Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Fasteignaskattur - heimagisting

Nánar úr niðurstöðum dóms Landsréttar frá 25. október 2019 í máli nr. 821/2018:

 

"[...]

 

Áfrýjandi krefst þess annars vegar að felldur verði úr gildi úrskurður yfirfasteignamatsnefndar 11. desember 2017 í máli nr. 9/2017. Hins vegar krefst hann þess að viðurkennt verði með dómi að honum sé heimilt að skattleggja fasteign stefndu að Undirhlíð 36 í Grímsnes-og Grafningshreppi, [...], samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga vegna þess tíma sem fasteignin var skráð fyrir heimagistingu á árinu 2017. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti.

 

[...]

 

Niðurstaða

 

Í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/2007 er heimagisting flokkuð sem ein tegund gististaða. Komi ekkert annað til verður í því ljósi að líta svo á að heimgisting falli undir ferðaþjónustu í skilningi c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995.

 

Í 13. gr. laga nr. 85/2007, sbr. 10. gr. laga nr. 67/2016, er mælt fyrir um skyldu þess sem hyggst bjóða upp á heimagistingu, í samræmi við 1. mgr. 3. gr. laganna, til að tilkynna sýslumanni í viðkomandi umdæmi að hann hyggist leigja út lögheimili sitt eða eina aðra fasteign í sinni eigu. Þá er þar gerð grein fyrir atriðum sem að skráningarskyldunni lúta. Í 5. mgr. greinarinnar og svo sem áður er getið er sérstaklega tekið fram að heimagisting sem uppfyllir skilyrði laganna teljist ekki fara fram í atvinnuhúsnæði í skilningi laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995.

 

Í athugasemdum sem upphaflega fylgdu frumvarpi því er varð að lögum nr. 67/2016 kom meðal annars fram að breytt skilgreining heimagistingar samkvæmt því væri tilraun til þess að einfalda fyrirkomulag á útleigu einstaklinga á heimilum sínum til skamms tíma. Markmið ákvæðanna um heimagistingu væri einnig að ná skammtímaleigu upp á yfirborðið og skilja þetta form útleigu frá hefðbundinni gististarfsemi í atvinnuskyni. Sú breyting var meðal annars gerð á frumvarpinu í meðförum Alþingis að bætt var inn í það framangreindu ákvæði um að heimagisting teldist ekki fara fram í atvinnuhúsnæði í skilningi laga nr. 4/1995. Í nefndaráliti atvinnuveganefndar segir það eitt um þessa breytingu að það sé „vilji löggjafans að húsnæði sem heimagisting fer fram í, eins og það hugtak er skilgreint í frumvarpinu, teljist ekki vera atvinnuhúsnæði“ í skilningi laga um tekjustofna sveitarfélaga. Að þessu virtu liggur beinast við að álykta á þann veg að ætlun löggjafans með þessari breytingu hafi verið sú að það eitt að eigandi íbúðar, íbúðarhúss eða sumarbústaðar bjóði upp á heimagistingu þar eigi ekki að leiða til þess að vikið verði frá þeirri reglu um álagningu fasteignaskatts af þessum eignum sem mælt er fyrir um í a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 og að slík starfsemi teljist þar með ekki til atvinnureksturs líkt og ferðaþjónusta annars gerði. Er þá jafnframt til þess að líta að ekki verður séð að þessi breyting hefði að öðrum kosti haft sérstaka þýðingu.

 

Samkvæmt 40. gr. stjórnarskrárinnar má engan skatt á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Hefur þetta verið skýrt svo að skýra heimild í settum lögum þurfi til skattlagningar. Samkvæmt þessu og því sem rakið er hér að framan verður ekki fallist á það með áfrýjanda að hin umdeilda álagning fasteignaskatts hafi viðhlítandi stoð í ákvæði c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur.“

 

Í hlekk með fréttinni er að finna dóm Landsréttar í heild sinni.