Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Mannréttindadómstóll Evrópu - ne bis in idem

Mál þetta á rætur sínar að rekja til dóms Hæstaréttar nr. 323/2003 þar sem kærandi (ákærða) var sakfelld fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum með því að hafa í fjögur ár staðið skil á efnislega röngum skattframtölum, með þeirri háttsemi að telja ekki fram arðgreiðslur frá erlendu félagi hennar, skráð á Bahamaeyjum, sem og erlendar vaxtatekjur. Gerðist hún þar með brotleg við 1. mgr. sbr. 3. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Dómi Hæstaréttar skaut kærandi til Mannréttindadómstóls Evrópu á þeim grundvelli að henni hafi í raun verið refsað tvisvar fyrir sama brotið. Hélt kærandi því fram fyrir Mannréttindadómstól Evrópu að íslensk skattyfirvöld hafi rannsakað mál hennar frá maí 2008 þangað til í október 2012, þegar yfirskattanefnd kvað upp úrskurð sinn. Þá hafi lögregluyfirvöld rannsakað mál kæranda frá því í nóvember 2011 sem hafi lokið með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar í janúar 2014. Hélt kærandi því fram að umræddar rannsóknir hafi einungis skarast í ellefu mánuði. Þá hafi þær verið ítarlegri en efni málsins gaf tilefni til, hafi falið í sér endurtekningar og verið ófyrirsjáanlegar.

 

Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu að krafa kæranda í málinu væri ótæk. Dómstóllinn vísaði m.a. til þess að kærandi hafi sjálf borið ábyrgð á hluta tafarinnar á vinnslu málsins með því að vera ekki samvinnuþýðari við rannsókn þess. Einnig, að teknu tilliti til kringumstæðna málsins, þá sérstaklega hvað varðar skörun í tíma og samstarfið á milli skattyfirvalda, lögreglu og ákæruyfirvalda við öflun og mats sönnunargagna í málinu, hafi verið nægjanleg samþætting, bæði í efni og tíma, við meðferð málsins.

 

Ennfremur vísaði dómstólinn til þess að rannsókn á máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar hafi tekið talsvert lengri tíma en mál kæranda og lögreglurannsókn þess staðið yfir árum saman eftir að skattyfirvöld luku máli hans af sinni hálfu, sem og skort hafi á samráð stofnana við rannsókn þess máls. 

 

Í hlekk að ofan með fréttinni er að finna umræddan dóm Mannréttindadómstólsins í heild sinni.