Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Greinargerð starfshóps um endurskoðun reglna um virðisaukaskatt og ferðaþjónustu

Greinargerðin fylgir hér, sjá hlekk með fréttinni.

 

 

Helstu niðurstöður starfshópsins eru eftirfarandi:

Bæta þarf orðunum „skipulagðrar ferðaþjónustu aldraðra“ inn í 2. málsl. c-liðar 1. gr. laga nr. 124/2014, er breytir 6. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt, til að að tryggja að slík þjónusta verði undanþegin virðisaukaskatti með sama hætti og ferðaþjónustu fatlaðra, skólaakstur og almenningssamgöngur.

 

Fella þarf orðin „og hópbifreiða“ brott úr 6. tölul. 3. mgr. 16. gr. laga um virðisaukaskatt til að tryggja rekstraraðilum slíkra bifreiða rétt til að færa innskatt á móti útskatti við uppgjör virðisaukaskatts.

 

Gera þarf breytingu á 6. mgr. 42. gr. laga um virðisaukaskatt og 1. gr. reglugerðar nr. 541/2001, um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna sölu hópferðabifreiða úr landi, til að tryggja að eigendur hópferðabifreiða njóti ekki endurgreiðslna umfram innskattsrétt við sölu slíkra bifreiða úr landi.

 

Til að tryggja þeim aðilum sem verða virðisaukaskattsskyldir 1. janúar 2016 fullnægjandi rétt til að draga innskatt frá útskatti við uppgjör á virðisaukaskatti þarf að gera umtalsverðar breytingar á reglugerð nr. 192/1993, um innskatt, m.a. hvað varðar innskattsleiðréttingu vegna eigna sem aflað er í starfsemi sem er ekki virðisaukaskattsskyld en verður það síðar. Starfshópurinn leggur til breytingar sem leiða til nákvæmari niðurstöðu við leiðréttingu innskatts og unnt er að hrinda í framkvæmd með skemmri fyrirvara en þegar hótel- og gistiþjónusta var felld undir skattskyldusvið virðisaukaskatts 1. janúar 1994.

 

Æskilegt er að skráningarskylda erlendra ferðaþjónustuaðila fari enn um sinn a.m.k. eftir reglum gildandi laga um virðisaukaskatt og reglugerðar um virðisaukaskatt af þjónustu fyrir erlenda aðila og af aðkeyptri þjónustu erlendis frá.

 

Ekki er talin þörf á laga- eða reglugerðarbreytingum til að efla eftirlit með virðisaukaskattsskilum erlendra ferðaþjónustuaðila á Íslandi. Efla þarf kynningu á innlendri virðisaukaskattsskyldu, þ.m.t. skráningarskyldu, til erlendra aðila og gera þeim fært að tilkynna sig til skattyfirvalda á einfaldan hátt. Starfshópurinn leggur til að ríkisskattstjóri, tollstjóri, samgöngustofa og Samtök ferðaþjónustunnar hafi með sér samstarf um eftirlit með erlendum ferðaþjónustuaðilum sem stunda fólksflutninga.

 

Ýmis rekstrar-, félags- og samkeppnisrök mæla með því að akstur leigubifreiða verði felldur undir skattskyldu virðisaukaskatts.

 

Samkeppnissjónarmið mæla með því að almenningssamgöngur verði felldar undir skattskyldu virðisaukaskatts. Eðli slíks rekstrar og úrlausnaratriði tengd opinberum styrkjum og skiptingu skatttekna milli ríkis og sveitarfélaga gera þó að verkum að það gæti reynst flókið.

 

Ýmis afþreyingarstarfsemi hefur verið talin undanþegin virðisaukaskatti á grundvelli ákvæðis 1. málsl. 4. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Mögulegt væri að þrengja undanþáguna á þann hátt að aðeins söfn í skilningi safnalaga og bókasöfn í skilningi laga um bókasöfn féllu þar undir.