Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Óheimil lánveiting - skattskyld gjöf

Úr héraðsdómi nr. E-3623/2015:

Óumdeilt er í málinu að Velsæld ehf. tók umrætt lán hjá Glitni banka hf., m.a. með sjálfskuldarábyrgð stefnanda, og endurlánaði stefnanda sem síðan endurgreiddi það lánveitanda, Glitni banka hf., beint. Lánveitingin til stefnanda með þessum hætti er í andstöðu við ákvæði 79. gr. laga nr. 138/1994 og því felur hún í sér skattskylda gjöf, sbr. 2. mgr. 4. tölul. 7. gr. laga nr. 90/2003. Með hliðsjón af þessu verður ekki heldur talið að ríkisskattstjóra hafi borið að leggja sérstakt mat á raunverulegt verðmæti hinnar skattskyldu gjafar sem fólst í hinu ólögmæta láni, með hliðsjón af veitingu veðréttar eða hinnar persónulegu ábyrgðar hans.

 

Kemur þá til skoðunar hvort sú ákvörðun ríkisskattstjóra, sem staðfest var með úrskurði yfirskattanefndar, að færa stefnanda til tekna í skattframtali 2008, 40.938.331 krónu að viðbættu 25% álagi hafi verið heimil. Óumdeilt er að stefnandi var einn af þremur hluthöfum í Velsæld ehf. og eigandi að þriðjungi hlutafjár í því félagi. Á árinu keypti stefnandi ásamt öðrum hluthöfum hlut í félaginu Virðingu ehf. og var stefnandi skráður persónulega fyrir hlutafjáreign sinni. Voru kaupin fjármögnuð með láni sem Glitnir banki hf. veitti Velsæld ehf. Í ársreikningi Velsældar ehf. árið 2007 eru tilgreindar Kröfur á tengda aðila að fjárhæð 172.134.606 krónur. Í skattframtali stefnanda 2008 er tilgreind hlutafjáreign í Velsæld ehf. að nafnverði 333.333 krónur. Þá er þar einnig talin fram skuld stefnanda við Velsæld ehf. að fjárhæð 46.000.000 króna. Ekki var gerður skriflegur lánssamningur á milli Velsældar ehf. og stefnanda, en stefnandi hefur m.a. borið því við að hann hafi verið raunverulegur lántaki lánsins, en ekki Velsæld ehf. Því til stuðnings bendir stefnandi á að hann hafi gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir láninu gagnvart bankanum, bankinn hafi fengið veð í bréfunum og að hann hafi persónulega endurgreitt lánið til bankans ásamt vöxtum á árinu 2011. Telur stefnandi að Velsæld ehf. hafi verið hinn formlegi lántaki, en stefnandi hinn raunverulegi lántaki. Dómurinn telur að virtum gögnum málsins, að Velsæld ehf. hafi fjármagnað kaup stefnanda á 12% hluta í Virðingu ehf. á árinu 2007. Telur dómurinn því, eins og fyrr segir, að um hafi verið að ræða lánveitingu til hluthafa er sé andstæð 79. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Af því leiðir að skýringar stefnanda, þess efnis að hann hafi verið hinn raunverulegi lántak, en Velsæld ehf. hinn formlegi lántaki, eiga ekki við rök að styðjast og eru auk þess í beinni andstöðu við skattskil stefnanda og Velsældar ehf.