Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Forkaupsréttur - sala hluta

Nánar úr niðurstöðum dóms Hæstaréttar í máli nr. 618/2017:

 

„Með samþykki stefndu Elínar, Ingvars, Sigríðar, Sigurðar og Þórönnu á tilboðinu, sem áfrýjandi og stefndi KÖS ehf. beindu til þeirra „f.h. óskráðs einkahlutafélags“ 4. júní 2015 um kaup á hlutum þeirra í stefnda Þingvallaleið ehf., komst á samningur, sem háður var tilteknum skilyrðum, en að þeim uppfylltum skyldi hann efndur ekki síðar en 4. janúar 2016. Þegar samningurinn komst á var einkahlutafélag, sem var ætlað að verða kaupandi hlutanna, ekki aðeins óskráð, heldur hafði það ekki verið stofnað. Ákvæði 2. mgr. 10. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög taka ekki eftir orðanna hljóðan til aðstæðna sem þessara, enda ná þau til skuldbindinga, sem myndaðar eru í nafni slíks félags sem hefur þegar verið stofnað eftir reglum 3. gr. til 8. gr. þeirra laga en ekki hefur enn verið skráð.

 

Af framangreindum ástæðum verður að leggja til grundvallar að áfrýjandi og stefndi KÖS ehf. hafi einir og í sameiningu notið réttinda og borið skyldur kaupanda samkvæmt samningnum. Að því verður þó einnig að gæta að sem fyrr segir var í tilboðinu lýst svonefndum bakgrunni þess, þar á meðal að það hafi verið gert á þeirri forsendu að áfrýjandi og stefndi KÖS ehf. myndu „eignast“ hlutina í stefnda Þingvallaleið ehf. „í gegnum“ væntanlegt félag sitt, sem yrði í eigu áfrýjanda að 51% og stefnda KÖS ehf. að 49%. Verður þannig að líta svo á að með samþykki tilboðsins hafi stefndu Elín, Ingvar, Sigríður, Sigurður og Þóranna gengist undir að hlíta því að áfrýjandi og stefndi KÖS ehf. gætu á síðari stigum ákveðið upp á sitt eindæmi að færa réttindi sín og skyldur samkvæmt samningnum til félags, sem þeir myndu stofna til eignarhalds á hlutunum í stefnda Þingvallaleið ehf. og yrði í eigu þeirra í fyrrgreindum hlutföllum. Eftir gögnum málsins var hvorki stofnað slíkt félag né efndi áfrýjandi í eigin nafni fyrir sitt leyti þær skuldbindingar, sem hann tók á sig með tilboðinu. Þegar af þeim ástæðum varð ekkert úr þeim kaupum, sem komust á með samþykki þess 4. júní 2015. Á hinn bóginn mun stefndi KÖS ehf. hafa á áðurnefndum fundi 4. janúar 2016 innt af hendi til stefndu Elínar, Ingvars, Sigríðar, Sigurðar og Þórönnu greiðslur sömu fjárhæðar og mælt hafði verið fyrir um í tilboðinu og þau framselt að endurgjaldi hluti sína í stefnda Þingvallaleið ehf. Líta verður svo á að með þessu hafi komist á nýr kaupsamningur, sem jafnframt var efndur þegar í stað en virðist aldrei hafa verið skjalfestur. Þegar atvik þessi gerðust hafði stefndi SPV 25 ehf. ekki enn verið stofnað og liggur ekkert fyrir í málinu um að kaup þessi hafi verið gerð með skilmála, hliðstæðum þeim sem fólst í samþykki tilboðsins 4. júní 2015, um að seljendur myndu hlíta því að það félag tæki við stöðu kaupanda eftir stofnun þess. Verður því kaupandi eftir þessum óskráða samningi að teljast hafa verið stefndi KÖS ehf.

