Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Eftirlitsgjald á innflutning grænmetis og ávaxta skorti lagastoð

Úr dómi héraðsdóms, sem Hæstiréttur staðfesti:

 

Ágreiningslaust er að gjaldtaka stefnda á grundvelli 2. mgr. 3. gr. laga nr. 51/1981 og reglugerðar nr. 525/2007 lýtur almennum reglum um töku þjónustugjalda. Álagning þess háttar gjalda verður að byggjast á viðhlítandi lagaheimild í samræmi við lögmætisreglu stjórnsýsluréttar. Þá verða stjórnvaldsfyrirmæli um gjaldtökuna að samrýmast þeirri löggjöf sem hún byggist á. Þegar fyrirkomulag slíkrar gjaldtöku er ákveðin, og afstaða er tekin til fjárhæðar gjaldsins, verður jafnframt að gæta þess að tekjurnar séu ekki hærri en svo að þær standi straum af kostnaði við þá þjónustu eða eftirlitsaðgerð sem gjaldtökuheimildin nær til. Þannig er stjórnvaldi í meginatriðum einungis heimilt að taka gjald fyrir beinan kostnað eða kostnað sem stendur í nánum, efnislegum tengslum við þá þjónustu sem gjaldið á að standa straum af kostnaði við samkvæmt gjaldtökuheimildinni. Gangi gjaldtakan lengra að þessu leyti hefur verið talið að hún verði að vera reist á lagaheimild sem fullnægi kröfum 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Að auki verður við útfærslu á gjaldtöku af þessu tagi að gæta þess að bein tengsl standi milli skyldu til að greiða þjónustugjald og fjárhæðar þess annars vegar og hins vegar þeirrar þjónustu sem viðkomandi stofnun veitir hverjum gjaldanda. Um það má einkum vísa til dóms Hæstaréttar Íslands frá 5. nóvember 1998 í málinu nr. 50/1998, sem fjallar um heimild til innheimtu eftirlitsgjalds sem er hliðstætt því eftirlitsgjaldi sem hér er til umfjöllunar. Síðari dómar Hæstaréttar Íslands um gjaldtökuheimildir stjórnvalda, svo sem dómar réttarins frá 11. júní 2015 í málinu nr. 837/2014 og frá 20. nóvember 2014 í málinu nr. 160/2014, breyta í engu þeirri meginreglu sem ráðið verður af dóminum frá 1998 að gildi um töku þjónustugjalda.

 

Draga verður þá ályktun af því sem rakið hefur verið í köflum IV.1 og IV.2, sem og því sem að framan greinir um álagningu þjónustugjalda, að ráðherra sé heimilt að ákvarða fjárhæð eftirlitsgjaldsins sem um er deilt í máli þessu með reglugerð, þannig að tekjur af gjaldinu standi undir kostnaði við alla vinnu sem er í nánum efnislegum tengslum við þær eftirlitsaðgerðir plöntueftirlits Matvælastofnunar sem kveðið er á um í reglugerð nr. 189/1990 um innflutning og útflutning á plöntum og plöntuafurðum, með síðari breytingum. Þó að ekki sé beinlínis kveðið á um það í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 51/1981 verður að ætla að greiðendur eftirlitsgjaldsins séu þeir sem sæta því eftirliti sem lögin mæla fyrir um að ráðherra geti fyrirskipað. Greiðendum gjaldsins verður aftur á móti ekki gert að standa straum af kostnaði við vinnu sem fellur utan þess sem reglugerð nr. 189/1990 mælir fyrir um. Þannig stendur engin lagaheimild til þess að láta innflytjendur á ávöxtum og grænmeti greiða fyrir vinnu við almenna skoðun á innflutningsskjölum í tengslum við innflutning á öðrum vörum en kartöflum áður en þær eru tollafgreiddar, enda er hvergi gert ráð fyrir slíkri athugun í fyrrgreindri reglugerð. Þá fær dómurinn ekki séð að kostnaður við þátttöku í fjölþjóðlegri samvinnu um plöntueftirlit geti fallið undir gjaldtökuheimild 2. mgr. 3. gr. laga nr. 51/1981.

