Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Álagning stöðubrotsgjalds - málsmeðferð

Mál nr. 7322/2012. Málið er reifað með svofelldum hætti á heimasíðu umboðsmanns:

 

"A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur um álagningu stöðubrotsgjalds vegna bifreiðar hans og málsmeðferð sjóðsins í því máli.

 
Settur umboðsmaður taldi að útskýringar A í málinu, ef sannar reyndust, hefðu verið til þess fallnar að lögum að hafa verulega þýðingu fyrir það hvort honum hefði með réttu verið gert að greiða umrætt gjald á grundvelli 108. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Bílastæðasjóði hefði því borið samkvæmt ákvæðum 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að leiðbeina honum um að leggja fram gögn sem hefðu verið til þess fallin að renna stoðum undir staðhæfingar hans. Þar sem á það hefði skort var það niðurstaða setts umboðsmanns að málsmeðferð bílastæðasjóðs hefði ekki verið í samræmi við þessi ákvæði stjórnsýslulaga. Ákvörðun sjóðsins um synjun á beiðni A um endurskoðun ákvörðunar um álagningu gjaldsins hefði því verið ólögmæt.

 
Þá taldi settur umboðsmaður að upplýsingar á álagningarseðli bílastæðasjóðs hefðu ekki fullnægt kröfum 22. gr. stjórnsýslulaga um efni rökstuðnings. Hefði sjóðnum borið samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. 20. gr. sömu laga að veita A leiðbeiningar um heimild hans til að fá ákvörðun um álagningu stöðubrotsgjaldsins rökstudda.

 
Settur umboðsmaður beindi þeim tilmælum til bílastæðasjóðs að hann tæki mál A til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni um það frá honum, og hagaði meðferð þess í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu. Þá beindi hann þeim tilmælum til sjóðsins að hann hefði þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu framvegis í huga í störfum sínum."