Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Heimilisfesti - ótakmörkuð skattskylda

Úr héraðsdómi nr. E-2074/2016:

Í þeirri rannsókn skattrannsóknarstjóra sem stefndi byggði ákvörðun sína að verulegu leyti á og áður er gerð grein fyrir, kom fram að stefnandi hefði, þrátt fyrir tilkynningu um flutning lögheimilis, áfram átt íbúð og bifreiðir og dvalið hér á landi stóran hluta ársins. Þá lá fyrir að stefnandi hafði ekki keypt fasteign í Máritaníu eða stofnað fjölskyldu þar í landi eða þegið þar laun. Bentu þessi atriði til þess að stefnandi hefði í reynd takmörkuð tengsl við Máritaníu og helgaðist dvöl hans í landinu fyrst og fremst af störfum hans við fiskveiðar í lögsögu ríkisins. Eins og atvik málsins lágu fyrir samkvæmt þessu telur dómurinn að stefnanda hafi borið að sýna fram á það með tiltækum gögnum að hann hefði í reynd stofnað til nýs heimilis í Máritaníu og lagt niður fyrra heimili sitt hér á landi. Að mati dómsins verður ekki hjá því litið að rannsókn málsins ber með sér að stefnandi hefur átt í erfiðleikum með að tilgreina rétt heimilisfang sitt í Máritaníu. Þótt fyrir liggi tveir leigusamningar og kvittanir fyrir leigugreiðslum hafa engin önnur gögn verið lögð fram sem styðja að stefnandi eigi raunverulega búsetu í landinu í skilningi 1. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili. Telur dómurinn að stefnanda hefði, eftir áralanga ætlaða búsetu í landinu, átt að vera í lófa lagið að leggja fram gögn um þau margvíslegu tengsl sem stofnast við það land sem maður flytur heimili sitt til og býr í. Hvað sem líður afstöðu stefnda til staðfestinga máritanískra stjórnvalda sem lagðar hafa verið fram í málinu, verður því að fallast á þá meginniðurstöðu í umræddum úrskurði að ekki hafi verið lögð fram gögn sem sýni að stefnandi hafi stofnað til heimilis í Máritaníu og tekið þar upp eiginlega búsetu. Er niðurstaða stefnda um að stefndi teljist hafa verið heimilisfastur hér á landi, þrátt fyrir tilkynningu sína um flutning lögheimilis, þar af leiðandi í samræmi við 1. gr. laga nr. 90/2003, eins greinin verður skýrð til samræmis við 2. gr. laga nr. 21/1990. Verður því ekki fallist á að úrskurður stefnda sé ólögmætur að efni til. Þá eru þeir annmarkar á úrskurðinum, sem áður hefur verið vikið að, ekki þess eðlis að þeir hafi þýðingu um efnislega niðurstöðu þannig að leitt geti til ógildis. Samkvæmt framangreindu verður stefndi sýknaður af kröfu stefnanda.