Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Þjónustugjald - gjaldskrá ekki nægjanlega skýr

Mál nr. 6405/2011. Reifun er tekin af heimasíðu umboðsmanns:

 

"A hf. leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að skipa sérfræðinga til að hafa sértækt eftirlit með rekstri félagsins. Athugun umboðsmanns beindist að því hvort Fjármálaeftirlitið hefði lagt fullnægjandi grundvöll að gjaldtöku vegna skipunar sérfræðinganna.

 
Umboðsmaður tók fram að ákvæði 1. mgr. 7. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, fæli í sér heimild til töku þjónustugjalds. Væri innheimta gjaldsins bundin við að hún byggði á gjaldskrá sem sett væri á grundvelli 4. mgr. 7. gr. laganna. Af lögskýringargögnum að baki lögunum yrði dregin sú ályktun að reikningur sem eftirlitsskyldum aðila væri gert að greiða samkvæmt 1. mgr. 7. gr. þeirra yrði að byggjast á rökstuddum kostnaði vegna nauðsynlegs umframeftirlits og að forsendur fyrir slíkri gjaldtöku yrðu að koma fram í gjaldskrá sem stjórn Fjármálaeftirlitsins setti samkvæmt 4. mgr. 7. gr. laganna og birt væri í Stjórnartíðindum.

 
Umboðsmaður rakti ákvæði 4. gr. gjaldskrár nr. 135/2009. Taldi hann að ákvæðið bætti litlu sem engu við þá heimild sem fram kæmi í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 99/1999. Í gjaldskrárákvæðinu væri þannig ekki vikið að mögulegum kostnaðarliðum eða fjárhæðum þeirra vegna aðkeyptrar sérfræðiþjónustu. Afmörkun á fjárhæð kostnaðar sem felldur væri á eftirlitsskyldan aðila réðist því alfarið af reikningi skipaðs sérfræðings og mati Fjármálaeftirlitsins í samræmi við óbirtar verklagsreglur stofnunarinnar. Var það niðurstaða umboðsmanns að með 4. gr. gjaldskrárinnar hefði ekki verið lagður fullnægjandi grundvöllur að gjaldtöku vegna skipunar sérfræðinga í máli A hf. samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 99/1999, sbr. 4. mgr. sömu greinar, eins og skýra bæri umrædd lagaákvæði í ljósi grundvallarreglna íslensks réttar um töku þjónustugjalda.

 
Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til Fjármálaeftirlitsins að leitast yrði við að rétta hlut A hf., kæmi fram beiðni þess efnis frá félaginu. Þá beindi umboðsmaður þeim tilmælum til stofnunarinnar að gildandi gjaldskrá yrði tekin til endurskoðunar með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu."