Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Erfðafjárskattur - höfundaréttur

Úr úrskurði yfirskattanefndar nr. 113/2017:

Í 1. mgr. 20. gr. laga nr. 20/1991 kemur fram sú meginregla að við mat á eign til peningaverðs skuli miðað við gangverð hennar gegn staðgreiðslu kaupverðs. Samkvæmt þessu er ljóst að niðurstaða mats á verðmæti eigna dánarbús, sem fram fer á grundvelli 17.–23. gr. laga nr. 20/1991, getur ráðið gjaldstofni til erfðafjárskatts þegar um eignir er að ræða þar sem gjaldstofn tekur mið af meginreglu erfðafjárskattslaga nr. 14/2004 um viðmið við almennt markaðsverðmæti, svo sem við á um hugverkaréttindi, sbr. upphafsmálslið 2. mgr. 4. gr. þeirra laga. Eins og hér að framan er rakið gera lög nr. 20/1991 sérstaklega ráð fyrir því að mats samkvæmt 17.–23. gr. laganna verði aflað vegna álagningar erfðafjárskatts, sbr. 5. mgr. 30. gr. og 1. tölul. 2. mgr. 31. gr. laganna. Af samanburðarskýringu greindra ákvæða laga nr. 20/1991 annars vegar og laga nr. 14/2004 hins vegar verður því að telja að almennt beri að leggja niðurstöðu slíks mats, eða eftir atvikum yfirmats, til grundvallar ákvörðun erfðafjárskatts vegna viðkomandi eigna, enda hafi réttra aðferða verið gætt við öflun og undirbúning matsins og matsgerð gengur ekki sýnilega í berhögg við lög eða málefnalegar forsendur.

 

Í kæru kærenda til yfirskattanefndar er einkum byggt á því að hið umdeilda mat á verðmæti höfundaréttar E sé byggt á ólögmætum forsendum þar sem niðurstaðan sé ekki byggð á ætluðu markaðsverðmæti réttindanna heldur áætlun matsmanns á mögulegum og óvissum framtíðartekjum af þeim. Sé aðferðafræði matsins því í andstöðu við lög um erfðafjárskatt og reglur skattalaga almennt. Ekki verður fallist á þessi sjónarmið kærenda, enda þykir ljóst að einungis er um að ræða tiltekna aðferð við mat á markaðsverðmæti réttindanna til skattlagningar samkvæmt ákvæðum 4. gr. laga nr. 14/2004. Verður því ekki fallist á með kærendum að matið sé án lagastoðar að þessu leyti eða í andstöðu við lög. Tekið skal fram í þessu sambandi og vegna athugasemda kærenda að í matsgerðinni kemur fram að ekki hafi verið við nein haldbær fordæmi að styðjast við mat á verðmæti höfundaréttarins og þar af leiðandi engin opinber viðskiptaverð, eins og þar segir. Að öðru leyti eru í kæru kærenda til yfirskattanefndar gerðar ýmsar athugasemdir við forsendur verðmatsins, m.a. varðandi skattalega meðferð tekna af höfundarétti og aðferð við núvirðingu tekna og val á ávöxtunarkröfu í því sambandi. Eins og fram er komið leituðust kærendur ekki við að hnekkja niðurstöðu verðmats hins tilnefnda matsmanns með yfirmati samkvæmt 2. mgr. 22. gr. laga nr. 20/1991. Að því gættu og þar sem ekki verður séð að neinir slíkir ágallar séu á verðmatinu sem geri það að verkum að það verði ekki lagt til grundvallar ákvörðun erfðafjárskatts samkvæmt þeim sjónarmiðum, sem hér að framan voru rakin, er ekki tilefni til frekari umfjöllunar í úrskurði þessum um þær athugasemdir kærenda sem hér um ræðir. Með vísan til þess, sem hér hefur verið rakið, þykja engar forsendur til að hrófla við þeirri ákvörðun sýslumanns að leggja fyrirliggjandi mat á verðmæti höfundaréttar, sem aflað var samkvæmt 17.–23. gr. laga nr. 20/1991, til grundvallar ákvörðun erfðafjárskatts kærenda vegna umræddrar eignar, sbr. 1. og 2. mgr. 4. gr. laga nr. 14/2004.