Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Ívilnun í sköttum - kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu

Úr úrskurði yfirskattanefndar nr. 83/2017:

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar er fundið að því að ríkisskattstjóri hafi með hinum kærða úrskurði ekki tekið tillit til ferðakostnaðar kæranda erlendis, þ.e. kostnaðar vegna flug-, rútu- og lestarferða, leigu íbúðar erlendis og leigu á bifreið. Verður ekki annað séð en að hér sé vísað til þess kostnaðar að fjárhæð 190.246 kr. sem tilgreindur var í umsókn kæranda um ívilnun. Verður að skilja kæruna svo að ekki séu að öðru leyti gerðar athugasemdir vegna ákvörðunar ríkisskattstjóra. Taka má undir með kæranda að miðað við rökstuðning í hinum kærða úrskurði ríkisskattstjóra er nærtækast að draga þá ályktun að ekki hafi verið litið til þeirra útgjalda sem um ræðir við ákvörðun á fjárhæð ívilnunar, enda er ekkert að þeim vikið í úrskurðinum. Þá þykir umsögn ríkisskattstjóra í málinu, dags. 5. desember 2016, ekki taka af öll tvímæli í þessum efnum, en þar kemur fram að ríkisskattstjóri hafi „tekið til úrlausnar allar framlagðar skýringar og gögn um kostnað kæranda“ og lækkað tekjuskatts- og útsvarsstofn um alls 980.000 kr. Ekki kemur þó fram, frekar en í hinum kærða úrskurði, hvernig sú fjárhæð er fengin með tilliti til fyrirliggjandi upplýsinga um útgjöld kæranda á árinu 2015. Allt að einu er ljóst að ríkisskattstjóri hefur miðað við um það bil helming þeirra útgjalda sem um ræðir og af hálfu kæranda hafa út af fyrir sig ekki verið gerðar athugasemdir vegna þess viðmiðs. Eins og málið liggur fyrir yfirskattanefnd samkvæmt framansögðu þykir mega lækka tekjuskattsstofn kæranda gjaldárið 2016 um 100.000 kr. til viðbótar við þá lækkun sem ákveðin var í hinum kærða úrskurði ríkisskattstjóra. Er þá miðað við um helming þess kostnaðar sem um ræðir. Útsvarsstofn kæranda lækkar um sömu fjárhæð, sbr. 3. mgr. 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum.