Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Ívilnun í sköttum

Úr úrskurði yfirskattanefndar nr. 79/2017:

Kæruefnið í máli þessu er sú ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt kæruúrskurði, dags. 5. október 2016, að hafna beiðni kæranda um lækkun tekjuskattsstofns gjaldárið 2016 vegna eignatjóns, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Kemur fram í kæru kæranda til yfirskattanefndar að hann telji úrskurð ríkisskattstjóra rangan og niðurstöðu embættisins órökstudda. Lýtur krafa kæranda að því að honum verði ákvörðuð ívilnun gjaldárið 2016. Samkvæmt skattframtali kæranda árið 2016 nam tekjuskatts- og útsvarsstofn hans 930.711 kr. Tekjuskatts- og útsvarsstofn fyrrverandi eiginkonu kæranda nam 837.546 kr. Að teknu tilliti til persónuafsláttar, sbr. A-lið 67. gr. laga nr. 90/2003, kom hvorki til greiðslu tekjuskatts né útsvars hjá kæranda gjaldárið 2016. Óráðstafaður persónuafsláttur kæranda, sem féll niður, nam 262.926 kr. Ekki kom til neinnar skerðingar á barnabótum kæranda og eiginkonu hans þar sem tekjuskattsstofn til útreiknings barnabóta var undir því marki sem hefur áhrif á bætur þessar, sbr. 4. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003. Eins og fyrr greinir lýtur krafa kæranda að því að honum verði ákvörðuð ívilnun umrætt gjaldár, sbr. 65. gr. laga nr. 90/2003. Heimildir samkvæmt ákvæðum 65. gr. laga nr. 90/2003 lúta samkvæmt orðanna hljóðan að lækkun tekjuskattsstofns. Samkvæmt 3. mgr. 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, skal útsvarsstofn lækka um sömu fjárhæð og ríkisskattstjóri ákveður á grundvelli 65. gr. laga nr. 90/2003. Eins og fyrr greinir ber kærandi hvorki tekjuskatt né útsvar gjaldárið 2016. Lækkun tekjuskatts- og útsvarsstofns hefur því enga skattalega þýðingu fyrir kæranda, að því er séð verður, enda fellur óráðstafaður persónuafsláttur niður, sbr. niðurlagsákvæði 2. mgr. A-liðar 67. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt framansögðu er krafa kæranda í máli þessu tilefnislaus. Er henni vísað frá yfirskattanefnd af þeim sökum