Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Fyrningarreglur í sjávarútvegi

Ágreiningur málsaðila snérist annars vegar um endurákvörðun skatta stefnanda samkvæmt úrskurðum skattstjóra vegna gjaldáranna 2004-2009. Snérist ágreiningur aðila einkum um annars vegar heimild stefnenda til að hækka bókfært verð eigna í atvinnurekstri sínum með vísan til matverðs samkvæmt 23. og 25. gr. laga nr. 144/1994 um ársreikninga. Hins vegar var deilt um heimild stefnenda til að færa verðmæti veiðiheimilda niður vegna skerðingar á úthlutuðu aflamarki milli ára.

 

Í 33. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt er fjallað um fyrnanlegar eignir. Óumdeilt var að eignir þær sem stefnendur töldu heimilt að fyrna féllu undir 1. tölulið 33. gr. laga nr. 90/2003. Stefnandi miðaði fyrningargrundvöll eigna við matsverð þeirra. Var það talið óheimilt enda er skýrt um það kveðið í 2. mgr. 36. gr. laga nr. 90/2003 að miða skuli fyrningargrundvöll eigna við stofnverð þeirra en ekki matsverð og reglur um ársreikninga hagga ekki þeirri niðurstöðu. Var úrskúrður skattstjóra um endurákvörðun gjalda stefnanda til samræmis við fyrningargrunn eignanna samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga nr. 90/2003 því í samræmi við lög. Að mati dómsins voru þær reglur tekjuskattslaga sem hér um ræðir skýrar og ótvíræðar.

 

Í 1. mgr. 48. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt segir að eigi sé heimilt að fyrna stofnkostnað við kaup á réttindum sem rýrna ekki við notkun.  Til stofnkostnaðar samkvæmt málsgreininni telst m.a. keyptur réttur til nýtingar á náttúruauðæfum, svo sem kaup á varanlegri aflahlutdeild og sambærilegum réttindum. Þá segir í 3. mgr. greinarinnar að verðmæti keyptra réttinda sem ekki sé heimilt að fyrna sé eigi heimilt að færa til frádráttar skattskyldum tekjum. Við þetta er gerður sá fyrirvari í lokaorðum greinarinnar að heimilt er að telja til rekstararkostnaðar verðmæti þessara réttinda ef þau falla niður eða hlutfallslega ef þau eru skert verulega lögum samkvæmt. Aflahlutdeild er varanlegur réttur til ákveðinnar hlutdeildar af heildarafla, eins og hann er ákveðinn fyrir hvert fiskveiðiár skv. lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Aflamark skips á hverju veiðitímabili ræðst þannig af leyfðum heildarafla og hlutdeild skipsins í þeim heildarafla. Það er því ljóst að að árleg ákvörðun á aflamarki stefnanda fól ekki í sér skerðingu á aflahlutdeild þeirra. Samkvæmt óvíræðum fyrirmælum 1. mgr. 48. gr. laga nr. 90/2003 var stefnendum því ekki heimilt að að fyrna keypta aflahlutdeild við skattskil sín.

 

Nánar úr forsendum héraðsdóms, staðfestum af Landsrétti:

 

„Svo sem áður er rakið snýst ágreiningur málsaðila annars vegar um ákvarðanir skattstjóra og ríkisskattstjóra um að lækka gjaldfærðar fyrningar stefnenda samkvæmt rekstrarskýrslum þeirra með vísan til þess að þeim hafi verið óheimilt að hækka bókfært verð eigna í atvinnurekstri sínum með vísan til 50. og 51. gr. laga nr. 133/2001 með tilliti til matsverðs eignanna á hverju ári. Hins vegar er deilt um heimild stefnenda til að færa verðmæti veiðiheimilda niður vegna skerðingar á úthlutuðu aflamarki fyrir fiskveiðiárið 2007/2008.

