Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Krafa FME á fjármálastofnanir um greiðslu kostnaðar við athugun á lánasöfnum

Mál nr. 6639/2011. Reifunin er tekin af vef umboðsmanns:

 

"A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði meðal annars yfir ákvörðun stjórnar Fjármálaeftirlitsins um að krefja tiltekin fjármálafyrirtæki um greiðslu kostnaðar vegna athugana stofnunarinnar á lánasöfnum viðskiptabanka, sparisjóða og lánafyrirtækja í kjölfar dóma Hæstaréttar frá 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og nr. 153/2010. A taldi að honum hefði ekki verið skylt að greiða hlutfallslegan kostnað sem hlaust af umræddum athugunum og nam tiltekinni fjárhæð.

 

Settur umboðsmaður rakti grundvallarreglur íslensks réttar um tekjuöflun opinberra aðila og lög nr. 99/1999 um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, þar á meðal um almenn eftirlitsgjöld sem lögð væru á eftirlitsskylda aðila, varasjóð Fjármálaeftirlitsins og heimild 7. gr. laganna til töku þjónustugjalda fyrir umframeftirlit stofnunarinnar.

 

Í ljósi skýringa Fjármálaeftirlitsins og gagna málsins lagði settur umboðsmaður til grundvallar að umrædd úttekt hefði falið í sér undirbúningsaðgerðir til að Fjármálaeftirlitið gæti metið stöðu einstakra eftirlitsskyldra aðila sem hefðu átt hlut að máli. Þessar aðgerðir Fjármálaeftirlitsins hefðu því falið í sér almenna greiningarvinnu. Kostnaður sem til félli vegna slíkrar vinnu yrði ekki fjármagnaður með þjónustugjaldaheimild 7. gr. laga nr. 99/1999. Löggjafinn hefði gert ráð fyrir að hið almenna eftirlitsgjald og eftir atvikum varasjóður Fjármálaeftirlitsins, sem beinlínis væri hugsaður til að mæta óvæntum útgjöldum vegna ófyrirséðra atvika, stæðu undir slíkum kostnaði.

 

Það var því niðurstaða setts umboðsmanns Alþingis að ákvörðun stjórnar Fjármálaeftirlitsins um að krefja A um kostnaðinn hefði ekki átt sér stoð í lögum. Hann beindi þeim tilmælum til Fjármálaeftirlitsins að það leitaði leiða til að rétta hlut A, kæmi fram beiðni þess efnis frá félaginu, og þá í samræmi við ákvæði 1. og 2. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Þá mæltist settur umboðsmaður til þess að stofnunin hefði þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu framvegis í huga í störfum sínum."