Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Lagastoð innheimtukostnaðar vegna lífeyrisiðgjalda

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir synjun Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda á kröfu hans um endurgreiðslu á hluta af innheimtukostnaði vegna vangreiddra iðgjalda. Var um að ræða iðgjöld sem beint er til söfnunarsjóðsins frá ríkisskattstjóra vegna þeirra aðila sem ekki hafa greitt iðgjöld í lífeyrissjóð samkvæmt skattframtali, sbr. 5. mgr. 6. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Taldi A lagastoð skorta fyrir því að krefja hann um kostnað vegna innheimtu sjóðsins umfram það sem mælt er fyrir um í 8. gr. laga nr. 155/1998, um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda. Samkvæmt því ákvæði er stjórn sjóðsins heimilt að innheimta þóknun, allt að 4% af iðgjaldi, vegna innheimtu sjóðsins á grundvelli 6. gr. laga nr. 129/1997. Krafa söfnunarsjóðsins á A var samtals að fjárhæð 190.250 kr., þar af var höfuðstóllinn 94.800 kr. og innheimtukostnaður 78.510 kr.

 

Umboðsmaður beindi sjónum sínum í upphafi að stöðu Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda að lögum í ljósi þeirra skýringa sjóðsins að hann teldist ekki stjórnvald. Með vísan til þeirra laga sem gilda um sjóðinn og innheimtu hans á umræddum lífeyrissjóðsiðgjöldum áréttaði hann fyrri niðurstöðu sína um að sjóðurinn teldist hluti af þeirri stjórnsýslu sem löggjafinn hefði stofnað til með lögum sem hluta af framkvæmdarvaldinu.

 

Athugun umboðsmanns beindist einkum að því hvort Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda hafi verið heimilt að krefja A um innheimtukostnað, sem féll til áður en kom til þess að réttarfarsúrræðum væri beitt við innheimtuna, umfram þá þóknun sem mælt er fyrir um í 8. gr. laga nr. 155/1998. Taldi umboðsmaður ljóst að af 5. mgr. 6. gr. laga nr. 129/1997 og 8. gr. laga nr. 155/1998 hefði verið lögð sú verkskylda á Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda að annast umrædda innheimtu. Löggjafinn hefði jafnframt tekið afstöðu til þess að hvaða marki væri heimilt að fella kostnað sjóðsins af þessari lögbundnu innheimtu á greiðendur iðgjaldanna. Það eitt að að sjóðurinn hefði valið þá leið að kaupa að hluta þjónustu við þessa innheimtu breytti engu um að löggjafinn hefði ákveðið það hámark innheimtukostnaðar sem sjóðurinn gæti krafið greiðanda iðgjaldsins um vegna þeirrar vinnu. Það var því niðurstaða hans að ekki væri heimilt að fella kostnað af almennum innheimtuaðgerðum sjóðsins, þ.m.t. vegna aðkeyptrar þjónustu, á greiðendur umræddra iðgjalda umfram þá hámarksþóknun sem kveðið er á um í 8. gr. laga nr. 155/1998. Umboðsmaður taldi sig þó ekki geta fullyrt að söfnunarsjóðnum hefði verið óheimilt að krefja A um það aðfarargjald sem sjóðurinn hafði greitt í ríkissjóð vegna innheimtu á kröfunni, sbr. 4. gr. laga nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs. Að öðru leyti var ekki tekin afstaða til kostnaðar sem gæti fallið til við beitingu réttarfarsúrræða af hálfu söfnunarsjóðsins.