Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Farsímar fyrir starfsmenn

Svar ríkisskattstjóra er svohljóðandi:

 

Dagsetning Tilvísun

13.05.2015 05/15

 

Farsímar fyrir starfsmenn

 

Vísað er til fyrirspurnar sem barst með tölvupósti hinn 27. febrúar 2015. Í póstinum kom m.a. fram að verið væri að endurskoða farsímareglur starfsmanna A og í því sambandi væri verið að skoða breytta útfærslu á þeim einkum út frá BYOD stefnu (Bring your own device). Óskað var eftir svörum við þremur eftirfarandi spurningum: 

 
1. Starfsmaður, sem metið er að þurfi snjalltæki/farsíma starfs síns vegna, fær styrk, t.d. upp á 150.000 kr annað hvort ár, og velur sjálfur tæki og á það, í stað þess að tækið sé keypt af A og hún eigi tækið. Starfsmaðurinn notar þá tækið vinnu sinnar vegna. Greiðir hann skatt af styrkgreiðslunni eða getur hann notað reikning fyrir tækjakaupunum á móti og þarf þá ekki að greiða skatt? Það er spurning hvort máli skiptir í þessu samhengi ef símanúmerið sem tengt er við tækið er í eign/skráð á starfsmanninn eða A.
 
2. Starfsmaður, sem metið er að þurfi snjalltæki/farsíma starfs síns vegna, á sjálfur mjög gott snjalltæki/farsíma og vill nota það frekar en að fá annað tæki frá vinnuveitanda. Starfsmaðurinn notar þá tækið vinnu sinnar vegna og því greiðir  A honum leigu af símanum. Væntanlega hófstillt mánaðarleg upphæð. Greiðir hann skatt af leigugreiðslunum eða getur hann notað reikning fyrir upphaflegum tækjakaupum á móti og þarf þá ekki að greiða skatt? Eða aðrar leiðir til að greiða ekki skatt? Einnig spurning um hve hár skattur af slíkum leigugreiðslum yrði, hvort það væri einungis 20%. Það er spurning hvort máli skiptir í þessu samhengi ef símanúmerið sem tengt er við tækið er í eign/skráð á starfsmanninn eða A.
 
3. Starfsmaður, sem metið er að þurfi snjalltæki/farsíma starfs síns vegna, fær síma til afnota sem A kaupir. A afskrifar hann um 4,17% þannig að hann er að fullu afskrifaður á tveimur árum. Starfsmaður fær þá að halda honum eftir tvö ár, t.d. vegna starfsloka hans. Greiðir hann skatt/hlunnindaskatt vegna þess?

 
Því er almennt til að svara að skattskylda tekna er mjög víðtæk og skiptir þá ekki máli hvernig er greitt eða með hverju, sbr. 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Laun og starfstengdar greiðslur eru skattskyldar samkvæmt 1. tölul. ákvæðisins og styrkir samkvæmt 2. tölul. ákvæðisins. Styrkir af hvaða tagi sem er teljast til skattskyldra tekna mótttakenda þeirra, sbr. 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Eftir atvikum getur verið heimilt að færa til frádráttar á móti styrkjum beinan kostnað, sbr. 2. mgr. B-liðar 30. gr. laganna, þó ekki persónulegan kostnað eða útgjöld vegna kaupa á eignum eða fyrningu eigna.
 
Víkur þá að framangreindum þremur spurningum:
 
1. Styrkur sem greiddur er starfsmanni til kaupa hans á einhvers konar snjalltæki/farsíma telst til skattskyldar tekna móttakanda og ekki er leyfður frádráttur á móti, sbr. þær almennu reglur í þessum efnum sem raktar eru að framan. Ef launagreiðandi á hinn bóginn metur það svo að nauðsynlegt sé að starfsmaður hafi síma/snjalltæki vegna vinnu sinnar telur ríkisskattstjóri að heimilt sé, í stað þess að leggja starfsmanninum til slíkt tæki, að greiða tiltekna fjárhæð til kaupa á því án þess að hún teljist viðkomandi til tekna. Þykir ekki skipta máli í þessu sambandi þótt starfsmaðurinn ákveði sjálfur að kaupa síma/snjalltæki á hærra verði en nemur greiðslu launagreiðandans. Kaupi starfsmaðurinn ódýrara tæki en greiðslunni nemur telst mismunurinn til skattskyldra tekna. Grundvallaratiði í þessu er að síminn/snjalltækið sé nýtt í þágu launagreiðandans og að ósk hans.
 
2. Leigugreiðslur af tæki í eigu starfsmanns teljast til skattskyldra tekna hans eftir almennum reglum, sbr. 1. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 (nú 20% fjármagnstekjuskattur), og enginn frádráttur er heimill á móti við þær aðstæður sem lýst er í fyrirspurninni. 
 
3. Eins og rakið er að framan skal almennt telja alla afhendingu verðmæta til skattskyldra tekna þiggjanda og þá á gangverði eða matsverði. Í því tilviki sem um er spurt ætti því að telja til tekna hjá starfsmanni sem fær afhentan síma/snjalltæki fjárhæð sem tekur mið af gangverði viðkomandi tækis á þeim tíma sem afhending fer fram. Í spurningunni er gengið út frá því að endingartími síma/snjalltækis sé ekki nema u.þ.b. tvö ár. Ef svo er hefur það áhrif á gangverð þannig að það væri annað hvort ekkert eða mjög lág fjárhæð.
 
Beðist er velvirðingar á því að dregist hefur að svara fyrirspurninni.
 

Ríkisskattstjóri