 

A

Svo sem rakið er í úrskurði skattstjóra 9. júní 2009 er fjallað um fyrnanlegar eignir í 33. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Er ekki um það deilt að þær eignir sem stefnendur töldu heimilt að fyrna féllu undir 1. tölulið greinarinnar. Í 2. mgr. 36. gr. laganna er fjallað um fyrningargrunn eigna og kemur þar ótvírætt fram að miða beri fyrningargrunn eigna samkvæmt 1. tölulið 33. gr. laganna við stofnverð þeirra, sbr. 2. mgr. 12. gr., að frádregnum áður fengnum fyrningum. Samkvæmt þessu var ekki að finna í lögum heimild til handa stefndu til að miða fyrningargrunn eigna við matsverð eignanna og geta reglur um ársreikninga ekki haggað þeirri niðurstöðu. Var úrskurður skattstjóra um endurákvörðun gjalda stefnenda til samræmis við fyrningargrunn eignanna samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga nr. 90/2003 því í samræmi við lög. Er ekki á því byggt að með þessari ákvörðun hafi verið brotið gegn jafnræði stefnenda eða eignarréttindum, eins og þessi réttindi eru vernduð af stjórnlögum. Þá er haldlaus sú málsástæða stefnenda að þeim hafi verið heimilt að haga skattskilum sínum með áðurgreindum hætti með vísan til skattareglna um rekstrartjón. Í málinu er ekki gerður tölulegur ágreiningur um útreikninga skattstjóra við lækkun á fyrningargrunni eigna stefnenda og lækkun frádráttar af þeim sökum. Samkvæmt þessu er að fullu fallist á rökstuðning skattstjóra í úrskurði hans 9. júní 2009 að því er varðar endurákvörðun gjalda stefnenda af þessum sökum.

Að mati dómsins voru þær reglur skattalaga sem hér var um að ræða skýrar og ótvíræðar og því engin efni til að fella niður það álag sem skattstjóri gerði stefnendum samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 með heimild í 3. mgr. sömu greinar.

 

B

Með dómi Hæstaréttar 18. nóvember 1993 í máli nr. 291/1993 var komist að þeirri niðurstöðu að keypt aflahlutdeild teldist til skattskyldra eigna í skilningi laga um tekjuskatt og eignaskatt. Hins vegar var komist að þeirri niðurstöðu að þótt aflahlutdeild yrði að sönnu, eftir strangri orðskýringu, ekki talin rýrna að verðmæti við eðlilega notkun eða aldur þætti ekki varhugavert að telja hana til réttinda sem væru fyrnanleg samkvæmt þágildandi 32. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignaskatt, eins og lögunum hafði síðar verið breytt. Líkt og vikið er að í greinargerð stefnda brást löggjafinn við því réttarástandi sem skapast hafði með téðum dómi Hæstaréttar með setningu laga nr. 118/1997 sem bættu sérstökum ákvæðum, 50. gr. A, við þágildandi lög nr. 75/1981. Svarar greinin efnislega til núgildandi 48. gr. laga nr. 90/2003 og eru þar tekin af tvímæli í 1. mgr. greinarinnar um að stofnkostnað við kaup á réttindum, sem ekki rýrni vegna notkunar, sé óheimilt að fyrna. Er þar sérstaklega tekið fram að til stofnkostnaðar samkvæmt málsgreininni teljist meðal annars keyptur réttur til nýtingar á náttúruauðæfum, svo sem kaup á varanlegri aflahlutdeild og sambærilegum réttindum. Þá segir í 3. mgr. greinarinnar að verðmæti keyptra réttinda sem ekki sé heimilt að fyrna sé eigi heimilt að færa til frádráttar skattskyldum tekjum. Við þetta er gerður sá fyrirvari í lokaorðum greinarinnar að heimilt er að telja til rekstrarkostnaðar verðmæti þessara réttinda ef þau falla niður eða hlutfallslega ef þau eru skert verulega lögum samkvæmt.

