Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Kaup á eigin bréfum - skattskyld gjöf

Úr héraðsdómi nr. E-1105/2017:

Við mat á því hvort framangreind viðskipti með hlutafjáreign foreldra stefnanda í Furu ehf. hafi falið í sér óvenjuleg skipti í skilningi 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003, skiptir máli hvort verðlagning hlutanna telst hafa verið óeðlileg. Stefnandi hafnar því að svo hafi verið og heldur því fram að rétt hafi verið að miða verðlagningu hlutanna við væntanlegt gengi þeirra á árunum 1993 til 1995, þegar samningar um kauprétt voru gerðir. Samningar Furu hf. og foreldra stefnanda frá 28. febrúar 1995 höfðu að geyma ákvæði um kauprétt félagsins á eftirstöðvum hlutafjár þeirra á fyrir fram ákveðnu, föstu verði, að teknu tilliti til breytinga á vísitölu. Engin skylda hvíldi á félaginu að nýta sér kaupréttinn samkvæmt samningunum. Kaupréttinum var hrundið í framkvæmd með kaupsamningum 29. desember 2010. Söluverð hlutanna var byggt á ákvæðum samninganna frá í febrúar 1995 og nam það 8.495.600 krónum. Fyrir liggur að hlutir í Furu ehf. voru ekki skráðir í kauphöll þegar viðskiptin áttu sér stað. Þegar svo háttar hefur verið við það miðað að byggja mat á gangverði hluta á bókfærðu verði eigin fjár viðkomandi félags samkvæmt síðasta endurskoðaða ársreikningi, sbr. t.d. lög nr. 3/2006, um ársreikninga, og lokaákvæði 9. gr. laga nr. 90/2003. Á því viðmiði er byggt í úrskurðum skattyfirvalda í máli stefnanda. Eins og rakið hefur verið nam tilgreint gangverð hlutafjárins, miðað við innra virði félagsins samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2009, 184.221.100 krónum á þeim tíma sem viðskiptin áttu sér stað. Er því ljóst að Fura ehf. keypti hlutafjáreign foreldra stefnanda á undirverði. Við kaupin eignaðist félagið eigin hluti sem námu 20% af heildarhlutafé, en helming þess bar félaginu að selja innan sex mánaða, sbr. ákvæði 1. mgr. 38. gr. laga nr. 138/1994. Af hálfu félagsins var brugðist við því með hlutafjárlækkun um það sem nam nafnvirði hlutafjáreignar foreldra stefnanda. Eftir þessar ráðstafanir var eignarhald og forræði félagsins alfarið á hendi stefnanda, án þess að hann hefði í raun innt nokkurt endurgjald af hendi. Að mati dómsins er augljóst að framangreind viðskipti voru verulega frábrugðin því sem almennt gerist, sem rakið verði til sifjaréttarlegra og fjárhagslegra tengsla þeirra sem að þeim komu. Þykir sýnt að þær ráðstafanir sem um ræðir falli undir ákvæði 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003. Verður því fallist á það með ríkisskattstjóra og yfirskattanefnd að virða beri mismun að fjárhæð 175.725.500 krónur á tilgreindu söluverði hlutafjárins samkvæmt kaupsamningum 29. desember 2010 og gangverði, miðað við innra virði félagsins, sem beina gjöf til stefnanda samkvæmt ákvæði 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003.