fram að fyrirkomulag skattamála á Íslandi standist ekki sáttmálann. Dómur Hæstaréttar í máli nr. 371/2010, uppkveðinn þann 22. september 2010, vegur þar þyngst en síðari dómar hafa vísað til fordæmisgildis hans. Í málinu var það mat Hæstaréttar að annað skilyrðið væri ekki uppfyllt, þ.e. að refsingarnar væru ekki vegna „sama brots“. Um það sagði Hæstiréttur að MDE hefði í eldri málum hafnað því að um sama brot væri að ræða þegar fjallað væri annars vegar um endurákvörðun skatta og beitingu álags og hins vegar um refsingar í öðru máli í tilefni af sömu málsatvikum. Af hálfu skattaðilans var því haldið fram að túlkun á þessu skilyrði hefði breyst með dómi MDE í máli Zolotukhin gegn Rússlandi sem nýverið hafði þá verið kveðinn upp. Um mál Zolotukhin og þá dóma sem eftir komu, þar sem hinni breyttu túlkun hafði verið beitt, sagði Hæstiréttur að ekkert þeirra mála lyti að beitingu álags og ákvörðun refsingar vegna brota á skattalögum. Hæstiréttur taldi því engin skýr fordæmi MDE fyrir því að beita skyldi þeirri túlkun í skattamálum.

 

Í grein KPMG var á það bent að nýlegir dómar MDE, sem snéru allir að meðferð skattalagabrota í Finnlandi, hefði dómstóllinn beitt þeirri túlkun sem fram kom í Zolotukhin í skattamálum. Sú meginforsenda sem Hæstiréttur byggði niðurstöðu sína á, um að ekki væri brot á sáttmálanum að ræða, fengist því líklega ekki staðist. Í nýföllnum dómi í máli A og B gegn Noregi, er komist að þeirri niðurstöðu að um „sama brot“ hafi verið að ræða, líkt og dómar MDE gegn Finnlandi höfðu gefið vísbendingu um. Hins vegar kemst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að fjórða skilyrðið sé ekki til staðar, þ.e. að ekki sé um endurtekna málsmeðferð að ræða.

 

Hvað varðar mat á þessu skilyrði þá tekur dómstóllinn fram, í fyrsta lagi, að hann hafi ekki athugasemdir við þær ástæður sem liggja að baki fyrirkomulagi skattamála í Noregi, þ.e. að skattálaginu væri ætlað að vera hvetjandi fyrir skattaðila að skila inn réttum upplýsingum á meðan refsimeðferðinni væri ætlað að hafa varnaðar- og refsiáhrif. Í öðru lagi þá hlyti skattaðilinn að hafa vitað af þeim möguleika að hann gæti þurft að sæta bæði saksókn og skattálagi. Í þriðja lagi tekur dómstólinn fram að málin hafi verið rekin samhliða hvoru öðru og að þau hafi verið samtengd. Þannig hefðu staðreyndir sem færðar voru fram í öðru málinu verið notaðar í hinu málinu. Þá hafi, við mat á refsingu í refsimálinu, verið tekið tillit til skattálagsins og þannig hafi meðalhófs verið gætt við ákvörðun heildarrefsingar.

 

Á þessum forsendum taldi dómstólinn ljóst að skattaðilinn hafi ekki sætt mismunun eða órétti vegna fyrirkomulags skattamála í Noregi. Taldi hann málin tvö nægjanlega samofin efnislega og í tíma þannig að hægt sé að líta á þau sem órjúfanlegan þátt í því að beita viðurlögum við skattalagabrotum í Noregi.