Svo sem ítarlega er rakið í úrskurði yfirskattanefndar 22. júlí 2011 í máli nr. 185/2011 er aflahlutdeild varanlegur réttur til ákveðinnar hlutdeildar af heildarafla, eins og hann er ákveðinn fyrir hvert fiskveiðiár samkvæmt núgildandi 1. mgr. 3. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Aflamark skips á hverju veiðitímabili eða vertíð ræðst þannig af leyfðum heildarafla viðkomandi tegundar og hlutdeild skipsins í þeim heildarafla, sbr. 4. mgr. 8. gr. laga nr. 116/2006. Svo sem einnig er rakið í téðum úrskurði yfirskattanefndar hefur 48. gr. laga nr. 90/2003 ekki verið talin taka til kostnaðar við kaup á aflamarki sem úthlutað hefur verið á grundvelli aflahlutdeildar en er óveitt á kaupdegi, enda er þar ekki um að ræða varanlegan veiðirétt. Í aðilaskýrslu stefnanda Óskars Karls fyrir dómi kom hins vegar fram að hann hefur ekki keypt veiðiheimildir til afmarkaðs tíma á þessum grundvelli eða leigt kvóta, eins og það er kallað í daglegu tali, á þeim tíma sem hér um ræðir. Samkvæmt framangreindu er ljóst að árleg ákvörðun á aflamarki stefnenda fól ekki í sér skerðingu á aflahlutdeild þeirra. Samkvæmt ótvíræðum fyrirmælum 1. mgr. 48. gr. laga nr. 90/2003 var stefnendum þar af leiðandi óheimilt að fyrna keypta aflahlutdeild við skattskil sín. Af sömu ástæðum verður ekki á það fallist að téð réttindi hafi fallið niður eða verið skert í skilningi lokaorða 3. mgr. 48. gr. laga nr. 90/2003.

Líkt og rakið er í úrskurði yfirskattanefndar tekur 35. gr. laga nr. 90/2003, sem fjallar um rekstrartjón, aðeins til fyrnanlegra eigna og getur hún, þegar af þeirri ástæðu, ekki tekið til aflahlutdeildar. Þá tekur dómurinn undir það sem fram kemur í úrskurðinum, að ekkert liggur fyrir í málinu um að aflahlutdeild stefnenda hafi rýrnað að verðmæti á þeim tímabilum sem hér er um að ræða. Líkt og fram kemur í greinargerð stefnda fyrir dómi hefur 25% álag sem ríkisskattstjóri bætti við hækkun skattstofna stefnenda fyrir gjaldárið 2009 þegar verið fellt niður með fyrrnefndum úrskurði yfirskattanefndar og breyttu stefnendur kröfugerð sinni til samræmis við þetta við aðalmeðferð málsins.

Samkvæmt framangreindu er það álit dómsins að þær ákvarðanir skattyfirvalda sem um er deilt í málinu hafi í öllum atriðum verið í samræmi við skýr og ótvíræð fyrirmæli laga. Þá liggur fyrir að álag samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra 2. mars 2010 var fellt niður með áðurgreindum úrskurði yfirskattanefndar eftir að málið var höfðað. Að frátalinni ákvörðun skattstjóra um beitingu 25% álags samkvæmt úrskurðinum 9. júní 2009 er því ekki unnt að líta svo á, við ákvörðun málskostnaðar, að uppi hafi verið vafaatriði í málinu eða atvik að öðru leyti þannig að réttlætanlegt sé að fella málskostnað að fullu niður, sbr. 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt þessu verða stefnendur dæmdir sameiginlega til að greiða stefnda stærstan hluta málskostnaðar hans sem þykir hæfilega ákveðinn 500.000 krónur að teknu tilliti til umfangs málsins. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.“

 

Í hlekk með frétt þessari er að finna dóm Landsréttar í heild sinni.