 

Þegar kaupsamningur þessi komst á 4. janúar 2016 milli stefnda KÖS ehf. og stefndu Elínar, Ingvars, Sigríðar, Sigurðar og Þórönnu varð virkur forkaupsréttur, sem áfrýjandi naut sem hluthafi í stefnda Þingvallaleið ehf. samkvæmt fyrrnefndri 7. grein samþykkta þess félags, að hlutunum sem kaupin tóku til. Í þeirri grein samþykktanna var kveðið á um að forkaupsréttarhafi hefði frest til að beita þeim rétti í tvo mánuði frá því að stjórn félagsins væri tilkynnt um kaup. Af fundargerð frá fundi stjórnar stefnda Þingvallaleiðar ehf. 4. janúar 2016 er ljóst að henni hafi þá samdægurs verið tilkynnt um þessi kaup, en áfrýjandi lýsti eins og áður segir bréflega yfir 28. sama mánaðar við alla, sem hlut áttu að máli, að hann nýtti forkaupsrétt sinn og var það þannig gert í tæka tíð. Stjórn félagsins lýsti á hinn bóginn engu slíku yfir fyrir hönd þess innan frestsins, sem hún naut í því skyni og lauk 4. mars 2016, en til annarra en félagsins og áfrýjanda gat forkaupsréttur ekki náð eins og atvikum var háttað. Áfrýjandi deildi þannig hvorki með öðrum forkaupsrétti né stóð hann í því efni öðrum að baki. Í bréfum sínum 28. janúar 2016 óskaði áfrýjandi svo sem fyrr greinir eftir upplýsingum um fjárhæð, sem sér bæri að inna af hendi vegna nýtingar forkaupsréttar síns, og hvert hann ætti að greiða hana, en við því fékk hann engin svör frá öðrum en stefnda KÖS ehf., sem ítrekaði í bréfi 12. febrúar sama ár mótmæli gegn því að forkaupsréttur áfrýjanda hafi orðið virkur. Má samkvæmt þessu líta svo á að áfrýjandi hafi innan tilskilins tíma samkvæmt samþykktum fyrir stefnda Þingvallaleið ehf. boðið fram greiðslu á kaupverði hlutanna, sem neitað hafi verið að taka við. Glataði áfrýjandi ekki forkaupsrétti sínum með því að aðhafast ekkert frekar í þessu sambandi fram að því að mál þetta var höfðað.

 

Samkvæmt öllu framangreindu verður orðið við kröfu áfrýjanda um viðurkenningu á því að hann eigi forkaupsrétt að tólf hlutum í stefnda Þingvallaleið ehf. vegna sölu stefndu Elínar, Ingvars, Sigríðar, Sigurðar og Þórönnu á þeim 4. janúar 2016 til stefnda KÖS ehf.

 

Áfrýjandi hefur jafnframt krafist þess að viðurkennt verði að hann njóti þessa réttar á verðinu 93.625.054 krónur. Stefndu Þingvallaleið ehf., KÖS ehf. og SPV 25 ehf. hafa á hinn bóginn krafist þess sem áður segir til ítrustu vara að kaupverðið verði ákveðið 93.060.000 krónur, sem bundið sé vísitölu neysluverðs með grunntölunni 428,2 stig og beri að auki dráttarvexti frá 4. janúar 2016. Um þetta ágreiningsefni verður að gæta að því að með nýtingu forkaupsréttar gengur áfrýjandi inn í stöðu stefnda KÖS ehf. sem kaupanda eftir samningi hans við seljendurna, stefndu Elínu, Ingvar, Sigríði, Sigurð og Þórönnu, og ber áfrýjandi samkvæmt því skyldur við þau, meðal annars til greiðslu kaupverðs, en ekki við aðra stefndu. Ákvörðun kaupverðsins er af þessum sökum stefndu Þingvallaleið ehf., KÖS ehf. og SPV 25 ehf. óviðkomandi og verður þannig aðalkrafa áfrýjanda tekin til greina á þann hátt, sem segir í dómsorði."

 

Í hlekk að ofanverðu er að finna dóm Hæstaréttar í heild sinni.