 

Eins og fyrrgreint lagaákvæði ber með sér er ráðherra ekki einungis veitt heimild til að innheimta eftirlitsgjald vegna innflutnings á plöntum heldur getur slík gjaldtaka einnig átt sér stað í tengslum við eftirlit með dreifingu plantna innanlands og útflutningi á innlendum plöntum. Í samræmi við almenn sjónarmið um álagningu þjónustugjalda verður að leggja þann skilning í ákvæðið að hver eftirlitsskyldur aðili geti aðeins borið kostnað af því eftirliti sem að honum getur beinst. Þannig veitir ákvæðið ekki heimild til að láta innflytjendur plantna bera kostnað við eftirlit sem á sér stað eftir að plönturnar eru komnar úr þeirra höndum, t.d. við eftirlitsaðgerðir eftir að plönturnar eru komnar í ræktun, sbr. 5. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 189/1990. Sama gildir um vinnu við útgáfu heilbrigðisvottorða vegna útflutnings á plöntum, sbr. 10. gr. reglugerðarinnar.Fyrrgreind reglugerð nr. 525/2007 mælir einungis fyrir um álagningu eftirlitsgjalds við innflutning á nánar tilgreindum plöntum sem falla undir ákveðin tollskrárnúmer. Í samræmi við það er við það miðað í 1. gr. reglugerðarinnar að gjaldið skuli standa undir kostnaði „við eftirlit með innflutningi plantna og plöntuafurða“. Í reglugerðinni er því ekki gert ráð fyrir því að greiðsla eftirlitsgjaldsins eigi að standa undir kostnaði við annars konar eftirlit með heilbrigði plantna á vegum Matvælastofnunar. Af málatilbúnaði stefnda virðist þó helst mega ráða að þetta eftirlitsgjald standi alfarið undir starfsemi plöntueftirlits stofnunarinnar, sem eins og áður segir getur tekið til annarra þátta en innflutnings á plöntum og plöntuafurðum. Hvorki er stoð fyrir slíku í lögum nr. 51/1981 né í framangreindri reglugerð.

 

Eins og áður segir var með 25. gr. laga nr. 87/1995 afnumin regla sem heimilaði að miða eftirlitsgjald samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 51/1981 við tiltekna krónutölu á hverja þyngdareiningu eða við hlutfall af tollverði. Af lögskýringargögnum, sem er lýst í kafla IV.2 í dóminum, verður ráðið að tilgangur þess hafi verið að koma í veg fyrir að eftirlitsgjaldið yrði ákveðið með þessum hætti, enda sé þessi tilhögun á gjaldtöku til þess fallin að innflytjendur greiði í ýmsum tilvikum hærri eftirlitsgjöld en svari þeim kostnaði er hlýst af því eftirliti sem þeim er ætlað að sæta. Kemur fram í athugasemdunum að þá sé í raun um toll að ræða, en ekki þjónustugjald, en það fari í bága við VI. gr. GATT-samningsins. Af þessari ástæðu verður á það fallist að sú tilhögun á gjaldtöku sem kveðið er á um í reglugerð nr. 525/2007, þar sem fjárhæð eftirlitsgjaldsins er tiltekið hlutfall af tollverði vörunnar, eigi sér ekki lagastoð. Þá er til þess að líta, að þó að erfitt geti verið að afmarka þann kostnað sem hlýst af því eftirliti sem haft er með einstökum innflytjendum plantna, er með þeirri tilhögun sem fylgt er samkvæmt fyrrgreindri reglugerð ekki tryggt að tengsl séu milli skyldu til að greiða gjaldið og fjárhæðar þess annars vegar og hins vegar þeirrar þjónustu eða eftirlitsaðgerða sem stjórnvaldið telur þörf á að framkvæma.

 

Að virtu öllu því sem að framan greinir ber að fallast á það með stefnanda að álagning eftirlitsgjaldsins árin 2011 til 2014 hafi verið ólögmæt.