Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Ný lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

1. Nýir tilkynningarskyldir aðilar

Lagt er til að nýir aðilar verði felldir undir gildissvið laganna sem tilkynningarskyldir aðilar. Hér er um að ræða m.a. endurskoðunarfyrirtæki og aðila sem færa bókhald eða sinna bókhaldsþjónustu fyrir þriðja aðila gegn endurgjaldi, lögmannsstofur og leigumiðlara.

 

2. Áhættumat og áreiðanleikakönnun

Verði frumvarpið að lögum verður öllum tilkynningarskyldum aðilum skylt að framkvæma áhættumat á starfsemi sinni og hafa áhættumiðað eftirlit með samningssamböndum sínum og viðskiptum. Áhættumati er ætlað greina þær aðstæður þar sem annars vegar er meiri hætta á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og hins vegar þær aðstæður þar sem er lægri hætta. Niðurstöður áhættumats skal nota til að leggja mat á hversu ítarlega áreiðanleikakönnun skuli framkvæma, að teknu tilliti til ófrávíkjanlegra ákvæða, og fyrirkomulag reglubundins eftirlits með samningssamböndum. Eingöngu verður heimilt að framkvæma einfaldaða áreiðanleikakönnun í þeim tilvikum sem áhættumat sýnir fram á lægri áhættu. Þetta er grundvallarbreyting frá gildandi lögum þar sem heimilt er að framkvæma einfaldaða áreiðanleikakönnun þegar um er að ræða tiltekna aðila og tiltekin viðskipti.

 

3. Einstaklingar í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla

Ákvæði um einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla eru ítarlegri en í gildandi lögum og munu taka jafnt til innlendra sem erlendra aðila. Tilkynningarskyldum aðilum er gert skylt að hafa til staðar aðferðir eða kerfi til að greina viðskiptamenn sína í þessu tilliti.

 

4. Raunverulegur eigandi

Lagt er til að ákvæði um raunverulega eigendur verði gert ítarlegra og fjallað verði um hver telst vera raunverulegur eigandi fjárvörslusjóða og sambærilegra ráðstafana svo og sjálfseignarstofnana. Gera skal greinarmun á lagalegum eigendum og raunverulegum eigendum.

 

5. Viðurlög

Verulegar breytingar eru lagðar til á viðurlagakafla laganna. Lagt er til að viðurlagaúrræði verði í auknum mæli í höndum eftirlitsaðila með beitingu dagsekta, stjórnvaldssekta, birtingu viðurlaga og í alvarlegri tilvikum brottvikningu æðstu stjórnenda eða eftir atvikum afturköllun starfsleyfa. Telji tilkynningarskyldur aðili að hann hafi að ósekju verið beittur stjórnsýsluviðurlögum getur hann leitað eftir ógildingu á þeirri ákvörðun hjá dómstólum.

 

Í hlekk að ofanverðu með fréttinni má nálgast drög að frumvarpi til nýrra heildarlaga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.