Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Frádráttur rekstrarkostnaðar - kostnaður við nýsköpunarverkefni

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 152/2009 á nýsköpunarfyrirtæki sem er eigandi að rannsóknar- eða þróunarverkefnum sem hlotið hafa staðfestingu Rannís samkvæmt 5. gr. laganna á rétt á sérstökum frádrætti frá álögðum tekjuskatti sem nemur 20 hundraðshlutum af útlögðum kostnaði vegna þessara verkefna, enda sé um að ræða frádráttarbæran rekstrarkostnað í skilningi 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þó að tilteknu hámarki. Í 2. mgr. sömu lagagreinar kemur fram að skilyrði frádráttar sé að kostnaði vegna hvers rannsóknar- og þróunarverkefnis sé haldið aðgreindum frá öðrum útgjöldum nýsköpunarfyrirtækis og að gögn séu aðgengileg skattyfirvöldum þegar þau óska þess, sbr. X. kafla laga nr. 90/2003. Samkvæmt 4. mgr. 10. gr. laganna skal árlega gera grein fyrir kostnaði vegna rannsókna og þróunar í skattframtali á þann hátt sem ríkisskattstjóri ákveður.

 

Kærandi í máli þessu er einkahlutafélag og sem hlotið hefur staðfestingu Rannís á rannsóknar- og þróunarverkefni á grundvelli laga nr. 152/2009. Skráður tilgangur félagsins er framleiðsla hugbúnaðar, þjónusta, svo og rekstur fasteigna, lánastarfsemi og skyldur rekstur. Í skattframtali kæranda árið 2016 var tilfærður „gjaldfærður styrkhæfur kostnaður“ að fjárhæð samtals 13.936.002 kr. auk aðkeyptrar rannsóknar- og þróunarvinnu að fjárhæð samtals 1.450.000 kr. Nam kostnaður til útreiknings skattfrádráttar því alls 15.386.002 kr. og skattfrádráttur 3.077.200 kr. Samkvæmt sundurliðun í greinargerðinni stóð gjaldfærður kostnaður saman af starfsmannakostnaði 10.167.133 kr., gjaldfærðum afskriftum af vélum og tækjum 87.323 kr., efnis- og birgðakostnaði 532.342 kr. og öðrum beinum kostnaði vegna rannsóknarverkefnis kæranda 3.149.204 kr.

 

Ríkisskattstjóri lækkaði tilfærðan frádrátt útlagðs kostnaðar vegna þróunarverkefnis í skattskilum kæranda árið 2016 úr 3.077.200 kr. í áætlaða fjárhæð 1.000.000 kr. Var það mat ríkisskattstjóra að kærandi hefði ekki gefið fullnægjandi skýringar á tilfærðum kostnaði. Benti ríkisskattstjóri á að samkvæmt skattframtali kæranda fyrir umrætt ár næmu rekstrartekjur félagsins 21.647.297 kr. og gjaldfærður starfsmannakostnaður þess næmi 10.122.185 kr. Kvaðst ríkisskattstjóri telja að verulegur hluti starfsemi félagsins varðaði sölu og þjónustu vegna núverandi afurða félagsins og úrbætur á þeim og að ekki fengi staðist að tilfærður starfsmannakostnaður í greinargerð um skattfrádrátt 10.167.133 kr. væri að öllu leyti vegna þróunarverkefnis. Þar sem kærandi hefði ekki sýnt fram á að hlutur þróunarkostnaðar í rekstri félagsins væri slíkur sem greinargerð um skattfrádrátt bæri með sér yrði að ákvarða frádrátt vegna slíks kostnaðar að álitum.

 

Að framangreindu virtu og þar sem kærandi hefði ekki haldið kostnaði vegna þróunarverkefnis félagsins aðgreindum frá öðrum útgjöldum félagsins, svo sem áskilið er í 2. mgr. 10. gr. laga nr. 152/2009, var ekki talið að kærandi hafi sýnt fram á frádráttarbærni þeirra útgjalda sem um ræðir. Þá þóttu engar forsendur til þess að hrófla við áætlun ríkisskattstjóra á frádráttarbærum þróunarkostnaði, enda var ekki séð að hin umdeilda lækkun ríkisskattstjóra sé óhófleg.

 

Í hlekk að ofanverðu má nálgast úrskurð yfirskattanefndar í heild sinni.