Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Frumvarp til laga um breytingar á lögum um hlutafélög og einkahlutafélög (kennitöluflakk)

Eftirfarandi kemur fram í frumvarpinu:

 

Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, og lögum um einkahlutafélög, nr. 138/1994, í því skyni að koma í veg fyrir kennitöluflakk. Engum dylst að kennitöluflakk er mikil meinsemd og af einhverjum ástæðum hefur það fylgt íslensku atvinnulífi í áraraðir. Þó svo ekki sé til einhlít lagaleg skilgreining á því hvað felist í kennitöluflakki má telja að flestum sem koma að atvinnurekstri með einum eða öðrum hætti sé það nokkuð ljóst. Kennitöluflakk felur í sér misnotkun eigenda og stjórnenda á félagaforminu sem veitir þeim skjól vegna þeirrar takmörkuðu ábyrgðar sem eigendur bera á skuldbindingum félagsins. Þannig er skuldum vegna atvinnurekstrar safnað í eitt félag og síðan þegar félagið er komið í rekstrarleg vandræði er snarlega stofnað nýtt félag í sama atvinnurekstri með nýrri kennitölu og reksturinn færður þangað. Í gamla félaginu eru þá skildar eftir skuldbindingar sem að jafnaði fást ekki greiddar við gjaldþrotaskipti félagsins. Oft er um að ræða skuldir við hið opinbera, vanskil á sköttum og gjöldum, en einnig skuldbindingar við aðra einkaaðila, birgja og fleiri, sem og vangoldin laun. Þessi háttsemi felur í sér samfélagslegt tjón þar sem skuldbindingar fást ekki greiddar og jafnframt bitnar háttsemin á þeim sem standa heiðarlega að sínum rekstri og fylgja leikreglum. Háttsemin er til þess fallin að ýta undir vantraust í garð atvinnulífsins og samkeppnisstaða þeirra sem fylgja leikreglum skekkist. Háttsemin eykur kostnað atvinnulífsins þar sem viðbrögð stjórnvalda eru að jafnaði að auka eftirlit og með því eykst kostn­aður atvinnulífsins. Í heild tapar samfélagið.

 

[...]

 

Í 1. og 2. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995. Er þar lagt til að stofnendur, stjórnarmenn og framkvæmdastjórar hlutafélaga megi ekki á næstliðnum þremur árum hafa verið í forsvari fyrir tvö eða fleiri félög sem orðið hafa gjaldþrota. Hér undir fellur einnig það þegar stofnendur, stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar hafa hætt störfum áður en félag verður gjaldþrota og það fært undir stjórn svokallaðra útfararstjóra sem ganga með fyrirtækið í gjaldþrot. Um hæfisskilyrði er að ræða sem einstaklingar, sem ætla að stofna fyrirtæki, gerast stjórnarmenn eða eru ráðnir sem framkvæmdastjórar, þurfa að uppfylla. Skv. 3. mgr. 148. gr. hlutafélagalaga skal tilkynningu um stofnun hlutafélags til hlutafélagaskrár fylgja staðfesting á því að stofnendur uppfylli skilyrði 3. gr. laganna og að stjórnarmenn og framkvæmdastjóri uppfylli skilyrði 66. gr. laganna. Skv. 150. gr. laganna skal synja félagi skráningar ef tilkynning um stofnun þess uppfyllir ekki skilyrði laganna. Í 3. og 4. gr. frumvarpsins eru síðan lagðar til samsvarandi breytingar á lögum um einkahlutafélög og lagðar eru til á lögum um hlutafélög í 1. og 2. gr. Í 3. mgr. 122. gr. laga um einkahlutafélög er samsvarandi ákvæði og í 3. mgr. 148. gr. hlutafélagalaga um að tilkynningu um stofnun félags skuli fylgja staðfesting á hæfi stofnenda, stjórnarmanna og framkvæmdastjóra.