Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Frumvarp til laga - breyting á lögum um virðisaukaskatt (kaup og sala þjónustu á milli landa, áskriftir og sala fréttablaða o.fl.)

Meginþættir frumvarpsins eru eftirfarandi:

 

Í fyrsta lagi eru lagðar til gagngerar breytingar á 12. gr. laga um virðisaukaskatt þar sem kveðið er á um sölu á vöru og þjónustu sem telst ekki til skattskyldrar veltu. Lagt er til að byggt sé á alþjóðlegum leiðbeiningarreglum OECD um virðisaukaskatt við mat á því hvar þjónusta teljist vera veitt og þar með skattlögð hverju sinni. Meginreglan skal vera sú að þjónusta telst vera veitt þar sem kaupandi þjónustunnar hefur búsetu eða fasta starfsstöð. Sá staður þar sem þjónustan er veitt (e. place of supply of services) og þar með nýting og neysla hennar telst því vera sá staður þar sem kaupandi þjónustunnar hefur búsetu eða starfsstöð. Enn fremur er lagt til að hugtökin þjónusta sem veitt er rafrænt (e. electronically supplied services), fjarskiptaþjónusta og útvarps- og sjónvarpsþjónusta verði nánar afmörkuð í ákvæðinu. Lagt er til að í 12. gr. verði greint á milli sölu á vöru úr landi og þjónustu sem veitt er erlendis. Fjallað verður um vinnu og þjónustu sem veitt er erlendis í nýjum 10. tl. 1. mgr. Með hinum nýja tölulið er skýrt kveðið á um að vinna og þjónusta sem veitt er erlendis, teljist vera nýtt erlendis, og teljist því ekki til skattskyldrar veltu hér á landi samkvæmt ákvæðinu. Því er lagt til að fjarlægðarreglan (e. destination principle) verði ráðandi við mat á því hvar skattlagning þjónustu í milliríkjaviðskiptum eigi sér stað. Greint er á milli sölu til atvinnufyrirtækja (e. Business to Business – B2B), sbr. 1. mgr. 10. tl. og annarra aðila sem hafa ekki með höndum atvinnurekstur (e. Business to Consumer – B2C), sbr. 2. mgr. 10. tl.

 

Í öðru lagi er lagt til að áskriftir og sala tímarita, dagblaða og landsmála- og héraðsfréttablaða, hvort sem er á pappír eða rafrænu formi, verði færð í lægra skatthlutfall virðisaukaskatts líkt og gildir um sölu slíkra tímarita og blaða á pappírsformi. Horft er til leiðbeininga OECD í þessum efnum þar sem mælst er til þess að sú leið sem notuð er til miðlunar raski ekki samkeppnisstöðu á milli sambærilegrar vöru og þjónustu. Með frumvarpinu er stigið skref í átt að bættu rekstrarumhverfi fjölmiðla hér á landi með samræmingu á virðisaukaskatti á sölu og áskriftir dagblaða, tímarita og landsmála- og héraðsfréttablaða, hvort heldur sem útgáfuform miðlanna er á prentuðu eða rafrænu formi. Sú samræming er í anda leiðbeiningarreglna OECD sem leggur áherslu á að skattlagning skuli vera „hlutlaus“ og „sanngjörn“ milli rafrænna og hefðbundinna viðskipta.

 

Í þriðja lagi er lagt til að ferðaþjónustuleyfishöfum sem hafa með höndum rekstur fólksbifreiða og fengið hafa staðfestingu og sérstakt leyfi frá Samgöngustofu til farþegaflutninga í ferðaþjónustu verði gert mögulegt að færa innskatt á móti útskatti við uppgjör virðisaukaskatts vegna kaupa á aðföngum til reksturs fólksbifreiða í ferðaþjónustustarfsemi sinni. Um er að ræða nauðsynlegar breytingar til að tryggja að ferðaþjónustuaðilum sem annast fólksflutninga á fólksbifreiðum í atvinnuskyni verði gert mögulegt að færa innskatt á móti útskatti við uppgjör virðisaukaskatts vegna kaupa á aðföngum til reksturs þeirra fólksbifreiða sem eingöngu eru notaðar í atvinnurekstri og virðisaukaskattsskyldri starfsemi ferðaþjónustuaðila. Við lögfestingu laga nr. 28/2017, um farþegaflutninga og farmflutninga á landi var veitt heimild til að veita ferðaþjónustuaðilum sérstakt leyfi til farþegaflutninga. Ekki var gerð breyting á ákvæðum laga um virðisaukaskatt er lúta að innskattsheimild þeirra ferðaþjónustuaðila sem falla undir lög nr. 28/2017. Með þessari breytingu öðlast þeir aðilar heimild til færslu innskatts við öflun og resktur fólksbifreiða sem eru að öllu leyti nýttar í virðisaukaskattsskyldum rekstri ferðaþjónustuleyfishafa.

 

Í fjórða lagi er lagt til að erlendum atvinnufyrirtækjum sem selja innlendum aðilum hér á landi blöð og tímarit í áskrift á pappírsformi verði gert skylt að innheimta og skila virðisaukaskatti af þeirri sölu hér á landi, að því gefnu að veltumörk 3. tölul. 4. gr. laganna eigi ekki við. Í dag er í gildi reglugerð nr. 336/1993, um innheimtu virðisaukaskatts af blöðum og tímaritum sem send eru í áskrift erlendis frá í pósti. Samkvæmt reglugerðinni hvílir sú skylda á kaupanda að skila virðisaukaskatti af slíkum kaupum hér á landi. Fyrir liggur að sárafáir greiða virðisaukaskatt af slíkum kaupum hér á landi. Erlendir aðilar sem selja blöð og tímarit á rafrænu formi til kaupenda hér á landi hafa verið og verða áfram skattskyldir vegna þeirrar sölu hingað til lands.

 

Í fimmta og síðasta lagi eru lagðar til gagngerar breytingar á 35. gr. laga um virðisaukaskatt sem kveður á um kaup á þjónustu hingað til lands, samhliða þeim tillögum sem lagðar eru til um breytingar á 12. gr. laganna. Lagt er til að greint verði á milli kaupa á þjónustu hjá undanþegnum aðilum, skattskyldum aðilum og öðrum aðilum, til að mynda neytendum, opinberum aðilum og öðrum félögum og samtökum sem ekki eru skráð á grunnskrá virðisaukaskatts og kaupa þjónustu frá atvinnufyrirtæki með heimilisfesti eða fasta starfsstöð erlendis. Þá er lögð til frekari afmörkun á þeirri þjónustu sem seld er frá erlendum atvinnufyrirtækjum og veitt er rafrænt hingað til lands. Í ákvæðinu felst að fjármálafyrirtækjum, tryggingafélögum og öðrum undanþegnum aðilum sem kaupa hingað til lands þjónustu sem fellur undir skattskyldusvið laga þessara frá atvinnufyrirtækjum erlendis frá beri að skila virðisaukaskatti af kaupunum, þ.m.t. vegna kaupa á þjónustu sem veitt er rafrænt, fjarskiptaþjónustu og útvarps- og sjónvarpsþjónustu sem og annarri þjónustu, enda telst þjónustan þá vera nýtt hér á landi samkvæmt fjarlægðarreglunni. Sem dæmi má nefna að ef fjármálafyrirtæki eða tryggingafélag með heimilisfesti hér á landi kaupir hugbúnaðarþjónustu erlendis frá ber því að standa skil á virðisaukaskatti af kaupunum hér á landi. Breytingar á 2. mgr. 35. gr. eru að mestu samhljóða 2. mgr. núgildandi laga. Í 3. mgr. kemur fram að aðrir en þeir sem falla undir 1. og 2. mgr. og kaupa þjónustu sem fellur undir d–j-lið í 2. mgr. 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. erlendis frá skuli greiða virðisaukaskatt af slíkum kaupum hér á landi nemi andvirði hennar hærri fjárhæð en 10.000 kr. á hverju almennu uppgjörstímabili. Einstaklingum og öðrum aðilum sem falla undir þessa málsgrein ber því að standa skil á virðisaukaskatti af þeirri þjónustu sem fellur undir málsgreinina. Sem dæmi má nefna að ef aðili annar en atvinnufyrirtæki með heimilisfesti hér á landi kaupir þjónustu í formi atvinnumiðlunar frá atvinnufyrirtæki erlendis ber honum að standa skil á virðisaukaskatti af þjónustunni hér á landi að því gefnu að andvirði hennar nemi hærri fjárhæð en 10.000 kr. á hverju almennu uppgjörstímabili.

 

Nálgast má frumvarpið í heild sinni í hlekk að ofanverðu með fréttinni.