Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna verksmiðjuframleiddra íbúðarhúsa

Úr niðurstöðum úrskurðar yfirskattanefndar nr. 144/2019

 

„[...]

 

Ágreiningsefni í máli þessu er sú ákvörðun ríkisskattstjóra að synja beiðni kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna sölu félagsins á verksmiðjuframleiddum einingahúsum á tímabilinu janúar til desember 2017. Var endurgreiðslubeiðni kæranda byggð á ákvæðum 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. reglugerð nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði.

 

Í XIII. kafla laga nr. 50/1988 er fjallað um endurgreiðslu virðisaukaskatts. Í 2. mgr. 42. gr. laganna segir að endurgreiða skuli byggjendum íbúðarhúsnæðis 60% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað. Jafnframt skuli endurgreiða eigendum íbúðarhúsnæðis 60% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna við endurbætur eða viðhald þess. Í lagaákvæðinu eru nokkur nánari fyrirmæli um skilyrði og framkvæmd endurgreiðslu. Einnig kemur fram að fjármálaráðherra setji með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara endurgreiðslna. Jafnframt segir í lagaákvæðinu að í reglugerð skuli kveðið á um endurgreiðslu ákveðins hlutfalls virðisaukaskatts af verksmiðjuframleiddum íbúðarhúsum og húseiningum. Fjallað er um tildrög og ástæður fyrir reglum þessum í úrskurði yfirskattanefndar nr. 73/2018.

 

Nánari ákvæði um endurgreiðslur á grundvelli 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 er að finna í reglugerð nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði, með áorðnum breytingum. Í a-lið 1. gr. reglugerðarinnar kemur fram að eftir því sem nánar sé ákveðið í reglugerðinni skuli endurgreiða virðisaukaskatt sem byggjendur íbúðarhúsnæðis hafi greitt vegna vinnu manna á byggingarstað. Í b-lið sömu greinar kemur hið sama fram um virðisaukaskatt sem eigendur íbúðarhúsnæðis hafi greitt vegna vinnu manna við endurbætur eða viðhald þess. Samkvæmt c-lið 1. gr. reglugerðarinnar skal, eftir því sem nánar er ákveðið í reglugerðinni, endurgreiða hluta virðisaukaskatts af söluverði íbúðarhúsa sem framleidd eru í verksmiðju. Í 1. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar segir að endurgreiðsla samkvæmt reglugerðinni taki ekki til orlofshúsa, sumarbústaða eða bygginga fyrir starfsemi sem fellur undir ákvæði 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt, svo og tekur endurgreiðsla ekki til virðisaukaskatts sem færa má til innskatts, sbr. VII. kafla nefndra laga.

 

[...]

 

Það leiðir af framansögðu að framleiðandi eða innflytjandi verksmiðjuframleiddra húsa eða eftir atvikum húseininga, sem leitar eftir endurgreiðslu virðisaukaskatts í samræmi við umrædd ákvæði, verður að vera í stakk búinn til að leiða í ljós að húsið sé ætlað til notkunar sem íbúðarhúsnæði, eftir atvikum með því að leggja fram gögn þar um frá kaupanda hússins eða hlutaðeigandi byggingaryfirvöldum. Er þetta sérstaklega brýnt þar sem ekki er heimild til endurgreiðslu ef hús er ætlað til notkunar sem orlofshúsnæði eða húsnæði fyrir starfsemi sem fellur undir ákvæði 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 eða ef kaupandi gæti talið virðisaukaskatt af hinu keypta til innskatts eftir almennum reglum þar um.

 

[...]

 

Í kæru til yfirskattanefndar eru út af fyrir sig ekki gerðar athugasemdir við ályktanir ríkisskattstjóra um notkun umræddra húsa. Byggir kærandi eingöngu á því að félagið hafi afhent kaupendum verksmiðjuframleidd íbúðarhús og með þeim hætti uppfylli kærandi skilyrði 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 og 9. gr. reglugerðar nr. 449/1990 til endurgreiðslu virðisaukaskatts. Telur kærandi að hvorki í lögum nr. 50/1988 né reglugerð nr. 449/1990 sé að finna skilyrði um tilgang kaupanda með kaupum húsnæðis. Með vísan til þess sem að framan greinir er ekki fallist á þetta með kæranda. Verður þvert á móti að telja að það sé grundvallarskilyrði til að hin umkrafða endurgreiðsla geti náð fram að ganga að húsin geti ekki einasta hentað sem íbúðarhúsnæði heldur og að kærandi hafi afhent þau til notkunar í því skyni. Í því sambandi verður einkum litið til hlutrænna atriða á borð við skráða notkun fasteignar og skipulag þess svæðis þar sem fyrirhugað er að setja hús niður en ekki er loku fyrir það skotið að huglæg afstaða kaupanda geti skipt máli.“

 

Í hlekk með fréttinni er að finna úrskurð yfirskattanefndar í heild sinni.