Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Endurupptaka á ákvörðun málskostnaðar fyrir yfirskattanefnd

Mál nr. 7182/2012. Málið er reifað með svofelldum hætti á heimasíðu umboðsmanns:

 

A og B leituðu til umboðsmanns Alþingis og kvörtuðu yfir úrskurði yfirskattanefndar þar sem hafnað var beiðni þeirra um endurupptöku þess hluta fyrri úrskurðar nefndarinnar í máli þeirra er laut að ákvörðun málskostnaðar til greiðslu úr ríkissjóði.

 

Settur umboðsmaður tók fram að af 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 leiddi að það hefði verið verkefni yfirskattanefndar, að fengnu erindi kærenda um endurupptöku, að taka afstöðu til þess hvort fyrri ákvörðun hennar um málskostnað hefði byggst á „ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik“. Af orðalagi ákvæðisins yrði dregin sú ályktun að nægilegt væri að fram væru komnar nýjar eða fyllri upplýsingar sem telja mætti að hefðu haft verulega þýðingu fyrir niðurstöðu málsins.
 

Settur umboðsmaður taldi að með endurupptökubeiðni A og B hefðu verið settar fram nýjar upplýsingar um málskostnað sem ekki væri útilokað að hefðu getað haft verulega þýðingu fyrir niðurstöðu fyrra málsins. Yfirskattanefnd hefði borið að leggja efnislegt mat á hvort upplýsingarnar hefðu varpað nýju og fyllra ljósi á þann kostnað sem kærendur kynnu að hafa orðið fyrir vegna málarekstursins. Þar sem ekki yrði ráðið af síðari úrskurði hennar að hún hefði gert það var það niðurstaða setts umboðsmanns að úrskurðurinn hefði ekki verið í samræmi við lög.
 

Settur umboðsmaður beindi þeim tilmælum til yfirskattanefndar að hún tæki mál A og B til meðfeðar að nýju, kæmi fram beiðni um það frá þeim, og hagaði þá meðferð þess í samræmi við þau sjónarmið sem fram kæmu í álitinu. Jafnframt beindi hann þeim tilmælum til nefndarinnar að hún tæki framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu.