Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Kaupréttarsamningar - launatekjur

 

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms staðfesti Hæstiréttur hann, um annað en málskostnað. Í héraðsdómi nr. E-986/2015 kemur eftirfarandi fram: 

 

Þegar litið er til ofangreindra ákvæða samnings stefnanda við Baug Group hf. og BGE eignarhaldsfélag, svo og annarra ákvæða samningsins sem rakin eru í úrskurði yfirskattanefndar, verður ekki annað séð en að þar sé kveðið á um tiltekin fríðindi stefnanda í tengslum við hlutabréfaviðskipti sem eru í verulegum atriðum frábrugðin viðskiptum óskyldra aðila og töluvert umfram þau kjör sem almennt bjóðast í hlutabréfaviðskiptum á markaði. Þannig var stefnandi ekki aðeins tryggður fyrir því að tap hans af fjárfestingunni færi undir 90% af kaupverði hlutabréfanna og vaxtagreiðslum samkvæmt lánasamningi, heldur naut hann einnig ríflegrar lánafyrirgreiðslu af hálfu vinnuveitanda síns við gerð samninganna sem lýsir sér best í því að einungis var krafist 10% framlags af eigin fé hans sjálfs við gerð fyrsta samningsins en einskis við hina síðari tvo, eins og kveðið var á um í viðaukasamningi. Ekki verður heldur um það villst að þau viðskipti sem lýst er í samningi aðila frá 5. desember 2003 stóðu í nánum efnislegum tengslum við starf hans sem forstjóra hjá Baugi Group hf. Þannig er í grein 6.1 í samningnum kveðið sérstaklega á um brottfall þeirra hlunninda sem kveðið er á um í 3. til 5. gr. samningsins ef stefnandi hætti störfum hjá félaginu að eigin frumkvæði eða væri sagt upp störfum á grundvelli sakar. Þá var jafnframt mælt fyrir um það í grein 6.4 í samningnum að stefnanda væri skylt að selja Baugi Group hf. hluti sína við lok samningsins 30. september 2008 og samsvarandi kaupskyldu Baugs Group hf. af sama tilefni. Stefnandi gerði síðan annan samning við BGE Eignarhaldsfélag og Baug Group hf. 8. mars 2006. Með þeim samningi öðlaðist stefnandi heimild til að kaupa hlutabréf í Baugi Group hf. af BGE eignarhaldsfélagi ehf. fyrir 2.000.000 kr. að nafnverði hverju sinni dagana 18. mars 2006, 1. febrúar 2007 og 1. febrúar 2009. Af orðalagi ákvæða þessa síðari samnings um kaupskyldu viðsemjanda stefnanda, lágmarkskaupverð og lánakjör er ekki annað að sjá en að þau fríðindi og hlunnindi sem þar er kveðið á um stefnanda til handa að þessu leyti séu í öllum aðalatriðum þau sömu og í samningnum frá 5. desember 2003 eins og rakið er í úrskurði yfirskattanefndar frá 7. maí 2014. Með hliðsjón af því sem að framan er rakið og þeim sjónarmiðum sem koma fram í rökstuðningi úrskurðar yfirskattanefndar að öðru leyti verður að telja hafið yfir allan vafa að þau kjör sem stefnanda voru veitt með samningunum 5. desember 2003 og 8. mars 2006 hafi verið veitt í tengslum við starf hans hjá Baugi Group hf. og teljist því þar með starfstengd hlunnindi hans í skilningi 1. töluliðar A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003.