Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Kvikmyndagerð - endurgreiðsla

Úr úrskurði yfirskattanefndar nr. 154/2017:

Samkvæmt þágildandi ákvæði c-liðar 1. mgr. 4. gr. laga nr. 43/1999 var eitt af skilyrðum endurgreiðslu á grundvelli laganna að stofna skyldi sérstakt félag um framleiðsluna á Íslandi, en íslenskt útibú eða umboðsskrifstofa félags sem skráð væri í aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið teldist sérstakt félag í þessum skilningi. Fyrir liggur að kærandi stofnaði félagið Y ehf. í þessum tilgangi, en samkvæmt gögnum frá fyrirtækjaskrá var Y ehf. stofnað með lágmarkshlutafé, þ.e. 500.000 kr. Sem fyrr segir var kærandi að fullu í eigu X ehf., en í kæru til yfirskattanefndar kemur fram að X ehf. hafi verið framleiðandi sjónvarpsþáttaraðarinnar. Fyrir liggur í málinu að ekki var gerður lánssamningur milli X ehf. og Y ehf. um lán milli félaganna. Þá var vaxtareikningur óhefðbundinn, þ.e. vextir voru reiknaðir og færðir í heilu lagi við lok verkefnisins. Þegar litið er til þeirra tengsla sem eru milli umræddra félaga og rakin eru hér að ofan, sem og tilgangs með stofnun Y ehf., er naumast hægt að líta öðruvísi á hið umdeilda lán X ehf. til Y ehf. en sem fjárframlag X ehf. til framleiðslunnar sem framleiðanda verkefnisins eða sem stofnfé til Y ehf. Í þessu sambandi skal tekið fram til hliðsjónar að samkvæmt 3. tölul. 50. gr. laga nr. 90/2003 telst ekki til rekstrarkostnaðar samkvæmt 31. gr. sömu laga arður eða vextir af framlögðu fé manns til atvinnurekstrar eða sjálfstæðrar starfsemi, hvort heldur reksturinn er á eigin ábyrgð eiganda eða með ótakmarkaðri ábyrgð í sameign með öðrum, sbr. og 2. mgr. 2. gr. laganna. Með hliðsjón af öllu framangreindu verður því að taka undir með endurgreiðslunefnd í því að gjaldfærður vaxtakostnaður að fjárhæð 10.623.441 kr. vegna tilfærðs láns X ehf. til Y ehf. myndi ekki stofn til endurgreiðslu á grundvelli laga nr. 43/1999, um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

 

Samkvæmt því sem fram er komið í málinu hafnaði nefnd um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar ennfremur að telja með í stofni til endurgreiðslu kostnað að fjárhæð 5.309.297 kr. með því að kostnaðurinn hefði fallið til utan Evrópska efnahagssvæðisins. Af hálfu kæranda er um þetta kæruatriði byggt á því að öll framleiðsla sjónvarpsþáttaraðarinnar hafi farið fram hér á landi og verði því að líta svo á að allur kostnaður við framleiðsluna hafi fallið til hér á landi í skilningi laga nr. 43/1999. Það að framleiðslukostnaður eigi uppruna sinn erlendis verði ekki túlkað þannig að hann falli til erlendis þegar framleiðslan sjálf fari að öllu leyti fram hér á landi. Svo sem rakið er hér að framan er kveðið á um það í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 43/1999, eins og ákvæðinu var breytt með 2. gr. laga nr. 177/2000, að falli meira en 80% af heildarframleiðslukostnaði kvikmyndar eða sjónvarpsefnis til á Íslandi skuli endurgreiðsla reiknast af þeim heildarframleiðslukostnaði sem falli til á Evrópska efnahagssvæðinu. Tekið skal fram að fyrir lagabreytingu þessa var eingöngu heimilt að endurgreiða hlutfall þess framleiðslukostnaðar sem féll til á Íslandi. Í athugasemdum við 2. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 177/2000 kom fram að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefði gert athugasemdir við þá framkvæmd að miða aðeins við framleiðslukostnað sem félli til á Íslandi og að með því væri brotið gegn ákvæðum EES-samningsins um þjónustufrelsi. Byggðist sú skoðun á fordæmum og viðmiðum sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefði sett fram í sambærilegum málum. Því væri lagt til að ákvæðinu yrði breytt til samræmis við þær tillögur og viðmið og ákvæðið gert sambærilegt því sem gerðist annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu. Voru því næst rakin nokkur skýringardæmi í athugasemdum við frumvarpið þar sem skýrt kemur fram að kostnaður sem fellur til í löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins er ekki í neinum tilvikum reiknaður inn í stofn til endurgreiðslu. Með hliðsjón af framangreindu standa engin rök til þess að fallast á málatilbúnað kæranda um að líta verði svo á að hinn umdeildi kostnaður hafi fallið til hér á landi í skilningi laga nr. 43/1999 og myndi þannig stofn til endurgreiðslu. Verður ákvörðun endurgreiðslunefndar því látin standa óhögguð um þetta kæruefni.